Færsluflokkur: Mannréttindi

Rangur starfsvettvangur

 

Í Pressunni í dag er greint frá því að vagnstjóri nokkur hjá Strætó hafi lagt fram kæru á hendur yfirmönnum fyrirtækisins vegna þeirrar ákvörðunar að setja staðsetningarbúnað í vagnana.

Í sömu frétt segir að strætisvagnabílstjórar hati kvenmannsröddina sem lesi nöfn biðstöðva.

http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Innlent/vagnstjorar-hata-kvenmannsroddina-talar-hatt-med-ding-dong-hljom---kippa-henni-ur-sambandi

Nokkuð bar á því að sögn starfsmanna Strætó, sem ég ræddi við, að bílstjórar hefðu aftengt raddbúnaðinn og vegna kvartana frá notendum raddbúnaðarins, voru lyklar að tækjaskápum vagnanna teknir af bílstjórunum.

Kvörtun þessa vagnstjóra opinberar þá dapurlegu staðreynd að jafnan eru þeir menn til, sem vilja leggja stein í götu þeirra sem reyna þrátt fyrir fötlun eða aldur, að lifa eðlilegu lífi. Slíkir menn ættu að taka eitthvað annað að sér en þjónustustörf eins og akstur strætisvagna.

Sú ákvörðun að setja leiðsagnakerfi í strætisvagna höfuðborgarsvæðisins, ber vitni um jákvætt hugarfar núverandi stjórnenda, sem vilja umfram allt auka þjónustu við farþegana. Þessi búnaður gerir nokkrum hópi fólks kleift að notfæra sér vagnana, en án hans gætu menn það ekki. Leiðsögubúnaðurinn rýfur einangrun hópsins oog eykur sjálfstæði hans. Ég dreg stórlega í efa að röddin í leiðsögubúnaðinum trufli jafnmikið og viðtækin, sem sumir bílstjórar hafa í gangi og varpa yfir farþega svo háværri tónlist að orðaskil í leiðsögutækjunum verða ekki greind.


Aldrað fólk fórni sér

Einatt hefur verið vitnað í aldraðan fjárfesti á þessum síðum, þegar eitthvað hefur verið á döfinni, sem skiptir máli í fjármálaheimi Íslendinga. Hefur honum einatt ratast satt orð á munn, enda maðurinn spámannlega vaxinn og margreyndur í lífsins ólgusjó.

Í dag háðum við kappræður um niðurskurðinn sem framinn er á Landspítalanum. Vorum við sammála um að viturlegt væri að leggja Sogn niður, enda húsnæðið niðurnítt og mun betri aðstaða á Kleppi, þótt hann sé í Reykjavík. Þykir okkur málflutningur þingmanna sunnlendinga með ólíkindum í því máli og minnum á að Sunnlendingar geta engu síður sótt vinnu suður en Reykvíkingar austur.

Ritstjóri síðunnar taldi að nú væri svo komið að ríkið yrði að skera við nögl framlög til svokallaðra einkarekinna háskóla í stað þess að taka sífellt af þeim, sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, sjúklingum og öldruðu fólki. Fjárfestirinn fullyrti þá að fara mætti sérkennilega leið til þess að forða líknardeildinni á Landakoti frá því að verða lögð niður. Setti hann upp eftirfarandi dæmi:

,,Maður nokkur, sem er rúmlega áttræður, er farinn að heilsu og þykir erfitt að þreyja þorrann. Nafn hans verður ekki nefnt hér, en hann er upphafsmaður tillögunnar. Lyfin, sem hann notar til þess að halda í sér líftórunni, kosta hið opinbera 6 milljónir á ári. Ef leitað yrði til 8-9 slíkra einstaklinga og þeim gefinn kostur á að fórna sér fyrir málstaðinn, er hann þess fullviss, að flestir brygðust vel við."

Að lokum kvaðst hinn aldraði fjárfestir veita samþykki sitt fyrir því að tillaga sjúklingsins yrði birt á þessum síðum.


Brjálaði maðurinn með blindrastafinn

Föstudaginn 16. þessa mánaðar verður haldi ráðstefnan Hjómum til framtíðar. Verður þar rætt hvernig megi auka hljólreiðar í Reykjavík. Ekki veitir af, því að aðstaða gangandi og hjólandi vegfarenda hefur farið versnandi að undanförnu nema þar, sem lagbðir hafa verið sérstakir hjólreiðastígar.

 

Árangursrík endurhæfing

 

Árið 1978 var ég svo heppinn að komast í endurhæfingu í borginni Torquay í Devonskíri á Bretlandi. Lærði ég þar m.a fyrir tilstilli Elínborgar Lárusdóttur, blindraráðgjafa. að komast leiðar minnar með því að nota hvíta stafinn, eitt helsta hjálpartæki blindra. Þegar ég kom heim hófst ég handa við að læra ýmsar leiðir og reyndist móðir mín, Guðrún Stefánsdóttir, mér einstaklega velí þeirri viðleitni. Einnig reyndist Emil Bóasson ásamt öðrum mér mikil hjálparhella.

 

Á næstu árum fór ég víða um borgina á eigin spýtur og lenti í margvíslegum ævintýrum. Naut ég þess að ögra sjálfum mér og umhverfinu og takast á við þann vanda sem fylgir því að fara gangandi um borgina á eigin spýtur og án annarrar aðstoðar en þeirrar, sem reyndist nauðsynleg.

 

Versnandi aðstaða

 

Um nokkurra ára skeið dró úr gönguferðum mínum, enda voru þá annir miklar og aðstæður breyttar. Eftir a ég missti fasta atvinnu í ársbyrjun 2006 hófust gönguferðirnar á ný. Þá komst ég að því að aðgengi blindra og sjónskertra að Reykjavíkurborg hefur stórversnað og samtök fatlaðra virðast hafa sofnað á verðinum nema þeirra, sem ferðast um í hjólastól. Þeir hafa vakað á ferðunum og stundum troðið á rétti annarra. Verða hér rakin nokkur dæmi um hættur, sem hafa verið búnar til í umferðinni.

 

1.    Svokallaðar zebrabrautir eru nær horfnar úr borginni. Gangandi og hjólandi vegfarendum er nú iðulega beint yfir götur á gangbrautum sem eru á gatnamótum. Því fylgir einatt stórhætta og sums staðar eiga gangandi vegfarendur þar engan rétt.

2.    Gatnamót eru nú með meiri sveigju en áður og er oft erfitt sjónskertu eða blindu fólki að taka rétta stefnu yfir gangbrautir.

3.    Sums staðar á gatnamótum eru svo kölluð beygjuljós. Þegar umferð hefur stöðvast á aðalbraut virðist þeim, sem ætla að beygja inn í hliðargötur, gefið veiðileyfi á gangandi vegfarendur í dálitla stund. Skapar þetta stórhættu og er í raun banatilræði við þá sem eru sjónskertir eða blindir.

4.    Víða hefur gangbrautum verið breytt þannig, þar sem götur eru í breiðara lagi, að gangandi eða hjólandi vegfarendur geta ekki farið beint af augum yfir göturnar. Sveigja verður til hliðar á umferðareyjunni til þess að komast leiðar sinnar. Er þetta erfitt hjólandi vegfarendum )t.d. þeim sem eru á tveggja manna hjóli) og gerir blindu fólki nær útilokað að fara yfir á réttum stöðum. Þessar brautir eru í raun sem ófær stórfljót.

5.    Víða í borginni finnst ekki lengur neinn munur á götum og gangstéttum og lenda því blindir vegfarendur iðulega úti á götu án þess að átta sig á því. Laugavegurinn er glöggt dæmi um slíkt.

6.    Borgaryfirvöld hafa markað örstutt svæði nærri umferðarljósum og víðar með rauðum steinum. Áferð þeirra er svo svipuð nánasta umhverfi að blindur maður með hvítan staf tekur ekki eftir neinu.

7.    Í þeim mannvirkjum, sem tekin hafa verið í notkun að undanförnu, er ekkert tillit tekið til blindra eða sjónskertra. Arkitektar virðast enga hugmynd hafa um merkingar, heppilega litasamsetningu, leiðarlínur o.s.frv. Háskólatorgið, Háskólinn í Reykjavík og Höfðatorg eru glöggt dæmi um slíkt. Þá er Ingólfstorg beinlínis stórhættuleg slysagildra.

8.    Engar merkingar eru í námunda við biðstaði strætisvagna sem auðvelda blindu fólki að finna þær.

9.    Víða eru margs konar stólpar og hindranir sem valda fólki meiðslum og margs kyns óþægindum.

10.  Ekkert, bókstaflega ekkert, var gert til þess að auðvelda blindu eða sjónskertu fólki umferð um Hlemm og aðrar samgöngumiðstöðvar. Þegar breytingar voru hannaðar var látið sem þessi hópur væri ekki til.

 

Þótt félagsþjónusta í Reykjavík sé e.t.v. skárri en víðast hvar verður því ekki neitað að borgin er þannig skipulögð að unnið er markvisst að einangrun þessa hóps. Tökum sem dæmi hús Blindrafélagsins við Hamrahlíð 17. Þangað er að vísu hægt að komast með einum strætisvagni. Sá, sem hyggst fara gangandi þaðan á eigin spýtur í norður, er hins vegar ofurseldur Miklubrautinni vegna breytinga, sem gerðar voru á gönguleiðinn á mótum Miklubrautar og Stakkahlíðar. Nú er ekki lengur hægt að fara beint yfir Miklubrautina heldur verður að sveigja til hliðar til þess að halda áfram. Þannig var blint fólk útilokað frá því að nýta þessa gönguleið og þjónustumiðstöð blindra um leið einangruð.

 

Ástandið er litlu skárra í sumum nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar. Nú er nauðsynlegt að menn taki saman höndum og vinni markvisst að breytingum á þessu sviði og búi til borg og kaupstaði, sem ætluð sé öllum en ekki sumum. Myndum nú þrýstihópa þeirra sem eiga undir högg að sækja í umferðinni. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.

  

Góður drengur kvaddur

Í dag verður borinn til grafar Arnór Pétursson, margreyndur og ötull baráttumaður um málefni fatlaðra. Örlögin haga því svo að ég kemst ekki að jarðarför hans og tími vannst ekki til að senda inn minningargrein um hann. Því verða nokkur minningarorð birt á þessum stað.

Þegar hvörf verða í lífi manna bregðast þeir við með ýmsum hætti. Sumir breyta um stefnu, aðrir leggja árar í bát og til eru þeir sem halda óbreyttri stefnu. Sú leið endar einatt með skipbroti. Arnór vissi sem sjómaður að hvort tveggja þurfti að gera - breyta um stefnu og halda á önnur mið.

Arnór einhenti sér í baráttu fatlaðra undir eins að endurhæfingu lokinni. Hann var einn þeirra sem stofnuðu Íþróttasamband fatlaðra og formaður Sjálfsbjargar, landsambands fatlaðra, var hann um skeið. Hann sat í aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands um árabil og var þar ötull liðsmaður.

Arnór kom víðar við ef málefni fatlaðra voru á dagskrá. Þegar reynt var að koma þessum málefnum á framfæri á vettvangi stjórnmálaflokka eða annarra samtaka var hann ódeigur liðsmaður. Sem starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins reyndist hann fjölmörgu fólki vel og var óspar á góð ráð. Hann hvatti fólk iðulega til þess að leita réttar síns og aðstoðaði það í hvívetna.

Með Arnóri Péturssyni er genginn góður drengur á vit hins ókunna. Við, sem eftir sitjum á þessari jarðarkringlu, söknum góðs vinar og þökkum allt hans óeigingjarna starf í þágu þess málstaðar sem við helguðum okkur. Fjölskyldu Arnórs sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Arnþór Helgason


Ákall um þjóðarátak gegn fátækt og örbirgð

Öryrkjabandalag Íslands átti sér traustan bandamann á meðan Styrmir gunnarsson var ritstjóri Morgunblaðsins. Í sunnudagsmogganum, sem fylgdi blaðinu 30. apríl sl., birtist grein hans, Þjóðarátak gegn fátækt og örbirgð.

http://mbl.is/mm/greinilegur/mogginn/bladid/?type=2;flokkur=32

 

 

„Það ríkir alvarleg neyð í ákveðnum þjóðfélagshópum á Íslandi. Sú neyð er ekki efst á baugi í þjóðfélagsumræðum. Hún sést ekki í þeim meðaltölum sem notuð eru til þess að fjalla um lífskjarastig í samfélaginu. En þrátt fyrir allt erum við enn svo fá, að það fréttist manna á meðal hvað er að gerast í lífi einstaklinga og fjölskyldna. Sennilega er þessi neyð mest meðal öryrkja, atvinnulausra, einstæðra mæðra og þeirra sem eru á lægstu launum.

Neyðin birtist í því, að jafnvel fólk sem er í fullri vinnu en á lægstu launum á ekki fyrir mat út mánuðinn, þegar skattar og skyldur hafa verið inntar af hendi og húsnæðiskostnaður greiddur. Hvað á að segja við fólk sem er í fullri vinnu en á sannanlega ekki fyrir mat?

Neyðin birtist í því, að börn mæta ekki í skóla vegna ástandsins heima fyrir.

Neyðin birtist í því að dæmi er um sjálfsvíg vegna þess að fjölskyldufaðir, sem hafði verið atvinnulaus lengi, sá ekki út úr daglegum vandamálum.

Þetta eru ekki innantóm orð. Þetta eru raunveruleg dæmi úr daglegu lífi fólks á Íslandi á þessu ári.

Í Morgunblaðinu sl. miðvikudag sagði Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar:

„Það er mikil neyð hjá mörgum lágtekjuhópum, ekki aðeins öryrkjum.“

Sl. þriðjudag sagði Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, m.a. í viðtali við Morgunblaðið:

„Ástandið er skelfilegt. Það er hneyksli að þessi ríkisstjórn skuli kenna sig við velferð. Það er mjög algengt að hingað komi fólk sem sér ekki fram á að peningarnir endist út mánuðinn. Ástandið hefur farið hraðversnandi síðan hrunið varð. Þetta er langsamlega alvarlegasta staða sem ég hef séð síðan ég fór að láta mig þessi mál varða á miðjum áttunda áratugnum.“

Og Guðmundur Magnússon bætti við:

„Fólk leitar eftir ókeypis mat hjá vinum og kunningjum til að draga fram lífið. Sumir eiga þess ekki kost. Það eru heldur ekki allir sem treysta sér í matarraðir. Ég mundi því ætla að hundruð Íslendinga svelti á árinu 2011.“

Það þarf ekki lengi að svipast um í samfélagi okkar til þess að átta sig á að þetta eru ekki orðin ein. Þetta er hinn harði veruleiki og hann er óþolandi.

Þetta mál snýst ekki um pólitík eða dægurþras. Það er yfir slíkt hafið. En úrlausn þess kallar á samstöðu allra þjóðfélagsafla, stjórnar og stjórnarandstæðinga, verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda og annarra félagsmálaafla. Sú úrlausn þolir enga bið.

Fólkið sem vinnur daglega við að leysa úr vanda þeirra sem lifa við örbirgð þekkir þetta bezt. Ekki bara meðaltölin heldur þau einstöku dæmi sem opna augu manna fyrir því sem er að gerast í samfélagi okkar.  Hið æskilega er, að Guðbjartur Hannessson, velferðarráðherra, gefi Alþingi strax eftir helgi skýrslu um fátækt á Íslandi og byggi hana á raunverulegum og áþreifanlegum dæmum en ekki tölfræði og meðaltölum. Og að stjórnmálaflokkarnir allir tilnefni fulltrúa af sinni hálfu sem taki þátt í að skipuleggja þjóðarátak gegn fátækt á Íslandi, gegn örbirgð og sjálfsvígum og gegn því hneyksli að börn geti ekki mætt í skóla sökum fátæktar.

Þeir sem hér eiga hlut að máli eiga sér í raun og veru ekki aðra málsvara en Öryrkjabandalagið, sem vinnur merkilegt starf og Guðmundur Magnússon er áhrifamikill talsmaður þess og málstaðar lítilmagnans í samfélagi okkar. Önnur félagasamtök og hagsmunasamtök eru með hugann við önnur verkefni og önnur baráttumál. Það vill gjarnan verða svo, að þeir sem minnst mega sín eiga sér fæsta málsvara og til þeirra heyrist minnst.

Íslendingar nútímans þekkja fátt annað en allsnægtir. Það voru afar og ömmur þeirra, sem fæddust um það bil, þegar Ísland var að verða lýðveldi, sem þekktu til raunverulegrar fátæktar og hvað það var að eiga ekki mat. Barnabörn þeirra þekkja þá veröld einungis af frásögnum þeirra sem fæddir voru á síðari hluta 19. aldar. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því, að fólk á svo erfitt með að trúa því, að það sem hér er um fjallað sé raunveruleiki. En það er því miður raunveruleiki að of margir Íslendingar eiga ekki fyrir mat og afleiðingar fátæktarinnar koma fram með ýmsum hætti og alveg sérstaklega koma þær niður á börnum. Börnum sem munu aldrei gleyma þeirri lífreynzlu svo lengi sem þau lifa og mun fylgja þeim alla tíð.

Viljum við svona þjóðfélag? Auðvitað ekki.

Getum við verið þekkt fyrir að láta þetta gerast fyrir augunum á okkur? Auðvitað ekki.

Okkur hafa verið mislagðar hendur um marga hluti frá hruni. Samfélagið er sundrað og klofið ofan í kjöl.

Daglegt pólitískt stríð dregur að sér alla athygli fjölmiðla. Ég kann að vísu ekki á Facebook en hef ekki orðið var við að þessi samfélagsvandamál hafi verið til mikillar umræðu þar.

Getum við náð saman um að leysa neyð þessa fólks? Getur örbirgð þess orðið til þess að þjappa þjóðinni saman þó ekki væri um annað en það að útiloka að fólk svelti meira en hundrað árum eftir að afar okkar og ömmur, langafar og langömmur kynntust því hvað það er að eiga ekki mat?

Það segir töluverða sögu um þetta samfélag hvort okkur tekst það.

Ef okkur tekst það ekki verðum við að horfast í augu við að við erum ófær um að takast á við það sem máli skiptir.

Allar hörpur samtímans veita okkur litla ánægju ef við getum ekki leyst þennan aðkallandi vanda meðbræðraokkar.

Við skulum ekki láta það verða eftirmæli okkar kynslóða að við látum þetta gerast og gerum ekki neitt.“


Hverjum hlífir Hæstiréttur?

 

Ritaðu tölurnar að neðan í boxið og smelltu á hnappinn til að birta heimasíðu Hæstaréttar. Það má komast hjá þessu innskráningarskrefi með því að leyfa "cookies" í vafranum þínum.

 

Þessi tilkynning er enn á heimasíðu Hæstaréttar Íslands. Blindum og sjónskertum tölvunotendum ásamt ýmsum öðrum er þannig meinaður aðgangur að síðunni. Ástæðan er leyndarhyggja Hæstaréttar.

 

Nú verður hafist handa við að vinna í þessu máli. Lesendur bloggsins fá að fylgjast með því sem gerist. Menn geta enn gert athugasemdir við næstu færslu á undan og er fólk eindregið hvatt til þess.

Þá er skorað á þingmenn að taka upp utan dagskrár á Alþingi umræðu um aðgengi blindra, sjónskertra og lesblindra að upplýsingum hér á landi. Hingað til virðast fáir þingmenn hafa sýnt málefnum þessara hópa áhuga. Nú verður það að breytast.

 

 


Aðstoðar óskað

Ég hef hugsað talsvert um aðgengi að heimasíðu Hæstaréttar Íslands að undanförnu og lokaði bloggsíðunni meðan legið var undir feldi. Svo virðist sem síðan sé að flestu leyti óaðgengileg þeim sem nota skjálestrarbúnað. Þó virðist sem einhverjir, sem komust inn á síðu réttarins á meðan hún var aðgengileg mánudaginn 7. þessa mánaðar, komist ennþá inn án þess að þurfa að rita tölur í reiti neðst á síðunni.

Eftir að hafa rætt við allnokra einstaklinga í teimur heimsálfum og beðið þá að prófa aðgengi að síðunni, virðist sem fátt hafi breyst. Því vil ég biðja lesendur þessarar síðu að fara inn á síðuna http://haestirettur.is og athuga hvort þeir geti leitað i dómasafninu og farið inn á aðrar krækjur án þess að slá inn umbeðnar tölur.

Menn skrifi svo athugasemdir við þessa bloggfærslu og fer framhald málsins eftir því hverjar niðurstöðurnar verða.


Sjálfur Hæsti réttur Íslands hamlar aðgengi blindra og sjónskertra að heimasíðu sinni

Í umfjöllun sinni um dóm Hæsta réttar vegna stjórnlagaþingkosninganna hefur að engu verið fjallað um þá annmarka sem voru á framkvæmd kosninganna og bitnuðu á blindu og sjónskertu fólki.

Ég hugðist því leita að gögnum á heimasíðu réttarins í gær um þessi mál og komst þá að því að síðan er glóruleysingjum ekki aðgengileg. Ég hef að vísu vakið athygli réttarins á þessu áður en sendi meðfylgjandi bréf:

„Heiðraði móttakandi.

Ég hef orðið var við þann annmarka á heimasíðu réttarins að hún er ekki aðgengileg. Notendur eru beðnir að skrá tölur sem birtast á skjánum. Þeir sem eru blindir eða sjónskertir og nota skjálesara eiga óhægt um vik.

Ég vænti þess að Hæstiréttur leggi áherslu á að gera aðgengi að gögnum réttarins sem best úr garði. Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að bæta úr þessum annmarka? Sé svo, hvenær má þá vænta úrbóta?

Virðingaryllst,

Arnþór Helgason, fv. formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands“

Í dag barst svar skrifstofustjóra réttarins:

„Góðan daginn. Á heimasíðu Hæstaréttar eru birtir allir dómar réttarins frá 1. janúar 1999 og meginreglan er sú að þeir séu birtir með nöfnum aðila og jafnvel vitna. Margir aðilar gerðu athugasemdir við að leitarvélar t.d. google, fyndu nöfn þeirra í dómum réttarins, stundum allgömlum og töldu viðkomandi að með því væri vegið gegn persónuvernd sinni. Tæknimenn Hæstaréttar reyndu nokkrar leiðir til að takmarka leit leitarvéla á heimsíðunni, en aðrar en sú sem valin var og þú kvartar yfir reyndust ekki skila fullnægjandi árangri. Af þessari ástæðu eru ekki uppi áform um að breyta gildandi fyrirkomulagi varðandi aðgengi að heimasíðu Hæstaréttar.

Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri.“

Nú sídegis var eftirfarandi svar sent:

„Góðan dag, Þorsteinn.

Það er hægt að ná svipuðum árangri með því að nota spurningar eins og birtast t.d. á Morgunblaðsblogginu þegar athugasemdir eru gerðar. Þá er t.d. spurt:

Hver er summan af 5 og 9

Myndir af tölum, sem ekki er hægt að skynja með skjálesurum, fela í sér ákveðna mismunun, sem er ekki Hæsta rétti samboðin. Hægt er að setja sérstakan búnað á síður sem les upp tölurnar fyrir þá sem þurfa þess með. Einnig væri hægt að nota svipaðar aðferðir og bankarnir, þegar menn fá sendar tölur í farsíma og geta lyklað þær inn.

Ég vænti þess að Hæsti réttur taki þessi mál til úrlausnar.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason

Arnþór Helgason,

Tjarnarbóli 14,

170 Seltjarnarnesi.

Símar: 5611703, 8973766

Netfang: arnthor.helgason@simnet.is“

Ég hef hugsað mér að fylgja þessu máli eftir. Æskilegt væri að heildarsamtök fatlaðra tækju málið upp á sína arma.

Nú kemur okkur í koll að ekki skyldu sett lög um aðgengi að upplýsingum og er raunalegt til þess að vita að engin alþingismaður, jafnvel ekki þeir, sem hagsmuna eiga að gæta, skuli hafa haft forgöngu um jafnsjálfsögð mannréttindi og aðgengi að upplýsingum.


Ráða verður bót á mannréttindabrotum

Í haust var vakin athygli á því á þessum síðum að lög um stjórnlagaþing brytu gegn réttindum blindra og sjónskertra kjósenda. Vafalaust hefði verið hægt að sníða af ýmsa agnúa hefði verið tekið mark á ábendingum sem látnar voru í té í aðdraganda málsins.

Hvað sem gert verður, þarf að tryggja að menn geti neytt atkvæðisréttar síns í einrúmi og kjörgögn þurfa að vera þannig úr garði gerð að fólk geti greitt atkvæði óháð öðrum en sjálfum sér.

Væri ekki ráð að skipa sérstaka sveit valinkunnra karla og kvenna til þess að fara yfir leiðir sem færar eru vegna kosninganna? Ef til vill væri rétt að vekja athygli á tillögu, sem ritstjóra þessara síðna barst í haust, þar sem lagt var til að slembiúrtak yrði látið ráða hverjir byðu sig fram.

Eitt er víst. Samtök fatlaðra verða að standa vörð um hagsmuni síns fólks í framhaldi þessa máls. Stjórnvöld og embættismenn gera það trauðla.


mbl.is Kemur ekki til greina að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myntbreytingin 1980 - þegar seðlarnir skyldu verða jafnlangir

Um þessar mundir eru 30 ár síðan skorin voru 2 núll aftan af krónunni. Væntu menn þess að verðskyn yrði meira en áður og það hjálpaði ríkisstjórninni í baráttunni við verðbólguna. En eins og Jóhannes Nordal benti á í ársbyrjun 1986 var myntbreytingin engin efnahagsaðgerð, enda hafði þá verðlag hækkað tífalt frá því sem það var í ársbyrjun 1981.

Seðlabankinn hófst handa við myntbreytinguna með góðum fyrirvara. Blindrafélagið var þá lítið félag sem hafði verið lítt áberandi í íslensku þjóðlífi. Nýir tímar voru þó að renna upp og ný kynslóð að taka við sem hafði uppi aðrar baráttuaðferðir en fyrrennararnir, enda var aðstaða einstaklinga af þeirri kynslóð öll önnur.

Blindrafélagið hafði byrjað að gefa út fréttabréf árið 1974 og var útgáfunni haldið áfram um nokkurt skeið. Stýrðum við Elínborg Lárusdóttir, blindraráðgjafi, fyrstu bréfunum. Rötuðu þau inn á ritstjórnir fjölmiðla sem tóku iðulega ýmislegt upp úr þeim.

Það mun hafa verið árið 1977, ef ég man rétt, að fjölmiðlar fjölluðu um myntbreytinguna og að ákveðið hefði verið að hanna nýja seðla. Skyldu þeir vera allir jafnlangir og breiðir, en áður fyrr höfðu seðlarnir verið mislangir eftir verðgildi þeirra. Sá þá blint og sjónskert fólk sína sæng útbreidda og þótti vegið að hagsmunum sínum. Ég ritaði um þetta í Fréttabréf Blindrafélagsins og orðaði víst svo að Seðlabankinn hefði hreykt sér af því að þessi aðgerð myndi auðvelda talningarmönnum bankans störf sín.

Svo fór að flestir fjölmiðlar landsins tóku þessa frétt upp og var talsvert saumað að forystumönnum Seðlabankans. Einna helst varð fyrir svörum Stefán Þórarinsson, aðalféhirðir bankans. Hringdi hann til mín og kvartaði undan orðfærinu í greininni. Svaraði ég því til að stundum þyrfti að hella yfir fólk úr fullri fötu af ísködu vatni til þess að það skyildi um hvað málið snerist. "Það er svo sannarlega rétt hjá þér, Arnþór," svaraði hann og fór svo að samtalinu lauk með því að Stefán sagðist mundi athuga málið.

Ýmsir fleiri komu að þessu máli, þar á meðal Halldór Rafnar, lögfræðingur, en þeir Jóhannes Nordal voru skólafélagar og vinir. Lauk málinu með því að ákvörðunin um seðlana var tekin aftur og urðu þeir mislangir eftir verðgildi eins og verið hafði.

Fróðlegt er að rifja upp rök þeirra seðlabankamanna fyrir því að seðlarnir yrðu gerðir jafnlangir. Þau voru m.a. þau að til væru sérstakar seðlatalningavélar sem ynnu eingöngu með þessa tegund seðla. Önnur rökin voru þau að talningarmönnum yrði gert léttara um vik. Þriðju rökin voru þau að Norðurlandaþjóðirnar auk Breta og Þjóðverja værunú þegar með jafnlanga seðla eða til stæði að taka þá upp.

Það vó þungt þegar starfsmanni Seðlabankans var bent á að Bretar og Norðurlandaþjóðirnar hefðu notað misjafnar stærðir seðla og virtist það ekki torvelda bönkunum starfsemi sína, en meginspurningin var sú hvort taka skyldi tillit til örfárra talningarmanna í stað þess að hugsa um hagsmuni fjölda fólks sem ætti í vandræðum með seðlana.

Um það leyti sem nýja krónan tók gildi hittumst við Stefán Þórarinsson og sagðist hann þá ekki botna í því hvernig nokkrum manni hefði dottið í hug að allir seðlar hérlendis skyldu jafnstórir án tillits til verðgildis. Þótt sigur hefði unnist í þessu máli var hann vart nema hálfur. Lengdarmunur seðlanna var einungis og er hálfur sentimetri, en Seðlabankinn brást við því með sérstökum seðlamátum sem afhent voru blindu og sjónskertu fólki. Ég hef að vísu ekki séð slík mát langalengi og síðast þegar ég rpurði um þau voru þau ekki til. Þá lét bankinn útbúa sérstaka seðlalesara sem lásu upp verðgildi þeirra. Þó vildi brenna við að lesararnir gætu ekki lesið seðlana væru þeir farnir að lýjast.

Saga þessi sýnir að hægt er að ná niðurstöðu í ýmsum málum ef sanngirni er gætt og skilningur á misjöfnum aðstæðum er fyrir hendi. Forystumenn Seðlabankans gerbreyttu um stefnu gagnvart blindu og sjónskertu fólki og kynntu Blindrafélaginu ýmislegt sem snerti hönnun myntar og seðla. Minnist ég þessa samstarfs með mikilli ánægju.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband