Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Er maðkur í mysu Persónuverndar?

Úrskurður Persónuverndar um að lýtalæknum sé óheimilt að afhenda landlækni gögn um brjóstaaðgerðir kvenna, sætir furðu og ýmsir hafa haft á orð að hér sé um tilræði við heilbrigðiskerfi landsins að ræða.

Þótt ekki sé um það deilt að læknim beri að halda trúnað við sjúklinga sína og viðskiptavini, er undarlegt að steinn sé lagður í götu landlæknisembættisins, sem hindrar jafnvel að upplýst verði hið sanna um gallaða brjostapúða hér á landi og hlut eða ábyrgð einstakra lækna. Viðmælandi minn velti því fyrir sér, hvenær iðnaðarmönnum verði bannað að gefa upp hvað gert hafi verið á heimilum landsmanna svo að ekki verði unnt að rekja hugsanleg mistök til þeirra.

Ástæða er til að kanna, hvaða hvatir liggja að baki hjá Persónuvernd. Hvort er hér á ferðinni umhyggja fyrir sjúklingum eða læknum? Eða er hér um tengsl að ræða, sem flokkast undir sérhagsmunagæslu, sem um þessar mundir ber mest á hjá Alþingi?


Aldrað fólk fórni sér

Einatt hefur verið vitnað í aldraðan fjárfesti á þessum síðum, þegar eitthvað hefur verið á döfinni, sem skiptir máli í fjármálaheimi Íslendinga. Hefur honum einatt ratast satt orð á munn, enda maðurinn spámannlega vaxinn og margreyndur í lífsins ólgusjó.

Í dag háðum við kappræður um niðurskurðinn sem framinn er á Landspítalanum. Vorum við sammála um að viturlegt væri að leggja Sogn niður, enda húsnæðið niðurnítt og mun betri aðstaða á Kleppi, þótt hann sé í Reykjavík. Þykir okkur málflutningur þingmanna sunnlendinga með ólíkindum í því máli og minnum á að Sunnlendingar geta engu síður sótt vinnu suður en Reykvíkingar austur.

Ritstjóri síðunnar taldi að nú væri svo komið að ríkið yrði að skera við nögl framlög til svokallaðra einkarekinna háskóla í stað þess að taka sífellt af þeim, sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, sjúklingum og öldruðu fólki. Fjárfestirinn fullyrti þá að fara mætti sérkennilega leið til þess að forða líknardeildinni á Landakoti frá því að verða lögð niður. Setti hann upp eftirfarandi dæmi:

,,Maður nokkur, sem er rúmlega áttræður, er farinn að heilsu og þykir erfitt að þreyja þorrann. Nafn hans verður ekki nefnt hér, en hann er upphafsmaður tillögunnar. Lyfin, sem hann notar til þess að halda í sér líftórunni, kosta hið opinbera 6 milljónir á ári. Ef leitað yrði til 8-9 slíkra einstaklinga og þeim gefinn kostur á að fórna sér fyrir málstaðinn, er hann þess fullviss, að flestir brygðust vel við."

Að lokum kvaðst hinn aldraði fjárfestir veita samþykki sitt fyrir því að tillaga sjúklingsins yrði birt á þessum síðum.


Hvítlauksís!

Morgunblaðið er merkilegt fyrir margra hluta sakir, einkum Sunnudagsblaðið, enda vann ég þar eitt sinn og skrifaði m.a. grein um mjólkurís. Þær uppskriftir sem ég birti komast ekki í hálfkvist við þær uppskriftir sem ég fann í Sunnudagsmogganum í dag.

p

Ég vona að Sverrir Páll Erlendsson, skáldbróðir á Leir, fyrirgefi mér þótt ég birti hér uppskrift sem hann gaf Skafta Hallgrímssyni og birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Hvítlauksís og mokkaís – góðir saman

Hvítlauksís

Þessa uppskrift fékk Sverrir Páll senda frá aðstandendum hinnar árlegu Gilroy-hvítlaukshátíðar í Kaliforníu.

2 blöð af matarlími

¼ bolli af köldu vatni

2 bollar af mjólk

1 bolli af sykri

örlítið salt

2 msk. af sítrónusafa

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

2 bollar af rjóma

Matarlímið lagt í bleyti í kalt vatn. Mjólkin, sykurinn og saltið hitað að suðu. Matarlímið leyst upp í heitri mjólkinni.

Mjólkurblandan er kæld nokkuð. Þegar hún er ylvolg er hvítlauknum og sítrónusafanum bætt út í.

Þessi blanda er kæld vel, uns hún rétt byrjar að þykkna eða stífna. Þá er þeyttum rjómanum bætt út í, hrært vel og varlega og blandan loks sett í skál eða bökunarform og fryst.

Mokkaís með kaffibættum rjóma og möndluflögum

Ísinn:

125 g suðusúkkulaði

4 egg

4 matskeiðar sterkt kaffi

1¼ bolli rjómi

1 msk. kaffilíkjör

½ bolli sykur

Rjóminn:

¼ til ½ l af rjóma

1-2 msk af rótsterku espressókaffi

Hnefafylli af ristuðum möndluflögum

Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði. Þegar það er bráðið, hrærið eggjarauðunum vandlega út í einni og einni í einu og kaffinu líka.

Stífþeytið rjómann og bætið út í hann kaffilíkjörnum.

Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið sykrinum smátt og smátt saman við þær.

Hrærið fyrst saman blönduna með súkkulaðinu og rjómann. Hrærið síðan eggjahvítublöndunni saman við.

Fryst í bökunarformi.

Borið fram í smáskálum og skreytt með kaffibætta rjómanum og möndluflögunum.


Lati bær á BBC

Í dag verður öðru hverju útvarpað þættinum Global Business á BBC. Þar er einkar skemmtileg samantekt um Lata bæ og Matnús Scheving. Umsjónarmaðurinn, Peter Day, segir frá hinu ótrúlega og magnaða ævintýri sem þættirnir um Lata bæ eru, en þeir hafa farið sigurför um allan heim. Magnús greinir frá því hvernig hann byggði upp fyrirtækið á bak við hugmyndina um Lata bæ.

Það virðist engan bilbug að finna á Magnúsi þrátt fyrir efnahagsástandið. Hann fjallar m.a. um auglýsingar og er afar samkvæmur sjálfum sér þegar hann ræðir um hollustu fyrir börn. Peter Day vinnur þáttin afar vel og hefur greinilega kynnt sér viðfangsefnið í þaula.


Hressandi hjólreiðar

Við hjónin notuðum tækifærið eftir hádegi og drógum björg í bú. Ormurinn blái var leiddur út úr fylgsni sínu. Eftir að við höfðum klæðst viðeigandi skjólfötum var haldið í Krónuna og Bónus.

Aðdrættir taka jafnan dálítinn tíma og þegar haldið var heimleiðis var skollinn á suðvestan stormur. Þótt regnið berði okkur og vindurinn gnauðaði var þetta einkar skemmtileg áreynsla. Furðulegt er hvað fáir halda hjólandi í verslunarferðir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband