Færsluflokkur: Samgöngur

Breytt hugarfar

Haft er eftir forystu FÍB að þegar séu farin að sjást þess merki að fólk veiggri sér við að nota bifreiðar sínar sem áður og forstjóri N-1 segir bensínsölu hafa dregist saman um 12-15%.

Í Fjarðabyggð hafa ýmsir afþakkað hlutastörf vegna þess að langt er að sækja á vinnustað, kaupið lágt og bensínverðið hátt. Samgöngur eru strjálar og því ekki hægt að reiða sig á þær.

Á höfuðborgarsvæðinu er svipað upp á teningnum. Fólk býr sjaldan í grennd við vinnustað sinn og eftir hrunið á fasteignamarkaðinum eru búferlaflutningar takmarkaðir. Þá er ekki víst að hjón fái vinnu í sama bæjarhluta.

Við hjónin búum á Seltjarnarnesi. Konan vinnur suður í Hafnarfirði og ég vestur á Fiskislóð. Samgöngum er þannig háttað að vagnar standast illa á og ferð suður í Hafnarfjörð getur tekið allt að hálfum öðrum tíma á morgnana. Hún færi þessa leið á skemmri tíma á reiðhjóli.

Hið sama gildir um undirritaðan. Vegna þess hvernig samgöngum er háttað milli Seltjarnarness og Fiskislóðar tekur það álíka langan tíma að fara til vinnu gangandi og með strætisvagni. Gönguleiðin er hins vegar hættuleg þeim sem sér ekki fótum sínum forráð.

Því var spáð í uphhafi þessarar aldar að bensínverð færi hækkandi og lægju til þess ýmsar ástæður sem ekki verða raktar hér. Sú spá gengur nú eftir. Samgönguyfirvöld verða að íhuga breytingar á almenningssamgöngum og komast að niðurstöðu um breytingar sem bætt gætu nýtingu vagnanna.

Þá er ekki seinna vænna en yfirvöld undirbúi nú þegar rafvæðingu bifreiðaflotans og reyndar ættu olíufélögin að ganga þar á undan með góðu fordæmi. Innan 10 ára verða bensínbílar komnir á útsölu og meðhöndlaðir sem hvert annað gamaldags fyrirbæri sem fáir vilja eiga og flestir losna við.


Enn um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Eins og kunnugt er þeim sem lesa þessar færslur vinn ég nú sem sölumaður við Fiskislóð í Reykjavík. Þangað gengum við hjónin í morgun og nutum veðurblíðunnar. Fórum við okkur fremur hægt enda var sums staðar launhált. Við vorum rétt rúman hálftíma á leiðinni.

Við búum við Tjarnarból á Seltjarnarnesi. Um nesið ganga tveir strætisvagnar. Velji ég þann kost að fara með strætisvagni til vinnu tekur það frá 24-35 mínútur eftir því hvernig stendur á vögnum. Færum við hjólandi og flýttum okkur hægt værum við u.þ.b. 8-10 mínútur á ferðinni.

Strætisvagnarnir, sem ganga um Seltjarnarnes, fara báðir niður í miðbæ Reykjavíkur. Þaðan þyrfti ég að taka vagn aftur vestur í bæ. Er þetta nokkurt vit?

Miðað við horfur á næstunni má búast við að bifreiðaeign Íslendinga fari þverrandi. Þess vegna ættu menn nú að reyna að gera enn eina tilraun til þess að efla samgöngur og koma þeim í vitrænt horf. Mig grunar að afskipti kjörinna borgarfulltrúa Reykvíkinga hafi átt talsverðan þátt í því að nýja strætókerfið, sem margir bundu svo miklar vonir við, er hreinn óskapnaður.

Umræðan um Strætó fyrir nokkrum árum var sorglega lík því sem orðið hefur um Icesave, sem sumir kalla Ísbjörgu. Í báðum tilvikum lagðist íhaldið af alefli á árarnar og reri að því að eyðileggja þann árangur sem var í augsýn. Úr varð samgönguóskapnaður. Ef íhaldið sér að sér og formaðurinn fer að ráðum sér reyndari manna er ef til vill von um að úr rætist með Ísbjörgu. Engum er alls varnað.


Sex þúsund hraðahindranir

Í morgun var haft eftir fulltrúa Vegagerðarinnar að sex þúsund hraðahindranir væru í Reykjavík.

Leigubílstjórar finna fyrir hindrunum ásamt öðrum ökumönnum og forráðamenn Strætó hafa haldið því fram að hindranirnar eyðileggi hreinlega vagnana. Sumar hindranirnar eru þannig að hjólreiðafólk meiðir sig í höndum þegar hjólað er yfir þær.

Í morgun var þeirri spurningu varpað fram hvers vegna GPS-tæknin væri ekki nýtt til þess að stjórna hámarkshraða bifreiða. Öryrkjabandalag Íslands lagði til árið 1987 í bréfi til íslenskra tryggingafélaga að þróaður yrði búnaður til þess að fjarstýra hámarkshraða bifreiða. Taldi bandalagið að það væri áhrifamikil vörn gegn alvarlegum bifreiðaslysum. Tryggingafélögin hikuðu við að taka afstöðu.

Ég átti um nokkurt skeið sæti í umferðarráði og þar bar ég upp tillögu um hraðastýringu bifreiða. Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri ráðsins, studdi tillöguna en bifreiðasérfræðingar töldu henni allt til foráttu. Sögðu þeir slíkar fjarstýringar fara illa með vélarnar og færðu fyrir því mörg rök. Þeir gleymdu því flestir að í nýjum bifreiðum er tölvustýrður búnaður sem hægt er að nýta til þess að takmarka hraða þeirra.

Hraðahindranirnar og sú samgöngustefna sem Reykjavíkurborg virðist aðhyllast, auka bæði mengun og bensíneyhðslu í borginni. Strætisvagnakerfið er handónýtt eins og margoft hefur verið bent á og stöðugt færri nýta sér það.

Fyrr eða síðar verður að ráðast að rótum þess vanda sem samgöngur í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu öllu eru. Í raun ætti að setja svæðið undir eina skipulagsheild þannig að úrbætur í skipulags- og samgöngumálum yrðu sameiginleg ákvörðun allra íbúa svæðisins.


Þeyst um á Orminum bláa

Tveggja mana hjólið, Ormurinn blái, sem varð 7 ára í okkar eigu í vetur og er af Thorn Discovery gerð, hefur sjaldan farið í viðgerð. Einu sinni var skipt um afturkrans á hjólinu og auðvitað hefur verið skipt um dekk.

Í morgun komu þeir í hafragraut, Kolbeinn tumi á 14. mánuði og Árni, faðir hans á 40. ári. Þar sem veðrið var gott var Ormurinn blái dregin úr hýði sínu, settur á hann barnastóll og lagt af stað. Varð þá Ormurinn blái að þriggja manna hjóli.

Árni átti erindum að gegna austur í Borgartúni. Var ákveðið að halda þangað og velja leið við hæfi því að farmurinn eða farþeginn er ómetanlegt dýrmæti. Hjóluðum við sem leið lá eftir Ægisíðustígnum, þeim hluta hans sem er einungis ætlaður hjólreiðamönnum. Fórum við fram úr ungri stúlku sem vék fyrir okkur til vinstri handar. Við gáfum í og þeystum áfram þar til komið var að mótum stígsins og Suðurgötu. Var þá slegið af og haldið um háskólahverfið út á Hringbraut og þaðan eftir Snorrabrautinni og endað í Borgartúni.

Þá vorum við komnir svo austarlega að ákveðið var að líta við í Erninum, en við Ragnar Þór Ingólfsson, reiðhjólasérfræðingur og uppreisnarmaður innan VR, hövðum rætt saman um endurnýjun ýmiss búnaðar hjólsins. Er ekki að orðlengja að við fundum Örninn, hittum Ragnar og skildum Orminn eftir. Héldum við síðan til sama lands með leigubíl, útbúnum barnastóli.

Kolbeinn litli Tumi var himinlifandi yfir ferðinni. Átökin voru nokkur og fékk undirritaður hlaupasting.

Greinilegt er að ég þarf að þjálfa mig betur er ég ætla að hjóla austur í Vík í mýrdal á hausti komanda.


Hressandi hjólreiðar

Við hjónin notuðum tækifærið eftir hádegi og drógum björg í bú. Ormurinn blái var leiddur út úr fylgsni sínu. Eftir að við höfðum klæðst viðeigandi skjólfötum var haldið í Krónuna og Bónus.

Aðdrættir taka jafnan dálítinn tíma og þegar haldið var heimleiðis var skollinn á suðvestan stormur. Þótt regnið berði okkur og vindurinn gnauðaði var þetta einkar skemmtileg áreynsla. Furðulegt er hvað fáir halda hjólandi í verslunarferðir.


Vegakerfið í ólestri vegna vöruflutninga

Halldór Þorsteinsson, skólastjóri Málaskólans, hringdi til mín með eftirfarandi athugasemd sem hann vill koma á framfæri:

"Eftir að Eimskip fór að sigla eftir þjóðvegunum virðist vegakerfi landsins í mesta ólestri."

Þetta eru orð í tíma töluð. Vegirnir eru hvorki nægilega breiðir né traustir fyrir þá þungaflutninga sem nú eiga sér stað. Öryggi manna er þar með teflt í tvísýnu.


Ég fæ ókeypis í strætó

Tvær greinar af innlendum vettvangi í Morgunblaðinu vöktu í gær athygli mína. Önnur fjallaði um almenningssamgöngur á Ísafirði, Akureyri, Reykjanesbæ og Akranesi. Hin var grein Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um Ragnar Reykjása.

Ég þykist vera umhverfissinni og færi allra minna erinda hjólríðandi ef ég ætti þess kost.

Ég myndi nota almenningssamgöngur miklu meira en ég geri ef þær væru hagkvæmar og í lagi.

Einu sinni var gaman að ferðast með strætisvögnum. Þeir voru iðulega vettvangur heillandi umræðu og skemmtilegs mannlífs. Vagnarnir gengu á 15 mínútna fresti og Reykjavík var minni en nú.

Nú hefur borgin þanist út. Vagnarnir ganga á 20 mínútna fresti á virkum dögum en sums staðar á klukkutíma fresti um helgar og farþegum hefur fækkað. Vagnarnir standast sjaldnast áætlun og lengi, lengi, lengi, já langa-langa-lengi þarf að bíða eftir næsta vagni.

Ég hélt að nýja kerfið myndi laga þetta. Ef eitthvað var versnaði ástandið.

Í sumar kannaði ég hvað það tæki langan tíma að komast vestan af Seltjarnarnesi upp á Morgunblað. Það tók mig jafnlangan tíma og í fyrra, klukkustund og 15 mínútur, ef ég var heppinn.

Ég hef því orðið orkueyðslunni að bráð og bráðum ætlar Elín að hjóla með mér til vinnu. Það tekur um 40-50 mínútur. Þannig verðum við vistvæn og stundum hollt líferni.

Ég skil mætavel af hverju námsmenn nota ekki strætó sem skyldi. Kerfið er handónýtt og við orðin of værukærir, Íslendngar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband