Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Brotið gegn upplýsingastefnu stjórnvalda - hugsanlegt staðgreiðsluverkfall

Kjartan Sverrisson skrifar þarfa athugasemd við síðustu bloggfærslu mína og bendir á að ekkert alvöruhugbúnaðarhús láti frá sér fara vef án þess að hann uppfylli aðgengi 1 eins og það er skilgreint af Sjá. Það er athyglisvert að lesa þessa athugasemd frá Kjartani í ljósi þess að ENGINN forystumaður samtaka fatlaðra hefur séð ástæðu til þess að hafna athugasemdum mínum eða taka undir þær.

Ég átti hlut að máli þegar þessi skilgreining sem notuð er við vottun aðgengis að heimasíðum var gerð. Ég hef síðan tekið þátt í að votta heimasíður með því að athuga tiltekin atriði sem þurfa að vera aðgengileg áður en síðurnar eru vottaðar. Þetta hef ég gert mér til mikillar ánægju.

Aðgengi að heimasíðum fyrirtækja og stofnana hér á landi er skárra en víða annars staðar og er það vel. Þótt útlit vefsíðna opinberra stofnana fylgi yfirleitt aðgengisstöðlum vantar mikið á að einstakir hlutar þeirra uppfylli þessi skilyrði. Verða hér nefnd nokkur dæmi:

Tryggingamiðstöðöin er eina fyrirtækið sem ég veit um að hafi gert eyðublöð sín aðgengileg þeim sem nota skjálesara. Þau voru sérstaklega hönnuð og notendur hafðir með í ráðum.

Fyrir nokkru var notendum skjálesara gert kleift að telja fram á vefnum og var það framför. Aðrir hlutar úttfyllingaforma ríkisskattstjóra eru ekki vel aðgengilegir. Það slampast með virðisaukaskattinn vegna þess hversu reitirnir eru fáir. En þegar kemur að staðgreiðslu skatta vandast málið. Starfsmaður embættisins hefur viðurkennt fyrir mér að sá hluti versins sé óaðgengilegur. Ríkisskattstjóri sagði mér í samtali að fjárskortur hamlaði. Sannleikurinn er sá að starfsmenn embættisins hafa haft 3 ár í hið minnsta til þess að lagfæra aðgengið og ekkert hefur miðað. Nú horfir til mikils niðurskurðar´hjá embætti ríkisskattstjóra og óttast skúli Eggert Þórðarson að úrbætur geti dregist á langinn. Þetta eru hins vegar ódýrar úrbætur og vel getur verið að skipta þurfi um verkefnisstjóra til þess að úrbæturnar gangi eftir.

Tryggingastofnun ríkisins lét gera talsverðar breytingar á vef stofnunarinnar á síðasta ári og voru þær flestar til mikilla bóta. Eyðublöðin hafa alls ekki verið hönnuð með þarfir sjónskerts fólks í huga. Haustið 2005 var talið að þessu yrði hrint í framkvæmd um leið og ný vefsíða sæi dagsins ljós. Það hefur enn ekki orðið.

Í janúar 2007 skrifaði ég forstjóra Vinnumálastofnunar og vakti athygli á óaðgengilegum eyðublöðum. Þakkaði hann mér fyrir ábendingarnar. Lítið sem ekkert hefur breyst síðan. Nú lætur hann ekki svo lítið að svara fyrirspurnum og starfsmenn stofnunarinnar þverskallast við öllum tillögum um breytingar.

Ég held því statt og stöðugt fram að með framferði sínu leggi forstöðumenn þessara stofnana stein í götu þeirra sem reyna að bjarga sér sjálfir og þurfa að gera það. Mér væri skapi næst að fara í greiðsluverkfall opinberra gjalda og neita að greiða önnur gjöld en þau sem ég get greitt sjálfur. Tæknin er til sem þarf til að útfylla eyðublöð og það er tiltölulega einfalt að breyta forminu þótt vefur sé ekki endurhannaður frá grunni. Fari svo að ég hætti að greiða opinber gjöld væri fróðlegt að láta reyna á það fyrir dómi hvor beri ábyrgðina, ég eða sú stofnun sem hefur lagt stein í götu mína og annarra sem svipað er ástatt um. Hverfi ég hins vegar frá því og reyni að greiða þessi gjöld með því að fá einhvern til aðstoðar, sem þiggur e.t.v. laun fyrir, hver á þá að greiða kostnaðinn? Sá sem uppfyllir ekki skyldur sínar eða hinn sem reynir að standa í skilum og þarf að greiða aðstoðarmanni til þess að inna slík skil af hendi?

Það er ótrúlegt að enginn stjórnarþingmaður skuli taka þetta mál upp og engum virðist detta í hug að setja þurfi löggjöf hér á landi sem tryggi upplýsingaaðgengi fatlaðra. Það er ekki nóg að fága yfirborðið heldur verður verður að vanda undirlagið.


Sýnd veiði en ekki gefin

Það er ótrúlegt að fylgjast með uppátækjum Google-leitarvélaginnar. Mikilvirkari og gagnlegri leitarvél verður vart fundin. Hefur hún leyst margan vanda þótt hún hafi jafnframt valdið vandræðum. Hvoru tveggja fékk ég að kynnast þegar ég starfaði við blaðamennsku á Morgunblaðinu.

Að undanförnu hef ég leitað að fræðigreinum um nokkur álitamál í hljóðritunartækni, einkum atriðum sem fjalla um viðtalstækni. Á leitarvef Google birtast m.a. útdrættir úr fræðiritum um þessi mál.

Galli virðist þó á gjöf Njarðar. Einungis eru myndir af bókasíðunum sem vitnað er í en skjálesarar geta ekki lesið.

Á vegum Landsbókasafns Íslands hefur að hluta verið ráðin bót á þessu vandamáli. En ýmsar villur fylgja með sem ekki voru leiðréttar þegar blöðin eða tímaritin voru skimuð inn. Þessi leið hefur þó opnað ýmsar upplýsingar sem ómetanlegt er að geta gluggað í.

Nú vona ég að bandarísku blindrasamtökin láti hendur standa fram úr ermum og beiti sér fyrir því að aðgengi verði bætt að þeim gríðarlega bókakosti sem Google býður aðgang að - annaðhvort til skoðunar eða kaups.

Hér á landi er nær ekkert fjallað um upplýsingaaðgengi á heimasíðum samtaka fatlaðra og er það miður. Metnaðarleysi forystufólksins ríður hreinlega ekki við einteyming.


Reykjavíkurborg sniðgengur staðla um aðgengi að vefsíðum

Þótt ég búi á Seltjarnarnesi hef ég áhuga áþví sem í boði verður á menningarnótt. Ég fór því inn á heimasíðu Reykjavíkurborgar og fann þar hlekk á síðu menningarnætur.

Útlitið var svipað og í fyrra, en mér var þásagt að úr því yrði bætt í ár. Notað er svokallað flash-skjal ef ég kann að nefna það rétt sem gerir notendum skjálesara óhægt um vik að skoða síðurnar.

Opinberar stofnanir hegða sér sumar hverjar eins og sjónskert fólk eigi ekki rétt á að afla sér þeirra upplýsinga sem í boði eru. Þó verður að taka fram að flestar vefsíður þeirra eru til fyrirmyndar, en nokkur leið dæmi eru um hið gagnstæða. Þannig hefur lítið þokast hjá ríkisskattstjóra og umsjonarmenn menningarnætur eru enn við sama heygarðshornið. Ef til vill er vonlítið að berjast gegn margnum einkum þegar samtök fatlaðra eins og Blindrafélagið og Öryrkjagbandalag Íslands virðast láta sig þessi mál litlu skipta. A.m.k. hef ég lítið séð af áberandi efni á heimasíðum þeirra um aðgengismál.

Dropinn holar steininn og því mun undirritaður ótrauður halda baráttu sinni fyrir bættu upplýsingaaðgengi áfram.


Aðgangur allra verði tryggður

Í kvöld var greint frá því í fréttum Ríkissjónvarpsins að Verkmenntaskólinn á Akureyri sparaði allt að 5 milljónum króna á ári með því að nota opinn hugbúnað á tölvur. Var þar sérstaklega nefndur Linux hugbúnaðurinn.

Þrátt fyrir allt hefur Microsoft fyrirtækið unnið ötullega að því að gera hugbúnað sinn aðgengilegan nær öllum sem geta notað tölvur og fjöldi fyrirtækja vinnur við hugbúnaðarlausnir sem henta ýmsum hópum notenda.

Vitað er að ýmislegt hefur verið gert til þess að aðlaga opinn hugbúnað fólki eins og því sem er blint eða hreyfihamlað. Hér á landi vantar hins vegar alla viðleitni í þá átt og framleiðendur hjálpartækja hafa fæstir treyst sér til þess að vinna með opinn hugbúnað.

Ætli ríkisstjórnin að nýta opinn hugbúnað í ríkara mæli en áður verður að móta stefnu sem kemur í veg fyrir einangrun fatlaðra á þessu sviði. Ríkisstjórn Íslands ætti að hafa forgöngu um þessi mál á vettvangi Norðurlandaráðs. Skyldi eitthvað heyrast í samtökum fatlaðra um þessi mál?


Farsímar geta bætt heilsu fólks

Í þættinum Digital Planet sem er á dagskrá BBC, var greint frá því í gær að japanskur vísindamaður notaði farsímann sinn til þess að fylgjast með mataræðinu. Vísindamaðurinn ber auðvitað á sér farsíma eins og flestir Japanar. Þegar hann fær sér eitthvað að borða tekur hann mynd af því sem er á borðum. Hann sendir síðan myndina til tölvu þar sem hugbúnaður greinir hvað hann hafi borðað og setur upplýsingarnar fram í línuritum sem auðvelt er að lesa úr.

Japanski vísindamaðurinn getur því gert ráðstafanir til þess að breyta mataræði sínu ef í ljós kemur að hann hafi etið of mikið af kjöti, óæskilegum kolvetnum og sykri og aukið grænmetisneyslu sína.

Þetta er einungis eitt af því sem menn hafa látið sér detta í hug til þess að nýta farsímana. Nú er þegar á markaðinum hugbúnaður handa blindu fólki sem les skjöl og annar hugbúnaður gerir fólki kleift að skoða liti á hlutum eða fatnaði, þótt það sé blint. Í Bandaríkjunum er búist við að á næsta ári komi á markaðinn búnaður sem þekki andlit fólks. Þá þarf blint fólk væntanlega ekki lengur að taka þátt í gátuleiknum sem margt sjáandi fólk hefur svo gaman af og kallast "Manstu hvað ég heiti?". Ég svara þessari spurningu yfirleitt þannig: "Kynntu þig" og gildir þá einu hvort ég kannast við málróminn.


Enn af tölvumálum

Ég hef notað Microsoft Outlook 2003 um nokkurt skeið. Nokkuð hefur borið á því að póstur frá mér hafi verið meðhöndlaður sem ruslpóstur. Ég kann enga skýringu á þessu. Ef ég nota Outlook Express virðist flest eða allt komast til skila. Ef til vill verð ég að skipta um póstforrit.

 

Í vor sýktist einnig fartölvan sem ég nota einkum til hljóðvinnslu. Tókst að hreinsa hana en það tekur hana 3-4 mínútur að ræsa skjálesarann Supernova. Raunhæfur tími ætti að vera um 10-15 sekúndur.

Þessi vél er HP Compaq frá 2005. Mér hefur verið bent á að "strauja" harða diskinn eða að skipta um disk. Það er varla að ég þori í slíkar aðgerðir án utan að komandi afskipta.


Þjónum alþýðunni

Nú er liðinn hálfur mánuður frá því að ég skrifaði embætti ríkisskattstjóra og vakti athygli á óaðgengiilegri vefsíðu þar sem fólk getur innt af hendi staðgreiðslu skatta. Þar sem ekkert svar hefur borist hyggst ég leita á fund hans og sýna honum hvernig er í pottinn búið gagnvart blindu eða sjónskertu fólki.

Í raun væri það kjörið upplýsingaverkefni fyrir blind eða sjónskert ungmenni að fara svona upplýsingaherferð til þess að sýna hverju hægt er að áorka með tölvutækninni og hvað geti staðið í vegi fyrir því að fólk sem sér ekki fótum sínum forráð fái þrifist í tölvuumhveri nútímans. Ríkið greiðir fyrir rándýran búnað sem á að auðvelda blindu fólki aðgengi að tölvum. Opinberir atvinnuveitendur og forystumenn einkafyrirtækja vita hins vegar ekki hvað auðvelt er að ryðja ýmsum hindrunum úr vegi. Kannski ætti ég að taka þetta að mér á eigin spýtur í sumar og hefja trúboðsleiðangur. Ég gæti verið með falinn hljóðnema eða myndavél og gert sjónvarpskvikmynd um efnið. Hér með óska ég eftir samstarfsaðila til nokkurra mánaða.


Vefurinn handa öllum en ekki sumum - bréf til ríkisskattstjóra

Ágæti viðtakandi.

Ég hef áður ritað embætti yðar vegna aðgengis að einstökum þáttum skattskila.

Nú vill svo til að ég er á atvinnuleysisskrá en hef dálitlar tekjur af verktakastarfsemi. Ég greiði virðisaukaskatt á tilskildum tíma og er hið rafræna eyðublað ágætlega aðgengilegt þeim sem eru blindir eða sjónskertir.

Ég hugðist greiða staðgreiðslu af tekjum mínum til þess að þurfa ekki að greiða gjöldin eftir á. Rafræna eyðublaðið um staðgreiðsluskil er hins vegar óaðgengilegt. Skjálesarinn les ekki heiti dálkanna og þeir raðast þannig að útilokað er án aðstoðar að fylla í þá. Þó skal tekið fram að starfsfólk skattstofu Reykjanesumdæmis hefur verið mér afar hjálplegt.

Vegna óaðgengilegrar heimasíðu hefur staðgreiðslan tafist. Í raun er lagður steinn í götu þeirra sem eru blindir með því að huga ekki að þessum aðgengisþáttum. Blindum og sjónskertum tölvunotendum á eftir að fjölga að mun hér á landi og búast má við því að þeir vilji hafa sama eða sambærilegan aðgang að þjónustu opinberra stofnana og áður en þeim dapraðist sýn.

Á heimasíðu ríkisskattstjóra kemur fram að stofnuninn hafi verið útnefnd fyrirmyndarstofnun 2009. Þrátt fyrir ábendingar um skort á aðgengi hefur það ekkert lagast undanfarið ár.

Það eru eindregin tilmæli mín að gengið verði svo frá öllum þáttum rafrænna skila að þeir verði aðgengilegir. Það erí þágu allra. Vefurinn á að vera ætlaður öllum en ekki sumum.

Með von um svar,

Arnþór Helgason ***************************************************** Arnþór Helgason, Tjarnarbóli 14, 170 Seltjarnarnesi. Símar: 5611703, 8973766 Netfang: arnthor.helgason@simnet.is Pistlar: http://arnthor.helgason.blog.is


Kínverjar undirbúa þróun risaþotu

Dagblað Alþýðunnar birtir í gær viðtal við Wan Gang, ráðherra tækni og vísinda í Kína. Þar kemur fram að sú tækni, sem þarf til þess að geta hannað og smíða risaþotur, sem uppfylla alþjóðlega gæðastaðla, sé til marks um á hvaða stigiþjóðir séu. Ráðherrann segir að nú sé hafinn undirbúningur að þróun slíkra þotna í Kína og sé það einungis eðlilegur hluti þess starfs sem unnið er að til þess að auka tækniþekkingu Kínverja á öllum sviðum. Ráðherrann lýsir því síðan í viðtalinu hvernig að málum verði staðið. Þegar hafa verið stofnaðir hópar tækni- og vísindamanna til þess að undirbúa verkið. Síðar verða lög að þróun einstakra hluta og framleiðsluferlið undirbúið.

Ráða má af greininni að Kínverjar hyggist hasla sér völl á þessu sviði og segir Wan Gang að það sé einungis eðlilegt framhald af vaxandi sjálfstæði og þekkingu Kínverja á öllum sviðum.


Veiruvarnaforrit

Borðtölvan gafst upp um daginn eins og greint hefur verið frá á síðum þessum. Í gær fengum við hana úr viðgerð frá Örtækni og virðast Hartmann Guðmundsson og hans menn hafa unnið prýðisgott verk.

Þegar við settum vélina í gang aftur birtist Norton og bauðst til að selja okkur uppfærslu á veiruvarnaforriti. Við ætluðum að samþykkja kaupin en þá var ævinlega spurt um cupon. Nú var Nortun settur upp á vélina fyrir nokkrum árum sem tilraunaforrit og veit ég ekki til að við höfum fengið neitt leyfisnúmer. Þess vegna gekk uppfærslan ekki.

Vafa laust þarf að gera einhverjar ráðstafanir til þess að verja heimilistölvurnar árásum galdramanna. Þessar sendingar virðast geta verið býsna skæðar. Þá er einungis eftir að velja réttu lausnina sem tefur ekki allt of fyrir skjálesaranum. Lykla-Pétur dugar varla því að skjálesarinn þolir hann ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband