Færsluflokkur: Samgöngur
Margt þótti mér undarlegt á Hlemmi. Yfir hverfisgötuna norðan við biðstöðina liggur gangbraut. Á miðri götu er kantur eða eyja sem sveitja verður fyrir svo að leiðin verður eins konar krákustígur. Ég hef nokkrum sinnum orðið var við slíkar gangbrautir yfir götur í Reykjavik þegar við hjónin höfum farið um borgina hjólandi og fæ ekki skilið vers vegna þær eru hannaðar með þessum hætti.
Borgaryfirvöld virðast hafa skellt skollaeyrum við ýmsu þegar umferðarmannvirkin á Hlemmi voru hönnuð. Til að mynda eru flest skilt þannig úr garði gerð að þau eru sérhönnuð til þess að valda sem mestum meiðslum ef einhver rekur sig á þau.
Á 8. og 9. áratug síðustu aldar og fram á þann 10. var náið samráð á milli borgaryfirvalda og samtaka fatlaðra. Einhvern veginn held ég að það hafi farið minnkandi á árum R-listans þar sem fulltrúar alþýðunnar voru sagðir ráða mestu. Fróðlegt væri að fregna hvernig samtökum eins og Blindrafélaginu hafi vegnað, hafi þau þá eitthvað aðhafst í aðgengismálum blindra upp á síðkastið í borginni.
Samgöngur | 9.11.2010 | 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gpnguleiðir í nágrenni mínu eru ekki vel skráðar og ruglast því síminn talsvert. Ég á eftir að þaulreyna kortin á göngustígunum meðfram sjónum og kanna hvernig þau verka þar.
Víða í Evrópu hafa menn í dag og í gær gert tilraunir með þennan búnað og farið með strætisvögnum út um hvippinn og hvappinn. Þeir geta auðveldlega fylgst með því hvar þeir eru og er þetta ótrúleg frelsisviðbót blindu og sjónskertu fólki. Þeim sem hafa notað GPS-tæki árum saman þykja þetta sjálfsagt litlar fréttir, en þeim, sem hafa verið einangraðir vegna blindu sinnar finnast þetta miklar fréttir og geta nú horft fram á bjartari tíma. Umferliskennarar gera sér nú grein fyrir því að taka verður mið af þessari nýju tækni þegar blindu og sjónskertu fólki er kennt á umhverfi sitt. Nú þarf Reykjavíkurborg að ganga í lið með blindu og sjónskertu fólki og lagfæra ýmsar skelfingarvitleysur sem framdar hafa verið á gangstéttum og gangbrautum borgarinnar sem hafa orðið til þess að Reykjavík er víða stórhættuleg öðrum en akandi fvegfarendum og fuglinum fljúgandi.
Það er gleðilegt til þess að hugsa að fyrirtæki eins og Nokia skuli leggja metnað sinn í að vinna með framleiðendum hugbúnaðar sem er aðgengilegur í farsímum. Auðvitað er hér um markaðsmál að ræða, en samt læðist að mér sá grunur að einhver hugsun um almannaheill sé í farteskinu.
Þjónið alþýðunni, sagði Mao formaður.
Samgöngur | 27.10.2010 | 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við fórum krókaleiðir heim, þræddum göngustíga til þess að njóta næðisins. Þá vissi leiðsögumaðurinn hvorki í þennan heim né annan fyrr en við komum að Kolbeinsmýrinni. Þá áttaði tækið sig og greindi frá fjarlægð að Tjarnarbóli 14.
Í kvöld gerði ég aðra tilraun. Ég leitaði að tilteknu heimilisfangi við Nesveg, stillti tækið á talandi leiðsögn og lagði af stað út í myrkrið. Enskkumælandi kona í tækinu sagði mér að ég ætti 650 metra ófarna að ákvörðunarstað og síðan tók talgervillinn að telja niður. Ég ákvað að stríða ensku konunni og beygði inn Sörlaskjól. Þá þagnaði allt.
Ég sneri við og skráði inn heimilisfang mitt. Var mér þá sagt að ég væri fyirr utan Sörlaskjól 17 og ég skyldi halda í norðvestur. Ég gerði það. Vart var um aðra átt að ræða. Eftr nokkra stund var mér sagt að Nesvegur væri 60 metra í burto og þar ætti ég að beygja til vinstri. Þegar ég var rétt kominn að horninu var mér sagt að beygja.
Eftir nokkra stund var mér skipað að beygja inn Tjarnarstíginn þegar nær drægi og þegar þar að kom vildi tækið að ég færi þá leið og inn Tjarnarbólið. Ég þrjóskaðist við og hélt áfram meðfram Nesveginu. Tækið reyndi í tvígang að reikna út leiðina að nýju en tókst ekki. Akstursleiðsögnin hefði sagt mér að taka U-beygju og halda 200 metra í áttina sem ég kom úr og fara síðan inn tjarnarbólið. Jafnvel hefði tækið átt til að segja mér að halda áfram svo sem 100 metra í viðbót, taka þar U-beygju og aka síðan 300 metra til baka o.s.frv.
Gönguleiðsögnin í OVI-búnaðinum er fýsilegur kostur. Fróðlegt verður að kanna hvernig hún gefst á hinum ýmsu leiðum. Tékkneskur notandi Mobilespeak-búnaðarins, sem er í prófunarhópnum, fór einn síns liðs á gistihús sem hann leitaði uppi og fann það. Einungis þurfti hann að spyrja til vegar þegar hann var í þann mund að verða kominn að hótelinu.
Þegar hann fór aftur heim á leið leitaðihann uppi strætisvagnastöð, en lenti í villum. Búnaðurinn hélt honum þó það vel við efnið að hann áttaði sig og gat spurst til vegar. Ég veit að ýmsir, sem eru blindir og hugrakkir, skemmta sér konunglega við þess háttar tilraunir. Jafnvel ég, sem hef aldrei verið sérstaklega hugrakkur, brenn í skinninu að takast á hendur einhvern leiðangur út í óvissuna. Hættan er einungi sú að umhverfinu í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu hefur verið spillt svo mjög að það er að verða stórhættulegt blindu fólki að ferðast um eitt síns liðs. Ég hlýt að finna verðugt verkefni þar sem ég kemst hjá því að fara mér að voða.
GPS-tæknin í þágu blindra er mikið framfaraspor. Það á jafnt við um OVI-kortin og Loadstone-búnaðinn sem ritað hefur verið um á þessum síðum.
Samgöngur | 17.10.2010 | 23:40 (breytt 18.10.2010 kl. 15:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég prófaði forritið í kvöld. Birti það upplýsingar um húsnúmer og götur sem farið var yfir og vegalengdina að áfangastað. Að vísu eru enn nokkrir hnökrar á leit og lestri, en upphafið lofar góðu.
Samgöngur | 14.10.2010 | 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég prófaði gönguleiðsögnina í kvöld. Hún lofar góðu. Nöfn gatna sem farið er yfir birtast og hægt er að fá ýmsar aðrar upplýsingar svo sem húsnúmer o.s.frv. Nokkrir hnökrar eru þó á lestrinum en það stendur væntanlega til bóta. Þetta er einungis fyrsta tilraunaútgáfan og miðað við upphafið lofar framhaldið góðu.Lesendur bloggsins fá væntanlega að fylgjast með helstu tíðindum af þessum vettvangi.
Til mín hringdi einn lesandi þessa bloggs fyrir nokkru og vildi vita hvers vegna ekkert heyrðist frá blindu eða sjónskertu fólki um þessa tækninýjung sem talsvert hefur verið ritað um hér í sumar. Ég kann engin svör við þessari spurningu, veit ekki einu sinni hvort þessi hópur les yfirleitt bloggsíður. Ég þekki að vísu örfáa einstaklinga í hópi blindra og sjónskertra sem hafa gaman af Hljóðblogginu en engan sem lítur inn á þetta blogg nema ef vera skyldi Gísli Helgason og Birkir Rúnar Gunnarsson. Hins vegar hefur verið ánægjulegt hversu margir einstaklingar, tæknilega sinnaðir, hafa birt athugasemdir á þessu bloggi um hvað eina sem snertir tækniframfarir í þágu blinra og sjónskertra.
Samgöngur | 14.10.2010 | 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hringdi til hennar í gær eftir vinnu og spurði hvort hún hefði farið á námskeið hjá Hávörðuskóla í Bretlandi þar sem hinn mikli galdramaður, Harrí Potter, stundaði nám. Kvað hún svo verið hafa. Hún hefur náð þvílíkri leikni í tilflutningi að hún getur verið á mörgum stöðum í senn. Þannig ferðast Herdís nú með sífellt fleiri vögnum og les fyrir farþega upp biðstöðvarnar. Einnig sinnir hún rekstri fyrirtækis þeirra hjóna, heimilisstörfum og öðru sem að höndum ber.
Það er afar mikils virði þegar fyrirtæki eins og Strætó tekur í notkun nýjustu tækni og galdra. Það hefur verið ýmsum kappsmál í þrjá áratugi að heiti biðstöðvanna verði lesin og nú hefur Herdís leyst málið. Forráðamenn Strætós halda því að vísu fram að þarna ráði GPS-tæknin einhverju, en því trúir ekki nokkur maður með viti. Ég get komið með eina sönnun sem hrekur þessa fullyrðingu. Tilkynningar um næstu biðstöð hefjast á orðunum "Næsta stopp er". Hér er greinilega um ensk áhrif að ræða sem gleymst hefur að þýða á íslensku þegar galdraþulan var þýdd.
Samgöngur | 7.10.2010 | 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú þekki ég allvel leið strætisvagnsins upp í Hamrahlíð og sló því inn Hamrahlíð 17 í leit OVI-kortsins. Síðan stillti ég á leiðsögn og tók næsta vagn nr. 13.
Vitaskuld fór vagninn ekki þær leiðir sem leiðsögubúnaðurinn lagði til. Ég fylgdist með tímanum. Þó lá við að ég færi framhjá biðstöðinni við MH. Tækið skipaði mér tvisvar að taka U-beygju eftir að strætisvagnastjórinn skirrðist við að beygja inn í Stakkahlíð, en allt fór þetta vel að lokum. Ég hafði svo sem vellt fyrir mér áður en ferði hófst að rétt væri að skrá annað heimilisfang, t.d. Hamrahlíð 10 sem er heimilisfang Menntaskólans við Hamrahlíð.
Ég lauk erindum mínum og heppnaðist að taka næsta vagn út á Nes. Síðasti hluti þeirrar leiðar var ágætur. Eftir að komið var inn á Meistaravelli kom leiðsögubúnaði Nokia og bílstjóranum (sem auðvitað vissi ekkert um tilraunina) ágætlega saman. Þegar 300 metrar voru eftir að áfangastaðnum hringdi ég bjöllunni og rétt áður en vagninn nam staðar tilkynnti búnaðurinn að ég væri kominn í höfn.
Greinilegt er að þessi búnaður getur komið að nokkrum notum ef réttar upplýsingar eru skráðar. Vissulega væri það mikill kostur ef tækið birti með tali heiti þeirra gatna sem ekið er um. Þar sem Nokia-kerfið er ekki að öllu leyti aðgengilegt er erfitt að rjúfa leiðsögnina til þess að athuga hvar menn eru staddir hverju sinni enda er óvíst að kerfið veiti slíkar upplýsingar.
Það væri skemmtileg lausn að fá hnitakerfi leiða Strrætós og setja það inn í Loadstone-forritið sem ég fjallaði um í síðustu færslu. Hugsanlega finnst miklu betri lausn á þessu. En tilgangurinn með þessum skrifum mínum og tilraunum hlýtur að vera sá að auka lífsgæði þeirra sem eru blindir eða sjónskertir.
Samgöngur | 1.9.2010 | 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir nokkrum árum hófust tilraunir með GPS-kerfi sem kallast Loadstone. Tilgangur hönnuðanna var að búa til einfalt kerfi sem gæti aðstoðað blint og sjónskert fólk við að komast á milli staða. Kerfi þetta hefur nú verið í þróun í u.þ.b. 6 ár og notendur þess skipta tugum þúsunda í öllum heimsálfum. sums staðar hafa verið gerð ítarleg kort af svæðum sem eru sérstaklega miðuð við þarfir gangandi vegfarenda.
Upphaflega var gengið út frá því að farsímar, einkum Nokia símar, væru tengdir GPS-tækjum og endurómuðu með talgervli upplýsingar sem byggðu á boðum frá tækjunum (fjarlægð að stað, stefnu o.s.frv).nú hefur Nokia komið GPS-tækjum fyrir í nýjustu símunum og tengjast þau ágætlega Loadstone-forritinu sem nemur staðsetningar frá þeim.
Gallinn á gjöf Njarðar er sá að kortin, sem Nokia býður notendum farsíma sinna, nýtast ekki með Loadstone-forritinu heldur verða notendur að skrá inn þá punkta sem þeir þurfa að nota.
Í dag gerði ég eftirfarandi tilraun:
Ég hélt út fyrir hússins dyr og út á gangstéttina norðaustan við Tjarnarból 14. Ég kveikti á leiðsögutæki farsímans, virkjaði Loadston og beið þar til sambandnáðist milli Loadstone og GPS-tækis símans. Þá kom í ljós að tækið náði sambandi við 11 gervitungl. Ég studdi svo á ferninginn á lyklaborði símans. Þá var ég beðinn um nafnið á punktinum og var það auðsótt. Síðan var punkturinn vistaður og lagt af stað.
Þegar komi var að umferðarljósunum yfir Nesveginn skammt frá Eiðistorgi var aftur numið staðar og nýr punktur skráður.
Þriðja og síðasta punktinn skráði ég síðan við innganginn að þjónustumiðstöðinni við Eiðistorg. Punktarnir voru svo vistaðir undir einu heiti.
Síðar gerði ég nokkrar tilraunir. Ég gekk út að Tjarnarstíg sem er í austur frá Tjarnarbóli 14, sneri við og opnaði skrána með leiðsögupunktunum. Skömmu eftir að ég lagði af stað gaf tækið upp metrafjöldann að Tjarnarbóli 14. Þegar um 15 metrar voru eftir að innganginum gaf það frá sér hljóð og reyndist staðsetningin rétt. Þá var haldið áfram í áttina að umferðarljósunum og gerði tækið einnig viðvart um þau í tæka tíð.
Þessi tilraun var endurtekin og virtist skeika nokkrum metrum um nákvæmnina. Eitt er þó víst. Þetta forrit flýtir talsvert fyrir því að fólk komist á áfangastað og forritið bendir fólki í hvaða átt skuli haldið.
Þegar gengið er um göngustíga þar sem fátt er um kennileiti get ég ímyndað mér að Loadstone-forriti gæti nýst blindu fólki allvel. Með því að merkja ákveðna punkta ætti fólk að geta komist leiðar sinnar. Hægt er að fylgjast með næstu leiðarmerkjum eða kennileitum með því að styðja á örvalyklana á farsímanum. Helst þurfa menn að hafa símann hangandi um hálsinn til þess að heyra talið eða nota lítil heyrnartól sem skerða umhverfishlustun.
Hugsanlega verður hægt í framtíðinni að tengja saman þetta forrit og OVI-forritin og væri það mikill akkur hönnuðum, notendum og framleiðendum farsíma. Aðrar lausnir hafa einnig verið þróaðar handa blindu fólki en þessi er sennilega sú einfaldasta. Með þessum hætti geta menn fylgst með viðkomustöðvum strætisvagna o.s.frv og jafnvel merkt biðstöðvar þeirra á stöðum eins og Hlemmi.
Ég tel ástæðu til að blindrafélagið og Þekkingarmiðstöðin kanni hvort og hvernig þetta forrit eða önnur geti aukið sjálfstæði blindra og sjónskertra og aukið lífsgæði þeirra. Væri ekki tilvalið að virkja einhverja sem atvinnulausir eru til þess að Skrá ýmsar leiðir og gefa þær út? sérstakur gagnagrunnur hefur verið stofnaður sem hýsir leiðasöfn fjölmargra landa. Þá er afar einfalt að þýða forritið á íslensku og getur það hver sá gert sem kann dálítið á tölvu, skilur ensku og skrifar þokkalega íslensku.
Ég hvet lesendur, hvort sem þeir eru blindir eða sjáandi, til þess að skrifa athugasemdir og koma með hugmyndir um þessi GPS-mál. Hér á landi er of lítil umræða um ýmis framfaramál sem tengjast málefnum smáhópa og neytendurnir sjálfir eru þar sjaldan virkir. Látið því heyra í ykkur.
Samgöngur | 30.8.2010 | 21:50 (breytt kl. 21:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar við komum heim til Unnar voru höggin orðin háværari svo að nokkru nam. Þegar hjólinu var lyft sást að dekkið rakst á einum stað utan í hemlaklossana.
Við renndum okkur heim á leið og fann ég þá fyrir skekkju í afturhjólinu. Grunaði mig ekki að það sama endurtæki sig og fyrir tveimur árum. Þegar við áttum skammt ófarið að Tanngarði hvellsprakk.
Mér er óskiljanlegt hvers vegna dekk endast ekki lengur en þetta 700 km hjá okkur á tveggja manna hjólinu. Það er eins og þau nuddist í sundur eða eitthvað gerist þannig að þau byrja að gúlpa út. Við héldum að þetta væru vanstilltir hemlaklossar og fóru þeir viðgerðarmenn hjá Erninum ítarlega yfir þetta í fyrra.
Okkur brá við þennan hvell og snarhemluðum svo snögglega að Elín meiddist í hné, en hún hefur átt við óþægindi að stríða i því öðru hverju.
Hófst nú næsti þáttur ferðalagsns - sá að leita að sendibíl til að flytja Orminn bláa og okkur heim í háttinn. Engir sendibílstjórar voru á vakt eftir kl. 22 en klukkan var að nálgast miðnætti. Fangaráðið varð að hringja í Hreyfil og var okkur sendur stór farþegabíll. Með því að leggja niður aftursætin tókst að koma tveggja manna hjólinu þar fyrir.
Nú verður skipt um dekk á Orminum eftir helgi og sjálfsagt reynt að velja eitthvað gott og vandað. Annars eigum við Schwalbe hjólbarða sem er nær óslitinn og e.t.v. ráð að nota hann.
Samgöngur | 9.5.2010 | 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kornflögum, sem eru uppáhaldsfæða slímsveppa, var raðað í svipað mynstur og útborgir Tókíó. Skilið var eftir autt svæði þar sem miðborgin var og ein slímsveppsfruma sett þar. Sveppurinn tók að teygja anga sína í allar áttir og eftir nokkrar klukkustundir hafði verið þróað fullkomið gangakerfi sem flutti næringu til miðstöðvarinnar.
Gangakerfið var svipað því mynstri sem lestakerfi Tókíóborgar byggir á. Í framhaldi af þessu hefur verið þróað ákveðið reiknilíkan sem vísindamenn halda að geti komið hönnuðum samgöngumannvirkja að gagni. Líkaninu er hægt að beita til þess að fylgjast með umferð og haga almenningssamgöngum eftir því hvernig hún liggur.
Samgöngur | 2.3.2010 | 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 319697
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar