Ísland í kínverskum fjölmiðlum

Ísland hefur talsvert verið í fréttum kínverska alþjóðaútvarpsins, China Radio International.
Fjallað hefur verið um íslenskar íþróttir og einnig greint frá lokun íslenskra banka í Bretlandi. Frá því er greint að sparifjáreigendur séu öruggir um eigur sínar og sé þetta haft eftir Alister Darling, en hann beri fyrir sig yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda. Ekki er minnst á þá hetjudáð breskra yfirvalda að knésetja Kauping með lögum um varnir gegn hryðjuverkamönnum.
Ekki fann ég neitt í Dagblaði alþýðunnar um þessi mál. Þar greinir frá því að 15. þing Kínverska verkalýðssambandsins hefjist í dag og eru verkamenn hvattir af forystu Kommúnistaflokksins til þess að tryggja áframhaldandi vöxt velferðarríkisins í Kína.
Þá greinir frá því að fyrirtækið Smart Union í Kanton, sem framleiðir leikföng fyrir Vesturlandamarkað, sé nú farið á hausinn, en það tapaði 25 milljónum Bandaríkjadala á fyrri hluta ársins. Ekki náðist í forstjórann sem virtist horfinn af yfirborði jarðar. Þúsundir verkamanna hafa misst vinnuna.
Blaðið greinir einnig frá því að aðsókn vestrænna kaupsýslumanna að vörusýningunni í Kanton sé nú miklu minni en áður og að mörg kínversk fyrirtæki, sem skipta að mestu við Bandaríkin og Evrópusambandið, horfi fram á gríðarlegan samdrátt. Hið sama verði þó ekki sagt um þau fyrirtæki sem framleiða tæknivarning handa innanlandsmarkaði.
Þá segir blaðið frá því að Kínverjar séu nú komnir í alþjóðlega staðlaráðið og er það talið munu bæta kínverska framleiðslu.
Í gær var haldinn handsápudagur í Kína. Þar var fólk hvatt til að þvo sér með handsápu eftir salernisferðir og á undan máltíðum. Segir Dagblað alþýðunnar að fjöldi barna deyi úr niðurgangi og lungnabólgu áður en þau ná 5 ára aldri vegna skorts á hreinlæti.
Að lokum er greint frá því að 80% kínverskra unglinga hafi nú aðgang að Netinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband