Færsluflokkur: Mannréttindi
Um það leyti sem netbankar voru stofnaðir skömmu eftir aldamótin reið Íslandsbanki eða hvað sem hann hét þá á vaðið og setti sér metnaðarfulla aðgengisstefnu.
Þegar smáforrit fyrir Apple og Android-síma voru kynnt hér á landi fyrir tveimur árum var forrit Íslandsbanka gert að mestu aðgengilegt þeim sem eru blindir og sjónskertir.
Í desember síðastliðnum var appið eða smáforritið endurnýjað og þá hrundi aðgengi blindra snjallsímanotenda.
Eftir að bankanum bárust hörð mótmæli var tekið til óspilltra málanna vegna lagfæringa á aðgenginu. Það virtist snúnara en búist var við.
Valur Þór gunnarsson, þróunarstjóri Íslandsbanka, greindi frá þessu í viðtali við höfund síðunnar.
Sjá krækju hér fyrir neðan.
http://hljod.blog.is/users/df/hljod/files/zoom0014_lr.mp3
Mannréttindi | 6.2.2017 | 18:34 (breytt kl. 18:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég mæli með að fólk gefi sér tíma til að lesa þennan tæknipistil.
Fyrir skömmu kom út nýleg útgáfa Íslandsbanka-forritsins fyrir Android-síma.
Í fyrri útgáfu voru ómerktir hnappar sem gerðu að verkum að notagildi þess fyrir þá sem reiða sig á blindraletur eða talgervil var ófullnægjandi. Til dæmis var illmögulegt að millifæra en mjög fljótlegt að greiða reikninga - mun einfaldara en í tölvuviðmóti bankans.
Þann 19. þessa mánaðar fór ég í eitt af útibúum bankans of fékk aðstoð við að setja upp bankaforritið (appið) og þá kom heldur betur babb í bátinn. Verður nú gerð grein fyrir því stórslysi sem orðið hefur í þessari nýju útgáfu.
1. Þegar forritið er ræst í símanum koma upp tölustafir sem menn eiga að nota til að skrifa fjögurra stafa öryggisnúmer. Þegar tölustafirnir eru snertir á síma sem er með skjálesara og talgervli birtir talgervill einungis orðin Pin button winstyle og verða menn því að fikra sig og telja vandlega hnappana til að hitta á réttar tölur. Þarna er notendum talgervla mismunað gróflega.
2. Þegar tekst að opna netbankann koma upp nokkrir möguleikar (nöfn reikninga o.s.frv.)
3. Þegar skoða skal yfirlit reiknings kemur mánuðurinn fram. Þegar fingri er strokið yfir skjáinn titrar hann öðru hverju. Sé stutt á titringssvæðið koma upplýsingar um tiltekna aðgerð s.s. millifærslu. Það er með öðrum orðum engin hljóðsvörun við hnappana.
4. Útilokað virðist vera blindu eða sjónskertu fólki að nýta forritið til millifærslna eða greiðslna þar sem talgervill birtir engar upplýsingar.
5. Þá er ýmis sóðaskapur vaðandi uppi svo sem að stundum eru reikningar kallaðir því nafni en öðru hverju accounts. Því hlýtur að læðast að manni sú hugmynd að þarna sé um fremur lélega þýðingu á erlendu forriti að ræða og alls ekki hafi verið hugað að aðgengi.
Íslandsbanki hafði á sínum tíma forystu um aðgang blindra og sjónskertra að bankanum. Átti þar hlut að máli ungur Seltirningur, Einar Gústafsson, sem hafði lagt stund á tölvunarfræði í Bandaríkjunum með sérstakri áherslu á aðgengi. Nú virðist sú þekking vera næsta takmörkuð hjá Íslandsbanka.
Þeim fer nú fjölgandi sem gerast gamlir og daprast sjón, en hafa fullan hug á að halda áfram að nota tölvur og snjallsíma eins og áður. Með þessari útgáfu bankans á snjallsímaforritinu er þessum hópi gefið hreinlega langt nef.
Svo virðist sem þetta hafi komið þeim starfsmanni bankans, sem hefur umsjón með aðgengismálum, í opna skjöldu og hefur hann lofað bót og betrun. Greinilegt er að þeir, sem hafa tekið hönnun þessa hugbúnaðar að sér hafa litla sem enga þekkingu á því hvað aðgengi að vefviðmóti er. Hvernig skyldi kennslu háttað á þessu sviði hér á landi?
Þeir tölvunarfræðingar sem kunna að lesa þennan pistil ættu að gera sér grein fyrir að snjallsímar og tölvur eru nú hönnuð með notagildi flestra ef ekki allra í huga. Hið sama á að gilda um forritin.
Íslendingar skera sig nú úr vegna óaðgengilegra forrita eða gerðu til skamms tíma. Ein skemmtileg undantekning er smáforritið "Taktu vagninn" sem nýtist bæði blindum og sjáandi. Hver skyldi skýringin vera?
"Ég fylgdi bara viðurkenndum stöðlum," sagði hönnuðurinn við höfund þessa pistils. Hvaða staðla smiðgengu verktakar og starfsmenn Íslandsbanka?
Mannréttindi | 21.12.2016 | 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útvarpsleikhúsið lauk í dag við að flytja hlustendum leikritið Lifun eftir Jón Atla Jónasson, en það er byggt á heimildum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Fléttað er saman leiknum atriðum og frásögnum ýmissa sem að málinu komu.
Sannast sagna er leikrit þetta hreint listaverk, afbragðs vel saman sett og leikurinn frábær. Óhugnaðurinn, skelfingin, óttinn, kvíðinn og undanlátssemin skila sér fyllilega auk örvæntingar vegna aðskilnaðar frá ástvinum og jafnvel misþyrminga.
Ástæða er til að óska aðstandendum verksins til hamingju með vel unnið meistaraverk.
Mannréttindi | 27.11.2016 | 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komið er upp alvarlegt aðgengisvandamál sem taka þarf á.
Nokkur ráðningafyrirtæki, kaupstaðir og stórfyrirtæki hafa keypt sérstakt ráðningakerfi af fyrirtækinu Tölvumiðlun. Við fyrstu sýn reynist kerfið vel uppbyggt og flest aðgengilegt. en þegar kemur að því að velja gögn, sem miðla á með atvinnuumsókn svo sem myndum og skjölum, vandast málið. Hið sama á við um vistun og sendingu umsóknarinnar. Skjálesarinn NVDA virðist ekki ráða við þetta, hvaða brögðum sem beitt er og les hann þó flest, ef aðgengisstaðlar eru virtir. Fyrst hélt undirritaður að vandinn væri eingöngu bundinn við vistunarhnappinn, en svo er ekki.
Eins og vakin var athygli á fyrir skömmu fer því fólki fjölgandi hér á landi sem komið er yfir sextugt og er vant tölvum. Flestir, sem eru sjóndaprir eða blindir, eru einmitt á aldrinum um og yfir sextugt. Þessi hópur hlýtur að krefjast sama aðgengis að upplýsingum og tölvukerfum sem hann hafði áður.
Fyrirtækinu Tölvumiðlun hefur nú verið skrifað öðru sinni og það hvatt til aðgerða. Fleiri þarf til svo að árangur náist. Jafnframt þyrfti Þekkingarmiðstöðin að prófa kerfið með þeim skjálesurum sem í boði eru og þingmenn verða að huga að löggjöf um upplýsingaaðgengi.
Þeim, sem eru blindir eða verulega sjónskertir og sækja um vinnu á almennum markaði hlýtur að hrjósa hugur við því að teljast eins konar gölluð vara. en gallinn er ekki í einstaklingnum heldur hugbúnaðinum sem virðist ekki réttilega hannaður og leggur því stein í götu þeirra sem vilja bjarga sér sjálfir.
Mannréttindi | 8.5.2015 | 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er rétt og skylt að greina frá því sem vel er gert.
Samskipti mín við Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun og atvinnumiðlanir hafa verið með ólíkindum að undanförnu. Tryggingastofnum brást skjótt við breytingum á tekjuáætlun, ábendingum um skort á apgengi hefur verið tekið vel og svona mætti lengi telja. Hið sama á við um fyrirtækið Tölvumiðlun, sem hannað hefur ráðningakerfi sem margir notast við. En þar er ákveðinn þröskuldur sem skjálesarar geta ekki yfirstigið.
Skilningur vex
Viðhorf til viðskiptamanna hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Ber þar margt til: opnari samskipti með tilkomu Netsins, betri fræðsla starfsmanna og aukinn áhugi á að starfa að markmðum sem sett hafa verið. Þannig hafa starfsmenn Tryggingastofnunar gjarnan skráð hjá sér athugasemdir sem undirritaður hefur gert.
Ég hef áður minnst á það á opinberum vettvangi hversu knýjandi nauðsyn ber til að fjallað verði um upplýsingaaðgengi blindra og sjónskertra á opinberri ráðstefnu eins og þeirri sem Öryrkjabandalagið efndi til árið 2003. Einstaklingur, sem á sér í raun engan sérstakan bakhjarl, getur ekki að eigin frumkvæði blásið til slíks fundar, en það geta stór og fjölmenn samtök gert.
Alþingi brást
Alþingi hefur gersamlega brugðist í upplýsingaaðgengi fatlaðra. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar árin 2007-2013 og samræður við ónefnda þingmenn var málið þæft með þeirri þrætubókarlist sem sumir hafa lært af lögfræðingum og ekkert gerðist. Þó er löggjöf ýmissa nágrannaríkja okkar í þessum efnum lýsandi dæmi um það sem Íslendingar geta gert.
Námi ábótavant
Ég óttast að lítið sé fjallað um aðgengi þegar kennd er hugbúnaðargerð. Sem dæmi má nefna hið ágæta fyrirtæki Stokk sem hannar forrit í snjallsíma og spjaldtölvur. Þeir vissu fyrir skömmu lítið sem ekkert um hvað aðgengi var. Þeim hefur verið bent á annmarka í forritum sem Stokkur hefur hannað og ekkert bendir til að mark hafi verið tekið á þeim ábendingum. Hið sama á við um Símann og önnur fyrirtæki sem hanna snjallsímaforrit og nýjasta dæmið er Útsvars-smáforritið, þar sem skortir talsvert á aðgengi. Í raun og veru brýtur Ríkisútvarpið lög með því að auglýsa forritið í þáttum sínum.
Þessi vettvangur er e.t.v. ekki sá heppilegasti fyrir þessa umræðu og þeir eru ekki margir lesendur í netheimum sem hafa áhuga á þessum málaflokki og deila pistlum um þetta sérstaka málefni með vinum sínum. en þó verður leitast við að hamra járnið á meðan það er að hitna.
Mannréttindi | 30.4.2015 | 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svo virðist sem aðgengi að opinberum vefsíðum fari versnandi hér á landi. Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um að heimasíður skuli aðgengilegar í samræmi við aukið upplýsingaaðgengi virðist sem fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir gleymi þessum þætti.
Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið skýrt á um að leitað skuli tæknilegra lausna til að bæta aðgengi blindra og sjónskertra. Það gleymist iðulega þegar vefur Ríkisútvarpsins er uppfærður og iðulega er ekki hafist handa við að bæta aðgengið fyrr en einhver kvartar.
Síðasta dæmið sem ég hef rekist á er síða Vinnumálastofnunar. Þar getur einstaklingur, sem notar skjálesara, ekki lokið skráningum. Hafi skráningarskjalið verið vistað til bráðabirgða finnur skjálesarinn enga leið til að opna það. Ýmislegt fleira mætti nefna þessari síðu til foráttu, enda sjást engin dæmi þess að hún hafi verið vottuð af til þess bærum aðilum.
Það var sorglegt að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skyldi ekki hafa döngun í sér til þess að setja eða a.m.k. reyna að fá samþykkt lög um upplýsingaaðgengi.
Eitt sinn dáðist vinur Davíðs Oddssonar að því að Davíð hefði þaggað niður í Öryrkjabandalagi Íslands um leið og hann fór í Seðlabankann. Þegar þessu var andæft sagði vinurinn: "Jú, takið eftir að enginn tekur lengur mark á Öryrkjabandalaginu því að við sáum um að planta réttum manni á réttan stað á réttum tíma."
Nú er þessi rétti maður löngu hættur, en einhvern veginn virðist Öryrkjabandalag Íslands vera hálflömuð stofnun sem má sín lítils og formaðurinn ekki einu sinni úr hópi fatlaðra. Að minnsta kosti hefur upplýsingaaðgengið alveg horfið af metnaðarlista bandalagsins. Hvað segja félög eins og Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra og Félag lesblindra við þessari þróun?
Að lokum: Er þetta viðeigandi yfirlýsing á vefsíðu Öryrkjabandalagsins? "...fatlað fólk á rétt á viðeigandi lífskjörum..." Hvaða lífskjör eru viðeigandi fötluðu fólki?
Mannréttindi | 7.4.2015 | 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sitthvað riðar nú til falls í trúmálum. Sagnfræðingar hafa fyrir löngu upplýst um að jólaguðspjallið sé skáldskapur eða dæmisaga, vilji menn fremur nota það nafn, nýjustu rannsóknir benda til að Múhameð spámaður hafi aldrei verið til og nú viðurkennir Dalai Lama að stofnun embættisins sé mannanna verk og því hverfult sem slíkt.
Dalai Lama, sá 14. Síðan embættið var stofnað á 14. Öld, sagðist í samtali við BBC telja að líklegt væri að hann yrði sá síðasti í þessu embætti. Kína hefði nú tekið réttmætt sæti sitt á meðal þjóða heims. Það væri af hinu góða. En kínversk stjórnvöld yrðuað skilja stöðu sína og þjóðir heims yrðu að beita sér fyrir lýðræðislegri stjórnarháttum í Kína og upplýsingafrelsi.
- Olli það ekki vonbrigðum að bresk stjórnvöld skyldu ekki koma námsmönnum til hjálpar þegar þeir kröfðust aukins lýðræðis?
Breskir vinir mínir hafa sagt að tómir vasar bresku stjórnarinnar leyfðu ekki að hún stæði upp í hárinu á Kínverjum, svaraði Dalai kankvís.
Þegar fréttamaðurinn spurði hvort það væri ekki ólíklegt að hann yrði sá síðasti í þessu embætti þar sem kínversk stjórnvöld hefðu marglýst því að þau myndu velja eftirmann hans taldi hann vafasamt að valið yrði í embættið út frá pólitískum forsendum. En niðurstaða hins glaðlynda Dalai Lama varð þessi: Ef til vill kemst einhver heimskingi að sem næsti Dalai Lama. Stofnun þessa embættis var mannanna verk og það er því fólksins að ákveða áframhaldið. Það er þó skárra að núverandi Dalai Lama, sem er fremur vinsæll, verði sá s´íðasti, sagði hann og skellihló.
Mannréttindi | 20.12.2014 | 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í þessu var nýmiðlastjóra Ríkisútvarpsins sent meðfylgjandi bréf.
Sæll, Ingólfur Bjarni,
Ég trúði ekki mínum eigin eyrum og fingrum áðan þegar ég lét vísifingurinn líða um hljóðan símaskjáinn.
Ég geri ráð fyrir að þú sem nýmiðlastjóri Ríkisútvarpsins sért ábyrgðarmaður smáforrits fyrir snjallsíma sem gefur sumu fólki aðgang að sarpinum. Ég segi sumu fólki því að blindir snjallsímanotendur eru undanþegnir.
Þegar smáforritið er ræst (gildir um Android-síma) kemur ekkert fram á skjánum, engir hnappar með heiti, en einhver hnappur með númeri sem setur tónlist í gang. Það gerist þó ekki fyrr en hamast hefur verið í blindni og er ómögulegt að slökkva á því aftur nema með því að endurræsa símann.
Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið gleymið sí og æ þeim hópi fólks sem mest allra á undir því að útvarpið sé aðgengilegt?
Ég legg til að þetta smáforrit verði tekið af markaðinum þangað til aðgengið hefur verið lagfært og býðst til að veita þessari fjársveltu stofnun ókeypis ráðgjöf.
Bestu kveðjur,
Arnþór Helgason
arnthor.helgason@gmail.com
Farsími: 8973766
Mannréttindi | 29.11.2014 | 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gísli Pálsson, mannfræðingur og prófessor, hefur ritað ævisöguna Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér. Fjallar hann þar um ævi þessa manns, sem fæddist árið 1882 á karabískri eyju sem Danir höfðu keypt af Frökkum og notuðu til sykurframleiðslu. Sykurinn framleiddu ánauðugir menn og var Hans Jónatan ambáttarsonur, en faðir hans var ritari húsbónda hans.
Ævi Hans Jónatans er með ólíkindum. Hann barst til Kaupmannahafnar, tók þátt í orrustunni á skipalaginu við Kaupmannahöfn árið 1801, hinum svonefnda skírdagsslag og gat sér gott orð. Þar sem hann hafði strokið frá úsmóður sinni (stolið sjálfum sér eins og verjandi hans orðaði það) var hann dæmdur eign hennar. En hann gaf sig ekki fram heldur fór til Íslands.
Í bókinni eru raktar þær heimildir sem til eru um Hans Jónatan og seilst víða til fanga. Gísli hefur grafið upp ýmislegt með þrautseigju sinni og eljusemi og er með ólíkindum hvernig honum tekst að tengja efnið saman.
Bókin er nokkuð mörkuð af störfum hans sem kennara á sviði mannfræði. Iðulega varpar hann fram spurningum sem hann svarar iðulega fljótt og vel, en sumar hanga í loftinu og birtast svörin síðar. Lengir þetta að vísu frásögnina en gefur bókinni þokkafullan blæ og einkar persónulegan.
Bókin er ádrepa á hið tvöfalda siðferði sem þrælahaldarar allra tíma iðka og jafnvel vér nútímamenn sem skirrumst ekki við að kaupa varning sem vitað er að framleiddur sé af þrælum.
Gísli miðlar óspart af yfirburða þekkingu sinni á efninu, enda hefur honum verið hugleikið efni, sem snertir þrælahald og þróun þess.
Bókin er jöfnum höndum ævisaga, margofin samtímasaga, hugleiðingar um tengsl, þróun, samskipti og örlög, margs konar tilfinningar og hugrenningar sem lesandanum virðist sem beri höfundinn næstum ofurliði á stundum. Gísli skirrist ekki við að taka afstöðu til efnisins um leið og hann leggur hlutlægt mat á ýmislegt sem varðar þá sögu sem greind er í bókinni.
Ævisaga Hans Jónatans er einkar lipurlega skrifuð, málfarið fallegt, en fyrst og fremst eðlilegt. Virðing Gísla fyrir viðfangsefninu er mikil. Hann hefur unnið bókina í samvinnu við fjölda ættingja Hans Jónatans, fræðimenn á ýmsum sviðum og í nokkrum löndum.
Ævisaga Hans Jónatans er verðugur minnisvarði um manninn frá Vestur-Indíum sem Íslendingar tóku vel og báru virðingu fyrir, manninn sem setti mark sitt á heilt þorp og mikinn ættboga, þótt þrælborinn væri, mann sem samtíðarmenn hans á Íslandi lögðu ekki mat kynþáttahyggju á.
Pistilshöfundi er enn minnisstætt þegar ungur piltur frá Bandaríkjunum, dökkur á hörund, gerðist sjálfboðaliði á Blindrabókasafni Íslands. Ég hafði orð á því við hann að mér væri tjáð að hann væri þeldökkur. Það var leitt, sagði hann á sinni góðu íslensku. Þá finnst þér sjálfsagt lítið til mín koma. Mér varð hverft við og vildi vita hvers vegna hann segði þetta. Vegna þess að Íslendingar amast sumir við mér, svaraði hann. Þegar ég innti hann nánar eftir þessu svaraði hann því að flestir tækju sér vel og vildu allt fyrir sig gera. En aðrir sendu sé tóninn á götum úti og gelta jafnvel á eftir mér.
Þá sagði ég honum að ástæða þess að ég spyrði væri Hans Jónatan, en mig fýsti að vita hvort hann vissi eitthvað um forfeður sína. Upp frá þessu ræddum við talsvert um þær áskoranir sem bíða þeirra sem eru ekki steyptir í sama mót og hin svokallaða heild.
Gísli Pálsson man ef til vill atburð sem varð á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum einhvern tíma upp úr 1960. Um það leyti var afrískur maður í bænum einhverra erinda. Vestmannaeyingur nokkur, sem ekki skal nefndur hér, sá ástæðu til að veitast að honum og veita honum áverka. Varð sá atburður illa þokkaður í bænum.
Gísla Pálssyni og afkomendum Hans Jónatans er óskað til hamingju með þennan merka minnisvarða sem Hans Jónatan hefur verið gerður.
Mannréttindi | 25.11.2014 | 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag átti ég fund með Vali Þór Gunnarssyni, þróunarstjóra Íslandsbanka. Efni fundarins var aðgengi að snjallsímum.
Fórum við yfir smáforrit bankans sem leyfir fólki að skoða innstæður sínar og millifæra á reikninga.
Í forritinu er villa, þar sem talað er um pinn-númer í stað öryggisnúmers. Þá eru tveir hnappar án texta.
Valur greindi frá því að í sumar verði forritinu breytt og bætt við það ýmsum aðgerðum. Þá verður villan lagfærð og þess gætt að heiti hnappanna birtist eða talgervill lesi heiti aðgerðarinnar.
Á fundinum var einnig rætt hvernig hægt væri að vekja athygli á aðgengi sjónskertra og blindra að snjallsímum. Sagði Valur að þótt flestir forritarar vissu hvaða þýðingu aðgengi að vefnum hefði fyrir þennan hóp væri það fáum kunnugt að snjallsímar hentuðu blindu eða sjónskertu fólki.
Hafist verður handa við að vekja athygli forritara á nauðsyn þess að huga að aðgengi að snjallsímum.
fundurinn var í alla staði hinn ánægjulegasti og víst að þróunarstjóri Íslandsbanka á eftir að beita sér í málinu.
Mannréttindi | 9.5.2014 | 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 319741
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar