Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Leiðarsteinn - skemmtileg tilraun með GPS

Ég hef dálítið fjallað um GPS-tæknina og þá staðreynd að hún gæti verið blindu og sjónskertu fólki notadrjúg ef rétt væri að málum staðið.

Fyrir nokkrum árum hófust tilraunir með GPS-kerfi sem kallast Loadstone. Tilgangur hönnuðanna var að búa til einfalt kerfi sem gæti aðstoðað blint og sjónskert fólk við að komast á milli staða. Kerfi þetta hefur nú verið í þróun í u.þ.b. 6 ár og notendur þess skipta tugum þúsunda í öllum heimsálfum. sums staðar hafa verið gerð ítarleg kort af svæðum sem eru sérstaklega miðuð við þarfir gangandi vegfarenda.

Upphaflega var gengið út frá því að farsímar, einkum Nokia símar, væru tengdir GPS-tækjum og endurómuðu með talgervli upplýsingar sem byggðu á boðum frá tækjunum (fjarlægð að stað, stefnu o.s.frv).nú hefur Nokia komið GPS-tækjum fyrir í nýjustu símunum og tengjast þau ágætlega Loadstone-forritinu sem nemur staðsetningar frá þeim.

Gallinn á gjöf Njarðar er sá að kortin, sem Nokia býður notendum farsíma sinna, nýtast ekki með Loadstone-forritinu heldur verða notendur að skrá inn þá punkta sem þeir þurfa að nota.

Í dag gerði ég eftirfarandi tilraun:

Ég hélt út fyrir hússins dyr og út á gangstéttina norðaustan við Tjarnarból 14. Ég kveikti á leiðsögutæki farsímans, virkjaði Loadston og beið þar til sambandnáðist milli Loadstone og GPS-tækis símans. Þá kom í ljós að tækið náði sambandi við 11 gervitungl. Ég studdi svo á ferninginn á lyklaborði símans. Þá var ég beðinn um nafnið á punktinum og var það auðsótt. Síðan var punkturinn vistaður og lagt af stað.

Þegar komi var að umferðarljósunum yfir Nesveginn skammt frá Eiðistorgi var aftur numið staðar og nýr punktur skráður.

Þriðja og síðasta punktinn skráði ég síðan við innganginn að þjónustumiðstöðinni við Eiðistorg. Punktarnir voru svo vistaðir undir einu heiti.

Síðar gerði ég nokkrar tilraunir. Ég gekk út að Tjarnarstíg sem er í austur frá Tjarnarbóli 14, sneri við og opnaði skrána með leiðsögupunktunum. Skömmu eftir að ég lagði af stað gaf tækið upp metrafjöldann að Tjarnarbóli 14. Þegar um 15 metrar voru eftir að innganginum gaf það frá sér hljóð og reyndist staðsetningin rétt. Þá var haldið áfram í áttina að umferðarljósunum og gerði tækið einnig viðvart um þau í tæka tíð.

Þessi tilraun var endurtekin og virtist skeika nokkrum metrum um nákvæmnina. Eitt er þó víst. Þetta forrit flýtir talsvert fyrir því að fólk komist á áfangastað og forritið bendir fólki í hvaða átt skuli haldið.

Þegar gengið er um göngustíga þar sem fátt er um kennileiti get ég ímyndað mér að Loadstone-forriti gæti nýst blindu fólki allvel. Með því að merkja ákveðna punkta ætti fólk að geta komist leiðar sinnar. Hægt er að fylgjast með næstu leiðarmerkjum eða kennileitum með því að styðja á örvalyklana á farsímanum. Helst þurfa menn að hafa símann hangandi um hálsinn til þess að heyra talið eða nota lítil heyrnartól sem skerða umhverfishlustun.

Hugsanlega verður hægt í framtíðinni að tengja saman þetta forrit og OVI-forritin og væri það mikill akkur hönnuðum, notendum og framleiðendum farsíma. Aðrar lausnir hafa einnig verið þróaðar handa blindu fólki en þessi er sennilega sú einfaldasta. Með þessum hætti geta menn fylgst með viðkomustöðvum strætisvagna o.s.frv og jafnvel merkt biðstöðvar þeirra á stöðum eins og Hlemmi.

Ég tel ástæðu til að blindrafélagið og Þekkingarmiðstöðin kanni hvort og hvernig þetta forrit eða önnur geti aukið sjálfstæði blindra og sjónskertra og aukið lífsgæði þeirra. Væri ekki tilvalið að virkja einhverja sem atvinnulausir eru til þess að Skrá ýmsar leiðir og gefa þær út? sérstakur gagnagrunnur hefur verið stofnaður sem hýsir leiðasöfn fjölmargra landa. Þá er afar einfalt að þýða forritið á íslensku og getur það hver sá gert sem kann dálítið á tölvu, skilur ensku og skrifar þokkalega íslensku.

Ég hvet lesendur, hvort sem þeir eru blindir eða sjáandi, til þess að skrifa athugasemdir og koma með hugmyndir um þessi GPS-mál. Hér á landi er of lítil umræða um ýmis framfaramál sem tengjast málefnum smáhópa og neytendurnir sjálfir eru þar sjaldan virkir. Látið því heyra í ykkur.


GPs-leiðsögnin í Nokia 6710 Navigator gerði sitt gagn

Veðrið er yndislegt. Í morgun hélt ég út á Seltjarnarnes að hlusta eftir kríum. Á leiðinni hitti ég fyrrum vinnufélaga hjá Ásbirni Ólafssyni ásamt konuhans og töfðum við hvert annað drykklanga stund.

Upphaflega ætlaði ég að ganga umhverfis nesið en stytti leiðina og sneri aftur áleiðis heim þegar ég var kominn út undir golfvöll. Þá ákvað ég að setja GPS-leiðsögnina á í símanum og valdið leiðina "Tjarnarból 14 v. Nesveg". Mér var sagt að ganga u.þ.b. 1 km og beygja þá til hægri. Ég hélt að þetta væri lengra, enhvað um það, ég lagði af stað. Leiðsögutækið þagði og ákvað ég því að athuga þegar ég kom að vegamótum Suðurstrandar og Nesvegar hvort staðsetningin væri ekki rétt. Svo reyndist vera.

Það tók mig dálítinn tíma að átta mig á hvaða fjallabaksleiðir ég ætti að nota til þess að fá leiðsögnina í gang aftur, en dálítið vantar á að talgervillinn í símanum lesi allt. En það tókst. Ég lagði því af stað aftur og ákvað að hefjast handa skammt frá Skerjabrautinni. Þá sagði forritið mér að taka U-beygju eftir 100 m og gerði ég það, sneri við þar sem ég var staddur og sneri svo aftur við þegar forritið sagði mér að beygja. Auðvitað tekur forritið mið af gatnakerfinu. Skömmu eftir að ég hafði snúið við tilkynnti forritið að verið væri að endurreikna leiðina.

Nú gekk ég í áttina að Tjarnarbóli 14 v. Nesveg og beið spenntur. Ég kom að bakinnganginum og hélt áfram. Þá tilkynnti forritið að ég væri kominn á áfangastað. Einungis munaði einum metra og getur svo sem verið að ég hafi staðið þar þegar ég skráði þennan leiðarpunkt.

Niðurstaðan er sú að tækið geti komið að notum við að finna tiltekna staði þrátt fyrir að akstursleiðsögnin sé notuð. Sýnist mér að ég geti t.d. merkt inn hliðarreynar frá göngustígnum yfir Norðurströndina, en það hefur valdið mér nokkrum vandræðum að hitta á þær.

Vafalaust gæti ég haft enn frekari not af þessu GPS-tæki ef hugbúnaðurinn frá MobileSpeak læsi valmyndirnar betur. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að bæta þar úr. Mér er tjáð að kortið af Íslandi, sem Nokia notar, sé frá fyrirtækinu Navtech, en Navtech hefur átt í samvinnu við hugbúnaðarframleiðendur sem hafa unnið að leiðarlausnum fyrir blinda.

Nú þarf ég einungis að hitta á einhvern tæknifróðan GPS-notanda til þess að skrá ítarlega hvað talgervillinn les og hvað ekki.


Tölvupóstur í farsímum

Tækni- og leikfangadeildin á Tjarnarbóli 14, hefur verið iðin við konann undanfarna daga og gengið í skrokk á farsíma þeim sem aflað var fyrir um mánuði. Eins og lesendum er kunnugt er forritið Mobile Speak, sem framleitt er á Spáni, notað til samskipta við símann. Komið hefur í ljós að allt of margt, sem tengist Nokia, er ekki aðgengilegt til fulls. Má þar nefna GPS, tölvupóst, útvarpið í símanum sem forritið truflar o.s.frv.

Í gær fór ég inn á heimasíðu Codefactory til þess að forvitnast nánar um farsímann og komst þá að því að þjónusta sem finna má á síðunni http://emoze.com e mjög aðgengileg og Mobile Speak les þar allt sem máli skiptir.

Þegar emoze-forritið er halað niður tilkynnir síminn að það hafi vrið vistað í skráasafninu My downloads og býður mönnum að opna möppuna. Rétt er að þekkjast þetta boð og síðan gengur uppsetningin eðlilega fyrir sig. Eindregið er mælt með að notendur setji síðan upp forritið handvirkt en ekki með sjálfvirkum hætti.

Áður en emoze-forritið er sett upp verða menn að hafa tiltækar upplýsingar um póstþjóninn eins og þegar póstur er settur upp á tölvu. En þessi uppsetning er þó mun einfaldari.


Enn um GPS og aðgengi blindra

Adam var ekki lengi í Paradís.

Þegar ég kveikti á GPS-tækinu í Nokia 6710 í gærkvöld var fátt eins og það átti að vera. Ég gat fundið með tilfæringum uppáhaldsleiðir, farnar slóðir og leit, en annað eins og staðir, sem silgreindir eru eftir flokkum, fannst ekki nema með höppum og glöppum.

Því renndi ég mér á foraðið í dag og skráði hjá mér allar tilraunir mínar til þess að nálgast hina ýmsu kosti GPS-tækninnar. Þær báru lítinn árangur.

Það virðist skorta nokkuð á að ég hafi grætt á þessari uppfærslu kortsins. Þá virðist einnig sem aðgangur að GPS-búnaðinum sé fremur takmarkaður hjá framleiðanda talgervils-forritsins. Hef ég því gert vopnahlé í bili þar til ég fæ einhvern sem er sólginn í tæknifikt til þss að skoða með mér hvort ekki sé hægt að finna aðgengilega leið að tækniundrum símans. Þó komst ég að því að ég get skráð inn einstaka staði með lítilli fyrirhöfn og er það nokkur bót í máli.

Í eigingirni minni þykir mér sem öll tæki, farsímar, tölvur og önnur tæki sem létta fólki lífið, jafnvel bifreiðar, ættu að vera aðgengileg öllum. Ef til vill upplifi ég það fyrir nírætt að geta lagt af stað á hjóli að heiman með sjáfstýringu á og farið þangað sem ég vil. Sérstakir skynjarar þyrftu þá að vera á hjólinu til þess að vara við gangstéttum og öðrum hindrunum, holum og öðrum hættum. Þegar slíkt hjól verður fundið upp og flutt til landsins býð ég mig fram þótt búast megi við að ég sleppi vart frá slíkri tilraun í tölu lifenda. Þá geng ég aftur og sýni mig svífandi yfir umferðinni á hjóli, helst á háannatíma. Það verður skemmtilegt að verða reiðhjólsdraugur.


Enn um aðgengi blindraað GPS

Fyrir nokkru skrifaði ég dálítið um aðgengi að GPS-staðsetningartæki Nokia 6710, en slík tæki eru í mörgum Nokiasímum.

Í dag var mér boðið að uppfæra hugbúnað símans og gerði ég það í tveimur áföngum. Þá vildi svo til að ég hlóð niður nýjum GPS-hugbúnaði og virðist hann nú vera aðgengilegur. Talgervillinn les nú lista yfir þau atriði sem leitað er að, uppáhaldsstaði, veitingastaði, verslanir, gistihús o.s.frv og gerir þeim glögg skil.

Í fikti mínu í sumarleyfinu setti ég auðvitað upp tölvupósthólf í símanum. Virðist ég hafa skilgreint það sem imap-hólf og skiptir það í sjálfu sér ekki máli. Hængurinn er hins vegar sá að talgervillinn les ekki tölvupóstinn nema með herkjum, en ég get skrifað póst eins og ekkert sé. Ég he reynt að eyða uppsetningu pósthólfsins í símanum en ekki tekist það.


Aðdragandi upplýsingabyltingarinnar í málefnum blindra

Um daginn tók Elín til í geymslunni. Ég var henni innan handar og vald úr sumt sem mátti henda og annað sem skyldi geyma. Þá varð á vegi okkar kassi með gögnum sem ég hafði haft með mér úr Öryrkjabandalagi Íslands þegar ég fékk leyfi til að sækja eigur mínar þangað. Þar á meðal var lestrartækið Optacon (Optical Converter) sem Þórsteinn Bjarnason gaf nafnið ritsjá á íslensku.

Í dag tók ég tækið upp úr pokanum sem það var geymt í. Ragnar R. Magnússon hafði fengið það einhvern tíma á 9. áratugnum en notaði það sáralítið. Sjálfur fékk ég slíkt tæki til afnota haustið 1973 og entist það í 11 ár. Seinna tækið notaði ég frá árunum 1984-2004, en þá var það dæmt ónýtt. Í staðinn fékk ég þýst tæki sem kallast Videotim sem byggir á svipaðri tækni og gunnar nokkur Matschulat hannaði. Verður nú gerð nokkur grein fyrir þessum tækjum.

Jon Linwille hannaði optakon-tækið eða ritsjána handa dóttur sinni árið 1969 og stofnaði um framleiðsluna fyrirtækið Telesensory Systems í Bandaríkjunum. Fyrir tilstilli Blindravinafélags Íslands voru tvö tæki fengin hingað til lands og kom dönsk kona, Linda Kampf, hingað til lands að kenna okkur tvíburunum notkun þeirra. Tókust undir eins ástir með mér og þessu tæki.

Optacon - ritsjáin er fremur lítil um sig og u.þ.b. e eitt kg á þyngd. Í ritsjánni er íhvolf plata með 144 örsmáum nálum eða punktum Þegar straumi er hleypt á tækið titra nálarnar.

Við tækið er tengd myndavél sem notandinn heldur á í hægri hendi. Þegar vélinni er rennt yfir síðu með prentletri birtist mynd af því sem linsan nemur undir vísifingri vinstri handar sem látinn er hvíla á nálaplötunni. Það ermeð öðrum orðum upphleypt mynd af stöfum og táknum sem birtist.

Tveimur sögum fór af ágæti þessa tækis. Nokkur hópur fólks náði allgóðum árangri og las flest sem það langaði til. Dagblöðin voru nokkuð erfið en bækur aðgengilegar auk margra tímarita. Sjálfur mældist ég á meðal 10 hraðlæsustu notenda ritsjárinnar árið 1977 og las hvað eina sem mér flaug í hug - skáldsögur, ljóð, námsefni, kínversk tímarit o.s.frv. Ekki var verra að þegar ég varð ástfanginn af Elínu og hún var fyrir norðan í sumardvöl með fötluðum börnum skrifaði hún mér bréf. Hún skrifaði blokkskrift og gat ég lesið bréfin hennar í næði. Eitt sinn fann ég bréf frá vini mínum sem hann hafði skilið eftir á skrifborði mínu. Hann var á leið úr landi og í lok bréfsins var þessi setning: "Þetta er einungis handa fingrum þínum."

Leshungur mitt var óseðjandi á þessum árum. Þegar ég fór að vinna að námsbókaútgáfu í þágu blindra varð tækið mér ómetanleg hjálp við að skoða uppsetningu efnis o.s.frv. Sem framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins skoaði ég þá reikninga sem skiminn las ekki nógu vel og ýmis önnur gögn athugaði ég með hjálp þessa ómetanlega tækis.

Þegar skimarnir urðu algengir og skimunarhugbúnaður réð við stöðugt fleiri tungumál var þróun ritsjárinnar hætt og nú er hún ekki framleidd lengur.

Í dag tók ég tækið sem Ragnar Magnússon fékk til afnota upp úr töskunni og tengdi það. Þá hafði ég ekki snert ritsjá í 6 ár eða frá því að tækið mitt geispaði golunni. Ég kveikti á tækinu og viti menn! Tækið var í lagi! Suð barst frá nálunum. Ég naði undir eins í bók sem var nærri, ævisögu Kristins á Berg sem Magnús Kristinsson sendi mér og las formála bókarinnar með tækinu. Það var yndisleg tilfinning að skynja aftur kitlandi ertingu nálanna við fingurgóminn og rifja upp að mér gekk jafnan heldur seint að lesa skáletur. Auðvitað er leshraðinn ekki sá sami og áður en tækið er í lagi.:)

Þýska tækið Videotim byggir á sambærilegri tækni og Optacon-tækin. Munurinn er sá að punktarnir eru 250 og flöturinn sem táknin birtast á mun stærri og táknin því nokkru grófari. Nota þarf þrjá miðfingur vinstri handar til þess að lesa það sem myndavélin nemur og krefst það talsverðrar þjálfunar. Þótt videotim-tækið nýhttist mér sæmilega hjá Öryrkjabandalaginu náði ég aldrei jafnmiklum lestrarhraða með því og með gamla optacon-tækinu.

Optacon-tækin opnuðu blindu fólki áður óþekktar leiðir í náms- og atvinnumálum. Framleiddar voru alls kyns linsur fyrir tækið. sumar var hægt að festa við ýmsar tegundir ritvéla og gat þá ritsjárnotandinn lesið yfir það sem hann hafði skrifað og jafnvel leiðrétt. Geta menn ýmyndað sér þá byltingu sem þetta hafði í för með sér í háskólanámi mínu. Við Emil Bóasson, hjálparhella mín, vinur og velgjörðamaður til margra áratuga, notuðum þetta tæki með eftirfarandi hætti<.

Þegar við fengumst við að þýða kínverskt lesefni af ensku yfir á íslensku ræddum við fyrst textann og hófumst síðan handa. Emil las og ég vélritaði. Við tengdum skjá við Optacon-tækið og sá þá Emil hvað vélrituninni leið. Sá hann strax þegar gerðar voru innsláttarvillur og var hægt að leiðrétta þær um leið.

Ég hafði unun af að fylla út ýmiss konar eyðublöð með því að tengja ritvélarlinsuna við tækið. Má nefna að ég fyllti þannig út eyðublaðið vegna manntalsins á 9. áratugnum og fyllti jafnan út úttektareyðublöð þegar ég hugðist næla mér í aura af sparisjóðsbók.Mér fannst tækið auka sjálfstæði mitt að mun.

Ég hef kynst ýmsum nýjungum um dagana svo sem hljóðgleraugum, litaskynjurum, hugbúnaði sem breytir tali í texta, tölvuskimum o.s.frv. Ritsjáin tel ég að hafi komist næst tölvunum og blindraletursskjáunum þegar meta skal hagnýtt gildi tækjanna og þær breytingar sem þau hafa haft á líf mitt.


Nokia 6710 Navigator og notagildi hans fyrir blint fólk

Á ferð okkar Elínar umhverfis landið um daginn gerði ég nokkrar tilraunir með Nokia 6710 farsíma og GPS-kerfið sem fylgir símanum. Síminn er með spænskum hugbúnaði sem kallast Mobilespeak (Farsímatal) og birtir hann upplýsingar um flest sem birtist á skjá símans og unnt er að þýða með texta. Röddin er Snorri sem Felix Bergsson léði framleiðanda talgervilsins.

Síminn virtist leiðbeina okkur ágætlega þegar við vorum akandi og skipaði okkur skilmerkilega að beygja á réttum stöðum. Hins vegar virtist mér hann ekki staðfesta að við værum komin á áfangastað - á þó eftir að gera fleiri tilraunir.

Þegar merkt er inn leið getur maður valið hvort hún er ekin eða gengin. Þegar akstur er valinn leiðbeinir enskumælandi rödd notandanum, en síminn þegir þunnu hljóði ef síminn er beðinn að velja gönguleið. Hann gefur þó hljóðmerki með vissu millibili, sennilega við gatnamót og á 200 m fresti.

Í tilraun sem ég gerði í kvöld kom í ljós óhagræði þess að hlusta á skilaboð símans í heyrnartólum. Þótt þau séu freur lítil trufla þau umhverfisheyrnina. Augljóst er því að aðrar aðferðir verur að velja, t.d. hátalara símans

Það vekur jafnan athygli hér á Seltjarnarnesi þegar ég fæst við ýmiss konar tæknibrölt, einkum ef ég er einn míns liðs. Þannig var mér boðin aðstoð áðan því að vegfaranda þótti augljóst að ég væri að villast.

Þótt síminn hafi ýmsa annmarka og enn eigi eftir að vinna talsvert aðgengisstarf segir hann þó nöfn þeirra gatna sem gengið er meðfram, ef stutt er á staðfestingarhnappinn og getur það í sjálfu sér komið sér vel. Hins vegar gabbaði ég símann með eftirfarandi tilraun:

Ég gekk frá suðurströnd 3 og skráði inn Tjarnarból 14. Eftir að ég hafði valið að aka þangað tilkynnti röddin mér að ég ætti eftir u.þ.b. 400 metra. Síðan komu einhverjar furðuleiðbeiningar sem ég tók ekki mark á og endurreiknaði þá síminn stefnuna. Þá var mér sagt að 200 metrar væru eftir og var þá sagt að beytja til hægri og síðan enn til hægri. Ég ákvað hins vegar að stytta mér leið af Nesveginum inn á Tjarnarból og fór á milli húsanna Tjarnarbóls 12 og 14. Símaskrattinn sagði ekki eitt einata orð og heldur ekki þegar ég kom í hlaðið.

Ég á eftir að gera nokkrar tilraunir með símann áður en endanleg niðurstaða verður fengin. Þetta liggur þó fyrir:

GPS-leiðsögn er tæplega nógu nákvæm til þess að blint fólk geti nýtt sér hana til fullnustu. Hugsanlega getur hún þó orðið að liði. Þá er skylt að geta þess að síminn gleypir í sig straum á meðan þessi búnaður er notaður.

Ýmis atriði í símanum á eftir að gera aðgengileg. T.d. þarf að gera lista yfir ýmis atriði s.s. veitinga- skemmti- og gististaði aðgengilegri. Nú þarf að kalla á upplýsingar um hvern stað, hlusta á þær, færa sig síðan aftur í meginlistann, færa bendilinn um eitt skref, stiðjá á staðfestingarhnappinn, velja upplýsingar o.s.frv.


Afskiptasamur farsími frá Nokia:)

Í fyrradag var 6 ára gamall farsími dæmdur ónýtur. Þetta var tímamótasími sem ég fékk þegar við hjá Öryrkjabandalaginu létum þýða hugbúnað frá Code Factory fyrir farsíma á íslensku. Code factory er í eigu spænsku blindrasamgakanna og framleiðir m.a. hugbúnað í farsíma. Þessi búaður birtir jafnt upplýsingar með tali og á blindraletri, allt eftir því hvaða tæki fólk á. Ég hafði grandskoðað þennan hugbúnað og Örtækni náði hagstæðum samningum við fyrirtækið svo að hugbúnaðurinn var þýddur. Sem sagt, síminn var orðinn ónýtur.

Ég vildi fá annan Nokiasíma og fór því á stúfana að skoða úrvalið. Endirinn varð sá að ég keypti Nokia 6710, en lyklaborð þess síma virtist mér henta þörfum mínum best. Sennilega er ég orðinn eldri og treggreindari en fyrir 6 árum. Mobile Speak forritið var síðan sett í símann og í gær hófust tílraunir.

Nú hef ég áttað mig á hvernig tengjast ber netinu. Ég hef þó ekki fengið úr því skorið hvort hægt sé að hlusta beint á útsendingar á netinu eða hvort maður verði að hala niður hljóðskrám. Þó sé ég á einni af valmyndum símans að gert er ráð fyrir streymivefjum.

Í dag hafði ég fiktað svo rækilega í símanum að hann var að verða rafhlöðulaus og stakk ég því hleðslutækinu í samband. Þar gekk allt að óskum þar til í lokin að síminn sagði: "Taktu hleðslutækið úr sambandi til þess að spara orku." Og síminn endurtók þessa skipun hátt og skýrt eftir að ég hafði aftengtyt hleðslutækið og fannst Elínu þetta harla gott að síminn beindi fólki á betri veg.

Í síma þessum er GPS-leiðsögukerfi sem mér skilst að Nokia hafi þróað. Ég get ekki betur séð í fljótu bragði en það sé að hluta aðgengilegt en prófanir eiga eftir að leiða það í ljós. Þá fylgir honum litaskynjari sem ég á enn eftir að fínstilla. En hann fræddi mig þó um að ég væri í bláum bol og einnig eiginkona mín sem var í dökkbláum bol. En litaskynjarinn hélt því blákalt fram að buxurnar hennar væru svartar þótt þær væru hvítar. Birtuskilyrðin kunna að hafa ráðið þar nokkru um auk þess sem ég hafði ekki fínstillt litaskynjarann.

Í símanum er auðvitað myndavél eins og í öllum almennilegum símum með Simbian-stýrikerfi. Mér heppnaðist að taka mynd af Elínu í dag en læt hana ekki fylgja með. Hins vegar gæti verið að ljósmyndir af hljóðritanavettvangi fylgi með á síðunni http://hljod.blog.is og mun ég þá geta þess sérstaklega hvort ég hafi tekið myndirnar.

Þá fylgir síma þessum forrit fyrir hljóðbækur og þegar allt kemur til alls er þetta skárri fjárfesting en býðst í sérsmíðuðum tækjum til slíkra nota, reynist Daisy-spilarinn nothæfur. Allt þetta kemur í ljós á næstunni og verður greint frá því eftir því sem tilraunum og könnunum vindur fram.


Bætt aðgengi að lesefni

Að undanförnu hafa verið gerðar talsverðar tilraunir til þess að gera Pdf skjöl aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Er nú svo komið að þetta skjalasnið er orðið harla ákjósanlegt til aflestrar.

Gallinn við Pdf-skjölin hefur hingað til verið sá að erfitt hefur verið fyrir þá, sem nota skjálesara, að hitta á fyrirsagnir, millifyrirsagnir o.s.frv. Adobe forritin og önnur forrit sem breyta skjölum í pdf-skjöl, gefa færi á að setja inn fyrirsagnir og ýmislegt sem getur auðveldað lesendum að blaða í skjölunum. Íslensku prentmiðlarnir, Morgunblaðið, Fréttablaðið, DV og Viðskiptablaðið, gefa lesendum sínum kost á Pdf-útgáfum blaðanna. Sá hængur er á að ekki eru settar fyrirsagnir eða aðrar slíkar tilvísanir í skjölin. Nú eru væntanlega allir þessir fjölmiðlar með fullkomin ritvinnslukerfi eða blaðavinnslukerfi. Ég velti því nú fyrir mér hvort ekki sé hægt að smíða hugbúnað sem auðveldi útgefendum að ganga þannig frá Pdf-skjölunum að þau verði auðlæsilegri. Morgunblaðið er þegar með slíkt kerfi fyrir textaútgáfu blaðsins og er það til mikillar fyrirmyndar. Þó ber nokkuð á því að sumar greinar skili sér ekki þangað.

Vissulega er einfaldast að fletta dagblöðunum á netinu með kerfi Morgunblaðsins enda er það með aðgengilegustu blaðalestrarkerfum heims. En Pdf-lausnin hentar ýmsum og eykur notagildi tölvuútgáfunnar að mun.

Hvernig væri að Þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands beittu sér fyrir úrbótum í þessum efnum? Kæmi ekki til greina að styrkja gerð hugbúnaðar sem auðveldaði blaða- og bókaútgefendum að ganga þannig frá Pdf-skjölum að þau yrðu auðlæsilegri? Það er fleira aðgengi en aðgengi hreyfihamlaðra.


Skemmtilegar tækniframfarir

Um daginn fékk ég tölvupóst frá fyrirtækinu Nuance Solutions sem selur m.a. talgervla, þar á meðal hinn misheppnaða talgervil Röggu sem íslenskt fyrirtæki bjó til án samráðs við notendur. Í tölvupóstinum er m.a. greint frá Dragon hugbúnaðinum sem hefur verið á markaðinum í nokkur ár og gerir fólki kleift að tala texta inn á tölvur. Unnið hefur verið að því að gera búnaðinn nákvæmari og er sagt að villum, sem búnaðurinn gerði í ensku, hafi nú fækkað. Menn geta því skráð inn á tölvur hugsanir sínar með allt að 120 orða hraða á mínútu.

Fyrir 20 árum eða svo gerði lítið tölvufyrirtæki hér á landi tilraunir með íslenskt tal sem hægt væri að skrá beint inn á tölvur. Ekki er vitað til að þær tilraunir hafi verið styrkta með einum eða öðrum hætti. Það gefur auga leið að tölvunotkun yrði fjölda fólks mun einfaldari ef það gæti hreinlega talað inn það efni sem það langar til að skrifa. Ýmsir eiga óhægt um vik með að skrifa á lyklaborð tölvunnar og er þetta því kjörin lausn.

Blindrabókasafn Íslands hefur nú heimilað notendum í einhverjum mæli að hala niður hljóðbækur af heimasíðu safnsins. Geta notendur nú sótt sér hljóðbækur á einfaldan hátt. Þetta hlýtur að spara stórfé þar sem ekki þarf lengur að fjölfalda geisladiska með efni bókanna.

Þá gladdi það mig að lesa á heimasíðu Þekkingar- og þjónustumiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga að íslenskt blindraletur sé nú komið inn í danska RoboBraille-kerfið. Hugmyndin að baki þessu kerfi er að einfalda framleiðslu skjala með blindraletri. Kennarar blinds fólks og samstarfsmenn geta nú framleitt skjöl með blindraletri svo fremi sem blindraletursprentari er á staðnum. Sá, sem ætlar að þýða texta á blindraletur, sendir tölvupóst á tiltekið netfang og setur í efnislínuna ákveðnar skipanir um blaðsíðustærð o.fl. Að vörmu spori kemur skjal til baka sem er sérsniðið að þörfum þeim sem skilgreindar voru. Ekki áttaði ég mig á hvort textinn yrði að vera hreinn texti eða sniðinn í word eða öðrum forritum. Í fljótu bragði fann ég ekki upplýsingar um þetta á heimasíðu fyrirtækisins sem stendur á bak við þessa þjónustu, www.robobraille.org. Ég geri þó ráð fyrir að setja þurfi í textann einhverjar pretskipanir svo sem um fyrirsagnir, breytt letur o.s.frv., nema þetta sé allt saman þýtt beint úr ritvinnslukerfi sem væri auðvitað það besta. Þessi þjónusta léttir vonandi ýmsum að færa skjöl á blindraletur og eykur vonandi lestur efnis á þessu lífsnauðsynlega letri.

Ég hef oft velt fyrir mér þeirri sorglegu staðreynd að lesendur blindraleturs á Íslandi eru helmingi eða þrisvar sinnum færri en gengur og gerist í Vestur-Evrópu. Þetta á sér ýmsar skýringar sem ekkiverða raktar hér.

RoboBraille-forritið gerir einnig ráð fyrir að hægt sé að senda tölvutækan texta sem viðhengi og fá hann lesinn á því tungumáli sem beðið er um. Þessi þjónusta er enn ekki fyrir hendi á íslensku enda talgervlarnir íslensku vart færir um slíkt með ´goðu móti.

Þótt tölvutalið sé vissulega til mikils hagræðis eru þó ýmis störf í upplýsingasamfélaginu þar sem vart verður hjá því komist að lesa annaðhvort með augum eða fingrum. Þá verður aðgengi að tölvuforritum mun fjölþættara sé jöfnum höndum notað tal og blindraletur. Þetta fékk ég að reyna í störfum mínum sem blaðamaður á Morgunblaðinu og í núverandi verkefnum á vegum Viðskiptablaðsins. Þá hefði ég vart getað innt af hendi ýmis félagsmálastörf án blessaðs blindraletursins.

Það er ánægjulegt þegar starfsmenn opinberra stofnana eins og blindrabókasafnsins og Þekkingarmiðstöðvarinnar hafa metnað til þess að hrinda í framkvæmd jafnsjálfsögðum úrbótum og niðurhali bóka og sjálfvirkri prentun með blindraletri. Nú þyrftu þessar stofnanir og fleiri aðilar að sameinast um að endurbæta þá talgervla sem fyrir eru á íslensku eða búa til nyjan talgervil. Þá tel ég ekki úr vegi að reynt verði til hlítar að fá afnot af elsta talgervlinum sem sennilega hefur verið einna best heppnaður þeirra þriggja sem gerðir hafa verið fyrir íslenska tungu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband