Færsluflokkur: Matur og drykkur
"Las af mikilli ánægju greinarkornið um súkkulaði í mogga. Þykir rétt að fræða þig um að sumarið 1973 ákvað faðir minn að kanna hvort hægt væri að bæta við nýjungum í matargerð. Var það einkum hugað að harðfiski og nýlegum fiski grálúðu sem við höfðum þá reykt um nokkurt skeið.
Emil var við annan mann falið að annast tilraunir. Voru þær fremur einfaldar enda rannsóknarmennirnir einfaldir í hugsun að því er Emil segir. "Reyndum að bæta lit í grálúðuna áður en hún var reykt. Græni liturinn þótti slæmur og minna fremur á skemmdan mat en góðan. Var horfið frá frekari tilraunum á þá vegu.
Þá snérum við okkur að harðfiskbitum. Þar var reynt að súkkulaðihúða harðfiskbita með Síríus suðusúkkulaði. Var það mál þeirra er smökkuðu að einkar illa hefði verið farið með góðan fisk og gott súkkulaði. Tilraunum lauk þar með.Semsagt rétt um þrjátíu og fimm ár frá því horfið var frá því að súkkulaði húða harðfisk."
Ég þakka Emil fyrir þessar mikilvægu upplýsingar sem eru verðugt framlag til safns um matvælasögu Íslands.
Matur og drykkur | 31.8.2008 | 16:35 (breytt kl. 22:49) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Súkkulaði er notað við ýmis tækifæri. Menn gefa það vinum sínum og unnustum, þess er neytt við hátíðleg tækifæri og tækni nútímans hefur séð til þess að kynstrin öll af alls konar súkkulaði eru nú til reiðu hverjum sem er og hafa vill.
Þá er súkkulaði notað til þess að skreyta ýmis matvæli og gefa þeim sérstakan keim. Má nefna ávexti, brauð, kjöt og ýmiss konar sósur og álegg úr súkkulaði. Þó hefur enn ekki heyrst talað um súkkulaðihúðaðan fisk.
Beiskur töfradrykkur
Eftir því sem næst verður komist er kakótréð upprunnið í regnskógum Amazon-svæðisins. Fornþjóðir Mið-Ameríku brugguðu beiskan drykk úr baunum þess þegar á öðru árþúsundi f. Kr. og neyttu hans við ýmis tækifæri. Súkkulaðið var mikilvægur hluti trúar þeirra og menningar.
Mayarnir hinir fornu ræktuðu kakótré ekki síðar en á 6. öld en úr fræbelgjum þeirra koma hinar margrómuðu kakóbaunir. Þeir söfnuðu baununum, verkuðu þær, ristuðu þær og möluðu. Úr duftinu var búið til deig sem var blandað saman við vatn og maísmjöl. Drykkurinn var svo kryddaður með chile-pipar og ýmiss konar kryddi. Úr þessu varð afar bragðmikill og freyðandi drykkur sem var borinn fram kaldur.
Mayarnir kölluðu kakótréð cacahuaquchtl. Orðið súkkulaði er dregið af xocoatl sem er einnig úr máli Mayanna og merkir beiskur vökvi.
Kakóbaunir sem gjaldmiðill
Aztekar, sem réðu miklum hluta Mið-Ameríku um skeið, lærðu að nýta sér kakó. Þegar um 1200 kröfðu þeir undirokaðar þjóðir um skatta sem greiddir voru í kakóbaunum, en þær voru helsti gjaldmiðillinn þeirra á meðal.
Hjá mayum hinum fornu neytti almenningur sjaldan súkkulaðis, en það var einkum drykkur æðstu höfðingja og embættismanna. Á meðal azteka drukku það einkum konungar, prestar, hátt settir herforingjar og mikils metnir kaupmenn.
Þeir trúðu því að súkkulaði færði mönnum hreysti, heilbrigði, visku og aukna kynhvöt. Montezuma, síðasti konungur azteka, neytti rauðleits súkkulaðis úr gullstaupum sem var fleygt eftir að hafa verið notuð í eitt skipti. Hann hafði svo mikla trú á mætti þess að hann drakk iðulega 50 staup á dag af þessum beiska drykk.
Prestar maya og azteka notuðu kakóbaunir sem fórn handa guðum sínum og báru fram kalda súkkulaðidrykki á meðan á fórnarathöfnum stóð.
Þegar Columbus kom úr fyrsta leiðangri sínum til Ameríku hafði hann með sér kakóbaunir. Menn gerðu sér þá ekki grein fyrir verðmæti þeirra. Sögur herma að hann hafi kynnst kakóbaunum sem gjaldmiðli og neytt súkkulaðis þegar hann kom til Níkaragúa árið 1502, en ekki gert sér grein fyrir verðmæti þess.
Spánverjar rækta gjaldmiðil
Árið 1521 sigraði Hernán Cortés, spænskur herforingi, síðasta konung azteka, Montezuma og herlið hans, en Spánverjar höfðu komið til Mexíkó tveimur árum áður og náð hluta landsins undir sig. Spánverjarnir kröfðust þess að höfðingjar azteka afhentu öll auðæfi sín ella væri þeim búinn bráður bani. Þeir létu af hendi gull sitt og gersemar, en umfram allt kakóbaunir sem voru eins og áður sagði einn helsti gjaldmiðill þeirra.
Cortés hafði þegar orðið hrifinn af kakóbaununum og hugsaði sér gott til glóðarinnar að geta ræktað eyri sem væri jafnvirði spænsku doblúnunnar (gullmyntar). Stofnaði hann ekrur í þessu skyni í nafni spænsku krúnunnar og varð það upphafið að ábatasömum viðskiptum.
Árið 1528 flutti Cortés með sér fyrsta súkkulaðifarminn til Evrópu og kynnti þennan eðaldrykk við hirðina. Náði hann skjótum vinsældum. Sagt er að honum hafi fyrstum manna dottið í hug að bragðbæta drykkinn með sykri og fljótlega tóku Spánverjar að laga súkkulaðidrykki sem bragðbættir voru með sykri, múskati, vanillu, smára, kanil og allrahanda kryddi. Súkkulaðið þótti tælandi nautnadrykkur sem varð gríðarlega vinsæll meðal spænska aðalsins. Eftirspurnin eftir baunum jókst.
Á næstu áratugum barst þekkingin á gerð súkkulaðidrykkja út fyrir spænsku hirðina.
Súkkulaði sem sælgæti
Smám saman barst súkkulaði um Evrópu. Þess var enn aðallega neytt af aðlinum og fylgdi jafnvel sem heimanmundur þegar konungleg brúðkaup voru skipulögð. Á 17. öld tók að bera á sælgætisgerð úr súkkulaði og þróaðist hún ört.
Kaþólska kirkjan hafði lagt blessun sína yfir súkkulaðidrykkju þegar árið 1569, en hún taldi að heimilt væri að drekka súkkulaði á föstudögum. Árið 1662 var þó birtur páfaúrskurður þess efnis að ekki sæmdi að borða sælgæti úr súkkulaði á föstunni. Hafa einhverjir látið sér detta í hug að þaðan sé runninn sá siður að búa til súkkulaðiegg sem neytt er um páskana.
Víðast hvar voru háir tollar lagðir á kakóbaunir sem ollu því að súkkulaði var einungis á færi aðalsins og auðugra borgara. Ýmiss konar súkkulaðidrykkir voru vinsælir við hirðir konunga í Evrópu. Þekkt er að Loðvík XIV., konungur Frakka sem ríkti á árunum 1643-1715, naut ásta með eiginkonu sinni eigi sjaldnar en tvisvar á dag síðasta árið sem hann lifði. Þakkaði hann kynorku sína m.a. súkkulaðidrykkju sinni.
Súkkulaði handa almenningi
Miklar framfarir urðu í framleiðslu súkkulaðis á 18. og 19. öld. Má nefna að árið 1730 var smíðuð gufuvél sem malaði baunirnar og árið 1828 var súkkulaðipressan fundin upp. Við það jukust gæði súkkulaðisins og drykkurinn þótti verða mun mýkri en áður.
Um þetta leyti voru fyrstu súkkulaðiverksmiðjurnar stofnaðar í Evrópu og Bandaríkjunum og það hefur verið undirstaða margháttaðs iðnaðar síðan.
Ný tækni, sem fundin var upp í Sviss á 8. áratug 19. aldar, varð til þess að áferð súkkulaðisins gerbreyttist og það varð mýkra. Um aldamótin 1900 höfðu Svisslendingar náð forystu í súkkulaðiiðnaðinum og hafa haldið henni síðan.
Í hnotskurn
» 1492 Columbus siglir til Ameríku.
»1513 Spænskur leiðangursmaður kaupir þræl fyrir 100 kakóbaunir.
» 1528 Súkkulaðið berst til Spánar.
»1670 Kakóbaunir eru fluttar til Filippseyja og ræktun hefst.
» Veitingahús í Lundúnum fara að selja súkkulaðikökur og snúða að spænskri fyrirmynd.
» 1853 Ofurtollar á súkkulaði felldir niður í Bretlandi.
» 1875 Mjólkursúkkulaði kemur á markað í Sviss eftir 8 ára tilraunir.
» 1913 Svisslendingar framleiða fyllt súkkulaði.
» 1923 CMA, samtök amerískra súkkulaðiframleiðenda, stofnuð.
Matur og drykkur | 31.8.2008 | 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Árni hefur við fjórða mann stofnað útgerðarfélag um veiðarfæri, en hann á hlut í gúmítuðrunni Þorsteini Mar. Um daginn fóru þeir félagar á sjó og veiddu í soðið.
Hann grillaði þorsk í gær, bragðbætti hann með hvítlaukssalti og glóðarsteikti einnig paprikur. Með þessu var borið fram salat, fetaostur, góð sósa og hrísgrjón.
Kvöldið fór síðan í að undirbúa aðalfund Tjarnarbóls 14, húsfélags, sem verður haldinn í kvöld.
Birgir Þór gisti hjá ömmu og afa, en hann fer ásamt foreldrum sínum og Kolbeini litla Tuma norður í Skagafjörð að heimsækja ömmu og afa á Höfða. Ekki seinna að ungur maður með svona skagfirskt nafn haldi norður.
Matur og drykkur | 25.6.2008 | 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Undanfarna daga hef ég öðru hverju reynt að blogga en án árangurs. Ég var í þráðlausu netsambandi á gistihúsi í Frankafurðu og þegar leikurinn stóð sem hæst í blogginu kom jafnan eitthvað fyrir.
Ég fór til Frankfurt á sýninguna Sight City þriðjudaginn 6. maí. allt gekk að óskum. Ungur Pólverji fylgdi mér út í vél og var hann bæði mæltur á íslensku og ensku, kaus þó fremur að nota enskuna.
Í Frankfurt tók á móti mér kona sem kom mér í leigubíl og á hótelið var ég kominn um kl. 13:30 að þýskum tíma. Þar tók ég til óspilltra málanna, hringdi nokkur símtöl vegna Kím og fleira og hófst síðan handa við grein sem ég vinn að.
Um 6-leytið var ég farinn að finna til svengdar og ákvað að hafast eitthvað að.
Ég reikaði fram úr herberginu og fann það sem ég taldi vera bar. Kom að mér ungur maður og spurði hvort ég væri að leita að matsalnum. Kvað ég svo vera og vísaði hann mér á borð.
Þá kom ung kona og las mér matseðilinn. Mig langaði hvorki í súpu, salaat, grænmeti né pasta svo að ég fékk mér vínarsnitsel með frönskum kartöflum og salati. Bað um vatn og brauð ásamt bjór.
Mér barst firnagott, nýbakað brauð í glerkörfu ásamt volgu og fremur vondu vatni og svo kom stór bjórkanna á borðið, mun stærri en ég hugði.
Síðan kom Vínarsnitselið og reyndist líka meiri máltíð en ég hugði.
Á eftir langaði mig í eftirrétt og fannst ísinn of sætur og búðingarnir líka. Ákvað að panta mér ostabakka og kaffi.
Fljótlega kom kaffið og kláraðist.
Þá kláraði ég bjórinn sem var ekki eins mikill og ég hugði en glasið stærra og þykkara.
Síðan kom miðaldra þýskumælandi Þjóðverji með ostabakkann, tveggja, þriggja eða góðan fjögurra manna skammt. Þetta var skár útilátið en ostabakkinn sem ég bauð Elínu hér um árið í Djúpinu þegar við vorum í tilhugalífinu enda hringdi ég til hennar til þess að segja henni þetta.
Ég réðst á ostana, jarðarberin og einhvern annan ávöxt ásamt firnum af góðu brauði, með hníf og gaffli. Dundaði mér við þetta og komst loks inn á herbergi í fylgd þjóns, stillti á íslenska útvarpið og nennti ekki að vinna meira að svo stöddu.
Gaf mér auka insúlínskammt. Eins gott að vélstjórnin sé í lagi.
Sagði þjóninum söguna af norska sendiherranum í Tsaire og handleggnum sem konan hafði ekki lyst á og sagðist ekki geta borðað meira. Hann hló reyndar þegar ég sagði honum að ostabakkinn hefði verið einum of stór.
Ætli ég þyngist ekki um 2 kg fyrir vikið?
Hvað ætti ég að fá mér í morgunmat á morgun? hugsaði ég um það leyti sem svefninn færðist yfir. Hálft kíló af brauði, tvo hrokafulla grautardiska, annan með hafragraut og hinn með jógúrt með morgunkorni? rúnstykki, kaffi, appelsínu og epli, súkkulaði köku, vínarbrauð og te?
Það ætti að nægja. Ef einhver finnur að því svara ég bara eins og Tóti í Berjanesi: "Ek má til. Fæðið er svo dýrt."
Ég var á fótum fyrir allar aldir á miðvikudagsmorgun og fór í morgunverð upp úr kl. 8. Tókst mér loks að vekja athygli þjóns sem vísaði mér á sæti. Sagðist ég vilja kaffi og rúnstykki með spægipylsu. Færði hann mér þrjú rúnstykki með osti og smábrauð að auki sem hann hafði smurt vandlega og bætt við á diskinn gúrkusneiðum og tómötum.
Ég réðst á þetta matarsafn og kom þá að mér fullorðin kona og vildi fá að vita hvaðan ég væri. Ég minnti sig svo á manninn sinn, en hann hefði verið blindur. Taldi hún að ég hefði hvergi nærri fengið nóg og spurði hvort ég vildi ekki jógúrt líka. Ég lét lítið yfir því en hún kvaðst þá útbúa handa mér dýrindis jógúrt með ávöxtum. Morgunmaturinn endaði á hrokafullum jógúrtdisk með alls kyns góðgæti.
Þessu fór fram næstu tvo morgna. Ég mætti kl. 8 í morgunmat á fimmtudag og kom þá blessuð manneskjan og sagðist hafa saknað mín. Sagði hún mér frá dauðastríði manns síns og því að hún væri sjálf komin með krabbamein og þyrfti að undirgangast aðgerð í næsta mánuði.
Í gær, föstudag, vaknaði ég seinna en ella, enda hafði ég verið á tæknisýningunni allan daginn og farið síðan í boði Papenmeiers á Jóhannesarfjall þar sem menn brugga ýmis dýrindisvín. Vorum við þar í vínsmökkun og afar fróðlegum fyrirlestri og síðan góðum kvöldverði.
Kl. 8:30 var barið að dyrum hjá mér og var þar þá þjónninn kominn og vildi vita hvort ég ætlaði ekki í morgunmat. Ég var þá að mæla blóðsykur og fór síðan með honum. Greinilegt var að hann og hin ágæta samstarfskona hans höfðu þá útbúið handa mér morgunmat, tvö rúnstykki, tómata og gúrkur og jógúrt, sem konan hafði blandað með alls kyns hnetum og vanillubúðingi. Namm!
Ég kvaddi svo þetta góða fólk og hélt af hótelinu um kl. 11:30.
Ég mun á næstunni skrifa hér á þessari bloggsíðu örlítið um tæknisýninguna eftir því sem úrvinnslu gagna vindur fram.
Mér finnst ég vera fullur af orku og þakklæti til Blindravinafélags Íslands sem styrkti mig til fararinnar og konu minnar elskulegrar sem hvatti mig eindregið.
Það er ómetanlegt að fá tækifæri til þess að ræða við fólk um ýmis álitamál sem koma upp og það gat ég gert í ríkum mæli þá daga sem ég dvaldist í Frankafurðu.
Matur og drykkur | 10.5.2008 | 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Edda Heiðrún gaf sig að okkur og spurði þeirrar hógværu spurningar hvort ég kannaðist ekki við sig. Hver kannast ekki við hana? Ég hef fylgst með henni lengi, bæði sem leikkonu, söngkonu og nú síðast sem búðareiganda.
Okkur hjónin langaði til að vita hvernig henni hefði dottið í hug að stofna þessa dýrindisverslun. Ástæðan var ein fyrsta æskuminningin um föður hennar sem kom úr Reykjavík og færði henni fulla öskju af sælgæti. Hún var þá þriggja ára gömul. Edda Heiðrún fór með allt nammið og gaf börnunum í hverfinu.
Þegar hún kom inn um kvöldið var allt nammið búið. Pabbi hennar innti hana eftir því hvers vegna hún hefði gefið allt nammið sitt. Því að þau langaði svo mikið í það, svaraði sú stutta.
Og nú gleður Edda Heiðrún landsmenn með því að selja þeim margs konr dýrindis gæðavörur, holla fyrir sálina.
Sumir eru nægilegar hetjur til þess að gefa gestum og gangandi af sálarstyrk sínum. Við hjónin héldum út úr þessari verslun glöð í sinni og þakklát fyrir einstakar móttökur. Og nú ætlum við að gæða okkur á hreinu súkkulaði, hvort okkar fær hálfan mola að ráði Eddu Heiðrúnar. Tengdadóttir okkar fékk úr búðinni þrjár rauðar rósir frá Elínu og súkkulaðimöndlur frá mér.
Matur og drykkur | 24.2.2008 | 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ýmsar afurðir fyrirtækisins eru með sykri eða gervysætu handa þeim sem eru sykursjúkir. Flestum afurðunum er það sameiginlegt að þær eru of sætar. Hrúgað er sykri í ýmsar vörur svo sem skólajógúrt sem sérstaklega höfðar til barna og unglinga og skyrið er ekki undanskilið. Sykri skal koma ofan í þig hvort sem þú vilt eður ei eða þá kynstrunhum öllum af gervisætu..
Fleiri fyrirtæki eru undir sömu sök seld og er þar skemmst að minnast bandarísks morgunkorns sem er yfirleitt of sætt.
Á meðan Mjólkursamsalan eys sætindum út í afurðir sínar virðist fyrirtækið Mjólka gæta þess að stilla notkun sætuefna mjög í hóf. Getur verið að ýmsir, sem hafa orðið sykursýki að bráð á undanförnum árum, geti rakið sjúkdóminn m.a. til of sætra afurða Mjólkursamsölunnar? Spyr sá sem ekki veit.
Kannski er ég fórnarlamb ofáts á rjómaís á árm áður en hann er yfirleitt dýsætur.
Nú ber Íslendingum saman um að íslensk mjólk sé besta mjólk í heimi. Er ástæða ti að eyðileggja mjólkurafurðirnar með of mikilli sætu? Hvenær fáum við ósætari afurðir unnar úr ógerilsneyddri og ófitusprengdri mjólk?
Matur og drykkur | 16.2.2008 | 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Maturinn sem við snæddum í kvöld var einstakur. Steiktur lax með alls kyns meðlæti, besti lax sem ég hef nokkru sinni fengið á veitingahúsi og hef ég þó farið víða.
Á eftir var kaffi og eðalgóður ís í listrænni skál sem smíðuð er í Borgarfirði. Þurfum að skoða betur borgfirskt handverk. Ísinn leit einstaklega vel út. Matreiðslumeistarinn vandaði sig sérstaklega vegna þess að hann hélt að frúin ætti að fá ísinn. Segja menn svo að jafnréttið sé ekki virt!
Ég er með hljóðpelann með mér og vonast til að geta hellt á hann kveðskap og fleira efni.
Matur og drykkur | 1.11.2007 | 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 319697
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar