Eins og undanfarin sumur stendur nú yfir orgelsumar í Hallgrímskirkju. Að þessu sinni markast það af því að safnað er fé til viðgerða og endurbóta á hinu mikla clais-orgeli kirkjunnar, en 20 ár eru liðin frá því að hljóðfærið var tekið í notkun. Auk nauðsynlegs viðhalds verður að sögn Harðar Áskelssonar endurnýjaður ýmis hugbúnaður hljóðfærisins, en það liggur í hlutarins eðli að hugbúnað þarf að endurnýja eftir því sem tækninni fleygir fram. Nú verður m.a. hægt að varðveita stillingar orgbleikara á USB-kubbum og jafnvel verður hægt að hljóðrita leik þeirra.
Hörður Áskelsson og Inga Rós Ingólfsdóttir léku á orgel og selló
Okkur hjónunum hefur gefist tækifæri til að hlusta á nokkra þeirra frábæru listamanna sem komið hafa fram í sumar. Eru tónleikar þeirra hjóna, Harðar Áskelssonar og Ingu Rósar Ingólfsdóttur, sem haldnir voru 17. júní síðastliðinn, ógleymanlegir. Þau léku verk eftir Saint-Saëns og Rachmaninoff auk verka eftir Höller, Jón Leifs, Jón Hlöðver Áskelsson og Kjell Mörk Karlsen. Þrátt fyrir hinn gríðarlega stærðarmun á sellói og orgelinu gat Hörður hamið hljóðfæri sitt svo að hvort þeirra naut sín til fulls. Samleikur þeirra hjóna var eins og gott hjónaband, samvinna og virðing í fyrirrúmi. Inga rós hefur áferðarfagran tón og naut þetta pínulitla selló", eins og Hörður orðaði það í samtali við höfund þessarar færslu, sín til hins ítrasta.
Komið aftan að áheyrendum
Í dag voru enn haldnir tónleikar í Hallgrímskirkju, þar sem leiddu saman list sína strengjaleikari og orgaleikari. Þau Eyþór Ingi Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðluleikari, léku verk eftir Svendsen,
Prokofiev, Barber, Lindberg og íslensku tónskáldin Magnús Blöndal Jóhannsson, Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Oliver Kentish auk þess sem Eyþór Ingi og Lára Sóley
léku af fingrum fram.
Í raun hófu þau tónleikana með því að koma aftan að áheyrendum. Hófust þau handa við hið minna orgel kirkjunnar, sem er skammt frá altarinu og léku tilbrigði við lag Inga T. Lárussonar, Ég bið að heilsa", eins og það er oftast nefnt. Samleikurinn var hægur og flæddi um alla kirkjuna. Þegar honum lauk var lokatóni orgelsins haldið þar til þau Eyþór Ingi og Lára Sóley hófust handa við stórhljóðfærið og varð úr þessu ein unaðsheild.
Lára Sóley hefur fallegan tón. Þótt stundum örlaði á því að hún hefði vart í fullu tré við meðleikara sinn verður að segja sem var, að samleikur þeirra var einstæður, túlkunin nærfærin og einatt blíð, þegar við átti.
Þessir tónleikar eu einungis teknir hér sem dæmi um hið ágæta efnisval og úrval listamanna, sem komið hefur fram í sumar. Enn er þessari tónlistarveislu ekki lokið og margt í boði.
Tónlist | 29.7.2012 | 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag var spurst fyrir um það hjá Alþingi, hvort almenningi yrði enn meinaður aðgangur og var því fyrst játað. Borið var við nauðsynlegri öryggisgæslu.
Skömmu síðar var hringt frá Alþingi og greint frá því að almenningi væri heimil seta á lofti kirkjunnar. Er þa framför frá því sem reyndist í fyrra.
Stjórnmál og samfélag | 16.6.2012 | 15:14 (breytt kl. 22:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þessi pistill var fyrst birtur 6. júní. Vegna mistaka höfundar þurfti að breyta honum og er hann því birtur örlítið breyttur.
Ég ætlaði þennan pistil til birtingar á Eyjunni. Kerfi miðilsins er óaðgengilegt þeim, sem þurfa að nota skjálesara og er hann því birtur hér.
Þriðjudaginn 5. júní síðastliðinn birti Valgarður Guðjónsson pistil á Eyjunni um nauðsyn þess að kjósa tvisvar vegna þess hversu margir eru í framboði til embættis forseta Íslands. Stingur hann upp á eins konar forkosningum, sem auðvelda eiga fólki að taka afstöðu. Hætt er við að slík forkosning yrði hálfgerður skrípaleikur, ef hefðbundnum aðferðum yrði breytt og gerði vart meira gagn en þær skoðanakannanir, sem birtar verða.
Það er óþarft að kjósa tvisvar. Stjórnlagaþing var á algerum villigötum þegar það lagði fram tillögur um kosningar til embættis forseta Íslands. Með því að kjósa tvisvar, ef fleiri en tveir eru í framboði, , er alls ekki tryggt, að sá sem nær kjöri í seinni umferðinni, sé í raun sá, sem meirihluti þjóðarinnar vildi helst sem forseta.
Frá því að íslenska fjármálakerfið hrundi árið 2008 hefur talsverð umræða orðið um það manna á meðal hvernig haga beri kosningum. Þrátt fyrir áhuga á umbótum hefur hvert óhappið rekið annað. Má þar nefna kosningu til stjórnlagaþings, ákvörðun Alþingis um það hverjir skyldu ákærðir fyrir Landsdómi og nú síðast kjör biskups.
Stjórnvöld virðast ekki hafa áttað sig á því að unnt er að greiða þremur eða fleiri kostum atkvæði á þann hátt að ekki þurfi að kjósa tvisvar, fái enginn meirihluta atkvæða í fyrstu umferð. Full ástæða er til að stofnanir samfélagsins og félög skoði með hvaða hætti sé hægt að einfalda kosningu og atkvæðagreiðslu þannig að menn geti tjáð vilja sinn og tilteknir kostir verði ekki afgreiddir fyrirfram. Til þess hentar aðferð sem nefnist raðval og lýst er í bókinni Lýðræði með raðvali og sjóðvali" eftir Björn S. Stefánsson.
Raðval hefur reynst auðvelt í framkvæmd. Aðferðin hefur þann ótvíræða kost að úrslit fást þótt þrír eða fleiri kostir séu í boði.
Sem dæmi má nefna kosningu þar sem fjórir eru í framboði. Kjósendur geta þá raðað þeim að vild. Sá sem kjósandi vill greiða eindregið brautargengi fær þá þrjú stig og svo koll af kolli þannig að sá sem kjósandi vill síst fær þá ekkert stig.
Samanlagður stigafjöldi ræður úrslitum. Þá er ekki víst að sá sem flestir velja í fyrsta sæti nái kjöri, því að annar maður getur fengið það mörg stig í annað sæti að þau ríði baggamuninn. Þannig eru nokkrar líkur til að úrslitin verði með öðrum hætti, sé einungis ein kosning viðhöfð í stað tveggja þar sem í seinna skipti verði kosið um tvo efstu frambjóðendurna. Kosningar þar sem krafist er tveggja atkvæðagreiðslna, þegar enginn frambjóðandi nær meirihluta, gefa þar að auki ekki alls kostar rétta mynd af vilja kjósenda þar sem þeir fá yfirleitt aðeins að velja einn kost hverju sinni og það getur haft afdrifarík áhrif á framhaldið.
Nokkur reynsla er af raðvali hér á landi. Þegar menn hafa nýtt sér kosti þessarar aðferðar hefur hún reynst auðveld í framkvæmd og almenningur hefur ekki átt í neinum vandræðum með að tileinka sér hana.
Með raðvali er hægt að leggja ýmis álitamál í dóm kjósenda með öðrum hætti en tíðkast hér á landi þar sem tveimur kostum er yfirleitt stillt upp hvorum gegn öðrum.
Með raðvali aukast enn fremur líkurnar á því að sá sem flestir sætta sig við, verði valinn.
Þá er rétt að geta þess að lokum að raðval er þess eðlis að auðvelt er að móta skýrar reglur um notkun aðferðarinnar innan stjórnkerfisins, sveitarfélaga og samtaka. Aðferðin greiðir ótvírætt fyrir lausn mála og dregur úr hættunni á flokkadráttum.
Frekari upplýsingar eru á síðunni http://abcd.is.
Þá skal nefnt að bókin Lýðræði með raðvali og sjóðvali fæst nú sem rafbók á emma.is og itunes.
Stjórnmál og samfélag | 7.6.2012 | 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þðð r áhyggjuefni að jafn lýðræðiselskandi fólkr og Ólafur Ragnar Grímsson, forsetaframbjóðandi, Hannes Bjarnason, forsetaframbjóðandi, Þóra Arnórsdóttir, forsetaframbjóðandi og Herdís Þorgeirsdóttr, forsetaframbjóðadi, skyldu ekki styðja óskir Ara Trausta og Andreu, forsetaframbjóðenda. Fyrir vikið má ætla að nokkur breyting verði á fylgi frambjóðendana. Var það ef til vill ætlun starfsmanna Stöðvar tvö?
Það er svo margt sem bendir til afleitrar fjölmiðlunar um þessar mundir hér á landi. Stöð tvö sýndi og sannaði, svo að vart verður um villst í gærkvöld, að hluti starfsmanna og yfirstjórnar fjölmiðilsins er ekki þeim vanda vaxinn að stunda hlutlæga blaðamennsku. Það var hægur vandi að bregðast við óskum frambjóðendanna tveggja með sáraeinfaldri aðgerð. Jafnvel 6 ára gömul börn hefðu leyst vandann með þulunni "Ugla sat á kvisti" og öðrum viðlíka einföldum aðferðum. En þetta er sjálfsagt svo flókið, að blaðamenn, sem ímynda sér að flókin umræða skili mestum árangri og beri vitni um djúpstæða þekkingu blaðamannsins, þekkja ekki svo einfalda lausn sem að draga menn í dilka, þar sem ekki verður fyrirséð, hvar hver einstaklingur lendir. Stöð tvö hefur sannarlega fallið í áliti svo að eftir verður tekið.
![]() |
Hvað mun Stöð 2 gera? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 4.6.2012 | 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nokkurt fjaðrafok hefur orðið vegna þeirrar ákvörðunar Árna að bjóða álfafjölskyldu til Vestmannaeyja. Gekk skólastjóri Álfaskólans jafnvel svo langt að halda því fram að þessi afskipti álfanna af högum fjölskyldunnar gætu kallað yfir hann ógæfu, eða svo mátti skilja orð Magnúsar Skarphéðinssonar á Rás tvö í dag.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, sem hafa lesið íslenskar álfasögur, að álfar gjalda yfirleitt íku líkt í viðskiptum. Nú var Árni svo forsjáll að hafa með sér konu, sem sér álfa og getur haft samband við þá. Fyrir hennar tilstilli þágu álfarnir tilboð Árna um flutning þeirra og bústaðarins til eyja, enda vannst þá tvennt: þau gætu hafið fjárbúskap með huldufé og bústaðurinn fylgdi með. Fjölskyldan þurfti með öðrum orðum ekki að leita sér að nýju húsnæði.
Árni hefur staðið einstaklega vel að málinu. Þótt hann hafi gaman af þessu í aðra röndina sýnir þetta tiltæki þó að hann beri virðingu fyrir vissum leikreglum í samskiptum manna og hulinna vætta þessa lands. Slíkt er að virða og vafalítið er álfafjölskyldan þakklát honum fyrir þá hugulsemi að sinna málum þeirra svo vel sem raun ber vitni. Þar að auki kemst álfafjölskyldan nú í mun fegurra umhverfi en áður og nýtur betur þagnarinnar. Er því líklegt að hún gjaldi Árna og fjölskyldu hans greiðann og veiti honum í þeim málum, sem hún getur haft áhrif á.
Árni hefur verið þekktur að því að taka málstað þeirra sem hafa beðið skipbrot. Þarna forðaði hann heilli fjölskyldu frá því að bíða lægri hlut í samskiptum sínum við mannfólkið, eins og allt of oft hefur gerst.
Árna og álfunum er óskað giftusamrar sambúðar.
Stjórnmál og samfélag | 15.5.2012 | 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eins og hljómkviða Síbelíusar var leiðinleg áheyrnar og á köflum allt að svæfandi, þegar hún varð einna rómantískust, var leikur Sigrúnar hrífandi. Tónninn var þéttur og túlkunin bæði orkurík og mild, þegar það átti við. Að vísu gerðist eitthvað í 2. þætti, sem undirritaður kann ekki skýringu á.
Mér hefur ævinlega þótt 2. sinfónía Síbelíusar ósamstæður ruglingur með ómstríðum köflum, sem tónskáldið virtist ekki ráða við, en þess á milli mildum tónum sem gæla við eyrað. Ég gæti ímyndað mér að líkja mætti tónverkinu við vatn, þar sem skiptust á vakir og ískrapi, sem fólk þyrfti að sullast gegnum á árabáti. Annað veifið gengur róðurinn vel, en svom þyngist hann og veldur ræðurunum næstum því uppgjöf. Ræðararnir eru áheyrendur, en hljómsveitin vatnið og stjórnandinn vindurinn, sem hreyfir til íshroðann.
Ýmsir hafa fjallað um þessa tónleika og fær sigrún Eðvaldsdóttir sums staðar slæma dóma - óverðskuldaða dóma. Fróðlegt væri að vita hvers vegna gera þurfti hlé á flutningi verksins í öðrum þætti. Ég ræddi við eiginkonu mína um að annaðhvort hljómsveitin eða Sigrún hefðu farið fram úr sér og virðist ríkarður Örn Pálsson komast að svipaðri niðurstöðu í Morgunblaðinu í dag.
Íslenskir einleikarar fá of sjaldan tækifæri til að leika með sinfóníuhljómsveit Íslands. Við eigum marga tónlistarmenn sem geta mætavel státað af álíka snilld og ýmsir, sem sækja landsmenn heim og gæða þeim á list sinni. Sú staðreynd, að söngvarar og einleikarar fá hér fá tækifæri, getur sett mark sitt á leik þeirra.
Öllum getur orðið á í messunni og er það vandi allra listamanna á öllum tímum. Ástæðurnar geta verið jafnmismargar og tónleikarnir eða listamennirner eru margir. Ekki verður velt frekar vöngum yfir því, sem gerðist, en samleikur hljómsveitar og Sigrúnar var yfirleitt frábær. Af 8. bakk fyrir miðju virtist fiðlan vera í góðu jafnvægi við hljómsveitina, svo að fátítt er að heyra á tónleikum hérlendis.
Tónlist | 12.5.2012 | 21:42 (breytt 13.5.2012 kl. 11:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag var fyrsta útvarpsleikrit Sigríðar Jónsdóttur, „Kona hverfur“ flutt á rás eitt. Leikritið fjallar um gamalt leyndarmál, sem flyst á milli kynslóða með óvæntum hætti.
Það vakti athygli að samtölin, sem voru milli tveggja kvenna, voru yfirleitt án víðóms. Hljóðmyndin var hins vegar öðru hverju í víðómi. Á einum stað í verkinu örlaði á því að hljóðmyndin yrði ofhlaðin, en þá þurfti hlustandinn að greina á milli þriggja radda. Tvær voru í miðjunni, en sú þriðja á vinstri rás.
Þegar upp var staðið frá því að hlusta á flutninginn, varð undirrituðum ljóst að þarna hafði orðið til lítið og áhrifamikið listaverk, sem telja verður á meðal hins besta sem íslenskt útvarpsleikhús hefur skapað á þessari öld. Eru höfundi og aðstandendum verksins fluttar einlægar hamingjuóskir.
Menning og listir | 29.4.2012 | 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Awa-menn eru um 350.000 og búa flestir þeirra innan kínversku landamæranna, en fámennur hópur býr í Burma.
Skrifað er um fyrirlesturinn á bloggi Kínversk-íslenska menningarfélagsins.
Kínversk málefni og menning | 27.4.2012 | 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Málflutningur Sjálfstæðismanna hefur á undanförnum dögum borið þess nokkur merki að flokkurinn situr ekki við ríkisjötuna í sama mæli og áður. Þannig meinaði Óskar Magnússon, sem keypti Kerið í Grímsnesi fyrir nokkrum árum ásamt félögumsínum, forsætisráðherra Íslands að sýna erlendum gestum þetta skemmtilega náttúruundur. Skýringin var einföld. Hann og félagar hans kærðu sig hvorki um heimsóknir fulltrúa íslenskra né kínverska yfirvalda. Það var orðið. Íslensk yfirvöld eru um þessar mundir ekki í Sjálfstæðisflokknum og því ekki þóknanlegt að sýna þeim neinn sóma og gestum þeirra.
![]() |
Pólitík í málinu að sögn Geirs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 23.4.2012 | 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun var vakin athygli mín á færslu Egils Helgasonar á Silfri Egils, þar sem hann fjallar um viðræður Íslendinga og Kínverja um gerð fríverslunarsamnings og sitthvað fleira. Þar sem nokkrar rangfærslur er um að ræða í pistli Egils var honum sendur pistillinn, sem hér fer á eftir.
--
Heill og sæll, Egill.
Eins og þú ert ágætur upplýsingamaður, þykir mér með eindæmum hvernig þú fjallar um samskipti Kínverja og Íslendinga, í þessu tilviki samning um fríverslun og viðskipti milli ríkjanna. Ég hafði hugsað mér að rita athugasemd við pistil þinn, en skjálesarinn hjá mér leyfir það ekki. Vona ég að þú birtir það sem hér fer á eftir:
Afstaða Kínverja til Íslendinga
Kínverjar hafa að mörgu leyti verið Íslendingum jákvæðir á erlendum vettvangi. Stafar það m.a. af því að Ísland hefur staðið utan Evrópusambandsins og hafa kínversk stjórnvöld því haft hug á að efla samskiptin. Minnt skal á að Kínverjar studdu útfærslu landhelginnar í 50 og 200 mílur og heimildir benda til að einn af samningamönnum Kínverja á hafréttarráðstefnunni í Genf árið 1958, Chen Tung, sem síðar varð sendiherra hér á landi, hafi átt nokkur samskipti og samstarf við sendinefnd Íslendinga.
Þegar Vestmannaeyjagosið varð árið 1973 urðu Kínverjar fyrsta þjóðin utan Norðurlanda til að rétta Íslendingum hjálparhönd. Þá má minna á afstöðu Kínverja innan alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þegar Hollendingar og Bretar hugðust kreista Íslendinga eins og mús lí lófa sér.
Fríverslunarsamningarnir og Huang Nubo
En komum nú að fríverslunarsamningunum:
Samningaumræðum varð sjálfhætt þegar ríkisstjórnin, sem Samfylkingin leiðir, hóf umsóknarferlið að Evrópusambandinu. Ástæðan er einföld: þegar ríki gengur í Evrópusambandið fer slíkt samningsferli úr höndum aðildarríkjanna. Samningar sem einstök ríki hafa náð í milliríkjaviðskiptum, verða sjálfkrrafa teknir upp af Evrópusambandinu. Á þetta töldu Kínverjar ekki hættandi enda hafa þeir haldið því fram að þeir séu tilbúnir að veita Íslendingum ýmsar ívilnanir í viðskiptum umfram Evrópusambandið.
Vegna þess, sem þú segir um viðskipti Huang Nubo, verður því hiklaust haldið fram á þessum vettvangi, að hann hafi verið hafður að ginningarfífli. Ég átti erindi til Beijing og fleiri borga í Kína í haust og þar bar þetta mál iðulega á góma. Þegar við Íslendingarnir greindum kínverskum viðmælendum frá því að 300 ferkílómetrar lands á Íslandi væri álíka mikið hlutfalll af Íslandi og 27.000 ferkílómetrar af kínversku landi, sem samsvarar hainan-eyju, fór um áheyrendur. Við vöktum athygli á að mun heilladrýgra hefði verið að sækjast eftir leigu á landi en kaupum á svo stórri landspildu. Hver einasti viðmælandi okkar tók undir þessa skoðun og sumir, sem hafa mikla reynslu í samskiptum við erlendar þjóðir, undruðust að ekki skyldi hafa verið lögð áhersla á slíkt.
Bág réttindi farandverkafólks
Það er rétt hjá þér að aðbúnaður verkafólks í kínverskum verksmiðjum er víða slæmur og þetta vita kínversk stjórnvöld. Ýmislegt hefur verið gert til þess að ráða bót á þessu ófremdarástandi, sem ríkir sums staðar, en ekki alls staðar. Líkja Kínverjar sjálfir þessu við það, sem tíðkaðist í upphafi iðnbyltingarinnar í Evrópu og reyndar fram undir aldamótin 1900. Þá er einnig vitnað til Bandaríkja Norður-Ameríku, en þar var aðbúnaður verkafólks víða ekki upp á marga fiska á fyrri hluta síðustu aldar. Þá virðist því miður sem mannlegt eðli sé svipað hvar sem borið er niður. Í skjóli einkaframtaks þrífst ýmislegt misjafnt, eins og hefur komið fram í kínverskum verksmiðjum. Jafnvel á Íslandi höfum við orðið vitni að andstyggilegu þrælahaldi erlends verkafólks. Kjarasamningar eru ekki virtir og fólkið býr jafnvel við svo frumstæðar aðstæður að enginn Íslendingur léti bjóða sér slíkt. En þær virtust nógu góðar handa Pólverjum, a.m.k. á meðan góðærið á Íslandi var sem mest. Slíkt dæmi höfðum við fyrir augunum veturinn 2007-2008.
Samsæriskenningar og svartagallsraus af því tagi, sem þú hefur stundum látið þig hafa, sæmir ekki jafnágætum fjölmiðlamanni og þér. Við þurfum ekki á hleypidómum að halda, heldur upplýstri umræðu og sannleikanum í hverju máli.
Vegni þér vel.
Arnþór Helgason
---
Arnþór Helgason, vináttusendiherra,
Tjarnarbóli 14,
170 Seltjarnarnesi.
Sími: 5611703
Farsími: 8973766
Netföng: arnthor.helgason@simnet.is
http://arnthorhelgason.blog.is/
Stjórnmál og samfélag | 18.4.2012 | 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 320133
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar