Færsluflokkur: Dægurmál

Búseta verði látin ráða

Sjónvarpsþátturinn Útsvar sýnir í hnotskurn hve illa er komið fyrir landsbyggðinni. Skagamenn tefldu fram í kvöld smið sem fluttur er af Skaganum fyrir 30 árum og um daginn tefldu Dalvíkingar fram Hjálmari Hjálmarssyni, leikara sem búið hefur á sunnanverðu landinu árum saman.
Mikið er ég feginn að Vestmannaeyingar báðu mig ekki að fara fram fyrir sig.

Apinn sem keypti alla peningana og líka grænmeti og aura

Birgir Þór Árnason og Krista Sól Guðjónsdóttir eru á fjórða ári og stunda nám í leikskólanum Tjarnarási í Hafnarfirði. Í dag segja þau hlustendum þáttarins Vítt og breitt á Rás eitt söguna um apa sem féll ofan úr tré og litla mús sem renndi sér niður rennibrautina. Útsendingin hefst um kl. 13:45. Þá heyrist einnig söngur barnanna á Tjarnarási og leikhljóð. Missið ekki af þessari útsendingu. Hún hressir sálina í darraðardansi og amstri dagsins.

Ég hef borið gæfu til að halda úti pistlum í þættinum Vítt og breitt einu sinni í viku frá árinu 2006. Þar hefur ýmislegt borið á góma. Í vetur verða pistlar og frásagnir um hitt og þetta og nokkur áhersla lögð á að birta hljóðrit sem ég hef gert undanfarna þrjá áratugi. Þótt hljóðritasafnið sé ekki mjög stórt í sniðum leynist þó þar ýmislegt sem er harla athyglisvert og ber vitni um horfinn hljóðheim.

Um daginn afritaði ég gamla snældu á tölvudisk. Þegar afrituninni var lokið tók ég eftir því að snældan var slitin. Hún verður því ekki notuð framar.

Þeir sem eiga gamlar snældur með efni sem þeir telja dýrmætt ættu hið fyrsta að huga að afritun þeirra. Leynist þar efni sem fólk telur að aðrir geti haft gaman af, væri fróðlegt að fá að hlusta á það og athuga hvort það væri ekki hæft til útsendingar.

Munið svo að hljóðrita börnin ykkar. Til þeirra hluta eru nú til býsnagóð tæki á mörgum heimilum, en yfirleitt eru góðir hljóðnemar á stafrænum kvikmyndavélum.


Samhringing kirkjuklukkna í Reykjavík og þjóðhátíðin

Mig hefur lengi dreymt um að hljóðrita óminn af samhringingu kirkjuklukkna í Reykjavík að morgni 17. júní. Við Elín ræddum hvar best væri að bera niður og völdum Öskjuhlíð skammt frá Perlunni.

Við mættum á svæðið 10 mínútum fyrir kl. 10 í morgun og allt var til reiðu þegar hringingin hófst. Vonbrigðin urðu nokkur. Stynningsgola var á af norðri og truflaði hún eitthvað hljóðritunina. En hitt var verra að einungis heyrðist daufur ómur hringingar frá tveimur kirkjum, Hallgrímskirkju og Háteigskirkju, sennileg of daufur til nokkurra nota.

Sennilega þarf ég að hugsa þetta mál aftur og athuga hvar betra er að bera niður til þess að ná fleiri kirkjum. Allar tillögur eru vel þegnar á þessari síðu.

Að öðru leyti var dagurinn að mestu hefðbundinn. Fórum og hlustuðum á Kjartan Magnússon og Geir Haarde, Lúðrasveit Reykjavíkur, sem hefur aldrei spilað betur og Karlakórinn Fóstbræður á Austurvelli. Ég var einkar ánægður með ræðu Kjartans þar sem hann fjallaði um nýja Íslendinga. Einnig lýsi ég mig sammála breyttum áherslum Geirs í orkumálum. Einhverjir í kringum mig veltu þó fyrir sér hversu djúpt þær ristu. Hið opinbera þarf að taka verulega á honum stóra sínum til þess að gera almenningi kleift að spara bensín með því að nota almenningskerfið. Kerfið í Reykjavík er a.m.k. handónýtt og margir halda því fram að skipulag borgarinnar bjóði vart upp á annað en handónýtt samgöngukerfi.

Við fórum suður í Hafnarfjörð og stunduðum hátíðarhaldið þar með Árna, Elfu og sonum. Ágætur dagur.


Hollendingurinn fljúgandi og árdegisútvarpið

Ég held að það hafi verið heillaráð a breyta árdegisútvarpinu þannig að fólki gæfist kostur á að vakna við sígilda tónlist á morgnana. Of algengt var að poppgarg skylli á hlustum þeirra sem kveiktu á útvarpstækjum sínum upp úr kl. 6.

Árdegisútvarpið hefur þó verið dálítið laust í reipunum. Stundum eru lesnar upplýsingar úr Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags en aðra morgna skortir á að þær séu lesnar.

´'Eg hef áður skrifað um það á þessum síðum hvað vandasamt sé að velja tónlist í morgunútvarp og áðan varð glöggt dæmi um það hvernig EKKI á að velja tónlist í morgunútarp.

Fyrr í morgun læddist ég fram í eldhús til þess að ganga frá úr uppþvottavélinni og setja vatn í hraðsuðuketilinn. Auðvitað kveikti ég á útvarpstækinu. Skall þá á mér aría úr Hollendningnum fljúgandi sem Bryn Terfel flutti af mikilli innlifun. Tónlistin var bæði hávær og óþægileg í morgunsárið.

Hollendingurinn fljúgandi eftir Richard Wagner er ein af mínum uppáhaldsóperum. En ekki á morgnana.

Skyldu þeir, sem velja tónlist í árdegisútvarpið, nokkru sinni hlusta á það?

Í allri fjölmiðlamennskunni og hámenntun tónlistarfólks hlýtur að vera kennt um það hvernig velja eigi tónlist í morgunútvarp. Vonandi vanda menn til verka hjá ríkisútvarpinu á þessu sviði sem öðrum.


Lóan er komin á Seltjarnarnes og hjólreiðafólk hættir lífi sínu í umferðinni

Þegar ég kom út í morgun voru nokkrir starrar þvaðrandi í nágrenninu. Allt í einu brast á með lóukvaki. Mér fannst þetta eðlilegt lóukvak og alls ekki eins og um eftirhermu starrans væri að ræða. Þar til annað kemur í ljós er ég því fyrsti Seltirningurinn sem heyrir í lóunni þetta árið.

Við drógum Orminn bláa úr hýði sínu og héldum áleiðis niður að höfn. Hjóluðum við framhjá nýja tónlistarhúsinu inn á göngustíginn sem verður samsíða Sæbrautinni. Á leið okkar urðu nokkrir vegfarendur og sumir þeirra skildu ekki að þeir þyrftu að víkja fyrir reiðhjóli. Einn þeirra beygði sig niður og eyddi alllöngum tíma við að slökkva í vindlingi og leit svo hæðnislega á okkur, en við námum staðar. Til þess að ýta ekki undir fordóma gegn útlendingum minnist ég ekki á að maðurinn mælti á slavneska tungu við félaga sína.

Við héldum í áttina að safni Sigurjóns Ólafssonar. Þá kom í ljós að göngustígurinn náði lengra austur á bóginn og fórum við áleiðis en sveigðum niður Köllunarklettsveg og fórum skömmu síðar inn á göngustíginn aftur.

Næst var haldið yfir á Kringlumýrarbraut og hjólað meðfram henni. Það verður að segjast sem er að göngu- og hjólreiðastígarnir í Reykjavík hvetja ekki beinlínis til hjólreiða í borginni. Meðfram Kringlumýrarbrautinni er þvílíkt krákustígakraðak á gatnamótum að hið hálfa væri nóg. Beygjur eru víða krappar og vart færar tveggja manna hjólum.

Vinkona okkar var ekki heima og fengum við því ekki kaffi hjá henni heldur renndum okkur niður Hamrahlíð og Eskihlíð í átt að Norræna húsinu. Við ein gatnamótin þar sem ríkir biðskylda og Eskihlíðarumferðin á réttinn, ók leigubifreið næstu í veg fyrir okkur og var það ekki leigubílstjóranum að þakka að ekki hlutust meiðsl af. Þann heiður átti Elín Árnadóttir, stýrimaður á Orminum bláa. Það er merkilegt hvað margir bílstjórar bera litla virðingu fyrir reiðhjólum. Sumir halda því fram að fullorðnir karlmenn séu verstir. Gömul vinkona mín heldur því statt og stöðugt fram að konur séu verstu óvinir hjólreiðamanna í umferðinni. Svona slær hver því fram sem hann hefur reynslu af. Eitt er víst, í fyrsta sinn sem okkur hjónum var ógnað af bílstjóra þegar við vorum á ferð á reiðhjóli snemma morguns var það ung kona.

Sænsk rannsókn sýndi fram á að ástæða þess að bílstjórar brjóta á hjólreiðamönnum væri sú að bílstjórar óttast ekki að verða fyrir verulegu tjóni þótt reiðhjól lendi á þeim. Í morgun átti í hlut karlfauskur sem leit rembingslega á okkur hjónin. Verst að hafa ekki séð framan í hann því að ég nota leigubifreiðar talsvert og þarf að þakka honum fyrir að drepa okkur ekki eða stórslasa.

Í gær voru 2052 ár frá því að Caesar var myrtur. Ég er feginn að hafa fengið að lifa einum degi lengur.


Lítið er ungs manns gaman

Jólin gengu í garð á sínum tíma í gær eins og siður er. Skömmu fyrir jól birtust þau Árni, Elfa Hrönn og Birgir litli Þór ásamt Sólveigu, tengdamóður minni, en þau háðu með okkur jólin á aðfangadagskvöld. Var etið af hreindýrum sem Árni skaut í haust og voru þau Elín, móðir hans, aðalmatreiðslumeistarar. Vafalítið hefur Elfa lagt hönd á plóginn líka.

Birgir litli, sem er á 3. ári, er mikill horfari á ýmislegt sem birtist á skjánum. En þar sem hann ætlaði í kirkju ásamt foreldrum sínum og Elínu ömmu þótti rétt að hafa fyrir barninu guðs ótta og góða siðu og fékkst hann til þess að hlusta á sögur sem afi mælti af munni fram.

Birgir Þór hefur afar gaman af alls konar ímyndunarleikjum og sér stundum ljón í afa og verður þá afi að urra mjög grimmdarlega. Flýr hann þá í fang Elínar ömmu sem tekst oftast að verja hann gegn ásókn ljónsins. En nú vildi sá stutti heyra sögur um ljónin. Tók því afi sig til og sagði honum nokkrar sögur af því hvernig piltur, sem heitir Birgir Þór, stóð sig í baráttunni við ljón og barg jafnvel skelkuðum foreldrum sínum.

Síðasta sagan var fengin að láni að hluta til úr sögunni um Androkles og ljónið og var með siðferðisboðskap svona í anda jólanna, en hún fjallaði um skógargöngu Birgis í breiskjuhita. Varð hann móður af göngunni og ákvað að hvíla sig undir stóru tré þar sem skuggsælt var.

Uggði hann ekki að sér heldur settist á eitthvað mjúkt. Reyndist þar þá vera ungt ljón sem rauk upp. Eitthvað var að ljóninu og kom í ljós að það hafði fengið glerbrot í hægri framfótinn. Auðvitað náði pilturinn brotinu og haltraði ljónið burt án þess að gera honum mein.

Síðan liðu mörg ár. Birgir var orðinn fullorðinn og foreldrarnir gamlir og gráir fyrir hærum. Þá varð á vegiþeirra svangt ljón og skipti engum togum að það réðst á gamla og lasburða foreldrana. En Birgir Þór rak þá upp mikið öskur. Brá þá ljóninu og lagði við hlustir. Þekkti það þá þennan gamla bjargvætt sin og urðu miklir fagnaðarfundir. Boðskapurinn var auðvitað sá að maður ætti jafnan að vera góður við þá sem bágt ættu.

Ekki veit ég hvort þessi saga skilaði því sem ætlað var en sá stutti vildi gjarnan heyra fleiri sögur. Afinn velti því hins vegar fyrir sér að hann hefði gleymt dýrafræðinni sem hann lærði í gamla daga og þeirri sem Jónas frá Hriflu þýddi og sendi okkur tvíburunum. Þar kemur víst fram að ljón lifa langt innan við mannsaldur. En í ævintýrunum eru víst allir hlutir afstæðir samanber meyfæðingar, himneska herskara og fleira sem margir leggja lítinn trúnað á en er undirstaðan í boðskap kirkjunnar ásamt páskaguðspjallinu.


Algeng orðtök hverfa úr málinu

Um miðjan 7. áratug síðustu aldar stýrðu tveir ritstjórar sínu blaðinu hvor í Vestmannaeyjum. Annað var Eyjablaðið en hitt Fylkir. Annar ritstjórinn kenndi við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja en hinn við Barnaskóla Vestmannaeyja.

Árið 1966 ef ég man rétt tók ritstjóri fylkis sig til og birti eftir sig ljóð í blaðinu undir skáldaheitinu Örn hins kalda norðurs.

Hann hætti því hið snarasta þegar ritstjóri Eyjablaðsins birti grein í blaði sínu þar sem hann greindi frá því að nú væri ritstjóri fylkis farinn að ganga andlegra örna sinna í blaðinu.

Ég hef sagt fjölmörgum þessa sögu og þykir flestum hún jafnskemmtileg og mér. Í fyrravor sagði ég ungum manni frá Vestmannaeyjum þessa sögu. Þá brá svo við að hann hló ekki svo að ég spurði hvort hann vissi hvað "að ganga örna sinna" þýddi. Já, hann vissi að það þýddi að fá eitthvað staðfest. Ég leiðrétti piltinn og kom þá í ljós að hann hafði aldrei heyrt máltækið.

Að undanförnu hef ég hitt fólk á aldrinum frá tvítugu til fimmtugs og fáir hafa þekkt þetta orðtak.

Til eru ýmis orðtök um að ganga örna sinna svo sem að hægja sér o.fl. Langamma mín vildi vera kurteis og talaði um að kýrnar kúkuðu. Það var of gróft að tala um að þær skitu.

Sennilega þarf að leggja meira kapp en hingað til á að kenna ungu fólki ýmis orðtök sem fegra málið og gera það fjölbreyttara. Að svo mæltu hlýði ég kalli líkamans, fer á náðhúsið og geng örna minna.


Milljón er eintöluorð

Nú dynur á okkur fréttin:

Kvartmilljón manna hafa flúið eldana .....

Frumlag setningarinnar er eintöluorðið milljón. Þess vegna á að lesa

Kvartmilljón manna hefur flúið ....

Enn fallegra væri að segja:

Fjórðungur milljónar fólks hefur flúið....

Í gær sótti ég um starf prófarkalesara hjá fyrirtæki og er þetta í annað sinn sem ég hef sótt um slíkt starf í þessum mánuði. Flest gögn eru nú á tölvutæku sniði og ætti slíkur yfirlestur því ekki að vefjast fyrir mér.

Það verður fróðlegt að vita hvort þessar umsóknir skili árangri.


Liðnar ánægjustundir sumarsins

Í kvöld kvaddi ég samstarfsfólk mitt á Morgunblaðinu, en ég var ráðinn þangað sem blaðamaður í sumar um þriggja mánaða skeið.

Af ásettu ráði hef ég ekki skrifað um starf mitt hjá Morgunblaðinu í sumar, ekki vegna þess að mér hafi ekki liðið vel þar, heldur hins, að ég taldi óþægilegt stöðu minnar vegna að fjalla um vinnustaðinn. En nú, þegar störfum mínum er lokið þar í bili a.m.k. langar mig að reifa nokkuð starfsandann og fleira.

Mér fannst þegar ég hóf þar störf, sem ég væri að byrja að nýju á vinnumarkaðinum. Væntingarnar voru miklar og ég held að þeir Moggamenn hafi ekki verið alveg vissir í sinni sök gagnvart mér.

Það tók dálítinn tíma að læra á ritstjórnarkerfið og á endanum gat ég framið allar aðgerðir aðrar en að tengja myndir við skjöl. Ég er þó viss um að við hefðum fundið út úr því með dálítilli vinnu. En þetta gekk sem sagt upp að flestu eða öllu leyti. Ég fór og tók viðtöl við ýmsa og skrifaði greinar og smápistla. Ég skrifaði myndatexta, leitaði að myndum til notkunar við greinar um erlend efni og vann heimildargreinar upp úr tímaritum sem ég skimaði inn og af netinu. Ég kynntist allt öðrum og mannlegri stjórnunarháttum en ég hef áður þekkt. Hjálpsemi og samvinna var til fyrirmyndar og starfsandinn á sunnudagsblaðinu hreint frábær.

Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem blindur einstaklingur vinnur á dagblaði hér á landi. Erlendis er það ekki óþekkt að blint fólk starfi við blaðamennsku. Reyndar hefur það haslað sér völl á flestum sviðum fjölmiðlunar, blaðamennsku, við útvarp og sjónvarp. Hér hefur ekki mikið farið fyrir slíku enda þjóðin fámenn. Ég veit ekki til þess að nokkur blindur maður hafi verið fastráðinn við Ríkisútvarpið eða aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar þótt þær væru kjörinn vettvangur fyrir þá úr þessum hópi sem hafa áhuga á slíkum störfum.

Morgunblaðið sýndi framsýni þegar ég var ráðinn. Fyrirgefið þótt ég segi þetta, en svona er það nú. Þessi fjölmiðill varð sá fyrsti til þess að ráða blint fólk til starfa um einhvern tíma allar götur síðan Ríkisútvarpið hratt af stað Eyjapistli forðum.

Ég vona að fleiri míniir líkar fylgi á eftir hjá íslenskum fjölmiðlum. Þá væri vel.

Eftir helgi hefst spennandi atvinnuleit sem ber vonandi árangur í fyllingu tímans.


Krían er komin

Í gær hjóluðum við Elín vestan af Seltjarnarnesi suður í Hafnarfjörð til sonar hennar og tengdadóttur okkar, en þau búa við Svöluás í Áslandshverfinu. Allvel gekk að komast suður úr Kópavogi. Nokkuð er óljóst hvernig best verður farið um Garðabæinn en allt tókst þetta þó.

Þegar við komum að fjarðarkaupum vandaðist heldur málið og þurftum við að fá leiðbeiningar í tvígang áður en við fundum réttu hjólaleiðina. Hafnfirðingar virðast hafa haft einstakt lag á að leggja kræklótta göngu- og hjólreiðastíga sem ekki hvata beinlínis för.

Við gistum hjá þeim hjónakornunum í nótt og héldum síðan til morgunverðar hjá samkennara Elínar. Þaðan var haldið kl. 06:45 til vinnu hennar í Öskjuhlíðarskóla og farin hópreið. Þegar við hjóluðum um Kársnesið í Kópavogi heyrðum við í nokkrum kríum og Elín sá til þeirra. Í Mogganum mínum las ég síðan að krían væri komin á Seltjarnarnes. Vonandi stendur það líka í ykkar mogga. Til hamingju, allir kríuvinir!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband