Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Á meðan ég notaði Outlook 2003 varð ég var við að nokkrir einstaklingar fengu ekki póst frá mér. Hann virtist annaðhvort lenda í póstsíu eða hreinlega ekki skila sér. Ekki bar á þessu þegar ég notaði Outlook Express.
Nú virðist sama sagan endurtaka sig. Póstur, sem skrifaður er í Outlook 2007 skilar sér ekki til allra. Þannig lenti ég í talsverðum vandræðum vegna samskipta minna við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og þau leystust ekki fyrr en ég fór að nota Outlook Express. Leikur mér jafnvel grunur á að starfsumsókn, sem ég sendi í tölvupósti, hafi ekki komið fram.
Mér hefur verið bent á thunderbird frá Mosilla sem örugga leið til póstsamskipta. Það póstforrit hefur ekki verið aðgengilegt til þessa en sennilega hefur nú verið ráðin bót á.
Ókosturinn við Outlook Express er sá að það fer yfirleitt fram á að þjappa póstinum saman og tefur þannig fyrir manni. Hins vegar eru allar leitaraðgerðir og sitthvað annað mun einfaldara þar en í Microsoft Outlook.
Tölvur og tækni | 11.5.2010 | 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í gær fjallaði hún m.a. um íslensku talgervlana, Sturlu, Snorra og Röggu. Hvorki verður hér lagður dómur á umsögn hennar né viðmælanda. Hljóðritun talgervlanna var svo slæm að hún hlýtur að hafa fælt fólk frá að kynnast þeim nánar. Hið sama var um viðtölin. Þau voru óvenju illa hljóðrituð og sætir furðu að ekki séu gerðar meiri kröfur til dagskrárgerðarmanna Ríkisútvarpsins, einkum þegar um byrjendur er að ræða.
Eitthvað virðist skorta að ungu fólki sé leibeint.
Tölvur og tækni | 18.4.2010 | 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Drög að sögu talgervils á Íslandi
Árið 1984 barst hingað til lands hljóðrit þar sem sænskur talgervill var látinn lesa kvæðið "Fyrr var oft í koti kátt". Framburðurinn var allskýr þótt vitanlega læsi hann með sænskum hreim.
Um svipað leyti var farið að nota tölvutækni við framleiðslu blindraleturs á vegum Blindrabókasafns Íslands og skrifuðum við Hilmar Skarphéðinsson fyrirtækinu Infovox til þess að forvitnast um hvort unnt væri að þýða talgervilinn á íslensku. Var erindi okkar tekið allvel.
Skömmu síðar kom til mín ungur nemandi í tölvunarfræði, Kjartan Guðmundsson að nafni, en hann vann þá að smíði talgervils. Ætlaði hann röddina fyrst og fremst til símanota. Ég sannfærði hann um að kanna málið nánar og voru þá hafnar tilraunir á vegum Reiknistofnunar Háskólans. Þá kom í ljós að sá hugbúnaður, sem til var, réð ekki við íslensk hljóð eins og ó og varð því tilraunum sjálfhætt.
Ýmsir veittu þessu tilraunastarfi brautargengi. Vorið eða sumarið 1986 boðaði Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, til fundar þar sem m.a. var rætt um nýjar hugmyndir í atvinnumálum fatlaðra. Minntist ég þá á tilraunir með þróun íslensks talgervils og orðaði það einhvern veginn svo að með því að veita málinu stuðning væri fjármunum vel varið. Nokkru síðar barst mér umslag frá skrifstofu borgarstjóra. Í því var ávísun að upphæð 50.000 kr og fylgdi sú skýring með að upphæðinni skyldi varið til þróunar talgervils.
Við bræður fórum á tæknisýningu sem haldin var í Þórshöfn í Færeyjum haustið 1986 og tókum með okkur VersaBraille blindraleturstölvur, en það voru bandarísk tæki sem byggðu á PCM-stýrikerfinu. Svíar, sem einnig stóðu að sýningunni, lánuðu okkur Infovox 230 talgervil sem við tengdum VersaBraille-tækinu og umrituðum við bæði sænska og færeyska texta svo að þeir urðu skiljanlegir. Vakti þetta gríðarlega athygli, reyndar svo mikla að talgervillinn var látinn lesa færeyskan texta í útvarp Færeyja.
Málið lá síðan í nokkrum dvala eða til ársins 1988 að við Páll Jensson, prófessor, tókum okkur til og sóttum um styrk til Norrænu nefndarinnar um málefni fatlaðra til þess að þróa talgervil. Var þetta samstarfsverkefni milli Íslendinga og Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi. Björn Önundarson, tryggingayfirlæknir, var sá íslenskur embættismaður sem veitti málinu brautargengi á norrænum vettvangi.
Háskóli Íslands varð samstarfsaðili hér á landi og gegndu þeir Eiríkur Rögnvaldsson og Höskuldur Þráinsson þar lykilhlutverki auk Páls Jenssonar. Ungur fræðimaður, Pétur Helgason, var fenginn til að þýða talgervilinn og vann hann þetta verk ásamt sænska verkfræðingnum Björn Granström.
Árið 1990 var talgervillinn prófaður mjög ítarlega og síðan sleppt lausum í framleiðsluferlið. Þar urðu þau mistök hjá Infovox að eitthvað af frönskum hljóðreglum lenti saman við þær íslensku og segir talgervillinn því du í stað de. Einnig laumuðu háskólamenn inn skammstöfunum þátt fyrir aðvaranir undirritaðs. Þannig hljóðaði setningin:
Varan kostar 100 kr
Varan kostar 100 karlakór Reykjavíkur.
Höfn í Hornafirði varð
Höfunduröfn í Hornafirði.
Þegar Windows 95 kom til sögunnar varð ljóst að gera þyrfti breytingar á talgervlinum og var stofnaður stýrihópur um það verkefni undir forystu Guðrúnar Hannesdóttur, forstöðumanns Starfsþjálfunar fatlaðra. Tekið skal fram að Öryrkjabandalag Íslands hafði veg og vanda af þessu verkefni fyrir hönd Íslendinga.
Þessi vélræni talgervill reyndist vel, bilaði sjaldan og var fremur áheyrilegur svo fremi sem notuð voru góð heyrnartól eða hátalarar.
Eftir aldamótin, sennilega árið 2002, setti sænska fyrirtækið Infovox nýjan talgervil fyrir íslensku á markaðinn og nefndist hann Snorri. Nokkrir hnökrar voru á framburði hans, en þó var hann fremur áheyrilegur og auðvelt að stjórna hraða hans og hæð raddarinnar. Fyrirtækið hafði engin samskipti við Íslendinga um þróun þessa talgervils. Að öðrum kosti hefði verið unnt að sníða af ýmsa agnúa sem voru og eru á honum auk þess sem hægt hefði verið að lagfæra villurnar sem voru í fyrirrennara hans. Snorri varð fremur vinsæll og er einnig notaður í farsímum.
Nokkru síðar heyrðist af smíði íslensks talgervils sem Síminn og fleiri fyrirtæki kostuðu. Þrátt fyrir að Öryrkjabandalagið hefði stofnað til funda með ýmsum aðilum um þróun og endurbætur íslenskra talgervla og ætti samstarf við tungutækni-átakið, var ekki haft samband við neytendur. Smiðir talgervilsins fengu Ragnheiði Clausen til þess að ljá rödd sína og þótti lesturinn takast vel. Þegar lýsingar smiðanna eru lesnar kemur í ljós að þeir héldu að þeir væru að vinna tímamótastarf. Það er einhvern veginn svo að Íslendingar fara iðulega offari þegar sjálfsálitið er annars vegar og hlusta sjaldan á varnaðarorð þeirra sem reynsluna hafa. Þess vegna fór sem fór.
Vegna þekkingar- og reynsluleysis íslensku talgervilssmiðanna varð afraksturinn heldur nöturlegur. Röddin reyndist brostin og hafa litlar breytingar orðið þar á. Ýmsar framburðarreglur voru ekki virtar, ekki reyndist unnt að stjórna hæð raddarinnar, högg heyrast þegar orð hefjast á hljóðum eins og a, æ o.s.frv. sem veldur því að erfitt er að hlýða á langan texta í senn. Fleir atriði mætti nefna sem hefði auðveldlega verið hægt að lagfæra hefðu neytendur verið hafðir með í ráðum.
Pistill þessi er einungis byggður á minni undirritaðs og ber að skoða sem drög að sögu talgervilsins á Íslandi. Stiklað er á stóru og ýmsu sleppt sem vert hefði verið að geta um.
Í fórum Öryrkjabandalags Íslands, Blindrabókasafns Íslands og Starfsþjálfunar fatlaðra eru væntanlega gögn sem geta varpað skýrara ljósi á þessa sögu.
Tölvur og tækni | 22.1.2010 | 18:08 (breytt 24.1.2010 kl. 17:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dolphin Computer Axxess ltd. vinnur stöðugt að því að bæta skjálesara si´na og þurfa starfsmenn fyrirtækisins a hafa sig alla við til þess að halda í við þróunina á netinu og hugbúnað sem tekur sífelldum breytingum. Allt þokast þetta þó í rétta átt.
Tölvur og tækni | 18.1.2010 | 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Adam var ekki lengi í Paradís. Vefurinn reyndist ekki í lagi þótt nýlegur væri. Því var eftirfarandi bréf sent:
Ágæti viðtakandi.
Ég hef að mestu verið atvinnulaus undanfarin 4 ár, en í haust tókst ég á hendur talsverða verktöku.
Ég hugsaði mér að senda inn skilagrein vegna tímabilsins frá 05.01.2009-30.11.2009. Ég komst svo langt að byrja að fylla út skilagreinina á vef launagreiðanda en þá vandaðist málið.Vefurinn er ekki aðgengilegur þeim sem nota skjálesara. Talgervillinn les ekki heiti þeirra reita sem fylla þarf út í. Nöfn þeirra birtast á einu svæði og útilokað er að greina hvaða reitur á við hverju sinni.
Embætti ríkisskattstjóra hefur nýlega breytt sínum vef vegna ábendinga undirritaðs og er nú hægt að sinna erindum á vefnum þótt notandinn sé blindur.
Ég vona að þessu verði kippt í lag hið bráðasta, enda stríðir skortur á aðgengi gegn upplýsingastefnu stjórnvalda.
Að flestu leyti er heimasíðan nothæf. Ég mæli þó eindregið með því að sérfræðingur um aðgengi frá Sjá ehf berði beðinn að taka út síðuna og koma með ábendingar. En á meðan mælist ég til að aðgengiskröfur veðri uppfylltar á vef launagreiðenda.
Með von um skjót svör,
virðingarfyllst,
Arnþór Helgason
Tölvur og tækni | 28.12.2009 | 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég hef undanfarin fjögur og hálft ár notað ágæta HP-ferðatölvu, en heilsa hennar hefur farið versnandi upp á síðkastið. Loksins gafst hún upp um helgina. Þetta kom sér afar illa. Ég hafði miklar skoðanir á ýmsu sem var í fréttum og þar að auki átti ég eftir að gera hljóðmynd fyrir Ríkisútvarpið. En eins og séra Jakob Jónsson sagði einu sinni, þá ákvað skaparinn að gera honum erfitt um vik með að skrifa því að nóg hafði komið af bulli úr penna hans. Guð hefur sjálfsagt haft þá skoðun að nú væri betra að ég þegði og slakaði ögn á. En þetta var alldýr ráðstöfun hjá Guði.
Í gær var fjárfest í nýrri tölvu af illri nauðsyn. Ég lét færa hana niður í Windows XP þar sem hún var seld með Vista og Windows XP er enn fokdýrt og ég var hræddur um að þurfa að fjárfesta í nýjum hljóðritunarforritum.
Það er í raun grábölvað að tölvur endist ekki lengur e þetta, tæp 5 ár. Vonandi verður eitthvað hægt að gera garminum til góða og þá verður hægt að nota hana sem varaskeifu.
Vinnan gengur allvel og nú er embætti skattstjórans greinilega ikomið á skrið í aðgengismálum Meira um það síðar.
Tölvur og tækni | 1.12.2009 | 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hinn 10. þessa mánaðar fékk ég bréf frá Einari Val Kristinssyni, starfsmanni embættisins, þar sem greint var frá því að tilteknar breytingar hefðu verið gerðar á vefsvæðinu og væru þær ekki endanlegar.
Í kvöld gengum við hjónin úr skugga um að vefsvæðið sé aðgengilegt og reynist nú engum vandkvæmum bundið að standa skil á opinberum gjöldum. Er sem fargi af mér létt og mér ekki boðlegt framar að vanrækja að greiða opinber gjöld mín.
Ég hef þegar svarað bréfi Einars Vals og beðist afsökunar á að ef til vill hafi ég farið fram úr sjálfum mér, en af einhverjum ástæðum áttaði ég mig ekki á þeim breytingum sem gerðar höfðu verið.
Ríkisskattstjóra ber lof fyrir allskjót viðbrögð í þesu máli.
Tölvur og tækni | 12.11.2009 | 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Öldugjálfrið var hljóðritað vestur í Skálavík 2. júlí 2009. Notaður var Nagra Ares BB+ stafrænn hljóðriti og tveir Sennheiser ME62 hljóðnemar sem eru mjög víðir. Þeir vísuðu í u.þ.b. 100 gráður og um 1,3 m voru á milli þeirra.
Hljóðmyndin sjálf var unnin í Soundforge 9 og Goldwave 5,54. Það kostaði talsvert föndur að hægja á hljóðinu. Æskilegt væri að hljóðritunarforritum fylgdi eins konar hjól sem hægt væri að nota til að renna hljóðinu hreinlega niður þar til þögnin tekur við.
Tölvur og tækni | 22.10.2009 | 07:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hugði mér gott til glóðarinnar og ákvað að forvitnast um vissa hluti. En viti menn. Vefsafnið uppfyllir ekki lágmarkskröfur um aðgengi. Hægt er að leita að vefsíðum. Þegar listi yfir færslurnar birtist kemur í ljós að skjálesarar lesa ekki tenglana í töflunni sem sýnir hinar ýmsu færslur.
Það virðist mikill misbrestur á að gætt sé að aðgengi þegar opinberar síður eru endurnýjaðar. Ég hef því sent ýmsum yfirmönnum Landsbókasafnsins meðfylgjandi bréf:
Ágæti viðtakandi.
Viðleitni Landsbókasafns Háskólabókasafns til að veita almenningi sem mestar og besta upplýsingar er til mikillar fyrirmyndar.
Við hönnun hins nýja vefsafns hefur ekki verið gætt að aðgengi þeirra sem nota skjálesara. Hægt er að fletta upp á vefsíðum. Listinn sem þá birtist er óaðgengilegur. Tenglarnir virka alls ekki og því er þessi þjónusta gagnslaus þeim sem eru blindir eða sjónskertir.
Þetta stríðir gegn upplýsingastefnu stjórnvalda og verður þess því vænst að úr verði bætt hið fyrsta.
Virðingarfyllst,
Arnþór Helgason
Tölvur og tækni | 2.10.2009 | 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sá ég þá að auglýst var ný heimasíða fyrirtækisins. Við nánari athugun reyndist hún að mestu leyti óaðgengileg. Enginn texti var við krækjurnar heldur einungis myndir.
Í ljósi þess sem fram kom í athugasemdum vegna fyrri skrifa á þessari síðu er ljóst að sum hugbúnaðarhús hér á landi virðast ekki þekkja hugtakið "Aðgengi".
Ég hef átt ánægjuleg samskipti við starfsfólk Capacent á undanförnum árum. Nokkrum sinnum hef ég komist í atvinnuviðtöl fyrir tilstilli þess en ekki fengið fast starf. Að vísu hélt ég að mér hefði hlotnast ssölumannsstarf í sumar vegna auglýsingar á mbl.is. Það hefur þó dregist úr hömlu og verð ég því enn að láta skrá mig atvinnulausan.
Vonandi bæta þeir Capacent-menn úr þeim vanköntum sem eru á nýrri heimasíðu fyrirtækisins.
Tölvur og tækni | 21.9.2009 | 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 319934
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar