Færsluflokkur: Tónlist

Þrymskviða vaknar af þyrnirósarsvefni

Í fyrrakvöld var gamanópera Jóns Ásgeirssonar, Þrymskviða, flutt í Norðurljósal Hörpu við mikinn fögnuð áheyrenda. Var hún svo - öðru sinni flutt í gærkvöld og ætlaði allt um koll að keyra í lok sýningar, slík var hrifning áheyrenda.

 

Í föstudagsblaði Morgunblaðsins 26. október, fjallaði Guðrún Erlingsdóttir um sýninguna.

 

    1. Brot úr umfjöllun Guðrúnar

„Ég skil ekki af hverju Þrymskviða hefur ekki verið sett oftar upp. Það eru ekki til margar íslenskar óperur og gamanóperan Þrymskviða var sú fyrsta sem sett var á svið. Þetta er alveg frábær ópera sem sýnd var í fyrsta og eina skiptið á sviði 1974,“ segir Bjarni Thor Kristinsson, bassi sem leikstýrir Þrymskviðu sem flutt verður í Norðurljósasal Hörpu í kvöld og annað kvöld kl. 20.

Bjarni segir að höfundur Þrymskviðu, tónskáldið, Jón Ásgeirsson, hafi fagnað 90 ára afmæli nýverið og það hefði þótt tilhlýðilegt í tilefni þess og 100 ára fullveldis Íslands að setja óperuna á svið aftur.

„Það er mikið lagt í sýninguna sem skartar átta góðum einsöngvurum auk Háskólakórsins sem fer með hlutverk ása og þursa. Í kórnum syngja 70 manns og 40 manna Sinfóníuhljómsveit unga fólksins sér um tónlistina,“ segir Bjarni Thor og bætir við að mikil áhersla hafi verið lögð á að breyta Norðurljósum Hörpu í framúrstefnulegt leikhús og það verði spennandi að sjá hvernig áhorfendur taki þeim breytingum.

Stjórnandi Þrymskviðu er Gunnsteinn Ólafsson, stjórnandi Háskólakórsins. Einsöngvarar í óperunni eru þau Guðmundur Karl Eiríksson baritónn í hlutverki Þórs, Keith Reed bassa-baritónn í hlutverki Þryms, Margrét Hrafnsdóttir sópran í hlutverki Freyju og Agnes Þorsteinsdóttir mezzósópran í hlutverki Grímu. Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór syngur hlutverk Heimdallar, Eyjólfur Eyjólfsson tenór hlutverk Loka, Gunnar Björn Jónsson hlutverk 1. áss og Björn Þór Guðmundsson hlutverki 2. áss.

Óperan Þrymskviða fjallar á gamansaman hátt um það þegar þrumuguðinn Þór uppgötvar að hamar hans, Mjölnir, er horfinn. Þrymur þursadrottinn hefur rænt Mjölni og heimtar Freyju í lausnargjald en hún er ófáanleg til þess að fórna sér fyrir hamarinn. Þór bregður þá á það ráð að fara til Jötunheima í kvenmannsgervi í því skyni að endurheimta vopn sitt í fylgd Loka Laufeyjarsonar.”

 

    1. Upplifun undirritaðs

Undirritaður fór á Þrymskviðu árið 1974 og hreifst svo að hann hefur verið haldinn Þrymskviðuheilkenninu síðan. Þegar óperunni var útvarpað á sumardaginn fyrsta (sennilega 1977) hljóðritaði ég flutninginn og hef hlustað -öðru hverju síðan á valda kafla.

Þegar ljóst varð að óperan yrði sýnd rifjaði ég upp gömul kynni og urðu þau enn kærari. Hver laglínan og arían rifjaðist upp fyrir mér og úr varð nær skefjalaus tilhlökkun.

 

    1. Hvernig tókst svo til?

Ég fór í gærkvöld ásamt sonarsyni og vinkonu okkar að njóta óperunnar – sennilega í 7. skipti, en mér telst til að ég hafi farið 6 sinnum á hana árið 1974. Elín, kona mín, hafði farið kvöldið áður ásamt sonarsyni og naut sýningarinnar – heillaðist af óperunni.

Flutningurinn stóð fyllilega undir væntingum. Ljóst var að tónskáldið hafði gert ýmsar breytingar á verkinu og þóttu mér þær flestar til bóta.

Það var mikill munur á flutningi Þrymskviðu frá því að Jón Ásgeirsson stjórnaði flutningnum í Þjóðleikhúsinu fyrir 44 árum. Þá var gangur verksins nokkru hægari en undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar og kór Þjóðleikhússins hljómaði með allt öðrum hætti en Háskólakórinn, þar sem ungar raddir setja svip sinn á flutninginn. Segja verður hverja sögu eins og er að flutningurinn var á stundum unaðslegur.

 

    1. Áhrifin

Undir eins í hinu magnaða upphafi óperunnar fór hugurinn á flug og undirritaðan langaði mest að syngja með. En þar sem nokkuð skorti á fegurð raddar hans hélt hann aftur af sér til að spilla ekki ánægju sessunauta sinna.

En iðulega sló hann taktinn og bærði varirnar – söng innra með sér.

Hámarki náði sönggleði mín þegar kom að lokaaríunni. Þá gat ég ekki hamið mig en söng áttund lægra en kórinn sjálfur og ekki af miklum raddstyrk, enda hefur hann dvínað nokkuð með aldrinum.

 

    1. Frammistaðan og umgjörðin

Ungviðið í kórnum og hljómsveitinni, sem hafði einnig á að skipa nokkrum atvinnumönnum, stóð sig að flestu leyti frábærlega. Gunnsteinn stýrði óperunni af mikilli röggsemi svo að efni hennar komst vel til skila.

Einsöngvarar áttu góða spretti. Eins og venjulega var fremur erfitt að greina textann á stundum eins og gengur og gerist þegar óperur eru fluttar á íslensku.

Leikstjórn og sviðssetning var til mikillar fyrirmyndar. Ýmislegt var fært til nútímahorfs. Þannig virtust Jötunheimar vera allsherjar eiturlyfjabæli og greinilegt var að Þór og fleiri áttu í talsverðum viðskiptum. Allt jók þetta á ánægju áhorfenda.

 

Gunnsteinn á miklar þakkir skyldar fyrir þetta einstaka framtak sitt. Um hitt má síðan spyrja hvers vegna í ósköpunum Íslenska óperan skyldi ekki taka Þrymskviðu upp að nýju í tilefni af níræðis afmæli Jóns Ásgeirssonar. Í staðinn hljótum við að vænta þess að einhver þeirra ópera, sem eftir hann liggja og hafa ekki verið fluttar, verði tekin til sýningar.

 

    1. Að lokum:

Aðstandendum öllum eru færðar einlægar þakkir fyrir gott menningarafrek og tónskáldinu þakka ég af heilum hug fyrir að hafa gefið þjóðinni menningarverðmætið, óperuna ÞrymskviðuheilkenninuEf nokkuð getur aukið áhuga Íslendinga á menningarsögu sinni eru það verk eins og Þrymskviða.

 

 


Borðdúkurinn sem breytti lífi mínu

Stundum valda smáhlutir straumhvörfum í lífi fólks. Í dag eru 50 ár síðan alger straumhvörf urðu í lífi mínu.

Frá því um miðjan ágúst og fram í september 1967 vann ég við að skrifa námsefni á blindraletur handa okkur tvíburunum. Lauk því starfi rétt fyrir miðjan septembermánuð.
Föstudaginn fórum við mæðgin að heimsækja þau heiðurshjónin, Andreu Oddsteinsdóttur og Halldór Þorsteinsson, en þau bjuggu þá í virðulegu húsi við Miðstræti í Reykjavík. Á eldhúsborðinu var útsaumaður dúkur sem móðir mín varð mjög hrifin af og vildi vita hvar Andrea hefði fengið hann. Hún vísaði á verslunina Ístorg á Hallveigarstíg.
Ég vissi að þar fengjust hljómplötur frá Asíu en um þetta leyti var ég hugfanginn af arabískri tónlist og héldum við mæðgin þangað.
Þar fengust þá eingöngu hljómplötur frá Kína og olli það mér nokkrum vonbrigðum. En ég keypti tvær.
Annarri plötunni brá ég á plötuspilarann hjá Sigtryggi bróður og Halldóru, konu hans og kom þá í ljós að um kantötu var að ræða fyrir sinfóníuhljómsveit, kór og tenorsöngvara. Í upphafi 3. þáttar hljómaði stef sem ég kannaðist við sem einkennisstef kínverska alþjóðaútvarpsins.
Frómt frá að segja varð ég hugfanginn af tónlistinni og það svo að ég keypti á næstu mánuðum og árum allar þær hljómplötur sem Ístorg átti.
Hvað leiddi af öðru.
Stefán Jónsson, fréttamaður hafði farið í leiðangur til Kína árið áður og sendi hann okkur bræðrum segulbandsspólu með kínverskri byltingartónlist.
Ég hófst handa og hafði bæði samband við kínverska alþjóðaútvarpið sem sendi mér árum saman segulbönd og hljómplötur með kínverskri tónlist og kínverska verslun sem seldi hljómplötur og næsta hálfan annan áratuginn keypti ég tugi titla frá Kína og á sjálfsagt eitthvert mesta safn byltingartónlistar þaðan á Norðurlöndum.
Þá hófst ég handa við dreifingu kínverskra tímarita og bóka hér á landi og hélt því áfram til ársins 1989.
Ég gekk í Kínversk-íslenska menningarfélagið haustið 1969 og hef verið viðloðandi stjórn þess frá árinu 1974, þar af formaður í 30 ár í þremur lotum. Nú verður væntanlega endir á því á næsta aðalfundi félagsins.
Ég hef stundum sagt að Kína sé eilífðarunnusta mín og verður sjálfsagt svo á meðan ég er lífs.
Lagið Austrið er rautt, sem var kynningarstef útvarpsins í Beijing, varð mér svo hjartfólgið að það var leikið sem forspil að brúðarmarsinum í brúðkaupi okkar Elínar og hljómar m.a. sem hringitónn farsímans. Síðar vitnaðist að upphaflega var þetta ástarsöngur sem varð svo að lofsöng um Mao formann.

Ævi mín hefði orðið mun fábreyttari hefðum við mæðginin ekki rekist inn í kaffi til þeirra Andreu og Halldórs.


Fágaður vínardrengjakór með glamrandi stjórnanda

Ástæða er til að hvetja tónlistarunnendur til að fara í Norðurljósasal Hörpu á morgun kl. þrjú síðdegis og hlusta á Vínadrdrengjakórinn.  Auðvitað telst það heimsviðburður hérlendis er slíkur kór kemur hér fyrsta sinni.
Flutningur kórsins var bæði fágaður og agaður. Drengirnir eru svo tónvissir að einungis dugði að slá tón eða upphafshljóm á flygilinn og þá hófust þeir handa í nákvæmlega réttri tóntegund án þess að raula hana á undan.
Stjórnandinn fær þessa einkunn:
Hann er góður stjórnandi og vafalítið fær í sínu fagi.
Hann hendir eins og suma kórstjóra sem ég þekki, að þegar þeir leika undir hjá kórunum sínum jaðrar undirleikurinn á stundum við versta glamur.
Notkun pedalanna var ómarkvist og iðulega hamraði hann flygilinn þannig að kórinn drukknaði í fyrirganginum svo að einstaka raddir stóðu upp úr eins og smásker á háflóði.
Greinilegt var að sumar útsetningarnar voru mjög hroðvirknislega unnar og til þess falllnar að yfirgnæfa drengina. Þá lék kórstjórinn iðulega laglínuna með vinstri hendinni og keppti þannig við kórinn.
Mér þótti þetta með ólíkindum og vona að einhver bendi stjórnandanum einhvern tíma á þetta enda eru til afbragðs útsetningar sumra laganna fyrir píanóundirleik.
En kórinn er góður og á allt gott skilið.
Kærar þakkir fyrir yndislega stund með glamurs-ívafi og á lágu verði.


Ungir einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Hljómleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld undir stjórn Daníels Raiiskin, þar sem fjórir ungir einleikarar léku með hljómsveitinni, voru í einu orði sagt vel heppnaðir. Einleikararnir voru
Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópran, Sigríður Hjördís Indriðadóttir, flautuleikari, Jónas Á. Ásgeirsson, harmonikuleikari og Ragnar Jónsson, sellóleikari.

Rödd Heiðdísar Hönnu hefur náð undraverðum þroska. Hún er áferðarfögur og er því spáð að hún eigi eftir að heyrast oft hér á landi og hérlendis. Túlkun hennar var með ágætum.

Flutningur Sigríðar Hjördísar Indriðadóttur á flautukonserti Karls Nielsen var einstaklega vel heppnaður, túlkunin bæði fáguð og skemmtileg. Tónninn var lýtalaus.

Þá var undur skemmtilegt að heyra Jónas Á. Ásgeirsson flytja konsert fyrir harmoniku og strengjasveit. Lipurð piltsins er einstök og túlkunin fram úr skarandi.

Í lokin flutti Ragnar Jónsson sellókonsert Elgars með stakri prýði. Seinasti hluti fyrsta þáttar var hreinlega leikinn af unaðslegri snilld. Tónn Ragnars er fágaður og hann leggur greinilega metnað í mikla fágun flutnings síns. Hið sama má segja um hin ungmennin þrjú.

Við hjónin fórum heim hamingjusöm og stolt af starfi því sem unnið er hér á landi á sviði tónlistar.
Ekki þarf að taka fram að Eldborg var þétt setin og fögnuðu áheyrendum flytjendum innilega.
Nánar um dagskrána hér:
http://www.sinfonia.is/tonleikar/2016/1/14/nr/2870
Þessu unga fólki er óskað alls hins besta og færðar einlægar þakkir fyrir heillandi flutning.


Magnaður flutningur á Orgelkonsert Jóns Leifs

Það var magnað að hlusta á flutninginn á Orgelkonserti Jóns Leifs á Proms áðan. Netútsending BBC var til svo mikillar fyrirmyndar að hljóðgæðin nutu sín til fulls í góðum heyrnartólum. Mikið væri þess óskandi að Ríkisútvarpið gæti verið með jafngóðar útsendingar á vefnum. Eins og reynslan hefur verið tel ég víst að alls konar yfirtónar rugluðu hljóminn í útsendingunni. Þetta sárnar sumum Seltirningum vegna þess að hlustunarskilyrðin eru hér ekki upp á hið allrabesta og því viljum við hlusta beint af netinu.
Flutningi konsertsins var gríðarlega vel tekið. Í útsendingunni - og e.t.v. hefur það verið svo í salnum - kaffærði orgelið stundum hljómsveitina. Það gerðist reyndar einnig í Hallgrímskirkju hér um árið, þegar Björn Steinar Sólbergsson flutti konsertinn. Undirritaður var svo heppinn að sitja á 3. bekk og naut flutningsins til fulls. En þeim, sem sátu fyrir aftan 5. bekk vað hann algert tónasull, eins og tónskáld nokkurt komst að orði. Í Albert Hall er tónninn fremur þurr af útsendingunni að dæma.


Óratórían Salómon, stórkostlegur listsigur í Hallgrímskirkju

Mótettukór Hallgrímskirkju ásamt einsöngvurum og Den Haag barroksveitinni frumfluttu stórvirki Händels, Salómon undir stjórn Harðar Áskelssonar.
Ekki er of sterkt til orða tekið þótt sagt sé að um stórfelldan listsigur hafi verið að ræða. Flutningurinn var bæði áhrifamikill og einkar fágaður. Þýskur sendifulltrúi fullyrti að tónleikarnir væru á heimsmælikvarða og höfundur þessa pistils heldur því fram að þetta séu bestu tónleikar sem hann hefur sótt það sem af er þessari öld.
Enginn tónlistarunnandi ætti að láta þennan einstæða viðburð framhjá sér fara. Á morgun, sunnudaginn 16. ágúst, verður óratórían flutt öðru sinni.
Öllum aðstandendum eru fluttar einlægar heillaóskir.


Miðsumarhátíð Víkings Heiðar - hvílík snilld!

Í gærkvöld lauk miðsumarshátíðinni sem Víkingur Heiðar Ólafsson, slaghörpuleikari, stóð fyrir í fjórða skipti. Hátíðin var fjölbreytt og með ólíkindum hvað fólki gafst kostur að velja um.
Ég átti þess kost að hlýða á upphafstónleikana í útvarpi austur á Stöðvarfirði og við Elín sóttum lokatónleikana í gær. Hvílík snilld sem borin var á borð!
Umbúnaður var allur hinn vandaðasti og kynningar Oddnýjar Höllu Magnúsdóttur til fyrirmyndar.
Ekki skulu lofaðir einstakir listamenn. En Víkingur Heiðar, sem ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska slaghörpuleikara að þeim ólöstuðum, sýndi á hátíðinni hversu fjölhæfur hann er.
Öllum aðstandendum, hljóðfæraleikörum sem hönnuðum og skipuleggjendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir með hátíðina með von um að þjóðin fái meira að heyra á næstu árum.


Eva kom, sá og sigraði

Eva Þórarinsdóttir kom, sá, sigraði og heillaði áheyrendur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 25. september þar sem hún flutti Fiðlukonsert nr. 1 í g-moll (1864–68) eftir Max Bruch. Leikurinn var einhvern veginn í fullu samræmi við innihald verksins sem er einkar vel úr garði gert fyrir sinfóníuhljómsveit og einleikara, svo að hljómsveitin kæfir hann aldrei. Hljómsveitarstjóri var Lionel Bringuier.

Ekki fer hjá því að áheyrendur átti sig á skyldleika fiðlukonserta Bruchs og Brahms, en sá síðar nefndi samdi sinn konsert 10 árum síðar. “Þeir Brahms og Bruch sömdu konserta sína báðir fyrir ungverska fiðlusnillinginn Joseph Joachim, sem gaf höfundunum góð ráð og hjálpaði Bruch að koma konsertinum í endanlegt form. Hann frumflutti konsertinn í Bremen í janúar 1868 og lét þau orð falla um verkið að það væri „mest hrífandi“ fiðlukonsert sem hann þekkti til” segir Árni Heimir Ingólfsson í efnisskrá tónleikanna sem er einkar vel samin.

Eftir hlé var 5. sinfónía Gústavs Mahlers flutt. Sinfónían, sem er í 5 þáttum, hefst á eins konar útfararmarsi, en tónskáldið var haldið mikilli dauðahræðslu um það leyti sem sinfónían var samin. Framvinda verksins er með eindæmum og kemur áheyrandanum stöðugt á óvart. Margs konar stílbrigði flækjast þar hvert innan um annað, valsar, ýmiss konar léttmeti og háalvarleg stef – sálarnærandi hrærigrautur. Endirinn er hressandi og glaðlegur, enda lifði Mahler sinfóníuna af.

Undirritaður áttaði sig á því að sinfónían hefur orðið ýmsum innblástur. Þekktastur hér á landi er ástarsöngur Ragnheiðar og Daða í óperu þeirra Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar, enda hafði einn gagnrýnandi óperunnar orð á að Gunnar kynni sinn Mahler. Þá má geta þess að í lokaþætti kínversku byltingarsinfóníunnar Shajiabang, sem var samin snemma á 7. áratug síðustu aldar og endurskoðuð 1970, mótar vissulega fyrir mahlerskum áhrifum í lokaþætti verksins. Hún á það reyndar sameiginlegt að vera samin fyrir sinfóníuhljómsveit og kór eins og flestar sinfóníur Mahlers. Einsöngvarar í Shajiabang syngja að hætti Pekingóperusöngvara.


Túlkun hljómsveitar og hljómsveitarstjórans var hrífandi. Stundum óskaði undirritaður þess að strengjasveit hljómsveitarinnar væri ögn fjölmennari, en jafnvægið var samt með ágætum. Ekki spillti dásemdarhljómur Eldborgar fyrir flutningnum.



Tónarnir þyrluðust um flygilinn!

Ég get ekki orða bundist vegna einstæðra tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudaginn 11. september.

Hámarki náðu þeir fyrir hlé er hljómsveitin flutti ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni fyrsta píanókonsert Beethovens sem var saminn árið 1801. Ég hef oft heyrt þennan konsert áður en aldrei í slíkum flutningi. Víkingur Heiðar lék þá kadensu sem Beethoven skrifaði fyrir píanóleikarann, þá þriðju við þennan konsert og þá lengstu. Nú er höfundur þessa pistils svo heppinn að sitja á 8. bekk eða 5 bekkjum frá sviðinu og nokkurn veginn fyrir miðju. Píanókonsertinn er ekki með þunga hljóma eins og sum nýrri verk. Ég heyrði hvernig tónarnir þyrluðust um hljóðfærið, fram og aftur, aftur og fram og stundum í einni alls herjar bendu! Hvílík upplifun! Sálin hvarf úr líkamanum og sveimaði um nokkurt skeið frjáls um eldborgina á meðan Víkingur Heiðar þyrlaði hljómunum um hljóðfærið Við upphaf 2. kafla konsertsins lenti hún mjúklega og skreið á sinn stað, en unaðurinn hélt áfram. .

Ég sagði Víkingi Heiðari að ég hefði velt fyrir mér hvort flyglar, smíðaðir um 1800, hefðu þolað þennan rokna flutning og taldi hann það af og frá.

Víkingur Heiðar lék á allar þær tilfinningar sem hrifning getur laðað fram og hljómsveitin og Pieter Inkinen, hljómsveitarstjóri stóðu sig með stakri prýði.

Það var sem hljómurinn í Eldborg væri meiri en oft áður og velti ég fyrir mér hvort breytt hefði verið um stillingu á salnum.

Sem sagt: unaðsleg upplifun!



Ys og þys í Hörpu - matarlyst og tónlist

Í dag var ys og þys í Hörpu. Um alla jarðhæðina var íslenskur matarmarkaður og í Kaldalóni hófust kl. 17:00 síðustu ferðamannatónleikar sumarsins. Á dagskrá voru eins og venjulega íslensk sönglög.

Að þessu sinni voru flytjendur Bjarni Thor Kristinsson, stjórnandi tónleikanna, Lilja Guðmundsdóttir, sópran og Ástríður Alda Sigurðardóttir, hinn snjalli slaghörppuleikari. Tónleikana sóttu bæði Íslendingar og erlendir gestir. Flytjendum var fagnað innilega enda hreyfði dagskráin við mörgum – lögin fjölbreytt og kynningar afar vandaðar.

Vinsælastur var Sigvaldi Kaldalóns, en eftir hann voru sungin fjögur lög. Selma dóttir hans átti þar einnig snoturt lag við kvæðið Eyrarrósina.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband