Færsluflokkur: Íþróttir

Erfitt að sleppa stjórnartaumunum

Komið er upp fáheyrt ástand innan Knattspyrnusambands Íslands.
Geir Þorsteinsson, farsæll formaður sambandsins til margra ára lét af embætti í fyrra og var Guðni Bergsson kjörinn í hans stað. Var Geir síðankjörinn heiðursformaður Knattspyrnusambandsins og sýndu menn með því þakklæti sitt vegna starfa hans.
Nú, tæpu ári síðar, vill Geir embættið aftur.

Þegar fólk  er kjörið heiðursfélagar er yfirleitt gert ráð fyrir að stjórnarsetu þess sé lokið. Hið sama gildir um heiðursforseta.
Oddur Ólafsson, læknir og frumkvöðull um margvísleg málefni fatlaðra, var kjörinn heiðursformaður Öryrkjabandalags Íslands þegar hann hætti sem formaður Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, en Oddur hafði gegnt störfum formanns og varaformanns í tvígang. Fylgdi titlinum að honum væri heimil stjórnar- og nefndaseta svo lengi sem hann óskaði.

Geir Þorsteinsson getur enn gert Knattspyrnusambandinu heilmikið gagn, en hann veldur bæði sér og sambandinu tjóni með þessari óskiljanlegu ákvörðun sinni.


Lífshætta - meistaraverk

Leikritið Lífshætta eftir Þóreyju Sigþórsdóttur, sem Útvarpsleikhúsið flutti í dag, er á meðal hins besta sem flutt hefur verið af íslensku efni um árabil – í raun meistaraverk.

Hljóðumgjörðin í skipsklefanum var mjög áhrifarík – niðurinn frá skipsvélinni og yfirtónar sem vitnuðu um hugarástand kvennanna.

Þótt greina mætti að Salóme, sem Jakobína Sigurðardóttir las úr smásögu sinni í útvarp fyrir rúmum 30 árum, væri hluti útvarpslestrar, truflaði það ekki á nokkurn hátt. Þórey spann þetta svo að úr varð ein samfelld heild.


Hið sama má segja um vinkonurnar í einbýlishúsinu. Þar var að vísu nokkuð um klifun, en hún jók aðeins á áhrifamátt frásagnarinnar. Þotuhljóðin voru sum dálítið skrýtin, en ekki verður fettur fingur út í þau.

Dómur undirritaðs er sá að hér sé um meistarasmíð fyrir útvarp að ræða. Til hamingju, Þórey og aðrir aðstandendur.



Orðbragð íþróttafréttamanns Ríkissjónvarpsins

Í kvöld tjáði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins, sem alinn er upp í kristilegum kærleiksanda, að "stelpurnar okkar" myndu mæta erkifjendum sínum, Frökkum.

Hvort etja menn kappi í íþróttum til að efla sig eða til þess að svala físnum sínum og kvalaþorsta? Hingað til hef ég haldið að Frakkar væru vinaþjóð Íslendinga og vissi ekki að stelpurnar okkar hötuðu þá svo að kalla þurfi franskt íþróttafólk erkifjendur.

Sennilega er mannskemmandi að stunda keppnisíþróttir svo sem hvers kyns knattleiki enda kemur fólk iðulega stórslasað úr slíkri viðureign.


Maraþonhlaupið

Nú er enn hlaupið Maraþonhlaup á vegum menningarnætur (dags). Setur það jafnan skemmtilegan svip á tilveruna því að garparnir hlaupa framhjá Tjarnarbóli 14. Ekki spillti heldur fyrir að þeir bræður, Birgir Þór á 5. ári og Kolbeinn Tumi á öðru ári fylgdust með hlaupurunum af miklum áhuga. Sátu þeir á eldhúsborðinu, en útsýnið er nú prýðilegt þaðan eftir að Iðunnarhúsið hvarf.

Árið 1998 undirbjó ég um þetta leyti þátt fyrir Ríkisútvarpið sem ég kallaði "Úr heimilishljóðmyndasafninu" ef ég man rétt. Birtust þar ýmis hljóðrit. Í tilefni þáttarins hljóðritaði ég Maraþonhlaupið og birti hluta hljóðritsins í þættinum. Ef grannt var hlustað gátu menn heyrt ýmislegt athyglisvert. Jón Sigurðsson tók þátt í skemmtiskokki í hjólastól, einhverjir hlupu með barnakerrur og svo má lengi telja. Í morgun rigndi of mikið til þess að ég nennti að hljóðrita hlaupið. ´Ég stefni þó að því að hljóðrita það í náinni framtíð enda er ég nú mun betur tækjum væddur en fyrir 11 árum.


Þeyst um á Orminum bláa

Tveggja mana hjólið, Ormurinn blái, sem varð 7 ára í okkar eigu í vetur og er af Thorn Discovery gerð, hefur sjaldan farið í viðgerð. Einu sinni var skipt um afturkrans á hjólinu og auðvitað hefur verið skipt um dekk.

Í morgun komu þeir í hafragraut, Kolbeinn tumi á 14. mánuði og Árni, faðir hans á 40. ári. Þar sem veðrið var gott var Ormurinn blái dregin úr hýði sínu, settur á hann barnastóll og lagt af stað. Varð þá Ormurinn blái að þriggja manna hjóli.

Árni átti erindum að gegna austur í Borgartúni. Var ákveðið að halda þangað og velja leið við hæfi því að farmurinn eða farþeginn er ómetanlegt dýrmæti. Hjóluðum við sem leið lá eftir Ægisíðustígnum, þeim hluta hans sem er einungis ætlaður hjólreiðamönnum. Fórum við fram úr ungri stúlku sem vék fyrir okkur til vinstri handar. Við gáfum í og þeystum áfram þar til komið var að mótum stígsins og Suðurgötu. Var þá slegið af og haldið um háskólahverfið út á Hringbraut og þaðan eftir Snorrabrautinni og endað í Borgartúni.

Þá vorum við komnir svo austarlega að ákveðið var að líta við í Erninum, en við Ragnar Þór Ingólfsson, reiðhjólasérfræðingur og uppreisnarmaður innan VR, hövðum rætt saman um endurnýjun ýmiss búnaðar hjólsins. Er ekki að orðlengja að við fundum Örninn, hittum Ragnar og skildum Orminn eftir. Héldum við síðan til sama lands með leigubíl, útbúnum barnastóli.

Kolbeinn litli Tumi var himinlifandi yfir ferðinni. Átökin voru nokkur og fékk undirritaður hlaupasting.

Greinilegt er að ég þarf að þjálfa mig betur er ég ætla að hjóla austur í Vík í mýrdal á hausti komanda.


Lati bær á BBC

Í dag verður öðru hverju útvarpað þættinum Global Business á BBC. Þar er einkar skemmtileg samantekt um Lata bæ og Matnús Scheving. Umsjónarmaðurinn, Peter Day, segir frá hinu ótrúlega og magnaða ævintýri sem þættirnir um Lata bæ eru, en þeir hafa farið sigurför um allan heim. Magnús greinir frá því hvernig hann byggði upp fyrirtækið á bak við hugmyndina um Lata bæ.

Það virðist engan bilbug að finna á Magnúsi þrátt fyrir efnahagsástandið. Hann fjallar m.a. um auglýsingar og er afar samkvæmur sjálfum sér þegar hann ræðir um hollustu fyrir börn. Peter Day vinnur þáttin afar vel og hefur greinilega kynnt sér viðfangsefnið í þaula.


Kræfar, íslenskar knattspyrnukonur

Ég hlustaði á brot af lýsingu leiksins á Rás tvö og hafði gaman af. Greinilegt að íslenskar knattspyrnukonur standa sig nú betur en íslenskir knattspyrnukarlmenn. Til hamingju, stelpur!

Ný tækifæri handa íslensku hljómlistar- og íþróttafólki

Að undanförnu hafa birst fréttir um að íslensk íþróttafélög hyggist flest segja upp samningum við erlenda leikmenn sem starfa hérlendis.

Í fyrradag var á morgunvakt Ríkisútvarpsins athyglisvert samtal við framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem hann lýsti þeim vandræðum sem hljómsveitin horfir fram á vegna samninga við erlenda hljómlistarmenn.

Í breyttum aðstæðum felast ný tækifæri. Nú eiga íþróttafélögin að einbeita sér að íslenskum íþróttamönnum og skila þeim árangri sem aðstæður leyfa.

Hið sama á við um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hér á landi er sveit úrvals hljóðfæraleikara sem geta jafnvel tekið að sér öll þau einleikshlutverk sem áður var ætlað að erlendir hljóðfæraleikarar sinntu. Þá eigum við einnig nokkra stjórnendur sem hafa sjaldan fengið að reyna sig.

Ef rétt verður á málum haldið getur þetta orðið til þess að efla metnað á meðal íslenskra íþrótta- og tónlistarmanna.


Heilsurækt - http://heilsuraekt.is

Þegar ég hætti störfum hjá Morgunblaðinu í haust og alvara atvinnuleysisins tók við fór ég að rækta líkamann að nýju hjá Hreyfingu. Það gefur mér tækifæri til að hitta fólk og taka ærlega á. Líður mér ævinlega betur í sálinni eftir vistina í Hreyfingu.

Ég er svo heppinn að hafa afbragðs þjálfara, Jóhann Sveinbjörnsson, íþróttafræðing. Reyndar er það svo að þeir þjálfarar, sem ég hef fengið hjá Hreyfingu, virðast úrvalsfólk.

Jóhann er hugmyndaríkur og hefur nú stofnað heimasíðuna http://heilsuraekt.is. Var síðunni hleypt af stokkunum í gær. Hugsar Jóhann sér m.a. að kynna fyrirtæki vikunnar. Fyrst var riðið á vaðið með ítarlegu myndbandi um Boot Camp.

Myndbandið hófst á fremur ruddalegri graðfolatónlist sem átti vel við vegna þessa kerfis sem byggir á því að ofbjóða líkamanum, ef ég skildi ensku skotna íslensku leiðbeinandans rétt. Í sporum Jóhanns hefði ég sleppt tónlistinni undir viðtalinu sem var að mörgu leyti prýðilega unnið. Hljóðmyndin var skemmtileg og gaf góða mynd af umhverfinu.

Nú veit ég svo lítið um herþjálfun að ég ætla ekki að reyna að leggja til íslenskt heiti á þessa íslensku þjálfunaraðferð, Boot Camp. En miklu væri nú skemmtilegra að finna aðferðinni íslenskt nafn.

Ég fór inn á heimasíðu Boot Camp og þar gaf svo sannarlega á að líta. Svo virðist sem þessi aðferð sé í raun lausnin á þeim vanda nútímamannsins að þurfa að taka ærlega á án þess að nota til þess rándýr tæki. Kynningin mætti þó vera betur samin og ögn snyrtilegar orðuð.

Í pistli mínum í gærmorgun ræddi ég að Íslendingar væru bestir og Boot Camp þjálfunarkerfið er íslenskt eins og kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins. Það getur vel verið að Boot Camp sé besta þjálfunaraðferð heims. En kynningin er ekki sú besta.

Ég þykist viss um að kynningarmyndband Jóhanns Sveinbjörnssonar veki talsverða athygli og skili meiri árangri en það sem ritað er á heimasíðu Boot Camp.

Á heilsuraekt.is eru upplýsingar um ýmislegt sem tengist heilsurækt og hollum lifnaðarháttum. Er ástæða til að óska Jóhanni Sveinbjörnssyni til hamingju með heimasíðuna. Hér með er honum óskað góðs gengis.


Eyþór í úrslit

eyþór Þrastarson, sem keppir í flokki blindra á Ólympíuleikunum í Beijing, komst í úrslit í morgun og keppir aftur fyrir hádegi. Áfram Eyþór!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband