Deilt og drottnað á annarra kostnað

Leiðari Morgunblaðsins í dag, 30. júlí 2014, er fyrir margra hluta sakir athyglisverður. Fjallar hann um samskipti Efrópusambandsins og Bandaríkjanna við Rússland Pútíns, þar sem Bandaríkjamenn beita refsingum, sem engu máli skipta og fá Evrópusambandið í lið með sér, sem gæti skaðast á þeim viðskiptum.

Bandaríkin fara víðar sínu fram, á yfirborðinu sem stórveldi en sums staðar sem leppríki. Síðasta dæmið er fylgispekt Bandarískra stjórnvalda við Ísraelsmenn.


Hér fyrir neðan er leiðari Morgunblaðsins.


Tvíbent vopn

Evrópuríkin urðu nú að láta undan þrýstingi Bandaríkjamanna


Bandaríkin eiga létt með að ákveða efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússlandi. Viðskipti þessara mestu kjarnorkuvelda veraldarinnar eru tiltölulega lítil. Öðru máli gegnir um lönd Evrópusambandsins. Viðskiptin eru mikil en snerta einstök lönd sambandsins mismikið. Það flækir málið enn. Evrópuríkin verða að taka hugsanleg viðbrögð Rússa með í sinn reikning. Bandaríkin eru einnig að mestu laus við þann þáttinn.

Rússneskur almenningur styður enn afstöðu og athafnir Pútíns forseta í Úkraínu og telur Vesturlönd koma ósæmilega fram við Rússa. Innlimun á Krímskaga þótti flestum Rússum sjálfsögð, ekki síst eftir að „löglega kjörnum“ forseta Úkraínu var bolað úr embætti með ólögmætum hætti að þeirra mati. Því mun Rússum þykja efnahagsþvinganirnar vera óeðlileg og fjandsamleg aðgerð gegn Rússlandi, sem eðlilegt sé að forseti þeirra bregðist við með þeim kostum sem hann hefur.

Á Vesturlöndum er hins vegar bent á að þegar efnahagsþvinganirnar byrji að bíta muni þær um leið bíta marga stuðningsmenn Pútíns af honum. Og þótt þekkt sé og rétt að efnahagsþvinganir séu eins og myllurnar frægu, þær mali hægt, þá eigi þær það líka sameiginlegt að á endanum mali þær vel. Versnandi kjör Rússa vegna þeirra muni æsa til andstöðu við Pútín. Vissulega muni þvinganirnar í upphafi hitta fáa Rússa fyrir, en þessir fáu eigi mikið undir sér í Kreml og þeir verði illa úti. Forsetinn geti því furðufljótt misst mikilvægan stuðning úr hópi „klíkubræðra“.

Eftirtektarvert er að markmiðin sem fylgja efnahagsþvingununum eru óljós. Sagt er að þær séu ákveðnar til að þvinga Pútín til að breyta um stefnu í málefnum Úkraínu. Ekki er til að mynda líklegt að uppgjöf Rússa á Krímskaga sé forsenda fyrir því að fallið verði frá þeim. Margir áhrifamiklir þýskir stjórnmálamenn hafa raunar lýst yfir ákveðnum skilningi á því að Rússar hafa sameinað hann Rússlandi á ný.

Margir leiðtogar Evrópuríkjanna voru bersýnilega ekki áfjáðir að ganga mikið lengra í efnahagsþvingunum. En árásin á farþegaflugvélina sópaði öllum öðrum kostum út af borðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband