Færsluflokkur: Dægurmál

Aðventulóur

Í gær barst mér skemmtilegur tölvupóstur frá vinkonu minni á Áfltanesi, Sigurbjörgu Ólafsdóttur. Hún býr á sjávarbakkanum og fylgist vel með fuglalífinu þar. Hún sagði mér að lóur hefðu verið á kreiki þar allt fram að jólum.

Eins og lesendur þessarar síðu muna hljóðritaði ég vetrarkvak lóunnar vestur á Seltjarnarnesi 1. nóvember sl. og útvarpaði því þann 5. Var það sennilega í fyrsta sinn sem vetrarljóðum lóunnar hefur verið útvarpað hér á landi, en þau eru heldur dauflegri en sumarsöngurinn.

Hafi lóurnar sem voru á vappi hjá Sigurbjörgu haldið til Bretlands fóru þær svo sannarlega úr öskunni í eldinn. Hver veit nema einhverjar lóur haldi sig enn hér á landi og verði hér í allan vetur.

Gaman væri að frétta frá lesendum hvort þeir hafi orðið varir við lóuna eftir áramót.


Lítið bloggað

Lítið hefur verið um blogg að undanförnu. Kemur það ekki til af góðu.

Ég hef undanfarin fjögur og hálft ár notað ágæta HP-ferðatölvu, en heilsa hennar hefur farið versnandi upp á síðkastið. Loksins gafst hún upp um helgina. Þetta kom sér afar illa. Ég hafði miklar skoðanir á ýmsu sem var í fréttum og þar að auki átti ég eftir að gera hljóðmynd fyrir Ríkisútvarpið. En eins og séra Jakob Jónsson sagði einu sinni, þá ákvað skaparinn að gera honum erfitt um vik með að skrifa því að nóg hafði komið af bulli úr penna hans. Guð hefur sjálfsagt haft þá skoðun að nú væri betra að ég þegði og slakaði ögn á. En þetta var alldýr ráðstöfun hjá Guði.

Í gær var fjárfest í nýrri tölvu af illri nauðsyn. Ég lét færa hana niður í Windows XP þar sem hún var seld með Vista og Windows XP er enn fokdýrt og ég var hræddur um að þurfa að fjárfesta í nýjum hljóðritunarforritum.

Það er í raun grábölvað að tölvur endist ekki lengur e þetta, tæp 5 ár. Vonandi verður eitthvað hægt að gera garminum til góða og þá verður hægt að nota hana sem varaskeifu.

Vinnan gengur allvel og nú er embætti skattstjórans greinilega ikomið á skrið í aðgengismálum Meira um það síðar.


Fækkar um einn á atvinnuleysiskrá

Í morgun fækkaði um einn á atvinnuleysisskrá, a.m.k. um stundarsakir, en ég afskráði mig enda er búist við að tekjur mínar nægi til þess að atvinnuleysisbætur falli niður. Þá var mér ráðlagt að afskrá mig því að nú fækkar óðum þeim dögum sem ég á rétt á sem atvinnuleysingi. Hefði vinnan hjá Morgunblaðinu ekki komið til sumurin 2007 og 2008 væri réttur minn til atvinnuleysisbóta senn á enda.


Lóukvak í nóvember

Sunnudaginn 1. nóvember fórum við Elín út í Suðurnes á Seltjarnarnesi. Við Daltjörn var hópur af lóum og öðrum fuglum. Ég tengi pistilinn sem ég útvarpaði í morgun við þessa færslu. Þar geta menn hlustað á vetrarhljóð lóunnar. Njótið vel og gerið athugasemdir. Þær verða birtar um leið og færi gefst.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sölumaður rifjar upp gömlu taktana

Í gær hóf ég störf við sölumennsku. Hún er í því fólgin að selja fólki áskriftir. Það á ágætlega við samvisku mína enda er tilboðið fýsilegt.

Samstarfsfólkið er prýðilegt og andinn virðist góður á vinnustaðnum. Það læðist þó að mér sú ónotalega tilfinning að ég sé að kasta ákveðinni þekkingu á glæ. Um það þýðir víst ekki að fást enda hefur hún að mestu verið afþökkuð undanfarin fjögur ár.

Upp úr stendur að einangrunin sem fylgir miklu iðjuleysi er rofin a.m.k. um stundarsakir og það er vel, það er í raun dásamlegt.

Ég var dálítið stirður í upphafi en þegar á daginn leið liðkaðist um málbeinið og salan gekk betur.


Indælis rigning

Ég rölti út á pósthús áðan. Úti var hellirigning. Ég dró því hettu yfir höfuð til þess að blotna ekki um of á þeim fáu hárum sem eftir eru á hvirflinum.

Þegar nær kom Eiðistorginu og ég þurfti að hlusta eftir umhverfinu tók ég af mér hettuna og blotnaði. Það stóð ekki lengi því að Eiðistorgið er yfirbyggt. Það lekur þó víða.

Ég sá mest eftir að hafa ekki haft með mér hljóðvasapelann til þess að fylla á hann með því skemmtilega hljóðumhverfi sem verður á torginu þegar rignir. Það væri ekki verra en sumt af því sem útvarpað er.


Ögmundur er góður liðsmaður

Nú lætur Ögmundur Jónasson af formennsku í BSRB eftir langan og fremur farsælan feril.

Við Ögmundur áttum afar góð samskipti á meðan við gegndum báðir forystu fjölmennra hagsmunasamtaka. Reyndust hann og Benedikt Davíðsson, forseti Alþýðusambands Íslands, Öryrkjabandalaginu jafnan haukar í horni í þeirri kjarabaráttu sem hófst í lok 9. áratugarins. Þá var talsvert samráð á milli samtakanna og stjórnvalda en eftir að Viðeyjarstjórnin tók við árið 1991 dró stórlega úr því. Ég leitaði eitt sinn ráða hjá þeim Ögmundi og Benedikt um það hvernig Öryrkjabandalagið gæti brotist út úr þeirri einangrun sen þáverandi forsætisráðherra lagði á bandalagið. Kváðust þeir ráðalausir enfa væru lítil samskipti við forsætisráðuneytið og yrðu sjálfsagt lítil þar til ríkisstjórnin yrði neydd að samningaborðinu vegna næstu kjarasamninga.

Að þessu leyti var reginmunur milli þeirra Steingríms Hermannssonar og Davíðs Oddssonar. Sá fyrrnefndi kostaði kapps um að eiga samræður og samráð við samtök almennings í landinu en hinn síðarnefndi valdi úr þau samtök sem honum voru þóknanleg og ákvað hvaða forystumenn væru þess virði að á þá væri hlustað.

Ég leyfi mér að þakka Ögmundi gott samstarf á þessum vettvangi og óska honum og fjölskyldu hans heilla.


Auglýsingar eru heimildir

Flest fólk hefur gaman af að safna ýmiss konar efni. Ég hef haft þá ástríðu að safna útvarpsefni til eigin afnota auk þess sem ég hef hljóðritað sitt lítið af hinu og þessu áratugum saman.

Árið 1993 kom myndbandstæki á heimilið. Áttaði ég mig á því að spólurnar væru fyrirtaks geymsla undir hljóðrit. Safnaði ég efni á tæplega 60 spólur, samtals um 400 klst. Nú hálfum öðrum áratug síðar hef ég komist að því að ódýrar spólur, sem ég freistaðist til að kaupa, eru farnar að skemmast og því góð ráð dýr.

Að undanförnu hef ég því dundað mér við að færa þetta efni á stafrænt snið. Vitaskuld hlusta ég ekki á allt efnið heldur færi það yfir á tölvu og brýt risastórar hljóðskrár niður í einingar. Vista ég efnið sem mp3-hljóðskrár á 256 bitum og haldast því hljóðgæðin að mestu.

Ef mig langaði að ná tilteknu efni þurfti ég stundum að setja myndbandstækið í gang nokkru áður en útsending hófst. Slæddust þannig með auglýsingar, veðurfregnir, fréttir og sitthvað fleira. Auglýsingarnar eru einkar athyglisverðar og bregða ljósi á tískuna hverju sinni. Tilkynningarnar varpa auk þess ljósi á ástandið í þjóðfélaginu. Vegagerðin varar við illviðri, rætt er um færð á götum borgarinnar og afleiðingar illviðra eru tíundaðar.

Það gæti orðið skemmtileg hljóðmynd að útvarpa gömlum auglýsingum.


Maraþonhlaupið

Nú er enn hlaupið Maraþonhlaup á vegum menningarnætur (dags). Setur það jafnan skemmtilegan svip á tilveruna því að garparnir hlaupa framhjá Tjarnarbóli 14. Ekki spillti heldur fyrir að þeir bræður, Birgir Þór á 5. ári og Kolbeinn Tumi á öðru ári fylgdust með hlaupurunum af miklum áhuga. Sátu þeir á eldhúsborðinu, en útsýnið er nú prýðilegt þaðan eftir að Iðunnarhúsið hvarf.

Árið 1998 undirbjó ég um þetta leyti þátt fyrir Ríkisútvarpið sem ég kallaði "Úr heimilishljóðmyndasafninu" ef ég man rétt. Birtust þar ýmis hljóðrit. Í tilefni þáttarins hljóðritaði ég Maraþonhlaupið og birti hluta hljóðritsins í þættinum. Ef grannt var hlustað gátu menn heyrt ýmislegt athyglisvert. Jón Sigurðsson tók þátt í skemmtiskokki í hjólastól, einhverjir hlupu með barnakerrur og svo má lengi telja. Í morgun rigndi of mikið til þess að ég nennti að hljóðrita hlaupið. ´Ég stefni þó að því að hljóðrita það í náinni framtíð enda er ég nú mun betur tækjum væddur en fyrir 11 árum.


skemmtileg Kvennakirkjumessa handa höfðingjasleikjum

Dagurinn var skemmtilegur. Við fórum í leiðangur með Hring okkar og á meðan Elín mátaði skó bjó Hringur til handa mér hringitóninn "Austrið er rautt" svo að nú er þessi gamli, kínverski ástarsöngur og lofsöngur um Mao kominn á ný í farsímann minn.

Í kvöld brugðum við Elín undir okkur Orminum bláa og hjóluðum austur að gömlu þvottalaugunum að hlýða messu hjá Kvennakirkjunni. Prédíkaði séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og var bæði skemmtileg og greind að vanda. Sagðist hún hafa komist að því að Íslendinga mesti vandi væri sá að þeir væru höfðingasleikjur.

Í ræðunni fjallaði hún einnig um flóttann frá Egyptalandi hér um árið þegar Móses leiddi Ísraelslýð um eyðimerkur Sínaí-skaga eða þar til þeir gátu hremmt Ísrael úr höndum þeirra sem ráðu því. Hún taldi að vísu að guð hefði gefið þeim landið en mér finnst ævinlega sem Gyðingar hafi stolið því.

Hún Auður rakti síðan skemmtilega hvernig skiptingin væri milli gamla testamentisins og hins nýja: Guð talaði fyrst við höfðingjana sem hefðu verið boðberar hans lýðnum. Síðar hefði guð gengið um á meðal manna sem Jesús og talað við almenning.

Enn hafði Auður Guð í kvenkyni. Þó fór hún með föðurvorið en ekki móðurvorið og var vissulega nokkur ósamkvæmni í því. Hún gleymdi samt ekki að ávarpa okkur hina fáu karlmenn sem hlýddum messunni.

Ég hef einu sinni áður hlýtt messu hjá Kvennakirkjunni. Niðurstað mín er sú að messur þeirra kvennanna vinni gegn ýmsum fordómum. Auður er hrífandi ræðumaður enda fékk hún gott hljóð.

Unnur vinkona okkar kom til móts við okkur í messuna og þar hittum við einnig Fanneyju Proppé sem bauð okkur þremur í kaffi og konfekt. Voru því andi og líkami vel nærðir eftir þennan dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband