Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Android og aðgengi blindra

Eins og fram hefur komið virðist Nokia-simbian farsími minn að verða ónothæfur. Eftir að hafa leitað fann ég engan sem mér hentaði og þarf að sérpanta þá.
Eftir að hafa leitað fyrir mér héldum við hjónin í Elkó í Smáralind og fóru leikar þannig að keyptur var Samsung Galaxy SIII ásamt þráðlausu lyklaborði. Þegar tölvufróður maður kom að málinu varð þjónustan til fyrirmyndar og fór ég fram á aðstoð við uppsetningu símans og aðlögum að þörfum blindra.
Eftirfarandi þjónusta var fúslega veitt og sumt var að frumkvæði afgreiðslumannsins, Alexanders:

1. Talkback skjálestrarforritið var sett upp.
2. Náð var í eSpeak og íslenskan sett inn.
3. Þráðlausa lyklaborðið var virkjað.
4. Gmail-pósturinn var virkjaður.
5. Tengiliðir voru fluttir í símann.
6. Síminn var uppfærður í nýjustu útgáfu Jellybean, sem fáanleg er, en símarnir sem Elkó selur eru með þessu kerfi nú þegar.

Heilmikið er framundan við að læra á símann. Má m.a. nefna að ná tökum á snertiskjánum og átta sig á uppbyggingu stýrikerfisins. Það auðveldar sumt að hægt er að tengja símann tölvu með USB-tengi og færa þannig á milli skrár eins og rafbækur, hljóðskrár o.fl.
Ég hef því væntanlega sagt skilið við Mobilespeak (farsímatal) eftir 10 ára notkun. Það er að mörgu leyti þægilegt kerfi. En nýjum aðstæðum fylgja nýjar áskorunarábyrgð.


Rafræn skilríki og vandamál vegna vefvafra

fyrir nokkru fór að bera á vanda við að nota rafræn skilríki á debet-korti til þess að ná sambandi við banka og aðrar stofnanir.
Nú hefur keyrt svo um þverbak að ég næ hvorki sambandi með firefo 18x né Internetexplorer 9. Hins vegar verkar Googlechrome.
Þá kemur upp sá vandi að googleChrome les ekki alla hnappa eða táknmyndir, sem notaðar eru í bönkum og stend ég því uppi ráðafár. Starfsmenn Íslandsbanka kannast við þetta vandamál og starfsmaður Auðkennis, sem hefur umboð fyrir hugbúnaðinn sem notaður er, sagði mér að erfitt væri sænskum framleiðendum að fylgja eftir þróun netvafranna. Fyrir vikið er mér tjáð, tjáð, þegar ég reyni að komast inn, að skilríkið sé útrunnið eða ógilt. sumar stofnanir segja mig ekki hafa leyfi til að skyggnast inn á vfsíður og þurfi að leita samninga við rétthafa þeirra. Þá eru á öðrum heimasíðum gefnar leiðbeiningar um aðgerðir sem hægt er að grípa til í Windows Explorer. Þrátt fyrir ítarlega leit hef ég ekki fundið nein gögn sem eiga við vandamálið.

Ég taldi rafræn skilríki af hinu góða og ætla að halda því áfram um sinn. En þessi vandræði geta vissulega valdið fólki miklum töfum og jafnvel fjárhagstjóni.

Í kvöld sótti ég greiningarforrit frá auðkenni og gangsetti það. Greiningarforritið greindi enga bilun og fullyrti að skilríkið væri gilt. Því á ég enga sök í þessu máli heldur verð ég að leita réttar mínns hjá Auðkenni.


Rafbækur opna nýjar víddir

 

Þegar Bókatíðendum er flett kemur í ljós að útgáfa rafbóka hefur aukist og koma nú mun fleiri rafbækur út en í fyrra. Allmargar þeirra eru endurútgefnar bækur og er það vel.

Ýmsar leiðir er hægt að fara til þess að lesa rafbækur. Margir velja sér rafbókalesara, en aðrir nota tölvurnar. Hlynur Már Hreinsson vakti athygli á viðbót við Firefox-vefskoðarann, sem nefnist Epubreader. Forritið er sáraeinfalt og dugar til að lesa flestar rafbækur. Það er þó vart sambærilegt við forrit eins og Digital Editions frá Adobe eða EasyReader frá Dolphin Computer Access, sem er sérhannað handa blindum eða sjónskertum lesendum. En Epub-lesarinn á Mozilla er þjáll í notkun og full ástæða til að benda fólki á hann.

 

Frágangur rafbóka

 

Að undanförnu hef ég keypt rafbækur frá Skinnu og Emmu og hafa þær allar verið aðgengilegar þeim tækjum og tólum sem ég nota. Ég hef þó orðið var við að frágangur rafbókanna er mjög misjafn. Nokkrar skáldsögur hef ég keypt eða halað niður þeim sem eru ókeypis. flestar eru vel frá gengnar, auðvelt að blaða í þeim, fletta á milli kafla, greinaskila o.s.frv.

 

Enn er lítið til af hand- og fræðibókum sem gefnar hafa verið út sem rafbækur á íslensku. Lýðræðissetrið virðist einna athafnasamast á þessum vettvangi, en það hefur gefið út 5 rit: Lýðræði með raðvali og sjóðvali á fjölda tungumála, Bókmenntasögur, Hjáríki, Þróun þjóðfélagsins og Sjálfstæði Íslands. Þessar bækur eru allar eftir Björn S. Stefánsson, sem stendur fyrir Lýðræðissetrinu. Það er þeim sammerkt að þær eru vel upp settar og firna vel frá þeim gengið. Frágangur hefur verið í höndum fyrirtækisins Tvístirnis.

 

Eina rafbók, ævisögu þekkts stjórnmála- og fræðimanns keypti ég um daginn. Hún er skemmtileg aflestrar. Nokkuð vantar þó á að hún sé skipulega uppbyggð sem rafbók og virðist ókleift að nota hefðbundnar rafbókaaðferðir til þess að fletta bókinni.

Vafalaust er hér um barnasjúkdóma rafbókanna að ræða. En fyrirtæki eins og http://www.skinna.is/ þarf að leggjametnað sinn í að bækur, sem teknar eru til sölu, standist kröfur sem gerðar eru um gæði og uppbyggingu rafbóka.

 

Nýr heimur

 

Þegar blaðað er í Bókatíðindum verður ljóst að úrval rafbóka er orðið svo mikið hér á landi að það opnar ýmsum, sem geta ekki nýtt sér prentað letur, nýjan heim. Vænta má þess að fræðimenn sjái sér aukinn hag í að gefa út rit sín með þessum hætti. Má nefna sem dæmi eina af fáum fræðibókum, sem komið hafa út að undanförnu, en það er bókin Dr. Valtýr Guðmundsson, ævisaga. Þótt umbroti bókarinnar sem rafbókar sé nokkuð ábótavant er þó mikill fengur að henni. Á höfundurinn, Jón Þ. Þór, sagnfræðingur, heiður skilinn fyrir framtakið.

 


Jákvæð viðhorf hjá ríkisskattstjóra

Fyrir þremur árum var á þessum síðum greint frá samskiptum mínum við embætti ríkisskattstjóra, en þeim lauk með talssverðum endurbótum á vefnum. Átti ég einkar ánægjulegt samstarf við einn af starfsmönnum embættisins, Einar Val Kristinsson auk ríkisskattstjóra sjálfs, Eggerts Skúla Þórðarsonar.

Eftir að rafræn skilríki komu til sögunnar og voru virkjuð á vef ríkisskattstjóra, varð öll vinnsla auðveldari. Í gær kom í ljós, sem ég hafði reyndar vitað, að svokallaðan alt-texta vantaði við hnapp, sem styðja þarf á til þess að virkja rafræn skilríki. Skjálesarinn las einhverja stafarunu sem í raun sagði fátt um hvað hnappurinn snerist. Því rifjaði ég upp bréfaskipti okkar Einars Vals og sendi honum línu. Viti menn. Svar barst um hæl þar sem mér var þökkuð ábendingin og sagt að textinn væri kominn.

Í dag leit ég inn á heimasíðuna, enda stendur nú til að gera skil á opinberum gujöldum. Hnappurinn var á sínum stað með textanum "Innskráning með rafrænum skilríkjum". Þetta er til hreinnar fyrirmyndar og lýsir vel góðri þjónustulund.

Svona eiga sýslumenn að vera, eins og Skugga-Sveinn mælti hér um árið. og "þjóna alþýðunni" eins og Mao formaður vildi

Gott aðgengi að vefnum sparar bæði fé og fyrirhöfn. Fróðlegt væri að vita hvort einhverjir, sem eru blindir eða svo skjónskertir að þeir þurfa á stækkuðu letri eða blindraletri að halda, nýti sér þær leiðir sem opinberir þjónustuvefir hafa opnað með rafrænum skilríkjum og aðgengilegum vefsíðum.


Farsímavefur mbl.is fær verðskulduð verðlaun

 

Um helgina var Farsímavefur Morgunblaðsins,http://m.mbl.is/ verðlaunaður á vefsýningu sem haldin var í Smáralind. Er mbl.is óskað til hamingju með verðlaunin.

Morgunblaðið hefur lengi verið í fararboddi þeirra fjölmiðla sem gert hafa aðgengilega vefi á Íslandi. Öryrkjabandalag Íslands veitti Morgunblaðinu aðgengisverðlaun árið 2003, en blaðið hóf þegar á 10. áratug síðustu aldar að gera efni þess aðgengilegt blindum tölvunotendum. Til gamans má þess geta að fyrstu þreifingar um aðgang blindra að Morgunblaðinu fóru fram sumarið 1984, en þá veltu starfsmenn Blindrabókasafns Íslands því fyrir sér hvort festa ætti kaup á blindraletursprentvél af tegundinni Braillo 270. Í samræðum mínum við Jan Christophersen, forstjóra Braillo, kom fram  að norskt textavinnslukerfi, sem Morgunblaðið notaði, hentaði ágætlega til þess að framleiða efni með blindraletri. Morgunblaðið sá  sér ekki fært að taka þátt í slíkri tilraun, enda notendahópurinn örfámennur um þær mundir. Hugsanlega hefði lestur efnis á blindraletri tekið nokkurn kipp ef farið hefði verið að prenta valið efni úr Morgunblaðinu um þetta leyti. En Blndrafélagið hafði þá þegar hafið útgáfu hljóðtímarits og hafa vafalaust ýmsir félagsmenn þess talið að eftirspurn eftir blaðaefni væri þannig fullnægt.

Fréttina um verðlaunin er á þessari vefslóð

 

 http://mbl.is/frettir/taekni/2011/03/15/farsimavefur_mbl_is_verdlaunadur/

 


Hverjum hlífir Hæstiréttur?

 

Ritaðu tölurnar að neðan í boxið og smelltu á hnappinn til að birta heimasíðu Hæstaréttar. Það má komast hjá þessu innskráningarskrefi með því að leyfa "cookies" í vafranum þínum.

 

Þessi tilkynning er enn á heimasíðu Hæstaréttar Íslands. Blindum og sjónskertum tölvunotendum ásamt ýmsum öðrum er þannig meinaður aðgangur að síðunni. Ástæðan er leyndarhyggja Hæstaréttar.

 

Nú verður hafist handa við að vinna í þessu máli. Lesendur bloggsins fá að fylgjast með því sem gerist. Menn geta enn gert athugasemdir við næstu færslu á undan og er fólk eindregið hvatt til þess.

Þá er skorað á þingmenn að taka upp utan dagskrár á Alþingi umræðu um aðgengi blindra, sjónskertra og lesblindra að upplýsingum hér á landi. Hingað til virðast fáir þingmenn hafa sýnt málefnum þessara hópa áhuga. Nú verður það að breytast.

 

 


Sjálfur Hæsti réttur Íslands hamlar aðgengi blindra og sjónskertra að heimasíðu sinni

Í umfjöllun sinni um dóm Hæsta réttar vegna stjórnlagaþingkosninganna hefur að engu verið fjallað um þá annmarka sem voru á framkvæmd kosninganna og bitnuðu á blindu og sjónskertu fólki.

Ég hugðist því leita að gögnum á heimasíðu réttarins í gær um þessi mál og komst þá að því að síðan er glóruleysingjum ekki aðgengileg. Ég hef að vísu vakið athygli réttarins á þessu áður en sendi meðfylgjandi bréf:

„Heiðraði móttakandi.

Ég hef orðið var við þann annmarka á heimasíðu réttarins að hún er ekki aðgengileg. Notendur eru beðnir að skrá tölur sem birtast á skjánum. Þeir sem eru blindir eða sjónskertir og nota skjálesara eiga óhægt um vik.

Ég vænti þess að Hæstiréttur leggi áherslu á að gera aðgengi að gögnum réttarins sem best úr garði. Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að bæta úr þessum annmarka? Sé svo, hvenær má þá vænta úrbóta?

Virðingaryllst,

Arnþór Helgason, fv. formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands“

Í dag barst svar skrifstofustjóra réttarins:

„Góðan daginn. Á heimasíðu Hæstaréttar eru birtir allir dómar réttarins frá 1. janúar 1999 og meginreglan er sú að þeir séu birtir með nöfnum aðila og jafnvel vitna. Margir aðilar gerðu athugasemdir við að leitarvélar t.d. google, fyndu nöfn þeirra í dómum réttarins, stundum allgömlum og töldu viðkomandi að með því væri vegið gegn persónuvernd sinni. Tæknimenn Hæstaréttar reyndu nokkrar leiðir til að takmarka leit leitarvéla á heimsíðunni, en aðrar en sú sem valin var og þú kvartar yfir reyndust ekki skila fullnægjandi árangri. Af þessari ástæðu eru ekki uppi áform um að breyta gildandi fyrirkomulagi varðandi aðgengi að heimasíðu Hæstaréttar.

Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri.“

Nú sídegis var eftirfarandi svar sent:

„Góðan dag, Þorsteinn.

Það er hægt að ná svipuðum árangri með því að nota spurningar eins og birtast t.d. á Morgunblaðsblogginu þegar athugasemdir eru gerðar. Þá er t.d. spurt:

Hver er summan af 5 og 9

Myndir af tölum, sem ekki er hægt að skynja með skjálesurum, fela í sér ákveðna mismunun, sem er ekki Hæsta rétti samboðin. Hægt er að setja sérstakan búnað á síður sem les upp tölurnar fyrir þá sem þurfa þess með. Einnig væri hægt að nota svipaðar aðferðir og bankarnir, þegar menn fá sendar tölur í farsíma og geta lyklað þær inn.

Ég vænti þess að Hæsti réttur taki þessi mál til úrlausnar.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason

Arnþór Helgason,

Tjarnarbóli 14,

170 Seltjarnarnesi.

Símar: 5611703, 8973766

Netfang: arnthor.helgason@simnet.is“

Ég hef hugsað mér að fylgja þessu máli eftir. Æskilegt væri að heildarsamtök fatlaðra tækju málið upp á sína arma.

Nú kemur okkur í koll að ekki skyldu sett lög um aðgengi að upplýsingum og er raunalegt til þess að vita að engin alþingismaður, jafnvel ekki þeir, sem hagsmuna eiga að gæta, skuli hafa haft forgöngu um jafnsjálfsögð mannréttindi og aðgengi að upplýsingum.


Tölvustríðið og öryggi almennings

Í gær hugðist ég fara inn í heimabankann minn og færa fé af einum reikningi á annan. Að undanförnu hef ég notað til þess rafræn skilríki á debet-korti. Nú brá svo við að ég komst ekki inn í bankann með kortinu.

Þegar ég hafði samband við bankann var mér tjáð að eitthvað væri að í gagnagrunni hans og væru rafræn skilríki óvirk. Nú held ég að þessi debet-kort séu með einum eða öðrum hætti tengd kortafyrirtækjunum og þau hafa skorið upp herör gegn Wikileaks. Kortafyrirtækin eru þannig orðin handbendi Bandaríkjamanna og annarra sem telja sig eiga um sárt að binda vegna "skjalalekans".

Í heimsvæðingunni, sem fáir hafa farið varhluta af, verður hver öðrum háður og almenningur verður ofurseldur valdi stórfyrirtækja. Rafræn skilríki þóttu talsverð framför og ímyndaði ég mér að þau gætu opnað ýmsum hópum aðgang að þjónustuveitum sem annars voru lokaðar. Skjátlaðist mér? Verð ég ef til vill enn háðari duttlungum kortafyrirtækjanna með því að nota rafræn skilríki?


Baráttan um frelsi eða helsi

Á Rás tvö var athyglisvert viðtal í dag við Ólaf Sigurvinsson, stofnanda íslensk-svissneska tölvufyrirtækisins Datacell. Lýsti hann þeim þrýstingi og hótunum sem fyrirtæki hans er beitt til þess að úthýsa Wikileaks-síðunni. Vakti hann athygli á þeirri staðreynd að gögnunum, sem Wikilinks hefur birt, hefur verið komið fyrir hér og þar í veröldinni og því þurfi að ráðast að fleiri fyrirtækjum en Datacell.

Fyrir hlustendum laukst upp sú óþægilega staðreynd ao ýmis stórfyrirtæki, sem telja hagsmunum sínum ógnað, væntanlega vegna ógnana stjórnvalda, telja sig hafa aðstöðu til þess að kúga viðskiptavini sína til hlýðni og bandarísk yfirvöld ráða miklu um stöðu þessara fyrirtækja. Á Ólafi mátti þó skilja að hann hygðist ekki láta undan þrýsgingnum, enda gæti kúgunin snúist gegn stórfyrirtækjunum og svipt þau viðskiptum.

Um það leyti sem Stefán Jónsson, fyrrum fréttamaður og þingmaður, faðir Kára Stefánssonar, hóf að rita sína síðustu bók, "Að breyta fjalli", átti ég við hann eitthvert erindi. Eins og gerðist og gekk fórum við um víðan völl og sagði Stefán mér að nú heði sér verið fengin tölva til afnota. "Þetta er nú meira dýrðartækið," sagðihann. "Ef eitthvað verður til þess að hrinda ofríki auðvaldsins og bandarískra heimsvaldasinna (hann talaði sem sannur kommúnisti) þá verður það þessi tækni, þegar alþýðan fær beislað hana."

Skyldu þessi orð Stefáns vera í þann mund að rætast um þessar mundir? Hugsanlega á eftir að hrikta í innviðum ýmissa samfélaga vegna tölvutækninnar og þess að hún getur rofið svo gríðarlega einangrun um leið og hún getur einangrað þá sem ánetjast henni. Þá skiptir miklu hvernig tæknin verður nýtt.


Andvaraleysi og ófarir

Sitthvaðhefur borið til tíðinda að undanförnu og hef ég orðið fyrir tvenns konar hremmingum, misskemmtilegum.

Á fimmtudaginn var hélt ég gangandi frá Hlemmi í átt að Nóatúni 17. Veðrið var þokkalegt, næstum logn en örlítill vestan ískaldur andvari.

Eitthvað var ég annars hugar og sté í ógát út af gangstéttinni. Það kom svo sem ekki að sök en ég rauk upp á gangstéttina aftur og uggði ekki að mér. Skeytti ég engu um umferlisreglur sem ég hef kunnað í nokkra áratugi og hlaut árangur erfiðis míns. Varð fyrir mér ljósastaur og móttökurnar heldur óblíðar. Við höggið fann ég að vökvi seytlaði niður andlitið og taldi óvíst að ég gréti. Brátt leyndi sér ekki að blóð hljóp úr nösum mér og varð vasaklútur minn gegndrepa þegar ég þerraði það af mér. Sem betur fór hafði ég meðferðis heilmarga pappírsklúta og þarraði blóðið þar til rennslið stöðvaðist að mestu. Þá var hringt á leigubíl. Kom sér þá vel að hafa staðsetningartækið því að ég gat sagt símastúlku Hreyfils hvar ég væri staddur.

Ekki þarf að spyrja að því að heimleiðis hélt ég og þvoði þar almennilega framan úr mér.

Í morgun varð ég fyrir annarri reynslu sem kom þó ekki að sök og skaðaði hvorki sjálfan mig né aðra. Í vagninum sem ég ferðaðist með var ekkert leiðsagnarkerfi. Herdís, mágkona mín, hefur greinilega gleymt að tilflytjast í þann vagn en væntanlega stendur það til bóta. Ég leitaði uppi áfangastað með aðstoð símans og OVI-búnaðarins. En nú brá svo við að síminn missti hvað eftir annað samband við gervitungl og varð leiðsögnin eftir því kolröng. Hélt ég að eitthvað væri að og prófaði því tækið eftir að ég fór út úr strætisvagninum. Reyndist þá allt vera með felldu.

Mönnum er að vísu tekinn vari v ið að treysta um of á GPS-leiðsögn innan borga. Ég hef þó ekki reynt það fyrr en í dag að sambandsleysið væri slíkt að leiðsögutækið vissi vart sitt rjúkandi ráð. Velti ég fyrir mér hvort skýringarinnar sé að leita í því að ég sat í fremsta farþegasæti hægra megin. Fyrir framan mig var einhver tækjakassi sem kann að hafa truflað tækið. Gæti veðrið hafa skipt máli? Þoka var á og ímynda ég mer að lágskýjað hafi verið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband