Færsluflokkur: Menning og listir

misheppnaðir skyldupistlar Morgunblaðsins

Nokkrir fastir dálkar eru í Morgunblaðinu sem blaðamenn skrifa. Eru það einkum Víkverji og fjölmiðlapistlarnir. Þeir eru jafnmisjafnir og blaðamennirnir eru margir og stundum skemmta höfundarnir sér greinilega þegar þeir láta fingurna leika um lyklaborð tölvunnar.

Einatt hafa mér þótt margir fjölmiðlapistlarnir fram úr hófi illa gerðir. Stundum skrifa menn um eitthvað út úr hreinum vandræðum svo að úr verður hálfgerð vitleysa. Í dag skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir fjölmilapistil um geisladisk en hvorki sjónvarp né útvarp en nefnir þó Ríkisútvarpið á nafn. Ástæðan er diskur sem hún eignaðist og er með lögum bandaríska tónskáldsins Leroy Andersons.

Kolbrún minnist m.a. á ritvélarlagið fræga og minnir að það hafi verið kynningarlag þáttar sem hefði verið í líkingu við Samfélagið í nærmynd. Svo var nú aldeilis ekki. Þetta var þátturinn "Efst á baugi" sem var á dagskrá útvarpsins á 7. áratugnum og þeir sáu m.a. um Magnús Þórðarson, Tómas Karlsson og Björgvin Guðmundsson. Fjallað var um erlend málefni og var þátturinn mjög vinsæll.

Í pistlinum víkur Kolbrún að því að Leroy hafi talað íslensku reiprennandi. Ég man ekki betur en Jón Múli Árnason hafi í tvígang a.m.k. gengist við að hafa reynt að kenna Leroy íslensku en taldi að árangurinn hefðu orðið næstum því enginn.

Morgunblaðið ætti að vanda betur til fjölmiðlapistlanna og gera þá að eftirsóttu lesefni. Til að mynda væri æskilegt að í pistlunum yrði fjallað um frumflutning íslensks efnis í sjónvarpi og útvarpi. Hvers vegna fær blaðið ekki leiklistargagnrýnanda sinn til að dæma leikrit Útvarpsleikhússins? Þetta er sjálfsagt fjölsóttasta leikhús landsins og flytur miklu viðameira úrval leikverka en nokkurt annað leikhús á landinu.


Unaðsleg hljóðmynd

Í gær flutti Útvarpsleikhúsið fyrsta hluta leikritsins Sómafólks eftir Andrés Indriðason. Nefndist hann "Sól og blíða í Paradís". Fjallaði leikurinn um gullbrúðkaupsafmæli íslenskra hjóna sem fór öðruvísi en ætlað var.

Leikritið gerðist bæði utan- og innan dyra. Helsti galli hljóðritsins var sá að lítill sem enginn munur var á hljómnum og heyrðist örlítið herbergishljóð í utandyraatriðunum. Skrifast það e.t.v. á reynsluleysi tæknimanns eða leikstjórann sem hefur þurft að spara.

Í heildina var verkið prýðilega unnið og leikstjórn Ásdísar Thoroddsen til fyrirmyndar. Helst bar á því að Pétur Einarsson héldi ekki samfelldri raddbeitingu út verkið. Margrét Guðmundsdóttir var allan tímann samkvæm sjálfri sér.

Hljóðmynd leikrita skiptir mjög miklu máli. Með nútímatækni og betri hljóðritum hefur gerð hljóðmynda orðið flóknari en áður. Það var afar sannfærandi þegar jeppi var látinn spóla sig niður í leðju og hjólhýsi slitnaði aftan úr, eins þegar alld "heila klabbið" hlunkaðist niður snarbratta brekku og bíllinn braust yfir torfæran gróður og óslétt land.

Atriðið á sjúkrastofunni var meistaralega vel gert. Ég sat með heyrnartól til þess að geta einbeitt mér að því að hlusta. Stundum tók ég þau af mér til þess að átta mig á hvort einhver væri á ferli á ganginum. Það voru þá bakhljóðin í leikritinu sem voru svona eðlileg.

Það er mikil og góð skemmtan að hlusta á útvarpsleikrit. Þríleikur Andrésar Indriðasonar lofar góðu. Ekki er kafað of djúpt í sálarkima mannsins og lausnir flækjunnar, sem upp kemur í samskiptum þeirra hjóna, eru hreint ekki einfaldar. En höfundurinn heggur á hnútinn með sannfærandi hætti.

Að nokkru er vísað til vandamála nútímans, neysluhyggju almennings og fyrirhyggjuleysis, hégómaskapar, forræðishyggju og alvisku okkar karlmannanna.

Ástæða er til að óska flytjendum og framleiðendum verksins til hamingju.

Hægt er að hlusta á leikritið á vef Ríkisútvarpsins. Þá skal vakin athygli á að Útvarpsleikhúsið er á dagskrá alla sunnudaga kl. 14 og á fimmtudagskvöldum um kl. 22:15.


Snara - aðgengilegt vefbókasafn

Þessa viku hefur Forlagið opnað vefinn snara.is notendum að kostnaðarlausu, en þar eru ýmis uppflettirit s.s. orðabækur, Nöfn Íslendinga, matreiðslubækur og orðstöðulyklar. Mér sýnist sem verð heimilisáskriftar samsvari því að tæplega eitt uppflettirit yrði keypt á hverju ári.

Sameiginlegt þessum ritum virðist að fremur auðvelt er að fletta upp í þeim. Ókosturinn er e.t.v. sá að tölvunotandi blaðar ekki í þeim eins og í prentuðu uppsláttarriti. En kostirnir eru þó augljósir þeim sem vinna mest á tölvur.

Hér er um merkilegt og þarft framtak að ræða. Fyrir tæpum tveimur áratugum ræddi ég við útgefendur alfræðiorðabóka um nauðsyn þess að koma þeim á tölvutækt snið. Þá var tæknin vart fyrir hendi og þegar hún varð loksins aðgengileg töldu útgefendur vart markað fyrir slíka útgáfu. Þó tókst okkur hjá Blindrabókasafni Íslands að fá barnaorðabók og Hugtök og heiti í bókmenntum á tölvutæku sniði. Var það m.a. að þakka ágætu samstarfi við Mál og menningu og fyrirgreiðslu ritstjórans, dr Jakobs Benediktssonar sem var mikill áhugamaður um skráningu gagna í tölvur.

Ég hvet lesendur þessarar síðu til þess að kynna sér kosti vefbókasafns Snörunnar og njóta þess sem er þar á borð borið. Flestir aðgengisstaðlar eru virtir svo að notendur skjálesara geta einnig nýtt sér vefbókasafnið.


Kardimommubærinn og fjárglæfraþjófarnir

Við hjónin fórum á Kardimommubæinn í dag. Með okkur voru Hringur, Birgir Þór, Árni og Elfa. Báðir piltarnir skemmtu sér konunglega þótt annar væri á 15. ári og hinn nýorðinn fjögurra ára. Við fullorðna fólkið skemtum okkur einnig vel. Það var ánægjulegt að rifja upp gömlu söngvana og að hljómsveit skyldi vera í gryfjunni. Róbert Arnfinnssonhefur nú sagt af sér sem Sebastían og annar yngri maður, Baldur Trausti Hreinsson, tekið við. Honum fórst hlutverkið vel úr hendi eins og reyndar öllum leikurum sem tóku þátt í sýningunni. Tónlistin var söm við sig en örlítið bólaði stundum á rokki. Einna helst fannst mér að draga hefði mátt úr mögnun hljóðfæranna.

Boðskapurinn í Kardimommubænum er einfaldur. Allir eiga að vera góðir og enginn má stela frá öðrum. Forðast ber refsingar en leysa málin með atvinnu.

Hvernig væri nú að þessi 30-50 manna hópur, sem sagður er hafa steypt Íslandi í glötun, yrði boðaður á Kardimommubæjarsýningu og síðan leitað leiða til þess að fá hópin til að skila einhverju af auðæfum sínum til samfélagsins. Síðan gætu útrásarvíkingarnir fengið vinnu við sitt hæfi að undangengnu hæfnismati sem sérskipaður dómstóll almmenintgs, sem hefur borið skarðan hlut frá borði, dæmdi.<


Á tónsviðinu

Mér hefur löngum verið hugstætt hversu vandvirkur dagskrárgerðarmaður Una Margrét Jónsdóttir er. Kynningar hennar eru á einstaklega fögru og meitluðu máli og röddin hljómar vel í útvarp. Jafnan er eitthvert athyglisvert efni á dagskránni þegar Una Margrét er annars vegar.

Reyndar held ég því hiklaust fram að valinn maður sé í hverju rúmi á tónlistardeild Ríkisútvarpsins. Hver sýslar um sitt svið og gerir það vel. Það á við um Svanhildi Jakobsdóttur, Lönu Kolbrúnu Eddudóttur, Höllu Steinunni Stefánsdóttur, Ólöfu Sigursveinsdóttur, Elísabetu Indru Ragnarsdóttur o.fl. Hverri menningarstofnun er mikill akkur að slíku starfsfólki.


Litla hagyrðingamótið 9. janúar síðastliðinn

Á fundum Kvæðamannafélagsins Iðunnar er jafnan háð lítið hagyrðingamót. Ég útvarpaði síðasta móti í þættinum Vítt og breitt í dag. Pistillinn vakti nokkra athygli og er hann því birtur hér. Njótið vel.

Ljúf stund í Salnum

Í gærkvöld kynntu þeir Jónas Ingimundarson og Kristinn Sigmundsson Vetrarferðina eftir Schubert í Salnum í Kópavogi. Var rakið efni ljóðanna og farið yfir hvernig píanóið túlkar ýmis áhrif umhverfisins svo sem lauffall, regn, göngu, misjafna lund sögumannsins, ónýtan lýrukassa o.fl. Þessi stund var ljúf og greinilegt að margir nutu kynningarinnar í ríkum mæli enda var vel að verki staðið. Hafi þeir félagar heila þökk fyrir.

Ævisaga Lárusar Pálssonar - stórbrotið listaverk

Í morgun lauk ég við að lesa Ævisögu Lárusar Pálssonar, leikara og leikstjóra, sem Þorvaldur Kristinsson tók saman. Lárus Pálsson hefur mér lengi verið hugstæður. Sem barn hreifst ég af upplestri hans og leik í Ríkisútvarpinu. Þá voru leikrit á laugardagskvöldum og voru það ævinlega hátíðarstundir. Minnist ég þess þegar leikritið Mýs og menn var flutt í upphafi 7. áratugarins hversu djúpt það snart mig og jafnaldra mína. Helgi Guðmundsson, bróðursonur minn, hélt upp á afmæli sitt um þetta leyti og var haldið mikið sunnudagsboð hjá móðurdans. Við strákarnir vorum þetta 9-10 ára gamlir og töluðum talsvert um leikritið.

Ég minnist þess einnig þegar Lárus las Heljarslóðarorrustu Benedikts Gröndals í Ríkisútvarpið veturinn 1966 og fór þar á kostum. Pabbi hafði ævinlega haldið upp á Heljarslóðarorrustu og kynnti okkur tvíburunum nokkra kafla verksins. Hlökkuðum við því mikið til lestrarins og urðum svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.

Ég minnist einnig flutnings Lárusar á kvæðum Jónasar Hallgrímssonar um svipað leyti og þar kom þjáningin svo átakanlega fram, einnig í síðustu smásögunni sem hann las. Þá var reyndar orðið á allra orði að alvarleg veikindi hrjáðu þennan ástsæla leikara.

Sumarið 1967 vorum við tvíburarnir ásamt móður okkar, Guðrúnu Stefánsdóttur og Magnúsi Sigurðssyni, skólastjóra Hlíðaskóla, á ferð um landið að safna fé fyrir Hjálparsjóð æskufólks. Þá varð á vegi okkar leikhópur Þjóðleikhússins sem var að taka saman þar sem við áttum að skemmta um kvöldið. Hlýddu leikararnir á leik okkar af því lítillæti og fordómaleysi sem einkennir góða listamenn og kynntu sig síðan fyrir okkur. Ég minnist einkum tveggja manna, Baldvins Halldórssonar og Lárusar Pálssonar. Baldvin kannaðist ég vel við úr ríkisútvarpinu, en hann lék oft í sakamálaleikritum helstu skúrkana og fannst mér að hann hlyti að vera vafasamur náungi. En í stað þess var þetta mildur maður og bauð af sér hinn besta þokka. Við Baldvin kynntumst betur síðar og áttum jafnan skemmtileg samskipti.

Hinn leikarinn var Lárus Pálsson. Ég skynjaði að þar fór maður sem gekk ekki heill til skóga, viðkvæmnislegur og þjáður. Annað skynjaði ég, en það var ást leikaranna á þessum mikilhæfa snillingi. Eftir að Lárus hvarf á braut tóku þau tal saman nokkrir leikarar, móðir mín og Magnús. Barst þá heilsa Lárusar í tal og var umhyggja leikaranna þá auðheyrð.

Þorvaldur Kristinsson hefur náð snilldartökum á efni sínu. Auk þess að vera merk heimild um ævi og störf Lárusar Pálssonar er bókin þarft innlegg í sögu íslenskrar leiklistar. Höfundur fer varfærnum höndum um efnið en skirrist aldrei að taka afstöðu til efnisins eins og góðum fræðimanni sæmir.

Einkar fróðlegt þótti mér að lesa um stofnun Þjóðleikhússins og þá baráttu sem Lárus og aðrir hámenntaðir listamenn þurftu að heyja til þess að standa á rétti sínum og listrænum metnaði. Jafnframt gerir höfundur ágæta grein fyrir metnaðarleysi og fáfræði pólitískra yfirvalda.

Jón Viðar Jónsson, leikhúsfræðingur, benti mér á það í spjalli fyrir nokkru, hversu djúpum rótum menntun fyrstu íslensku leikaranna stóð í sígildum bókmenntum og sögu Vesturlanda. Margir þeirra þekktu vel helstu bókmenntaverk nágrannaþjóða okkar, voru vel heima í klassískum fræðum eins og latínu og grísku og framsögn þeirra var vönduð, enda voru þeir flestir orðsins menn.

Þorvaldur Kristinsson hefur unnið þarft verk með gerð ævisögu Lárusar Pálssonar og eru honum hér með færðar alúðar þakkir. Það var kominn tími til að þessum merka listamanni yrði reistur óbrotgjarn minnisvarði.


Afleitt sumarljós

Það er vandi að velja skáldsögu sem gera skal leikgerð eftir. Í ævisögu Lárusar Pálssonar eftir Þorvald Kristinsson eru raktar nokkrar tilraunir til þess að gera úr skáldsögum leikrit og hver vandi Lárusi var á höndum þegar hann tók að sér slíka vinnu í samráði við höfunda.

Sá sem fól leikstjóra Sumarljóss að gera leikrit úr skáldsögu Jóns Kalmanns Stefánssonar hefur farið heldur villur vegar þegar hann ákvað að skrifað skyldi verk fyrir stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu. Í skáldverki Jóns Kalmanns fer mörgum sögum fram og eru þær jafnvel ótengdar að öðru leyti en því að sama fólkið kemur fyrir í sumum sögunum. Það er því álíka fáránlegt að búa til leikgerð úr bókinni og að steypa Egils sögu, Laxdæla sögu, Njáls sögu, Grettis sögu og Heiðarvígasögu í eina leikgerð. Þó koma sömu persónur fyrir á nokkrum stöðum sagnanna. Sagt er að Jón Grunnvíkingur hafi ráðið fram úr þessu með því að endursegja Íslendingasögur í einni setningu: "Bændur flugust á.

Undirrituðum hundleiddist fyrir hlé og hefði vafalítið haldið út úr Þjóðleikhúsinu heim á leið hefði hann átt þess kost. En ákveðið var að þrauka og var seinni hlutinn örlitlu skárri enda voru þá sögurnar færri og samfelldari.

Ástæða er til að hvetja lesendur þessa bloggs til að lesa skáldverkið "Sumarljós og senn kemur nóttin" en hugsa sig þrisvar um áður en þeir eyða tíma sínum í leikverkið.


Nýr vefur um skartgripi - betur má ef duga skal

Í daglegu lífi Morgunblaðsins í dag er kynntur nýr vefur sem gullsmiður í Keflavík hefur látið hanna og segir gullsmiðurinn viðmælanda sínum að vefurinn hafi hlotið góðar viðtökur og hrós fyrir útlitið enda sé hönnunin einföld eins og þeir skartgripir sem hönnuðurinn leggur áherslu á að framleiða.

Ég hef lengi haft gaman af að kaupa skartgripi handa konunni minni og hef iðulega gertþað þegarég hef haft efni og ástæður til. Fór ég því glaður inn á vefinn skart.is til þess að forvitnast um það sem þar er á boðstólnum.

Í fljótu bragði virtist mér vefurinn prýðilega hannaður. Uppsetningin er skipuleg og vöruflokkarnir vel aðgreindir.

En svo fór í verra. Ég fór í ýmsa vöruflokka og hugðist skoða þá. Byrjaði ég auðvitað á herraskartinu. Vér lágtekjuatvinnuleysingjar látum oss stundum dreyma. Viti menn. Enginn lýsandi alt-texti var við hlekkina. Einungis myndir. Vörukarfan virtist hins vegar aðgengileg svo að ég hefði hreinlega getað keypt mér alls kyns skart alveg blindandi og ekkert vitað hvaðan á mig stæði veðrið þegar ég fengi það afhent.

Ef hönnuðurinn hefði skoðað vefverslun Flugleiða (fyrirgefið, Iceland Air) hefði hann séð að á bak við hvern hlekk er lýsing. Þessar lýsingar gerðu það að verkum að ég hef iðulega skoðað vörulýsingar Sögubúðarinnar þegar ég hef átt leið á milli landa og ákveðið hvort ég kaupi eitt eða spyrjist fyrir um annað.

Hér með er þessari ábendingu komið á framfæri. Fallegar myndir af skartgripum ásamt góðum lýsingum selja betur en eingöngu myndir og eins og sakir standa er vefurinn skart.is ætlaður sumum en ekki öllum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband