Færsluflokkur: Kínversk málefni og menning
Góðvinur minn, dr. emil Bóasson, háskólakennari, hefur ásamt kínverskri eiginkonu sinni, Wang Chao, ferðast vítt og breitt um Kína. Hann er glöggskyggn og sendi mér þennan pistil um kínversk bifreiðanúmer. Ég vek sérstaklega athygli á því sem sagt er um rafmagnsbíla í lokin -- sem Íslendingar gætu tekið sér til fyrirmyndar.
Margt lærist á ferðalögum.
Undanfarnar átta vikur höfum við ferðast um víðlendur Kína.
Þrátt fyrir að hafa ferðast um það landsvæði af og til undanfarna fjóra áratugi er alltaf eitthvað nýtt og forvitnilegt.
Ég tók eftir að bílnúmer höfðu nokkur einkenni. Flest skráningarnúmer voru á bláum grunni með hvítum stöfum, svipaðir litir og í hvítblá fána UMFÍ. Þetta hefur verið svo lengi.
Svo tók ég eftir skráningarnúmerum með hvítan grunn og rauðan fyrsta staf. Kom þá í ljós að þetta voru skráningarnúmer Frelsishers alþýðu.
Hið þriðja sem bar fyrir augu voru framsóknargrænn bakgrunnur og hvítir stafir á skráningarspjöldum bifreiða. Þetta eru bifreiðar sem nota rafmagn eingöngu.
Í viðbót við þetta var okkur sagt að í Shanghæ kostaði skráningarnúmerið ¥13.000 alþýðudali eða sem nemur 240.000 krónum.
Gjaldið fellur niður ef skráður er rafmagnsbíll. Það hefur haft mikil áhrif og margir rafmagnsbílar í umferðinni þar.
Dregið hefur úr útblæstri bíla svo eftirtektarvert er í stórborginni.
Sent from my iPhone
Kínversk málefni og menning | 17.7.2019 | 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag, 8. október, eru 40 ár liðin frá skemmtilegu atviki sem henti mig austur í Beijing.
Kínversku vináttusamtökin höfðu boðið sendinefnd frá Kversk-íslenska menningarfélaginu til Kína í nóvemberbyrjun. Ég hafði verið kjörinn formaður félagsins 7. apríl þá um vorið en félagið var þá einnig að undirbúa fyrstu almennu ferðina sem farin var til Kína. Hélt hópurinn til Kína þann 8. september og kom til Beijing þann 9. Varð hann einna fyrstur erlendra ferðamanna til að heimsækja grafhýsi Maos.
Ég ætlaði með hópnum, en Kínverska sendiráðið neitaði mér um áritun. Skýringin var sú að um svipað leyti var von á kínverskri sendinefnd hingað til lands undir forystu ding Xuesong, merkri konu sem var m.a. fyrsti kvensendiherra Kína. Töldu sendiráðsmenn einboðið að ég yrði heima til að taka á móti sendinefndinni. Móttakan hvíldi að mestu á okkur Magnúsi Karel Hannessyni, Emil Bóassyni, Önnu Einarsdóttur og síðast en ekki síst Kristjáni Jónssyni.
En aftur að 8. nóvember 1977:
Þegar sendiráðsmaðurinn Xie Yngong kvaddi mig í Keflavík sagðist hann telja að allmerkur viðburður yrði í mínu lífi en gaf ekkert uppi um hvað það væri.
Við komum til Beijing um morguninn 7. nóvember. Í hópnum voru auk mín Anna Einarsdóttir, ritari félagsins, Guðrún Ólafsdóttir kristniboða, sem var fædd í Kína, Bjarni Þórarinsson, skólastjóri og kona hans, Svanhildur sigurjónsdóttir, Hjörleifur Sigurðsson, formaður Bandalags íslenskra myndlistarmanna, Kári Sigurbergsson læknir og Zophonías Jónsson, en hann var einn af stofnendum Kím og hafði verið í sendinefnd sem fór til Kína árið 1952 og ruddi brautina að stofnun Kím.
Í hádeginu þann 8. nóv. Var okkur tjáð að einn af varaforsetum Kína, Wang zhen, tæki á móti okkur og skyldum við vera sæmilega til fara.
Ég klæddist auðvitað hátíðar-Maofötunum sem ég hafði keypt árið 1975 og héldum við síðan til fundarins. Með okkur var kínverskur túlkur, sem talaði sæmilega íslensku. Þá var einnig viðstaddur Ragnar Baldursson, og sést á ljósmyndum að hann var í lopapeysu.
Wang zhen tók á móti okkur í anddyri alþýðuhallarinnar miklu, faðmaði mig að sér og kyssti á báða vanga. Ég var svo óvanur kossum karlmanna að við lá að ég færi að brynna músum.
Síðan hófst fundurinn.
Rætt var um ýmis mál og kom þar að gestgjafinn sagðist hafa áhyggjur af þeirri ósk Íslendinga að bandaríski herinn færi héðan. Sagði hann að á kreiki væru alþjóðlegir úlfar sem gætu notað tækifærið þegar tómarúm skapaðist í norðurhöfum og hremmt landið.
Ég fann, þegar mesta feimnin var farin af mér, að ég réð ágætlega við þessar samræður og mundi þá eftir því að Geir Hallgrímsson hafði verið í Moskvu rúmum mánuði áður og fullyrt að Íslendingar færu aldrei með ófriði á hendur annarri þjóð. Ákvað ég að láta til skarar skríða í þessum umræðum.
„Það er eitt sem er alveg ljóst,“ sagði ég, „að Íslendingar verða aldrei fyrri til að kveikja ófriðarbál í Evrópu.“
Það fór sem mig grunaði. Varaforsetinn hló og fann um leið hvernig andrúmslotið varð ískalt. Vissi ég að félagar mínir frá Íslandi sárskömmuðust sín fyrir þetta skammarstrik mitt og varaforsetinn hefur ef til vill undrast heimsku þessa ungmennis frá Íslandi.
Ég naut augnabliksins í 15-20 sekúndur og bætti þá við: „Nema því aðeins að ráðist verði á landið. Þá gæti það orðið neistinn sem kveikti í allri álfunni.“
Wang Zhen klappaði hinn ánægðasti á hné mé og marg-endurtók: „Já, Já, Já“, ég fann að Íslendingarnir hættu við að skammast sín og andrúmsloftið breyttist.
Þessi saga hefur held ég aldrei verið sögð opinberlega, en einn af mínum bestu vinum, Kristján Jónsson færði hana örlítið í stílinn og sagði að ég hefði ábirgst að Íslendingar færu aldrei með her á hendur Kínverjum.
Þess má geta að daginn eftir fórum við til Shanghai. Þar tók á móti okkur kona sem bar og ber enn eftirnafnið Sai. Hún fagnaði mér himinlifandi og sagði: “Ég sá þig í sjónvarpinu í gær og þú varst í fötunum sem ég hjálpaði þér að kaupa fyrir tveimur árum.”
Ég skrifa kannski meira um þessa ferð síðar.
Kínversk málefni og menning | 8.11.2017 | 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stundum valda smáhlutir straumhvörfum í lífi fólks. Í dag eru 50 ár síðan alger straumhvörf urðu í lífi mínu.
Frá því um miðjan ágúst og fram í september 1967 vann ég við að skrifa námsefni á blindraletur handa okkur tvíburunum. Lauk því starfi rétt fyrir miðjan septembermánuð.
Föstudaginn fórum við mæðgin að heimsækja þau heiðurshjónin, Andreu Oddsteinsdóttur og Halldór Þorsteinsson, en þau bjuggu þá í virðulegu húsi við Miðstræti í Reykjavík. Á eldhúsborðinu var útsaumaður dúkur sem móðir mín varð mjög hrifin af og vildi vita hvar Andrea hefði fengið hann. Hún vísaði á verslunina Ístorg á Hallveigarstíg.
Ég vissi að þar fengjust hljómplötur frá Asíu en um þetta leyti var ég hugfanginn af arabískri tónlist og héldum við mæðgin þangað.
Þar fengust þá eingöngu hljómplötur frá Kína og olli það mér nokkrum vonbrigðum. En ég keypti tvær.
Annarri plötunni brá ég á plötuspilarann hjá Sigtryggi bróður og Halldóru, konu hans og kom þá í ljós að um kantötu var að ræða fyrir sinfóníuhljómsveit, kór og tenorsöngvara. Í upphafi 3. þáttar hljómaði stef sem ég kannaðist við sem einkennisstef kínverska alþjóðaútvarpsins.
Frómt frá að segja varð ég hugfanginn af tónlistinni og það svo að ég keypti á næstu mánuðum og árum allar þær hljómplötur sem Ístorg átti.
Hvað leiddi af öðru.
Stefán Jónsson, fréttamaður hafði farið í leiðangur til Kína árið áður og sendi hann okkur bræðrum segulbandsspólu með kínverskri byltingartónlist.
Ég hófst handa og hafði bæði samband við kínverska alþjóðaútvarpið sem sendi mér árum saman segulbönd og hljómplötur með kínverskri tónlist og kínverska verslun sem seldi hljómplötur og næsta hálfan annan áratuginn keypti ég tugi titla frá Kína og á sjálfsagt eitthvert mesta safn byltingartónlistar þaðan á Norðurlöndum.
Þá hófst ég handa við dreifingu kínverskra tímarita og bóka hér á landi og hélt því áfram til ársins 1989.
Ég gekk í Kínversk-íslenska menningarfélagið haustið 1969 og hef verið viðloðandi stjórn þess frá árinu 1974, þar af formaður í 30 ár í þremur lotum. Nú verður væntanlega endir á því á næsta aðalfundi félagsins.
Ég hef stundum sagt að Kína sé eilífðarunnusta mín og verður sjálfsagt svo á meðan ég er lífs.
Lagið Austrið er rautt, sem var kynningarstef útvarpsins í Beijing, varð mér svo hjartfólgið að það var leikið sem forspil að brúðarmarsinum í brúðkaupi okkar Elínar og hljómar m.a. sem hringitónn farsímans. Síðar vitnaðist að upphaflega var þetta ástarsöngur sem varð svo að lofsöng um Mao formann.
Ævi mín hefði orðið mun fábreyttari hefðum við mæðginin ekki rekist inn í kaffi til þeirra Andreu og Halldórs.
Kínversk málefni og menning | 15.9.2017 | 17:29 | Slóð | Facebook
Dagblað alþýðunnar, sem Íslendingar hafa aldrei kallað Alþýðublaðið, greinir frá því í dag (á morgun, þriðjudaginn 12. apríl) að kínverskum vísindamönnum hafi tekist að búa til sólarrafhlöður sem framleiða rafmagn á sólríkum dögum sem í rigningu.
Rafhlöðurnar eru húðaðar með grafími sem hefur ofurleiðni. Í regnvatninu eru ýmis efni sem mynda rafhleðslu. Enn eru þó þessar rafhlöður ekki samkeppnishæfar við aðrar sólarrafhlöður, en vísindamennirnir halda því fram að hér sé um enn eitt skrefið að ræða í fjölbreyttum orkugjöfum sem eru vistvænir.
Hér er frétt blaðsins.
Kínversk málefni og menning | 11.4.2016 | 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sitthvað riðar nú til falls í trúmálum. Sagnfræðingar hafa fyrir löngu upplýst um að jólaguðspjallið sé skáldskapur eða dæmisaga, vilji menn fremur nota það nafn, nýjustu rannsóknir benda til að Múhameð spámaður hafi aldrei verið til og nú viðurkennir Dalai Lama að stofnun embættisins sé mannanna verk og því hverfult sem slíkt.
Dalai Lama, sá 14. Síðan embættið var stofnað á 14. Öld, sagðist í samtali við BBC telja að líklegt væri að hann yrði sá síðasti í þessu embætti. Kína hefði nú tekið réttmætt sæti sitt á meðal þjóða heims. Það væri af hinu góða. En kínversk stjórnvöld yrðuað skilja stöðu sína og þjóðir heims yrðu að beita sér fyrir lýðræðislegri stjórnarháttum í Kína og upplýsingafrelsi.
- Olli það ekki vonbrigðum að bresk stjórnvöld skyldu ekki koma námsmönnum til hjálpar þegar þeir kröfðust aukins lýðræðis?
Breskir vinir mínir hafa sagt að tómir vasar bresku stjórnarinnar leyfðu ekki að hún stæði upp í hárinu á Kínverjum, svaraði Dalai kankvís.
Þegar fréttamaðurinn spurði hvort það væri ekki ólíklegt að hann yrði sá síðasti í þessu embætti þar sem kínversk stjórnvöld hefðu marglýst því að þau myndu velja eftirmann hans taldi hann vafasamt að valið yrði í embættið út frá pólitískum forsendum. En niðurstaða hins glaðlynda Dalai Lama varð þessi: Ef til vill kemst einhver heimskingi að sem næsti Dalai Lama. Stofnun þessa embættis var mannanna verk og það er því fólksins að ákveða áframhaldið. Það er þó skárra að núverandi Dalai Lama, sem er fremur vinsæll, verði sá s´íðasti, sagði hann og skellihló.
Kínversk málefni og menning | 20.12.2014 | 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kínaklúbbur Unnar veitir félagsmönnum Kím 20.000 kr afslátt á 19 daga ferð til Kína í sumar, en ferðin stendur frá 5.-23. júní. Meðal annars veður farið til Shanghai, Suzhou, Chengdu, Tíbets og Beijing og er þá fátt eitt talið.
Viðtal við Unni ásamt upplýsingum um ferðina eru á menningarmiðlinum Hljóðblogg.
Kínversk málefni og menning | 5.3.2014 | 07:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Awa-menn eru um 350.000 og búa flestir þeirra innan kínversku landamæranna, en fámennur hópur býr í Burma.
Skrifað er um fyrirlesturinn á bloggi Kínversk-íslenska menningarfélagsins.
Kínversk málefni og menning | 27.4.2012 | 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun var vakin athygli mín á færslu Egils Helgasonar á Silfri Egils, þar sem hann fjallar um viðræður Íslendinga og Kínverja um gerð fríverslunarsamnings og sitthvað fleira. Þar sem nokkrar rangfærslur er um að ræða í pistli Egils var honum sendur pistillinn, sem hér fer á eftir.
--
Heill og sæll, Egill.
Eins og þú ert ágætur upplýsingamaður, þykir mér með eindæmum hvernig þú fjallar um samskipti Kínverja og Íslendinga, í þessu tilviki samning um fríverslun og viðskipti milli ríkjanna. Ég hafði hugsað mér að rita athugasemd við pistil þinn, en skjálesarinn hjá mér leyfir það ekki. Vona ég að þú birtir það sem hér fer á eftir:
Afstaða Kínverja til Íslendinga
Kínverjar hafa að mörgu leyti verið Íslendingum jákvæðir á erlendum vettvangi. Stafar það m.a. af því að Ísland hefur staðið utan Evrópusambandsins og hafa kínversk stjórnvöld því haft hug á að efla samskiptin. Minnt skal á að Kínverjar studdu útfærslu landhelginnar í 50 og 200 mílur og heimildir benda til að einn af samningamönnum Kínverja á hafréttarráðstefnunni í Genf árið 1958, Chen Tung, sem síðar varð sendiherra hér á landi, hafi átt nokkur samskipti og samstarf við sendinefnd Íslendinga.
Þegar Vestmannaeyjagosið varð árið 1973 urðu Kínverjar fyrsta þjóðin utan Norðurlanda til að rétta Íslendingum hjálparhönd. Þá má minna á afstöðu Kínverja innan alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þegar Hollendingar og Bretar hugðust kreista Íslendinga eins og mús lí lófa sér.
Fríverslunarsamningarnir og Huang Nubo
En komum nú að fríverslunarsamningunum:
Samningaumræðum varð sjálfhætt þegar ríkisstjórnin, sem Samfylkingin leiðir, hóf umsóknarferlið að Evrópusambandinu. Ástæðan er einföld: þegar ríki gengur í Evrópusambandið fer slíkt samningsferli úr höndum aðildarríkjanna. Samningar sem einstök ríki hafa náð í milliríkjaviðskiptum, verða sjálfkrrafa teknir upp af Evrópusambandinu. Á þetta töldu Kínverjar ekki hættandi enda hafa þeir haldið því fram að þeir séu tilbúnir að veita Íslendingum ýmsar ívilnanir í viðskiptum umfram Evrópusambandið.
Vegna þess, sem þú segir um viðskipti Huang Nubo, verður því hiklaust haldið fram á þessum vettvangi, að hann hafi verið hafður að ginningarfífli. Ég átti erindi til Beijing og fleiri borga í Kína í haust og þar bar þetta mál iðulega á góma. Þegar við Íslendingarnir greindum kínverskum viðmælendum frá því að 300 ferkílómetrar lands á Íslandi væri álíka mikið hlutfalll af Íslandi og 27.000 ferkílómetrar af kínversku landi, sem samsvarar hainan-eyju, fór um áheyrendur. Við vöktum athygli á að mun heilladrýgra hefði verið að sækjast eftir leigu á landi en kaupum á svo stórri landspildu. Hver einasti viðmælandi okkar tók undir þessa skoðun og sumir, sem hafa mikla reynslu í samskiptum við erlendar þjóðir, undruðust að ekki skyldi hafa verið lögð áhersla á slíkt.
Bág réttindi farandverkafólks
Það er rétt hjá þér að aðbúnaður verkafólks í kínverskum verksmiðjum er víða slæmur og þetta vita kínversk stjórnvöld. Ýmislegt hefur verið gert til þess að ráða bót á þessu ófremdarástandi, sem ríkir sums staðar, en ekki alls staðar. Líkja Kínverjar sjálfir þessu við það, sem tíðkaðist í upphafi iðnbyltingarinnar í Evrópu og reyndar fram undir aldamótin 1900. Þá er einnig vitnað til Bandaríkja Norður-Ameríku, en þar var aðbúnaður verkafólks víða ekki upp á marga fiska á fyrri hluta síðustu aldar. Þá virðist því miður sem mannlegt eðli sé svipað hvar sem borið er niður. Í skjóli einkaframtaks þrífst ýmislegt misjafnt, eins og hefur komið fram í kínverskum verksmiðjum. Jafnvel á Íslandi höfum við orðið vitni að andstyggilegu þrælahaldi erlends verkafólks. Kjarasamningar eru ekki virtir og fólkið býr jafnvel við svo frumstæðar aðstæður að enginn Íslendingur léti bjóða sér slíkt. En þær virtust nógu góðar handa Pólverjum, a.m.k. á meðan góðærið á Íslandi var sem mest. Slíkt dæmi höfðum við fyrir augunum veturinn 2007-2008.
Samsæriskenningar og svartagallsraus af því tagi, sem þú hefur stundum látið þig hafa, sæmir ekki jafnágætum fjölmiðlamanni og þér. Við þurfum ekki á hleypidómum að halda, heldur upplýstri umræðu og sannleikanum í hverju máli.
Vegni þér vel.
Arnþór Helgason
---
Arnþór Helgason, vináttusendiherra,
Tjarnarbóli 14,
170 Seltjarnarnesi.
Sími: 5611703
Farsími: 8973766
Netföng: arnthor.helgason@simnet.is
http://arnthorhelgason.blog.is/
Kínversk málefni og menning | 18.4.2012 | 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tíbetska sagnaljóðið um Gesar konung, sem er rúmlega þúsund ára gamalt, er talið lengsta sagnaljóð, sem varðveist hefur.
Í þættinum Hlustendagarðinum, The Listeners Garden, sem útvarpað er á vegum kínverska alþjóðaútvarpsins, china Radio International, er fjallað um þetta merka kvæði eða sagnabálk auk borgarmúranna umhverfis Xian, sem draga að sér milljónir ferðamanna á hverju ári.
Á undan þessu er lesið úr bréfum hlustenda og birt stutt viðtal við ritstjóra þessarar bloggsíðu, sem brá sér í heimsókn til kínverska alþjóðaútvarpsins 5. apríl síðastliðinn. Með því hélt ritstjórinn upp á að 45 ár eru um þetta leyti liðin frá því að hann hóf að fylgjast með kínverska alþjóðaútvarpinu, sem áður nefndist Radio Peking.
IN ENGLISH
The Tibetan epic poem of King Cesar is over 1.000 years old and is believed to be the longest epic poem in the world.
On the radio Show, The Listeners Garden, which is broadcast by China Radio International this poem is introduced as well as the city walls araound Xian. Before that the letters from some listeners are read and an interview with the editor of this page can be heard, but he visited China Radio International on April 5 to celebrate among other things that he has been a regular to the stations broadcast for 45 years.
Kínversk málefni og menning | 13.4.2012 | 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardaginn 7. apríl hófst 3. tónleikaröð starfsársins hjá Þjóðarsinfóníuhljómsveitinni í Beijing. Að þessu sinni verða haldnir 11 tónleikar, þar sem fram koma ýmsar af þekktustu sinfóníuhljómsveitum Kínverska alþýðulýðveldisins. Okkur hjónum var boðið á tónleikanna og nutum þeirra í ríkum mæli. Ég hef ekki verið á sinfóníuhljómleikum í Beijing í 26 ár og var ánægjulegt að verða vitni að hinni miklu og öru þróun sem hefur orðið á sviði sígildrar, vestrænnar tónlistar í Kína.
Í ávarpi, sem embættismaður kínverska menningarmálaráðuneytisins flutti við upphaf tónleikanna, kom fram að stjórnvöld hefðu ákveðið að niðurgreiða aðgöngumiða, sem þættu orðnir of dýrir til þess að almenningur fengi notið sinfónískrar tónlistar. Eftir því sem okkur virtist, kostuðu miðarnir á þessa tónleika álíka mikið og miðar á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu. Hljómsveitarstjóri var Lin Tao, sem hefur getið sér gott orð sem hljómsveitarstjóri víða í Evrópu.
Kínversk og vestræn tónlist
Á tónleikunum voru leiknir þættir úr evrópskum og kínverskum verkum. Tónleikarnir hófust með forleiknum að Ruslan og Ljudmílu eftir glinka. Þar næst var Dans Yaomanna, kínverskt verk frá miðjum 6. áratugnum, þá þrír þættir úr ballettsvítunni Rauðu kvennaherdeildinni og fyrsti þáttur píanókonsertsins, Stofnendurnir, en Guan Xia lauk við að semja hann á síðasta ári. Einleikari var Wu Makino.
Eftir hlé voru þættir úr Svanavatninu og Carmen á dagskrá auk fyrsta þáttar 9. sinfóníu Dvoraks úr nýja heiminum.
Þjóðarleikhúsið mikla
Tónleikarnir voru haldnir í Þjóðarleikhúsinu mikla, sem stendur nærri Torgi hins himneska friðar í Beijing. Bygging þess hófst árið 2001og var það tekið í notkun árið 2007. Auk tónleikasalar, sem rúmar um 2.000 áheyrendur, er sérstakur salur til óperuflutnings auk annarra smærri sala fyrir ýmsar tegundir tónlistar. Húsið, sem gengur undir nafninu Eggið, mótast mjög af egglaga formum. Þessi mikla listamiðstöð er mikilfenglegt listaverk og svo stór í snium, að Harpa verður hálfgerð smásmíði. Byggingin er sögð hafa kostað 50 milljarða og 400 milljónir íslenskra króna á gengi því sem Seðlabankinn gaf upp þriðjudaginn 10. apríl 2012.
Nokkurrar tilhlökkunar gætti hjá okkur hjónum að bera saman hljómburðinn í Egginu og Eldborgarsal Hörpu. Hljómurinn virtist nokkuð jafn og dreifingin góð. Þar sem við sátum á næstfremsta bekk á öðrum svölum þótti mér djúpir tónar bassans ekki skila sér nægilega vel. Kann þar að hafa valdið hljóðstilling salarins.
Um kínversku verkin
Flestir lesendur þessa pistils þekkja þau vestrænu verk, sem nefnd hafa verið hér að framan. Dans Yaomanna var upphaflega saminn fyrir hljómsveit með kínverskum hljóðfærum. Verkið er rómantískt og á að endurspegla þjóðleg einkenni Yao-þjóðflokksins. Hefur það notið mikilla vinsælda. Dansinn var saminn árið 1952 og voru höfundarnir tveir: Liu Tieshan og Mao Yuan. Hljómsveitin lék þetta verk ágætlega og naut viðkvæmni þess sín auk fjörugra kafla, þar sem slagverkið naut sín.
Ég hafði hlakkað mikið til að heyra þættina úr Rauðu kvennaherdeildinni, en það verk hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því að ballettinn var gefinn út á hljómplötum árið 1972. Við hlið mér sat kínversk vinkona okkar hjóna, Lu Yanxia, sem var barnastjarna í Jinan og dansaði þá hlutverk aðalpersónunnar, wu Qinghua. Nutum við verksins í ríkum mæli. Elín þekkir þetta verk einnig mætavel, enda eru kaflar úr því fluttir hér á heimilinu við og við. Hljómsveitin lék forleikinn, Dans rauðu herkvennanna og hluta annars þáttar.
Eins og mörg verk, sem samin voru í menningarbyltingunni, var tónlistin við Rauðu kvennaherdeildina samvinnuverkefni þeirra Du Mingxin, Wu Zuqiang, Wang Yanqiao, Shi Wanchun og Dai Hongcheng.
Leikur hljómsveitarinnar var yfirleitt áheyrilegur. Þó var áberandi misræmi milli strengjasveitar og blásara. Einkum virtust básúnurnar óhamdar.
Í fyrsta þætti píanókonsertsins Stofnendanna, sem var síðastur á dagskrá fyrir hlé, drukknaði hljómur slaghörpunnar í ofurþunga hljómsveitarinnar. Verkið virðist, eftir því sem dæma má af fyrsta þætti, líkast amerískri kvikmyndatónlist úr bandarískri ástarkvikmynd. Meginstefið er knappt og endar í svo tilfinningalegum hljómi, að hver sá, sem er viðkvæmur í lund, hlýtur að tárast. Vart verður þetta verk talið merkasta framlag Kínverja til píanóbókmenntanna. Svo að öllu sé þó haldið til skila er það lagrænt og fellur sjálfsagt ýmsum, sem eru að byrja að feta sig um vegi vestrænnar tónlistar, vel í geð.
Íslendingar, sem eiga leið um Beijing, eru eindregið hvattir til að veita athygli því mikla framboði tónlistar af ýmsu tagi sem er á boðstólnum í borginni. Óhætt er að fullyrða að Beijing verður innan skamms ein þeirra stórborga, sem skartar miklu úrvali alls kyns tónlistar við flestra hæfi.
Kínversk málefni og menning | 10.4.2012 | 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 319741
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar