Stundum valda smáhlutir straumhvörfum í lífi fólks. Í dag eru 50 ár síðan alger straumhvörf urðu í lífi mínu.
Frá því um miðjan ágúst og fram í september 1967 vann ég við að skrifa námsefni á blindraletur handa okkur tvíburunum. Lauk því starfi rétt fyrir miðjan septembermánuð.
Föstudaginn fórum við mæðgin að heimsækja þau heiðurshjónin, Andreu Oddsteinsdóttur og Halldór Þorsteinsson, en þau bjuggu þá í virðulegu húsi við Miðstræti í Reykjavík. Á eldhúsborðinu var útsaumaður dúkur sem móðir mín varð mjög hrifin af og vildi vita hvar Andrea hefði fengið hann. Hún vísaði á verslunina Ístorg á Hallveigarstíg.
Ég vissi að þar fengjust hljómplötur frá Asíu en um þetta leyti var ég hugfanginn af arabískri tónlist og héldum við mæðgin þangað.
Þar fengust þá eingöngu hljómplötur frá Kína og olli það mér nokkrum vonbrigðum. En ég keypti tvær.
Annarri plötunni brá ég á plötuspilarann hjá Sigtryggi bróður og Halldóru, konu hans og kom þá í ljós að um kantötu var að ræða fyrir sinfóníuhljómsveit, kór og tenorsöngvara. Í upphafi 3. þáttar hljómaði stef sem ég kannaðist við sem einkennisstef kínverska alþjóðaútvarpsins.
Frómt frá að segja varð ég hugfanginn af tónlistinni og það svo að ég keypti á næstu mánuðum og árum allar þær hljómplötur sem Ístorg átti.
Hvað leiddi af öðru.
Stefán Jónsson, fréttamaður hafði farið í leiðangur til Kína árið áður og sendi hann okkur bræðrum segulbandsspólu með kínverskri byltingartónlist.
Ég hófst handa og hafði bæði samband við kínverska alþjóðaútvarpið sem sendi mér árum saman segulbönd og hljómplötur með kínverskri tónlist og kínverska verslun sem seldi hljómplötur og næsta hálfan annan áratuginn keypti ég tugi titla frá Kína og á sjálfsagt eitthvert mesta safn byltingartónlistar þaðan á Norðurlöndum.
Þá hófst ég handa við dreifingu kínverskra tímarita og bóka hér á landi og hélt því áfram til ársins 1989.
Ég gekk í Kínversk-íslenska menningarfélagið haustið 1969 og hef verið viðloðandi stjórn þess frá árinu 1974, þar af formaður í 30 ár í þremur lotum. Nú verður væntanlega endir á því á næsta aðalfundi félagsins.
Ég hef stundum sagt að Kína sé eilífðarunnusta mín og verður sjálfsagt svo á meðan ég er lífs.
Lagið Austrið er rautt, sem var kynningarstef útvarpsins í Beijing, varð mér svo hjartfólgið að það var leikið sem forspil að brúðarmarsinum í brúðkaupi okkar Elínar og hljómar m.a. sem hringitónn farsímans. Síðar vitnaðist að upphaflega var þetta ástarsöngur sem varð svo að lofsöng um Mao formann.
Ævi mín hefði orðið mun fábreyttari hefðum við mæðginin ekki rekist inn í kaffi til þeirra Andreu og Halldórs.
Stjórnmál og samfélag | 15.9.2017 | 17:29 | Slóð | Facebook
Stjórnarslitin eru ekki óeðlileg miðað við það sem á undan er gengið og sýna í raun hvert vald almennings getur orðið.
Þó hefði verið eðlilegra að tekist hefði verið á um þessi mál á ríkisstjórnarfundi og Björt framtíð hefði í kjölfarið tekið sína ákvörðun.
Hvernig sem á það er litið og án þess að afsaka nokkurn ráðherra er sem Björt framtíð hafi forðað sér til þess að bjarga eigin skinni. En ætli það dugi til?
Stjórnmál og samfélag | 15.9.2017 | 08:06 (breytt kl. 08:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn hafa fulltrúar Lýðræðislega lýðveldisins Kóreu, eins og það heitir, skotið eldflaug á loft og fór hún yfir Norður-Japan.
Kjarnorkuvopn eru ógnun við tilvist mannkyns. Sjálfskipaður útvörður frjálsra þjóða er sá eini sem beitt hefur kjarnorkuvopnum.
Fjöldi ríkja hefur margsinnis lagt fram tillögur á allsherjarþingi SÞ um algert bann við kjarnorkuvopnum og þar á meðal hið lýðræðislega lýðveldi af öllum löndum. Bandaríkjamenn hafa farið offari gegn slíkum tillögum og Íslendingar fylgt þeim sem hundar í bandi.
Fylgispekt Íslendinga við Bandaríkin hefur einatt verið með ólíkindum. Þannig urðu þeir síðastir Norðurlanda til þess að greiða aðild Kínverska alþýðulýðveldisins að SÞ atkvæði og til þess þurfti vinstri stjórnina árið 1971.
Bandaríkjamenn eru hvarvetna með blóðslóðina á eftir sér og hið sama má segja að nokkru leyti um Rússa. Nú síðast hefur Bandaríkjaforseti ákveðið að fjölga hermönnum í Afganistan.
Bandaríkjamenn bera litla virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða samanber síðustu hótanir gagnvart Venesúela sem þarf á öllu öðru að halda en slíkri afskiptasemi.
Bandaríkjamenn hafa virt að vettugi ýmsa alþjóðasamninga og ekki staðfest þá.
Syndaregistur þeirra er langt og skal hér látið staðar numið. Því miður má rekja allt of margt sem miður fer í veröldinni um þessar mundir til skefjalausrar fyrirlitningar Bandaríkjanna á öðrum þjóðum. Er það miður vegna þeirra ótvíræðu kosta sem margt í stjórnarfari þessa ríkis ber vott um.
Stjórnmál og samfélag | 29.8.2017 | 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ágæta ritstjórn Morgunblaðsins.
Árið 2003 var haldin sérstök ráðstefna á vegum Öryrkjabandalags Íslands um aðgengi að vefmiðlum. Heppnaðist húnmætavel og var tæknifólk í meirihluta þeirra sem sóttu hana.
Á ráðstefnunni var Morgunblaðinu veitt sérstök viðurkenning vegna aðgengis blindraog sjónskertra að blaðinu.
Morgunblaðið heldur enn að flestu leyti þeirri stöðu að vera aðgengilegasti vefmiðill landsins og er það vel. En blaðið hefur ekki að öllu leyti fylgt þróuninni.
Þeim fer nú stöðugt fjölgandi í hópi blindra og sjónskertra sem nota spjaldtölvur og snjallsíma. Sá galli fylgir að vísu gjöf Njarðar að Apple-tæki eru undanþegin því að þau sýna hvorki íslenskt blindraletur né geta boðið íslenskan talgervil. Það gerir hins vegar Android-hugbúnaðurinn.
Um þessar mundir er Morgunblaðið eiginlega algerlega óaðgengilegt í þessum tækjum. Forritið, sem Stokkur hannaði fyrir ykkur, les hvorki texta né sýnir neitt með blindraletri. Að vísu vissu forráðamenn fyrirtækisins ekkert um aðgengi blindra og sjónskertra að snjalltækjum fyrr en undirritaður hafði samband við þá fyrir nokkrum árum. Síðan hafa starfsmenn Stokks smíðað m.a. forrit fyrir Hljóðbókasafn Íslands sem reynist allvel, en agnúa á öðrum forritum sínum hefur það lítt eða ekki lagfært.
Sem kunnugt er fjölgar stöðugt í hópi blindra og sjónskertra þar sem algengt er að sjón dofni með aldrinum. Flestir, sem fæddir eru eftir 1935, nýta sér tölvur og þeir vilja gjarnan halda áfram að geta notað þær - bæði spjaldtölvur, venjulegar heimilistölvur og síma.
Hefur þetta mál verið rætt innan Morgunblaðsins og hvað er í bígerð, ef eitthvað er?
Virðingarfyllst,
Arnþór Helgason
(Bréfritari var svo lánsamur að vera sumarblaðamaður á Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 2007 og 2008 og telur blaðið þann besta vinnustað sem hann hefur starfað á).
Stjórnmál og samfélag | 30.7.2017 | 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rafbílavæðingin er nú hafin á Íslandi fyrir alvöru. Hraðhleðslustöðvum fjölgar óðum og menn geta nú farið allvíða án þess að eiga á hættu að verða rafmagnslausir.
Stöðvar hafa verið settar upp á suðurnesjum (Keflavík og Garði), í Hafnarfirði og allnokkrar í Reykjavík. Ekki hef ég frétt af neinni í Kópavogi.
Þá eru komnar stöðvar í Þorlákshöfn, Selfossi, Flúðum, við Apavatn og unnið er að uppsetningu víðar á landinu. Virðist sem hringnum verði að mestu eða öllu lokað jafnvel í haust.
Á vesturlandi eru stöðvar á Akranesi, í borgarnesi, Stykkishólmi og Ólafsvík, á Vestfjörðum a.m.k. á Patreksfirði, Ísafirði og Súðavík og fyrir norðan við Staðarskála, á Hólmavík, Blönduósi, Varmahlíð og Sauðárkróki. Þá er stöð norðar í Skagafirðinum og á Siglufirði.
Við Varmahlíð er stöð og þrjár á akureyri, ef ég man rétt og á Austurlandi er komin stöð á Egilsstöðum. Sagnir herma að innan skamms komi síðan önnur á Reyðarfirði.
Flestir nota smáforritið plugshare til þess að skoða hvar stöðvarnar eru.
Við hjónin höfum farið þrjár ferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið á rafurreið okkar - norður á Hvammstanga, vestur eftir endilöngu Snæfellsnesi og austur í Skálholt. Rafhleðsla bifreiðarinnar dugði ágætlega en nokkrum sinnum þurftum við að bíða eftir rafhleðslu.
Það er nokkur ókostur að hraðhleðslustöðvarnar geta eingöngu hlaðið einn bíl í senn, en úr því hlýtur að verða bætt eftir því sem rafbílavæðingunni fleygir fram.
Rafbílar eru einstaklega góður kostur til innanbæjaraksturs. Sem dæmi um dæmi gerða notkun eftirlaunaþega hlöðum við hlaðið einu sinni til tvisvar í viku.
Allmargar tegundir rafbíla eru nú í boði hér á landi og flestar þeirra á viðráðanlegu verði sem henta flestum hópum fólks.
Hægt er að hlaða flestar tegundir þeirra í venjulegri 10 ampera innstungu, en sú aðferð tekur nokkurn tíma ef lítið er á rafhlöðunni. Einnig eru til heimahleðslustöðvar en allmargir nota einungis venjulegar innstungur til að hlaða rafbílinn.
Þegar er farið að hugsa fyrir hleðstustöðvum fyrir fjölbýlishús. Verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni á næstu árum.
Stjórnmál og samfélag | 30.6.2017 | 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kjararáð er tímaskekkja án sambands við þjóðfélagið.
Alþingi brást í haust þegar vinda þurfti ofan af afturvirkum hækkunum þingmanna og annarra gæludýra hins opinbera.
Samkvæmt skilningi Alþingis um afturvirka framkvæmd laga eru nýjustu hækkanir ráðsins ólöglegar. Ekki mátti hækka bætur öryrkja og aldraðra afturvirkt þótt þáverandi ríkisstjórn hafi ákveðið að rifta gerðu samkomulagi.
Kjararáð virðist vera á sama stalli og fjárlög. Kjararáð skaðar heildarhagsmuni íslensks samfélag og kemur í veg fyrir að samkomulag geti náðst um stöðugleika hér á landi.
Forseti Íslands brást rétt við í haust en alþingismenn allra flokka féllu á prófinu.
Stjórnmál og samfélag | 28.6.2017 | 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gær fór ég í könnunarleiðangur um netið og skoðaði nokkrar bifreiðategundir sem ég hef kannast við í nokkur ár.
Mig rak í rogastans þegar ég sá nýtt úrval fólksbifreiða sem er nú í boði á Íslandi og hugsaði sem svo að bifreiðaframleiðendur reyndu að gera hvorum tveggja til geðs - fólki með meðaltekjur og hinum ofurríku.
Þá þótti mér lítið fara fyrir áhuga bifreiðaframleiðenda á loftslagsmálum og uppgefið afl véla sumra meðalstórra bifreiða var ótrúlegt.
Til hvers þurfa menn dísil- eða bensínfólksbifreið með 340 hestafla vél eða 500 hestafla Teslu með einungis 500 hestöflum??
Um daginn ætlaði allt um koll að keyra þegar Reykjavíkurborg hugðist draga úr hraða á vissum svæðum í borginni o hafa hann 50 km í stað 60. Ætlunin var að draga úr mengun.
Því hraðar sem ekið er því meiri verða eldsneytiseyðslan og eitraður útblásturinn. Þess vegna yrði það til hagsbóta Íslendingum að minnka hámarkshraða á vegum úr 90 km hraða í 80 km (Austur-þýska viðmiðið.:) ) og menn hljóta að velta því fyrir sér í umræðunni um að draga úr gróðurhúsaáhrifum.
Í umræðunni um rafbíla reikna menn fram og aftur drægni þeirra. Viðurkennt er að uppgefnar tölur framleiðenda séu blekkjandi fyrir Íslendinga og er fólki fremur ráðlagt að taka mark á bandarískum tölum. Sumir halda því fram að þær dugi ekki heldur því að meðalhraði á vegum hérlendis sé meiri en þar og það hefur áhrif á rafmagnseyðsluna.
Menn ættu að vera sammála um þrennt:
1. Nauðsynlegt er að bæta vegakerfið.
2. Draga þarf úr umferðarhraða af tillitssemi við móður Jörð.
3. Leggja ætti sérstakan þungaskatt á vörubifreiðar sem dragnast með allt að 60 smálestum um vegakerfi landsins og leggja meiri skerf af mörkum til þess að eyðileggja það en samanlagður bílafloti smábifreiða.
Meira um þetta mál síðar.
Stjórnmál og samfélag | 11.5.2017 | 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðfélagsfylkingin er með skelfilegustu fyrirbærum á væng íslenskra stjórnmála.
Ég hef aldrei hitt nokkurn Þjóðfylkingarmann fyrr en í þessari viku. Hann átti erindi við mig og af tilviljun leiddu samræðurnar út á væng íslenskra stjórnmála og sagðist hann vera þjóðfylkingarmaður.
Í samtalinu kom m.a. fram að nú ætlaði Reykjavíkurborg að drita 200 Mmúslímastrákum út um allt og sagðist hann vita hverni ástandið væri á Spáni og víðar. Sem betur fór slitum við þessum samræðum enda stend ég sjálfan mig að því að þola ekki lengur slíkt öfgahjal - heilsa mín leyfir það hreinlega ekki.
Í gærkvöld var athyglisverður þáttur á BBC þar sem fjallað var um samfélag Sómala í einu fylkja Bandaríkjamanna. Þar kom fram að þeim hefði verið afar vel tekið og hefðu að ýmsu leyti aðlagast samfélaginu afar vel. Hefðu þeir m.a. lífgað við hverfi sem voru í niðurníðslu og stuðlað að ýmsum nýjungum.
Þá var rifjað upp að ýmsir af helstu uppfinningamönnum Bandaríkjanna hefðu verið Múslímar.
Nokkrir rithöfundar, þar á meðal Norbert Pressburg (sjálfsagt dulnefni) hafa fjallað um þá staðreynd að fáar uppfinningar hafi borist frá hinum múslímska heimi að undanförnu, en leiða má líkur að því að stjórnmálaástandið eigi þar nokkurn hlut að máli.
Það kom einnig fram í þættinum að hlutur Múslíma í hryðjuverkum og morðum í bandarísku samfélagi væri sára lítill. Undirrótin væri yfirleitt hjá hægrisinnuðum karlmönnum. Sagt var að það væri mörgum sinnum líklegra að bandaríkskir borgarar yrðu fyrir eldingu en að múslími yrði þeim að aldurtila.
Íslenskt samfélag breytist nú ört. Menn þurfa að leggja talsvert á sig til þess að kveða niður hatursumræðuna í þjóðfélaginu. Hún bitnar fyrst og fremst á þeim sem geta síst borið hönd fyrir höfuð sér. Þar er ekki eingöngu um aðflutt fólk að ræða heldur einnig fátækt fólk og öryrkja eins og best sást á nornaveiðunum sem hófust eftir að skýrsla um sviksemi við íslenska tryggingakerfið var birt.
Hugsum okkur vel um áður en við leggjum fæð á fólk vegna útlits þess, efnahags og uppruna. Hugsum jafnframt um það hverjir eru í raun illvirkjarnir í þessu samfélagi - illvirkjar sem blekkja og svíkja út fé á fölskum forsendum og standa allar dyr opnar. Óþarft er að nefna nokkur nöfn eða stjórnmálaflokka og samtök sem þeir (illvirkjarnir) tengjast. Þeir sjúga blóðið úr samlöndum sínum með leigutekjum, skattsvikum og blekkingum.
Stjórnmál og samfélag | 1.4.2017 | 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagskvöldið 24. mars síðastliðinn lifði ég eina mestu sælustund ævi minnar á þriðju svölum fremst fyrir miðju í Eldborg, þegar þjóðargersemi Íslendinga, Víkingur Heiðar Ólafsson lég píanóetíður Philips Glass. Flutningurinn var í einu orð sagt hvort tveggja, unaðslegur og hrífandi. Í raun fá engin orð lýst túlkun Víkings Heiðars á þessum margslungnu píanóverkum sem streyma áfram eins og fljót, sem hegðar sér eftir landslaginu hverju sinni - þessi seiðandi hrynjandi með síbreytilegu ívafi.
Strengjakvartettinn Siggi tók þátt í flutningi nokkurra verkanna. Hljómur hans er fágaður og um leið tær.
Það kom okkur hjónum ánægjulega á óvart hversu góður hljómur var á þessum stað jafnfjærri og við vorum flytjendum.
Etíður Philips Glass eru merkilegt fyrirbrigði þar sem skiptast á tærleiki, glettni, fegurð og flókinn leikur sem veldur því að einatt er sem þrjár hendur séu á lofti í senn - eing og Víkingur Heiðar væri þríhentur! Slík er snilld hans.
Öllum þeim er stóðu að tónleikunum óska ég hjartanlega til hamingju - einkum tónskáldinu og Víkingi Heiðari sem er svo sannarlega einstök þjóðargersemi.
Stjórnmál og samfélag | 26.3.2017 | 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um það leyti sem netbankar voru stofnaðir skömmu eftir aldamótin reið Íslandsbanki eða hvað sem hann hét þá á vaðið og setti sér metnaðarfulla aðgengisstefnu.
Þegar smáforrit fyrir Apple og Android-síma voru kynnt hér á landi fyrir tveimur árum var forrit Íslandsbanka gert að mestu aðgengilegt þeim sem eru blindir og sjónskertir.
Í desember síðastliðnum var appið eða smáforritið endurnýjað og þá hrundi aðgengi blindra snjallsímanotenda.
Eftir að bankanum bárust hörð mótmæli var tekið til óspilltra málanna vegna lagfæringa á aðgenginu. Það virtist snúnara en búist var við.
Valur Þór gunnarsson, þróunarstjóri Íslandsbanka, greindi frá þessu í viðtali við höfund síðunnar.
Sjá krækju hér fyrir neðan.
http://hljod.blog.is/users/df/hljod/files/zoom0014_lr.mp3
Stjórnmál og samfélag | 6.2.2017 | 18:34 (breytt kl. 18:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 319700
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar