Færsluflokkur: Tónlist

Lambnrúturinn sem söng í Ríkisútvarpið

Hljóðmyndin sem hér er birt nýtur sín best í góðum heyrnartólum. Hún er í 128 bita upplausn. Panta má hljóðrit í betri gæðum hjá framleiðanda.

Þegar við hjónin litum við að Hala í Suðursveit í sumar að skoða Þórbergssetrið bar fyrir augu ungan dreng með hund og voru þeir félagar eitthvað að sýsla við lambhrút sem var í stekk ásamt gamalá nokkurri. Mig langaði að vita deili á þessum hópi og fékk eftirfarandi svar frá Þorbjörgu á Hala:

“Þetta er hann Þorkell, hann er heimagangur á Hala, fæddist í þennan heim síðastliðið vor og móðir hans dó skömmu síðar, ekki tókst að finna handa honum fósturmóður svo að hann var settur í þennan heimasmíðaða stekk ásamt geldri gamalá sem bar ekki til hans neinar móðurtilfinningar. Þar var honum gefin mjólk á pela fram eftir sumri og gerðist hann mannelskur mjög og jarmaði gjarnan til að fá athygli fólks og kalla eftir mjólk í maga.

Rokkó, hundurinn á Hala og hann voru bestu vinir og Kristinn eigandi Rokkós fór daglega á skemmtigöngu með þá félaga, maður sá gjarnan til þeirra á gangi í halarófu hér um túnin, fremstur Kristinn, síðan Rokkó og Þorkell rak lestina. Þorkeli var síðan sleppt í hagann ásamt geldu fósturmömmunni í byrjun ágúst. Þá var hann orðinn svo ágengur að hann festi sig alltaf í rimlunum á grindunum og til að bjarga sálarheill hans var ákveðið að gefa þeim frelsi en koma þeim frá mannabyggð til að hann héldi ekki uppteknum hætti að halda að hann væri mannabarn eða við mannfólkið sauðkindur með móðurhjarta líkt og lambær í haga. Farið var með hann til fjalla og fylgdust þau áfram að geldærin og Þorkell og ekki annað að sjá en þau væru frelsiun fegin svo og því að eiga þess nú kost að njóta fjölbreyttara fæðuúrvals að eigin vali. En alltaf þegar Fjölnir bóndi á Hala fer um haga þar sem Þorkell heldur sig lítur hann upp og jarmar eða kemur til hans, en lætur sér svo lynda að vera orðinn frjáls og sjálfstæður eftir skamma stund og heldur áfram að bíta. Þorkell fer ekki í sláturhúsið, hann er nú komin í hús á Hala, ekki líklegur kynbótagripur og mátti því ekki lengur vera frjáls innan um allar sætu gimbrarnar sem bitu í kringum hann á túninu á Hala. Úr því hefðu getað orðið of alvarleg ástarævintýri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ævisaga hans verður því ekki öll skráð að þessu sinni, en hver veit nema síðar meir komist hann betur á spjöld sögunnar.”

Svona er nú mannfólkið afskiptasamt. Vonandi er útvarpstæki í fjárhúsinu hjá Þorkatli, lambhrút svo að hann geti hlustað á sjálfan sig jarma og fara með þjóðlagið um gimbilinn sem grét við stekkinn.

Njótið vel.

Hljóðmyndin sem hér er birt nýtur sín best í góðum heyrnartólum. Hún er í 128 bita upplausn. Panta má hljóðrit í betri gæðum hjá framleiðanda.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lambhrútur syngur í Ríkisútvarpið

Hljóðmynd fimmtudagsins 12 nóvember, sem útvarpað verður í þættinum Vítt og breitt á Rás eitt um kl. 07:15, fjallar um lambhrútinn Þorkel á Hala í Suðursveit. Þar læt ég lambið flytja þjóðlagið "Gimbillinn mælti og grét við stekkinn".

Hlustendum er bent á þennan menningarviðburð. Ég hygg að þetta verði í fyrsta sinn sem íslensk sauðkind flytur tónlist í ríkisútvarpinu.


Hljóðmynd um Karítas Jónsdóttur

Í morgun útvarpaði ég hljóðmyndinni "Síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur".

Öldugjálfrið var hljóðritað vestur í Skálavík 2. júlí 2009. Notaður var Nagra Ares BB+ stafrænn hljóðriti og tveir Sennheiser ME62 hljóðnemar sem eru mjög víðir. Þeir vísuðu í u.þ.b. 100 gráður og um 1,3 m voru á milli þeirra.

Hljóðmyndin sjálf var unnin í Soundforge 9 og Goldwave 5,54. Það kostaði talsvert föndur að hægja á hljóðinu. Æskilegt væri að hljóðritunarforritum fylgdi eins konar hjól sem hægt væri að nota til að renna hljóðinu hreinlega niður þar til þögnin tekur við.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur

Við hjónin lásum bækur Kristínar Maríu Baldursdóttur, Karítas án titils og Óreiða á striga. Þótt Karítas Jónsdóttir sé skáldsagnapersóna varð hún svo ljóslifandi í hugskoti mínu að ég saknaði hennar þegar hún hvarf í fjörunni vestur í Skálavík.

Næsta hljóðmynd sem ég útvarpa í þættinum Vítt og breitt um kl. 07:15 á fimmtudagsmorgun verður hugleiðing um síðustu augnablik Karítasar. Reynt er að líkja eftir síðustu skynjun hennar á þessari jörð þar til vitundin hvarf og þögnin umlukti hana.

Þeim sem hyggjast hlusta er eindregið ráðlagt að setja upp heyrnartól og njóta þannig hljóðverksins.


Hinn sérstaki hljómur

Nú er leikin lúðrasveitahljómlist í Ríkisútvarpinu í tilefni sautjándans. Ég á eina skemmtilega minningu um íslenska lúðrasveit á erlendri grundu.

Árið 1974 kom ég því til leiðar að Blindrafélaginu var boðið að senda fulltrúa til vikudvalar í þorpinu Boltenhagen við Eystrasalt, en þar áttu austurþýsku blindrasamtökin skemmtilegt sumarsetur. Var þar iðulega efnt til samstarfsfunda Norðurlanda og Austur-Þýskalands, en Dr. Dr. Helmut Pilasch, formaður þeirra, var mikill áhugamaður um slíka samvinnu og eins framsýnn og nokkur kommúnisti undir járnhæl Sovétríkjanna gat leyft sér að vera.

Ég fór tvisvar á fund í Boltenhagen. Árið 1985 var ég þar með móður minni. Sunnudagsmorgun nokkurn, í 2. viku júlímánaðar vorum við á baðströndinni og í fjarska var einhver með lítið útvarpstæki. Var verið að útvarpa hátíðartónleikum á Eystrasaltsvikunni í Rostock. Allt í einu heyrði ég einhvern mars sem ég kannaðist við. En ég kannaðist við fleira og sagði við móður mína að nú mætti hundur í hausin á mér heita ef þetta væri ekki Hornaflokkur Kópavogs.

Tveimur dögum síðar fórum við með lest til Kaupmannahafnar og á Kastrup-flugvelli hittum við félaga úr Hornaflokki Kópavogs. Kom þá í ljós að þeir höfðu verið í beinni útsendingu um kl. 10:30 tveimur dögum fyrr.

Björn Guðjónsson, hinn mæti stjórnandi hornaflokksins, vildi að ég gæfi sér skýringu á því hvernig stæði á því að ég hefði þekkt hljóminn í hornaflokknum. Ég gat enga skýringu gefið aðra en þá að hann hefði sinn sérstaka hljóm.

Annars á ég ýmsar minningar um sautjándann. Eftirminnilegasta atriðið er Suðurlandsskjálftinn árið 2000. Ekki get ég sagt að það hafi beinlínis verið vel heppnað atriði hjá skaparanum. En þegar verið er að móta jafnstórt fyrirbæri og heilt land hlýtur eitthvað undan að láta.


Steindór Andersen og Sigurrós til Óslóar!

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir og félagar voru svo sannarlega vel að öðru sæti komin í Moskvu í kvöld. Flutningur þeirra var áberandi langbestur og lagið hans Óskars Páls Sveinssonar prýðilegt. Það var hins vegar gaman að heyra norska lagið með Harðangursfiðluleik og þjóðlegu ívafi.

Hvernig væri að einhver tæki sig nú til og semdi dægurstemmu sem send yrði til Noregs á næsta ári og verði Steindór Andersen fenginn til að kveða hana við undirleik hljómsveitarinnar Sigurrósar? Þá verði auðvitað kveðið á íslensku.

Ekki ætla ég að leggja dóm á önnur lög en það norska og íslenska. En kynningar Rússanna voru hreint afleitar, yfirdrifnar og leiðinlegar. Rússar hafa oft átt í vandræðum að tjá sig á alþjóðavettvangi og það virðist lítið hafa lagast.


mbl.is Langt fram úr mínum vonum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjötíu og fimm ára gamall einsöngvari vekur lukku

Í kvöld fórum við hjónin á tónleika hjá Valskórnum sem Bára Grímsdóttir stjórnar. Undirleikari var Jónas Þórir og einsöngvari í nokkrum lögum Ragnar Bjarnason.

Ég hafði gaman af að hlusta á útsetningu báru á laginu Fréttaauka sem Ási í Bæ samdi ljóðið við árið 1967. Ég hef reyndar heyrt þessa útsetningu einu sinni áður úti í Vestmannaeyjum.

Mesta lukku vakti Ragnar Bjarnason og verður að segja sem er að einstakt verður að telja að 75 ára gamall söngvari skuli halda áheyrendum jafnföngnum og honum tókst.

Tónleikarnir voru haldnir í Háteigskirkju. Þótt hún sé að mörgu leyti gott tónleikahús hentar hún illa fyrir kór eins og Valskórinn. Hljómminni salur hefði sennilega verið betri eins og t.d. Salurinn í Kópavogi. Ef til vill er hann of dýr.

Aðsókn að tónleikunum var góð og kór, stjórnanda og einsöngvara vel fagnað.


Eitt kg af kínverskri tónlist og fleira

Vinkona mín frá Hong Kong, Florence Ho Hauching, dvelur nú hjá okkur hjónum um stundarsakir. Við kynntumst í torquay í Bretlandi haustið 1978 og höfum verið vinir síðan. Lagið Vinátta, sem er í tónlistarspilaranum, er tileinkað henni. Þar er vitnað í lagið Austrið er rautt bæði í undirleik og laglínu og sagði hún að ég væri "too communistic" þegar hún heyrði það fyrst.

Florence fyllti húsið af gjöfum og færði mér m.a. eitt kíló af kínverskri tónlist, m.a. sinfónískar útsetningar af aríum úr kínverskum byltingaróperum, hinar mestu gersemar.

Í gær hlýddum við messu í Hallgrímskirkju, fórum í gönguferð og þágum matarboð hjá Sigtryggi og Dóru. Í dag skoðuðum við Kjarvalsstaði, Listasafn Reykjavíkur, Grasgarðinn í Gaugadal og Reykjavík 871 +-2, þá merku fornleifasýningu. Þar fá menní hendurnar prýðilega leiðsögn á litlum tónhlöðum. Er það til mikilla bóta. Eini gallinn er sá að menn geta ekki farið fram og aftur um sýningarskrána. Sjálfsagt verður bætt úr því sem öðru.

Florence hefur ekki komið hingað í 22 ár. Það er gaman að hitta gamla vini og finna óslitinn vináttuþráð millum hennar og okkar hjónanna.


Draumvísur - váboðar Örlygsstaðabardaga

Í morgun þegar ég vaknaði færði Elín mér geislaplötu voces Thules með óskum um gleðilegt afmæli. Í sannleika sagt hafði ég gersamlega steingleymt því að svo væri ástatt fyrir mér.

Ég hef heyrt nokkur tóndæmi af geisladiskinum og ætlaði að kaupa hann við fyrstu hentugleika. Ég setti hann því í geislaspilarann og nutum við þessa merka flutnings.

Tónlistin er valin af einstakri fágun, listfengi og kunnáttu. Flutningur og hljóðritun er með allrabesta móti. Vafalítið telst þessi útgáfa með helstu kennileitum í útgáfu íslenskrar tónlistar fyrr og síðar og eru flytjendum færðar alúðar hamingjuóskir.

Að sögn útgefenda var platan gefin út í 1238 eintökum enda var Örlygsstaðabardagi háður árið 1238. Eintakið mitt er númer 496 og eru því enn 742 eintök eftir.

Hönnun bókarinnar sem fylgir með er jafnvel af höndum leyst og hönnun bókarinnar sem fylgdi Silfurplötum Iðunnar, enda Brynja Baldursdóttir þar á ferð. Letrið er hins vegar ekki læsilegt öllum vegna litasamsetningar - appelsínugulir stafir á svörtum grunni. Gulur litur á svörtum grunni hefur að vísu þótt henta vel ýmsum sem eru sjónskertir. Ef til vill hefur útlitið átt að minna á það hyldýpishatur, græðgi og valdaþorsta sem kynti undir hatursbálinu sem varð undirrót Örlygsstaðabardaga. Skýringarnar eru vel fram settar og hljóta að vekja athygli og áhuga þeirra sem vilja kynna sér efni Sturlungu og það sem ritað hefur verið um íslenska tónlist fyrri tíma.

Það er í raun tímanna tákn að þessi geislaplata skuli koma út á þeim tímum sem mótast af afleiðingum græðgi og valdafíknar. Brátt kunna að verða þeir atburðir að skipti sköpum vegna framtíðar íslenskrar þjóðar. Skyldi þá verða háð önnur Örlygsstaðaorrusta?


Lag allra laga, gleðigjafinn mikli - Austrið er rautt

Fyrir nokkru rakst ég á upplýsingarum breskt tónskáld, Cornilíus Cardew að nafni (1936-1981). Hann var einn af fyrirmyndarnemendum Karlheinz Stockhausens og þótti skara svo fram úr að hann var beðinn að taka þátt í alls konar rannsóknum sem Stockhausen stundaði og jafnvel var hann fenginn til að leggja lokahönd á tónverk hans.

Cardew aðhylltist ýmsa strauma og stefnur í nútímatónlist á 7. áratugnum en snerist síðan öndverður gegn Stockhausen og tilraunum hans og nefndi þær tónlistarheimsvaldastefnu. Þannig varð Stockhausen tónlistarheimsvaldasinni.

Cornilíus Cardew aðhylltist kenningar Maos formanns og samdi jafnvel verkið "Lengi lifi Mao formaður". Hann útsetti einnig nokkra lofsöngva um formanninn.

Þessum pistli fylgir hljóðrit af píanóútsetningu Cardews á gömlum, kínverskum ástarsöng, Austrið er rautt, sem varð síðar lofsöngur um Mao formann og ígildi þjóðsöngs um tíma. Bið ég hlustendur að njóta þessarar útsetningar, orkunnar og gleðinnar sem henni fylgir ekki síst í ljósi þess að sólin kemur nú upp fyrir kl. 8 á morgnana og sest rétt fyrir kl. hálf átta á kvöldin.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband