Færsluflokkur: Menning og listir

Hvítlauksís!

Morgunblaðið er merkilegt fyrir margra hluta sakir, einkum Sunnudagsblaðið, enda vann ég þar eitt sinn og skrifaði m.a. grein um mjólkurís. Þær uppskriftir sem ég birti komast ekki í hálfkvist við þær uppskriftir sem ég fann í Sunnudagsmogganum í dag.

p

Ég vona að Sverrir Páll Erlendsson, skáldbróðir á Leir, fyrirgefi mér þótt ég birti hér uppskrift sem hann gaf Skafta Hallgrímssyni og birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Hvítlauksís og mokkaís – góðir saman

Hvítlauksís

Þessa uppskrift fékk Sverrir Páll senda frá aðstandendum hinnar árlegu Gilroy-hvítlaukshátíðar í Kaliforníu.

2 blöð af matarlími

¼ bolli af köldu vatni

2 bollar af mjólk

1 bolli af sykri

örlítið salt

2 msk. af sítrónusafa

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

2 bollar af rjóma

Matarlímið lagt í bleyti í kalt vatn. Mjólkin, sykurinn og saltið hitað að suðu. Matarlímið leyst upp í heitri mjólkinni.

Mjólkurblandan er kæld nokkuð. Þegar hún er ylvolg er hvítlauknum og sítrónusafanum bætt út í.

Þessi blanda er kæld vel, uns hún rétt byrjar að þykkna eða stífna. Þá er þeyttum rjómanum bætt út í, hrært vel og varlega og blandan loks sett í skál eða bökunarform og fryst.

Mokkaís með kaffibættum rjóma og möndluflögum

Ísinn:

125 g suðusúkkulaði

4 egg

4 matskeiðar sterkt kaffi

1¼ bolli rjómi

1 msk. kaffilíkjör

½ bolli sykur

Rjóminn:

¼ til ½ l af rjóma

1-2 msk af rótsterku espressókaffi

Hnefafylli af ristuðum möndluflögum

Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði. Þegar það er bráðið, hrærið eggjarauðunum vandlega út í einni og einni í einu og kaffinu líka.

Stífþeytið rjómann og bætið út í hann kaffilíkjörnum.

Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið sykrinum smátt og smátt saman við þær.

Hrærið fyrst saman blönduna með súkkulaðinu og rjómann. Hrærið síðan eggjahvítublöndunni saman við.

Fryst í bökunarformi.

Borið fram í smáskálum og skreytt með kaffibætta rjómanum og möndluflögunum.


Leiftrandi ritþing til heiðurs Kristínu Marju

Í dag var haldið í Gerðubergi ritþing til heiðurs Kristínu Marju Baldursdóttur og var salurinn fullsetinn. Þinginu stýrði Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur og voru spyrjendur auk hans Ármann Jakobsson og Þórhildur Þorleifsdóttir.

Lesendur Kristínar Marju urðu ekki fyrir vonbrigðum. Svör hennar leiftruðu af greind og snarpri hugsun og sum verða lengi í minnum höfð.

Þórhildur varpaði m.a. fram spurningu um sársaukann sem Karítas Jónsdóttir þjáðist af. Hennar helsti sársauki voru samskiptin við eiginmanninn og e.t.v. börnin. Hún spurði höfundinn hvort ekki hefði verið eðlilegra að Karítas flytti með Sigmari til Akureyrar og settist þar í húsi þar sem hún gæti málað að vild.

Kristín Marja svaraði því til að þá hefði hún orðið að sjá um heimilið eins og hefur verið hlutskipti flestra íslenskra kvenna fram á vora daga. Hún hefði væntanlega farið með Sigmari suður til Reykjavíkur öðru hverju, litið inn í Listamannaskálann og séð þar málverk sem aðrir höfðu málað. Þá hefði hún fundið til sársauka þar sem hún hefði svikið listina.

Karítas Jónsdóttir þykir ýmsum lesendum hafa verið sjálfhverf og eigingjörn. Verður hið sama ekki sagt um alla þá sem helga sig köllun sinni? Ætli karlmenn sem hafa látið eiginkonur sínar axla ábyrgð og skyldur vegna heimilishaldsins teljist ekki sjálfhverfir, eigingjarnir og tilætlunarsamir?


Sígild leikrit aðlaga sig sjálf

Í gær fórum við hjónin ásamt vinafólki og sáum Brennuvargana eftir Max Frisch. Leikritið þekkti ég allvel. Við lásum það á frummálinu í menntaskóla og ég minnist þess einnig að hafa heyrt það í flutningi Útvarpsleikhússins. Þar lék Þorsteinn Ö. Stephensen Biedermann.

Leikurinn fjallar um sjálfsblekkingi, græðgi og hugleysi og dregur höfundurinn óspart dár að stórmennsku þeirra sem eru í raun lítilmenni og grimmd þeirra sömu sem telja sig umburðarlynda góðborgara.

Mér til mikillar ánægju fóru saman góður texti, flutningur og áleitinn boðskapur. Þýðingin virðist ný eftir Bjarna Jónsson og virtist talsverður munur á henni og þeirri þýðingu sem notuð var þegar Brennuvargarnir voru settir á svið hjá Leikfélagi Reykjavíkur fyrir nokkrum áratugum.

Leikarar skiluðu hlutverkum sínum allvel. Ólafía Hrönn Jónsdóttir sýndi þær öfgar sem eru í skapgerð góðlyndrar, hjartveikrar konu sem þorir hvorki né getur tekist á við raunveruleikann. Húsbóndann á heimlinu, biedermann sjálfan, lék Eggert Þorleifsson. Eitthvað skorti á dýptina í túlkun hans. Honum tókst með engu móti að skapa þau hrokafullu áhrif og sjálfbyrgingshátt sem einkennt hefur personu Biedermanns í túlkun sumra leikara á þessu hlutverki. Þó örlaði fyrir því í lok sýningarinnar.

Ég heyrði á máli manna, sem þekktu greinilega ekki verkið, að þeir héldu að leikritið hefði verið aðlagað þeim atburðum sem orðið hafa á Íslandi að undanförnu. Svo er ekki. Hins vegar geta flestir fundið eitthvað af sjálfum sér í Biedermann og jafnvel brennuvörgnum. Aðrir geta leikið sér að því að fá ýmsum lykilpersónum í bankahruninu sitt hlutverk og verður þá útkoman jafnmisjöfn þeim sem hafast slíkt að.

Ekki þarf að laga Brennuvarga Biedermanns að samtímanum. Sígild leikrit höfða jafnan til þeirra sem njóta þeirra hverju sinni. Þess vegna teljast verk eins og gullna hliðið vart til sígildra verka enda hefur það leikverk enst illa og aldrei verið sýnt í fullri lengd. Af Brennuvörgunum þar ekkert að skera.


Hljóðmynd um Karítas Jónsdóttur

Í morgun útvarpaði ég hljóðmyndinni "Síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur".

Öldugjálfrið var hljóðritað vestur í Skálavík 2. júlí 2009. Notaður var Nagra Ares BB+ stafrænn hljóðriti og tveir Sennheiser ME62 hljóðnemar sem eru mjög víðir. Þeir vísuðu í u.þ.b. 100 gráður og um 1,3 m voru á milli þeirra.

Hljóðmyndin sjálf var unnin í Soundforge 9 og Goldwave 5,54. Það kostaði talsvert föndur að hægja á hljóðinu. Æskilegt væri að hljóðritunarforritum fylgdi eins konar hjól sem hægt væri að nota til að renna hljóðinu hreinlega niður þar til þögnin tekur við.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur

Við hjónin lásum bækur Kristínar Maríu Baldursdóttur, Karítas án titils og Óreiða á striga. Þótt Karítas Jónsdóttir sé skáldsagnapersóna varð hún svo ljóslifandi í hugskoti mínu að ég saknaði hennar þegar hún hvarf í fjörunni vestur í Skálavík.

Næsta hljóðmynd sem ég útvarpa í þættinum Vítt og breitt um kl. 07:15 á fimmtudagsmorgun verður hugleiðing um síðustu augnablik Karítasar. Reynt er að líkja eftir síðustu skynjun hennar á þessari jörð þar til vitundin hvarf og þögnin umlukti hana.

Þeim sem hyggjast hlusta er eindregið ráðlagt að setja upp heyrnartól og njóta þannig hljóðverksins.


Fretir

Að undanförnu hefur sá merki fræðimaður, Jón Björnsson, sálfræðingur, hjólreiðagarpur og fyrrum félagsmálastjóri, flutt stórmerkilega pistla um furður vindanna. Í morgun var seinni pistill hans um freti.

Hljóðlistamaðurinn Michael Oster birtir á heimasíðu sinni ýmislegt um hljóðritun margvíslegra náttúrufyrirbæra. Þar á meðal er fróðleg samantekt um hljóðritun freta. Michael telur afar vandasamt að hljóðrita þá og þurfi til þess langan tíma svo að árangurinn verði viðunandi.

Í framhaldi af pistlum Jóns væri freistandi að taka saman örlitla hljóðmynd um freti. Ekki er ólíklegt að tveggja til þriggja mínútna fret-hljóðmynd krefðist talsverðrar fyrirhafnar. Það er næstum vísindalega sannað að meginfretir eru iðkaðir á morgnana þegar karlmenn fara og athafna sig á salerninu. Þess vegna þyrfti sá, sem tekur að sér þessa hljóðmyndargerð, að fara víða og fá heimild til þess að dvelja næturlangt hjá nokkrum fjölskyldum.

Síðan má velta því fyrir sér hvort það samræmdist velsæmismörkum ríkisútvarpsins að útvarpa slíkri hljóðmynd. En verkefnið er verðugt.


Guð blessi Ísland - nýtt útvarpsleikrit

Í dag frumflutti Útvarpsleikhúsið "Guð blessi Ísland", nýtt útvarpsleikrit eftir Símon Birgisson og Malte Scholz. Í kynningu leikhúsins sagði að leikritið nýtti sér aðferðir heimildaleikhússins til þess að segja ákveðna sögu. Söguþráðurinn var dálítið lauslega ofinn en leikurinn gerðist í litlum bæ þar sem skelfilegir atburðir höfðu orðið og hinir seku gengu lausir. Var m.a. unnið ú hljóðritum af samtölum sem tengja mátti við bankahrunið í fyrra og þá atburði sem á eftir fóru.

Símon leikstýrði sjálfur verki sínu en Hjörtur Svavarsson sá um hljóðvinnslu.

Hugmynd þeirra Birgis og Malta var og er góðra gjalda verð. Einhver annar, sem þekkir betur eðli útvarpsleikhús og hlustar helst eitthvað á útvarpsleikrit (sem Birgir gerir kannski) hefði þurft að leikstýra verkinu. Mér finnst einhvern veginn að hljóðtæknisnilld Hjartar Svavarssonar, sem er þaulreyndur tæknimaður, hafi ekki notið sín fyrir ráðríki leikstjórans.

Leikritið verður aftur á dagskrá fimmtudaginn 1. október kl. 22:15. Þetta verður vafalítið eitt þeirra verka sem Útvarpsleikhúsið endurtekur á næstu árum. Vonandi endurskoðar höfundur leikritið og fær einhvern annan til að leikstýra því.

Þeim, sem vilja kynna sér Símon Birgisson, er bent á bloggsíðu hans, http://blogg.visir.is/simonbirgis/


Fýlaskvaldrið í Arnarneshamri

Um þessar mundir hef ég með höndum stuttar hljóðmyndir eða pistla í þættinum Vítt og breitt á rás 1. Er pistlunum útvarpað upp úr kl. 07:15 á fimmtudögum.

Í morgun útvarpaði ég fýlaskvaldri sem ég hljóðritaði við Arnarneshamar, sem er á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME-62 hljóðnema sem eru mjög víðir. Með því að hafa um 1,5 metra á milli þeirra og láta þá vísa hvorn frá öðrum um 90-11¨gráður fæst mjög víð hljóðmynd. Hlekkurinn á pistilinn er http://dagskra.ruv.is/ras1/4499055/2009/09/24/0/


Athyglisverðar minjar

Í dag bauðst gestum Læknaminjasafnsins á Seltjarnarnesi að skoða Nesstofu undir leiðsögn minjavarðar. Settumst við hjónin á Orminn bláa og héldum á staðinn.

Safnvörðurinn gerði ágæta grein fyrir væntanlegum framkvæmdum við Nesstofu, byggingu nýs hús handa Lækningaminjasafninu og varðveislu Nesstofu sjálfrar. Í máli sínu vék hún að því að nauðsynlegt væri að skilja á milli minjavenrdar og ferðaþjónustu. Nefndur var sem dæmi steinkofi eða bær, sem hlaðinn var í nánd við rústir af meintum bæ Herjólfs Bárðarsonar í Vestmannaeyjum. Engin dæmi hafa fundist um slíka steinkofa hér á landi. Í þetta fóru talsverðir fjármunir en rústirnar sjálfar liggja undir skemmdum því að ekki færst fé til að varðveita þær.

Nesstofa er afar merkilegt hús. Hún var byggð handa landlæknisembættinu árið 1763 og settist Bjarni Pálsson þar að. Hans naut ekki lengi við og tók þá tengdasonur hans, Sveinn Pálsson, við keflinu.

Á þessum tíma voru reist nokkur bindingsverkshús á Íslandi: viðeyjarstofa, fangahúsið sem nú hýsir forsætisráðherra, Nesstofa og Bessastaðastofa. Einnig má nefna Viðeyjar- og Landakirkju. Nesstofa er fyrir ýmissa hluta sakir langbest varðveitt.

Uppbygging safnareits í Nesi á Seltjarnarnesi verður vafalítið til að styrkja útivistarsvæðið sem þar er og ættu svæðið og safnið að geta hlúð hvort að öðru. Á þessu svæði verður hægt að rannsaka og kynna starfshætti og aðstæður fyrri alda og nálgast jafnframt þau verkefni sem nútíminn fæst við.

Miðaldir Íslandssögunnar virtust ekki svo fjarri á sokkabandsárum mínum. Síðan er eins og holskeflur hafi riðið yfir og sópað ýmsu með sér. Þróunin hefur orðið hröð og fortíðin fjarlagæist nú hraðar en áður. Þess vegna er það vel að menn beri metnað til að gera vel við Nesstofu og huga að sögu lækninga hér á landi.


Þrettándakvöld Naddhristis

Í gærkvöld fórum við á Þrettándakvöld eftir breska skáldið Vilhjálm Naddhristi en gleðileikur þessi, þar sem ber á góma misskilning, einelti af verstu tegund og hvers kyns skrípalæti, er nú sýndur á fjölum Þjóðleikhússins.

Upphaf leiksýningarinnar er hreint með ólíkindum og eru gestir hvattir til þess að koma ekki á síðustu stundu. Leikarar stóðu sig almennt firnavel, einkum Arnar Jónsson sem fór á kostum, rómsterkur, blæbrigðaríkur og talar íslensku eins og hún getur fegurst orðið.

Tónlistin pirraði mig dálítið. Hún var einatt ofnotuð og spillti snilldartexta Helga Hálfdanarsonar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband