Fulltrúi soðningaríhaldsins veldur uppnámi

Í þeirri hörðu kjaradeilu, sem nú er háð af launamönnum þessa lands, var Kristján Loftsson, formaður stjórnar HB-Granda, bæði fáfróður og hrokafullur í útvarpsviðtali sem tekið var við hann í fyrradag. Ýmsir hljóta að velda því fyrir sér hvað maður með svipuð viðhorf og þekkingu á högum starfsmanna sé að gera í stóli stjórnarformanns. Sé það rétt að formaður stjórnar Granda gegni vart öðrum skyldum en þeim að sitja einn stjórnarfund á mánuði eð tímagjald hans hærra en þekkst hefur. Hann þyrfti einungis að sitja 10 stjórnarfundi á ári til þess að missa allan rétt til ellilífeyris!

Kristján veit hvorki hver grunnlaun starfsfólksins eru né kaupauki (bónus). En skuldin er ekki eingöngu hans. Í raun er rétt að skella allri skuldinni á þá fulltrúa sem sóttu aðalfund Granda og virðast algerlega úr tengslum við þann hluta almennings sem bera eina minnst úr bítum.

 

Vel rekið fyrirtæki en vinnuníðingar?

Heimildir herma að hagnaður Granda hafi numið 5,7 milljörðum króna og að hjá fyrirtækinu starfi um 500 manns. Það þýðir að hver starfsmaður skilar 10 milljörðum í hreinan arð. Hluthafar fengu 2,7 milljarða í sinn hlut og þar af lífeyrissjóðir um 30% eða rúmar 800 miljónir. Hefðu hluthafar afsalað sér helmingi arðsins eða ekki nema fjórðungi hefði verið grundvöllur fyrir því að ganga að kröfum verkalýðsfélaganna – ef kröfur skyldi kalla. Í stað þess slær Kristján Loftsson höfðinu við steininn og þykist ekki vita neitt en endar útvarpsviðtal með heimskulegri gamansögu. Samtök atvinnulífsins vara við hækkunum í fiskvinnslu. Hvers vegna geta norsk og færeysk fiskvinnslufyrirtæki greitt umtalsvert hærri laun en hér á landi og þó skilað hagnaði?

 

Hvað gerir Morgunblaðið?

Mogginn birti fréttir í morgun af mótmælum gegn hækkun launa stjórnarmanna í Granda, en þess sáust engin merki í leiðurum blaðsins að ritstjórum þætti nokkuð fyrir þessum hækkunum. Er það vegna eignarhaldsins á blaðinu?

Sá mæti maður, Sigurður Einarsson, forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja, kvartaði eitt sinn undan því við tvo blaðamenn, sem heimsóttu hann, að ritstjóri bæjarblaðsins Frétta í Vestmannaeyjum væri einnat ósanngjarn í garð útgerðarmanna, sem ættu flestir hlut í blaðinu. Hann var þá spurður hvort blaðið skilaði hagnaði og játti hann því. „Þá er það ráð mitt,“ svaraði annar þeirra, „að þið gerið ekkert í málinu. Ef þið farið að skipta ykkur af ritstjórn blaðsins er það dauðadæmt.“ Sigurður þagði örlitla stund og sagði síðan: „Já, þetta er sennilega rétt hjá þér.“

Það er ekki víst að núverandi eigandi Morgunblaðsins hyggist skipta sér af ritstjórum þess með sama hætti og Jón Ásgeir af ritstjórum Fréttablaðsins. En Morgunblaðið, sem kallar sig stundum blað allra landsmanna, verður að reka af sér þann orðróm að ritstjórarnir séu í vasa soðningaríhaldsins. Verða ofurlaun og umframhækkanir stjórnenda Granda og annarra fyrirtækja efni næsta Reykjavíkurbréfs eða verður látið nægja að jagast vegna áhuga bankamanna á ofurverðlaunum vegna ímyndaðrar samkeppni og ofurábyrgðar?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband