Færsluflokkur: Dægurmál

Andvaraleysi og ófarir

Sitthvaðhefur borið til tíðinda að undanförnu og hef ég orðið fyrir tvenns konar hremmingum, misskemmtilegum.

Á fimmtudaginn var hélt ég gangandi frá Hlemmi í átt að Nóatúni 17. Veðrið var þokkalegt, næstum logn en örlítill vestan ískaldur andvari.

Eitthvað var ég annars hugar og sté í ógát út af gangstéttinni. Það kom svo sem ekki að sök en ég rauk upp á gangstéttina aftur og uggði ekki að mér. Skeytti ég engu um umferlisreglur sem ég hef kunnað í nokkra áratugi og hlaut árangur erfiðis míns. Varð fyrir mér ljósastaur og móttökurnar heldur óblíðar. Við höggið fann ég að vökvi seytlaði niður andlitið og taldi óvíst að ég gréti. Brátt leyndi sér ekki að blóð hljóp úr nösum mér og varð vasaklútur minn gegndrepa þegar ég þerraði það af mér. Sem betur fór hafði ég meðferðis heilmarga pappírsklúta og þarraði blóðið þar til rennslið stöðvaðist að mestu. Þá var hringt á leigubíl. Kom sér þá vel að hafa staðsetningartækið því að ég gat sagt símastúlku Hreyfils hvar ég væri staddur.

Ekki þarf að spyrja að því að heimleiðis hélt ég og þvoði þar almennilega framan úr mér.

Í morgun varð ég fyrir annarri reynslu sem kom þó ekki að sök og skaðaði hvorki sjálfan mig né aðra. Í vagninum sem ég ferðaðist með var ekkert leiðsagnarkerfi. Herdís, mágkona mín, hefur greinilega gleymt að tilflytjast í þann vagn en væntanlega stendur það til bóta. Ég leitaði uppi áfangastað með aðstoð símans og OVI-búnaðarins. En nú brá svo við að síminn missti hvað eftir annað samband við gervitungl og varð leiðsögnin eftir því kolröng. Hélt ég að eitthvað væri að og prófaði því tækið eftir að ég fór út úr strætisvagninum. Reyndist þá allt vera með felldu.

Mönnum er að vísu tekinn vari v ið að treysta um of á GPS-leiðsögn innan borga. Ég hef þó ekki reynt það fyrr en í dag að sambandsleysið væri slíkt að leiðsögutækið vissi vart sitt rjúkandi ráð. Velti ég fyrir mér hvort skýringarinnar sé að leita í því að ég sat í fremsta farþegasæti hægra megin. Fyrir framan mig var einhver tækjakassi sem kann að hafa truflað tækið. Gæti veðrið hafa skipt máli? Þoka var á og ímynda ég mer að lágskýjað hafi verið.


Byltingarkennd GPS-tækni í þágu blindra og sjónskertra

Í dag kom út útgáfa 4,6 af forritinu Mobile Speak (Farsímatali) sem spænska hugbúnaðarfyrirtækið Code Factory framleiðir. Mobile Speak er hugbúnaður sem birtir upplýsingar í farsímum með tali, stækkuðu letri eða blindraletri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hugbúnaðurinn var þýddur á íslensku fyrir 6 árum og hefur verið unnið að þýðingu viðbóta æ síðan.

Þessi nýja útgáfa Mobile Speak er merkileg fyrir þær sakir að hún gerir Ovi-kortin frá Nokia aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Flest mikilvægustu atriðin, sem í boði eru, hafa verið gerð aðgengileg. Hægt er að leita að ýmsum þjónustuflokkum s.s. veitingastöðum, samgöngumannvirkjum, verslunum o.s.frv. Hver og einn getur sett inn sína uppáhaldsstaði, leitað að fyrirtækjum, húsnúmerum o.s.frv. Þá er bæði göngu- og akstursleiðsögn í forritinu. Röddin, sem Nokia býður, er enn ekki á íslensku og er því framburður sumra nafnanna dálítið undarlegur: Sudurlandsbrát. En íslenska talið, sem birtir þær upplýsingar sem notandinn sér á skjánum, vegur upp á móti þessu því að þar eru allar upplýsingar lesnar á íslensku og framburður götuheitanna eðlilegur.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum var mér boðið að vera með í alþjóðlegum reynsluhópi sem prófaði Ovi-kortin og ýmislegt annað. Árangurinn hefur verið undraverður. Ég hef nýtt mér leiðsögnina á ferðum mínum með strætisvögnum og hef jafnan getað fylgst með því hvar ég er staddur hverju sinni. Á göngu minni til og frá vinnustað hef ég öðru hverju þurft að átta mig á því hvar ég væriog ekki bregst búnaðurinn. Þó verður að gjalda vara við að treysta honum í blindni. Í gærkvöld gerði ég eftirfarandi tilraun:

Ég ákvað að leita að húsinu nr. 54 við Sörlaskjól, en húsbondinn á því heimili, Flosi Kristjánsson, er einn þeirra sem lýst hefur áhuga sínum á þessum GPS-tilraunum sem ég hef gert að undanförnu. Þegar ég nálgaðist húsið kom í ljós að forritið gaf upp allt aðra fjarlægð en við hjónin töldum að væri rétt. Virtist sem staðsetning hússins ruglaði eitthvað kerfið í ríminu, hverju sem það er að kenna.

Fleir annmarka gæti ég nefnt, en þar er ekki við blindrahugbúnaðinn að sakast heldur ónákvæmni skráninga í gagnagrunninum. En víða á höfuðborgarsvæðinu er skráningin svo nákvæm að vart skeikar nema nokkrum metrum. Þá er auðvelt að treysta á búnaðinn og fylgjast með því yfir hvaða götur er farið. Aðeins þarf að styðja á einn hnapp og les þá Farsímatalið upp heiti þeirrar götu sem farið er yfir. Menn geta einnig horft í kringum sig með stýripinna símans og kannað hvaða gata liggur til hægri eða vinstri, þegar komið er að gatnamótum.

Á því er ekki nokkur vafi að þessi búnaður á eftir að nýtast mörgu blindu og sjónskertu fólki hér á landi og auka að mun sjálfstæði þess og öryggi. Ég tel þetta með því merkasta sem ég hef séð á þeim 36-40 árum sem ég hef fylgst með hjálpartækjum blindra og sjónskertra.

Að lokum skal þess getið að hugbúnaðinum fylgir einnig litaskynjari. Þá er myndavél símans beint að því sem skoða á og tekin mynd. Greinir hugbúnaðurinn þá frá lit ess sem myndað var. Einnig er hægt að athuga birtustig.

Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér þessa tækni, er bent á skjalið „find your way with Mobile speak 4.6 sem fylgir þessari færslu.

Örtækni hefur umboð fyrir Mobile speak.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Góður dagur með GPS-leiðsögn

Ég gekk hring um Seltjarnarnesið í dag og fór andsælis, en það hef ég ekki gert áður á eigin spýtur. Ástæðan er sú að kennileiti eru ógreinileg og ég þarf að hafa fyrir því að finna hliðarreinina af stígnum yfir á Suðurströnd.

Ég undirbjó ferðina með því að kveikja á gps-búnaði farsímans og opna Loadstone-leiðsöguforritið sem er sérstaklega hannað handa blindu fólki. Ég ákvað síðan hvaða leiðarpunkta ég léti forritið lesa upp sjálfkrafa og gekk það að mestu eftir. Eftir að ég lagði af stað áttaði ég mig á því að með örvalykli símans var hægt að færa bendilinn á næsta punkt og fylgjast með því hvað ferðinni liði. Með því fékkst mun nákvæmari staðsetning. Þannig fann ég bekk við sjávarsíðuna sunnanmegin og fleiri kennileiti skiluðu sér ágætlega.

Ég fór villur vegar þegar ég beygði yfir Suðurströndina yfir á stíginn fyrir vestan bifreiðastæðið við Bakkatjörn. Þá kom kerfið sér vel. Með því að miða við fjarlægð síðasta punkts og í hvaða átt hann væri áttaði ég mig á villu míns vegar og komst á rétta leið. Eftir það var fátt um punkta framundan. Ég hafði markað hliðarreinina við Suðurströnd og bekk þar nærri. Á leiðinni að Gróttufjöru skráði ég nokkra punkta.

Eftir að ég fór að fylgja Norðurströndinni birti síminn fljótlega upplýsingar um að bekkurinn við Suðurströnd (hefði átt að merkja hann öðruvísi) væri 1,7 km framundan. Á leiðinni fann ég fleiri bekki og skráði þá í gagnagrunninn. Þegar ég fann síðasta bekkinn voru enn 300 m að bekknum v. Suðurströnd og bar ég þá brigður á hæfni forritsins því að ég hélt að ég væri komin nær Suðurströndinni. En viti menn. Ég hélt áfram að nálgast áður nefndan bekk og þegar 20 metrar voru eftir að honum gerði tækið mér viðvart. Ég hreyfði nú örvalykilinn, fékk nákvæma staðsetningu og fann bekkinn. Forritið hélt því fram að 3 m væru eftir að bekknum en hann var þá þar. Þá minntist ég þess að ég hafði staðið við austurenda hans þegar ég skráði hnitið.

Hliðarreinina fann ég síðan. Ég komst slysalaust yfir Norðurströndina og að umferðarljósunum á mótum Suðurstrandar og Nesvegar. Mikið er bagalegt að ekki skuli vera þar hljóðljós. En yfir álpaðist ég, síðan yfir Nesveginn en var þá eitthvað annars hugar og rak mig rækilega á ljósastaurinn. Var það mjög hressandi.

Ég var með lítið heyrnartól í vinstra eyranu og hlustaði á símann greina frá punktunum. Eiginlega þyrfti ég að fá mér lítinn hátalara sem ég gæti tengt við farsímann, hengt um hálsinn og hlustað á. Þá tapaði ég ekki hluta umhverfishlustunarinnar.

Ég hlustaði í dag óvenju grannt eftir ýmsum kennileitum og varð margs vísari. Kyrrðin var svo mikil að ég heyrði hvar baðskýlið er sem sjóhundar nota og fleira skynjaði ég eins og hákarlahjallinn v. Norðurströnd. Engan fann ég þó ilminn.

Nokkrar lóur skemmtu mér með vetrar- eða haustsöng sínum en krían greinilega farin veg allrar veraldar suður á bóginn. Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér Loadstone-forritið skal bent á síðuna

www.loadstone-gps.com/

Þegar heim kom las ég tölvupóstinn og þar á meðal þessa vísu frá Birni Ingólfssyni, leirskáldi á Grenivík:

Í andkuli haustsins þá uni ég mér,

og alveg er stemningin mögnuð,

þegar spóinn er hættur að hreykja sér

og helvítis lóan er þögnuð.

Ég stóðst ekki mátið og svaraði með þessu hnoði:

Lóuþvarg ei þagnað er,

það er fjör við sjóinn.

Gekk ég út að gamna mér,

þá gargaði ekki spóinn.


"Horft í kringum sig"

Ég hefði ef til vill átt að skýra þessa færslu "Hlustað í kringum sig".

Veðrið var svo gott í dag að ég ákvað að gera frekari tilraunir með GPS-símann og Loadstone-forritið og hélt því út á Seltjarnarnes. Gekk ég sem leið lá í áttina að golfvellinum og voru eftirtaldir punktar merktir: Ljósin v. Suðurströnd, gangbraut á móts við Íþróttamiðstöðuna, göturnar sem liggja að sjónum frá Suðurströnd, höfnin, tvær gönguleiðir niður að sjó og einn bekkur. Bætti ég þessum áfangstöðum við aðra sem fyrir voru í gagnagrunni símans.

Því næst var haldið áfram og snúið við þar sem beygt er þvert yfir nesið.

Í stuttu máli sagt þá fann síminn kennileitin aftur og áttaði ég mig þá á því að ég gat farið mun hraðar þegar ég þurfti ekki stöðugt að hafa auga eða eyra með því hvar kennileitin voru. Hvíti stafurinn er framlenging handleggjanna og leitarsvæði hans er takmarkað. Hannn varar samt við nálægum hindrunum en ekki þarf stöðugt að þreifa eftir tilteknum kenniletum fyrr en komið er að þeim. Þó er ætí dálítil ónákvæmni eins og þeir, sem nota GPS-tæki vita.

Ég lærði einnig að ég þurfti að leita uppi þann áfangastað sem ég ætlaði til og gat valið hvaða kennileiti voru birt á leiðinni. Ég valdi þau öll og fylgdist með því hvernig ég nálgaðist hvert og eitt þeirra.

Við gönguljósin sem eru skammt austan við eiðistorg var dálítið kraðak. Loadstone-forritið birtir upplýsingar um þann leiðarpunkt sem næstur er og komu því til skiptis upplýsingar um ljósin og torgið. Þegar ég sneri mér birti tækið heiti þeirra staða sem ég sneri að hverju sinni svo að þetta var dálítið eins og að horfa í kringum sig.:)

Þótt þetta sé hálfgerður leikur er þetta samt ótrúleg lífsreynsla.


GPs-leiðsögnin í Nokia 6710 Navigator gerði sitt gagn

Veðrið er yndislegt. Í morgun hélt ég út á Seltjarnarnes að hlusta eftir kríum. Á leiðinni hitti ég fyrrum vinnufélaga hjá Ásbirni Ólafssyni ásamt konuhans og töfðum við hvert annað drykklanga stund.

Upphaflega ætlaði ég að ganga umhverfis nesið en stytti leiðina og sneri aftur áleiðis heim þegar ég var kominn út undir golfvöll. Þá ákvað ég að setja GPS-leiðsögnina á í símanum og valdið leiðina "Tjarnarból 14 v. Nesveg". Mér var sagt að ganga u.þ.b. 1 km og beygja þá til hægri. Ég hélt að þetta væri lengra, enhvað um það, ég lagði af stað. Leiðsögutækið þagði og ákvað ég því að athuga þegar ég kom að vegamótum Suðurstrandar og Nesvegar hvort staðsetningin væri ekki rétt. Svo reyndist vera.

Það tók mig dálítinn tíma að átta mig á hvaða fjallabaksleiðir ég ætti að nota til þess að fá leiðsögnina í gang aftur, en dálítið vantar á að talgervillinn í símanum lesi allt. En það tókst. Ég lagði því af stað aftur og ákvað að hefjast handa skammt frá Skerjabrautinni. Þá sagði forritið mér að taka U-beygju eftir 100 m og gerði ég það, sneri við þar sem ég var staddur og sneri svo aftur við þegar forritið sagði mér að beygja. Auðvitað tekur forritið mið af gatnakerfinu. Skömmu eftir að ég hafði snúið við tilkynnti forritið að verið væri að endurreikna leiðina.

Nú gekk ég í áttina að Tjarnarbóli 14 v. Nesveg og beið spenntur. Ég kom að bakinnganginum og hélt áfram. Þá tilkynnti forritið að ég væri kominn á áfangastað. Einungis munaði einum metra og getur svo sem verið að ég hafi staðið þar þegar ég skráði þennan leiðarpunkt.

Niðurstaðan er sú að tækið geti komið að notum við að finna tiltekna staði þrátt fyrir að akstursleiðsögnin sé notuð. Sýnist mér að ég geti t.d. merkt inn hliðarreynar frá göngustígnum yfir Norðurströndina, en það hefur valdið mér nokkrum vandræðum að hitta á þær.

Vafalaust gæti ég haft enn frekari not af þessu GPS-tæki ef hugbúnaðurinn frá MobileSpeak læsi valmyndirnar betur. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að bæta þar úr. Mér er tjáð að kortið af Íslandi, sem Nokia notar, sé frá fyrirtækinu Navtech, en Navtech hefur átt í samvinnu við hugbúnaðarframleiðendur sem hafa unnið að leiðarlausnum fyrir blinda.

Nú þarf ég einungis að hitta á einhvern tæknifróðan GPS-notanda til þess að skrá ítarlega hvað talgervillinn les og hvað ekki.


Nætur stund í Heiðmörk og góð kona gulli betri

Upp úr miðnætti aðfaranótt 15. maí á því herrans ári 2010 fórum við Elín í hljóðritunarleiðangur. Fyrst var haldið út á Seltjarnarnes. Þar var hvasst, fáir fuglar komnir á kreik og tilgangslaust að reyna að hljóðrita með þeim búnaði sem ég hafði meðferðis.

Eftir að hafa komið við í Fossvogsdalnum og áttað okkur á því að hávaðinn var of mikill frá borginni, sem svaf ekki, var haldið upp í Heiðmörk og staðnæmst við Vígsluflöt. Þar stillti ég upp hljóðnemum og hófst handa.

Fuglasöngurinn var fremur lágvær. Þrestir sungu og hrossagaukur framdi a.m.k. þrenns konar hljóð.Í lok hljóðritsins létu lóa, himbrimi og fleiri fuglar til sín taka. Væri fróðlegt að lesendur þessarar síðu hlustuðu á hljóðritið, nytu söngsins, andardráttar náttúrunnar og ómsins frá næturlátum borgarinnar. Um leið geta þeir reynt að greina þá fugla sem ekki eru nefndir í þessumpistli. Slóðin er

http://hljod.blog.is

Eftir rúmlega 20 mínútna hljóðritun tók Nagra-tækið að láta vita af því að senn væru rafhlöðurnar tómar. Ef til vill hefur það eytt meira rafmagni vegna þess að hitinn var einungis 4 stig á Celsíus samkvæmt hitamæli bifreiðarinnar og rafhlöðurnar tæpra þriggja ára gamlar.

Ég hætti því hljóðritun og ákvað að hafa samband við Elínu sem beið í bílnum nokkur hundruð metra frá. En það var fleira sem hafði orðið kuldanum að bráð. Farsíminn var ekki í lagi. Ég náði engu sambandi með honum og greip því til þess ráðs að anda djúpt og kalla svo á Elínu. Fyrsta svarið var endurómur nærstaddra trjáa og e.t.v. einhverra hæða. Ég kallaði því enn og svaraði þá Elín. Skömmu síðar kom hún og vitjaði mín.

Góð kona er gulli betri.


Að treysta tölvupósti

Að undanförnu hef ég notað jöfnum höndum Outlook Express og Microsoft Outlook 2007. Stundum sendi ég póst beint af vefnum en finnst það að ýmsu leyti meira umhendis.

Á meðan ég notaði Outlook 2003 varð ég var við að nokkrir einstaklingar fengu ekki póst frá mér. Hann virtist annaðhvort lenda í póstsíu eða hreinlega ekki skila sér. Ekki bar á þessu þegar ég notaði Outlook Express.

Nú virðist sama sagan endurtaka sig. Póstur, sem skrifaður er í Outlook 2007 skilar sér ekki til allra. Þannig lenti ég í talsverðum vandræðum vegna samskipta minna við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og þau leystust ekki fyrr en ég fór að nota Outlook Express. Leikur mér jafnvel grunur á að starfsumsókn, sem ég sendi í tölvupósti, hafi ekki komið fram.

Mér hefur verið bent á thunderbird frá Mosilla sem örugga leið til póstsamskipta. Það póstforrit hefur ekki verið aðgengilegt til þessa en sennilega hefur nú verið ráðin bót á.

Ókosturinn við Outlook Express er sá að það fer yfirleitt fram á að þjappa póstinum saman og tefur þannig fyrir manni. Hins vegar eru allar leitaraðgerðir og sitthvað annað mun einfaldara þar en í Microsoft Outlook.


Endasleppar hjólreiðar

Við hjónin fórum hjólandi með Unni vinkonu okkar Alfréðsdóttur upp í Hlíðar í kvöld, en hún hjólaði til okkar eftir kvöldmat. Þegar við komum upp úr göngunum undir Bústaðaveginn fóru að heyrast högg einhvers staðar í Orminum bláa og varð brátt ljóst að þau komu úr afturhjólinu. Hófust miklar vangaveltur um hvað þetta gæti verið, gírarnir, því að slátturinn var mildur, hemlaklossarnir eða gjörðin væri farin að skekkjast.

Þegar við komum heim til Unnar voru höggin orðin háværari svo að nokkru nam. Þegar hjólinu var lyft sást að dekkið rakst á einum stað utan í hemlaklossana.

Við renndum okkur heim á leið og fann ég þá fyrir skekkju í afturhjólinu. Grunaði mig ekki að það sama endurtæki sig og fyrir tveimur árum. Þegar við áttum skammt ófarið að Tanngarði hvellsprakk.

Mér er óskiljanlegt hvers vegna dekk endast ekki lengur en þetta 700 km hjá okkur á tveggja manna hjólinu. Það er eins og þau nuddist í sundur eða eitthvað gerist þannig að þau byrja að gúlpa út. Við héldum að þetta væru vanstilltir hemlaklossar og fóru þeir viðgerðarmenn hjá Erninum ítarlega yfir þetta í fyrra.

Okkur brá við þennan hvell og snarhemluðum svo snögglega að Elín meiddist í hné, en hún hefur átt við óþægindi að stríða i því öðru hverju.

Hófst nú næsti þáttur ferðalagsns - sá að leita að sendibíl til að flytja Orminn bláa og okkur heim í háttinn. Engir sendibílstjórar voru á vakt eftir kl. 22 en klukkan var að nálgast miðnætti. Fangaráðið varð að hringja í Hreyfil og var okkur sendur stór farþegabíll. Með því að leggja niður aftursætin tókst að koma tveggja manna hjólinu þar fyrir.

Nú verður skipt um dekk á Orminum eftir helgi og sjálfsagt reynt að velja eitthvað gott og vandað. Annars eigum við Schwalbe hjólbarða sem er nær óslitinn og e.t.v. ráð að nota hann.


Glæpsamlegt athæfi

Á vef mbl.is í gær var vitnað til fréttar á heimasíðu Spalar. Þar var greint frá glæfralegum akstri drukkins ökumanns á jeppa, sem braut niður grindverk við Hvalfjarðargöngin og hefði getað valdið stórslysi. Var sá hinn sami heppinn að drepa hvorki sjálfan sig né ðra.

Áður hefur verið vikið að því á þessum síðum að Íslendingar skilji fátt annað en ströng viðurlög. Atburðir sem orðið hafa í umferðinni að undanförnu sýna og sanna að til einhverra ráða verður að grípa gagnvart þeim sem stofna lífi og limum í hættu með gálausum akstri vegna neyslu áfengis og eiturlyfja, en hvorugt fer saman ásamt akstri. Ég hef verið fylgjandi háum sektum og jafnvel því að bifreiðar verði gerðar upptækar og fólk svipt ökuréttindum a.m.k. jafnlengi og þeir sem eru dæmdir í ævilangt fangelsi. Þetta kunna að vera hörð sjónarmið en aðrar leiðir eru færar.

Í raun þarf að stofna til endurhæfingar einstaklinga sem hegða sér með svipuðum hætti og maðurinn í Hvalfjarðargöngunum. Yrði þátttakendum í slíkri endurhæfingu gert að greiða allan kostnað sjálfir og kæmi hann til frádráttar sektum sem þarf að stórhækka.


Askan úr Heklu og og gróskusumarið 1947

Sigtryggur bróðir kemur stundum til okkar hjóna og eru þá háðar skemmtilegar orðræður. Ýmislegt er þá rifjað upp.

Í kvöld bar öskufallið úr eyjafjallajökli á góma og þær búsifjar sem af því hafa hlotist og munu hljótast. Rifjaði þá Sigtryggur upp að sumarið 1947 hefði verið óvenjumikil gróska í túnum í Vestmannaeyjum, en hann sló þá um sumarið öðru sinni með dráttarvél. Nokkur aska féll í Vestmannaeyjum, en Hekla tók að gjósa í marslok það ár. Þökkuðu ýmsir öskunni þá miklu grósku sem varð.

Vafalaust verður lítið heyjað í sumar á þeim jörðum í námunda Eyjafjallajökuls sem verst urðu úti. En reynslan af Hekluöskunni fyrir 63 árum gæti þó bent til þess að sums staðar yrði hún til góðs.

di. Hef ég sagt sem er og gætt þess að ýkja ekkert.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband