Hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju, hrífandi flutningur

Í dag, sunnudaginn 4. júlí 2010, voru haldnir hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju í tilefni þess að 35 ár voru liðin frá því að sumartónleikar hófu göngu sína. Það var sembalsnilingurinn Helga Ingólfsdóttir sem átti hugmyndina að tónleikahaldi þar á staðnum og veitti tónleikunum forstöðu árum saman ásamt eiginmanni sínum, Þorkatli Helgasyni.

Í dag var flutt eitt af stórvirkjum tónbókmenntanna, Vespro della Beata Vergine frá árinu 1610 eftir Claudio Monteverdi. Flytjendur voru Kammerkórinn Collegium Cantorum frá Uppsölum, Stúlknakór Reykjavíkur – Vox junior, Marta G. Halldórsdóttir og Rannveig Sif Sigurðardóttir, sópranar, Eyjólfur Eyjólfsson og Nils Högman, tenórar, Peter Johnsson og Tryggve Nevéus, bassar. Undirleikur var í höndum Instrumenta Musica. Stjórnandi: Olle Johansson.

Eins og vænta mátti var kirkjan fullsetin og var andrúmsloftið magnað hrifningu og þakklæti fyrir þennan einstæða flutning.

Æði oft, þegar tónlist endurreisnar- eða barokk-tímans er leikin eru hljóðfærin stillt lægra en nú tíðkast og nemur það um hálftóni . Í dag var það ekki gert. Rannveig Sif Sigurðardóttir staðfesti þetta við mig en mér heyrðist ekki betur en hún segði að a.m.k. hluti verksins hefði verið lækkaður um hálfa tóntegund. Truflaði þetta ekki tóneyrað en ég hef þá áráttu að fylgjast gjarnan með þeim tóntegundum sem leikið er í og þurfti ég ekki að stilla eyrað í dag á barokk-stillingu.

Hljóðfæraleikurinn var sérstaklega fágaður og vel heppnaður og á það einnig við um hlut einsöngvara og kóra, en frammistaða þeirra var óaðfinnanleg. Samræmið millum kórs, hljómsveitar og einsöngvara var til fyrirmyndar og áferðin öll hin fegursta. Það var fróðlegt að velta fyrir sér þeim áhrifum sem Claudio Monteverdi hlýtur að hafa haft á þau tónskáld sem á eftir komu. Vissulega ber verkið þess merki að vera undanfari þess að Barokk-stíllinn næði hæðum sínum í pólífónískri snilli J.S. Bachs. Eigi að síður hlýtur þetta verk að teljast eitt af snilldarverkum tónbókmenntanna og fór afar vel á að flytja það á þessum hátíðartónleikum sem verða að teljast meðal hins besta sem flutt hefur verið í Skálholti.

Sem leikmaður og áhugamaður um tónlist flyt ég aðstandendum einlægar hamingjuóskir og þakka hrífandi flutning og ógleymanlega stund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langaði bara að taka undir með þér að þetta voru stórkostlegir tónleikar.  Tónhæðin á barokktímanum gat verið breytileg eftir stað og tíma..ég held að tónhæðin sem notuð var þegar þessi músik er samin sé svipuð eða jafnvel hærri en nú tíðkast

Gunnar Þorgeirsson (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband