31. ártíð Maos formanns

Í dag birtist í Morgunblaðinu viðtal Ásgeirs Sverrissonar við Jung Chang og eiginmann hennar, en þau hafa samið óhróðursrit um þann mann sem kallaður var Alþýðukeisarinn mikli, Mao Zedong. Bók þeirra, sem Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, hefur snúið á íslensku, rekur ævi Maos og meint illvirki hans, geðveiki, ofsóknarbrjálæði, valdagirnd, hrifningu á Stalín og margt fleira, sem verst getur talist í eðli nokkurs glæpamanns.

Í fyrrahaust var haldið málþing á vegum Asíuvers Íslands og Kínversk-íslenska menningarfélagsins um Kína á dögum Maos. Var þar fjallaða um ýmsa þætti í fari formannsins og sumt, sem þar var borið á borð, heldur ókræsilegt. Bar fyrirlesurum saman um að seinni hluti ævi Maos hefði um margt verið honum til lítils sóma, en ýmsir töldu sig kunna á því ákveðnar skýringar sem ekki verður farið út í hér.

Eitt bar flestum saman um. Bók þeirra Jungs Changs og eiginmann hennar bætir engu við um það sem þegar er vitað um Mao. Hins vegar eru ýmsar órökstuddar dylgjur í bókinni sem erfitt er að sanna og rýrir stórlega gildi hennar sem túverðugrar heimildar.

Jung Chang kom hingað til lands þegar Villtir svanir komu út, einhver leiðinlegasta bók sem ég hef lesið. Þá greindi hún fjölmiðlum frá því að hún væri með í undirbúningi ævisögu Maos þar sem hún ætlaði að sýna fram á að maðurinn hefði verið brjálað illmenni og fjöldamorðingi. Fræðimaður sem leggur af stað að semja fræðirit og gefur sér fyrirfram gefnar forsendur, getur vart talist trúverðugur. Miðað við Villta svani virðist þessi kona hafa haft ásamt fjölskyldu sinni gervallri einstakt lag á að komast upp á kant við allt og alla og skipti þá engu hverjir héldu um stjórnvölinn í Kína.

Ekki ætla ég að halda því fram að Mao hafi verið einhver engill. Hann var heldur enginn djöfull í mannsmynd. Hins vegar verður að skoða þróun hans í samhengi við kínverska sögu og þær hefðir sem kínverska þjóðin hefur orðið að glíma við. Kínverjum hefur enn ekki tekist til fulls að brjóta af sér fjötra margs konar áþjánar sem fylgdi keisaraveldinu. Valdatími Maos formanns var þó merk tilraun til þess.

Lengi lifi Hugsun Maos formanns!

Lengi lifi umræðan um Mao formann!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lokaorð þín væru beinlínis fyndinn ef þau lyktuðu ekki svo mikið af heimsku og mannhatri. Ekki ætla ég þér samt heimsku og mannhaturs. Þú ert efalítið vel af guði gerður.

En fáfróður ertu greinilega. Þótt efalítið viðurkennir þú það aldrei. 

En hver veit? kannski er það hið allra besta mál að myrða milljónir af þegnum sínum til að "brjóta af sér fjötra margs konar áþjánar sem fylgdi keisaraveldinu."

Villtir svanir eru vissulega ekkert skemmtiefni. Það er rétt. Til skemmtunar mæli ég með Lukku Láka eða Andrési önd. Það skemmtir þér ef til vill betur.

Góðar stundir 

Sigurjón Njarðarson (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 23:46

2 identicon

Sæll

ég las bókina um Mao með miklum áhuga - framan af. Einhvertímann varð mér ljóst að þetta væri ekki besta heimildin um líf þessa manns og framvindu hans pólitíska ferils og þjóðarinnar sem hann stýrði.

ég held að ekki sé hægt að líta fram hjá því að maðurinn bar ábyrgð á gríðarlegum fjöldamorðum og alls kyns viðbjóði en einhvernveginn þá gat ég ekki keypt þá sýn sem Jung bauð upp á. Ég er ekki tilbúin í bók sem þessari að kaupa það að Mao hafi verið illmenni frá upphafi og því til stuðnings sé bent á ljóð hans um tómleikan frá því hann var á unglingsárunum, ekki þekki ég það ljóðskáld sem á þeim árum ekki semur um tómleika tilverunnar og skort á samastað.

Einnig þegar hún heldur því fram að ekki aðeins sé gangan langa meira og minna uppspuni heldur að Mao hafi ekki tekið svo mikið sem eitt skref, nema þá til þess að traðka þræla þá er báru vagninn til dauða. Svona trúir maður ekki - né hefur nennu til í 800 síður. 

Að þessu sögðu verð ég að að benda þér á það að síðustu orð þín eru ekki til þess fallinn að menn taki röksemdafærslu þína þar  á undan alvarlega. Hitt er þó annað mál að drulla yfir menn fyrir því að halda fram skoðunum gegn hinni ríkjandi skoðun, því að málfrelsið á að vera nógu sterkt til þess að bera uppi þá sem halda fram óhefðbundnum, jafnvel vitleysingalegum skoðunum.

Bið að heilsa

 Þorleifur

Þorleifur (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 01:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband