Færsluflokkur: Bloggar
Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna áréttar betur en orð fá lýst að Bandaríki Norður-ameríku eru grímulaust heimsvaldasinnað stórveldi.
Bandaríkin hugsa ekki um hag annarra en sjálfra sín. Eigingirni, drottnunarárátta, tortryggni í garð annarra þjóða og tortryggni gagnvart öllu því sem forysta þeirra trúir ekki, lýsa af hverju orði sem hrýtur af munni fulltrúa þeirra.
Bandaríkjamenn vara við áleitni rússa á norðurslóðum. Það mætti halda að þeir vissu ekki hversu löng strandlengja Rússlands er á þessu svæði.
Bandaríkin vara við Kínverjum sem hafa áhuga á því sem er að gerast á Norðurslóðum. Trump og félagar virðast ekki vita að kínversk stjórnvöld gera sér nú æ betri grein fyrir áhrifum hlýnunarinnar á veðurfarið í Kína og sjá þess merki að samhengi er á milli ástandsins við norður-heimskautið og aukinnar bráðnunar hálendisjökla Asíu.
Það eru nokkur ár síðan kínverskir vísindamenn settu fram þá kenningu að í raun væru heimskautin þrjú: Suðurskautið, norðurskautið og Himalayjafjallgarðurinn, en þar horfir nú til vandræða vegna bráðnandi jökla.
Varaforseti Bandaríkjanna er varasamur sendiboði. Hann er jafnhættulegur trúarofstækismaður og hryðjuverkamenn sem skipa sér í fylkingar með meintar kenningar spámannsins að vopni. Mörgum þessara hryðjuverkamanna er það sameiginlegt að þeir eru ólæsir á Kóraninn og lepja upp ýmiss konar fullyrðingar sem tuggðar hafa verið ofan í þá.
Hið sama er um fjölda fólks í Bandaríkjunum. Þeir beita trúarbrögðunum til hryðjuverka á heims vísu og fylgja ótrauðir leiðbeiningum trúarleiðtoga sem eiga sér einga stoð í veruleikanum.
Heimsóknin, sem nú er lokið, sýnir betur en flest annað hið raunverulega eðli bandarískra heimsvaldasinna.
Bloggar | 5.9.2019 | 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú eru hafnar mestu hernaðaræfingar Rússa á Norðurslóðum frá upphafi vega. Um 300.000 rússneskir hermenn taka þátt í æfingunum auk 3.000 kínverskra hermanna og nokkurra frá Mongólíu. Fjöldi herskipa, flugvéla, skriðdreka og annarra drápstóla hafa verið dregin fram í dagsljósið sem aldrei fyrr.
Pútín og Xi Jinping lögðu áherslu á samstarf ríkja sinna á sviði hernaðar og viðskipta í ræðum sínum þegar ósköpin hófust.
Rússneskur álitsgjafi greindi BBC frá því hvernig samskiptum ríkjanna væri háttað á þessu sviði. Kínverjar kaupa háþróuð vopn af Rússum en sjá þeim um leið fyrir hvers kyns hugbúnaði og tækninýjungum. Hélt hann því fram að þótt kínverska hagkerfið væri margfalt stærra en hið rússneska væru pólitísk áhrif Rússa á alþjóðavettvangi mun meiri.
Í lok samtalsins sagði hann að Bandaríkjaforseti gæti þakkað sér að þessi tvö stórveldi, Rússland og Kína, þjöppuðu sér nú saman vegna þeirrar ógnunar sem þau teldu stafa af Bandaríkjunum.
Bloggar | 11.9.2018 | 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag var mikill gleðidagur hjá okkur Elínu.
Við hjónin höfum gert okkur það til ánægju að hjóla saman á tveggja manna hjóli um 25 ára skeið.
Árið 1994 keyptum við bandarískt Trek tveggja mana hjól, sem til var í Erninum. Stellið var fremur hátt fyrir Elínu en eftir nokkrar breytingar taldist hjólið nothæft.
Þetta hjól áttum við fram til 2002 þegar við létum það af hendi. Höfðum við þá hjólað austur á Stöðvarfjörð og til Akureyrar. Gera þurfti ýmislegt til þess að hjólið teldist almennilega nothæft. Til dæmis var skipt algerlega um hjólabúnað og fengin sérstyrkt afturgjörð. Þessu hjóli hjóluðum við um 11.000 km.
Við létum Orminn langa, eins og það var kallað, til vinar okkar sem afhenti það síðar kunningja mínum. Hann arfleiddi síðan Orminn til endurhæfingarstofnunar á Akureyri þar sem hann dugiar vonandi enn.
Ormur inn langi, Stígandi, Var gjöf Elínar til mín á fimmtugsafmæli mínu. Hann var sérsmíðaður hjá Robin Thorn í Bretlandi, framspöngin aðeins styttri en vant er þar sem Elín stýrimaður er lægri vexti en eiginmaðurinn.
Þessa hjóls höfum við notið í ríkum mæli og hjólað u.þ.b. 12-13.000 km.
Í fyrra haust var Orminum komið fyrir í híði sínu í októberbyrjun þar sem veður tóku að gerast válynd og veikleiki í öðru hné Elínar torveldaði hjólreiðar, þótt henni gengi í raun mun betur að hjóla en ganga. Í híði sínu hýrðist hann þar til í vor að hann var leiddur út til þess að kanna hvort hann léti að stjórn eftir að stýrimaðurinn hafði þraukað þorran og góuna að lokinni hnéskiptum. En hún gat ekki beygt hnéð nægilega mikið.
Fyrir nokkru kom í ljós að hún gat hjólað á einmenningshjóli og við síðustu tilraunir vantaði einungis herslumun að Ormurinn þýddist hana.
Í dag hélt frú Elín á fund starfsmanna bensínstöðvar N1 við Ægisíðu og hækkaði starfsmaður hnakkinn fyrir hana. Og viti menn! Frúin gat hjólað og mætti eiginmanni sínum á gangi meðfram Nesveginum.
Fórum við saman hring á nesinu. Meðalhraðinn var um 11 km en við nutum þess í ríkum mæli að vera saman á blessuðum Orminum inum langa, Stíganda. Verða því aftur teknar upp tvímenningshjólreiðar hjá okkur hjónakornunum.
Til hamingju, EL'ÍN!:)
Bloggar | 16.7.2018 | 18:21 (breytt kl. 18:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við hjónin keyptum rafbíl af tegundinni Kia Soul 2017 fyrir rúmu ári. Við höfum ferðast á honum um Suðurland, Snæfellsnes og norðurland, allt norður að Höfða á Höfðaströnd. Hefur hann reynst í hvívetna vel.
Í ljós kom að við höfðum greitt 30.000 kr fyrir rafmagn í heimahleðslu þegar ár var liðið frá því að við keyptum gripinn og telst það vel sloppið fyrir 15.000 km akstur.
Drægni o.fl.
Kia Soul 2017 er ekki með langdrægari rafbílum. Meðaldrægni er um 150 km, en við góð skilyrði höfum við séð töluna 171 km. Lengsti samfelldi akstur okkar var um 145 km. Í mestu vetrarhörkum minnkar drægnin í um 120 km.
Eyðsla á hverja 100 km er um 16 kw-stundir, en eftir ferðalag okkar hafði hún vaxið í 16,5. Nánari skýring á því síðar.
Ferðin austur í Suðursveit
Við lögðum af stað frá Seltjarnarnesi um kl. 10:40 mánudaginn 2. júlí síðaðstliðinn og ókum í einum áfanga austur á Hvolsvöll, 108 km. Við áttum þá 18 km óekna og var nýtingin ekki sú sem ég ætlaði. Er það væntanlega vegna aksturslags, en ekið var að jafnaði á 90-92 km hraða og stundum tekið fram úr. Á Hvolsvelli hlóðum við í 80%.
Í Vík áttum við eftir 40 km óekna og á Kirkjubæjarklaustri 76 km Á báðum stöðum hlóðum við í 94%. Hið sama var um Freysnes og Jökulsárlón, en það var síðasta hleðsla dagsins. Að Hala í Suðursveit komum við um kl. 18:30.
Austur á Stöðvarfjörð
Þriðjudaginn 3. júlí Héldum við af stað um kl. 10:15 og var haldið austur á bóginn. Hlaðið var við Hótel Jökul, en þegar þangað kom áttum við um 30% eftir á rafhlöðu eða 40 km. Þar var hlaðið í 94% enda um 100 km kafli framundan. Leiðin þangað liggur á nokkrum stöðum um allbrattar skriður og má því búast við nokkurri umrameyðslu. Þegar við komum á áfangastað voru um 18% eftir á rafhlöðu eða rúmir 20 km.
Á Djúpavogi var enn hlaðið í 94% þótt leiðin þaðan á Stöðvarfjörð sé einungis um 80 km og miðað við að fylgja umferðarhraðanum.
Þar dvöldum við í góðu eftirlæti hjá Hrafni Baldurssyni í Rjóðri. Ekki var farið víða, skroppið á Fáskrúðsfjörð og franska sýningin skoðuð. Þá var skotist suður í Berufjörð og einu sinni á Breiðdalsvík og í Berufjörð. Yfirleitt var hlaðið heima.
Að Egilsstöðum
Mánudaginn 9. júlí héldum við að Egilsstöðum og hlóðum þar í 94%. Skýringin var sú að okkur grunaði að hleðslan gengi hægt á Skjöldólfsstöðum og vildum við því hafa eins mikið rafmagn og unnt var.
Við þurftum að bíða í 10 mínútur eftir að komast að og var það í fyrsta sinn í ferðinni sem hleðslustöð var upptekin. Sá sem hlóð var kanadískur og voru þau hjónin á ferð á Renault Zoe sem hann lét mikið af. Þau áttu Nissan Leaf 24 KW vestur í Kanada sem hafði drægni upp á 125 km en hann fullyrti að hann kæmist um 250 km á Renault-bílnum sem hann hafði tekið á leigu. Hafði hann hlaðið hann á um tveimur klst þá um morguninn og hugðist komast yfir Möðrudalsöræfin og skoða Dettifoss.
Rétt er að geta þess að við hittum þau heiðurshjónin síðar á Blönduósi, við Staðarskála og í Borgarnesi. Virtist hann dreypa á bílinn rafmagni eftir þörfum.:)
Yfir möðrudalsfjallgarðinn
Þegar að Skjöldólfsstöðum kom, en þangað eru um 50 km frá Egilsstöðum, kom í ljós það sem ég hélt mig vita þrátt fyrir það sem ritað var á heimasíðu Orku náttúrunnar, að tvenns konar hleðsla var í boði og sú sem við gátum notað var hægheðsla. Stungum við í samband kl. 12:10
Við komumst fljótlega að því að bíllinn fengi 7% á hálftíma, en það er svipað því sem 15 ampera heimahleðslustöð afkastar.
Kl. 15:30 reyndist hann hafa fengið 97% og veðrið fór óðum versnandi vestan stynningskaldi og miklar rokur. Töldum við því rétt að leggja í hann og höfðum þá beðið í rúma þrjá tíma á Skjöldólfsstöðum.
Við hjónin höfðum sammælst um að fara rólega og höfðum fyrir okkur m.a. dæmi Hjartar Grétarssonar, þegar hann fór til Akureyrar í fyrrahaust. Voru því 70 km meðalhraðinn á þessari leið eða jafnvel minna, því að vindurinn var í fangið og stundum riðu yfir þvílíkar hviður að bíllinn hægði verulega á sér.
Eftir því sem við færðumst ofar versnaði veðrið og fannst mér það einna líkast fárviðri á tímabili. Samkvæmt hæðarmæli farsímans fórum við hæst í 673 m hæð.
Við komum að Fosshótelinu við Mývatn kl. 17:05 og höfðum verið á ferðinni í rúman hálfan annan tíma. Höfðum við þá ekið 117 km. Áttum við þá eftir 18% af hleðslu og rúmlega 20 km samkvæmt giskaranum. Sýnir það og sannar hvað vindmótstaðan og hraðinn hafa mikil áhrif.
Við hótelið var svo hvasst að varla var stætt.
Við stönsuðum þar í um 40 mínútur á meðan við hlóðum í 94%.
Til Akureyrar komum við um kl. 19:30, en þangað eru rúmlega 100 km og fór ekki að lygna að ráði fyrr en við áttum u.þ.b. 40 km ófarna.
Eftir góða dvöl hjá vinahjónum okkar, Herði Geirssyni og Björgu Einarsdóttur, héldum við heim á leið upp úf hádegi daginn eftir. Var enn tekið mið af leiðbeiningum Hjartar og hraða stillt í hóf á Öxnadalsheiðinni sem nær 551 m. hæð, enda var framan af stífur mótvindur.
Við hlóðum bílinn í Varmahlíð, Blönduósi og í Staðarskála. Áttin var vestanstæð og allhvass vindur sem tók talsvert í og á Holtavörðuheiðinni voru samkv. Veðurlýsingu um 15 m/sek.
Enn var hlaðið í Borgarnesi eftir dálitla bið og hittum við Kanamanninn sem var hinn ánægðasti þar sem hann gat skvett á Renaultinn þótt Nissan hlæði um leið. Hann sagðist hafa sloppið yfir Mörðudalsöræfin áður en hvassviðrið skall á.
Á Seltjarnarnes komum við um kl. 22:00 eftir viðkomu í verslun.
Niðurstöður
Það virðist vissulega hægt að fara hringinn á flestum ef rafbílum sem eru með 27 kw rafhlöðu. Þó er næstum því hæpið að fullyrða að hringurinn sé opinn á meðan ástandið á Skjöldólfsstöðum er eins og raun ber vitni. Þeir sem eru hvað jákvæðastir geta þó glaðst yfir kyrrðinni á Skjöldólfsstöðum, náttúrunni og góðri kjötsúpu sem þar er framreidd.
Við vorum heppinn að mörgu leyti. Við þurftum einungis þrisvar að bíða eftir hleðslu og í tvö skipti innan við 10 mínútur.
Allar 14 hleðslustöðvarnar voru í góðu lagi. Þegar við höfðum samband við Orku náttúrunnar fengum við góða úrlausn mála og á starfsfólkið þakkir skyldar.
Við eyddum um 9 klst við hleðslustöðvar og ókum 1.551 km.
Þegar við lögðum af stað í ferðina var meðaleyðslan um 16,1 kwst á 100 km. Í ferðalok var hún orðin 16,5 km. Er það talsvert ef miðað er við suma aðra bíla sem eru með svipaðar rafhlöður, en það segir þó sína sögu um veðurskilyrðin og landslagið.
Bloggar | 11.7.2018 | 15:29 (breytt 14.7.2018 kl. 16:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í krafti sannfæringar, ævisaga Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrum hæstaréttardómara, rituð af honum sjálfum, kom út í haust. Að loknum lestri hennar sendi ég höfundi eftirfarandi bréf, en sagan er bæði einlæg og á köflum óvægin, enda talar höfundurinn enga tæpitungu.
Sæll, Jón Steinar,
Ég hef nýlokið við að lesa ævisögu þína og þótti mér hún hin merkasta bók - reyndar svo viðamikil og athyglisverð að ýmislegt í henni krefst nánari skoðunar við tækifæri. Bókin er margslungin eins og Njála og við lesturinn koma í hugan sífellt nýjar myndir og þankar.
Það er alllangt síðan ég fór að fylgjast með ferli þínum. Eins og gengur og gerist var ég mishrifin af ýmsu sem þú lést frá þér fara á fyrri árum. Stundum held ég að umfjöllun fjölmiðla hafi mótað skoðanir mínar og viðbrögð, en greinar þínar, einkum í Morgunblaðinu, leiðréttu sumt.
Athyglisverðar þykja mér frásagnir þínar af Hæstarétti. Ég hafði ímyndað mér að þar hefði ýmsu þokað áleiðis frá því sem var um miðja síðustu öld. Þegar ég tók að fylgjast með sem barn og unglingur á 7. áratug síðustu aldar virtist mér einatt sem Hæstiréttur dæmdi stundum út frá pólitískum forsendum og kunningskap en af sanngirni og raunverulegum málsástæðum. Faðir minn, Helgi Benediktsson, fékk fjölda mála fluttan fyrir Hæstarétti. Sum unnu lögmenn hans en önnur ekki. Síðasta málið fór þannig að honum var dæmt í hag en málskostnaður látinn niður falla og varð það ásamt ýmsu til þess að fjárhagur hans og fjölskyldunnar beið nokkurn hnekki.
Það olli mér því vonbrigðum þegar dómur Hæstaréttar 19. desember 2000 í öryrkjamálinu varð eins og véfrétt og allt, sem á eftir fór næstu vikurnar varð eins og hin versta martröð. Þá veldur það vissulega áhyggjum að ástandið sé eins og þú lýsir því. Ég ímynda mér að tillögur þínar um breytingar á réttinum séu einna best til þess fallnar að breyta honum.
Ég dáist mjög að einurð þinni og tryggð við lífsgildi þín og óska þér alls hins besta í baráttunni fyrir auknu réttlæti.
Bestu kveðjur,
Arnþór Helgason
Svar Jóns Steinars
Sæll Arnþór.
Kærar þakkir fyrir þessa orðsendingu.
Hún er mér mikils virði.
Mest er síðan um vert að menn sameini krafta sína til að gera það til endurbóta sem unnt er.
Kannski fyrst og fremst fyrir börnin okkar.
Endurteknar þakkir og megi þér vel farnast.
Jón Steinar
Bloggar | 18.1.2015 | 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er fullyrt í greininni að orkugeirinn geti skilað mun meiri arði með því að selja orkuna úr landi í stað þess að selja hana álverum.
Nú er ljóst að ekki er of mikið til að virkja sem hagkvæmt getur talist og leiddar voru að því líkur í Morgunblaðinu í grein sem nefnist "Kapallinn gengur ekki upp" að ýmislegt valdi því að jafnlangir sæstrengir og Íslendingar þurfa til útflutnings séu ekki hagkvæmir í rekstri. En Gylfi hefði þurft að styðja þessa fullyrðingu sína um útflutning orku. Hugsar hann sér að álverin verði lögð niður og sú orka, sem runnið hefur þangað, verði seld yfir Atlantsála? Er skýringin þá e.t.v. sú að Íslendingar hefðu þá betri stjórn á verðmynduninni?
Bloggar | 4.9.2014 | 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í dag hjóluðum við hjónin ásamt Unni Stefaníu Alfreðsdóttur, vinkonu okkar, austur í Fossvogskirkjugarð, þaðan á kaffi Haítí og lukum síðan ferðinni með Neshringnum. Urðu þetta alls 22 km.
Það vakti athygli okkar hjóna, þegar við hjóluðum eftir reiðhjólastígnum meðfram Ægisíðunni, að hópar fólks þeystu eftir göngustígnum, sem er nær sjónum. Þó eru merkingar greinilegar á þessum slóðum. Þegar nálgast Nauthólsvík hverfa allar merkingar og enginn veit hvar hann á að hjóla eða ganga. Þetta hefur jafnvel ekki bestaflokks-vinstri-samfylkingarstjórnin ekki lagað.
Ég fer iðulega gangandi til og frá vinnu. Á ég þá leið um eiðisgrandann. Frá því að ég tók að ganga þessa leið fyrir tveimur árum hefur það einungis einu sinni gerst að hjólreiðamaður hafi varað mig við með því að hringja bjöllu, þegar hann kom aftan að mér. Tek ég undir orð fjölmargra vegfarenda sem segja farir sínar ekki sléttar í þessum efnum.
Verði ég var við hjólreiðamann í tæka tíð nem ég yfirleitt staðar því að ég óttast að hvíti stafurinn geti orðið honum að tjóni og mér til skaða.
Við Íslendingar eigum margt eftir ólært í háttprýði og góðum siðum í umferðinni, ef til ekki allir, en allt of margir.
Bloggar | 28.6.2014 | 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er nú flóknara fyrir blinda og sjónskerta að finna beinar útsendingar en áður.
Þess vegna var nýmiðlastjóra Ríkisútvarpsins sendur eftirfarandi tölvupóstur.
Sæll, Ingólfur Bjarni.
Þið hafið svo sannarlega ekki gætt að aðgengi blindra og sjónskertra þegar svokallaður X14 vefur vegna sveitarstjórnakosninga var hannaður. Hvers vegna ekki?
Þá þarf nú að fara krókaleiðir til þess að hlusta á beinar útsendingar rásar eitt og tvö. Slíkt er ekki lengur í boði efst eins og áður var. Leita verður að einhverju sem kallast netútsendingar og ég fannn fyrir tilviljun. Á þetta að vera þannig?
Kveðja,
Arnþór Helgason
Farsími: 8973766
Bloggar | 26.5.2014 | 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í dag fór ég villur vegar og er ástæðulítið að hrósa sér af því. Ég hugðist koma mér heim úr Reykjavíkurakademíunni og nota gönguleiðsögnina í símanum. Hún vísaði mér á Álagranda, en hann liggur að hluta samsíða göngustíg sem liggur að Keilugranda, en þaðan er haldið inn í Frostaskjól. Eitthvað fór úrskeiðis hjá mér og rammvilltist ég. Ég kannaði öðru hverju hvar ég væri og fékk upp götuheitið. Að lokum vék sér að mér kona nokkur og ráðlagði mér að fara út á Meistaravelli. Eftir nokkrar leiðbeiningar og allnokkra villu rambaaði ég á götuna og fann strætisvagnaskýli við Fliðrugranda. Af einhverjum undarlegum ástæðum var mikil umferð mér á hægri hönd og velti ég fyrir mér hvort svona mikil umferð væri eftir Kaplaskjólsveginum. Þá kom strætisvagn og taldi ég að það væri leið 15. Hann stansaði hinum megin við götuna og beið ég dálitla stund. Þá kom það sem ég taldi vera leið 13 og spurði ég til öryggis hvort ekki væri um leið 13 að ræða. Þetta var þá leið 15 og leið 13 þá nýfarin vestur á Nes. Áttaði ég mig þá á heimsku minni og hefði betur hugsað mig nánar um, því að umferðin, sem ég heyrði í fjarska var auðvitað frá Hringbrautinni. Niðurstaðan er þessi eftir ævintýri dagsins: 1. Sennilega er rétt að útvega sér áttavita í tækið, en slíkur áttaviti er á Android-markaðinum. 2. Staðsetningarbúnaður farsímanna mætti vera nákvæmari og tilgreina húsnúmer og götuheiti. Reyndar er gert ráð fyrir því í búnaðinum, en skráningu virðist ábótavant eða rangur gagnagrunnur notaður. 3. Rökhugsunin þarf að vera í lagi. Það er svo sem ekkert óeðlilegt að blindur einstaklingur verði áttavilltur úr því að sjáandi fólk villist í litlu skyggni. Eftir á að hyggja hefði akstursleiðsögnin dugað að sumu leyti betur, því að hún tilgreinir fjarlægð frá áfangastað. Ég hugðist hins vega láta á það reyna hvort göngustígurinn, sem minnst var á hér að framan, væri skráður. Það verður gert innan skamms. Veðrið var hins vegar hlýtt og gott að vita af því að þrátt fyrir aldurinn hafi ég enn gaman af að spreyta mig á tilraunum með nýja tækni.
Bloggar | 29.5.2013 | 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veðrið var svo gott í dag að ég ákvað að gera frekari tilraunir með GPS-símann og Loadstone-forritið og hélt því út á Seltjarnarnes. Gekk ég sem leið lá í áttina að golfvellinum og voru eftirtaldir punktar merktir: Ljósin v. Suðurströnd, gangbraut á móts við Íþróttamiðstöðuna, göturnar sem liggja að sjónum frá Suðurströnd, höfnin, tvær gönguleiðir niður að sjó og einn bekkur. Bætti ég þessum áfangstöðum við aðra sem fyrir voru í gagnagrunni símans.
Því næst var haldið áfram og snúið við þar sem beygt er þvert yfir nesið.
Í stuttu máli sagt þá fann síminn kennileitin aftur og áttaði ég mig þá á því að ég gat farið mun hraðar þegar ég þurfti ekki stöðugt að hafa auga eða eyra með því hvar kennileitin voru. Hvíti stafurinn er framlenging handleggjanna og leitarsvæði hans er takmarkað. Hannn varar samt við nálægum hindrunum en ekki þarf stöðugt að þreifa eftir tilteknum kenniletum fyrr en komið er að þeim. Þó er ætí dálítil ónákvæmni eins og þeir, sem nota GPS-tæki vita.
Ég lærði einnig að ég þurfti að leita uppi þann áfangastað sem ég ætlaði til og gat valið hvaða kennileiti voru birt á leiðinni. Ég valdi þau öll og fylgdist með því hvernig ég nálgaðist hvert og eitt þeirra.
Við gönguljósin sem eru skammt austan við eiðistorg var dálítið kraðak. Loadstone-forritið birtir upplýsingar um þann leiðarpunkt sem næstur er og komu því til skiptis upplýsingar um ljósin og torgið. Þegar ég sneri mér birti tækið heiti þeirra staða sem ég sneri að hverju sinni svo að þetta var dálítið eins og að horfa í kringum sig.:)
Þótt þetta sé hálfgerður leikur er þetta samt ótrúleg lífsreynsla.
Bloggar | 1.9.2010 | 17:30 (breytt kl. 17:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 319771
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar