Færsluflokkur: Tónlist

Ærandi tónverkir!

Samúel Jón Samúelsson og stórsveit hans eiga sér marga aðdáendur. Þar er fjöldi blásara, trumbuslagara auk manna sem leika á gítar og bassa.

Ég hef nokkrum sinnum heyrt sveitina leika á tónleikum af mikilli fimi og lipurð - jafnvel innlifun. Einn galli hefur verið á gjöf Njarðar - ærandi hávaði.

Hvers vegna í ósköpum þarf að magna upp blásturshljóðfærin og slagverkið svo að hljómurinn afskræmist? Við hjónakornin áttum leið í Hörpu í dag að sækja miða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og þar lék stórsveitin í anddyrinu. Allt ætlaði um koll að keyra og við forðuðum okkur áður en við ærðumst eða fengjum hljóðverk.

Árið 2011 var efnt til afmælishljómleika í Hörpu að heiðra minningu Oddgeirs Kristjánssonar. Þá fengu menn að heyra hvað húsið bar hljóm órafmagnaðrar lúðrasveitar vel.

Í vetur voru hljómleikar til minningar um Ása í bæ, einnig í hörpu. Í lok þeirra voru útsetningar fyrir hljómsveitarundirleik og lúðrasveit. Þá þótti ástæða til að magna allt saman upp og úr varð hálfgerður óskapnaður.

Í sjötugs afmæli Þóris Baldurssonar var enn hið sama upp á teningnum. Hann lék á Hammondorgelið sitt, ágætir trymblar börðu bumbur og Stórsveit Reykjavíkur lék með. Yfirleitt var tónlistin of hátt stillt og á köflum varð hljóðblöndunin alger óskapnaður.

Ætli Samúel Jón Samúelsson og fleiri geri sér ekki grein fyrir að með þessum hávaða er verið að eyðileggja tónlistarheyrn fólks, eða er hávaðinn hluti listarinnar? Spyr sá sem ekki veit, en úr þessu verður alls herjar tónverkur.



Baldursbrá Gunnsteins og Böðvars - frábært listaverk

Ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson verður vafalítið verðlaunasýning ársins 2015, verði hún sett á svið.

Verkið var frumflutt í Siglufjarðarkirkju 5. þessa mánaðar og flutt í Langholtskirkju í kvöld fyrir fullu húsi áheyrenda. Gunnsteinn stýrði flutningnum og stjórnaði 15 manna kammersveit, fjórum einsöngvurum og 8 börnum, sem léku yrðlinga. Texti Böðvars vakti aðdáun og gleði fólks.

Hið sama var um tónlist Gunnsteins sem leitaði víða fanga, allt frá íslenskum stemmum suður og austur til slavneskra dansa. Útsetningarnar voru einstaklega vel gerðar og margt undur fallegt á að hlýða, enda móttökurnar í samræmi við gæðin.

Öllum aðstandendum er hjartanlega óskað til hamingju með þessa tónleika og vafalaust hlakka margir foreldrar, afar og ömmur til þess að gleðja börn og barnabörn með væntanlegri óperusýningu.



Dásemdarverkið Ragnheiður

Eftir hádegið í dag fann ég slóðina að Ragnheiði, óperu þeirra Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar, en henni var útvarpað á skírdag og krækja á hana er enn á vef Íslensku óperunnar. Ég hlustaði á hina ágætu samantekt og kynningar Margrétar Sigurðardóttur ásamt óperunni sjálfri. Öllum sem unna óperutónlist og íslenskri menningu er bent á að þeim þremur tímum, sem varið er til að njóta þessa listaverks, er vel varið. Þetta er í þriðja sinn sem ég hlusta á verkið, fyrst í Skálholti, þá í Eldborg og nú af vefnum. Enn fór svo að hinn átakanlegi lokaþáttur verksins hreyfði við tilfinningunum. Orðaskil heyrðust betur en á sýningunni sjálfri og tóngæðin ásættanleg miðað við það sem gengur og gerist á vefnum. Slóðin er hér: http://ruv.is/sarpurinn/ragnheidur/17042014

Glaðsheimur - vel heppnað tónverk

Á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld var verkið Glaðsheimr eftir Oliver Kentish, einkar áheyrilegt og glaðvært hátíðarverk, samið árið 2010 Hörpu til heiðurs. Verkið var með íslensku ívafi og vel heppnað. Oliver Kentish eru færðar einlægar hamingjuóskir með vel heppnaða tónsmíð.

 

Útsendingin á netinu er hins vegar afleit hjá Ríkisútvarpinu og skilar alls ekki þeim hljómgæðum sem til er ætlast.

Öllu verri var þó hroðvirknisleg kynning verksins á vefsíðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands:

 

Kynning á heimasíðu Sinfóníuhljómsveitarinnar

„Í Gylfaginningu er sagt frá Glaðsheimr sem var samkomuhöll á Iðravöllum í Ásgarði og mun þar gleði jafnan hafa ríkt. Konsertforleikurinn Glaðsheimr eftir Oliver Kentish vísar í þessa frásögn en eiginleg tilurð verksins er þó nýja tónlistarhúsið okkar, Harpa. Verkið er samið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og frábæran hljómburð Eldborgar í huga og bera blæbrigðarík skrif tónskáldsins þess glöggt merki.“

 

Strikað er undir tvær villur.

Orðið Glaðsheimr er ekki í þágufalli og aldrei hef ég heyrt Iðavelli kennda fyrr við magakveisu.

 


Verðskuldaður listsigur í Eldborg

Eldborgarsalur Hörpu var fullsetinn að kvöldi fyrsta mars þegar ópera þeirra Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar, Ragnheiður,  var frumsýnd. Flutningurinn var einstaklega vel heppnaður og öllum aðstandendum til mikils sóma.

Þeir félagar, Friðrik og Gunnar, hafa skapað einstætt listaverk á heims mælikvarða. Salurinn fylltist af sorg þegar Ragnheiður var látinn sverja eiðinn og undir lokin, þegar hún háði dauðastríð sitt og síðar, þegar sonur hennar og yndi afa síns hafði verið jarðsunginnn, var andrúmsloftið sorgþrungið. Víða heyrðist fólk snökta og undirrituðum leið eins og í jarðarför góðs vinar eða ættingja.

Mikill og verðskuldaður fögnuður braust út að sýningu lokinni og voru listamenn og höfundar hylltir óspart.

Petri Sakari stjórnaði kór, hljómsveit og einsöngvurum að alkunnri snilld og lauk fólk jafnframt lofsorði á einfalda en áhrifaríka leikmynd Grétars Reynissonar.

Höfundum og öðrum aðstandendum er óskað af fyllstu einlægni til hamingju með þennan verðskuldaða listsigur.

 


Meistaraverk Áskels Mássonar

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn svissneska hljómsveitarstjórans Baldurs Brönnimanns í kvöld, 20. febrúar, voru ógleymanlegir, áhrifaríkir og skemmtilegir.

Þeir hófust með einu stórfenglegasta tónverki, sem íslenskt tónskáld hefur samið að undanförnu, Slagverkskonsert eftir Áskel Másson. Flutningurinn var fumlaus hjá hljómsveit og einleikaranum, Colin Currie. Konsertinn hófst með ástríðuþrunginni tónaflækju en síðan skiptust á skin og skúrir, gleði, íhugun, fyndni og tröllsháttur auk blíðlyndis og einurðar - allt þetta orkaði á hugann eins og fjölbreytt landslag. Fögnuður áheyrenda var enda mikill.

Eftir hlé var flutt tónverkið First Essay eftir Samuel Barber, samið árið 1938 og í beinu framhaldi án klapps Doctor Atomic Symphony eftir John Adams. Nokkuð fannst mér upphaf ritgerðar Samuels ástríðuþrungið en þessi stutta hugleiðing er áhrifamikil og leiðir hugann að ýmsu sem varð á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Verk Johns Adams er í raun svíta úr samnefndri óperu sem fjallar um sálarstríð þeirra sem stóðu að smíði fyrstu kjarnorkusprengjunnar. Dýpt þessa smáskammtaverks er svo mikil að það verður vart flutt við annað er bestu hljómburðaraðstæður. John Adams hefur samið nokkrar athyglisverðar óperur um atburði 20. aldar. Einna þekktust er óperan "Nixon í Kína", en Sinfóníuhljómsveitin hefur flutt stuttan þátt úr henni, "Formaðurinn dansar".

Hjalti Rögnvaldsson hafði eftir Halldóri Blöndal að hann hefði vart heyrt glæsilegra íslenskt verk að undanförnu. Þessi orð Halldórs og hrifning okkar hjónanna og Hjalta ásamt almennu lofi áheyrenda leiða hugann að þeirri staðreynd að fá íslensk tónskáld virðast eiga upp á pallborðið hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Í raun ætti hljómsveitin að flytja eitt verk eigi sjaldnar en á einna tónleika fresti. Nú má telja þau tónskáld á fingrum annarrar handar sem flutt eru eftir tónverk á vegum hljómsveitarinnar á hverjum vetri.

Undirritaður spurði Misti Þorkelsdóttur hvernig henni hefði þótt konsert Áskels Mássonar. Lauk hún miklu lofsorði á verkið og urðum við sammála um að konsertinn væri hinn áskelskasti og langt umfram það.

Öllum aðstandendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þá ekki síst Áskatli Mássyni sem hefur enn einu sinni sannað að hann er á meðal fremstu slagverkstónskálda heims.

Þeim sem hafa hug á að lesa nánar um tónleikana skal bent á síðu Sinfóníuhljómsveitarinnar

http://www.sinfonia.is/tonleikar/nr/2163


Minnisstæðir tónleikar Philipps Glass og meðleikara

Það var allmerkileg reynsla að hlýða á Philipp Glasss ásamt meðleikurum sínum, þeim Maki Namekawa og Víkingi Heiðari Ólafssyni, flytja 20 etýður tónskáldsins.

 

Verkin eru dæmi um "smáskrefatónlist" sem átti blómaskeið sitt fram á 9. áratuginn. Þrátt fyrir hæga framvindu verkanna og hljómmálsins er eitthvað seiðandi við tónlistina og maður sogaðist einhvern veginn inn í hana. Í verkunum brá fyrir einföldum undirleik með svo flóknu ívafi að sumir hefðu getað haldið að stundum væri leikið þríhent eða fjórhent.

 

Það kom í ljós að aldurinn er farinn að segja til sín hjá tónskáldinu. Villur voru óvenju margar og einhvern veginn fannst mér honum mistakast á stundum að beisla hljómflæðið með notkun pedalanna. En meðleikarar hans bættu það svo sannarlega upp. Þau fóru bæði á kostum og túlkuðu bæði með sannfærandi hætti tilfinningar þær sem leyndust í verkunum.

 

Þegar upp er staðið verður ályktunin sú að etýðurnar séu alls ekki einhæf verk heldur listrænn tónvefur, þar sem efniviðurinn er margslunginn og vandlega spunninn. Úr þessum efnivið einfaldleikans verða til óbrotgjörn listaverk.

 

 


Austrið er rautt - upphaf jólasálms

Að vanda verður enn birt á þessu svæði aðventuversið "Austrið er rautt", sem ort var við samnefnt lag. Fyrst var lagið ástarsöngur, þá lofsöngur um Mao formann, síðan afmælissöngur og nú síðast aðventulag.

Það er kostur góðra laga að nota má þau við ýmis tækifæri.

Austrið er rautt,

upp rennur sól.

Ennþá koma þessi blessuðu jól.

Svanni fátækur son Guðs ól -

Halelúja!

Hann vér tignum heims um ból.

Hringur Árnason söng þetta 12. desember 2007, þá á 14. ári. Nú syngur Hringur bassa í Hamrahlíðarkórunum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Yndisstund í Kaldalóni

Í kvöld nutum við hjónin þess að hlusta á söngkonurnar
Hallveigu Rúnarsdóttur og Sigríði Ósk Kristjánsdóttur flytja ýmsar söngperlur
íslenskra tónmenntar í Kaldalóni Hörpu. Með þeim lék Hrönn Þráinsdóttir á
flygil og reyndist einnig góður liðsmaður í þríraddaðri útsetningu Jóns
Ásgeirssonar í síðasta erindi vögguvísunnar, Sofðu unga ástin mín. Á dagskrá
voru auk þess lög eftir Atla Heimi Sveinsson, Tryggva M. Baldvinsson, Sigvalda
Kaldalóns, Emil Thoroddsen, Karl Ó. Runólfsson og Jórunni Viðar auk stórkarlalegrar
útsetningar Jóns Leifs á laginu Ísland farsældarfrón.

Flutningur þessara þriggja kvenna var jöfnum höndum -
fágaður, fagur og skemmtilegur. Þær hrifu áheyrendur með sér. Skýringarnar, sem
voru ætlaðar erlendum áheyrendum. Voru vel samdar og juku áhrif lags og ljóðs.

Bjarni Thor Kristinsson, hinn mikilhæfi bassasöngvari, hefur
staðið fyrir tónleikahaldi handa ferðamönnum í Hörpu undanfarin sumur og er svo
víðsýnn, að hann fær með sér aðra söngvara og veitir þeim tækifæri til að tjá
list sína. Þegar við hugðumst þakka honum fyrir var hann horfinn af vettvangi.

Þessi kvöldstund verður ógleymanleg. Eindregið er mælt með
því að Íslendingar bendi erlendum kunningjum og vinum á fjársjóð íslenskra
sönglaga og njóti sjálfir hins fágaða flutnings. Ekki spillir að brugðið er upp
myndum og hljóðritum. Sem dæmi má nefna að þær stöllur fluttu bæði lag Jóns
Ásgeirssonar við Maístjörnu Halldórs Laxness og finnska tangóinn, sem ljóðið
var upphaflega samið við. Síðasta erindið söng Halldór sjálfur við undirleik
Hrannar, hló síðan og sagði að sennilega hefði maður nú ekki verið lengi að
yrkja þetta.

Söngdagskráin er breytileg frá einu kvöldi til annars og er
því víst að enn verður haldið í Hörpu við tækifæri að njóta íslenskra
söngperlna.


Vanþekking auglýsingafólks á íslenskri tungu

Á morgun leggur Húni annar í hringferð um Ísland og er það vel. Safnað verður fé til þarfra mála og leggja listamenn söfnuninni lið.

Auglýsing þessarar ferðar er illa gerð og dapurlegt til þess að hugsa að starfsfólk auglýsingastofunnar, sem gaf e.t.v. vinnu sína, skyldi kasta til hennar höndunum. Sem dæmi má nefna að staðarnöfn eru í nefnifalli og dagsetningarnar einnig. Þennig verða tónleikarnir á eftirtöldum stöðum (ekki bein tilvitnun): "Seyðisfjörður fimmti júlí, Vestmannaeyjar sjöundi júlí o.s. frv., þótt lesa hefði átt Vestmannaeyjum sjöunda júlí o.s.frv.

Eitt sinn vann Þórhallur Guttormsson við að fara yfir auglýsingar í sjónvarpi. Nú virðist sem Ríkisútvarpið hirði ekki lengur um orðfæri auglýsenda. Auglýsingalestur er hluti menningarstarfsemi stofnunarinnar og málfar þeirra hefur mikil áhrif á málskynjun fólks.

Húni annar er varðveittur til þess að bjarga menningarverðmætum og sýna þeim virðingu. Leitt er til þess að hugsa að þeir sem orðuðu auglýsingarnar stuðli með vanþekkingu sinni eða kæruleysi að eyðileggingu annarra verðmæta. Hvers á íslensk tunga að gjalda?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband