Færsluflokkur: Vefurinn

Íslandsbanki gefur blindum og sjónskertum snjalltækjanotendum langt nef

Ég mæli með að fólk gefi sér tíma til að lesa þennan tæknipistil.

Fyrir skömmu kom út nýleg útgáfa Íslandsbanka-forritsins fyrir Android-síma.
Í fyrri útgáfu voru ómerktir hnappar sem gerðu að verkum að notagildi þess fyrir þá sem reiða sig á blindraletur eða talgervil var ófullnægjandi. Til dæmis var illmögulegt að millifæra en mjög fljótlegt að greiða reikninga - mun einfaldara en í tölvuviðmóti bankans.

Þann 19. þessa mánaðar fór ég í eitt af útibúum bankans of fékk aðstoð við að setja upp bankaforritið (appið) og þá kom heldur betur babb í bátinn. Verður nú gerð grein fyrir því stórslysi sem orðið hefur í þessari nýju útgáfu.

1. Þegar forritið er ræst í símanum koma upp tölustafir sem menn eiga að nota til að skrifa fjögurra stafa öryggisnúmer. Þegar tölustafirnir eru snertir á síma sem er með skjálesara og talgervli birtir talgervill einungis orðin Pin button winstyle og verða menn því að fikra sig og telja vandlega hnappana til að hitta á réttar tölur. Þarna er notendum talgervla mismunað gróflega.

2. Þegar tekst að opna netbankann koma upp nokkrir möguleikar (nöfn reikninga o.s.frv.)

3. Þegar skoða skal yfirlit reiknings kemur mánuðurinn fram. Þegar fingri er strokið yfir skjáinn titrar hann öðru hverju. Sé stutt á titringssvæðið koma upplýsingar um tiltekna aðgerð s.s. millifærslu. Það er með öðrum orðum engin hljóðsvörun við hnappana.

4. Útilokað virðist vera blindu eða sjónskertu fólki að nýta forritið til millifærslna eða greiðslna þar sem talgervill birtir engar upplýsingar.

5. Þá er ýmis sóðaskapur vaðandi uppi svo sem að stundum eru reikningar kallaðir því nafni en öðru hverju accounts. Því hlýtur að læðast að manni sú hugmynd að þarna sé um fremur lélega þýðingu á erlendu forriti að ræða og alls ekki hafi verið hugað að aðgengi.

Íslandsbanki hafði á sínum tíma forystu um aðgang blindra og sjónskertra að bankanum. Átti þar hlut að máli ungur Seltirningur, Einar Gústafsson, sem hafði lagt stund á tölvunarfræði í Bandaríkjunum með sérstakri áherslu á aðgengi. Nú virðist sú þekking vera næsta takmörkuð hjá Íslandsbanka.

Þeim fer nú fjölgandi sem gerast gamlir og daprast sjón, en hafa fullan hug á að halda áfram að nota tölvur og snjallsíma eins og áður. Með þessari útgáfu bankans á snjallsímaforritinu er þessum hópi gefið hreinlega langt nef.

Svo virðist sem þetta hafi komið þeim starfsmanni bankans, sem hefur umsjón með aðgengismálum, í opna skjöldu og hefur hann lofað bót og betrun. Greinilegt er að þeir, sem hafa tekið hönnun þessa hugbúnaðar að sér hafa litla sem enga þekkingu á því hvað aðgengi að vefviðmóti er. Hvernig skyldi kennslu háttað á þessu sviði hér á landi?

Þeir tölvunarfræðingar sem kunna að lesa þennan pistil ættu að gera sér grein fyrir að snjallsímar og tölvur eru nú hönnuð með notagildi flestra ef ekki allra í huga. Hið sama á að gilda um forritin.
Íslendingar skera sig nú úr vegna óaðgengilegra forrita eða gerðu til skamms tíma. Ein skemmtileg undantekning er smáforritið "Taktu vagninn" sem nýtist bæði blindum og sjáandi. Hver skyldi skýringin vera?
"Ég fylgdi bara viðurkenndum stöðlum," sagði hönnuðurinn við höfund þessa pistils. Hvaða staðla smiðgengu verktakar og starfsmenn Íslandsbanka?


Magnaður flutningur á Orgelkonsert Jóns Leifs

Það var magnað að hlusta á flutninginn á Orgelkonserti Jóns Leifs á Proms áðan. Netútsending BBC var til svo mikillar fyrirmyndar að hljóðgæðin nutu sín til fulls í góðum heyrnartólum. Mikið væri þess óskandi að Ríkisútvarpið gæti verið með jafngóðar útsendingar á vefnum. Eins og reynslan hefur verið tel ég víst að alls konar yfirtónar rugluðu hljóminn í útsendingunni. Þetta sárnar sumum Seltirningum vegna þess að hlustunarskilyrðin eru hér ekki upp á hið allrabesta og því viljum við hlusta beint af netinu.
Flutningi konsertsins var gríðarlega vel tekið. Í útsendingunni - og e.t.v. hefur það verið svo í salnum - kaffærði orgelið stundum hljómsveitina. Það gerðist reyndar einnig í Hallgrímskirkju hér um árið, þegar Björn Steinar Sólbergsson flutti konsertinn. Undirritaður var svo heppinn að sitja á 3. bekk og naut flutningsins til fulls. En þeim, sem sátu fyrir aftan 5. bekk vað hann algert tónasull, eins og tónskáld nokkurt komst að orði. Í Albert Hall er tónninn fremur þurr af útsendingunni að dæma.


Meinlegur galli í hugbúnaði frá fyrirtækinu Tölvumiðlun

Komið er upp alvarlegt aðgengisvandamál sem taka þarf á.
Nokkur ráðningafyrirtæki, kaupstaðir og stórfyrirtæki hafa keypt sérstakt ráðningakerfi af fyrirtækinu Tölvumiðlun. Við fyrstu sýn reynist kerfið vel uppbyggt og flest aðgengilegt. en þegar kemur að því að velja gögn, sem miðla á með atvinnuumsókn svo sem myndum og skjölum, vandast málið. Hið sama á við um vistun og sendingu umsóknarinnar. Skjálesarinn NVDA virðist ekki ráða við þetta, hvaða brögðum sem beitt er og les hann þó flest, ef aðgengisstaðlar eru virtir. Fyrst hélt undirritaður að vandinn væri eingöngu bundinn við vistunarhnappinn, en svo er ekki.
Eins og vakin var athygli á fyrir skömmu fer því fólki fjölgandi hér á landi sem komið er yfir sextugt og er vant tölvum. Flestir, sem eru sjóndaprir eða blindir, eru einmitt á aldrinum um og yfir sextugt. Þessi hópur hlýtur að krefjast sama aðgengis að upplýsingum og tölvukerfum sem hann hafði áður.
Fyrirtækinu Tölvumiðlun hefur nú verið skrifað öðru sinni og það hvatt til aðgerða. Fleiri þarf til svo að árangur náist. Jafnframt þyrfti Þekkingarmiðstöðin að prófa kerfið með þeim skjálesurum sem í boði eru og þingmenn verða að huga að löggjöf um upplýsingaaðgengi.
Þeim, sem eru blindir eða verulega sjónskertir og sækja um vinnu á almennum markaði hlýtur að hrjósa hugur við því að teljast eins konar gölluð vara. en gallinn er ekki í einstaklingnum heldur hugbúnaðinum sem virðist ekki réttilega hannaður og leggur því stein í götu þeirra sem vilja bjarga sér sjálfir.


Versnandi aðgengi að vefsíðum og máttleysi Öryrkjabandalagsins

Svo virðist sem aðgengi að opinberum vefsíðum fari versnandi hér á landi. Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um að heimasíður skuli aðgengilegar í samræmi við aukið upplýsingaaðgengi virðist sem fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir gleymi þessum þætti.
Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið skýrt á um að leitað skuli tæknilegra lausna til að bæta aðgengi blindra og sjónskertra. Það gleymist iðulega þegar vefur Ríkisútvarpsins er uppfærður og iðulega er ekki hafist handa við að bæta aðgengið fyrr en einhver kvartar.
Síðasta dæmið sem ég hef rekist á er síða Vinnumálastofnunar. Þar getur einstaklingur, sem notar skjálesara, ekki lokið skráningum. Hafi skráningarskjalið verið vistað til bráðabirgða finnur skjálesarinn enga leið til að opna það. Ýmislegt fleira mætti nefna þessari síðu til foráttu, enda sjást engin dæmi þess að hún hafi verið vottuð af til þess bærum aðilum.
Það var sorglegt að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skyldi ekki hafa döngun í sér til þess að setja eða a.m.k. reyna að fá samþykkt lög um upplýsingaaðgengi.
Eitt sinn dáðist vinur Davíðs Oddssonar að því að Davíð hefði þaggað niður í Öryrkjabandalagi Íslands um leið og hann fór í Seðlabankann. Þegar þessu var andæft sagði vinurinn: "Jú, takið eftir að enginn tekur lengur mark á Öryrkjabandalaginu því að við sáum um að planta réttum manni á réttan stað á réttum tíma."
Nú er þessi rétti maður löngu hættur, en einhvern veginn virðist Öryrkjabandalag Íslands vera hálflömuð stofnun sem má sín lítils og formaðurinn ekki einu sinni úr hópi fatlaðra. Að minnsta kosti hefur upplýsingaaðgengið alveg horfið af metnaðarlista bandalagsins. Hvað segja félög eins og Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra og Félag lesblindra við þessari þróun?
Að lokum: Er þetta viðeigandi yfirlýsing á vefsíðu Öryrkjabandalagsins? "...fatlað fólk á rétt á viðeigandi lífskjörum..." Hvaða lífskjör eru viðeigandi fötluðu fólki?
 


Viðbrögð Íslandsbanka til fyrirmyndar

Fyrir nokkru var athygli þróunarstjóra Íslandsbanka vakin á því að örlítið vantaði á að smáforrit bankans fyrir Android-snjallsíma væri aðgengilegt blindu og sjónskertu fólki. Ekki stóð á viðbrögðum.
Í dag átti ég fund með Vali Þór Gunnarssyni, þróunarstjóra Íslandsbanka. Efni fundarins var aðgengi að snjallsímum.
Fórum við yfir smáforrit bankans sem leyfir fólki að skoða innstæður sínar og millifæra á reikninga.
Í forritinu er villa, þar sem talað er um pinn-númer í stað öryggisnúmers. Þá eru tveir hnappar án texta.

Valur greindi frá því að í sumar verði forritinu breytt og bætt við það ýmsum aðgerðum. Þá verður villan lagfærð og þess gætt að heiti hnappanna birtist eða talgervill lesi heiti aðgerðarinnar.

Á fundinum var einnig rætt hvernig hægt væri að vekja athygli á aðgengi sjónskertra og blindra að snjallsímum. Sagði Valur að þótt flestir forritarar vissu hvaða þýðingu aðgengi að vefnum hefði fyrir þennan hóp væri það fáum kunnugt að snjallsímar hentuðu blindu eða sjónskertu fólki.

Hafist verður handa við að vekja athygli forritara á nauðsyn þess að huga að aðgengi að snjallsímum.

fundurinn var í alla staði hinn ánægjulegasti og víst að þróunarstjóri Íslandsbanka á eftir að beita sér í málinu.

Blindir tölvunotendur virðast ekki geta lesið umsagnir á vef Alþingis

Sumarið 2008 vann ég sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Þá var ákveðið að gera aðgengi að vefnum nokkur skil í blaðinu. Varð sú grein m.a. umfjöllunarefni leiðara Morgunblaðsins nokkrum dögum síðar þar sem vakin var athygli á nauðsyn góðs aðgengis að upplýsingum.

Einn þeirra, sem ég ætlaði að ræða við, var Helgi Bernótusson, skrifstofustjóri Alþingis, en hann óskaði eftir skriflegum spurningum. Ein þeirra var um vottun vefsins, sem var þá fremur óaðgengilegur. Kvað hann ekki þörf á vottun því að starfsmenn þingsins væru færir um þetta. Þegar ég lýsti furðu minni á þessu svari jós hann yfir mig skömmum og sagðist aldrei hafa fyrr orðið fyrir því að blaðamaður tæki afstöðu til svars viðmælanda síns. Ákvað ég því að nenna ekki að elta ólar við hann þrátt fyrir mótmæli ritstjóra sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

Nú vill svo til að ég þarf að kynna mér nokkrar umsagnir á vef Alþingis. Þær eru vistaðar sem óaðgengileg pdf-skjöl - einungis mynd af textanum. Því var ritstjóra vefsins sent eftirfarandi bréf.

 

"Ágæti viðtakandi.

 

Ég þarf að kynna mér nokkrar umsagnir vegna mála sem nefndir Alþingis hafa til umsagnar. Skjölin eru vistuð á pdf-sniði.

 

Þegar ég opna skjölin kemur í ljós að um mynd af texta er að ræða sem skjálesarar skilja ekki. Þessi hluti vefsins er því óaðgengilegur blindum tölvunotendum.

 

Hvað veldur og hvenær má vænta úrbóta?

 

Hefur vefur Alþingis vefið tekin út og vottaður?

 

Virðingarfyllst,

 

Arnþór Helgason

 

---

 

 

 

Arnþór Helgason, vináttusendiherra,

 

Tjarnarbóli 14,

 

170 Seltjarnarnesi.

 

Sími:    5611703

 

Farsími:          8973766

 

Netföng:          arnthor.helgason@simnet.is

 

                        arnthor.helgason@gmail.com

 

http://arnthorhelgason.blog.is

 

http://hljodblog.is"


Glaðsheimur - vel heppnað tónverk

Á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld var verkið Glaðsheimr eftir Oliver Kentish, einkar áheyrilegt og glaðvært hátíðarverk, samið árið 2010 Hörpu til heiðurs. Verkið var með íslensku ívafi og vel heppnað. Oliver Kentish eru færðar einlægar hamingjuóskir með vel heppnaða tónsmíð.

 

Útsendingin á netinu er hins vegar afleit hjá Ríkisútvarpinu og skilar alls ekki þeim hljómgæðum sem til er ætlast.

Öllu verri var þó hroðvirknisleg kynning verksins á vefsíðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands:

 

Kynning á heimasíðu Sinfóníuhljómsveitarinnar

„Í Gylfaginningu er sagt frá Glaðsheimr sem var samkomuhöll á Iðravöllum í Ásgarði og mun þar gleði jafnan hafa ríkt. Konsertforleikurinn Glaðsheimr eftir Oliver Kentish vísar í þessa frásögn en eiginleg tilurð verksins er þó nýja tónlistarhúsið okkar, Harpa. Verkið er samið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og frábæran hljómburð Eldborgar í huga og bera blæbrigðarík skrif tónskáldsins þess glöggt merki.“

 

Strikað er undir tvær villur.

Orðið Glaðsheimr er ekki í þágufalli og aldrei hef ég heyrt Iðavelli kennda fyrr við magakveisu.

 


Aðgengileg blöð og tímarit í snjallsímum og spjaldtölvum

Morgunblaðið er aðgengilegt á vefvarpi Blindrafélagsins eitt íslenskra dagblaða, enda hefur Mogginn verði í forystu íslenskra fjölmiðla í aðgengismálum.
Einatt hefur komið til umræðu að önnur blöð væru aðgengileg. Fyrir nokkrum mánuðum var aðgengi smáforrita fyrir Fréttablaðið og Morgunblaðið athugað og reyndust blöðin ekki aðgengileg til lestrar með talgervli.
Í gær tók ég til í farsímanum og ákvað þá að skoða eintak Morgunblaðsins, sem var á símanum frá því í sumar. Þá kom í ljós að blaðið var vel læsileg í Adobe reader og það sem meira var, að fyrirsagnir voru ágætlega skilgreindar. Að óathuguðu máli ættu því Fréttablaðið, Morgunblaðið, Kjarninn, Fréttatímin og e.t.v. fleir blöð og tímarit að vera aðgengileg á Android-símum og spjaldtölvum. Gallinn er hins vegar sá að smáforritin, sem notuð eru til lestrar, gera ekki ráð fyrir slíku. Hugsanlega er hægt að fara í kringum þetta með því að nota forrit eins og Moonreader, en það ersérstaklega hannað forrit sem gerir blindu fólki kleift að lesa pdf-skjöl. Þetta verður eitt af næstu málum, sem aðkallandi er að kanna.


Íslensk þýðing á spænsku aðgengisforriti fyrir snjallsíma

Fjórtándi janúar árið 2014 verður talinn til tíðindadaga á meðal blindra og sjónskertra Íslendinga. Í dag kom forritið Mobile Accessibility fyrir Android farsíma út í Playstore hjá Google. Heldur gekk treglega að finna forritið, en með því að leita að orðinu skjálesari fannst það. Fólk getur fengið því úthlutað hjá Þekkingarmiðstöðinni.

Uppsetning forritsins gekk með ágætum og við fyrstu heyrn virðast flestir annmarkar hafa verið lagfærðir. Sú breyting hefur nú orðið á forritinu að hægt er að hafa MA opið sem skjálesara um leið og Talkback aðgengislausn símanna. Virðist þá vera hægt að lesa öll forrit símans sem eru aðgengileg.. Vakin skal athygli á því að séu báðir skjálesararnir notaðir samtímis og Mobile Accessibility sem valmynd, þarf iðulega aðþrísnerta skjáinn þegar skipanir eru notaðar.

Þá er hægt að nota Mobile Accessibility skjálesarann eingöngu og gefur hann þá kost á skipunum sem eru afar fljótvirkar. Sá böggull fylgir skammrifi að skjálesarinn les ekki nægilega vel sum forrit og lestrarforritið Ideal Group Reader, sem notað er fyrir EPUB-rafbækur, nýtist ekki. Moonreader, sem er svipað, hefur að vísu ekki verið reynt.

Þá virkar MA einnig sem valmynd í Talkback og eru þá skipanir Talkback virkar.

Mobile Accessibility er þægilegt fyrir byrjendur vegna þess að vaðgerðareitir (hnappar) eru dreifðir um svo stórt svæði á skjánum að lítil hætt er á að menn hitti fyrir tvo hnappa í einu. Þá er íslenska snertilyklaborðið, sem Baldur Snær Sigurðsson hannaði, afbragðsgott. Vilji menn fremur nota þráðlaust borð er hægt að aðlaga það forritinu.

Ástæða er til að óska Blindrafélaginu og Þekkingarmiðstöðinni til hamingju með þennan áfanga. Verður forvitnilegt að fylgjast með nýjum notendum.


Bæta þarf íslensk smáforrit fyrir snjallsíma

Á þessum síðum hefur komið fram að flest íslensk smáforrit fyrir Android-síma og spjaldtölvur séu óaðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Er því sjálfsagt um að kenna að ekki hefur verið vakin athygli á nauðsyn þess að gætt sé að þessum þætti við hönnun forrita.
Á bak við smíði flestra smáforrita, sem er að finna á íslensku, er fyrirtækið Stokkur í Hafnarfirði. Hér er enn eitt málið á ferðinni sem Blindrafélagið og fleir þurfa að sinna.
Í kvöld ritaði ég þeim Stokksmönnum eftirfarandi bréf:

Ágætu Stokkverjar.

Ég hef að undanförnu nýtt mér snjallsíma með Android-4.1.2 stýrikerfi. Nota ég einkum aðgengislausn sem nýtir Talkback-aðgengisviðmótið sem fylgir Android-símum.

Ég hef prófað nokkur íslensk smáforrit fyrir snjallsíma. Þau virðast flest þeim annmörkum háð að ekki hefur verið gert ráð fyrir að þeir, sem nýta talgervil og aðgengislausnir frá Android, geti nýtt þau.

Miklar framfari hafa orðið á vefaðgengi blindra og sjónskertra hér á landi og víða erlendis er nú unnið hörðum höndum við að gera Android-kerfið aðgengilegt, enda er gert ráð fyrir því við hönnun stýrikerfisins.
Sjá m.a.
http://developer.android.com/guide/topics/ui/accessibility/apps.html
Ýmislegt, sem ég hef heyrt um Stokk, bendir til að þið séuð afar hugmyndaríkir og snilldar forritarar. En getur verið að aðgengisþátturinn hafi farið framhjá ykkur? Í raun og veru ætti að hanna öll forrit þannig að aðgengi sé virt. Með því að sniðganga aðgengið eru lagðir ótrúlegir steinar í götu þeirra sem þurfa á því að halda að tæknin sé aðgengileg.

Mig langar að nefna þrjú dæmi um óaðgengileg forrit:

Strætóappið er algerlega óaðgengilegt þeim sem nota talgervil í símanum.

Forritið Leggja er einnig óaðgengilegt. Þar eru hnappar sem ekki eru með textalýsingu.

Þá er Veður að mestu aðgengilegt, en það hefur þann annmarka að forritið virðist ævinlega undirliggjandi þegar það er notað með Talkback og þvinga þarf fram stöðvun þess.

Ég bendi ykkur m.a. á hópinn Blindratækni á Facebook, en þar hefur farið fram nokkur umræða um notkun snjallsíma að undanförnu. Nú standa málin þannig að aðgengisforritið Mobile Accessibility hefur verið þýtt á íslensku og má búast við að blindum og sjónskertum snjallsímanotendum fjölgi að mun á næstunni. Þá er einnig í bígerð að þýða annað forrit svipaðs eðlis, Equaleyes, til þess að gefa fólki völ á fleiri lausnum.

Gangi ykkur vel í störfum ykkar.
Bestu kveðjur,

Arnþór Helgason


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband