Vanhæf ríkisstjórn?

Í dag heyrðist enn á Austurvelli sem fyrr slagorðið "Vanhæf ríkisstjórn". Ólíkar skoðanir eru þar að baki: meintur skortur á úrræðum til að bjarga heimilunum, vangeta til að taka á málefnum útrásarþjófanna, Icesave og EES-málið.

Ríkisstjórnin hefur vissulega ýmislegt aðhafst til að létta fólki lífið eftir bankahrunið, en seint gengur að taka á málum þeirra sem þjóðin telur sig eiga sökótt við vegna útrásarinnar.

Icesave-málið virðist flóknara eftir því sem lengra líður fram. Ýmsir hnökrar virðast hafa komið fram á samningnum sem þingmenn og almenningur sætta sig illa við. Þó telja margir og reyndar flestir sem ég hef rætt við, að samningurinn sé ekki alslæmur. Niðurstaðan hlýtur að verða sú að Alþingi fari fram á að ákveðnir hlutar hans verði teknir til endurmats. Nauðsynlegt er að skilgreina til hlítar hvaða ákvæði það eru sem Íslendingar telji sig vart geta gengið að. Ríkisstjórninni verður að segja til hróss að ekki hefur verið reynt að þvinga málið gegnum þingi enda tæpast meirihluti fyrir samningnum eins og hann lítur nú út.

ESB-málið er hins vegar vont, einkum Samfylkingunni og Vinstri-grænum hefur vissulega verið velkt undir uggum vegna afstöðu sinnar í þvísa máli. Verst hefur þó Borgarahreyfingin farið út úr því máli og verður afstöðu meirihluta þingflokksins vafalaust lengi minnst eins og Júdasar heitins forðum.

Eftir því sem dagarnir líða hef ég minni áhyggjur af málinu. Sú vongleði, sem virtist ríkja í röðum Samfylkingarinnar, þegar aðildarumsóknin var samþykkt með tilstyrk stjórnaradnstöðuþingmanna, virðist nú óðum dvína. Össur Skarphéðinsson virðist átta sig á mikilli andstöðu á meðal þjóðarinnar og talar nú m.a. um að stjórnmálin séu tilfinningamál.

Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, orðaði það svo í þættinum Krossgötum, sem útvarpað var í vetur, að heilinn segði sér að rétt væri að ganga til samninga við Evrópusambandið en hjartað segði nei. Ragnar Arnalds virtist hins vegar á því að bæði heili og hjarta segðu nei.

Misjafnt er hvernig fjölmiðlafólk hefur fjallað um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hafa þeir einkum gengið í skrokk á andstæðingum aðildarinnar innan ríkisstjórnarinnar og látið að því liggja að óeðlilegt sé að ráðherrar, sem styðji ekki aðildarumsóknina, stýri ákveðnum þáttum samningaferlisins. Nú hlýtur það að verða svo að ólík sjónarmið takist á, jafnvel innan ríkisstjórnar, en ráðherrar fylgi þó eftir vilja Alþingis. Hins vegar má vænta þess að þeir, sem efast um kosti aðildar að ESB, leggi harðar að sér en Evrópusambandssinnarnir til þess að ná hagstæðari samningum. Það liggur í eðli málsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband