Færsluflokkur: Kjaramál

Fulltrúi soðningaríhaldsins veldur uppnámi

Í þeirri hörðu kjaradeilu, sem nú er háð af launamönnum þessa lands, var Kristján Loftsson, formaður stjórnar HB-Granda, bæði fáfróður og hrokafullur í útvarpsviðtali sem tekið var við hann í fyrradag. Ýmsir hljóta að velda því fyrir sér hvað maður með svipuð viðhorf og þekkingu á högum starfsmanna sé að gera í stóli stjórnarformanns. Sé það rétt að formaður stjórnar Granda gegni vart öðrum skyldum en þeim að sitja einn stjórnarfund á mánuði eð tímagjald hans hærra en þekkst hefur. Hann þyrfti einungis að sitja 10 stjórnarfundi á ári til þess að missa allan rétt til ellilífeyris!

Kristján veit hvorki hver grunnlaun starfsfólksins eru né kaupauki (bónus). En skuldin er ekki eingöngu hans. Í raun er rétt að skella allri skuldinni á þá fulltrúa sem sóttu aðalfund Granda og virðast algerlega úr tengslum við þann hluta almennings sem bera eina minnst úr bítum.

 

Vel rekið fyrirtæki en vinnuníðingar?

Heimildir herma að hagnaður Granda hafi numið 5,7 milljörðum króna og að hjá fyrirtækinu starfi um 500 manns. Það þýðir að hver starfsmaður skilar 10 milljörðum í hreinan arð. Hluthafar fengu 2,7 milljarða í sinn hlut og þar af lífeyrissjóðir um 30% eða rúmar 800 miljónir. Hefðu hluthafar afsalað sér helmingi arðsins eða ekki nema fjórðungi hefði verið grundvöllur fyrir því að ganga að kröfum verkalýðsfélaganna – ef kröfur skyldi kalla. Í stað þess slær Kristján Loftsson höfðinu við steininn og þykist ekki vita neitt en endar útvarpsviðtal með heimskulegri gamansögu. Samtök atvinnulífsins vara við hækkunum í fiskvinnslu. Hvers vegna geta norsk og færeysk fiskvinnslufyrirtæki greitt umtalsvert hærri laun en hér á landi og þó skilað hagnaði?

 

Hvað gerir Morgunblaðið?

Mogginn birti fréttir í morgun af mótmælum gegn hækkun launa stjórnarmanna í Granda, en þess sáust engin merki í leiðurum blaðsins að ritstjórum þætti nokkuð fyrir þessum hækkunum. Er það vegna eignarhaldsins á blaðinu?

Sá mæti maður, Sigurður Einarsson, forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja, kvartaði eitt sinn undan því við tvo blaðamenn, sem heimsóttu hann, að ritstjóri bæjarblaðsins Frétta í Vestmannaeyjum væri einnat ósanngjarn í garð útgerðarmanna, sem ættu flestir hlut í blaðinu. Hann var þá spurður hvort blaðið skilaði hagnaði og játti hann því. „Þá er það ráð mitt,“ svaraði annar þeirra, „að þið gerið ekkert í málinu. Ef þið farið að skipta ykkur af ritstjórn blaðsins er það dauðadæmt.“ Sigurður þagði örlitla stund og sagði síðan: „Já, þetta er sennilega rétt hjá þér.“

Það er ekki víst að núverandi eigandi Morgunblaðsins hyggist skipta sér af ritstjórum þess með sama hætti og Jón Ásgeir af ritstjórum Fréttablaðsins. En Morgunblaðið, sem kallar sig stundum blað allra landsmanna, verður að reka af sér þann orðróm að ritstjórarnir séu í vasa soðningaríhaldsins. Verða ofurlaun og umframhækkanir stjórnenda Granda og annarra fyrirtækja efni næsta Reykjavíkurbréfs eða verður látið nægja að jagast vegna áhuga bankamanna á ofurverðlaunum vegna ímyndaðrar samkeppni og ofurábyrgðar?

 


Menningaráfall!

mikil eftirsjá er að ýmsum dagskrárgerðarmönnum rásar eitt, sem misst hafa vinnuna. Hugurinn fyllist söknuði og hjá þeim, sem hafa orðið fyrir brottrekstri úr starfi, er hætt við að rifni ofan af gömlum sárum. Þá er greinilegt að ekki hafa einungis faglegar ástæður ráðið um uppsagnir manna heldur staða þeirra. Má sjá þess merki í ónefndum þætti á Rás eitt.
Nú er ljóst hvert stefnir í starfsemi Ríkisútvarpsins. Stofnunin verður sjálfsagt rekin að nokkru með því að ráða verktaka til þess að sjá um einstaka þætti eða þáttaraðir. Margir þaulreyndir dagskrárgerðarmenn hafa aldrei komist svo hátt að verða starfsmenn Ríkisútvarpsins heldur hefur þeim verið ahaldið sem verktökum, jafnvel áratugum saman. Þannig sparar stofnunin stórfé. Hvorki greiðir hún í lífeyrissjóði verktakanna né kostnað, sem hlýst af starfi þeirra.

mbl.is Uppsagna farið að gæta í dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers eiga aldraðir að gjalda?

Því verður vart á móti mælt, að fatlað fólk hefur það nú að mörgu leyti betra, þrátt fyrir ýmsa óáran í þjóðfélaginu, en á tímum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem var of lengi við völd. Þrátt fyrir allt hefur tekist að verja þennan lágtekjuhóp áföllum og skattheimtan er ekki jafnskefjalaus og áður.

Það skýtur hins vegar skökku við, hvernig farið er með aldraða. Þar skerðast lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum hjá flestum vegna hverar krónu, sem kemur úr lífeyrissjóðum. Þrátt fyrir ókosti ríkisstjórnarinnar, sem nefnd varhér áðan, datt mönnum ekki þetta í hug.

Landssamtök aldraðra hafa ítrekað mótmælt þessum órétti. En fleiri mótmæla. Hestamenn mótmæla of háum fasteignargjöldum á hesthús og hyggjast jafnvel efna til hópreiðar um stofnbrautir Reykjavíkur og hefta þannig umferð. Vel gæti ég trúað að til slíkra mótmæla yrði efnt.

Fyrir 25 árum vildu samtökin Frjálsir vegfarendur efna til svipaðra mótmæla gangandi og hjólandi vegfarenda og virtist nokkur hugur í mönnum. Voru menn sammála að aðstaða gangandi fólks væri slæm í Reykjavík og verst fyrir þá, sem ferðuðust um í hjólastól. Var því ákveðið að leita eftir þátttöku Sjálfsbjargar, landsambands fatlaðra, í aðgerðinni. En Sjálfsbjörg þorði ekki. Blindrafélagið var reiðubúið, en það þótti ekki nægilega fjölmennt.

Nú þurfa samtök aldraðra að sýna kjark og efna til rækilegra mótmæla vegna skertra kjara. Friðsöm mótmæli er hægt að hafa í frammi þannig að athygli veki. Hér á þessum síðum verður ekki lagt á ráðin um það, hvernig staðið skuli að slíkum mótmælum, en hugmyndinni er eigi að síður komið á framfæri.


Ofurtollar á tækjum til hljóðritunar

Í dag sendi ég fjármálaráðherra og formanni efnahags- og viðskiptanefndar eftirfarandi bréf. Um árabil hafa þeir, sem stunda hljóðritanir sér til ánægju eða hafa þær að atvinnu, mátt sæta ofurtollum af hljóðritunartækjum.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni tollstjórans í Reykjavík, Bjarna Sverrissyni, bera slík tæki 25,5% virðisaukaskatt, 7,5% toll, 25% vörugjald auk 2,5% stefgjalds (sjá hér að neðan). Eina leiðin, til þess að fá felld niður vörugjöld og tolla, er að sá, sem kaupir hljóðritunartæki, hafi iðnaðarleyfi, þar sem starfsemin er ítarlega skilgreind.

Til samanburðar má geta þess að stafrænar ljósmyndavélar bera einungis virðisaukaskatt. Öll tæki, sem eru sérstaklega gerð til afspilunar og hljóðritunar, sæta þessum ofurtollum. Þar á meðal má nefna sérhönnuð afspilunartæki fyrir svokallaðar Daisy-hljóðbækur, en þær nýtast einkum blindu, sjónskertu og lesblindu fólki. Gera þessir ofurtollar flestum ókleift að eignast tækin vegna þess hve verðið er hátt. Þessi ofurgjöld skerða um leið getu Þekkingarmiðstöðvar blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga að úthluta slíkum tækjum. Jafnvel lítil minnistæki sæta þessum tollum.

Vaxandi hópur hér á landi hefur ánægju af hljóðritunum. Það skýtur því skökku við að hljóðritar skuli sérstaklega skattlagðir á meðan tölvur, sem einnig er hægt að nýta til hljóðritunar, eru undanþegnar slíkum gjöldum.

Undirritaður fær ekki skilið hvað veldur því að gert er með þessum hætti upp á milli þeirra, sem njóta hljóðs og þeirra sem hafa unun af ljósmyndum.

Hér er um alvarlega mismunun að ræða, sem á sér vart stoð í lögum, heldur sýnist sem um sé að ræða reglugerðarákvæði.

Ég leyfi mér hér með að leggja til að vörugjald og tollur af tækjum til hljóðritunar verði felld niður og sæti þau sömu gjöldum og ljósmyndavélar og tölvur. Svo virðist sem stafrænar upptökuvélar, sem eru með innbyggðan hljóðrita, sæti ekki slíkum ofurtollum.

Hér er um brýnt mannréttindamál að ræða. Ríkissjóður verður af litlum tekjum, en einhverjir einstaklingar gætu átt auðveldara um vik að hasla sér völl á sviði hljóðritunar.

Lausleg könnun hefur leitt í ljós að slíkir ofurtollar séu með öllu óþekktir í löndum Evrópu og Norður-Ameríku.

Þetta verk er verðugt verkefni handa nýjum fjármálaráðherra, sem hægt er að afgreiða með skömmum fyrirvara.

Með vinsemd og virðingu,

Arnþór Helgason,

fyrrum formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands

s


Ákall um þjóðarátak gegn fátækt og örbirgð

Öryrkjabandalag Íslands átti sér traustan bandamann á meðan Styrmir gunnarsson var ritstjóri Morgunblaðsins. Í sunnudagsmogganum, sem fylgdi blaðinu 30. apríl sl., birtist grein hans, Þjóðarátak gegn fátækt og örbirgð.

http://mbl.is/mm/greinilegur/mogginn/bladid/?type=2;flokkur=32

 

 

„Það ríkir alvarleg neyð í ákveðnum þjóðfélagshópum á Íslandi. Sú neyð er ekki efst á baugi í þjóðfélagsumræðum. Hún sést ekki í þeim meðaltölum sem notuð eru til þess að fjalla um lífskjarastig í samfélaginu. En þrátt fyrir allt erum við enn svo fá, að það fréttist manna á meðal hvað er að gerast í lífi einstaklinga og fjölskyldna. Sennilega er þessi neyð mest meðal öryrkja, atvinnulausra, einstæðra mæðra og þeirra sem eru á lægstu launum.

Neyðin birtist í því, að jafnvel fólk sem er í fullri vinnu en á lægstu launum á ekki fyrir mat út mánuðinn, þegar skattar og skyldur hafa verið inntar af hendi og húsnæðiskostnaður greiddur. Hvað á að segja við fólk sem er í fullri vinnu en á sannanlega ekki fyrir mat?

Neyðin birtist í því, að börn mæta ekki í skóla vegna ástandsins heima fyrir.

Neyðin birtist í því að dæmi er um sjálfsvíg vegna þess að fjölskyldufaðir, sem hafði verið atvinnulaus lengi, sá ekki út úr daglegum vandamálum.

Þetta eru ekki innantóm orð. Þetta eru raunveruleg dæmi úr daglegu lífi fólks á Íslandi á þessu ári.

Í Morgunblaðinu sl. miðvikudag sagði Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar:

„Það er mikil neyð hjá mörgum lágtekjuhópum, ekki aðeins öryrkjum.“

Sl. þriðjudag sagði Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, m.a. í viðtali við Morgunblaðið:

„Ástandið er skelfilegt. Það er hneyksli að þessi ríkisstjórn skuli kenna sig við velferð. Það er mjög algengt að hingað komi fólk sem sér ekki fram á að peningarnir endist út mánuðinn. Ástandið hefur farið hraðversnandi síðan hrunið varð. Þetta er langsamlega alvarlegasta staða sem ég hef séð síðan ég fór að láta mig þessi mál varða á miðjum áttunda áratugnum.“

Og Guðmundur Magnússon bætti við:

„Fólk leitar eftir ókeypis mat hjá vinum og kunningjum til að draga fram lífið. Sumir eiga þess ekki kost. Það eru heldur ekki allir sem treysta sér í matarraðir. Ég mundi því ætla að hundruð Íslendinga svelti á árinu 2011.“

Það þarf ekki lengi að svipast um í samfélagi okkar til þess að átta sig á að þetta eru ekki orðin ein. Þetta er hinn harði veruleiki og hann er óþolandi.

Þetta mál snýst ekki um pólitík eða dægurþras. Það er yfir slíkt hafið. En úrlausn þess kallar á samstöðu allra þjóðfélagsafla, stjórnar og stjórnarandstæðinga, verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda og annarra félagsmálaafla. Sú úrlausn þolir enga bið.

Fólkið sem vinnur daglega við að leysa úr vanda þeirra sem lifa við örbirgð þekkir þetta bezt. Ekki bara meðaltölin heldur þau einstöku dæmi sem opna augu manna fyrir því sem er að gerast í samfélagi okkar.  Hið æskilega er, að Guðbjartur Hannessson, velferðarráðherra, gefi Alþingi strax eftir helgi skýrslu um fátækt á Íslandi og byggi hana á raunverulegum og áþreifanlegum dæmum en ekki tölfræði og meðaltölum. Og að stjórnmálaflokkarnir allir tilnefni fulltrúa af sinni hálfu sem taki þátt í að skipuleggja þjóðarátak gegn fátækt á Íslandi, gegn örbirgð og sjálfsvígum og gegn því hneyksli að börn geti ekki mætt í skóla sökum fátæktar.

Þeir sem hér eiga hlut að máli eiga sér í raun og veru ekki aðra málsvara en Öryrkjabandalagið, sem vinnur merkilegt starf og Guðmundur Magnússon er áhrifamikill talsmaður þess og málstaðar lítilmagnans í samfélagi okkar. Önnur félagasamtök og hagsmunasamtök eru með hugann við önnur verkefni og önnur baráttumál. Það vill gjarnan verða svo, að þeir sem minnst mega sín eiga sér fæsta málsvara og til þeirra heyrist minnst.

Íslendingar nútímans þekkja fátt annað en allsnægtir. Það voru afar og ömmur þeirra, sem fæddust um það bil, þegar Ísland var að verða lýðveldi, sem þekktu til raunverulegrar fátæktar og hvað það var að eiga ekki mat. Barnabörn þeirra þekkja þá veröld einungis af frásögnum þeirra sem fæddir voru á síðari hluta 19. aldar. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því, að fólk á svo erfitt með að trúa því, að það sem hér er um fjallað sé raunveruleiki. En það er því miður raunveruleiki að of margir Íslendingar eiga ekki fyrir mat og afleiðingar fátæktarinnar koma fram með ýmsum hætti og alveg sérstaklega koma þær niður á börnum. Börnum sem munu aldrei gleyma þeirri lífreynzlu svo lengi sem þau lifa og mun fylgja þeim alla tíð.

Viljum við svona þjóðfélag? Auðvitað ekki.

Getum við verið þekkt fyrir að láta þetta gerast fyrir augunum á okkur? Auðvitað ekki.

Okkur hafa verið mislagðar hendur um marga hluti frá hruni. Samfélagið er sundrað og klofið ofan í kjöl.

Daglegt pólitískt stríð dregur að sér alla athygli fjölmiðla. Ég kann að vísu ekki á Facebook en hef ekki orðið var við að þessi samfélagsvandamál hafi verið til mikillar umræðu þar.

Getum við náð saman um að leysa neyð þessa fólks? Getur örbirgð þess orðið til þess að þjappa þjóðinni saman þó ekki væri um annað en það að útiloka að fólk svelti meira en hundrað árum eftir að afar okkar og ömmur, langafar og langömmur kynntust því hvað það er að eiga ekki mat?

Það segir töluverða sögu um þetta samfélag hvort okkur tekst það.

Ef okkur tekst það ekki verðum við að horfast í augu við að við erum ófær um að takast á við það sem máli skiptir.

Allar hörpur samtímans veita okkur litla ánægju ef við getum ekki leyst þennan aðkallandi vanda meðbræðraokkar.

Við skulum ekki láta það verða eftirmæli okkar kynslóða að við látum þetta gerast og gerum ekki neitt.“


Franskt byltingarskáld birtist íslenskum byltingarsinna í draumi

Á bloggsíðunni http://hljod.blog.is birtist athyglisverð frásögn Þorvalds Þorvaldssonar af því er höfundur Alþjóðasöngs verkalýðsins birtist honum í draumi fyrir skömmu og fann að því að öll 6 erindi ljóðsins væru ekki sungin. Einnig er hljóðrit af frumflutningi þýðingarinnar í Heiðmörk 15. júní síðastliðinn.


Fækkar um einn á atvinnuleysiskrá

Í morgun fækkaði um einn á atvinnuleysisskrá, a.m.k. um stundarsakir, en ég afskráði mig enda er búist við að tekjur mínar nægi til þess að atvinnuleysisbætur falli niður. Þá var mér ráðlagt að afskrá mig því að nú fækkar óðum þeim dögum sem ég á rétt á sem atvinnuleysingi. Hefði vinnan hjá Morgunblaðinu ekki komið til sumurin 2007 og 2008 væri réttur minn til atvinnuleysisbóta senn á enda.


Sjómenn og opinberir starfsmenn eiga bágt

Talsmenn sjómanna og opinberra starfsmanna með meðaltekjur barma sér nú hástöfum.

Ekki má skerða sjomannaafsláttinn. Hann er hluti tekna sjómanna og sumir þeirra hafa næstum ofurtekjur.

Sótt er að opinberum starfsmönnum með meðaltekjur sem aldrei fyrr. Spáð er atgervisflótta úr landi.

Þeir einu sem enginn vorkennir eru aldraðir og öryrkjar. Þeir virðast einir færir um að axla þær byrðar sem eru afleiðing bankahrunsins sem þeir báru litla sem enga ábyrgð á. Þeir flýja ekki land. Þeir eiga fáa kosti aðra en að þrauka á þessu skeri og taka því sem að höndum ber. Þeir sem skammta þeim úr hnefa eru m.a. fulltrúar opinberra starfsmanna og sjómanna sem kjósa jafnvel að fara í róður í stað þess að sinna þingstörfum.

Hverjir eiga nú að endurreisa hið nýja Ísland?


"Seint fyllist sálin prestanna"

DV greinir frá því í dag að prestur nokkur á Suðurnesjum fái rúma milljón í aksturspeninga á ári. Samkvæmt kjarasamningum ætti hann að fá rúm 300 þúsund.

Áður hefur verið vikið að því á þessum síðum hversu viðkvæmt starf presta sé og hversu auðvelt sé að gera þá að skotspónum. Ókostir eins og græðgi og sérgæska mega helst ekki einkenna þá sem gerast sálusorgarar.

Presturinn gæti nú farið að dæmi mannsins í þjóðsögunni og skipt þessum ofgreiddu aksturspeningum með einhverjum þeim hætti að gögnuðust fleira fólki en honum sjálfum. Hætt er við að sú ágirnd, sem þessar greiðslur fela í sér, verði seint til þess að hann verði auðmaður og skorti aldrei fé.

SEINT FYLLIST SÁLIN PRESTANNA

Einu sinni var ungur maður og efnilegur; hann lagði ástarhug á stúlku eina og bað hennar; en hún aftók um ráðahag við hann. Af því varð maðurinn mjög angraður og fór oft einförum.

Einu sinni var hann einn úti á víðavangi að rölta eitthvað; veit hann þá ekki af því, fyrr en maður kemur til hans og heilsar honum. Biðillinn tekur kveðju hans dauflega, enda þykist hann ekki þekkja manninn. Komumaðurinn er altillegur við hann og segist vita, að það liggi illa á honum og út af hverju það sé, og segist skuli sjá svo um, að stúlkan, sem ekki hafi viljað taka honum, sæki ekki minna eftir honum en hann eftir henni, ef hann vilji heita sér því að verða vinnumaður sinn að ári liðnu. Maðurinn tekur þessu boði þakksamlega, og ráða þeir nú þetta með sér. Eftir það skilja þeir, og fer biðillinn heim.

Litlu seinna finnur hann stúlkuna við kirkju, og er hún þá orðin öll önnur við hann en áður og sækir mjög eftir honum. Maðurinn fer þá heldur undan og hugsar, að þetta sér hrekkur af henni. En bráðum kemst hann að því, að henni er full alvara. Verður það nú úr, að hann fær stúlkunnar og á hana, og voru samfarir þeirra góðar.

Nú fer að líða á árið, frá því hann hitti þann, sem hafði stutt hann til konumálanna, og fer nú bóndi að fá hugsýki af því, hver þetta hafi verið. Þegar mánuður var eftir til krossmessu, fer hann á fund prestsins síns og segir honum upp alla sögu og biður hann ráða. Prestur segir, að hann hafi of seint sagt sér þetta, því þar hafi hann átt kaup við kölska sjálfan, er hann átti við þenna ókunnuga mann.

Fer þá algjörlega að fara um bónda og biður prest því ákafar ásjár.

Prestur varð vel við því og safnar þegar að sér múg og margmenni, lætur þá alla taka til starfa og grafa innan stóran hól og bera alla moldina burtu; síðast lætur hann gjöra kringlótt gat lítið upp úr miðjunni á hólnum. Þegar því var lokið, er komið að krossmessu. Tekur prestur þá sál og úr henni báða botna, en setur krossmark í annan endann og festir sálina í gatinu á hólinn, svo hún stendur þar upp sem strompur, en krossmarkið er í neðri enda sálarinnar. Síðan segir hann við bónda, að hann skuli bíða kaupanauts síns uppi á hólnum og setja honum þá kosti, að hann fylli sálina með peninga, öllum að meinfangalausu, áður en hann fari að þjóna honum; ella sé hann af kaupinu.

Síðan skilur prestur við bónda, og fer hann að öllu sem prestur hafði fyrir mælt.

Nokkru síðar kemur kaupanautur hans, og er hann nokkuð úfnari en í fyrra skiptið. Bóndi segir við hann, að sér hafi láðst eftir seinast að biðja hann bónar, sem sé lítilsverð fyrir hann, en sér ríði á svo miklu, að hann geti ekki farið til hans ellegar. Kölski spyr, hvað það sé, og segir hann, að það sé að fylla sálina þá arna með silfurpeninga, öllum að meinfangalausu.

Kölski lítur til hennar og segir, að það sé ekki meira en mannsverk, fer burtu og kemur aftur eftir litla stund með mikla drögu og lekur úr sjávarselta. Síðan lætur hann úr drögunni í sálina, en hún er jafntóm eftir sem áður. Fer hann þá í annað sinn og kemur aftur með aðra drögu miklu stærri og steypir í sálina; en hún fyllist ekki að heldur. Svo fer hann í þriðja sinn og kemur upp með drögu, og er hún mest þeirra; þeim peningum hellir hann í sálina, og fer það allt á sömu leið. Þá fer hann hið fjórða skipti og sækir enn drögu; sú var meiri en allar hinar; steypir hann þeim peningum einnig í sálina, en ekkert hækkar í henni. Verður kölski þá hvumsa við og segir, í því hann yfirgefur manninn: "Seint fyllist sálin prestanna".

Maðurinn varð, sem von var, alls hugar feginn lausn sinni frá vistráðunum hjá kölska, og af því hann þóttist eiga þar presti best upp að unna, skipti hann jafnt á milli þeirra peningunum, og vitjaði kölski hvorki þeirra né mannsins eftir það, en maðurinn varð auðmaður alla ævi og skorti aldrei fé né heldur prestinn.

Netútgáfan - mars 1997


Uppsagnir á Stöð tvö

Í morgun bárust fréttir af því að Sigmundi Erni Rúnarssyni, fréttastjóra Stöðvar tvö og eiginkonu hans hefði verið sagt upp störfum. Þá hefur þáttagerðarmönnum einnig verið sagt upp störfum.

Sigmundur Ernir lætur að því liggja að reynslulitlir stjórnendur, sem hafi verið ráðnir að stöðinni, þoli ekki fólk með reynslu í kringum sig.

Þetta er leitt. Og það er leitt að bjóða þau hjónin velkomin í hóp reyndra stjórnenda sem reynslulitlir forráðamenn þola ekki.

Minnimáttarkenndin er mikils megnug en hefnir sín fyrr eða síðar. Þeim hjónum og öðrum, sem hafa orðið að sæta þessum örlögum, er óskað velfarnaðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband