Færsluflokkur: Bækur

Snara - aðgengilegt vefbókasafn

Þessa viku hefur Forlagið opnað vefinn snara.is notendum að kostnaðarlausu, en þar eru ýmis uppflettirit s.s. orðabækur, Nöfn Íslendinga, matreiðslubækur og orðstöðulyklar. Mér sýnist sem verð heimilisáskriftar samsvari því að tæplega eitt uppflettirit yrði keypt á hverju ári.

Sameiginlegt þessum ritum virðist að fremur auðvelt er að fletta upp í þeim. Ókosturinn er e.t.v. sá að tölvunotandi blaðar ekki í þeim eins og í prentuðu uppsláttarriti. En kostirnir eru þó augljósir þeim sem vinna mest á tölvur.

Hér er um merkilegt og þarft framtak að ræða. Fyrir tæpum tveimur áratugum ræddi ég við útgefendur alfræðiorðabóka um nauðsyn þess að koma þeim á tölvutækt snið. Þá var tæknin vart fyrir hendi og þegar hún varð loksins aðgengileg töldu útgefendur vart markað fyrir slíka útgáfu. Þó tókst okkur hjá Blindrabókasafni Íslands að fá barnaorðabók og Hugtök og heiti í bókmenntum á tölvutæku sniði. Var það m.a. að þakka ágætu samstarfi við Mál og menningu og fyrirgreiðslu ritstjórans, dr Jakobs Benediktssonar sem var mikill áhugamaður um skráningu gagna í tölvur.

Ég hvet lesendur þessarar síðu til þess að kynna sér kosti vefbókasafns Snörunnar og njóta þess sem er þar á borð borið. Flestir aðgengisstaðlar eru virtir svo að notendur skjálesara geta einnig nýtt sér vefbókasafnið.


Ævisaga Lárusar Pálssonar - stórbrotið listaverk

Í morgun lauk ég við að lesa Ævisögu Lárusar Pálssonar, leikara og leikstjóra, sem Þorvaldur Kristinsson tók saman. Lárus Pálsson hefur mér lengi verið hugstæður. Sem barn hreifst ég af upplestri hans og leik í Ríkisútvarpinu. Þá voru leikrit á laugardagskvöldum og voru það ævinlega hátíðarstundir. Minnist ég þess þegar leikritið Mýs og menn var flutt í upphafi 7. áratugarins hversu djúpt það snart mig og jafnaldra mína. Helgi Guðmundsson, bróðursonur minn, hélt upp á afmæli sitt um þetta leyti og var haldið mikið sunnudagsboð hjá móðurdans. Við strákarnir vorum þetta 9-10 ára gamlir og töluðum talsvert um leikritið.

Ég minnist þess einnig þegar Lárus las Heljarslóðarorrustu Benedikts Gröndals í Ríkisútvarpið veturinn 1966 og fór þar á kostum. Pabbi hafði ævinlega haldið upp á Heljarslóðarorrustu og kynnti okkur tvíburunum nokkra kafla verksins. Hlökkuðum við því mikið til lestrarins og urðum svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.

Ég minnist einnig flutnings Lárusar á kvæðum Jónasar Hallgrímssonar um svipað leyti og þar kom þjáningin svo átakanlega fram, einnig í síðustu smásögunni sem hann las. Þá var reyndar orðið á allra orði að alvarleg veikindi hrjáðu þennan ástsæla leikara.

Sumarið 1967 vorum við tvíburarnir ásamt móður okkar, Guðrúnu Stefánsdóttur og Magnúsi Sigurðssyni, skólastjóra Hlíðaskóla, á ferð um landið að safna fé fyrir Hjálparsjóð æskufólks. Þá varð á vegi okkar leikhópur Þjóðleikhússins sem var að taka saman þar sem við áttum að skemmta um kvöldið. Hlýddu leikararnir á leik okkar af því lítillæti og fordómaleysi sem einkennir góða listamenn og kynntu sig síðan fyrir okkur. Ég minnist einkum tveggja manna, Baldvins Halldórssonar og Lárusar Pálssonar. Baldvin kannaðist ég vel við úr ríkisútvarpinu, en hann lék oft í sakamálaleikritum helstu skúrkana og fannst mér að hann hlyti að vera vafasamur náungi. En í stað þess var þetta mildur maður og bauð af sér hinn besta þokka. Við Baldvin kynntumst betur síðar og áttum jafnan skemmtileg samskipti.

Hinn leikarinn var Lárus Pálsson. Ég skynjaði að þar fór maður sem gekk ekki heill til skóga, viðkvæmnislegur og þjáður. Annað skynjaði ég, en það var ást leikaranna á þessum mikilhæfa snillingi. Eftir að Lárus hvarf á braut tóku þau tal saman nokkrir leikarar, móðir mín og Magnús. Barst þá heilsa Lárusar í tal og var umhyggja leikaranna þá auðheyrð.

Þorvaldur Kristinsson hefur náð snilldartökum á efni sínu. Auk þess að vera merk heimild um ævi og störf Lárusar Pálssonar er bókin þarft innlegg í sögu íslenskrar leiklistar. Höfundur fer varfærnum höndum um efnið en skirrist aldrei að taka afstöðu til efnisins eins og góðum fræðimanni sæmir.

Einkar fróðlegt þótti mér að lesa um stofnun Þjóðleikhússins og þá baráttu sem Lárus og aðrir hámenntaðir listamenn þurftu að heyja til þess að standa á rétti sínum og listrænum metnaði. Jafnframt gerir höfundur ágæta grein fyrir metnaðarleysi og fáfræði pólitískra yfirvalda.

Jón Viðar Jónsson, leikhúsfræðingur, benti mér á það í spjalli fyrir nokkru, hversu djúpum rótum menntun fyrstu íslensku leikaranna stóð í sígildum bókmenntum og sögu Vesturlanda. Margir þeirra þekktu vel helstu bókmenntaverk nágrannaþjóða okkar, voru vel heima í klassískum fræðum eins og latínu og grísku og framsögn þeirra var vönduð, enda voru þeir flestir orðsins menn.

Þorvaldur Kristinsson hefur unnið þarft verk með gerð ævisögu Lárusar Pálssonar og eru honum hér með færðar alúðar þakkir. Það var kominn tími til að þessum merka listamanni yrði reistur óbrotgjarn minnisvarði.


Byltingarkenndar breytingar

Bandarísku blindrasamtökin hafa náð samkomulagi við samtök útgefenda og rithöfunda um að lesendur, sem geta ekki nýtt sér prentað mál geti fengið aðgang að bókum gegnum þjónustu Google. Ef samkomulagið verður staðfest verður útgefendum gert skylt að sjá til þess að bækurnar verði aðgengilegar svo að fólk geti beitt nútímatækni til þess að nálgast þær rituðu heimildir sem á boðstólnum eru.

Nú þegar er gríðarlegur fjöldi bóka aðgengilegur fyrir tilstilli Google eða um 7 milljónir titla. Verður þetta einhver mesta bylting sögunnar í bókamálum blindra og sjónskertra auk annarra sem eru lesfatlaðir. Gert er ráð fyrir að lesfatlaðir notendur geti fengið bækur lánaðar eða keytar allt eftir því sem við á hverju sinni og lesið þær með þeirri tækni sem nýtist þeim best. Þetta metnaðarfulla verkefni ætti að verða Íslendingum og öðrum Evrópuþjóðum hvatning til álíka byltingarkenndra verkefna.

Fréttin fylgir hér að neðan og er Sigrúnu Þorsteinsdóttur þakkað af alhug fyrir að vekja athygli á fréttinni.

Google Settlement with Authors, Publishers Will Have Positive Results for the Blind Terms of Proposed Settlement Agreement Will Revolutionize Blind People's Access to Books Baltimore, Maryland (October 31, 2008): The National Federation of the Blind, the nation's leading advocate for access to information by the blind, announced today that the recent settlement between Google and authors and publishers over the Google Books project, if approved by the courts, will have a profound and positive impact on the ability of blind people to access the printed word. The terms of the settlement that was reached on October 28, among Google, the Authors Guild, and the Association of American Publishers, on behalf of a broad class of authors and publishers, allow Google to provide the material it offers users "in a manner that accommodates users with print disabilities so that such users have a substantially similar user experience as users without print disabilities." A user with a print disability under the agreement is one who is "unable to read or use standard printed material due to blindness, visual disability, physical limitations, organic dysfunction, or dyslexia." Blind people, like other members of the public, will be able to search the texts of books in the Google Books database online; purchase some books in an accessible format; or access accessible books at libraries and other entities that have an institutional subscription to the Google Books database. Once the court approves the settlement, Google will work to launch these services as quickly as possible. Dr. Marc Maurer, President of the National Federation of the Blind, said: "Access to the printed word has historically been one of the greatest challenges faced by the blind. The agreement between Google and authors and publishers will revolutionize access to books for blind Americans. Blind people will be able to search for books through the Google Books interface and purchase, borrow, or read at a public library any of the books that are available to the general public in a format that is compatible with text enlargement software, text-to-speech screen access software, and refreshable Braille devices. With seven million books already available in the Google Books collection and many more to come, this agreement means that blind people will have more access to print books than we have ever had in human history. The blind, just like the sighted, will have a world of education, information, and entertainment literally at our fingertips. The National Federation of the Blind commends the parties to this agreement for their commitment to full and equal access to information by the blind." "Among the most monumental aspects of the settlement agreement," said Jack Bernard, assistant general counsel at the University of Michigan, "are the terms that enable Google and libraries to make works accessible to people who have print disabilities. This unprecedented opportunity to access the printed word will make it possible for blind people to engage independently with our rich written culture. Moreover, it is refreshing to find accessibility for people with disabilities explicitly included upfront, rather than begrudgingly added as an afterthought." "One of the great promises of the settlement agreement is improving access to books for the blind and for those with print disabilities," said Dan Clancy, engineering director for Google Book Search. "Google is committed to extending all of the services available under the agreement to the blind and print disability community, making it easier to access these books through screen enlargement, reader, and Braille display technologies." _______________________________________________ To manage your subscription, visit http://list.webaim.org/ Address list messages to webaim-forum@list.webaim.org


"Það er svo geggjað að geta hneggjað"

Ég gluggaði áðan í bókina Gamlar syndir eftir Flosa Ólafsson, þann mæta háðfugl og skemmtikraft. Formála bókarinnar reit Kjartan Ólafsson, fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, enda er hér um greinasafn Flosa úr Þjóðviljanum að ræða.Í formálanum víkur Kjartan að þeim áhrifum sem Flosi hafi haft á málfar þjóðarinnar með tungutaki sínu og nefnir að lýsingarorðið geggjaður hafi fengið aðra merkingu eftir að Flosi söng hinn skemmtilega texta sinn við eigið lag.

Ef ég man rétt var þetta merka ljóð frumflutt um eða eftir árið 1970. Nokkrm árum áður, eða í maí 1967, átti ég leið upp í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja. Veðrið var yndislegt og við á leið í einhvern aukatíma ef ég man rétt. Kennarinn var ekki kominn og ásamt okkur tvíburunum beið m.a. bekkjarsystir okkar, Gyða Arnmundsdóttir. Henni leist vel á veðrið og sagði: "Mikið ógeðslegega er veðrið geggjað."

Sannar þessi frásögn að lýsingarorðið geggjaður var þá þegar orðið þeirrar merkingar að lýsa yndisleik þess sem fyrir augu og eyru bar.

Að vísu finnst mér veðrið hálfgeggjað um þessar mundir, norðan vindbelgingur og kuldahryssingur.


Þarf ég endilega að hnýta í fótboltann?

Nú þegar Hekla gamla veltir fyrir sér að gjósa dálítið er best að ég gjósi líka.

Mér er ekki í nöp við knattspyrnu. En mér er í nöp við hvernig knattspyrnuáhugamenn beita fjármagni til þess að troða áhugamáli sínu upp á aðra svo að allt verður að víkja og öll viðmið samfélagsins snúast um tuðrusparkara. Þetta er svo yfirþyrmandi að sjónvarpsáhorfarar, sem kunna ekki að hlusta á rás 1 fara að horfa á þessi ósköp og verða spennufíklar á þessu sviði sem öðrum.

Íslendingar eru fíklar og þar er ég engin undantekning. Við hjónin lesum stundum saman Dan Brown og einstaka sinnum tek ég hressilega í nefið. Ég legg þá tóbakshornið á nös mér og sýg, fyrst í þá vinstri og síðan í hina hægri. Áhrifin eru slík að ég kemst næstum í vímu og tíminn herðir á sér.

Hins vegar verður Dan Brown stundum svo leiðinlegur að tíminn ætlar aldrei að líða. Aðra stundina verður hann svo æsispennandi að tíminn stendur alveg kyrr.

Um daginn var þáttaröð í BBC um Davinci-lykilinn og hvernig sá samansetningur, sem mér þótti vel saminn og skemmtilegur, eyðilagði næstum regluna Opus Dei. Rakið var hvernig reglan hefði mótast í áranna rás og hvernig ráðist hefði verið í breytingar á henni. Einnig var vikið að því hver áhrif Dans Browns hefðu orðið á þá sem voru í reglunni og það líknarstarf sem unnið hefur verið á henni. Rætt var við Dan og varð han heldur tvísaga um margt.

Fyrir nokkru spjallaði ég um bækur Dans við kunningja og benti þá einn á að ónefndur höfundur íslenskur hefði ekki þorað að nota nafn Halldórs Laxness í bókinni "Höfundur Íslands". Slíkt hefði þótt óhæfa.

Það er ekki nema von að kirkjunnar mönnum þyki óhæfa að jafnskemmtilegt og vel samið verk og Davinci-lykillinn skuli beinast að einum samtökum. Hitt er umdeilanlegt hvort það þjóni nokkrum tilgangi að banna bókina.

Hið sama er um fótboltann. Ég vil ekki láta banna hann en ég vil að menningarviðburðir og stofnanir fái að vera í friði fyrir honum.


Stúlka með fingur - einstætt útvarpslistaverk

Í næstu viku lýkur Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir lestri sögu sinnar, Stúlka með fingur, í Ríkisútvarpið, en söguna hefur Þórunn lesið undanfarnar vikur á rás 1.

Saga þessi greinir frá stúlku sem festir ást á ungum manni sem er hærra settur í þjóðfélagsstiganum en hún. Faðir piltsins og amma verða ókvæða við og í ljós kemur að þau eru hálfsystkin.

Saga þessi er skörp rýni á íslenskt þjóðfélag um og eftir aldamótin 1900 og byggir Þórunn frásögnina vafalítið á umfangsmiklum rannsóknum sem hún vann að fyrir nokkrum árum.

Lýsingar eru myndrænar, hugsunin skýr og orðgnóttin mikil. Þótt henni fatist einstöku sinnum flugið er það svo sjaldan að varla tekur að minnast á það.

Ég hef hlustað á marga útvarpssöguna um ævina. Ég leyfi mér að halda því fram að sagan og upplesturinn séu á meðal hins allra besta sem Ríkisútvarpið hefur fært hlustendum sínum undanfarna fjóra áratugi.

Það er leitt að hljóðvarp eigi sér ekki álíka vettvang og Edduverðlaun eða því um líkt. Hvar sem tækifærið býðst hlýtur lestur Þórunnar að koma til álita sem eitt hið besta sem veit má verðlaun fyrir.


Umræðan um Mao Zedong

Sverrir Jakobsson birtir athyglisverða gagnrýni um bók Jung Chang um Mao í Morgunblaðinu í dag. Þar fer hann ítarlega ofan í saumana á meintri sagnfræði Jung chang og eiginmanns hennar og vara hreinlega við því að bókin sé tekin sem marktæk heimild um Mao formann.

Slík gagnrýni á bókina kom einnig fram á málþinginu um tímabil Maos sem haldið var í Háskóla Íslands 11. nóvember í fyrra og töldu fræðimenn bókina bæta litlu við skilning manna á Mao. Sverrir telur höfundana jafnvel ýta undir ranghugmyndir.

Ég hef áður bent á að bók þessi er skrifuð vegna haturs Jung Chang á Mao Zedong enda lýsti hún því yfir þegar hún kom hingað til lands í fyrsta sinn að hún ætlaði sé að skrifa ævisögu Maos og sýna fram á að hann hefði verið illmenni.

Ég hitti Wang Zhen, (1908-1993) í tvígang, einn virtasta herforingja Maos, vin og samstarfsmann til margra ára. Mao treysti honum flestum mönnum betur og Wang Zhen var einn af virtustu leiðtogum Kína á sínum tíma. Síðar greini ég e.t.v. frá fundi okkar árið 1977 en í dag ætla ég að segja frá viðræðum okkar árið 1981. Auk mín voru viðstaddir þeir Friðrik Páll Jónsson, fréttamaður, Kristján Guðlaugsson, núverandi blaðamaður, Kristján Jónsson, fyrrum forstjóri og Magnús Karel Hannesson, fyrrum borgarstjóri á Eyrarbakka.

Wang Zhen svaraði spurningum okkar á fundinum og voru svör hans bæði löng og ítarleg. Á þeim tíma, apríl 1981, hafði blossað upp gagnrýni á Mao Zedong. Sagt var að hann hefði verið valdasjúkur, óráðþæginn, uppstökkur og jafnvel illgjarn. Þá var einnig mikið gert úr mistökum hans vegna Stóra stökksins og þeirrar hungursneyðar sem fylgdi í kjölfarið. Sumir bentu þó á að Deng Xiaoping hefði átt nokkurn þátt í herferð gegn menntamönnum rétt eftir miðjan 6. áratuginn og var umræðan í Kína allfjörug um þetta leyti. Ég útvegaði Friðriki Páli viðmælanda sem lýsti þessari gagnrýni allítarlega. Fimm árum síðar var viðmælandinn dálítið stoltur af því að hafa þorað að gera þetta. En víkjum nú að samtalinu við Wang Zhen.

Wang var spurður m.a. um ábyrgð Maos á stóra stökkinu og þær fullyrðingar aðhann hefði verið óráðþæginn valdasjúklingur.

Hann upphof langa ræðu um pólitískt ástand í landinu og þær fórnir sem Kínverjar hefðu orðið að færa til þess að koma á sósíalisma. Taldi hann að borgarastyrjöldin hefði kostað a.m.k. 40 milljónir mannslífa.

Wang Zhen taldi að Mao hefði búð við það ástand að menn báru takmarkalausa virðingu fyrir honum og sögðu ekki alltaf sannleikann. Þegar efnahagsmál bar á góma sagði Mao eitt sinn við hann:

Þið ætlist til þess að ég taki ákvarðanir um efnahagsmál og komi með hugmyndir. Ég er ekki hagfræðingur og hef ekki vit á efnahagsmálum. Til hvers eru hagfræðingar og aðrir sérfræðingar?

Enda fór sem fór.

Í Kína gagnrýna menn nú stjórnarár Maos með réttu. En flestir segja að ekki sé hægt að ásaka einn mann fyrir það sem miður fór heldur beri hópur fólks ábyrgð á því. Þar á meðal er Deng Xiaoping.

Mér hefur stundum orðið hugsað til þessa samtals þegar mér hefur þótt óhróðurinn keyra um þverbak. Sanngjörn afstaða fæst aldrei þegar menn láta stjórnast af blindu hatri.

Ég ráðlegg fólki að lesa ævisögu Dalai Lama. Hann birtir aðra mynd af Mao en Jung Chang. Reyndar sagði hann eitt sinn í viðtali að ástæða þess að svona illa fór fyrir sér og Tíbetum sem studdu hann hafi m.a. verið sú að embættismenn ríkisstjórnarinnar fylgdu ekki fyrirmælum.

Ég tek undir orð Geirs Sigurðssonar og segi: Lengi lifi umræðan um Mao formann!

Og frá sjálfum mér:

Lengi lifi Hugsun Maos Formanns!


31. ártíð Maos formanns

Í dag birtist í Morgunblaðinu viðtal Ásgeirs Sverrissonar við Jung Chang og eiginmann hennar, en þau hafa samið óhróðursrit um þann mann sem kallaður var Alþýðukeisarinn mikli, Mao Zedong. Bók þeirra, sem Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, hefur snúið á íslensku, rekur ævi Maos og meint illvirki hans, geðveiki, ofsóknarbrjálæði, valdagirnd, hrifningu á Stalín og margt fleira, sem verst getur talist í eðli nokkurs glæpamanns.

Í fyrrahaust var haldið málþing á vegum Asíuvers Íslands og Kínversk-íslenska menningarfélagsins um Kína á dögum Maos. Var þar fjallaða um ýmsa þætti í fari formannsins og sumt, sem þar var borið á borð, heldur ókræsilegt. Bar fyrirlesurum saman um að seinni hluti ævi Maos hefði um margt verið honum til lítils sóma, en ýmsir töldu sig kunna á því ákveðnar skýringar sem ekki verður farið út í hér.

Eitt bar flestum saman um. Bók þeirra Jungs Changs og eiginmann hennar bætir engu við um það sem þegar er vitað um Mao. Hins vegar eru ýmsar órökstuddar dylgjur í bókinni sem erfitt er að sanna og rýrir stórlega gildi hennar sem túverðugrar heimildar.

Jung Chang kom hingað til lands þegar Villtir svanir komu út, einhver leiðinlegasta bók sem ég hef lesið. Þá greindi hún fjölmiðlum frá því að hún væri með í undirbúningi ævisögu Maos þar sem hún ætlaði að sýna fram á að maðurinn hefði verið brjálað illmenni og fjöldamorðingi. Fræðimaður sem leggur af stað að semja fræðirit og gefur sér fyrirfram gefnar forsendur, getur vart talist trúverðugur. Miðað við Villta svani virðist þessi kona hafa haft ásamt fjölskyldu sinni gervallri einstakt lag á að komast upp á kant við allt og alla og skipti þá engu hverjir héldu um stjórnvölinn í Kína.

Ekki ætla ég að halda því fram að Mao hafi verið einhver engill. Hann var heldur enginn djöfull í mannsmynd. Hins vegar verður að skoða þróun hans í samhengi við kínverska sögu og þær hefðir sem kínverska þjóðin hefur orðið að glíma við. Kínverjum hefur enn ekki tekist til fulls að brjóta af sér fjötra margs konar áþjánar sem fylgdi keisaraveldinu. Valdatími Maos formanns var þó merk tilraun til þess.

Lengi lifi Hugsun Maos formanns!

Lengi lifi umræðan um Mao formann!


Konungsbók Eddukvæða eftir Arnald Indriðason

Við hjónin lásum okkur til skemmtunar Konungsbók Eddukvæða eftir Arnald Indriðason. Eins og við mátti búast hefur Arnaldur kynnt sér sögu Konungsbókarinnar ´vandlega og fléttar ýmsa þræði saman sem úr verður skemmtileg heild, engu síðri en bestu skjalasögur samtímans.

Tveimur, nafnkunnum Íslendingum síðustu aldar bregður fyrir í sögunni, Halldóri Laxness og Indriða G. Þorsteinssyni, rithöfundi og föður Arnaldar, en bókin er tileinkuð minningu hans. Arlandur minnist á fundi Valdimars, prófessorsins og blaðamanns frá Íslandi sem staddur var á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í októberlok 1955 og fylgdist með fréttaskeytunum um Nobelsverðlaun Halldórs. Blaðamaðurinn var nýkominn frá Kína, en um þetta leyti (árið 1955) fór Indriði einmitt í boði kínverskra yfirvalda þangað austur. Er þessi skýrskotun skemmtileg.

Þrátt fyrir að þráðurinn utanum Konungsbók sé skemmtilega spunninn verður höfundi þó nokkrum sinnum á í messunni. Eitthvert neyðarlegasta atriðið og það sem einna verst er samið (ekki skrifað), er frásögnin af sundi þeirra Valdimars og prófessorsins í land skammt frá Gedser, er þeir þurftu að stökkva í sjóinn til þess að trillusjómaður, sem smyglaði þeim áleiðis, yrði ekki handsamaður. Sjómaðurinn varp á eftir þeim skinnfrakka prófessorsins og var hann nær þurr þegar þeir komu að landi nokkru síðar. Enn furðulegra er þó að prófessorinn, sem var haltur vegna berkla, sem hann fékk ungur að árum, hélt staf sínum. Hvernig í fjáranum fór hann að því?

Þrátt fyrir þessa missmíð og nokkrar fleiri, sem sýna, að höfundur hefur sennilega komist í tímaþröng, er Konungsbók skemmtileg aflestrar og alls ekki á meðal þess sísta sem ég hef lesið eftir Arnald. Þegar é vann við að yfirfæra bækur á blindraletur fyrir Blindrabókasafn Íslands komu nokkrar bækur Arnaldar í minn hlut. Mér fundust þær svo skemmtilegar að ég eyddi býsnamiklum tíma í að lesa þær yfir og leiðrétta villur, sem fram komu í tölvuskimuninni. Þannig urðu afköstin mun meiri en ella, því að ég vann stundum langt fram á kvöld. Þannig var það með Konungsbók. Hún hélt okkur hjónum föngnum þrátt fyrir þessar smávægilegu missmíðar.


Thorsararnir, Laxdæla nútímans

Í haust skrifaði Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, mikla skammargrein um ráðstefnu um tímabil Maos formanns, sem haldin var í hátíðarsal Háskóla Íslands 11. nóvember síðastliðinn. Fór hann nokkuð offari og skammaði bæði háskólann og undirritaðan einkum fyrir ummæli í Morgunblaðinu sem hann sleit úr öllu samhengi. Hannes Hólmsteinn Gissurarson sá þessi skrif Guðmundar og gerði að umræðuefni í rætinni skammargrein í Fréttablaðinu 1. desember.

Þeim Guðmundi og Hannesi yfirsást eitt: Þeir höfðu hvorugur fyrir því að íta inn á heimasíðu ráðstefnunnar sem er á kim.is í öllu þessu ritbusli.

Ég ákvað að kynna mér eitthvað sem Guðmundur hefði skrifað til þess að vita hvort hann væri jafnvondur rithöfundur og pistlahöfundur.

Bókin um Thórsarana varð fyrir valinu, en samskipti föður míns við syni Ólafs Thors voru nokkur og að öllu leyti góð.

Skemmst er frá því að segja að bók Guðmundar Magnússonar um Thorsarana er afbragðsgott rit, jafnvel meistaraverk. Hann segir þar sögu fjölskyldu Thors Jensens á skemmtilegan hátt. Aðdáun höfundarins skín að vísu að nokkru í gegn enda ekki óeðlilegt að höfundur taki afstöðu í verki sínu. Hann segir þó kost og löst á ýmsu og lýsir t.d. hvernig Kveldúlfur kiknaði undan mikilli yfirbyggingu og lýsir eða ýjar að ýmiss konar spillingu sem þreifst hér á landi í skjóli aðstöðu og auðs og m.a. vegna ýmiss konar hafta sem menn reyndu að brjótast gegn.

Guðmundur fjallar allítarlega um rógsherferðir og ofsóknir á hendur þeim Thors-feðgum og Kveldúlfi. Slíkt var ekkert einsdæmi á fyrri hluta síðustu aldar og fram eftir öldinni og gerist jafnvel enn. Sjálfstæðismenn þyrmdu heldur ekki pólitískum andstæðingum sínum í hópi atvinnurekenda heldur beittu ýmsum bellibrögðum til þess að koma þeim á kné. Þannig var því varið um föður minn, Helga Benediktsson, en sumir af æðstu ráðamönnum Sjálfstæðisflokksins lögðusig í líma við að koma honum á kné og beittu til þess ýmsum brögðum. Um þetta vitnar m.a. lítill bæklingur, sem Helgi Benediktsson gaf út og nefnist “Ég ákæri”.

Tillögur skósveina ráðamanna Sjálfstæðisflokksins gengu jafnvel svo langt að Ólafi Thors blöskraði og lét hægja á leiknum. Hér verða þessir skósveinar ekki nefndir á nafn.

Hinn 7. janúar 1950 fórst vélskipið Helgi við Faxasker í Vestmannaeyjum. Með skipinu fórust tíu menn. Tveir þeirra komust upp á Faxasker og létust þar úr kulda og af sárum sínum. Þjóðarsorg varð vegna þessa atburðar.

Gísli Jónasson, stýrimaður frá Siglufirði, var annar þeirra sem komust upp á skerið. Var ákveðið að flytja lík hans til Siglufjarðar með varðskipinu Ægi. Ólafur Thors var þá dómsmálaráðherra. Faðir minn gekk á fund hans til þess að falast eftir því að varðskipið fengist til þessarar farar. Þegar Ólafur sá hann í dyrununum, spratt hann á fætur, gekk rösklega á móti honum, tók hægri hönd hans í báðar sínar og sagði: “Nei, eruð það þér, hinn mikli og mæti Helgi Benediktsson”.

Svona var Ólafur Thors, heiðursmaður í orðum og athöfnum.

Guðmundur Magnússon hefur í raun skilað meistaraverki. Thorsararnir eru Laxdæla nútímans.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband