Færsluflokkur: Dægurmál

Nýtt starf í vændum

Í gær réð ég mig sem sölumann hjá Firmaskrá Íslands og tek ég til starfa síðar í sumar.

Hinn 5. júní síðastliðinn sótti ég um sölumannsstarfið sem auglýst var á mbl.is og innan við klukustund síðar var haft samband við mig. Samtalið var mjög jákvætt og þótti mér næsta víst að ég fengi starfið. Í gær var síðan gengið frá því að svo yrði.

Ég vænti þess að nú sé þessari þrautagöngu lokið a.m.k. um stundarsakir. Ég hef að mestu verið atvinnulaus frá því í janúar 2006 þegar ég var rekinn fyrirvaralaust frá Öryrkjabandalagi Íslands. Aldrei fékkst á því nein skýring heldur voru hafðar í frammi dylgjur sem ekki verða rifjaðar hér upp. Tvö síðustu sumur vann ég sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu og lærði heilmikið á því. Morgunblaðið er einhver besti vinnustaður sem ég hef verið á og er ég bæði stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið þetta gullna tækifæri til þess að starfa sem blaðamaður og ryðja þannig öðrum brautina. Þá hef ég haft með höndum pistla fyrir ríkisútvarpið einu sinni í viku og held því vonandi áfram enn um sinn.

Sölumennska er mér ekki ný af nálinni. Frá árinu 1970-75 vann ég á sumrin sem sölumaður hjá Ásbirni Ólafssyni að undanteknu sumrinu 1973 þegar við gísli sáum um Eyjapistil. Þá tók ég að mér söluverkefni fyrir lítið fyrirtæki sumarið 1977, en Atvinnumiðlun stúdenta útvegaði mér starfið. Ungur systursonur minn, Birgir Finnsson, var mér til halds og traust þá daga sem verkefnið stóð.

Það verður skemmtilegt að rifja upp sölumannsstarfið. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég fékkst við sölumennsku síðast og viðhorfin önnur.

Á þessu atvinnuleysistímabili hefur fjöldi fólks reynst mér afar vel, stappað í mig stálinu og verið mér til halds og trausts. Elín, eiginkona mín, stendur ævinlega við hlið mér sem klettur. Bendir hún mér iðulega á það sem betur megi fara og sér einatt ótrúlegust u lausnir á hlutum sem mér virðast flóknir. Þá hefur fjölskyldan öll reynst mér hið besta og ekki síst Árni, sonur Elínar, en hann hefur einstakt lag á að hefja uppbyggilegar samræður um margvíslegar hliðar tilverunnar. Þótt fleiri verði ekki taldir upp hefur þeim ekki verið gleymt.

Þegar fólk fær jafnjákvæð viðbrögð við umsókn sinni og raun bar vitni 5. júní síðastliðinn hlýtur það að fyllast bjartsýni um leið og því eykst kjarkur.

Starfsfólk Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins hefur einnig reynst hið traustasta í öllum ráðum sem það hefur gefið. Kærar þakkir, þið öll.


Krían

Við hjónin brugðum okkur út í Suðurnes áðan og gengum umhverfis golfvöllinn. Þar var margt um leikmenn enda veðrið eins og best verður á kosið.

Nokkuð var um kríu en þó ekki þvílíkt ger sem fyrir áratug. Elín sá nokkrar með síli í gogginum. Vonandi veit það á gott.


Norðangarrinn

Ég átti erindi út á Eiðistorg áðan. Ég bjó mig vel og hélt út í garrann. Ekki var eins kalt og ég bjóst við og í raun hressandi að fást við náttúruöflin. Gangstéttin hafði verið mokuð en vindurinn sá til þess að mjöllin hafði feykst yfir hana á kafla.

Við aðaldyr Eiðistorgsins var hált og við bættist að einhver sporletingi hafði lagt jeppa sínum kirfilega upp á ganstétt sunnan aðaldyranna. Hefur hann væntanlega þurft að hafa meira fyrir því en að leggja á bílastæðinu og ganga í áttina að dyrunum. Hann slapp hvort eð er ekki við hálkuna.

Mér gekk ágætlega að sinna erindum mínum og hélt síðan heimleiðis. Snjórinn og hálkan ollu því að ég fór fetið. Gætti ég mín ekki sem skyldi og var næstum fallinn um hindranirnar sem settar voru upp fyrir nokkrum árum til þess að hindra að bílum væri lagt þar upp á gangstéttina. Minntist ég þess þegar ég féll eitt sinn á andlitið vegna aðgæsluleysis og vankaðist. Skjögraði ég yfir götuna, rak mig þar á ljósastaur og varð heldur ófrínilegur útlits. Síðar frétti ég að eiginkona lögregluþjóns, sem er frægur að endemum fyrir list sína og tryggð við útlendan vin sinn, hefði um svipað leyti fallið um þessa sömu hindrun og fótbrotnað. En hvað þjóðfélagið gæti nú verið greiðfært ef ekki þyrfti að koma fyrir hvers kyns hindrunum til þess að forða fólki frá að ganga á hlut annarra.

Ekkert bar annars til tíðinda á heimleiðinni annað en að hrafn nokkur sat á ljósastaur á horni Skerjabrautar og nesvegar, krunkaði lágt og sletti í góm. Krunkuðum við dálítið saman og vorum sammála um að vorið væri í nánd.


Flugur í fjöru

Birgir litli Þór var hjá ömmu og afa í fóstri í nótt. Við ætluðum í fjöru í dag að sýsla ýmislegt skemmtilegt. En sá stutti fór að kasta upp í morgun svo að ekkert varð af fjöruferð og faðir hans sótti hann um nónbil.

Við hjónakornin fórum út í Gróttu áðan og hlustuðum á Atlantshafið spjalla við vitann. Greina mátti þungar drunur brimsins. Stafalogn var og undursamlegt veður. Í svona veðri hefði verið gaman að hljóðrita tónbrigði sjávarins.

Við héldum göngunni áfram meðfram ströndinni og nutum blíðunnar. Ský dró fyrir sólu. Sólin gbraust fram úr skýjum þegar dró að lokum göngunnar og skreytti umhverfið. Í fjörunni voru flugur enda lýkur febrúar í dag og senn vorar. Gísli Halldórsson, leikari, notaði einungis tvær árstíðir. Sumarið hófst 1. mars og veturinn 1. nóvember. Hvorki var haust né vor í hans dagatali.


Heimilishljóðin

Ókosturinn við blinduna og atvinnuleysið er sú einangrun sem þessi fyrirbæri geta haft í för með sér. Höfuðborgarsvæðið r orðið þannig að dýrt er og óþjált að koma sér á milli staða. Það bjargar þó miklu hjá mér að bæjarfélagið hefur verið mjög þjált í samningum um ferðaþjónustu og ber að þakka það sem vel er gert.

En tíminn líður og ævinlega er hægt að sýsla talsvert sér til gagns og gamans. Í gær hljóðritaði ég nokkur heimilishljóð. Ég hef svo sem dundað mér við slíkt nokkuð lengi en ákvað að bæta í safnið enda lengi ætlað að útvarpa slíkri samantekt. Á morgun verður því útvarpað heimilishljóðum í þættinum "Vítt og breitt", en pistlar mínir eru yfirleitt á dagskrá upp úr kl. 13:45. Við hljóðritanir þessar hef ég notað Nagra ARES-M og ARES BB+ auk Shure VP88 víðómshljóðnema. Gallinn við hann er sá að honum fylgir dálítið suð sem þó kemur ekki að sög þegar hávaðinn dynur yfir. En þessi hljóðnemi hentar ekki til að hljóðrita umhverfishljóð i náttúrunni.

Það hefur valdið mér nokkrum vandræðum að USB-hljóðkort, sem ég á, nýtist ekki við ferðatölvuna af einhverjum ástæðum. Vélin frýs og gefur jafnvel frá sér 800 riða óánægjutón. Ég hljóðrita því allar kynningar á Nagra-hljóðritann og færi síðan yfir á tölvuna.

Ýmislegt er á döfinni í pistlum mínum og vænti ég þess að geta bætt við einhverjum hljóðritum á næstunni auk einhvers fróleiks. Hljóðrit úr atvinnulífinu væri fróðlegt að gera og eru allar tillögur vel þegnar.


Hressandi hjólreiðar

Við hjónin notuðum tækifærið eftir hádegi og drógum björg í bú. Ormurinn blái var leiddur út úr fylgsni sínu. Eftir að við höfðum klæðst viðeigandi skjólfötum var haldið í Krónuna og Bónus.

Aðdrættir taka jafnan dálítinn tíma og þegar haldið var heimleiðis var skollinn á suðvestan stormur. Þótt regnið berði okkur og vindurinn gnauðaði var þetta einkar skemmtileg áreynsla. Furðulegt er hvað fáir halda hjólandi í verslunarferðir.


Hljóðtruflun

Ég hef nokkrum sinnum orðið fyrir því að eyrun hafa svikið mig. Einu sinni sprakk í mér hljóðhimnan um borð í flugvél og eftir það heyrði ég um tíma allt hálftóni hærra með hægra eyranu. Hljómar urðu þá hreinn óskapnaður.

Í dag tók ég eftir því að þrýstingur hafði myndast í hægra eyra. Fyrir tilviljun fór ég að blístra eins og ég geri stundum. Þegar ég blístra nú tóninn c kemur g-tónn fram svo að úr verður fimmund. Þannig heyri ég jafnan g-tóninn þar til ég kem að honum. Um leið og ég fer upp fyrir hann hverfur aukatónninn.

Ég vona að þetta sé ekkert alvarlegra en eyrnamergur. Hef ég þegar pantað tíma hjá heimilislækni.


Fésbókin aðgengileg sumum en ekki öllum

Um daginn barst mér tölvupóstur frá ungum pilti sem heitinn er eftir öðrum ungum pilti í Brekkukotsannál. Bauð hann mér að skoða síðuna sem hann hafði opnað á Fésbók.

Þegar til átti að taka vandaðist málið. Ég þurfti að skrá mig inn og til þess að það væri hægt þurfti ég að skrifa með hástöfum eitthvað sem birtist á skjánum.

Slíkar upplýsingar eru yfirleitt myndrænar og í raun gersamlega óþarfar við innskráningu. Skjálesarar, sem blintog sjónskert fólk notar, lesa ekki þessar myndir. Mbl.is hefur leyst málið með spurningum sem svarað er og Google að hluta til með því að bjóða fólki að hlusta á hljóðritanir.

Stöðugt fleiri hafa ánægju af Fésbókinni og hasla sér þar völl. Ég er ekki einn þeirra. Svo verður væntanlega ekki fyrr en bandarísku blindrasamtökin höfða mál á hendur eigendum síðunnar og fá þá til samstarfs um að hlýða lögum sem gilda um upplýsingaaðgengi þar í landi. Að sinni nægir Moggabloggið mér.


mbl.is Facebook fimm ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutur Rásar eitt rýrður - hringlandaháttur eða sparnaður?

Þegar Sigrún Stefánsdóttir varð dagskrárstjóri beggja rása Ríkisútvarpsins voru nokkrar breytingar gerðar á dagskrá Rásar eitt. Sumt af því horfði til bóta.

Eftir það fóru þulirnir að mæta fyrr á morgnana til vinnu og sáu þá að hluta um Morgunvaktina.

Í haust hættu þulirnir að hafa umsjón með Morgunvaktinnu og urðu aftur þulir í stað dagskrárgerðarmanna. Í sparnaðarskyni var sérstakur tónlistarmaður ráðinn til þess að annast þá hlið mála eftir 8-fréttir.

Nú hefur sú breyting orðið að fréttir kl. 6 á morgnana hafa verið felldar niður á Rás eitt og ókynnt, sígild tónlist leikin í staðin fram til kl. 6:38. Þá koma umsjónarmenn Morgunvaktar, lesa tilkynningu um sólarupprás, hádegi, sólarlag og myrkur og síðan eru veðurfregnir lesnar frá Veðurstofu Íslands, en því var hætt fyrir nokkru og þulir tóku við. Þá koma þulir sennilega ekki til starfa fyrr en rétt fyrir kl. 9, en þetta hef ég ekki rannsakað enn.

Með því að fella niður fréttalestur á rás eitt er gildi hennar rýrt að mun. Auðvitað lifir fólk af að heyra ekki fréttir fyrr en kl. 7 á morgnana, en nútíminn ætlast nú einu sinni til þessarar þjónustu.

Því er nú lagt til að Sigrún hringli enn í dagskránni og láti að nýju lesa fréttir á samtengdum rásum kl. 6 að morgni en skilji ekki Rás eitt eftir útundan ásamt hlustendum sínum.


Hagstjórn eða spávísindi

Ýmislegt fer öfugt ofan í mig um þessar mundir. Því meira sem ég les og heyri þeim mun minna skil ég.

Bandaríkjamenn eru skuldugasta þjóð heims og lækka nú stýrivexti svo mjög að vart verður hægt að lækka þá meira.

Austan hafs og í Mið-Austurlöndum lækka menn einnig stýrivexti.

Hér á landi er stýrivöxtum haldið háum og það er sagt eiga að tryggja að gjaldeyrir, sem bankarnir hafa eytt og falinn var þeim til varðveislu, fljóti ekki út úr landinu.

Krónunni er haldið á floti með gjaldeyrishöftum og erlendir einstaklingar og fyrirtæki geta ekki nálgast aurana sína og flutt úr landi og það eitt ætti að duga.

Til hvers þarf þá svona háa stýrivexti? Hvort ráða kenningar Seðlabankans eða Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þessu og hvort er vit í því?

?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband