Færsluflokkur: Menntun og skóli

I minningu Dóru Pálsdóttur - birt í Morgunblaðinu 30.09.2016

Dóra Pálsdóttir var firna skemmtileg kona, orkurík og alúðleg í fasi. Hún var hvers manns hugljúfi og laðaði fólk að sér.
Dóra hóf kennslu við Starfsþjálfun fatlaðra skömmu eftir stofnun hennar. Árið 1990 hittumst við við erfidrykkju í fjölskyldunni og sagði hún mér þá frá ráðstefnu um þróun hjálpartækja, sem halda skyldi í Baltemore í Bandaríkjunum þá um haustið. Ákváðum við að reyna að komast. Fór svo að Öryrkjabandalagið sendi okkur bæði.
Skemmtilegri ferðafélaga hef ég vart haft. Dóra kynntist held ég öllum rúmlega 600 þátttakendunum og hefur áreiðanlega kysst þá alla oftar en tvisvar. Í lokaathöfninni var hún einhvers staðar á flandri, en ég komst fljótlega að því hvar hún hélt sig. Þegar nafn Íslands var nefnt sem þáttökulands brast á mikið fárviðri gleðihrópa úr einu horninu, en þar var auðvitað Dóra með sinn orkuríka hóp sem hrópaði og klappaði fyrir Íslandi. Fékk engin þjóð viðlíka viðbrögð.
Við komum hlaðin bæklingum til Íslands og haldinn var fjölsóttur kynningarfundur sem fjöldi fagfólks sótti.
Eftir að fundum lauk síðdegis þá viku sem þingið stóð, upphófst mikil skemmtan. Sögur fóru af samkvæmum á efstu hæð hótelsins og töldum við víst að þar væri mikið sumblað. En annað kom á daginn.
Eitt kvöldið var okkur Dóru boðið og kom þá í ljós að léttöl var það sterkasta sem drukkið var. Á meðal þátttakenda voru Rússar sem misst höfðu útlimi í Afganistan og talaði Dóra við þá með alls konar táknmáli og hljóðum. Einn kunningi hennar á ráðstefnunni var fótalaus. Sveiflaði hann sér upp á flygil og greip í hendur Dóru þegar hún átti leið framhjá. Dönsuðu þau af lífi og sál.
Allt í einu heyrðist gríðarlegur dynkur. Dóra kom til mín í öngum sínum og tjáði mér að hún hefði sleppt höndum piltsins þegar dansinum lauk. En flygillinn var svo háll að pilturinn rann út af honum og  steyptist aftur fyrir sig á gólfið. Taldi Dóra víst að hann væri hálsbrotinn.
Héldum við til herbergja okkar miður okkar bæði. En hvern hittum við alhressan kl. 8 morguninn eftir? Þennan pilt fjöðrum fenginn við að hitta Dóru vinkonu sína á ný.
Skömmu síðar var haldin ráðstefna á vegum Öryrkjabandalagsins um þróun tölvutengdra hjálpartækja og sótti Dóra um að hingað yrði boðið Norðmanni nokkrum sem hafði unnið að þróun forrita fyrir fatlað fólk og hún kynntist í Noregi. Varð stjórnin við því, en seinna skömmuðu menn formanninn fyrir að ástir tókust með Dóru og fyrirlesaranum. Hefur hann búið hér síðan. Vegir Guðs eru órannsakanlegir.
Það var ævinlega gott og gaman að hitta Dóru. Þótt eitt sinn skærist í odda með okkur þegar Öryrkjabandalag Íslands bannaði starfsfólki að eiga nokkur samskipti við stjórnvöld, var það aldrei erft, enda "kröfðust aðstæður þess að þú fylgdir eftir samþykkt stjórnarinnar", sagði Dóra."
Nú, þegar að kveðjustund er komið, þakka ég af alhug gjöfult samstarf við þessa frjóu og lífsglöðu konu. Um leið votta ég Jens og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.
Arnþór Helgason


Siðleysi einkavæðingarsinna

Síðan íslensk stjórnvöld tóku að greiða laun kennara við einkarekna grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla hafa hinir einkareknu skólar skorið sig úr að því leyti að launakostnaður þeirra hefur verið greiddur af hinu opinbera og skólagjöld þeirra hafa verið mun hærri en ríkisreknu skólanna. Þannig hafa þessir skólar haft úr talsvert meira fé að moða en hinir opinberu skólar.

Vafasamt er að sumir einkareknu skólanna yrðu kallaðir háskólar nema hér á landi. Þá er vafasamt að annað eins fyrirkomulag tíðkist víða um lönd hjá einkavæðingarsinnum. Í Bandaríkjunum er mér tjáð að einkareknir skólar njóti ekki opinberra styrkja heldur verði þeir að spjara sig með öðrumhætti - styrkjum frá einkafyrirtækjum og skólagjöldum. Í þeirri fjárþröng, sem Íslendingar eru í, eru margir furðu lostnir yfir því að framlög til einkarekinna skóla séu ekki skorin niður. Látum þá sanna sig og sjáum hvernig fer.


mbl.is Ólöglegt að fella niður skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegar tækniframfarir

Um daginn fékk ég tölvupóst frá fyrirtækinu Nuance Solutions sem selur m.a. talgervla, þar á meðal hinn misheppnaða talgervil Röggu sem íslenskt fyrirtæki bjó til án samráðs við notendur. Í tölvupóstinum er m.a. greint frá Dragon hugbúnaðinum sem hefur verið á markaðinum í nokkur ár og gerir fólki kleift að tala texta inn á tölvur. Unnið hefur verið að því að gera búnaðinn nákvæmari og er sagt að villum, sem búnaðurinn gerði í ensku, hafi nú fækkað. Menn geta því skráð inn á tölvur hugsanir sínar með allt að 120 orða hraða á mínútu.

Fyrir 20 árum eða svo gerði lítið tölvufyrirtæki hér á landi tilraunir með íslenskt tal sem hægt væri að skrá beint inn á tölvur. Ekki er vitað til að þær tilraunir hafi verið styrkta með einum eða öðrum hætti. Það gefur auga leið að tölvunotkun yrði fjölda fólks mun einfaldari ef það gæti hreinlega talað inn það efni sem það langar til að skrifa. Ýmsir eiga óhægt um vik með að skrifa á lyklaborð tölvunnar og er þetta því kjörin lausn.

Blindrabókasafn Íslands hefur nú heimilað notendum í einhverjum mæli að hala niður hljóðbækur af heimasíðu safnsins. Geta notendur nú sótt sér hljóðbækur á einfaldan hátt. Þetta hlýtur að spara stórfé þar sem ekki þarf lengur að fjölfalda geisladiska með efni bókanna.

Þá gladdi það mig að lesa á heimasíðu Þekkingar- og þjónustumiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga að íslenskt blindraletur sé nú komið inn í danska RoboBraille-kerfið. Hugmyndin að baki þessu kerfi er að einfalda framleiðslu skjala með blindraletri. Kennarar blinds fólks og samstarfsmenn geta nú framleitt skjöl með blindraletri svo fremi sem blindraletursprentari er á staðnum. Sá, sem ætlar að þýða texta á blindraletur, sendir tölvupóst á tiltekið netfang og setur í efnislínuna ákveðnar skipanir um blaðsíðustærð o.fl. Að vörmu spori kemur skjal til baka sem er sérsniðið að þörfum þeim sem skilgreindar voru. Ekki áttaði ég mig á hvort textinn yrði að vera hreinn texti eða sniðinn í word eða öðrum forritum. Í fljótu bragði fann ég ekki upplýsingar um þetta á heimasíðu fyrirtækisins sem stendur á bak við þessa þjónustu, www.robobraille.org. Ég geri þó ráð fyrir að setja þurfi í textann einhverjar pretskipanir svo sem um fyrirsagnir, breytt letur o.s.frv., nema þetta sé allt saman þýtt beint úr ritvinnslukerfi sem væri auðvitað það besta. Þessi þjónusta léttir vonandi ýmsum að færa skjöl á blindraletur og eykur vonandi lestur efnis á þessu lífsnauðsynlega letri.

Ég hef oft velt fyrir mér þeirri sorglegu staðreynd að lesendur blindraleturs á Íslandi eru helmingi eða þrisvar sinnum færri en gengur og gerist í Vestur-Evrópu. Þetta á sér ýmsar skýringar sem ekkiverða raktar hér.

RoboBraille-forritið gerir einnig ráð fyrir að hægt sé að senda tölvutækan texta sem viðhengi og fá hann lesinn á því tungumáli sem beðið er um. Þessi þjónusta er enn ekki fyrir hendi á íslensku enda talgervlarnir íslensku vart færir um slíkt með ´goðu móti.

Þótt tölvutalið sé vissulega til mikils hagræðis eru þó ýmis störf í upplýsingasamfélaginu þar sem vart verður hjá því komist að lesa annaðhvort með augum eða fingrum. Þá verður aðgengi að tölvuforritum mun fjölþættara sé jöfnum höndum notað tal og blindraletur. Þetta fékk ég að reyna í störfum mínum sem blaðamaður á Morgunblaðinu og í núverandi verkefnum á vegum Viðskiptablaðsins. Þá hefði ég vart getað innt af hendi ýmis félagsmálastörf án blessaðs blindraletursins.

Það er ánægjulegt þegar starfsmenn opinberra stofnana eins og blindrabókasafnsins og Þekkingarmiðstöðvarinnar hafa metnað til þess að hrinda í framkvæmd jafnsjálfsögðum úrbótum og niðurhali bóka og sjálfvirkri prentun með blindraletri. Nú þyrftu þessar stofnanir og fleiri aðilar að sameinast um að endurbæta þá talgervla sem fyrir eru á íslensku eða búa til nyjan talgervil. Þá tel ég ekki úr vegi að reynt verði til hlítar að fá afnot af elsta talgervlinum sem sennilega hefur verið einna best heppnaður þeirra þriggja sem gerðir hafa verið fyrir íslenska tungu.


Kennarar flýja og foreldrar forða börnum sínum

Í fyrradag var Fríðu Regínu Höskuldsdóttur vikið fyrirvaralaust úr starfi skólastjóra Landakotsskóla.

Regína á langan feril að baki og er á meðal þeirra sem hafa sinnt sérkennslu fatlaðra nemenda í almennum skólum. Það er haft eftir starfsmanni Landakotsskóla að þetta ásamt öðru sé ástæða uppsagnarinnar, ekki skipulagsbreytingar eins og formaður skólastjórnar vék að.

Einhver andstaða virðist hafa verið á meðal sumra kennara Landakotssskóla gegn því að þörfum fatlaðra nemenda væri sinnt við skólann og töldu þeir að það bitnaði á öðrum nemendum. Rógsherferð gegn Regínu varð til þess að Páll Baldvin beit á agnið og rak Regínu á þriðjudag.

Skipulagsbreytingar eru yfirleitt fremur ómerkilegt yfirvarp þegar ráðríkir formenn vilja losna við stjórnendur. Að sögn kennara, sem ofbauð framkoma Páls Baldvins í garð Regínu, ávarpaði hann Regínu eins og hund en ekki manneskju.

Kennarar eru slegnir. Einhverjir hafa þegar sagt upp og aðrir hafa greint frá því að þeir hyggist forða sér frá sökkvandi skipi. Þá hafa foreldrar skráð börn sín úr Landakotsskóla.

Af hverjum lærði Páll Baldvin stjórnunaraðferðir sínar?


Aðgangur allra verði tryggður

Í kvöld var greint frá því í fréttum Ríkissjónvarpsins að Verkmenntaskólinn á Akureyri sparaði allt að 5 milljónum króna á ári með því að nota opinn hugbúnað á tölvur. Var þar sérstaklega nefndur Linux hugbúnaðurinn.

Þrátt fyrir allt hefur Microsoft fyrirtækið unnið ötullega að því að gera hugbúnað sinn aðgengilegan nær öllum sem geta notað tölvur og fjöldi fyrirtækja vinnur við hugbúnaðarlausnir sem henta ýmsum hópum notenda.

Vitað er að ýmislegt hefur verið gert til þess að aðlaga opinn hugbúnað fólki eins og því sem er blint eða hreyfihamlað. Hér á landi vantar hins vegar alla viðleitni í þá átt og framleiðendur hjálpartækja hafa fæstir treyst sér til þess að vinna með opinn hugbúnað.

Ætli ríkisstjórnin að nýta opinn hugbúnað í ríkara mæli en áður verður að móta stefnu sem kemur í veg fyrir einangrun fatlaðra á þessu sviði. Ríkisstjórn Íslands ætti að hafa forgöngu um þessi mál á vettvangi Norðurlandaráðs. Skyldi eitthvað heyrast í samtökum fatlaðra um þessi mál?


Minningar úr MR

Hinn 27. september 1968 verður mér lengi minnisstæður. Þann dag var Menntaskólinn í Reykjavík settur og hófum við tvíburarnir þá nám við þessa merku menntastofnun.

Við höfðum lokið landsprófi þá um vorið og vorum af einhverjum ástæðum ákveðnir í að stunda nám við MR. Faðir okkar, Helgi Benediktsson, hafði samband við Einar Magnússon, rektor, og tókst með þeim góð vinátta, svo góð reyndar að Einar hringdi til hans eitt sinn heitvondur vegna þess að ungur piltur frá Vestmannaeyjum hafði skrifað honum og tjáð honum að hann gæti því miður ekki hafið nám við MR sökum fátæktar. Sagðist pabbi undrast þetta mjög, þegar hann heyrði hver pilturinn var, því að hann vissi ekki betur en hann hefði skráð sig í annan skóla. Varð Einar þá æfur og sagðist hafa farið í menntamálaráðuneytið og farið mikinn yfir því að ekki skyldu vera til úrræði til að styrkja fátæka námsmenn utan af landi.

Einar Magnússon velti því fyrir sér hvort hag okkar væri e.t.v. betur borgið í Menntaskólanum v. Hamrahlíð og bauðst til að hafa samband við Guðmund Arnlaugsson, rektor. En úr varð að við völdum MR og sátum þar við okkar keip.

Einar var rektor fyrri tvö ár okkar í skólanum en síðan tók Guðni Guðmundsson við. Var samband okkar við þá rektorana jafnan gott og Einar reyndist okkur sannast sagna hinn mesti haukur í horni.

Það olli okkur talsverðum vandræðum að kennarar áttu erfitt með að ákveða þá námsskrá sem farið skyldi eftir um veturinn. Var þetta mjög bagalegt því að skrifa þurfti það allt á blindraletur eða lesa inn á segulband. Þá var einungis einn blindrakennari starfandi hér á landi, Einar Halldórsson. Tók hann að sér að skrifa það sem skrifa þurfti af sérhæfðu námsefni, en ég sá um það sem vinna mátti af segulböndum. Þegar skólinn hófst um haustið kom í ljós að við einar höfðum unnið sumt fyrir gýg og má nærri geta hver óþægindi það hafði í för með sér. En gott fólk brást við og las sumt af því inn á segulband. Mér er enn minnisstæður fundur í Framtíðinni, málfundafélagi MR, þar sem þessi mál bar á góma. Kom til snarpra orðaskipta milli okkar tvíburanna og nemenda annars vegar og einhverra kennara hins vegar sem hreinlega skildu ekki um hvað málið snerist. En upp úr því færðust hlutir heldur til betri vegar.

Við bræður urðum fyrir miklu áfalli í nóvember þá um haustið þegar Einar Halldórsson lést. Enn brást gott fólk við og kom okkur til aðstoðar. Kristín Jónsdóttir, eiginkona Björns Sigfússonar, háskólabókavarðar, hafði skrifað námsefni handa blindu fólki 20 árum áður og rifjaði nú upp kunnáttu sína. Skrifaði hún þá þýsku sem við þurftum á að halda á meðan á menntaskólanámi stóð.

sumarið 1969 var keypt hingað til lands IBM-rafmagnsritvél með blindraletursstöfum í stað venjulegra bókastafa. Var henni breytt fyrir íslenskt blindraletur. Tók Helga Eysteinsdóttir, núverandi formaður Blindravinafélags Íslands, að sér að skrifa námsefni með vélinni. Tókst það ótrúlega vel. Skrifaði hún eftir það mestallt efni sem við þurftum: frönsku, latínu, ensku að mestu leyti, stærðfræði o.s.frv. Var Helga ótrúlega afkastamikil enda skrifa menn mun hraðar með rafmagnsritvél en gamaldags blindraletursritvél sem hafði lítið breyst frá því á 4. áratugnum. Kristín hélt áfram að skrifa þýskuna og Jolee Crane ensku. Rétt er að geta þess að Björn Sigfússon, eiginmaður hennar, las einnig gríðarlega mikið fyrir okkur auk systur okkar og mágs.

Þetta var í fyrsta sinn sem blindir eða verulega sjónskertir nemendur hófu nám á menntaskólastigi hér á landi. Kennarar við MR brugðust afar vel við og vildu í raun allt fyrir okkur gera. Held ég, þegar horft er aftur til þessara ára, að við höfum í raun þegið miklu minni aðstoð en ástæða var til.

Allt blessaðist þetta og við lukum stúdentsprófi fjórum árum síðar ásamt jafnöldrum okkar.

Óþarflega oft heyrði ég okkur bræðrum hrósað á þessum tímum fyrir eitthvað sem okkur þótti óþarft og einatt ollu viðhorf og aðdáun okkur óþægindum. Það gladdi mig því mjög þegar gamall heimilisvinur, Oddtsteinn Friðriksson, sagðist oft hafa heyrt fólk dást að því hvernig ég færi að. “En segðu mér eitt, Arnþór minn. Er þetta nokkuð erfiðara hjá þér en öðrum?”

Svaraði ég því til að hann hefði svo sannarlega hitt naglann á höfuðið.

Á þessum 40 árum sem liðin eru hefur heimurinn tekið stakkaskiptum. Tölvur eru komnar til sögunnar sem leysa margan vanda en þó ekki allan. Blindrabókasafn Íslands er orðin öflug Námsgagnastofnun og allur stuðningur meiri en áður.

Viðhorfin hafa einnig breyst. Þó finnst mér ríkja ótrúlega mikil vanþekking á raunverulegri getu blindra. Vanþekkingin veldur og því að fötlun fólks er aukin með ýmsum aðgerðum sem framdar eru í hugsunarleysi og valda því að hindranir eru lagðar í götu þeirra sem eru fatlaðir. Skortir mjög á að á þeim málum sé tekið í íslenskri löggjöf.

Ég lít til þessara ára í MR með mikilli ánægju og þakklæti fyrir samskipti við skólafélaga og kennara.


Verðskulduð viðurkenning

Örnólfur Thorlacius er einstakur fræðari og heiðursmaður. Hann hefur ekki einungis lagt sig í líma við að fræða almenning heldur hefur hann einnig skemmt fólki með þýðingum sínum og umfjöllun um hvers kyns efni sem eru á mörkum skemmtunar og vísinda. Fyrst man ég eftir að hafa heyrt Örnólf í útvarpi þegar hann las vísindaskáldsögu um mikið ský sem nálgaðist jörðina. Í sögunni var fjallað um viðbrögð mannkynsins og lýst margs konar tækni sem menn héldu að myndi þróast. Skýið var í raun gríðarlega umfangsmikil vitsmunavera sem jarðarbúar þurftu að ná sambandi við og það tókst.

Örnólfur hefur sýnt og sannað að hægt er að beita íslenskri tungu til að fjalla um hvað eina sem fjallað er um. Nýyrði sem hann hefur smíðað eru bæði þjál og auðskilin. Verðskuldar hann því svo sannarlega þennan heiður.

Enn heldur Örnólfur áfram að fræða fólk og skemmta með visku sinni og fróðleik. Haldi hann því sem lengst áfram.


mbl.is Örnólfur Thorlacius fær viðurkenningu fyrir vísindastörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talgervillinn Ragga - ófullgerð afurð

Síðasti sólarhringur hefur verið með hreinum eindæmum hjá mér í tölvumálum. Þetta gerðist:

Talgervillinn hrökk úr sambandi í gærmorgun, en um miðjan dag þóknaðist honum að hrökkva í gang. Notaði ég þá tækifærið og bað Hring minn Árnason að færa fyrir mig uppsetningu tölvunnar fram um þrjár vikur. Komst þá ýmislegt í lag en íslenskan hvarf gersamlega.

Ekki skal ég rekja frekari slagsmál en þau enduðu með því að talgervillinn Snorri komst í gang.

Í dag lét ég Systems Tools þjappa saman gömlum skrám með Disc Cleanup og notaði síðan Disk Defragmenter. Þá brá svo við að talgervillinn Ragga hrökk í gang, en ég haðði reynt að tjónka við Röggu í gærkvöld.

Það er ýmislegt gott um Röggu að segja, en hönnuðuðirnir og framleiðendurnir hafa farið flatt á að hafa ekki samband við notendur og fá þá til að prófa hann. Aðeins þrennt sem ég vil nefna:

Þegar ég skrifa þennan pistil nota ég html-tákn til þess að tákn til þess að búa til greinaskil. Ragga les hvorki heitin á stærra en né minna en merkjunum <>.

Orðið Ísland í þágufalli, þ.e. Íslandi, les hún sem Ísland.

Skrifi ég hins vegar Íslande les hún það sem Íslandi.

Þá er röddin brostin og alls ekki eins og röddin í Ragnheiði Clausen sem ljáði Röggu rödd sína.

Ég man eftir því að framkvæmdastjóri Hex sem framleiddi talgervilinn, sagði mér að Ragnheiður Clausen væri einstakur lesari og hefði ævinlega lesið miskviðalaust. Ég trúi því vel því að það sem ég hef heyrt til Ragnheiðar er prýðilegt.

Ég skora hér með á Blindrafélagið, Öryrkjabandalag Íslands, félag lesblindra á Íslandi, menntamálráðuneytið og tölvusérfræðinga þá sem stóðu að framleiðslu Röggu að láta lagfæra þá annmarka sem eru á talgervlinum. Hann getur ekki talist fullbúinn. Ég þykist þess fullviss að ég þurfi að nota Snorra til þess að lesa yfir þennan pistil áður en ég sleppi honum lausum.

Því miður reyndist þetta rétt. Það sem var þó ennþá verra var að Ragga las ekki sumar línurnar nema ég léti hana lesa orð fyrir orð.

Hvers vegna í ósköpunum vinna menn íslenskri menningu og tungu annan eins skaða og þann sem hlýst af því að setja ófullburða tungumálatól á markaðinn?

Ragga er enn á tilraunastigi og alls ekki tilbúin til sölu. Þó er hún seld og fylgir nú Dolphin-forritum fyrir blinda og sjónskerta. Forstöðumaður Tölvumiðstöðvar fatlaðra hefur sagt mér að sumir telji Röggu skýrmæltari en Snorra. Það kann að vera rétt. En afurðin er ekki fullbúin. Hún er eins og súpa sem gleymst hefur að krydda.

Hvað finnst Ragnheiði Clausen sjálfri um þessa meðferð á röddinni í sér?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband