Hinn sérstaki hljómur

Nú er leikin lúðrasveitahljómlist í Ríkisútvarpinu í tilefni sautjándans. Ég á eina skemmtilega minningu um íslenska lúðrasveit á erlendri grundu.

Árið 1974 kom ég því til leiðar að Blindrafélaginu var boðið að senda fulltrúa til vikudvalar í þorpinu Boltenhagen við Eystrasalt, en þar áttu austurþýsku blindrasamtökin skemmtilegt sumarsetur. Var þar iðulega efnt til samstarfsfunda Norðurlanda og Austur-Þýskalands, en Dr. Dr. Helmut Pilasch, formaður þeirra, var mikill áhugamaður um slíka samvinnu og eins framsýnn og nokkur kommúnisti undir járnhæl Sovétríkjanna gat leyft sér að vera.

Ég fór tvisvar á fund í Boltenhagen. Árið 1985 var ég þar með móður minni. Sunnudagsmorgun nokkurn, í 2. viku júlímánaðar vorum við á baðströndinni og í fjarska var einhver með lítið útvarpstæki. Var verið að útvarpa hátíðartónleikum á Eystrasaltsvikunni í Rostock. Allt í einu heyrði ég einhvern mars sem ég kannaðist við. En ég kannaðist við fleira og sagði við móður mína að nú mætti hundur í hausin á mér heita ef þetta væri ekki Hornaflokkur Kópavogs.

Tveimur dögum síðar fórum við með lest til Kaupmannahafnar og á Kastrup-flugvelli hittum við félaga úr Hornaflokki Kópavogs. Kom þá í ljós að þeir höfðu verið í beinni útsendingu um kl. 10:30 tveimur dögum fyrr.

Björn Guðjónsson, hinn mæti stjórnandi hornaflokksins, vildi að ég gæfi sér skýringu á því hvernig stæði á því að ég hefði þekkt hljóminn í hornaflokknum. Ég gat enga skýringu gefið aðra en þá að hann hefði sinn sérstaka hljóm.

Annars á ég ýmsar minningar um sautjándann. Eftirminnilegasta atriðið er Suðurlandsskjálftinn árið 2000. Ekki get ég sagt að það hafi beinlínis verið vel heppnað atriði hjá skaparanum. En þegar verið er að móta jafnstórt fyrirbæri og heilt land hlýtur eitthvað undan að láta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband