Færsluflokkur: Samgöngur

Rangur starfsvettvangur

 

Í Pressunni í dag er greint frá því að vagnstjóri nokkur hjá Strætó hafi lagt fram kæru á hendur yfirmönnum fyrirtækisins vegna þeirrar ákvörðunar að setja staðsetningarbúnað í vagnana.

Í sömu frétt segir að strætisvagnabílstjórar hati kvenmannsröddina sem lesi nöfn biðstöðva.

http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Innlent/vagnstjorar-hata-kvenmannsroddina-talar-hatt-med-ding-dong-hljom---kippa-henni-ur-sambandi

Nokkuð bar á því að sögn starfsmanna Strætó, sem ég ræddi við, að bílstjórar hefðu aftengt raddbúnaðinn og vegna kvartana frá notendum raddbúnaðarins, voru lyklar að tækjaskápum vagnanna teknir af bílstjórunum.

Kvörtun þessa vagnstjóra opinberar þá dapurlegu staðreynd að jafnan eru þeir menn til, sem vilja leggja stein í götu þeirra sem reyna þrátt fyrir fötlun eða aldur, að lifa eðlilegu lífi. Slíkir menn ættu að taka eitthvað annað að sér en þjónustustörf eins og akstur strætisvagna.

Sú ákvörðun að setja leiðsagnakerfi í strætisvagna höfuðborgarsvæðisins, ber vitni um jákvætt hugarfar núverandi stjórnenda, sem vilja umfram allt auka þjónustu við farþegana. Þessi búnaður gerir nokkrum hópi fólks kleift að notfæra sér vagnana, en án hans gætu menn það ekki. Leiðsögubúnaðurinn rýfur einangrun hópsins oog eykur sjálfstæði hans. Ég dreg stórlega í efa að röddin í leiðsögubúnaðinum trufli jafnmikið og viðtækin, sem sumir bílstjórar hafa í gangi og varpa yfir farþega svo háværri tónlist að orðaskil í leiðsögutækjunum verða ekki greind.


Brjálaði maðurinn með blindrastafinn

Föstudaginn 16. þessa mánaðar verður haldi ráðstefnan Hjómum til framtíðar. Verður þar rætt hvernig megi auka hljólreiðar í Reykjavík. Ekki veitir af, því að aðstaða gangandi og hjólandi vegfarenda hefur farið versnandi að undanförnu nema þar, sem lagbðir hafa verið sérstakir hjólreiðastígar.

 

Árangursrík endurhæfing

 

Árið 1978 var ég svo heppinn að komast í endurhæfingu í borginni Torquay í Devonskíri á Bretlandi. Lærði ég þar m.a fyrir tilstilli Elínborgar Lárusdóttur, blindraráðgjafa. að komast leiðar minnar með því að nota hvíta stafinn, eitt helsta hjálpartæki blindra. Þegar ég kom heim hófst ég handa við að læra ýmsar leiðir og reyndist móðir mín, Guðrún Stefánsdóttir, mér einstaklega velí þeirri viðleitni. Einnig reyndist Emil Bóasson ásamt öðrum mér mikil hjálparhella.

 

Á næstu árum fór ég víða um borgina á eigin spýtur og lenti í margvíslegum ævintýrum. Naut ég þess að ögra sjálfum mér og umhverfinu og takast á við þann vanda sem fylgir því að fara gangandi um borgina á eigin spýtur og án annarrar aðstoðar en þeirrar, sem reyndist nauðsynleg.

 

Versnandi aðstaða

 

Um nokkurra ára skeið dró úr gönguferðum mínum, enda voru þá annir miklar og aðstæður breyttar. Eftir a ég missti fasta atvinnu í ársbyrjun 2006 hófust gönguferðirnar á ný. Þá komst ég að því að aðgengi blindra og sjónskertra að Reykjavíkurborg hefur stórversnað og samtök fatlaðra virðast hafa sofnað á verðinum nema þeirra, sem ferðast um í hjólastól. Þeir hafa vakað á ferðunum og stundum troðið á rétti annarra. Verða hér rakin nokkur dæmi um hættur, sem hafa verið búnar til í umferðinni.

 

1.    Svokallaðar zebrabrautir eru nær horfnar úr borginni. Gangandi og hjólandi vegfarendum er nú iðulega beint yfir götur á gangbrautum sem eru á gatnamótum. Því fylgir einatt stórhætta og sums staðar eiga gangandi vegfarendur þar engan rétt.

2.    Gatnamót eru nú með meiri sveigju en áður og er oft erfitt sjónskertu eða blindu fólki að taka rétta stefnu yfir gangbrautir.

3.    Sums staðar á gatnamótum eru svo kölluð beygjuljós. Þegar umferð hefur stöðvast á aðalbraut virðist þeim, sem ætla að beygja inn í hliðargötur, gefið veiðileyfi á gangandi vegfarendur í dálitla stund. Skapar þetta stórhættu og er í raun banatilræði við þá sem eru sjónskertir eða blindir.

4.    Víða hefur gangbrautum verið breytt þannig, þar sem götur eru í breiðara lagi, að gangandi eða hjólandi vegfarendur geta ekki farið beint af augum yfir göturnar. Sveigja verður til hliðar á umferðareyjunni til þess að komast leiðar sinnar. Er þetta erfitt hjólandi vegfarendum )t.d. þeim sem eru á tveggja manna hjóli) og gerir blindu fólki nær útilokað að fara yfir á réttum stöðum. Þessar brautir eru í raun sem ófær stórfljót.

5.    Víða í borginni finnst ekki lengur neinn munur á götum og gangstéttum og lenda því blindir vegfarendur iðulega úti á götu án þess að átta sig á því. Laugavegurinn er glöggt dæmi um slíkt.

6.    Borgaryfirvöld hafa markað örstutt svæði nærri umferðarljósum og víðar með rauðum steinum. Áferð þeirra er svo svipuð nánasta umhverfi að blindur maður með hvítan staf tekur ekki eftir neinu.

7.    Í þeim mannvirkjum, sem tekin hafa verið í notkun að undanförnu, er ekkert tillit tekið til blindra eða sjónskertra. Arkitektar virðast enga hugmynd hafa um merkingar, heppilega litasamsetningu, leiðarlínur o.s.frv. Háskólatorgið, Háskólinn í Reykjavík og Höfðatorg eru glöggt dæmi um slíkt. Þá er Ingólfstorg beinlínis stórhættuleg slysagildra.

8.    Engar merkingar eru í námunda við biðstaði strætisvagna sem auðvelda blindu fólki að finna þær.

9.    Víða eru margs konar stólpar og hindranir sem valda fólki meiðslum og margs kyns óþægindum.

10.  Ekkert, bókstaflega ekkert, var gert til þess að auðvelda blindu eða sjónskertu fólki umferð um Hlemm og aðrar samgöngumiðstöðvar. Þegar breytingar voru hannaðar var látið sem þessi hópur væri ekki til.

 

Þótt félagsþjónusta í Reykjavík sé e.t.v. skárri en víðast hvar verður því ekki neitað að borgin er þannig skipulögð að unnið er markvisst að einangrun þessa hóps. Tökum sem dæmi hús Blindrafélagsins við Hamrahlíð 17. Þangað er að vísu hægt að komast með einum strætisvagni. Sá, sem hyggst fara gangandi þaðan á eigin spýtur í norður, er hins vegar ofurseldur Miklubrautinni vegna breytinga, sem gerðar voru á gönguleiðinn á mótum Miklubrautar og Stakkahlíðar. Nú er ekki lengur hægt að fara beint yfir Miklubrautina heldur verður að sveigja til hliðar til þess að halda áfram. Þannig var blint fólk útilokað frá því að nýta þessa gönguleið og þjónustumiðstöð blindra um leið einangruð.

 

Ástandið er litlu skárra í sumum nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar. Nú er nauðsynlegt að menn taki saman höndum og vinni markvisst að breytingum á þessu sviði og búi til borg og kaupstaði, sem ætluð sé öllum en ekki sumum. Myndum nú þrýstihópa þeirra sem eiga undir högg að sækja í umferðinni. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.

  

Ferðamönnum fjölgar í Tíbet

 

Um þessar mundir eru 5 ár síðan lokið var við að leggja járnbraut alla leið til Lhasa, höfuðborgar Tíbets. China Radio International hefur fjallað um málið frá ýmsum hliðum. Þar á meðal er þessi pistill.

Gamli og nýi tíminn mætast

 


Talandi GPS kemur til hjálpar

Nokkrum sinnum hefur verið fjallað um hið nýja leiðsögukerfi hjá Strætó og þá staðreynd að það er of lágt stillt í mörgum vögnum. Að sögn verkefnisstjóra fyrirtækisins er nú unnið að lagfæringum kerfisins. Að undanförnu hef ég ferðast með vögnum 11, 13 og 15 að jafnaði og enn hitti ég á vagna þar sem nær ekkert heyrist í kerfinu.

Á þriðjudaginn var fór ég vestur á Seltjarnarnes með leið 11 og greindist ekki hvað sagt var í kerfinu. Ég þekki hins vegar leiðina allvel og kom þetta ekki að sök.

Í morgun tók ég leið 15 frá Bíldshöfða vestur á Meistaravelli. Hafði ég ekki farið þessa leið áður og hugsaði nú gott til glóðarinnar - leiðsögukerfið ætti að duga. Svo var ekki. Ekki heyrðust orðaskil í kerfinu ena endrum og eins, þegar vagninn nam staðar og enginn sagði orð. Þá mátti með herkjum greina hvað sagt var.

Ég hef áður greint frá tilraunum mínum með talandi GPS-tæki í farsíma og í morgun kom þessi búnaður svo sannarlega að góðum notum. Með því að stilla tækið á leiðsögn las það öðru hverju upplýsingar um staðsetninguna, nógu nákvæmar til þess að ég vissi hvar ég væri staddur hverju sinni.

Það virðist ganga ótrúlega seint að hækka styrkinn í leiðsögukerfinu hjá Strætó og þar sem það er hæst stillt má það ekki lægra vera. Ég hef haldið því fram í samskiptum mínum við starfsmenn fyrirtækisins að í raun komist þetta ekki í lag fyrr en neytendur verða fengnir í lið með þeim sem stilla kerfið.


Andstaða við eðlilega bifreiðaskatta

Nú stendur yfr undirskriftaherferð gegn vegatollum hér á landi og er rætt um að verið sé að múra höfuðborgarbúa inni.

Umræða um vegatolla og bifreiðagjöld, einkum eldsneytisskatta, hefur verið í skötulíki hér á landi. Hún afhjúpar þá ömurlegu staðreynd að Íslendingar hafa í raun eyðilagt vissa innviði almannaþjónustu með því að haga seglum þannig að erfitt sé að nýta sér almenningssamgöngur. Er það einkar bagalegt á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem dreifbýlisbúar finna fyrir því.

Þótt ýmsir, sem vinna í Reykjavík og búa utan við höfuðborgina, hafi áttað sig á því að ódýrara sé að nýta sér almenningssamgöngur, er þeim þannig varið að of fáir sjá sér hag í því að ferðast með strætisvögnunum. Það er raunarlegt að verða vitni að því hversu illa vagnarnir eru nýttir á annatímum.

Vegatollar eru tíðkaðir alls staðar í kringum okkur og ekki nema sjálfsagt að þeir séu nýttir til að fjármagna vegaframkvæmdir. Tvöfaldur suðurlandsvegur kostar mun meira en sú leið sem vegagerðin vildi fara og því ekki nema eðlilegt að menn greiði fyrir þægindin. Í raun þarf að endurskoða alla samgöngustefnu Íslendinga og þar á meðal mikinn hluta þeirra flutninga sem stundaðir eru á vegum landsins.


Andvaraleysi og ófarir

Sitthvaðhefur borið til tíðinda að undanförnu og hef ég orðið fyrir tvenns konar hremmingum, misskemmtilegum.

Á fimmtudaginn var hélt ég gangandi frá Hlemmi í átt að Nóatúni 17. Veðrið var þokkalegt, næstum logn en örlítill vestan ískaldur andvari.

Eitthvað var ég annars hugar og sté í ógát út af gangstéttinni. Það kom svo sem ekki að sök en ég rauk upp á gangstéttina aftur og uggði ekki að mér. Skeytti ég engu um umferlisreglur sem ég hef kunnað í nokkra áratugi og hlaut árangur erfiðis míns. Varð fyrir mér ljósastaur og móttökurnar heldur óblíðar. Við höggið fann ég að vökvi seytlaði niður andlitið og taldi óvíst að ég gréti. Brátt leyndi sér ekki að blóð hljóp úr nösum mér og varð vasaklútur minn gegndrepa þegar ég þerraði það af mér. Sem betur fór hafði ég meðferðis heilmarga pappírsklúta og þarraði blóðið þar til rennslið stöðvaðist að mestu. Þá var hringt á leigubíl. Kom sér þá vel að hafa staðsetningartækið því að ég gat sagt símastúlku Hreyfils hvar ég væri staddur.

Ekki þarf að spyrja að því að heimleiðis hélt ég og þvoði þar almennilega framan úr mér.

Í morgun varð ég fyrir annarri reynslu sem kom þó ekki að sök og skaðaði hvorki sjálfan mig né aðra. Í vagninum sem ég ferðaðist með var ekkert leiðsagnarkerfi. Herdís, mágkona mín, hefur greinilega gleymt að tilflytjast í þann vagn en væntanlega stendur það til bóta. Ég leitaði uppi áfangastað með aðstoð símans og OVI-búnaðarins. En nú brá svo við að síminn missti hvað eftir annað samband við gervitungl og varð leiðsögnin eftir því kolröng. Hélt ég að eitthvað væri að og prófaði því tækið eftir að ég fór út úr strætisvagninum. Reyndist þá allt vera með felldu.

Mönnum er að vísu tekinn vari v ið að treysta um of á GPS-leiðsögn innan borga. Ég hef þó ekki reynt það fyrr en í dag að sambandsleysið væri slíkt að leiðsögutækið vissi vart sitt rjúkandi ráð. Velti ég fyrir mér hvort skýringarinnar sé að leita í því að ég sat í fremsta farþegasæti hægra megin. Fyrir framan mig var einhver tækjakassi sem kann að hafa truflað tækið. Gæti veðrið hafa skipt máli? Þoka var á og ímynda ég mer að lágskýjað hafi verið.


Byltingarkennd GPS-tækni í þágu blindra og sjónskertra

Í dag kom út útgáfa 4,6 af forritinu Mobile Speak (Farsímatali) sem spænska hugbúnaðarfyrirtækið Code Factory framleiðir. Mobile Speak er hugbúnaður sem birtir upplýsingar í farsímum með tali, stækkuðu letri eða blindraletri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hugbúnaðurinn var þýddur á íslensku fyrir 6 árum og hefur verið unnið að þýðingu viðbóta æ síðan.

Þessi nýja útgáfa Mobile Speak er merkileg fyrir þær sakir að hún gerir Ovi-kortin frá Nokia aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Flest mikilvægustu atriðin, sem í boði eru, hafa verið gerð aðgengileg. Hægt er að leita að ýmsum þjónustuflokkum s.s. veitingastöðum, samgöngumannvirkjum, verslunum o.s.frv. Hver og einn getur sett inn sína uppáhaldsstaði, leitað að fyrirtækjum, húsnúmerum o.s.frv. Þá er bæði göngu- og akstursleiðsögn í forritinu. Röddin, sem Nokia býður, er enn ekki á íslensku og er því framburður sumra nafnanna dálítið undarlegur: Sudurlandsbrát. En íslenska talið, sem birtir þær upplýsingar sem notandinn sér á skjánum, vegur upp á móti þessu því að þar eru allar upplýsingar lesnar á íslensku og framburður götuheitanna eðlilegur.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum var mér boðið að vera með í alþjóðlegum reynsluhópi sem prófaði Ovi-kortin og ýmislegt annað. Árangurinn hefur verið undraverður. Ég hef nýtt mér leiðsögnina á ferðum mínum með strætisvögnum og hef jafnan getað fylgst með því hvar ég er staddur hverju sinni. Á göngu minni til og frá vinnustað hef ég öðru hverju þurft að átta mig á því hvar ég væriog ekki bregst búnaðurinn. Þó verður að gjalda vara við að treysta honum í blindni. Í gærkvöld gerði ég eftirfarandi tilraun:

Ég ákvað að leita að húsinu nr. 54 við Sörlaskjól, en húsbondinn á því heimili, Flosi Kristjánsson, er einn þeirra sem lýst hefur áhuga sínum á þessum GPS-tilraunum sem ég hef gert að undanförnu. Þegar ég nálgaðist húsið kom í ljós að forritið gaf upp allt aðra fjarlægð en við hjónin töldum að væri rétt. Virtist sem staðsetning hússins ruglaði eitthvað kerfið í ríminu, hverju sem það er að kenna.

Fleir annmarka gæti ég nefnt, en þar er ekki við blindrahugbúnaðinn að sakast heldur ónákvæmni skráninga í gagnagrunninum. En víða á höfuðborgarsvæðinu er skráningin svo nákvæm að vart skeikar nema nokkrum metrum. Þá er auðvelt að treysta á búnaðinn og fylgjast með því yfir hvaða götur er farið. Aðeins þarf að styðja á einn hnapp og les þá Farsímatalið upp heiti þeirrar götu sem farið er yfir. Menn geta einnig horft í kringum sig með stýripinna símans og kannað hvaða gata liggur til hægri eða vinstri, þegar komið er að gatnamótum.

Á því er ekki nokkur vafi að þessi búnaður á eftir að nýtast mörgu blindu og sjónskertu fólki hér á landi og auka að mun sjálfstæði þess og öryggi. Ég tel þetta með því merkasta sem ég hef séð á þeim 36-40 árum sem ég hef fylgst með hjálpartækjum blindra og sjónskertra.

Að lokum skal þess getið að hugbúnaðinum fylgir einnig litaskynjari. Þá er myndavél símans beint að því sem skoða á og tekin mynd. Greinir hugbúnaðurinn þá frá lit ess sem myndað var. Einnig er hægt að athuga birtustig.

Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér þessa tækni, er bent á skjalið „find your way with Mobile speak 4.6 sem fylgir þessari færslu.

Örtækni hefur umboð fyrir Mobile speak.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skaftfellingur - heimildamynd um fortíðina í Vík

Í gær var frumsýnd myndin Skaftrellingur eftir Helga Felixson. Framleiðandi myndarinnar er Tröllakirkja. Fjölmargir komu að gerð myndarinnar og styrkir fengust víða að.

Flestir, sem fóru að sjá myndina, væntu þess að um væri að ræða heimildamynd um vélskipið Skaftfelling VE 33, sem kom til landsins í maí 1918, en skipið var smíðað að tilhlutan Skaftfellinga. Annaðist skipið flutninga á milli Reykjavíkur, Vestmannaeyja og nokkura hafna í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, þó aðallega Víkur frá því í apríl ár hvert fram í október, um 20 ára skeið. Áhugasömum lesendum skal bent á bækling um Skaftfelling og útvarps þátt á síðunni http://hljod.blog.is undir flokknum "Sögur af sjó".

Flestum sýningargestum bar saman um að myndin væri vel gerð og falleg. Skaftfellingur er umgjörð ferðalags Helga Felixsonar inn í fortíðina þar sem hann leitast við að sýna þýðingu Skaftfellings fyrir samfélagið í Vík og ást Sigrúnar Jónsdóttur á skipinu. Þannig er myndin og slík er nálgun höfundarins. Helgi leitaði víða fanga og hafði úr miklum efnivið að moða. Myndin er því ávöxtur og hugarsmíð hans fyrst og fremst.

Dálítillar ónákvæmni gætti í myndinni og skorti nokkuð á að höfundur nýtti sér þær heimildir sem honum voru fengnar. Til að mynda virtist sem Skaftfellingur hefði fyrst og fremst þjónað víkurbúum og verið eign þeirra, en svo var ekki. Að vísu er vikið að því í einni frásögn myndarinnar að kaupstaðarferðir Skaftfellinga vestur á Eyrabakka hefðu lagst af eftir að "báturinn" eins og hann var kallaður manna á meðal hóf siglingar austur í Vík. En Skaftfellingur kom víðar við. Má nefna Hvalsýki og Öræfin, en skipið fór ævinlega tær-þrjár ferðir þangað á hverju sumri. Hlutafjár til smíði skipsins var aflað um Skaftafellssýslurnar báðar. Þá var Skaftfellingur hluti samgöngukerfis Vestmannaeyinga um fjögurra áratuga skeið og efast ég um að nokkurt skip hafi þjónað Vestmannaeyingum svo lengi.

Auk þess að vera óður til þessa aldna skips er myndinn óður til genginna forfeðra og háaldraðs fólks sem segir frá. Helgi virðist hafa gott lag á að laða fram eðlilega frásögn og samtölin eru dýrmæt. Í myndinni er seilst nokkuð langt þegar fjallað er um áætlanir um vegargerð meðfram suðurströndinni til Víkur og vakin athygli á þeim gríðarlegu náttúruspjöllum sem af henni myndu hljótast. Varð mér ósjálfrátt hugsað til þess hvernig menn hafa tilhneigingu til þess að fórna öllu á altari tæknivæðingar og þæginda. Segja má að þetta hliðarspor höfundar myndarinnar sé afsakanlegt því að um samgöngumál er að ræða og Skaftfellingi var ætlað að verða samgöngubót sem hann og varð.

Óvíst er hvernig farið hefði fyrir Skaftfellingi hefði hann ekki verið tekinn til flutninga milli Vestmannaeyja og Fleetwood veturinn 1940, er Helgi Benediktsson tók hann á leigu og keypti síðan. Hlutverki hans var þá lokið enda var þá orðið bílfært astur í Vík fyrir nokkru. Kaup Helga Benediktssonar á skipinu urðu einnig til þess að Skaftfellingar fengu mestallt hlutafé sitt endurgoldið, sem þeir höfðu lagt til smíðanna á Skaftfellingi rúmum tveimur áratugum áður og Skaftfellingur var um áratugaskeið og er reyndar enn einn af fjölskyldunni.

Nú verður Skaftfellingur eign Kötluseturs sem nýlega hefur verið stofnað. Hver, sem hefur áhuga á verndun menningarminja hér á landi, má vera þakklátur hverjum þeim sem tekur að sér umsjón þeirra og varðveislu.

Mynd Helga Felixsonar er hugljúf en þörf áminnig þess að Íslendingar hugi betur að sögu sinni og náttúru en verið hefur.


Skjót viðbrögð

Forráðamenn Strætós brugðust vel við ábendingu minni og hefur mér verið tjáð að annmarki sá sem lýst var í fyrri færslu hafi nú verið lagfærður. Bergdís Eggertsdóttir, verkefnastjóri, lýsti fyrir mér hvernig breytingar eru gerðar á kerfinu Herdísi, en það er heiti leiðsagnarkerfisins, nefnt eftir Herdísi Hallvarðsdóttur, vandaðri sómakonu sem les upp nöfn biðstöðvanna.

Það er ánægjulegt þegar stofnanir og fyrirtæki bregðast við ábendingum notenda og til mikillar fyrirmyndar.


Gönguleiðsögnin í Nokiasímunum

Nú er skammt þess að bíða að ný útgáfa talhugbúnaðarins frá Code-factory, sem notaður er í farsíma hér á landi og talar íslensku, komi á markað. Prófanir hafa gengið vonum framar og lofa góðu.

Tvenns konar leiðsögn er þar fyrir gangandi vegfarendur. Önnur leiðsögnin kallast "bein lína (kannski bein leið)" og hin "Gatnaleiðsögn" (þýðing mín á direct line and Streets). Við stuttar prófanir hefur komið í ljós að fyrri leiðsögnir gefur fremur takmarkaðar leiðbeiningar. Þó er sagt hvar beygja skuli og fjarlægðin að áfangastað er gefin upp. Sé hins vegar gatnaleiðsögninni fylgt fást ítarlegar upplýsingar.

Í dag gekk ég frá Nóatúni 17 að Hlemmi og vildi leiðsögutæki símans að ég héldi mig vinstra megin á gangstéttinni. Ég held að gangstéttin þar sé ekki jafnsamfelld og að norðanverðu við Laugaveginn og hlýddi ég því ekki.

Það verður mikil framför þegar þessi hugbúnaðarbreyting kemur á markaðinn hér, en hún er einn liður þess að rjúfa einangrun blindra og örva þá til þess að fara ferða sinna á eigin spýtur.

Nánar verður fjallað um þennan hugbúnað þegar hann kemur á markaðinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband