Færsluflokkur: Tónlist

Yndislega eyjan mín 40 árum síðar

Tónleikarnir, Yndislega eyjan mín 40 árum síðar, sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu í kvöld, voru vel heppnaðir. Flestir söngvararnir komu ánægjulega á óvart. Nefni ég einkum Sigríði Beinteinsdóttur, Margréti Eir, Magna Ásgeirsson og Þór Breiðfjörð. Enginn vissi hvað kynnirinn hét því að hann var hvorki kynntur í efnisskrá né kynnti hann sig sjálfur. Hann stóð sig þó með prýði.

Margar útsetningar Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar voru ágætar og hljóðblöndunin yfirleitt góð. Þó fór styrkurinn nokkrum sinnum yfir þolmörk vinstra eyra á sjötugsaldri.

Það var áberandi hvað textar laganna voru vel ortir. Af yngri textunum skáru sig úr Kvöldsigling, tvö lög Stuðmanna og Þjóðhátíðarlagið 1997. Verstu textar kvöldsins voru Vestmannaeyjar, lag og ljóð eftir Jóhann G. Jóhannsson. Þar er nafnið Vestmannaeyjar haft í eintölu og þótti mér, þegar lagið kom út á hljómplötu 1977 með ólíkindum að Logar skyldu syngja þetta. >Þá hafði verið efnt til ljóðasamkeppni í tilefni tónleikanna og var ljóð valið, sem ort var árið 1977. Þar var ekki fylgt hefðbundnum reglum ríms og ljóðstafa. Auk þess voru ambögur í ljóðinu, sem hefði átt að lagfæra, einkum í ljósi þess að sú sem setti saman ljóðið, var 19 ára árið 1977 og hefur væntanlega farið fram síðan. Ljóðið sýndi í hnotskurn þær hrakfarir sem íslensk textagerð hefur orðið að sæta að undanförnu.

Í lok tónleikanna var sungið lag Brynjúlfs Sigfússonar við kvæði Sigurbjörns Sveinssonar, Yndislega eyjan mín. Lagið var upphaflega ætlað Samkór Vestmannaeyja, en um tíma voru í kórnum miklar sópranraddir. Í kvöld var lagið sungið í B-dúr. Betur hefði farið á að færa það niður í G-dúr. Þá hefðu fleiri getað tekið undir.

Aðstandendum tónleikanna er þökkuð góð skemmtun og flytjendum afbragðs flutningur.


Skemmtilegur þáttur um Vestmannaeyjar sem yljaði hjartarótunum



Að undanförnu hefur verið útvarpað þáttum um íslenska
dægurlagatónlist áranna 1930-1990, en þessa þætti gerði Svavar Gests í tilefni
sextugsafmælis Ríkisútvarpsins árið 1990.



Í kvöld, 29. Desember, var 13. Þættinum útvarpað og fjallaði
hann um Vestmannaeyjar. Oddgeir Kristjánsson og þjóðhátíðarlög hans voru
meginefni þáttarins auk textahöfundanna. Ýmislegt bar þó fleira á góma og mátti
m.a. heyra tvíbura ú Vestmannaeyjum í mútum.



Hægt er að hlusta á þáttinn hér:



http://www.ruv.is/sarpurinn/laugardagskvold-med-svavari-gests/29122012-0



Svavar var margfróður um dægurlagatónlist fyrri ára, en gáði
ekki ævinlega að heimildum. Þannig heldur hann því fram að einungis tvö lög
eftir Oddgeir Kristjánsson hafi verið gefin út á hljómplötum áður en Svavar gaf
út fjögurra laga plötu með lögum eftir Oddgeir árið 1964. Þetta er ekki alls
kostar rétt hjá Svavari. Árið 1962 eða 1963 söng Ragnar Bjarnason Ship ohoj inn
á hljómplötu og áður hafði lagið Gamla gatan verið gefið út ásamt laginu Heima.
Gömlu götuna söng Helena Eyjólfsdóttir og Haukur Morthens Heima. Lögin voru því
a.m.k. fjögur eftir Oddgeir, sem áður höfðu komið út. Þá hafa menn löngum velt
vöngum yfir tilefni þess að Ási í bæ orti ljóðið „Ég veit þú kemur". Í þessum
þætti var birtur viðtalsbútur Árna Johnsen við Ása þar sem hann greindi frá því
að textinn við lagið hefði staðið á sér og hefði orðið til daginn áður en
Hljómsveit Svavars Gests kom til Vestmannaeyja. Þetta stenst ekki hjá Ása.
Fyrir því eru eftirtalin rök:



Svavar Gests kom með hljómsveit sína á þjóðhátíð árin 1961,
63 og 65. Árið 1961 var þjóðhátíðarlagið „Sólbrúnir vangar, sem Ragnar
Bjarnason söng, 1962 Ég veit þú kemur, sem Lúdó og Stefán flutti í skelfilegri
útsetningu, sem Oddgeiri sárnaði mjög, 1963 lag sem nú heitir Þá var ég ungur,
en var þá flutt við bráðabirgðatexta Ása sem kallaður var Steini og Stína og
árið 1965 „Ég vildi geta sungið þér", sem var síðasta þjóðhátíðarlagið sem
Oddgeir samdi. „Þar sem fyrrum" var þjóðhátíðarlag ársins 1964 og flutti
hljómsveitin Logar það með prýði.




Harmsaga - nýtt útvarpsleikrit

Dagskrá Rásar eitt var fjölbreytt í dag. Hér verður fjallað um tvennt:

Það er jafnan með nokkurri tilhlökkun að ég sest niður og hlusta á ný útvarpsleikrit. Í dag var Harmsaga eftir Mikael Torfason frumflutt. Leiknum stýrði Sveinbjörn Birgisson, Hallvarður Ásgeirsson samdi tónlist og Ragnar gunnarsson hljóðritaði.

Söguþráðurinn var togstreita milli hjóna, sem vissu vart hvað hitt vildi og voru tvístígandi um þá ákvörðun að slíta hjónabandinu. Í leikritinu komu við sögu börn, en þau voru túlkuð með leikhljóðum með sama hætti og ýmiss konar búnaður er nýttur á leiksviði til þess að túlka margs konar fyrirbæri mannlífsins.

Flest var vel gert í þessu leikriti. Stundum var hljóðmyndin svo þröng, þegar samband hjónanna var náið, að víðómið nýttist ekki. Þarna hefði þurft að skapa umhverfi með einhvers konar þruski svo að menn fengju á tilfinninguna að fólkið væri statt í íbúð.

Í leikritinu koma fyrir samfarir og voru þær leiknar á sannfærandi hátt. Maðurinn svalaði sér á skömmum tíma og konan virtist einnig fá fullnægingu. Þó kann að vera að hún hafi látið sem svo væri. Leikmyndin (hljóðmyndin) var ekki sannfærandi. Ekkert rúmfatahljóð heyrðist og afstaða hjónanna skilaði sér illa.

Það er með ólíkindum hvað íslenskum rithöfundum þykir skemmtilegt að skrifa sóðalegan, enskuskotinn og illa saminn texta, en því miður bar mjög á því í leiknum. Ef til vill er það svo að gömul og gild blótsyrði séu að fara forgörðum í málinu og flest eða allt meiki sens eða sé andskotans fokking ..... Hitt er þó verra að ekki sé lengur hægt að skrifa á kjarnyrtu máli án þess að allt vaði í sóðaskap. Fyrir það fær Mikael Torfason falleinkun og leikritið í heild aðeins þrjár stjörnur.

Kl. 16:05 var þáttur Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, Úr tónlistarlífinu, á dagskrá. Birt var hljóðrit af tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar til minningar um kanadíska slaghörpuleikarann Glenn Gould. Efnisskráin var einstaklega vel saman sett og viðtöl við Glenn Gould, sem skotið var inn á milli ásamt hljóðritum af leik hans, gerðu dagskrána stórmerka. Auk þess er jafnan unun að hlusta á kynningar Arndísar, en þær eru fluttar á fága-an hátt og fögru máli.

Víkingur Heiðar túlkar það sem hann leikur einatt með afar sérstæðum hætti. Þannig endaði fyrsta verkið á stuttum samhljómi og var eins og hann hefði rokið frá hljóðfærinu. Auðvitað var ekki svo. Víkingur veldur ekki vonbrigðum.


Elsa á Bítlatónleikum

Um þessar mundir er þess minnst að þekkt Bítlalag kom út í Bretlandi. Á Rás tvö í morgun voru taldir upp nokkrir einstaklingar sem vitað var að sótt hefðu Bítlatónleika.
Elsa Guðmundsdóttir, kennari,  er ein þeirra sem nutu þess að fara á tónleika Bítlanna árið 1964. Hún sagði mér sögu sína fyrir nokkrum árum:
http://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1100086/

 


Sýning auglýsingamyndar stöðvuð um borð í Herjólfi

Nokkuð hefur verið fjallað um brot á sæmdarrétti vegna ógeðfelldrar endurvinnslu lagsins Þú og ég. Kvikmyndagerðarmenn hefur hent nokkrum sínum að gleyma að leita heimildar höfunda til þess að nota tónlist þeirra í kvikmyndum.

Fyrir um aldarfjórðungi varð sá atburður að farið var að sýna kynningarmynd um Vestmannaeyjar um borð í Herjólfi. Lag nokkurt, Vestmannaeyjar, sem ég er höfundur að, var notað sem undirstaða hljómgrunnsins.

Eftir því sem mér var tjáð var ætlunin að sýna þessa mynd í nokkra mánuði og átti að fjármagna hana með auglýsingum. Þar sem ekki hafði verið leitað heimildar höfundar til þess að nýta lagið var STEF fengið til að stöðva sýningu myndarinnar og var það gert bæði fljótt og vel. Framleiðandi myndarinnar hafði að engu bréfaskriftir þar til hótað var málsókn.

Heimildir herma að einungis hafi einn auglýsandi greitt auglýsingu sína og varð því tap af framleiðslu myndarinnar. Þegar upp var staðið nam greiðslan einungis 5.000 krónum. Þannig tapaði kvikmyndagerðarmaðurinn bæði fjármunum og ærunni.


Söngblæstri útvarpað úr Hörpu

 

Í dag var útvarpað hljóðriti frá tónleikum, sem haldnir voru í Hörpu á vordögum undir heitinu „Ég veit þú kemur". Var þar vitnað til hins ágæta lags Oddgeirs Kristjánssonar við texta Ása í Bæ.

Á tónleikunum fluttu þau Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson, tveir af okkar fremstu dægurlagasöngvurum,  ýmsar söngperlur frá 6. og 7. áratugnum. Útsetningarnar voru eftir Hrafnkel Orra Egilsson, sem hefur getið sér gott orð fyrir útsetningar sínar á íslenskum dægurlögum, sem sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt ásamt einsöngvurum við góðan orðstír.

 

Hrafnkell Orri Hitti ekki ævinlega í mark

 

Nú brá hins vegar svo við að Hrafnkatli brást nokkuð bogalistin í Oddgeirsútsetningunum. Svo virðist sem hann hafi ekki leitað í útgáfu sönglaga Oddgeirs, heldur tekið mið af útsetningum og breytingum, sem kunnur útsetjari gerði á síðustu öld. Þar með voru lögin að hluta til afskræmd eins og lagið „Heima", sem mörgum Eyjamönnum þykir vænt um.

Undirritaður ákvað að fara ekki á þessa tónleika í vor. Ástæðan var sú að hann hefur nokkrum sinnum hlýtt á tónleika í Eldborg þar sem farið hefur saman rafmögnuð tónlist og leikur órafmagnaðra hljóðfæra. Hefur áður verið fjallað um það á þessum síðum. Þar sem greinarhöfundur telur að mikið vanti á að hljóðstjórnendur Hörpu þekki hvernig eigi að vefa saman órafmagnaða tónlist og háspinnutónlist, ákvað hann að láta ekki ofbjóða dvínandi heyrn sinni heldur vænti hann þess að tónleikunum yrði útvarpað.

 

Blásið í hljóðnemann

 

auðvitað bar ekki á þessu í útsendingu ríkisútvarpsins, enda kunna hljóðmenn Ríkisútvarpsins vel sitt fag. Hitt var verra að Sigurður andaði um of í hljóðnemann svo að veruleg lýti voru að. Virðist augljóst að hann kunni ekki að beita hljóðnemanum og hafi hann of nærri sér.

Á Netinu er hægt að finna fjölda greina sem fjalla um notkun stefnuvirkra hljóðnema eins og þeirra, sem söngvarar og ræðumenn nota. Meðal annarra atriða er mönnum bent á að hafa hljóðnemann til hliðar við munninn og láta hann vísa að munnvikunum. Þannig er hægt að komast nærri hljóðnemanum en forðast um leið þennan blástur, sem lýtir svo mjög flutning margra söngvara og ræðumanna.

 


Þegar komið var aftan að áheyrendum

 

Eins og undanfarin sumur stendur nú yfir orgelsumar í Hallgrímskirkju. Að  þessu sinni markast það af því að safnað er fé til viðgerða og endurbóta á hinu mikla clais-orgeli kirkjunnar, en 20 ár eru liðin frá því að hljóðfærið var tekið í notkun. Auk nauðsynlegs viðhalds verður að sögn Harðar Áskelssonar endurnýjaður ýmis hugbúnaður hljóðfærisins, en það liggur í hlutarins eðli að hugbúnað þarf að endurnýja eftir því sem tækninni fleygir fram. Nú verður m.a. hægt að varðveita stillingar orgbleikara á USB-kubbum og jafnvel verður hægt að hljóðrita leik þeirra.

 

Hörður Áskelsson og Inga Rós Ingólfsdóttir léku á orgel og selló

 

Okkur hjónunum hefur gefist tækifæri til að hlusta á nokkra þeirra frábæru listamanna sem komið hafa fram í sumar. Eru tónleikar þeirra hjóna, Harðar Áskelssonar og Ingu Rósar Ingólfsdóttur, sem haldnir voru 17. júní síðastliðinn, ógleymanlegir. Þau léku verk eftir Saint-Saëns og Rachmaninoff auk verka eftir Höller, Jón Leifs, Jón Hlöðver Áskelsson og Kjell Mörk Karlsen. Þrátt fyrir hinn gríðarlega stærðarmun á sellói og orgelinu gat Hörður hamið hljóðfæri sitt svo að hvort þeirra naut sín til fulls. Samleikur þeirra hjóna var eins og gott hjónaband, samvinna og virðing í fyrirrúmi. Inga rós hefur áferðarfagran tón og naut „þetta pínulitla selló", eins og Hörður orðaði það í samtali við höfund þessarar færslu, sín til hins ítrasta.

 

Komið aftan að áheyrendum

 

Í dag voru enn haldnir tónleikar í Hallgrímskirkju, þar sem leiddu saman list sína strengjaleikari og orgaleikari. Þau Eyþór Ingi Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðluleikari, léku verk eftir Svendsen,

Prokofiev, Barber, Lindberg og íslensku tónskáldin Magnús Blöndal Jóhannsson, Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Oliver Kentish auk þess sem Eyþór Ingi og Lára Sóley

léku af fingrum fram.

Í raun hófu þau tónleikana með því að koma aftan að áheyrendum. Hófust þau handa við hið minna orgel kirkjunnar, sem er skammt frá altarinu og léku tilbrigði við lag Inga T. Lárussonar, „Ég bið að heilsa", eins og það er oftast nefnt. Samleikurinn var hægur og flæddi um alla kirkjuna. Þegar honum lauk var lokatóni orgelsins haldið þar til þau Eyþór Ingi og Lára Sóley hófust handa við stórhljóðfærið og varð úr þessu ein unaðsheild.

Lára Sóley hefur fallegan tón. Þótt stundum örlaði á því að hún hefði vart í fullu tré við meðleikara sinn verður að segja sem var, að samleikur þeirra var einstæður, túlkunin nærfærin og einatt blíð, þegar við átti.

 

Þessir tónleikar eu einungis teknir hér sem dæmi um hið ágæta efnisval og úrval listamanna, sem komið hefur fram í sumar. Enn er þessari tónlistarveislu ekki lokið og margt í boði.

 

 

 

 


Orkuríkur fiðluleikur

fimmtudagskvöldið 10. maí síðastliðinn flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands 1. fiðlukonsert Sjostakovitsjs og hljómkviðu Síbelíusar nr. 2. finnski hljómsveitarstjórinn Pietari Inkinen hélt á tónsprotanum og Sigrún Eðvaldsdóttir lék einleik.

Eins og hljómkviða Síbelíusar var leiðinleg áheyrnar og á köflum allt að svæfandi, þegar hún varð einna rómantískust, var leikur Sigrúnar hrífandi. Tónninn var þéttur og túlkunin bæði orkurík og mild, þegar það átti við. Að vísu gerðist eitthvað í 2. þætti, sem undirritaður kann ekki skýringu á.

Mér hefur ævinlega þótt 2. sinfónía Síbelíusar ósamstæður ruglingur með ómstríðum köflum, sem tónskáldið virtist ekki ráða við, en þess á milli mildum tónum sem gæla við eyrað. Ég gæti ímyndað mér að líkja mætti tónverkinu við vatn, þar sem skiptust á vakir og ískrapi, sem fólk þyrfti að sullast gegnum á árabáti. Annað veifið gengur róðurinn vel, en svom þyngist hann og veldur ræðurunum næstum því uppgjöf. Ræðararnir eru áheyrendur, en hljómsveitin vatnið og stjórnandinn vindurinn, sem hreyfir til íshroðann.

Ýmsir hafa fjallað um þessa tónleika og fær sigrún Eðvaldsdóttir sums staðar slæma dóma - óverðskuldaða dóma. Fróðlegt væri að vita hvers vegna gera þurfti hlé á flutningi verksins í öðrum þætti. Ég ræddi við eiginkonu mína um að annaðhvort hljómsveitin eða Sigrún hefðu farið fram úr sér og virðist ríkarður Örn Pálsson komast að svipaðri niðurstöðu í Morgunblaðinu í dag.

Íslenskir einleikarar fá of sjaldan tækifæri til að leika með sinfóníuhljómsveit Íslands. Við eigum marga tónlistarmenn sem geta mætavel státað af álíka snilld og ýmsir, sem sækja landsmenn heim og gæða þeim á list sinni. Sú staðreynd, að söngvarar og einleikarar fá hér fá tækifæri, getur sett mark sitt á leik þeirra.

Öllum getur orðið á í messunni og er það vandi allra listamanna á öllum tímum. Ástæðurnar geta verið jafnmismargar og tónleikarnir eða listamennirner eru margir. Ekki verður velt frekar vöngum yfir því, sem gerðist, en samleikur hljómsveitar og Sigrúnar var yfirleitt frábær. Af 8. bakk fyrir miðju virtist fiðlan vera í góðu jafnvægi við hljómsveitina, svo að fátítt er að heyra á tónleikum hérlendis.


Athyglisverður fyrirlestur um menningu smáþjóðar

Miðvikudaginn 25. þessa mánaðar hélt kínverskur fræðimaður, zhang Boy, prófessor við Tónlistarháskóla ríkisins í Beijing, fyrirlestur um tónlistararfleifð AWA-þjóðarinnar, sem býr í Yunnan-fylki í suðvestur-Kína. Zhang var hér á ferð ásamt nemanda sínu, ungri stúlku, sem vinnur að meistararitgerð um þjóðlega, íslenska tónlist.

Awa-menn eru um 350.000 og búa flestir þeirra innan kínversku landamæranna, en fámennur hópur býr í Burma.

Skrifað er um fyrirlesturinn á bloggi Kínversk-íslenska menningarfélagsins.


Athyglisverðir tónleikar í Beijing

 

Laugardaginn 7. apríl hófst 3. tónleikaröð starfsársins hjá Þjóðarsinfóníuhljómsveitinni í Beijing. Að þessu sinni verða haldnir 11 tónleikar, þar sem fram koma ýmsar af þekktustu sinfóníuhljómsveitum Kínverska alþýðulýðveldisins. Okkur hjónum var boðið á tónleikanna og nutum þeirra í ríkum mæli. Ég hef ekki verið á sinfóníuhljómleikum í Beijing í 26 ár og var ánægjulegt að verða vitni að hinni miklu og öru þróun sem hefur orðið á sviði sígildrar, vestrænnar tónlistar í Kína.

Í ávarpi, sem embættismaður kínverska menningarmálaráðuneytisins flutti við upphaf tónleikanna, kom fram að stjórnvöld hefðu ákveðið að niðurgreiða aðgöngumiða, sem þættu orðnir of dýrir til þess að almenningur fengi notið sinfónískrar tónlistar. Eftir því sem okkur virtist, kostuðu miðarnir á þessa tónleika álíka mikið og miðar á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu. Hljómsveitarstjóri var Lin Tao, sem hefur getið sér gott orð sem hljómsveitarstjóri víða í Evrópu.

 

Kínversk og vestræn tónlist

 

Á tónleikunum voru leiknir þættir úr evrópskum og kínverskum verkum. Tónleikarnir hófust með forleiknum að Ruslan og Ljudmílu eftir glinka. Þar næst var Dans Yaomanna, kínverskt verk frá miðjum 6. áratugnum, þá þrír þættir úr ballettsvítunni Rauðu kvennaherdeildinni og fyrsti þáttur píanókonsertsins, Stofnendurnir, en Guan Xia lauk við að semja hann á síðasta ári. Einleikari var Wu Makino.

Eftir hlé voru þættir úr Svanavatninu og Carmen á dagskrá auk fyrsta þáttar 9. sinfóníu Dvoraks úr nýja heiminum.

 

Þjóðarleikhúsið mikla

 

Tónleikarnir voru haldnir í Þjóðarleikhúsinu mikla, sem stendur nærri Torgi hins himneska friðar í Beijing. Bygging þess hófst árið 2001og var það tekið í notkun árið 2007. Auk tónleikasalar, sem rúmar um 2.000 áheyrendur, er sérstakur salur til óperuflutnings auk annarra smærri sala fyrir ýmsar tegundir tónlistar. Húsið, sem gengur undir nafninu Eggið, mótast mjög af egglaga formum. Þessi mikla listamiðstöð er mikilfenglegt listaverk og svo stór í snium, að Harpa verður hálfgerð smásmíði. Byggingin er sögð hafa kostað 50 milljarða og 400 milljónir íslenskra króna á gengi því sem Seðlabankinn gaf upp þriðjudaginn 10. apríl 2012.

Nokkurrar tilhlökkunar gætti hjá okkur hjónum að bera saman hljómburðinn í Egginu og Eldborgarsal Hörpu. Hljómurinn virtist nokkuð jafn og dreifingin góð. Þar sem við sátum á næstfremsta bekk á öðrum svölum þótti mér djúpir tónar bassans ekki skila sér nægilega vel. Kann þar að hafa valdið hljóðstilling salarins.

 

Um kínversku verkin

 

Flestir lesendur þessa pistils þekkja þau vestrænu verk, sem nefnd hafa verið hér að framan. Dans Yaomanna var upphaflega saminn fyrir hljómsveit með kínverskum hljóðfærum. Verkið er rómantískt og á að endurspegla þjóðleg einkenni Yao-þjóðflokksins. Hefur það notið mikilla vinsælda. Dansinn var saminn árið 1952 og voru höfundarnir tveir: Liu Tieshan og Mao Yuan. Hljómsveitin lék þetta verk ágætlega og naut viðkvæmni þess sín auk fjörugra kafla, þar sem slagverkið naut sín.

 

Ég hafði hlakkað mikið til að heyra þættina úr Rauðu kvennaherdeildinni, en það verk hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því að ballettinn var gefinn út á hljómplötum árið 1972. Við hlið mér sat kínversk vinkona okkar hjóna, Lu Yanxia, sem var barnastjarna í Jinan og dansaði þá hlutverk aðalpersónunnar, wu Qinghua. Nutum við verksins í ríkum mæli. Elín þekkir þetta verk einnig mætavel, enda eru kaflar úr því fluttir hér á heimilinu við og við. Hljómsveitin lék forleikinn, Dans rauðu herkvennanna og hluta annars þáttar.

Eins og mörg verk, sem samin voru í menningarbyltingunni, var tónlistin við Rauðu kvennaherdeildina samvinnuverkefni þeirra Du Mingxin, Wu Zuqiang, Wang Yanqiao, Shi Wanchun og Dai Hongcheng.

 

Leikur hljómsveitarinnar var yfirleitt áheyrilegur. Þó var áberandi misræmi milli strengjasveitar og blásara. Einkum virtust básúnurnar óhamdar.

 

Í fyrsta þætti píanókonsertsins Stofnendanna, sem var síðastur á dagskrá fyrir hlé, drukknaði hljómur slaghörpunnar í ofurþunga hljómsveitarinnar. Verkið virðist, eftir því sem dæma má af fyrsta þætti, líkast amerískri kvikmyndatónlist úr bandarískri ástarkvikmynd. Meginstefið er knappt og endar í svo tilfinningalegum hljómi, að hver sá, sem er viðkvæmur í lund, hlýtur að tárast. Vart verður þetta verk talið merkasta framlag Kínverja til píanóbókmenntanna. Svo að öllu sé þó haldið til skila er það lagrænt og fellur sjálfsagt ýmsum, sem eru að byrja að feta sig um vegi vestrænnar tónlistar, vel í geð.

 

Íslendingar, sem eiga leið um Beijing, eru eindregið hvattir til að veita athygli því mikla framboði tónlistar af ýmsu tagi sem er á boðstólnum í borginni. Óhætt er að fullyrða að Beijing verður innan skamms ein þeirra stórborga, sem skartar miklu úrvali alls kyns tónlistar við flestra hæfi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband