Færsluflokkur: Mannréttindi

Blindir tölvunotendur virðast ekki geta lesið umsagnir á vef Alþingis

Sumarið 2008 vann ég sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Þá var ákveðið að gera aðgengi að vefnum nokkur skil í blaðinu. Varð sú grein m.a. umfjöllunarefni leiðara Morgunblaðsins nokkrum dögum síðar þar sem vakin var athygli á nauðsyn góðs aðgengis að upplýsingum.

Einn þeirra, sem ég ætlaði að ræða við, var Helgi Bernótusson, skrifstofustjóri Alþingis, en hann óskaði eftir skriflegum spurningum. Ein þeirra var um vottun vefsins, sem var þá fremur óaðgengilegur. Kvað hann ekki þörf á vottun því að starfsmenn þingsins væru færir um þetta. Þegar ég lýsti furðu minni á þessu svari jós hann yfir mig skömmum og sagðist aldrei hafa fyrr orðið fyrir því að blaðamaður tæki afstöðu til svars viðmælanda síns. Ákvað ég því að nenna ekki að elta ólar við hann þrátt fyrir mótmæli ritstjóra sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

Nú vill svo til að ég þarf að kynna mér nokkrar umsagnir á vef Alþingis. Þær eru vistaðar sem óaðgengileg pdf-skjöl - einungis mynd af textanum. Því var ritstjóra vefsins sent eftirfarandi bréf.

 

"Ágæti viðtakandi.

 

Ég þarf að kynna mér nokkrar umsagnir vegna mála sem nefndir Alþingis hafa til umsagnar. Skjölin eru vistuð á pdf-sniði.

 

Þegar ég opna skjölin kemur í ljós að um mynd af texta er að ræða sem skjálesarar skilja ekki. Þessi hluti vefsins er því óaðgengilegur blindum tölvunotendum.

 

Hvað veldur og hvenær má vænta úrbóta?

 

Hefur vefur Alþingis vefið tekin út og vottaður?

 

Virðingarfyllst,

 

Arnþór Helgason

 

---

 

 

 

Arnþór Helgason, vináttusendiherra,

 

Tjarnarbóli 14,

 

170 Seltjarnarnesi.

 

Sími:    5611703

 

Farsími:          8973766

 

Netföng:          arnthor.helgason@simnet.is

 

                        arnthor.helgason@gmail.com

 

http://arnthorhelgason.blog.is

 

http://hljodblog.is"


Íslensk þýðing á spænsku aðgengisforriti fyrir snjallsíma

Fjórtándi janúar árið 2014 verður talinn til tíðindadaga á meðal blindra og sjónskertra Íslendinga. Í dag kom forritið Mobile Accessibility fyrir Android farsíma út í Playstore hjá Google. Heldur gekk treglega að finna forritið, en með því að leita að orðinu skjálesari fannst það. Fólk getur fengið því úthlutað hjá Þekkingarmiðstöðinni.

Uppsetning forritsins gekk með ágætum og við fyrstu heyrn virðast flestir annmarkar hafa verið lagfærðir. Sú breyting hefur nú orðið á forritinu að hægt er að hafa MA opið sem skjálesara um leið og Talkback aðgengislausn símanna. Virðist þá vera hægt að lesa öll forrit símans sem eru aðgengileg.. Vakin skal athygli á því að séu báðir skjálesararnir notaðir samtímis og Mobile Accessibility sem valmynd, þarf iðulega aðþrísnerta skjáinn þegar skipanir eru notaðar.

Þá er hægt að nota Mobile Accessibility skjálesarann eingöngu og gefur hann þá kost á skipunum sem eru afar fljótvirkar. Sá böggull fylgir skammrifi að skjálesarinn les ekki nægilega vel sum forrit og lestrarforritið Ideal Group Reader, sem notað er fyrir EPUB-rafbækur, nýtist ekki. Moonreader, sem er svipað, hefur að vísu ekki verið reynt.

Þá virkar MA einnig sem valmynd í Talkback og eru þá skipanir Talkback virkar.

Mobile Accessibility er þægilegt fyrir byrjendur vegna þess að vaðgerðareitir (hnappar) eru dreifðir um svo stórt svæði á skjánum að lítil hætt er á að menn hitti fyrir tvo hnappa í einu. Þá er íslenska snertilyklaborðið, sem Baldur Snær Sigurðsson hannaði, afbragðsgott. Vilji menn fremur nota þráðlaust borð er hægt að aðlaga það forritinu.

Ástæða er til að óska Blindrafélaginu og Þekkingarmiðstöðinni til hamingju með þennan áfanga. Verður forvitnilegt að fylgjast með nýjum notendum.


Nýi tíuþúsundkallinn

Blindratækni er m.a. í því fólgin að gera almenna hluti aðgengilega þeim sem eru blindir. Árið 1975 eða 76 varð snörp senna á milli Blindrafélagsins og Seðlabankans, þegar upplýst var að nýju seðlarnir, sem þá voru í undirbúningi, yrðu allir jafnlangir. Það tókst að fá almenningsálitið í lið með okkur og frá þessu var horfið. Aðalgjaldkeri bankans sagði síðar að hann botnaði ekkert í því hvernig mönnum hefði dottið annað eins í hug. Veit nokkur hvort einhver mismunur er á stærð nýja 10.000 kr seðilsins og 5.000 kr seðilsins?

Bæta þarf íslensk smáforrit fyrir snjallsíma

Á þessum síðum hefur komið fram að flest íslensk smáforrit fyrir Android-síma og spjaldtölvur séu óaðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Er því sjálfsagt um að kenna að ekki hefur verið vakin athygli á nauðsyn þess að gætt sé að þessum þætti við hönnun forrita.
Á bak við smíði flestra smáforrita, sem er að finna á íslensku, er fyrirtækið Stokkur í Hafnarfirði. Hér er enn eitt málið á ferðinni sem Blindrafélagið og fleir þurfa að sinna.
Í kvöld ritaði ég þeim Stokksmönnum eftirfarandi bréf:

Ágætu Stokkverjar.

Ég hef að undanförnu nýtt mér snjallsíma með Android-4.1.2 stýrikerfi. Nota ég einkum aðgengislausn sem nýtir Talkback-aðgengisviðmótið sem fylgir Android-símum.

Ég hef prófað nokkur íslensk smáforrit fyrir snjallsíma. Þau virðast flest þeim annmörkum háð að ekki hefur verið gert ráð fyrir að þeir, sem nýta talgervil og aðgengislausnir frá Android, geti nýtt þau.

Miklar framfari hafa orðið á vefaðgengi blindra og sjónskertra hér á landi og víða erlendis er nú unnið hörðum höndum við að gera Android-kerfið aðgengilegt, enda er gert ráð fyrir því við hönnun stýrikerfisins.
Sjá m.a.
http://developer.android.com/guide/topics/ui/accessibility/apps.html
Ýmislegt, sem ég hef heyrt um Stokk, bendir til að þið séuð afar hugmyndaríkir og snilldar forritarar. En getur verið að aðgengisþátturinn hafi farið framhjá ykkur? Í raun og veru ætti að hanna öll forrit þannig að aðgengi sé virt. Með því að sniðganga aðgengið eru lagðir ótrúlegir steinar í götu þeirra sem þurfa á því að halda að tæknin sé aðgengileg.

Mig langar að nefna þrjú dæmi um óaðgengileg forrit:

Strætóappið er algerlega óaðgengilegt þeim sem nota talgervil í símanum.

Forritið Leggja er einnig óaðgengilegt. Þar eru hnappar sem ekki eru með textalýsingu.

Þá er Veður að mestu aðgengilegt, en það hefur þann annmarka að forritið virðist ævinlega undirliggjandi þegar það er notað með Talkback og þvinga þarf fram stöðvun þess.

Ég bendi ykkur m.a. á hópinn Blindratækni á Facebook, en þar hefur farið fram nokkur umræða um notkun snjallsíma að undanförnu. Nú standa málin þannig að aðgengisforritið Mobile Accessibility hefur verið þýtt á íslensku og má búast við að blindum og sjónskertum snjallsímanotendum fjölgi að mun á næstunni. Þá er einnig í bígerð að þýða annað forrit svipaðs eðlis, Equaleyes, til þess að gefa fólki völ á fleiri lausnum.

Gangi ykkur vel í störfum ykkar.
Bestu kveðjur,

Arnþór Helgason


Sannleikurinn er sagna bestur - rektor getur enn gripið í taumana

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fullyrðir að útskýringar Baldurs Þórhallssonar og fleiri, vegna ráðningar hans til kennslu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, séu rangar. Segir hann að Baldur hafi ekki komið að málinu þar sem hann sé í leyfi frá kennslu við háskólann.

Jón segir m.a.: "Verkefnið sem mér var falið að vinna á vegum stjórnmálafræðideildar var að undirbúa námsáætlun, annast kennslu (fimmtán fyrirlestrar og fimm umræðutímar); einnig að annast námsmat (ritgerðir og próf) nemenda til B.A.- og M.A.-prófa, í samstarfi við tvo aðra starfsmenn deildarinnar. Þetta var mér falið að gera með bréfi þann 9. júlí."

Þegar fréttist af máli Jóns Baldvins og Háskóla Íslands flaug mér í hug að þetta er ekki í fyrsta sinn sem háskólasamfélagið hagar sér með líkum hætti. Árið 2002 kom ég að svipuðu máli, en þá tók Páll Skúlason í taumana og bjargaði því sem bjargað varð. Þar var um það að ræða að erlendur einstaklingur hafði verið ráðinn til að halda tiltekið námskeið, en endurmenntun ákvað að hætta við það og skjóta að manni, sem þeir töldu að laðaði að fleiri nemendur. Þar sem ég var í vinfengi við þennan einstakling átti að fá mig til þess að greina honum frá ákvörðun stjórnar Endurmenntunar, en afsökunin átti að verða sú að gleymst hefði að prenta síðuna þar sem námskeiðið væri auglýst. Þegar ég benti á að slíkum síðum hefði verið skotið inn sem lausum blöðum kom hið sanna í ljós.

Mál Jóns Baldvins er sýnu verra viðfangs þar sem menn finna sér útgönguleið með ósannindum og nýta sér jafnframt dómstól götunnar sem er óvenju virkur hér á landi. Þvílíkir menn lenda iðulega í öngstræti. Hvað sem öðru líður setur Háskóli Íslands mjög ofan. Rektor getur enn tekið í taumana eins og Páll Skúlason forðum.


Bylgjuviðtal um íslenskt tal í farsímum

Mánudaginn 19. Ágúst birti Bylgjan við mig símaviðtal þar
sem fjallað var um íslensku í farsímum. Nokkrir einstaklingar hafa haft samband
við mig og beðið um þetta viðtal. Er það því birt hér.http://visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP20431

Bylgjuviðtalið


Spjaldtölvutímarit - einangrun eða umbylting?

Í Morgunblaðinu í dag var frétt um nýtt tímarit, Skástrik, sem hefur göngu sína í næsta mánuði. Verður það með fréttaskýringum af erlendum og innlendum vettvangi. Markhópur tímaritsins verða eigendur spjaldtölva og lesbretta. Áður hefur útgáfa Kjarnans verið boðuð, , sem einnig er ætlaður sama markhópi. verði
Verði Kindils- og EPUB-viðmótið valið ættu tímaritið að verða aðgengileg öllum.
Fréttablaðið hefur að undanförnu auglýst smáforrit fyrir spjaldtölvur og farsíma og á mbl.is er slíkt forrit einnig auglýst.
Aðgengi þessara forrita var athugað í dag. Fréttablaðsforritið reyndist óaðgengilegt og hið sama var að mestu leyti upp á teningnum með Morgunblaðsforritið. Unnt reyntist að hala niður blaðinu í dag, en undirritaður fékk lánaða áskrift að Android-hlutanum á meðan á prófunum stóð. Morgunblaðsforritið halar niður pdf-útgáfu blaðsins að sögn Snorra Guðjónssonar, tölvumanns hjá blaðinu og gera má ráð fyrir hinu sama hjá Fréttablaðinu. Gallinn er sá að blindir eða sjónskertir lesendur geta ekki valið hvaða skjálesari er nýttur.
Þau smáforrit, sem gefin hafa verið út fyrir íslenskan markað að undanförnu, valda nokkrum áhyggjum. Svo virðist sem aðgengisþátturinn hafi gleymst. Áður hefur verið minnst á Strætó-forritið á þessum síðum sem er algerlega óaðgengilegt.
Morgunblaðið hefur verið í forystu fjölmiðla um aðgengi í rúman áratug og er vefsíða þess á meðal aðgengilegustu fjölmiðlasíðna heims. Hið sama verður vart sagt um Fréttablaðið. Það er með ólíkindum að þeir 365-miðla menn setji ekki fyrirsagnir eða krækjur á einstaka hluta og greinar blaðsins eins og Morgunblaðið gerir á auðlesna hluta blaðsins, samanber http://www.mbl.is/mm/greinilegur/mogginn/bladid/?dagur=0.
Í þeirri byltingu, sem nú er framundan í fjölmiðlun hér á landi, ríður á að Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands haldi vöku sinni. Hið sama á við um útgáfu rafbóka og námsefnis. Verði ekki vakin athygli á þörfum blindra og sjónskertra fyrir aðgengileg smáforrit, getur farið illa og einangrunin aukist að mun.
Íslenskir forritarar eru hugmyndaríkir og snjallir. Hafi þeir aðgengi í huga frá upphafi er betur af stað farið en heima setið.

Málskilningur Google lofar góðu

Í þessum pistli er fjallað um einn aðgengisþátt í Android-umhverfinu. Þar er minnst á tvenns konar hugbúnað:

Mobile Accessibility er sérstakur hugbúnaður frá Code Factory, sem er í eigu Spænsku blindrasamtakanna. Hann gerir blindu og sjónskertu fólki kleift að nota snjallsíma með því að tengjast talgervli. Viðmótið hefur verið einfaldað að mun. Blindrafélagið hefur ákveðið að láta þýða Mobile Accessibility á íslensku.

Talkback er aðgengisbúnaður sem er hluti aðgengislausna Android-kerfisins. Sá sími, sem fjallað er um hér, er Samsung Galaxy S3 GT9000 með stýrikerfi 4.1.2. Með útgáfu 4.2 batnar aðgengið að mun.

Talsvert hefur verið fjallað um íslenska leitarvél Google og ekki að ástæðulausu. Það hefur hins vegar vafist fyrir ýmsum hvernig eigi að stilla Android-símana til slíkra nota. Nú skilur Samsung-síminn minn loksins íslenskt, mælt mál.

Í kvöld kom kunningi okkar í heimsókn. Sá er mikill ástríðumaður um tölvur og hefur nýlega keypt sér Android-spjaldtölvu af gerðinni Samsung með stýrikerfi 4.1.2. Í fikti okkar komumst við að því að leiðsagnarforritið Navigation í tölvunni gerði honum kleift að segja íslensk nöfn á götum og húsanúmer, þó með þeim annmörkum að hann varð að hafa fyrstu fjórar tölurnar í nefnifalli, samanber Lindarbrautþrír.

Þegar hann var farinn hófst ég handa við að samhæfa símann hjá mér því sem kallast Scandinavian Keyboard og Icelandic Dictionary eftir Sverri Fannar. En fyrst varð ég að kveikja á Talkback-forritinu og slökkva á Mobile Accessibility. Þá fór ég í Speaksearch og las inn á íslensku nokkur leitarorð. Síminn fann ýmislegt á vefnum og birti niðurstöðurnar á augabragði. Þannig komst ég að því að kunningi minn hafði sett húsið sitt í sölu og auglýst á mbl.is og að svili minn var í framboði til Stjórnlagaráðs.

Fyrst, þegar ég leitaði að sjálfum mér, ruglaðist forritið á mér og Arnóri Fannari, en skildi í annarri tilraun að ég væri að leita að minni auvirðilegu persónu.Ég reyndi síðan aðferðina með Mobile Speak. Það virtist ekki ganga að öllu leyti því að Mobile Accessibility þekkir ekki íslenskt lyklaborð. Þó má vera að hægt sé að hringja í símanúmer með nokkrum tilfæringum með því að lesa númerin inn á íslensku, þegar Mobile Accessibility er notað, en hæpið er að það borgi sig. Niðurstaðan er því þessi:

Leitarvél Google skilur merkilega vel íslensku. Nauðsynlegt er að fara fram á við Code Factory að Mobile Accibility þekki Scandinavian Keyboard og helst ætti að breyta hönnun forritsins þannig að það aðlagaði sig að þeim lyklaborðum sem valin eru hverju sinni. Hjá mér er það Scandinavian Keyboard og Sansung lyklaborð.

Þá virðist Mobile Accessibility breyta sumum skjáskipunum Talkback þannig að endurstilla þurfi kerfið þegar Talkback er notað. Er það ótvíræður ókostur.


Leiðsögnin í strætó og smáforritið

Fyrir tæpum þremur árum var leiðsagnarkerfið tekið í notkun hjá Strætó. Gerð var úttekt á því eftir áramótin og fék talandi leiðsögnin falleinkunn. Ég ferðast talsvert með strætisvögnum og verð þess varla var að neitt hafi breyst til batnaðar.

Ég leit áðan á smáforrit sem Strætó dreifir og gerir fólki kleift að skoða í snjallsímum staðsetningu vagnanna. Það er óaðgengilegt. Lítill vandi hefði verið að koma fyrir aðgengislausn handa blindum eða sjónskertum farþegum. Hefði hún getað falist í því að tilgreina hvar vagninn væri staddur þegar stutt er á númer vagnsins. Mér sýnist að þá séu gefnir upp nokkrir möguleikar. Hefði t.d. verið hægt að samtengja lesturinn staðsetningarbúnaði símans sem fyrirspurnin barst úr. Það er áríðandi að hönnuðir smáforrita, sem ætluð eru til nota í spjaldtölvum og farsímum gleymi ekki aðgenginu. Það verður sífellt þýðingarmeira eftir því sem notkun spjaldtölva og snjallsíma eykst. Eigi blind og sjónskert börn að geta haldið í við sjáandi félaga sína verða hönnuðir að sjá til þess að sem flest smáforritin verði aðgengileg.

Fer ekki að verða tímabært að efna til aðgengisupplýsingaráðstefnu? Það eru 10 ár síðan sú síðasta var haldin.


Sum vefrit Atvinnumálaráðuneytisins óaðgengileg - brot á opinberri aðgengisstefnu

Stöðugt fjölgar þeim bókum sem eru aðgengilegar sem rafbækur. Sum ritverk eru aðgengileg sem pdf-skjöl en önnur sem rafbækur á EPUB-eða MOBI-sniði.
Ég hef að undanförnu kynnt mér ýmislegt sem snertir sögu sjávarútvegsins. Fagnaði ég því að sjá að hið ágæta verk Jóns Þ. Þórs, saga sjávarútvegsins, væri nú heimil öllum til niðurhals. Ekki var þó allt sem sýndist í fyrstu, samanber bréf mitt til Atvinnumálaráðuneytisins, sem hér birtist.
Greinilegt er að frágangur þessa þriggja binda verks er ekki í neinu samræmi við aðgengisstefnu stjórnvalda. Viðleitnin var góð, en betur má ef duga skal.

BRÉFIÐ TIL RÁÐUNEYTISINS

Heiðraði viðtakandi.

Í upphafi skal tekið fram að ég nota skjálesara með talgervli og blindraletri.

Vefsíða Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins er allvel aðgengileg. Þar sem ég hef verið að kynna mér ýmislegt sem snertir sögu sjávarútvegs á Íslandi fagnaði ég því að sjá að Saga sjávarútvegsins eftir Jón Þ. Þór væri nú aðgengileg á vefnum. Halaði ég því niður öllum bindunum á pdf-sniði. Eftirfarandi kom í ljós:

1. Talsvert vantar á að fyrstu tvö bindin séu sómasamlega unnin. Til dæmis skilar bókstafurinn ð sér sjaldan. Það má þó notast við eintakið. Þá hefur engin tilraun verið gerð til að setja krækjur í efnisyfirlit svo að erfitt er að fletta í skjölunum.

2. Þriðja bindið er algerlega óaðgengilegt þeim sem nota skjálesara fyrir blindraletur eða talgervil. Það virðist hafa verið gengið frá síðunum sem hreinum myndum og því geta skjálesarar ekki nýst við lesturinn.

Ég fer þess vinsamlegast á leit við hæstvirt ráðuneyti að ráðin verði bót á þessu með 3. bindið. Síðan þarf ráðuneytið að láta lagfæra 1. og 2. bindi verksins svo að þaað verði sæmilega aðgengilegt þeim sem hyggjast nýta sér verkið til útgáfu.

Ég hef rætt þessi mál við höfundinn og veldur það honum vonbrigðum hversu staðið hefur verið að frágangi þess á vefnum.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason

---

Arnþór Helgason, vináttusendiherra,

Tjarnarbóli 14,

170 Seltjarnarnesi.

Sími: 5611703

Farsími: 8973766

Netföng: arnthor.helgason@simnet.is

arnthor.helgason@gmail.com

http://arnthorhelgason.blog.is

http://hljodblog.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband