Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Byltingarkennd GPS-tækni í þágu blindra og sjónskertra

Í dag kom út útgáfa 4,6 af forritinu Mobile Speak (Farsímatali) sem spænska hugbúnaðarfyrirtækið Code Factory framleiðir. Mobile Speak er hugbúnaður sem birtir upplýsingar í farsímum með tali, stækkuðu letri eða blindraletri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hugbúnaðurinn var þýddur á íslensku fyrir 6 árum og hefur verið unnið að þýðingu viðbóta æ síðan.

Þessi nýja útgáfa Mobile Speak er merkileg fyrir þær sakir að hún gerir Ovi-kortin frá Nokia aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Flest mikilvægustu atriðin, sem í boði eru, hafa verið gerð aðgengileg. Hægt er að leita að ýmsum þjónustuflokkum s.s. veitingastöðum, samgöngumannvirkjum, verslunum o.s.frv. Hver og einn getur sett inn sína uppáhaldsstaði, leitað að fyrirtækjum, húsnúmerum o.s.frv. Þá er bæði göngu- og akstursleiðsögn í forritinu. Röddin, sem Nokia býður, er enn ekki á íslensku og er því framburður sumra nafnanna dálítið undarlegur: Sudurlandsbrát. En íslenska talið, sem birtir þær upplýsingar sem notandinn sér á skjánum, vegur upp á móti þessu því að þar eru allar upplýsingar lesnar á íslensku og framburður götuheitanna eðlilegur.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum var mér boðið að vera með í alþjóðlegum reynsluhópi sem prófaði Ovi-kortin og ýmislegt annað. Árangurinn hefur verið undraverður. Ég hef nýtt mér leiðsögnina á ferðum mínum með strætisvögnum og hef jafnan getað fylgst með því hvar ég er staddur hverju sinni. Á göngu minni til og frá vinnustað hef ég öðru hverju þurft að átta mig á því hvar ég væriog ekki bregst búnaðurinn. Þó verður að gjalda vara við að treysta honum í blindni. Í gærkvöld gerði ég eftirfarandi tilraun:

Ég ákvað að leita að húsinu nr. 54 við Sörlaskjól, en húsbondinn á því heimili, Flosi Kristjánsson, er einn þeirra sem lýst hefur áhuga sínum á þessum GPS-tilraunum sem ég hef gert að undanförnu. Þegar ég nálgaðist húsið kom í ljós að forritið gaf upp allt aðra fjarlægð en við hjónin töldum að væri rétt. Virtist sem staðsetning hússins ruglaði eitthvað kerfið í ríminu, hverju sem það er að kenna.

Fleir annmarka gæti ég nefnt, en þar er ekki við blindrahugbúnaðinn að sakast heldur ónákvæmni skráninga í gagnagrunninum. En víða á höfuðborgarsvæðinu er skráningin svo nákvæm að vart skeikar nema nokkrum metrum. Þá er auðvelt að treysta á búnaðinn og fylgjast með því yfir hvaða götur er farið. Aðeins þarf að styðja á einn hnapp og les þá Farsímatalið upp heiti þeirrar götu sem farið er yfir. Menn geta einnig horft í kringum sig með stýripinna símans og kannað hvaða gata liggur til hægri eða vinstri, þegar komið er að gatnamótum.

Á því er ekki nokkur vafi að þessi búnaður á eftir að nýtast mörgu blindu og sjónskertu fólki hér á landi og auka að mun sjálfstæði þess og öryggi. Ég tel þetta með því merkasta sem ég hef séð á þeim 36-40 árum sem ég hef fylgst með hjálpartækjum blindra og sjónskertra.

Að lokum skal þess getið að hugbúnaðinum fylgir einnig litaskynjari. Þá er myndavél símans beint að því sem skoða á og tekin mynd. Greinir hugbúnaðurinn þá frá lit ess sem myndað var. Einnig er hægt að athuga birtustig.

Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér þessa tækni, er bent á skjalið „find your way with Mobile speak 4.6 sem fylgir þessari færslu.

Örtækni hefur umboð fyrir Mobile speak.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gönguleiðsögnin í Nokiasímunum

Nú er skammt þess að bíða að ný útgáfa talhugbúnaðarins frá Code-factory, sem notaður er í farsíma hér á landi og talar íslensku, komi á markað. Prófanir hafa gengið vonum framar og lofa góðu.

Tvenns konar leiðsögn er þar fyrir gangandi vegfarendur. Önnur leiðsögnin kallast "bein lína (kannski bein leið)" og hin "Gatnaleiðsögn" (þýðing mín á direct line and Streets). Við stuttar prófanir hefur komið í ljós að fyrri leiðsögnir gefur fremur takmarkaðar leiðbeiningar. Þó er sagt hvar beygja skuli og fjarlægðin að áfangastað er gefin upp. Sé hins vegar gatnaleiðsögninni fylgt fást ítarlegar upplýsingar.

Í dag gekk ég frá Nóatúni 17 að Hlemmi og vildi leiðsögutæki símans að ég héldi mig vinstra megin á gangstéttinni. Ég held að gangstéttin þar sé ekki jafnsamfelld og að norðanverðu við Laugaveginn og hlýddi ég því ekki.

Það verður mikil framför þegar þessi hugbúnaðarbreyting kemur á markaðinn hér, en hún er einn liður þess að rjúfa einangrun blindra og örva þá til þess að fara ferða sinna á eigin spýtur.

Nánar verður fjallað um þennan hugbúnað þegar hann kemur á markaðinn.


GPS-tilraunum haldið áfram

Á sunnudaginn kom ný tilraunaútgáfa af Mobilespeak (farsímatali) með endurbættu aðgengi að OVI-kortunum fyrir Nokia-farsímana. Nú les forritið nöfn gatna sem farið er um og gönguleiðsögnin verkar afar vel.

Gpnguleiðir í nágrenni mínu eru ekki vel skráðar og ruglast því síminn talsvert. Ég á eftir að þaulreyna kortin á göngustígunum meðfram sjónum og kanna hvernig þau verka þar.

Víða í Evrópu hafa menn í dag og í gær gert tilraunir með þennan búnað og farið með strætisvögnum út um hvippinn og hvappinn. Þeir geta auðveldlega fylgst með því hvar þeir eru og er þetta ótrúleg frelsisviðbót blindu og sjónskertu fólki. Þeim sem hafa notað GPS-tæki árum saman þykja þetta sjálfsagt litlar fréttir, en þeim, sem hafa verið einangraðir vegna blindu sinnar finnast þetta miklar fréttir og geta nú horft fram á bjartari tíma. Umferliskennarar gera sér nú grein fyrir því að taka verður mið af þessari nýju tækni þegar blindu og sjónskertu fólki er kennt á umhverfi sitt. Nú þarf Reykjavíkurborg að ganga í lið með blindu og sjónskertu fólki og lagfæra ýmsar skelfingarvitleysur sem framdar hafa verið á gangstéttum og gangbrautum borgarinnar sem hafa orðið til þess að Reykjavík er víða stórhættuleg öðrum en akandi fvegfarendum og fuglinum fljúgandi.

Það er gleðilegt til þess að hugsa að fyrirtæki eins og Nokia skuli leggja metnað sinn í að vinna með framleiðendum hugbúnaðar sem er aðgengilegur í farsímum. Auðvitað er hér um markaðsmál að ræða, en samt læðist að mér sá grunur að einhver hugsun um almannaheill sé í farteskinu.

Þjónið alþýðunni, sagði Mao formaður.


Gönguferðir í dag og GPS

Í dag fórum við Elín gangandi meðfram sjónum í átt að JL-húsinu. Ég notaði mér gönguleiðsögnina í OVI-kortunum og taldi tækið niður fjarlægðina aðhúsinu þar til um 10 m voru eftir að innganginum við Nóatún. ekki svo slæmt.

Við fórum krókaleiðir heim, þræddum göngustíga til þess að njóta næðisins. Þá vissi leiðsögumaðurinn hvorki í þennan heim né annan fyrr en við komum að Kolbeinsmýrinni. Þá áttaði tækið sig og greindi frá fjarlægð að Tjarnarbóli 14.

Í kvöld gerði ég aðra tilraun. Ég leitaði að tilteknu heimilisfangi við Nesveg, stillti tækið á talandi leiðsögn og lagði af stað út í myrkrið. Enskkumælandi kona í tækinu sagði mér að ég ætti 650 metra ófarna að ákvörðunarstað og síðan tók talgervillinn að telja niður. Ég ákvað að stríða ensku konunni og beygði inn Sörlaskjól. Þá þagnaði allt.

Ég sneri við og skráði inn heimilisfang mitt. Var mér þá sagt að ég væri fyirr utan Sörlaskjól 17 og ég skyldi halda í norðvestur. Ég gerði það. Vart var um aðra átt að ræða. Eftr nokkra stund var mér sagt að Nesvegur væri 60 metra í burto og þar ætti ég að beygja til vinstri. Þegar ég var rétt kominn að horninu var mér sagt að beygja.

Eftir nokkra stund var mér skipað að beygja inn Tjarnarstíginn þegar nær drægi og þegar þar að kom vildi tækið að ég færi þá leið og inn Tjarnarbólið. Ég þrjóskaðist við og hélt áfram meðfram Nesveginu. Tækið reyndi í tvígang að reikna út leiðina að nýju en tókst ekki. Akstursleiðsögnin hefði sagt mér að taka U-beygju og halda 200 metra í áttina sem ég kom úr og fara síðan inn tjarnarbólið. Jafnvel hefði tækið átt til að segja mér að halda áfram svo sem 100 metra í viðbót, taka þar U-beygju og aka síðan 300 metra til baka o.s.frv.

Gönguleiðsögnin í OVI-búnaðinum er fýsilegur kostur. Fróðlegt verður að kanna hvernig hún gefst á hinum ýmsu leiðum. Tékkneskur notandi Mobilespeak-búnaðarins, sem er í prófunarhópnum, fór einn síns liðs á gistihús sem hann leitaði uppi og fann það. Einungis þurfti hann að spyrja til vegar þegar hann var í þann mund að verða kominn að hótelinu.

Þegar hann fór aftur heim á leið leitaðihann uppi strætisvagnastöð, en lenti í villum. Búnaðurinn hélt honum þó það vel við efnið að hann áttaði sig og gat spurst til vegar. Ég veit að ýmsir, sem eru blindir og hugrakkir, skemmta sér konunglega við þess háttar tilraunir. Jafnvel ég, sem hef aldrei verið sérstaklega hugrakkur, brenn í skinninu að takast á hendur einhvern leiðangur út í óvissuna. Hættan er einungi sú að umhverfinu í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu hefur verið spillt svo mjög að það er að verða stórhættulegt blindu fólki að ferðast um eitt síns liðs. Ég hlýt að finna verðugt verkefni þar sem ég kemst hjá því að fara mér að voða.

GPS-tæknin í þágu blindra er mikið framfaraspor. Það á jafnt við um OVI-kortin og Loadstone-búnaðinn sem ritað hefur verið um á þessum síðum.


OVI-kortin brátt aðgengileg blindu og sjónskertu fólki

Í dag hófst alþjóðleg prófun nýrrar tilraunaútgáfu farsímatalforritsins Mobile Speak sem gerir blindu og sjónskertu fólki kleift að nýta sér kosti OVI-kortanna. Hægt er nú að velja á milli aksturs- og gönguleiðsagnar.Vegna breytinga sem voru nýlega gerðar á kortunum hefur ekki náðst að fylgja þeim eftir, en fyrstu prófanir lofa góðu.

Ég prófaði forritið í kvöld. Birti það upplýsingar um húsnúmer og götur sem farið var yfir og vegalengdina að áfangastað. Að vísu eru enn nokkrir hnökrar á leit og lestri, en upphafið lofar góðu.


GPS-leiðsögnin fer batnandi

Í dag var hafist handa við að reyna alþjóðlega tilraunaútgáfu talgervilsforrits fyrir farsíma sem þýðir betur ýmsa þætti OVI-kortanna frá Nokia. Nú er gefinn kostur á aksturs- og leiðsögn á ýmsum tungumálum og skilst mér að senn sé íslenska væntanleg.

Ég prófaði gönguleiðsögnina í kvöld. Hún lofar góðu. Nöfn gatna sem farið er yfir birtast og hægt er að fá ýmsar aðrar upplýsingar svo sem húsnúmer o.s.frv. Nokkrir hnökrar eru þó á lestrinum en það stendur væntanlega til bóta. Þetta er einungis fyrsta tilraunaútgáfan og miðað við upphafið lofar framhaldið góðu.Lesendur bloggsins fá væntanlega að fylgjast með helstu tíðindum af þessum vettvangi.

Til mín hringdi einn lesandi þessa bloggs fyrir nokkru og vildi vita hvers vegna ekkert heyrðist frá blindu eða sjónskertu fólki um þessa tækninýjung sem talsvert hefur verið ritað um hér í sumar. Ég kann engin svör við þessari spurningu, veit ekki einu sinni hvort þessi hópur les yfirleitt bloggsíður. Ég þekki að vísu örfáa einstaklinga í hópi blindra og sjónskertra sem hafa gaman af Hljóðblogginu en engan sem lítur inn á þetta blogg nema ef vera skyldi Gísli Helgason og Birkir Rúnar Gunnarsson. Hins vegar hefur verið ánægjulegt hversu margir einstaklingar, tæknilega sinnaðir, hafa birt athugasemdir á þessu bloggi um hvað eina sem snertir tækniframfarir í þágu blinra og sjónskertra.


Góður dagur með GPS-leiðsögn

Ég gekk hring um Seltjarnarnesið í dag og fór andsælis, en það hef ég ekki gert áður á eigin spýtur. Ástæðan er sú að kennileiti eru ógreinileg og ég þarf að hafa fyrir því að finna hliðarreinina af stígnum yfir á Suðurströnd.

Ég undirbjó ferðina með því að kveikja á gps-búnaði farsímans og opna Loadstone-leiðsöguforritið sem er sérstaklega hannað handa blindu fólki. Ég ákvað síðan hvaða leiðarpunkta ég léti forritið lesa upp sjálfkrafa og gekk það að mestu eftir. Eftir að ég lagði af stað áttaði ég mig á því að með örvalykli símans var hægt að færa bendilinn á næsta punkt og fylgjast með því hvað ferðinni liði. Með því fékkst mun nákvæmari staðsetning. Þannig fann ég bekk við sjávarsíðuna sunnanmegin og fleiri kennileiti skiluðu sér ágætlega.

Ég fór villur vegar þegar ég beygði yfir Suðurströndina yfir á stíginn fyrir vestan bifreiðastæðið við Bakkatjörn. Þá kom kerfið sér vel. Með því að miða við fjarlægð síðasta punkts og í hvaða átt hann væri áttaði ég mig á villu míns vegar og komst á rétta leið. Eftir það var fátt um punkta framundan. Ég hafði markað hliðarreinina við Suðurströnd og bekk þar nærri. Á leiðinni að Gróttufjöru skráði ég nokkra punkta.

Eftir að ég fór að fylgja Norðurströndinni birti síminn fljótlega upplýsingar um að bekkurinn við Suðurströnd (hefði átt að merkja hann öðruvísi) væri 1,7 km framundan. Á leiðinni fann ég fleiri bekki og skráði þá í gagnagrunninn. Þegar ég fann síðasta bekkinn voru enn 300 m að bekknum v. Suðurströnd og bar ég þá brigður á hæfni forritsins því að ég hélt að ég væri komin nær Suðurströndinni. En viti menn. Ég hélt áfram að nálgast áður nefndan bekk og þegar 20 metrar voru eftir að honum gerði tækið mér viðvart. Ég hreyfði nú örvalykilinn, fékk nákvæma staðsetningu og fann bekkinn. Forritið hélt því fram að 3 m væru eftir að bekknum en hann var þá þar. Þá minntist ég þess að ég hafði staðið við austurenda hans þegar ég skráði hnitið.

Hliðarreinina fann ég síðan. Ég komst slysalaust yfir Norðurströndina og að umferðarljósunum á mótum Suðurstrandar og Nesvegar. Mikið er bagalegt að ekki skuli vera þar hljóðljós. En yfir álpaðist ég, síðan yfir Nesveginn en var þá eitthvað annars hugar og rak mig rækilega á ljósastaurinn. Var það mjög hressandi.

Ég var með lítið heyrnartól í vinstra eyranu og hlustaði á símann greina frá punktunum. Eiginlega þyrfti ég að fá mér lítinn hátalara sem ég gæti tengt við farsímann, hengt um hálsinn og hlustað á. Þá tapaði ég ekki hluta umhverfishlustunarinnar.

Ég hlustaði í dag óvenju grannt eftir ýmsum kennileitum og varð margs vísari. Kyrrðin var svo mikil að ég heyrði hvar baðskýlið er sem sjóhundar nota og fleira skynjaði ég eins og hákarlahjallinn v. Norðurströnd. Engan fann ég þó ilminn.

Nokkrar lóur skemmtu mér með vetrar- eða haustsöng sínum en krían greinilega farin veg allrar veraldar suður á bóginn. Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér Loadstone-forritið skal bent á síðuna

www.loadstone-gps.com/

Þegar heim kom las ég tölvupóstinn og þar á meðal þessa vísu frá Birni Ingólfssyni, leirskáldi á Grenivík:

Í andkuli haustsins þá uni ég mér,

og alveg er stemningin mögnuð,

þegar spóinn er hættur að hreykja sér

og helvítis lóan er þögnuð.

Ég stóðst ekki mátið og svaraði með þessu hnoði:

Lóuþvarg ei þagnað er,

það er fjör við sjóinn.

Gekk ég út að gamna mér,

þá gargaði ekki spóinn.


Vanþekking vefsíðuhönnuða

 

Ég hef aldrei skilið þá meinbægni hönnuða spjallsíðna að krefjast þess að menn staðfesti athugasemdir sínar eða hvað eina með því að skrá tiltekna stafi sem birtast á skjánum. Morgunblaðið biður menn að leggja saman tvær tölur. Þess vegna valdi ég Moggabloggið og vegna þess að ég treysti þá blaðinu eða réttar sagt mbl.is sem menningarstofnun sem það er að vísu enn þótt blaðið hafi villst nokkuð af pólitískri leið sinni. Þá ber þess að geta að Morgunblaðið hreppti aðgengisverðlaun Öryrkjabandalagsins fyrir nokkrum árum enda varð það fyrst allra íslenskra fjölmiðla til þess að veita blindu og sjónskertu fólki aðgang að efni sínu. Ekki veit ég til að aðrir fjölmiðlar hafi gengið jafnötullega fram í þeim efnum og Morgunblaðið.

Skjálesarar lesa ekki tölur sem birtast sem myndir á skjá. Engum hefur tekist að skýra fyrir mér hvaða öryggi þessi heimskulega ráðstöfun þjónar, en ýmsir íslenskir vefir hafa apað þetta eftir hönnuðum síðna eins og Google. Google gefur mönnum hins vegar kost á að hlusta á upplesnar tölur sem birtast á skjánum. Upplesturinn er hins vegar svo ógreinilegur að menn þurfa að hafa sig alla við til þess að skilja það sem lesið er enda er muldur og skvaldur á bak við tölurnar.

 


"Horft í kringum sig"

Ég hefði ef til vill átt að skýra þessa færslu "Hlustað í kringum sig".

Veðrið var svo gott í dag að ég ákvað að gera frekari tilraunir með GPS-símann og Loadstone-forritið og hélt því út á Seltjarnarnes. Gekk ég sem leið lá í áttina að golfvellinum og voru eftirtaldir punktar merktir: Ljósin v. Suðurströnd, gangbraut á móts við Íþróttamiðstöðuna, göturnar sem liggja að sjónum frá Suðurströnd, höfnin, tvær gönguleiðir niður að sjó og einn bekkur. Bætti ég þessum áfangstöðum við aðra sem fyrir voru í gagnagrunni símans.

Því næst var haldið áfram og snúið við þar sem beygt er þvert yfir nesið.

Í stuttu máli sagt þá fann síminn kennileitin aftur og áttaði ég mig þá á því að ég gat farið mun hraðar þegar ég þurfti ekki stöðugt að hafa auga eða eyra með því hvar kennileitin voru. Hvíti stafurinn er framlenging handleggjanna og leitarsvæði hans er takmarkað. Hannn varar samt við nálægum hindrunum en ekki þarf stöðugt að þreifa eftir tilteknum kenniletum fyrr en komið er að þeim. Þó er ætí dálítil ónákvæmni eins og þeir, sem nota GPS-tæki vita.

Ég lærði einnig að ég þurfti að leita uppi þann áfangastað sem ég ætlaði til og gat valið hvaða kennileiti voru birt á leiðinni. Ég valdi þau öll og fylgdist með því hvernig ég nálgaðist hvert og eitt þeirra.

Við gönguljósin sem eru skammt austan við eiðistorg var dálítið kraðak. Loadstone-forritið birtir upplýsingar um þann leiðarpunkt sem næstur er og komu því til skiptis upplýsingar um ljósin og torgið. Þegar ég sneri mér birti tækið heiti þeirra staða sem ég sneri að hverju sinni svo að þetta var dálítið eins og að horfa í kringum sig.:)

Þótt þetta sé hálfgerður leikur er þetta samt ótrúleg lífsreynsla.


Í strætó með GPS-OVI að vopni

Í morgun átti ég erindi upp í Hamrahlíð 17 að kaupa mér vökvaskynjara. Hann er lítið tæki sem sett er á ílát. Þrír teinar skaga ofan í ílátið. Þegar vökvi snertir þá pípir tækið og titrar og eykst hraðinn eftir því sem hellt er meiri vökva í ílátið. Tilgangur minn með þessum kaupum var að hlífa fingurgómunum við heitu vatni, en þannig mæli ég yfirleitt magn vökva sem ég helli í ílát.

Nú þekki ég allvel leið strætisvagnsins upp í Hamrahlíð og sló því inn Hamrahlíð 17 í leit OVI-kortsins. Síðan stillti ég á leiðsögn og tók næsta vagn nr. 13.

Vitaskuld fór vagninn ekki þær leiðir sem leiðsögubúnaðurinn lagði til. Ég fylgdist með tímanum. Þó lá við að ég færi framhjá biðstöðinni við MH. Tækið skipaði mér tvisvar að taka U-beygju eftir að strætisvagnastjórinn skirrðist við að beygja inn í Stakkahlíð, en allt fór þetta vel að lokum. Ég hafði svo sem vellt fyrir mér áður en ferði hófst að rétt væri að skrá annað heimilisfang, t.d. Hamrahlíð 10 sem er heimilisfang Menntaskólans við Hamrahlíð.

Ég lauk erindum mínum og heppnaðist að taka næsta vagn út á Nes. Síðasti hluti þeirrar leiðar var ágætur. Eftir að komið var inn á Meistaravelli kom leiðsögubúnaði Nokia og bílstjóranum (sem auðvitað vissi ekkert um tilraunina) ágætlega saman. Þegar 300 metrar voru eftir að áfangastaðnum hringdi ég bjöllunni og rétt áður en vagninn nam staðar tilkynnti búnaðurinn að ég væri kominn í höfn.

Greinilegt er að þessi búnaður getur komið að nokkrum notum ef réttar upplýsingar eru skráðar. Vissulega væri það mikill kostur ef tækið birti með tali heiti þeirra gatna sem ekið er um. Þar sem Nokia-kerfið er ekki að öllu leyti aðgengilegt er erfitt að rjúfa leiðsögnina til þess að athuga hvar menn eru staddir hverju sinni enda er óvíst að kerfið veiti slíkar upplýsingar.

Það væri skemmtileg lausn að fá hnitakerfi leiða Strrætós og setja það inn í Loadstone-forritið sem ég fjallaði um í síðustu færslu. Hugsanlega finnst miklu betri lausn á þessu. En tilgangurinn með þessum skrifum mínum og tilraunum hlýtur að vera sá að auka lífsgæði þeirra sem eru blindir eða sjónskertir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband