Færsluflokkur: Umhverfismál

Íslensk söfn og aðgengi hreyfihamlaðra að þeim

Um dagin lögðum við hjónin land undir fót og fórum hringinn. Nýttum við þá tækifærið og litum við á ýmsum stöðum sem við höfðum ekki skoðað áður. Þar á meðal var Selasafnið á Hvammstanga.

Þetta safn eða setur er hin merkasta stofnun og þar ber margt fyrir augu og eyru. Þó er þannig til þess stofnað að ámælisvert verður að telja. Tekið var til notkunar íbúðar- og verslunarhús hins merka kaupmanns, sigurðar Pálmasonar, en húsið var byggt ef ég man rétt árið 1926. Aðgengi hreyfihamlaðra er ekkert og ýmislegt stórvarasamt við húsið. Þar má nefna stiga sem liggur niður á jarðhæð hússins. Þar eru flest öryggisatriði vanvirt.

Í gær áttum við leið framhjá Draugasetrinu á Stokkseyri. Gamalt hús hefur verið dubbað upp fyrir starfsemina og upp að safninu liggja brött þrep. Öldruð kona, sem með okkur var, hætti sér upp þrepin og inn á safnið. Á eftir lýsti hún kvíða sínum fyrir því að þurfa að paufast niður þessi bröttu þrep.

Á árum áður voru stundum veitt norræn aðgengisverðlaun. Ef til vill eru þau veitt enn. Sumarið 2002 var ákveðið að veita norrænum söfnum aðgengisverðlaun. Var rætt um að hafa ein aðalverðlaun og síðan 4 eða 5 aukaverðlaun sem deildust á milli safna á öðrum Norðurlöndum en því sem hlyti aðalverðlaunin. Undirritaður, sem var fulltrúi Íslands í verðlaunanefndinni, fékk því til leiðar komið að einungis yrðu veitt ein verðlaun. Rökstuðningurinn var sá að ekkert safn á Íslandi uppfyllti skilyrði aukaverðlauna.

Í tengslum við þessa vinnu var haft samband við forráðamenn nokkurra safna. Einn þeirra brást ævareiður við ábendingum um skort á aðgengi og taldi að athugasemdirnar yrðu hugsanlega til þess að draga úr áhuga manna á úrbótum. Þjóðminjavörður brást hins vegar þannig við að Öryrkjabandalag Íslands var kallað til samráðs. Leiddi það til þess að aðgengisnefnd bandalagsins var stofnuð. Ef til vill starfar hún enn og átti nefndin hlut að máli þegar unnið var að aðgengismálum safnsins.

Þegar hugað er að varðveislu gamalla húsa þarf að finna þeim annað hlutverk en að gera þau að söfnum. Verði ákveðið að gera húsin hæf til notkunar sem almenningssöfn verður að veita fé til þess að gera þau aðgengileg. Það er hægt með ýmsum hætti og eru fjölmörg dæmi um slíkar breytingar á Norðurlöndum og víðs vegar um Evrópu.

Ég hef áður minnst á Galdrasafnið á Ströndum og háan þröskuld sem þar er á milli húshluta. Þegar spurt var um ástæðuna fyrir þröskuldinum var undirrituðum tjáð að brotinn hefði verið niður veggur milli tveggja sambyggðra húsa og þröskuldurinn væri til minja um að þarna hefði eitt sinn verið heill og órofinn veggur.

Íslendingar eru eftirbátar flestra menningarþjóða í Erópu á þessum sviðum og í Bandaríkjunum er vafasamt að söfn eins og Selasafnið, Galdrasafnið og Draugasetrið fengju starfsleyfi. Því væri rétt að hyggja að úrbótum áður en stofnuð verða fleiri söfn. Jafnframt þarf að herða mjög skilyrði þess að héraðs- eða einkasöfn fái styrki og eitt þeirra skilyrða ætti að vera afdráttarlaus krafa um aðgengi allra en ekki einungis sumra.


Hækkandi farvegur Skaftár veldur áhyggjum

Í dag var ég á ferð um Skaftárhrepp og hitti ýmsa að máli. Einn viðmælandi greindi frá ýmsum breytingum sem ættu sér nú stað í næsta nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Sagði hann að miklu jökulvatni væri nú veitt í skaftá og hækkaði farvegur hennar stöðugt sem þýðir um leið að hann grynnkar og minna borð verður fyrir báru í Skaftárhlaupum. Greindi hann m.a. frá því að í Skaftárhlaupinu í fyrra hefði hrönnin náð upp á brúarhandriðið.

Þessi viðmælandi taldi ákveðið andvaraleysi ríkja hjá hreppsyfirvöldum og vegagerðinni vegna þessa ástands em væri að skapast. Engar ráðstafanir virtust hafa verið gerðar til þess að bregðast við yfirvofandi flóðum og héldi fram sem horfði færi áin að flæmast um nágrennið eins og áður.


Svipirnir í hrauninu - málverkasýning

Sólveig Eggerz Pétursdóttir, listmálari.Þriðjudaginn 25. maí verður opnuð í samkomusal Hrafnistu í Hafnarfirði sýning á nýjum myndum eftir Sólveigu Eggerz Pétursdóttur, listmálara. Verður sýningin opin næstu vikur.

Sólveig er landsþekktur listamaður og hefur haldið fjölda sýninga hérlendis og utanlands, bæði sjálf og með öðrum. Í fyrsta sinn sýndi hún verk sín á samsýningu árið 1949.

Sólveig fékkst framan af einkum við að mála með olíulitum og vatnslitum. Að undanförnu hefur hún lagt olíulitina á hilluna og snúið sér að akríl-litum. Hún varð þekkt víða um lönd fyrir að mála myndir á rekavið, en hún mun hafa orðið fyrst íslenskra listamanna til þess.

Myndirnar á sýningunni eru allar málaðar á síðustu mánuðum. Þótt hendur hennar séu farnar að kreppast og aldurinn segi til sín heldur Sólveig ótrauð áfram og tekst á við nýja tækni og viðfangsefni.

Sólveig verður 85 ára á kosningadaginn, 29. maí nk. Hún hefur það eftir einum dóttursonarsyni sínum að hún sé 29 ára og hyggst halda því áfram.

Á síðunni http://hljod.blog.is er viðtal við Sólveigu þar sem hún greinir frá listsköpun sinni. Eru lesendur þessarar bloggsíðu eindregið hvattir til að kynna sér það.

http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1058919/


Íslenski heimssýningarskálinn vekur athygli

Nú hefur heimssýningin mikla í shanghai verið opnuð. Þessar fréttir bárust frá Emil Bóassyni og Wang Chao sem búa á Gleðifjalli í Bandaríkjunum:

„Vorum að horfa á fréttir Kínverska sjónvarpsins. Þar var viðtal við ímyndarstjóra Kínverja vegna Heimssýningarinar í Shanghæ (bænum ofan sjávar). Eftir að hafa rætt nokkuð um sinn þátt í sýningunni og hljómlistina við opnunarverkið þar sem hann spilaði eigin píanókonsert með hefðbundnu kínversku ívafi svo sem tilbrigðum við Gulárkonsertinn fræga var hann spurður hvaða sýningaskála hann myndi heimsækja. Auðvitað skála stórþjóða eins og Frakka og Bandaríkjamanna, en eftirtktarverðastur fyrir einfeldni og hreinleika þar sem allt væri hafblátt og virtist vistvænt væri íslenski skálinn og þangað ætlaði hann einnig.“


Austurríska grænmetishljómsveitin

Hanna G. Sigurðardóttir sletti skemmtilega úr klaufunum á rás 1 í morgun og fræddi hlustendur um Austurrísku grænmetishljómsveitina. Slóðin er hér:

http://www.gemueseorchester.org/

Límið þessa slóð í vafrann ykkar og njótið þess sem er á síðunni. Öll hljóðfærin eru úr grænmeti. Kokkur er meira að segja hluti hljómsveitarinnar enda er soðin súpa úr hljóðfærunum eftir tónleika og gestum gefið að bragða á góðgætinu. Halda menn svo syngjandi sælir og glaðir heim til sín.

Ég heyrði fyrst um þessa hljómsveit austur í Beijing fyrir 6 árm. Hún hélt þar tónleika og vakti fádæma athygli. Ég trúði vart eigin eyrum þegar ég heyrði fjálglegar lýsingar kínverska fréttamannsins á tónleikunum.

Ef leitað er að orðunum grænmeti, hljómseit og Austurríki (vitanlega á ensku) á netinu kemur í ljós að hljómsveitin, sem var stofnuð árið 1998, hefur orðið ýmsum fyrirmynd slíkra hljómsveita.

Nú ættu íslenskir grænmetisbændur að bjóða þessari hljómsveit hingað til lands og efna til stórtónleika. Í kjölfarið væri hægt að fara í stórátak í sölu grænmetis og kenna Íslendingum að búa til hljóðfæri úr gúrkum og gulrótum. Gulrófur hljóta að hljóma vel séu þær rétt meðhöndlaðar og á sumrin má framleiða hin unaðslegustu hljóð úr hundasúrum, hvönn og njóla. Þar sem notaðir eru hljóðnemar þegar tónlistin er flutt má hafa alls kyns skemmtan í frammi eins og að bryðja gulrófur, smjatta á sölvum, tyggja epli og hvítkál með ýmsum tónbrigðum, smjatta á hreðkum o.s.frv. Hubmyndirnar eru með öðrum orðum óþrjotandi.


Askan úr Heklu og og gróskusumarið 1947

Sigtryggur bróðir kemur stundum til okkar hjóna og eru þá háðar skemmtilegar orðræður. Ýmislegt er þá rifjað upp.

Í kvöld bar öskufallið úr eyjafjallajökli á góma og þær búsifjar sem af því hafa hlotist og munu hljótast. Rifjaði þá Sigtryggur upp að sumarið 1947 hefði verið óvenjumikil gróska í túnum í Vestmannaeyjum, en hann sló þá um sumarið öðru sinni með dráttarvél. Nokkur aska féll í Vestmannaeyjum, en Hekla tók að gjósa í marslok það ár. Þökkuðu ýmsir öskunni þá miklu grósku sem varð.

Vafalaust verður lítið heyjað í sumar á þeim jörðum í námunda Eyjafjallajökuls sem verst urðu úti. En reynslan af Hekluöskunni fyrir 63 árum gæti þó bent til þess að sums staðar yrði hún til góðs.

di. Hef ég sagt sem er og gætt þess að ýkja ekkert.


Aðventulóur

Í gær barst mér skemmtilegur tölvupóstur frá vinkonu minni á Áfltanesi, Sigurbjörgu Ólafsdóttur. Hún býr á sjávarbakkanum og fylgist vel með fuglalífinu þar. Hún sagði mér að lóur hefðu verið á kreiki þar allt fram að jólum.

Eins og lesendur þessarar síðu muna hljóðritaði ég vetrarkvak lóunnar vestur á Seltjarnarnesi 1. nóvember sl. og útvarpaði því þann 5. Var það sennilega í fyrsta sinn sem vetrarljóðum lóunnar hefur verið útvarpað hér á landi, en þau eru heldur dauflegri en sumarsöngurinn.

Hafi lóurnar sem voru á vappi hjá Sigurbjörgu haldið til Bretlands fóru þær svo sannarlega úr öskunni í eldinn. Hver veit nema einhverjar lóur haldi sig enn hér á landi og verði hér í allan vetur.

Gaman væri að frétta frá lesendum hvort þeir hafi orðið varir við lóuna eftir áramót.


Hæstiréttur á villigötum og óaðgengileg heimasíða

Eftir því sem fjölmiðlar hafa greint frá er augljóst að dómarar þeir, sem dæmdi gegn öryrkjum í gær, eru á villigötum. Þeir virðast vart þekkja forsendur kerfis almannatrygginga.

Þegar lífeyrissjóðakerfinu varkomið á fót var hugsunin m.a. sú að efla hag lífeyrisþega og skapa þeim viðunandi lífskjör. Þar með voru almannatryggingar viðurkenndar sem sá grunnþáttur sem bæta mætti við með eigin framlagi.

Eðli málsins samkvæmt skerðast bætur almannatrygginga vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þetta getur ekki verkað á hinn veginn þannig að tryggingar almannakerfisins skerði greiðslur úr lífeyrissjóðum. Þannig er Hæstiréttur farinn að snúa lögum við í landinu.

Þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson kúguðu Alþingi til þess að samþykkja hefndarráðstafanir gegn öryrkjum í kjölfar dóms Hæstaréttar árið 2000 var öllum ljóst að tvennt hafði gerst: ríkisstjórnin ætlaði ekki að fara að dómi réttarins og hugðist ganga þannig frá málum að sigur Öryrkjabandalagsins yrði einungis hálfur en ekki allur. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks afnam þessi ólög.

Forsætisráðherra á nú þegar að sýna af sér þann skörungsskap að láta breyta lögum um almannatryggingar þannig að annað eins og þetta - vanþekking hæstaréttardómaranna - geti ekki haft áhrif á framkvæmd laganna.

Ég hugðist kynna mér hvaða dómarar hefðu dæmt í þessu máli, en mér bauð í grun að sumir þeirra hefðu e.t.v. átt að víkja sæti í málinu vegna pólitískra tengsla sinna við Sjálfstæðisflokkinn, en dómsmálaráðherrar þess flokks hafa séð um að skipa flesta dómara Hæstaréttar frá því að lýðvedi var stofnað hér á landi. Mér lánaðist ekki að leita að viðeigandi upplýsingum á síðu réttarins. Hvorki gekk að fylla út leitarskilyrðin né skrifa einhverjar tölur sem birtust á skjánum. Síða Hæstaréttar er óaðgengileg sjónskertu og blindu fólki.

Ef núverandi ríkisstjórn eða sú fyrri hefðu nú haft manndóm í sér til þess að setja lög um aðgengi heimasíðna svipuð þeim sem gilda í Bandaríkjunum hefði mér við unnt að höfða mál á hendur Hæstarétti fyrir óaðgengilega heimasíðu. Hver veit nema ég leiti styrks hjá Öryrkjabandalaginu til slíkrar málshöfðunar. Mér hefur jafnan verið meinilla við að láta leyna mig upplýsingum og tel Hæstarétt brjóta öll siðferðislögmál með því hvernig gengið er frá heimasíðu réttarins. Hvað skyldi sjónskertum þingmanni Samfylkingarinnar finnast?


Lóukvak í nóvember

Sunnudaginn 1. nóvember fórum við Elín út í Suðurnes á Seltjarnarnesi. Við Daltjörn var hópur af lóum og öðrum fuglum. Ég tengi pistilinn sem ég útvarpaði í morgun við þessa færslu. Þar geta menn hlustað á vetrarhljóð lóunnar. Njótið vel og gerið athugasemdir. Þær verða birtar um leið og færi gefst.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ögmundur er góður liðsmaður

Nú lætur Ögmundur Jónasson af formennsku í BSRB eftir langan og fremur farsælan feril.

Við Ögmundur áttum afar góð samskipti á meðan við gegndum báðir forystu fjölmennra hagsmunasamtaka. Reyndust hann og Benedikt Davíðsson, forseti Alþýðusambands Íslands, Öryrkjabandalaginu jafnan haukar í horni í þeirri kjarabaráttu sem hófst í lok 9. áratugarins. Þá var talsvert samráð á milli samtakanna og stjórnvalda en eftir að Viðeyjarstjórnin tók við árið 1991 dró stórlega úr því. Ég leitaði eitt sinn ráða hjá þeim Ögmundi og Benedikt um það hvernig Öryrkjabandalagið gæti brotist út úr þeirri einangrun sen þáverandi forsætisráðherra lagði á bandalagið. Kváðust þeir ráðalausir enfa væru lítil samskipti við forsætisráðuneytið og yrðu sjálfsagt lítil þar til ríkisstjórnin yrði neydd að samningaborðinu vegna næstu kjarasamninga.

Að þessu leyti var reginmunur milli þeirra Steingríms Hermannssonar og Davíðs Oddssonar. Sá fyrrnefndi kostaði kapps um að eiga samræður og samráð við samtök almennings í landinu en hinn síðarnefndi valdi úr þau samtök sem honum voru þóknanleg og ákvað hvaða forystumenn væru þess virði að á þá væri hlustað.

Ég leyfi mér að þakka Ögmundi gott samstarf á þessum vettvangi og óska honum og fjölskyldu hans heilla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband