Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Dagblað alþýðunnar, sem Íslendingar hafa aldrei kallað Alþýðublaðið, greinir frá því í dag (á morgun, þriðjudaginn 12. apríl) að kínverskum vísindamönnum hafi tekist að búa til sólarrafhlöður sem framleiða rafmagn á sólríkum dögum sem í rigningu.
Rafhlöðurnar eru húðaðar með grafími sem hefur ofurleiðni. Í regnvatninu eru ýmis efni sem mynda rafhleðslu. Enn eru þó þessar rafhlöður ekki samkeppnishæfar við aðrar sólarrafhlöður, en vísindamennirnir halda því fram að hér sé um enn eitt skrefið að ræða í fjölbreyttum orkugjöfum sem eru vistvænir.
Hér er frétt blaðsins.
Vísindi og fræði | 11.4.2016 | 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í umræðuþætti Gísla Marteins Baldurssonar í morgun var rætt við framsóknarráðherran Sigurð Inga Jóhannsson, sem gegnir stöðu umhverfisráðherra. Sitthvað var fróðlegt í viðtalinu. En þegar kom að umfjöllun um rammaáætlun og stækkun eða breytingar á friðlandinu í Þjórsárverum þyrmdi yfir suma hlustendur.
Ráðherra fullyrti í viðtalinu að hann hygðist fara að ráðum fagfólks. En þegar þáttarstjórnandi þjarmaði að honum kom í ljós að með því að tjá sig á opinberum vettvangi um hugmyndir ráðherrans um svokallaða stækkun á friðlandinu væru fagmenn farnir að taka þátt í stjórnmálum og á honum mátti skilja að þar með væru fagmenn orðnir ómarktækir. Með öðrum orðum: þeir sem hafa grundvallað álit sitt á staðreyndum mega ekki verja skoðanir sínar og útskýra hvers vegna þær eru eins og þær eru. Þetta er hin frjálsa umræða á Íslandi árið 2014!
Mönnum er misjafnlega lagið að tjá skoðanir sínar og þeir sem hafa vafasaman málstað að verja, hrekjast einatt undan spyrlum án þess að svara nokkru. Þannig fór fyrir ráðherranum. Þetta er því miður einkenni margra Íslendinga og í hópi Framsóknar- og Sjálfstæðismanna þykir höfundi þessa pistils hafa borið of oft á þessu heilkenni. Vera má að þar sé um fordóma að ræða, en dæmin eru því miður of mörg.
Fyrr í þættinum var rætt við nokkra einstaklinga um hugmyndir umhverfisráðherra og einn viðmælenda Gísla Marteins, Róbert Marshall, benti m.a. á hvaða afleiðingar breytingar á friðlandi Þjórsárvera gætu haft - ósnortnar víðáttur hálendisins yrðu truflaðar af svokallaðri sjónmeingun.
Ég get rétt ímyndað mér hvernig sjónmeingun verki á þá sem vilja njóta ósnortins landslags með sama hætti og hljóðmeingun nútímans truflar einatt þá sem vilja hlusta á hjartslátt náttúrunnar. Annar viðmælandinn minntist á að nú þyrftu menn að huga fremur að því til hvers ætti að nota rafurmagnið, en ekki að breyta vegna breytinganna.
Flest á þetta rætur að rekja til þess agaleysis sem ríkir í umræðum og við ákvarðanir. Hér á landi er einum of algengt að rifið sé niður það sem aðrir telja sig hafa byggt upp og þegar völdum þeirra sleppit slæst kólfurinn í hina áttina. Ef ekki verður horfið af þessari braut og jafnan lamið í gagnstæðar áttir, fer fyrir Íslendingum eins og Líkaböng á Hólum sem sprakk þegar lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt að Hólum árið 1551. Hún sprakk og einnig önnur klukkan í Landakirkju fjórum og hálfri öld síðar, vegna þess að jafnan hefur verið lamið kólfinum á sömu svæði. Þannig monar samfélagið undan Íslendingum vegna sundurlyndis misviturra stjórnmálamanna.
Vísindi og fræði | 12.1.2014 | 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þingvellir eru gjörbreyttir frá árinu 1865, segir Hörður Geirsson, sem nú fer um landið og tekur ljósmyndir af stöðum sem ljósmyndaðir voru hér á landi eftir árið 1865. Hann segist hvergi hafa rekist á óbreytt umhverfi á ferðum sínum. Versta telur hann þó eyðilegginguna" á Djúpavogi þar sem hann segir að gamla hafnarstæðið hafi verið eyðilagt.
Hörður beitir sams konar ljósmyndatækni og notuð var í árdaga ljósmyndanna. Hann tekur myndir á glerplötur, framkallar þær sjálfur og lakkar. Ljósmyndavélin er frá 1880, bandarísk, en linsan er frönsk frá árinu 1864.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Hörð á slóðinni
http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1179112/
Vísindi og fræði | 13.7.2011 | 22:19 (breytt kl. 22:20) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við vorum sammála um að Örfirisey hefði heitið Effersey í munni manna þegar við komum til Reykjavíkur. Örfirisey væri síðari tíma málfyrning. Ekki hef ég kannað hversu gamalt örnefnið Örfirisey er í heimildum, en ég sé við skjóta athugun að nafnið Effersey var þegar þekkt árið 1700 og jafnvel fyrr.
Mannsnafnið Effer er til og ættarnafnið Effersen einnig. Hvað segja sagnfræðingar? Hefur einhver kaupmaður verið í Hólminum sem heitið hefur Effer eða verið Effersen? Er þar komin skýring nafnsins Effersey? Sé svo, ber þá ekki að taka það upp á ný? Það væri verðugt verkefni handa núverandi borgarstjórnarmeirihluta að fá skorið úr um þetta alvarlega mál.
Vísindi og fræði | 22.9.2010 | 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um síðustu jól sendi Helgi frá sér nýja bók, Kóngur kemur. Sögusviðið er Reykjavík sumarið 1874 þegar Kristján konungur IX kom hingað til lands að heilsa upp á þegna sína í tilefni 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Stúlka finnst myrt og síðar kemur í ljós að nýfæddu barni hennar hefur einnig verið fyrirkomið. Stúlkan reynist hafa veriðsýkt af sárasótt og hverfist talsverður hluti frásagnarinnar um þann þátt.
Fljótlega finnst morðingi feðginanna, en faðerni barnsins er haldið leyndu þar til 15 árum síðar að sögumaður, sem höfundur lætur segja söguna frá upphafi til enda, fær að vita hið sanna í málinu.
Helgi virðist hafa rannsakað ítarlega heimildir um bæjarbraginn í Reykjavík á þessum árum og fléttar lýsingum á atburðum, sem urðu við konungskomuna, listilega saman við skáldskap sinn. Ýmsar persónur úr bæjarlífinu birtast mönnum ljóslifandi og ýjað er að ýmsum orðrómi sem gekk manna á milli um sitthvað sem ekki var haft hátt um.
Höfundur hefur jafna leyfi til þess að skálda í eyðurnar og búa jafnvel til nýjan raunveruleika fjarri því sem hefur sennilega nokkru sinni gerst þótt nafnkenndir einstaklingar eigi í hlut. Í lokin bólar þó á því að höfundur skjóti yfir markið og skáldfákurinn hlaupi með hann í gönur. Þannig ýjar heimildarmaður sögumannsins að því að aðrar ástæður hafi legið að baki því að Jón Sigurðsson lét ekki sjá sig hér á landi árið 1874 og gengur sá söguburður þvert á kenningar flestra fræðimanna um þetta atriði.
Það skal ítrekað að bók þessi er skemmtileg og vel samin. Málfarið er blendingur nútíma íslensku og þess máls sem talað var á meðal almúga og menntafólks í Reykjavík. Lærðir menn sletta þýsku, dönsku, frönsku og latínu og Jón Sigurðsson jafnvel grísku. Höfundur gætir þess þó að þýða sletturnar því að íslenskur almúgi skilur ekki latínu nú á dögum fremur en árið 1874. Einna helst skortir á að Helgi láti lærða menn gera mun á tvítölu og fleirtölu, en það mætti endurskoða, verði bókin gefin út öðru sinni.
Endir bókarinnar þykir mér þó í ógeðfelldara lagi. Að vísu reynir Helgi að draga úr broddinum með því að gera þann, sem þá er fjallað um, mannlegri með því að láta lesendur skynja samúð hans og sorg vegna þess sem varð.
Engin ástæða er til að ýta undir persónudýrkun og sennilega eru Íslendingar flestir yfir það hafnir að líta á Jón Sigurðsson og Fjölnismenn gagnrýnislaust. Höfundi til afsökunar verður sjálfsagt að telja fram þær staðreyndir að fjöldi gagna styður sumt af því sem hefði getað gerst þótt raunveruleikinn hafi sjálfsagt verið annar.
Niðurstaða mín er sú að þrátt fyrir fremur ógeðfelldan endi hvet ég fólk til að lesa bókina og njóta hennar. Dæmi svo hver og einn. Skáldskapurinn lýtur sínum eigin lögmálum.
Gagnrýni um bókina Kóngur kemur birtist fyrst á þessari síðu 14. þessa mánaðar. Ég kaus að endurskoða pistilinn eftir ábendingar sem ég fékk í tölvupósti. Þá hafa höfundar þeirra tveggja athugasemda, sem birtust um þessa færslu, orðið sammála um að þær verði einnig fjarlægðar.
arnthor.helgason@simnet.is
Vísindi og fræði | 14.6.2010 | 21:24 (breytt 16.6.2010 kl. 17:22) | Slóð | Facebook
Eldi á hvítum matfiski gæti orðið að veruleika á Íslandi næstu árin og eru t.d. Flúðir taldar ákjósanlegur staður fyrir slíkt. Fiskar með framandi nöfn eins og tilapia, baramundi og seabass yrðu fóðraðir og aldir í sláturstærð. Ekki skemmir fyrir að fiskarnir eru grænmetisætur að hluta til og eldið því vel í sveit sett í þessu mikla landbúnaðarhéraði. Fiskurinn yrði síðan fluttur út til Evrópu og hugsanlega Bandaríkjanna.
Ferskvatnið í nágrenni flúða er sagt vera lykillinn að þessu væntanlega eldi, en þar er að finna talsvert af u.þ.b. 30 stiga heitu vatni, en það er kjpörhiti fyrrnefndra fisktegunda.
Talið er að fullbúin fiskeldisstöð kosti nokkur hundruð milljóna en bundnar eru vonir við að allmörg störf skapist við hlývatnseldið sjálft og annað sem fylgir slíkri starfsemi. Gert er ráð fyrir að framleiðslan geti numið allt að 3.000 tonnum á ári.
http://mbl.is/mm/greinilegur/mogginn/bladid/bl_grein.html?grein_id=1336329
Vísindi og fræði | 7.6.2010 | 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þátturinn er einn hinna vel gerðu útvarpsþátta sem hafa verið fluttir að undanförnu undir nafninu Útvarpsperlur.
Lítið hefur borið á því að undanförnu að vandaðir þættir hafi verið gerðir fyrir Ríkisútvarpið. Þó eru þar nokkrar undantekningar á og hefur Víðsjárliðið staðið að nokkrum slíkum. Eftir að lausráðnir dagskrárgerðarmenn voru slegnir af í niðurskurðinum hefur dagskrárgerð hrakað. Það er eins og allur neisti sé horfinn úr dagskrárgerðinni og fastir þættir orðnir steingeldir. Það er sagt stafa af því að fastráðnir dagskrárgerðarmenn séu þrautpíndir til hins ítrasta og hafi lítinn tíma til að sinna öðru en daglegum störfum.
Ég hef einatt velt fyrir mér hlutverki Ríkisútvarpsins og hvernig megi spara þar á bæ. Þegar litið er á sjónvarpið kemur í ljós að það er í raun stærsta kvikmyndaleiga landsins. Munurinn á sjónvarpinu og öðrum kvikmyndaleigum er sá að menn leigja sér myndir á öðrum leigum en sjónvarpið treður upp á áhorfendur því efni sem stjórnendum þóknast.
Í öllum niðurskurðinum væri ráð að stytta dagskrá sjónvarpsins og skera við trog kvikmyndirnar sem boðnar eru áhorfendum. Í staðinn mætti talsetja meira efni eða hreinlega verja fénu til vandaðri útvarps- og sjónvarpsþáttagerðar. Þá drægi úr áreiti enskunnar sem virðist á góðri leið að ganga frá íslenskri tungu.
Með sjónvarpinu varð eitthvert mesta menningarrof í íslensku samfélagi sem um getur, jafnvel verra rof en varð með innrás erlendra herja árið 1940. Hin myndræna framsetning hefur nú tekið við í æ ríkara mæli af munnlegri frásögn og mest efni er á ensku. Enskan bylur á hlustum fólks og skaðar málvitund barna og fullorðinna. Að vísu skal viðurkennt að flest efni barnatíma sjónvarpsins er með íslensku tali.
Flestar menningarþjóðir setja tal við erlendar kvikmyndir sem sýndar eru í sjónvarpi og Íslendingar þyrftu að hafa metnað til þess að haga sér eins. Telji þeir sig ekki hafa efni á því er eins gott að viðurkenna það, stytta dagskrá sjónvarpsins og veita fjármunum í annað.
Vísindi og fræði | 21.5.2010 | 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kornflögum, sem eru uppáhaldsfæða slímsveppa, var raðað í svipað mynstur og útborgir Tókíó. Skilið var eftir autt svæði þar sem miðborgin var og ein slímsveppsfruma sett þar. Sveppurinn tók að teygja anga sína í allar áttir og eftir nokkrar klukkustundir hafði verið þróað fullkomið gangakerfi sem flutti næringu til miðstöðvarinnar.
Gangakerfið var svipað því mynstri sem lestakerfi Tókíóborgar byggir á. Í framhaldi af þessu hefur verið þróað ákveðið reiknilíkan sem vísindamenn halda að geti komið hönnuðum samgöngumannvirkja að gagni. Líkaninu er hægt að beita til þess að fylgjast með umferð og haga almenningssamgöngum eftir því hvernig hún liggur.
Vísindi og fræði | 2.3.2010 | 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Safnvörðurinn gerði ágæta grein fyrir væntanlegum framkvæmdum við Nesstofu, byggingu nýs hús handa Lækningaminjasafninu og varðveislu Nesstofu sjálfrar. Í máli sínu vék hún að því að nauðsynlegt væri að skilja á milli minjavenrdar og ferðaþjónustu. Nefndur var sem dæmi steinkofi eða bær, sem hlaðinn var í nánd við rústir af meintum bæ Herjólfs Bárðarsonar í Vestmannaeyjum. Engin dæmi hafa fundist um slíka steinkofa hér á landi. Í þetta fóru talsverðir fjármunir en rústirnar sjálfar liggja undir skemmdum því að ekki færst fé til að varðveita þær.
Nesstofa er afar merkilegt hús. Hún var byggð handa landlæknisembættinu árið 1763 og settist Bjarni Pálsson þar að. Hans naut ekki lengi við og tók þá tengdasonur hans, Sveinn Pálsson, við keflinu.
Á þessum tíma voru reist nokkur bindingsverkshús á Íslandi: viðeyjarstofa, fangahúsið sem nú hýsir forsætisráðherra, Nesstofa og Bessastaðastofa. Einnig má nefna Viðeyjar- og Landakirkju. Nesstofa er fyrir ýmissa hluta sakir langbest varðveitt.
Uppbygging safnareits í Nesi á Seltjarnarnesi verður vafalítið til að styrkja útivistarsvæðið sem þar er og ættu svæðið og safnið að geta hlúð hvort að öðru. Á þessu svæði verður hægt að rannsaka og kynna starfshætti og aðstæður fyrri alda og nálgast jafnframt þau verkefni sem nútíminn fæst við.
Miðaldir Íslandssögunnar virtust ekki svo fjarri á sokkabandsárum mínum. Síðan er eins og holskeflur hafi riðið yfir og sópað ýmsu með sér. Þróunin hefur orðið hröð og fortíðin fjarlagæist nú hraðar en áður. Þess vegna er það vel að menn beri metnað til að gera vel við Nesstofu og huga að sögu lækninga hér á landi.
Vísindi og fræði | 29.7.2009 | 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Japanski vísindamaðurinn getur því gert ráðstafanir til þess að breyta mataræði sínu ef í ljós kemur að hann hafi etið of mikið af kjöti, óæskilegum kolvetnum og sykri og aukið grænmetisneyslu sína.
Þetta er einungis eitt af því sem menn hafa látið sér detta í hug til þess að nýta farsímana. Nú er þegar á markaðinum hugbúnaður handa blindu fólki sem les skjöl og annar hugbúnaður gerir fólki kleift að skoða liti á hlutum eða fatnaði, þótt það sé blint. Í Bandaríkjunum er búist við að á næsta ári komi á markaðinn búnaður sem þekki andlit fólks. Þá þarf blint fólk væntanlega ekki lengur að taka þátt í gátuleiknum sem margt sjáandi fólk hefur svo gaman af og kallast "Manstu hvað ég heiti?". Ég svara þessari spurningu yfirleitt þannig: "Kynntu þig" og gildir þá einu hvort ég kannast við málróminn.
Vísindi og fræði | 29.7.2009 | 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 319771
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar