Færsluflokkur: Mannréttindi

Hefnd valdhafanna

Áheyrnaraðild Palestínumanna að Sameinuðu þjóðunum hefur verið samþykkt þrátt fyrir harða andstöðu Ísraelsmanna og verndara þeirra, Bandaríkjamanna.

 

Hefnd kúgaranna lét ekki á sér standa. Forsætisráðherra Ísraels burstaði rykið af gömlum tillögum um nýja byggð á Vesturbakkanum, sem verður til þess að byggðir Palestínumanna verði klofnar í tvennt. Bandaríkjamenn mótmæla en forðast að gera nokkuð til þess að afstýra verðandi framkvæmdum.

 

Það er hættulegt að eiga sér volduga andstæðinga. Það þekkist hér á landi sem annars staðar. Þann 19. desember árið 2000 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm þar sem tengingar örorkubóta við tekjur maka voru dæmdar óheimilar. Þáverandi forsætisráðherra Íslands stóð þá fyrir lagasetningu sem skerti áhrif þessa dóms - hefndaraðgerð í garð öryrjka og andstæðinga þeirra.

 

Baráttan er hörð þegar sumir fara sínu vald í skjóli voldugra valdhafa.

 

 


Aldahvörf í málefnum blindra Íslendinga

Atkvæðagreiðslan um spurningar vegna breytinga á stjórnarskránni markar tímamót í sögu blindra Íslendinga. Í fyrsta skipti er blindu fólki, sem les blindraletur, gefinn kostur á að fá öll kjörgögn í hendur: kjörseðilinn prentaðan á blindraletri auk spjalds, sem lagt er yfir hinn eiginlega kjörseðil. Spjaldið er svo greinilega merkt að menn velkjast ekki í vafa um hvar setja eigi krossinn.

 

Ég fékk engar sérstakar leiðbeiningar ætlaðar blindu fólki sendar heim. En síðan thjodaratkvaedi.is reyndist með aðgengilegum upplýsingum.

 

Mér varð hugsað til þeirrar baráttu sem við tvíburabræður háðum á árunum 1974-78 til þess að tryggja lýðréttindi blindra einkum við utankjörstaðakosningar. Þegar sá sigur vannst þótti flestum það mikil bót og hið sama varð upp á teningnum, þegar farið var að leggja sérstök spjöld yfir kjörseðla sem gerðu blindu fólki kleift að kjósa í einrúmi.

 

Í morgun var mér tjáð að sækja þyrfti formann kjörstjórnar til þess að úrskurða um heimild mér til handa til þess að fá aðstoð á kjörstað. Ég benti á að þess þyrfti ekki, öll gögn væru fyrir hendi og varð svo að enginn var úrskurðaður aðstoðarmaður minn.

 

til hamingju, allir þeir sem blindir eru og aðrir þeir, sem þurfa á blindraletri að halda.

 


Dómgreindur ráðherra

Enn einu sinni hefur kærunefnd jafnréttismála komist að raun um að ráðherra vinstri stjórnarinnar hafi brotið jafnréttislög.

Ívilnandi ákvæði í lögum, sem ætlað er að rétta hlut þeirra, sem taldir eru standa höllum fæti í þjóðfélaginu, eiga sér nokkurra áratuga sögu. Sjaldnast hefur verið farið eftir þeim, þar sem engin viðurlög liggja við broti á þeim og stjórnvöld eru undantekningalaust sá aðilinn, sem brýtur þessi lög.

Sjaldan eða aldrei hefur tekist að rétta hlut þeirra fáu einstaklinga sem hafa kært ráðningu ófatlaðra í störf sem hinir fötluðu voru fullfærir um að valda og hið sama virðist eiga við um konur. Eitt sinn var kært vegna brota á lögum um endurhæfingu, en þar sagði að þeir, sem notið hefðu endurhæfingar og væru jafnhæfir öðrum einstaklingum til starfans, skyldu "að öðru jöfnu" ráðnir. Fatlaður einstaklingur leitaði árið 1979 til þekkts lögmanns og bað hann að höfða mál á hendur opinberri stofnun vegna ráðningar í fulltrúastarf, sem hann hafði sótt um, en verið hafnað. Lögmaðurinn komst að þeirri niðurstöðu að orðin "að öðru jöfnu" yllu því að málatilbúnaður teldist ónýtur. Hann ritaði hins vegar stjórnendum stofnunarinnar og óskaði eftir því að hlutur hins fatlaða umsækjanda yrði réttur. Svo varð ekki. Tveimur áratugum síðar sótti þessi sami einstaklingur um starf hjá þessari stofnun. Þá trúði starfsmannastjórinn kunningja sínum fyrir því að þessi einstaklingur kæmi aldrei inn fyrir dyr stofnunarinnar sem fastur starfsmaður, því að hann hefði eitt sinn höfðað mál á hendur stjórnendum hennar. Þannig er þetta því miður í íslensku samfélagi. Leiti fatlað fólk eða konur réttar síns gegn kerfinu eru slíkar sakir geymdar en ekki gleymdar. Margir hafa því heykst á að standa á rétti sínum af ótta við að fá ekki starf við sitt hæfi.

Hvert misréttismálið rekur nú annað hjá stjórnvöldum, þar sem konur eiga í hlut. Stundum hafa karlmenn verið teknir fram yfir þær, þótt þær séu taldar hæfari og í önnur skipti eru konurnar jafnvel taldar of hæfar. Ráðherrar bregðast jafnvel ókvæða við, séu þeir spurðir í þaula og kunna jafnvel ekki við orðbragð fréttamanna. Hvenær skyldi almenningur fá nóg af dómgreindarskorti ráðherranna?


"Lítið er geð guma" - endurtekin mannréttindabrot

Magnús Thoroddsen hefur iðulega vakið athygli fyrir skoðanir sínar á kvótakerfinu. Í dag birtist þessi grein í Morgunblaðinu.

form redirect=yes


Forsíða | Innlent | Erlent | Íþróttir | Tækni & vísindi | Veröld/Fólk | Viðskipti | Fasteignir | Atvinna | Gagnasafn | Blað dagsins | Bloggið

Föstudaginn 17. ágúst, 2012 - Aðsent efni
Hneykslanleg ákvörðun
Eftir Magnús Thoroddsen
Magnús Thoroddsen
Magnús Thoroddsen
Eftir Magnús Thoroddsen: "Þessi ákvörðun mannréttindanefndarinnar er óskiljanleg með öllu. Ég þurfti að láta segja mér hana þrisvar, eins og Njáli forðum. Varð ég fyrst undrandi en síðar hneykslaður."

Hinn 24. október 2007 úrskurðaði Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í kærumáli sjómannanna, Erlings Sveins Haraldssonar og Arnar Snævars Sveinssonar, gegn Íslenzka ríkinu út af kvótakerfi laganna um stjórn fiskveiða. Í þessum úrskurði taldi meirihluti Mannréttindanefndarinnar kvótakerfið brjóta gegn 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (Nr. 10, 28. ágúst 1979), er kveður á um jafnrétti allra manna. Kvótakerfið væri ósanngjarnt í eðli sínu, þar sem menn, er vildu stunda sjó, en hefðu ekki kvóta, þyrftu að kaupa hann af þeim, sem fengið hefðu veiðiheimildir úthlutaðar frá ríkinu. Sanngirnin er nefnilega gildasti þáttur jafnréttisins, sem einnig er varið í 65. gr. Stjórnarskrár hins íslenzka lýðveldis nr. 33, 17. júní 1944, með síðari breytingum.
Í úrskurði sínum mælti Mannréttindanefndin svo fyrir, að íslenzka ríkið skyldi greiða þeim Erlingi og Erni skaðabætur og endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið á þann hátt, að það fullnægði ákvæðum 26. gr. Alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Skyldi þessu fullnægt innan 6 mánaða.
Að gengnum þessum úrskurði, sendi þáverandi sjávarútvegsráðherra mannréttindanefndinni bréf, dags. 6. júní 2008, þar sem fram kom, að íslenzka ríkið mundi ekki greiða kærendunum skaðabætur né heldur teldi íslenzka ríkið sig vera í aðstöðu til að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu umsvifalaust, en boðaði, að tilmæli mannréttindanefndarinnar yrðu höfð til hliðsjónar við heildstæða endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Í febrúar 2009 mun nýskipaður sjávarútvegsráðherra hafa áréttað við mannréttindanefndina, að íslenzka ríkisstjórnin hafi ákveðið að styrkja mannréttindaþátt stjórnarskrárinnar og festa í sessi, að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar, en tók að öðru leyti undir afstöðu fyrrverandi sjárútvegsráðherra.
Nú eru liðin tæp 5 ár frá því að mannréttindanefndin úrskurðaði í máli þessu með ofangreindum hætti. Enn þverskallast íslenzka ríkið við að greiða kærendum skaðabætur, og enn hefir íslenzka ríkisstjórnin ekki lagt fram frumvarp til stjórnskipunarlaga um það, að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar. Hins vegar hefir núverandi sjávarútvegsráðherra, á síðasta þingi, lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun, þar sem hann hefir bætt gráu ofan á svart með því að festa í sessi, í að minnsta kosti 20 ár, forréttindi þeirra kvótagreifa, sem nú njóta þeirra. Þetta er ennþá alvarlegra mannréttindabrot, en samkvæmt núgildandi lögum, þar sem veiðiheimildum er nú aðeins úthlutað til eins árs í senn.
En þrátt fyrir allt þetta, þ. e. fullkomnar vanefndir íslenzka ríkisins á úrskurði mannréttindanefndarinnar frá 24. október 2007, hefir hið ótrúlega gerzt. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefir í bréfi, dags. 29. maí 2012, til fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf tilkynnt, að hún hafi ákveðið að loka málinu í ljósi þess, að stjórnvöld hafi brugðizt með ásættanlegum hætti, að hluta til, við tilmælum mannréttindanefndarinnar. (Á ensku: „The Committee decided, in light of the measures taken so far by the State party to give effect to the Committee's Views, not to examine the case any further under the follow-up procedure, with a note of a partly satisfactory implementation of its recommendation.“)
Þessi ákvörðun mannréttindanefndarinnar er óskiljanleg með öllu. Ég þurfti að láta segja mér hana þrisvar, eins og Njáli forðum. Varð ég fyrst undrandi en síðar hneykslaður. Ákvörðun þessi stríðir gegn siðfræði, lögfræði, rökfræði og grunnreglum réttarfars. Gegn siðfræði vegna þess, að nefndin hafði í úrskurði sínum slegið því föstu, að kvótakerfið væri ósanngjarnt, en sanngirni er grundvallaratriði í siðfræði. Gegn lögfræði, þar eð nefndin hafði túlkað jafnréttisákvæði 26. gr. Mannréttindasáttmálans lögfræðilega á þann veg, að kvótakerfið bryti gegn því. Gegn rökfræði með því að loka kærumálinu án þess að fullnægt væri úrskurði mannréttindanefndarinnar, nema síður sé. Óljósar yfirlýsingar íslenzkra stjórnvalda um það, að þau muni hafa tilmæli nefndarinnar til hliðsjónar við heildstæða endurskoðun fiskveiðikerfisins eru marklausar, þar sem þær segja ekkert til um það í hverju sú endurskoðun verði fólgin, né hvenær hún eigi að fara fram. Dómstóll eða annar úrskurðaraðili vísar ekki máli frá, þótt stefndi, sem vanefnt hefir dómkröfurnar, gefi yfirlýsingu um það, að hann muni fullnægja kröfum stefnanda hugsanlega einhvern tímann í framtíðinni. Því brýtur þessi ákvörðun einnig í bága við grundvallarreglur réttarfars.
Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland er aðili að, skuldbindur sérhvert aðildarríki sig til, að maður, sem brotið hefir verið á, skuli fá raunhæfar úrbætur, enda þótt brotið hafi verið framið af mönnum, sem fara með stjórnvald. Mannréttindanefndin hefir úrskurðað um þetta. Það á að greiða kærendum skaðabætur og það á að breyta íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu á þann veg, að það fullnægi ákvæðum 26. Sáttmálans um jafnrétti allra manna. Íslenzka ríkið hefir gert hvorugt. Samt sem áður lætur Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þetta yfir sig ganga: „Lítið er geð guma“. Með þeirri ákvörðun að loka þessu kærumáli hefir Mannréttindanefndin lyppast niður og svert orðstír sinn með smánarlegum hætti. Bretar myndu segja: „Soiled their fame with shame.“
Höfundur er fyrrverandi hæstaréttarlögmaður.
Facebook
til baka Til baka
prenta Prenta grein
leit Leita í gagnasafni mbl.is
© Höfundaréttur


Æ sér gjöf til gjalda

Árni Jóhnsen er hugmyndaríkur og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Almenningsálitið lætur hann sig einatt litlu skipta og fer sínu fram.

Nokkurt fjaðrafok hefur orðið vegna þeirrar ákvörðunar Árna að bjóða álfafjölskyldu til Vestmannaeyja. Gekk skólastjóri Álfaskólans jafnvel svo langt að halda því fram að þessi afskipti álfanna af högum fjölskyldunnar gætu kallað yfir hann ógæfu, eða svo mátti skilja orð Magnúsar Skarphéðinssonar á Rás tvö í dag.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, sem hafa lesið íslenskar álfasögur, að álfar gjalda yfirleitt íku líkt í viðskiptum. Nú var Árni svo forsjáll að hafa með sér konu, sem sér álfa og getur haft samband við þá. Fyrir hennar tilstilli þágu álfarnir tilboð Árna um flutning þeirra og bústaðarins til eyja, enda vannst þá tvennt: þau gætu hafið fjárbúskap með huldufé og bústaðurinn fylgdi með. Fjölskyldan þurfti með öðrum orðum ekki að leita sér að nýju húsnæði.

Árni hefur staðið einstaklega vel að málinu. Þótt hann hafi gaman af þessu í aðra röndina sýnir þetta tiltæki þó að hann beri virðingu fyrir vissum leikreglum í samskiptum manna og hulinna vætta þessa lands. Slíkt er að virða og vafalítið er álfafjölskyldan þakklát honum fyrir þá hugulsemi að sinna málum þeirra svo vel sem raun ber vitni. Þar að auki kemst álfafjölskyldan nú í mun fegurra umhverfi en áður og nýtur betur þagnarinnar. Er því líklegt að hún gjaldi Árna og fjölskyldu hans greiðann og veiti honum í þeim málum, sem hún getur haft áhrif á.

Árni hefur verið þekktur að því að taka málstað þeirra sem hafa beðið skipbrot. Þarna forðaði hann heilli fjölskyldu frá því að bíða lægri hlut í samskiptum sínum við mannfólkið, eins og allt of oft hefur gerst.

Árna og álfunum er óskað giftusamrar sambúðar.


Hvers eiga aldraðir að gjalda?

Því verður vart á móti mælt, að fatlað fólk hefur það nú að mörgu leyti betra, þrátt fyrir ýmsa óáran í þjóðfélaginu, en á tímum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem var of lengi við völd. Þrátt fyrir allt hefur tekist að verja þennan lágtekjuhóp áföllum og skattheimtan er ekki jafnskefjalaus og áður.

Það skýtur hins vegar skökku við, hvernig farið er með aldraða. Þar skerðast lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum hjá flestum vegna hverar krónu, sem kemur úr lífeyrissjóðum. Þrátt fyrir ókosti ríkisstjórnarinnar, sem nefnd varhér áðan, datt mönnum ekki þetta í hug.

Landssamtök aldraðra hafa ítrekað mótmælt þessum órétti. En fleiri mótmæla. Hestamenn mótmæla of háum fasteignargjöldum á hesthús og hyggjast jafnvel efna til hópreiðar um stofnbrautir Reykjavíkur og hefta þannig umferð. Vel gæti ég trúað að til slíkra mótmæla yrði efnt.

Fyrir 25 árum vildu samtökin Frjálsir vegfarendur efna til svipaðra mótmæla gangandi og hjólandi vegfarenda og virtist nokkur hugur í mönnum. Voru menn sammála að aðstaða gangandi fólks væri slæm í Reykjavík og verst fyrir þá, sem ferðuðust um í hjólastól. Var því ákveðið að leita eftir þátttöku Sjálfsbjargar, landsambands fatlaðra, í aðgerðinni. En Sjálfsbjörg þorði ekki. Blindrafélagið var reiðubúið, en það þótti ekki nægilega fjölmennt.

Nú þurfa samtök aldraðra að sýna kjark og efna til rækilegra mótmæla vegna skertra kjara. Friðsöm mótmæli er hægt að hafa í frammi þannig að athygli veki. Hér á þessum síðum verður ekki lagt á ráðin um það, hvernig staðið skuli að slíkum mótmælum, en hugmyndinni er eigi að síður komið á framfæri.


Fræðsluyfirvöld féllu á prófinu

 

Fræðsluyfirvöld á Akureyri féllu á prófinu. Þau hafa lagt stein í götu kennara fyrir það eitt að hann tjáir sig í ræðu og riti utan skólans.

Þessi leið skólayfirvalda er vís til að kynda undir trúarfordómum í samfélaginu. Hver sem skoðun fólks er á skrifum Snorra Óskarssonar, á hann sinn rétt eins og aðrir í samfélaginu.

Sjá m.a bloggfærsluna Snorrafárið.

 


mbl.is „Ofbeldi og valdníðsla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurtollar á tækjum til hljóðritunar

Í dag sendi ég fjármálaráðherra og formanni efnahags- og viðskiptanefndar eftirfarandi bréf. Um árabil hafa þeir, sem stunda hljóðritanir sér til ánægju eða hafa þær að atvinnu, mátt sæta ofurtollum af hljóðritunartækjum.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni tollstjórans í Reykjavík, Bjarna Sverrissyni, bera slík tæki 25,5% virðisaukaskatt, 7,5% toll, 25% vörugjald auk 2,5% stefgjalds (sjá hér að neðan). Eina leiðin, til þess að fá felld niður vörugjöld og tolla, er að sá, sem kaupir hljóðritunartæki, hafi iðnaðarleyfi, þar sem starfsemin er ítarlega skilgreind.

Til samanburðar má geta þess að stafrænar ljósmyndavélar bera einungis virðisaukaskatt. Öll tæki, sem eru sérstaklega gerð til afspilunar og hljóðritunar, sæta þessum ofurtollum. Þar á meðal má nefna sérhönnuð afspilunartæki fyrir svokallaðar Daisy-hljóðbækur, en þær nýtast einkum blindu, sjónskertu og lesblindu fólki. Gera þessir ofurtollar flestum ókleift að eignast tækin vegna þess hve verðið er hátt. Þessi ofurgjöld skerða um leið getu Þekkingarmiðstöðvar blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga að úthluta slíkum tækjum. Jafnvel lítil minnistæki sæta þessum tollum.

Vaxandi hópur hér á landi hefur ánægju af hljóðritunum. Það skýtur því skökku við að hljóðritar skuli sérstaklega skattlagðir á meðan tölvur, sem einnig er hægt að nýta til hljóðritunar, eru undanþegnar slíkum gjöldum.

Undirritaður fær ekki skilið hvað veldur því að gert er með þessum hætti upp á milli þeirra, sem njóta hljóðs og þeirra sem hafa unun af ljósmyndum.

Hér er um alvarlega mismunun að ræða, sem á sér vart stoð í lögum, heldur sýnist sem um sé að ræða reglugerðarákvæði.

Ég leyfi mér hér með að leggja til að vörugjald og tollur af tækjum til hljóðritunar verði felld niður og sæti þau sömu gjöldum og ljósmyndavélar og tölvur. Svo virðist sem stafrænar upptökuvélar, sem eru með innbyggðan hljóðrita, sæti ekki slíkum ofurtollum.

Hér er um brýnt mannréttindamál að ræða. Ríkissjóður verður af litlum tekjum, en einhverjir einstaklingar gætu átt auðveldara um vik að hasla sér völl á sviði hljóðritunar.

Lausleg könnun hefur leitt í ljós að slíkir ofurtollar séu með öllu óþekktir í löndum Evrópu og Norður-Ameríku.

Þetta verk er verðugt verkefni handa nýjum fjármálaráðherra, sem hægt er að afgreiða með skömmum fyrirvara.

Með vinsemd og virðingu,

Arnþór Helgason,

fyrrum formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands

s


Íslenskir bókstafir bannaðir í skipanöfnum!

Ólyginn sagði tíðindamanni þessarar síðu nú í kvöld, að eiganda Aðalbjarganna, sem gerðar eru út frá Reykjavík, hafi fyrir skömmu borist bréf frá Siglingastofnun þar sem þess var óskað að nöfnum skipanna yrrði breytt, enda séu hvorki Ð né Ö alþjóðlegir stafir. Það fylgdi sögunni að eigandinn hafi brugðist ókvæða við og spurt hvort hið sama ætti við um rússnesk skip. Fátt varð um svör, eftir því sem sagt var.


Ísland er landið mitt

Ég hef nýlokið við að lesa einhverja áhrifamestu frásögn sem rekið hefur á fjörur mínar um langt skeið. Ég heyrði af bók þessari í fjölmiðlum og hlýddi á einn viðmælandann flytja ræðu sem snart hjörtu þeirra sem á hlýddu.

Bókin Ríkisfang: ekkert, sem Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur skrifað og byggð er á viðtölum við konur af palestínsku þjóðerni, sem settust að á Akranesi árið 2009, lýkur upp fyrir lesendum glöggri mynd af þeim hryllingi, sem íbúar Íraks urðu að þola, eftir að Bandaríkjamenn réðust inn i landið í mars 2003 í leit að gereyðingarvopnum, sem aldrei fundust. Konurnar greina frá miskunnarleysinu, ofbeldinu og grimmdinni, sem losnaði úr læðingi þegar innviðir samfélagsins brustu. Jafnframt er brugðið ljósi á stöðu palestínskra flóttamanna, sem margir eru án ríkisfangs. Áhrifarík er frásögn Sigríðar af því þegar hún leitaði uppi eydd þorp, sem Ísraelsmenn (gyðingar, Síonistar) eyðilögðu og lögðu undir sig við stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þá þegar virtu þeir enga samninga og hafa haldið því áfram undir öruggri vernd Bandaríkjamanna.

Framan af var fréttaflutningur frá Palestínu mjög litaður af hagsmunum Gyðinga og verndara þeirra, Bandaríkjamanna og Breta, en smám saman snerust vopnin í höndum þeirra. Til þess þurfti að vísu hermdarverk, sem öfluðu Palestínumönnum hatursmanna á meðal Gyðinga og Vesturlandabúa. en þessi hryðjuverk voru þó smámunir einir hjá því sem íbúar Palestínu þurftu að þola af hálfu innrásarafla, sem studd voru af Vesturveldunum.

Íslendingar hafa ekki staðið saklausir hjá í þessum hildarleik. Þeir studdu stofnun Ísraelsríkis og tveir valinkunnir Íslendingar settu þjóðina á lista yfir hinar staðföstu þjóðir, sem studdu innrásina í Írak. En gert er gert og sumt er hægt að bæta, annað ekki. Sú ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að veita palestínsku flóttafólki móttöku og landvist, er einungis örlítill plástur á það holundarsár, sem Vesturveldin hafa í raun veitt Palestínumönnum.

Í bókinni lýsa konurnar sambúð ólíkra trúarhópa, sem sundraðist við innrásina í Írak. Þær lýsa einnig afstöðu sinni til annarra trúarhópa en þeirra, sem játa islam, en múslimar hafa jafnan þótt umburðarlyndir þrátt fyrir öfgahópa sem þrífast innan trúarbragðanna eins og á meðal kristinna manna. Bókin birtir mynd af harðduglegum og þrautseigum mæðrum, sem sigrast hafa á erfiðleikum, sem hefðu bugað flesta þá, sem orðið hefðu að þola annað eins og þær hafa reynt. Það fer vart hjá því að lesandinn fái öðru hverju kökk í hálsinn og tárist, þegar lesnar eru látlausar og einlægar frásagnir kvennanna af sorgum þeirra og gleði.

Á meðan ég las bókina samþykkti Alþingi að viðurkenna ríki Palestínumanna. Þótt ef til vill sé nokkuð í land að eiginlegt ríki þeirra verði að veruleika, er þó samþykkt alþingis mikilvægt skref í þá átt að Palestínumenn nái rétti sínum. Vonandi verða hin illu öfl, sem ráða mestu innan Ísraelsríkis, brotin á bak aftur.

Sigríði Víðis Jónsdóttur og viðmælendum hennar eru fluttar einlægar þakkir og árnað heilla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband