Varðhundur á Alþingi

Á Alþingi Íslendinga, eins og á mörgum þjóðþingum öðrum, skipast menn í flokka eftir hagsmunagæslu. Soðningaríhaldið hefur nær óskiptan stuðning Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarmenn voru eitt sinn að mestu hagsmunagæslumenn bænda, sjómenn eiga sína fulltrúa og svona mætti lengi telja.

Nú hefur Þráinn Bertelsson skorið sig úr og gerst varðhundur kvikmyndaiðnaðarins. Hann ætlar að setja fjárlögin í gíslingu, verði ekki fundin lausn á vanda Kvikmyndaskóla Íslands.

Það hefur áður verið á það minnst í þessum pistlum að óeðlilegt verði að telja að stofnaðir séu einkaskólar sem ávísi mestum hluta kostnaðarins af rekstri sínum á ríkissjóð Íslands. Upp í hugann koma nöfn eins og Menntaskólinn Hraðbraut, þar sem eigendur greiða sér aðr þrátt fyrir tap, sjálfstæðu háskólarnir, en ríkið fjármagnar að mestu eða öllu leyti laun kennara, en skólagjöld eru þar mun hærri en í ríkisreknu háskólunum og nú síðast Kvikmyndaskóli Íslands.

Það er þakkarvert að kvikmyndaiðnaðurinn hafi eignast sinn eigin varðhund, sem smyglaði sér inn í almennan stjórnmálaflokk á þeirri forsendu að hann væri að þjóna fjöldanum. Dæmi Þráins Bertelssonar sýnir svo að ekki verður um villst, að breyta verður um baráttuaðferðir hér á landi. Einstakir hópar verða að taka sig til, ganga í stjórnmálaflokka eða stofna nýja flokka og bjóða fram með það markmið eitt að stuðla að framgangi eigin áhugamála. Þá fyrst líður Íslendingum vel þegar glundroðinn verður sem mestur. Nýjasti varðhundurinn á Alþingi er glöggt dæmi þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband