Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fjórtándi janúar árið 2014 verður talinn til tíðindadaga á meðal blindra og sjónskertra Íslendinga. Í dag kom forritið Mobile Accessibility fyrir Android farsíma út í Playstore hjá Google. Heldur gekk treglega að finna forritið, en með því að leita að orðinu skjálesari fannst það. Fólk getur fengið því úthlutað hjá Þekkingarmiðstöðinni.
Uppsetning forritsins gekk með ágætum og við fyrstu heyrn virðast flestir annmarkar hafa verið lagfærðir. Sú breyting hefur nú orðið á forritinu að hægt er að hafa MA opið sem skjálesara um leið og Talkback aðgengislausn símanna. Virðist þá vera hægt að lesa öll forrit símans sem eru aðgengileg.. Vakin skal athygli á því að séu báðir skjálesararnir notaðir samtímis og Mobile Accessibility sem valmynd, þarf iðulega aðþrísnerta skjáinn þegar skipanir eru notaðar.
Þá er hægt að nota Mobile Accessibility skjálesarann eingöngu og gefur hann þá kost á skipunum sem eru afar fljótvirkar. Sá böggull fylgir skammrifi að skjálesarinn les ekki nægilega vel sum forrit og lestrarforritið Ideal Group Reader, sem notað er fyrir EPUB-rafbækur, nýtist ekki. Moonreader, sem er svipað, hefur að vísu ekki verið reynt.
Þá virkar MA einnig sem valmynd í Talkback og eru þá skipanir Talkback virkar.
Mobile Accessibility er þægilegt fyrir byrjendur vegna þess að vaðgerðareitir (hnappar) eru dreifðir um svo stórt svæði á skjánum að lítil hætt er á að menn hitti fyrir tvo hnappa í einu. Þá er íslenska snertilyklaborðið, sem Baldur Snær Sigurðsson hannaði, afbragðsgott. Vilji menn fremur nota þráðlaust borð er hægt að aðlaga það forritinu.
Ástæða er til að óska Blindrafélaginu og Þekkingarmiðstöðinni til hamingju með þennan áfanga. Verður forvitnilegt að fylgjast með nýjum notendum.
Stjórnmál og samfélag | 14.1.2014 | 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í umræðuþætti Gísla Marteins Baldurssonar í morgun var rætt við framsóknarráðherran Sigurð Inga Jóhannsson, sem gegnir stöðu umhverfisráðherra. Sitthvað var fróðlegt í viðtalinu. En þegar kom að umfjöllun um rammaáætlun og stækkun eða breytingar á friðlandinu í Þjórsárverum þyrmdi yfir suma hlustendur.
Ráðherra fullyrti í viðtalinu að hann hygðist fara að ráðum fagfólks. En þegar þáttarstjórnandi þjarmaði að honum kom í ljós að með því að tjá sig á opinberum vettvangi um hugmyndir ráðherrans um svokallaða stækkun á friðlandinu væru fagmenn farnir að taka þátt í stjórnmálum og á honum mátti skilja að þar með væru fagmenn orðnir ómarktækir. Með öðrum orðum: þeir sem hafa grundvallað álit sitt á staðreyndum mega ekki verja skoðanir sínar og útskýra hvers vegna þær eru eins og þær eru. Þetta er hin frjálsa umræða á Íslandi árið 2014!
Mönnum er misjafnlega lagið að tjá skoðanir sínar og þeir sem hafa vafasaman málstað að verja, hrekjast einatt undan spyrlum án þess að svara nokkru. Þannig fór fyrir ráðherranum. Þetta er því miður einkenni margra Íslendinga og í hópi Framsóknar- og Sjálfstæðismanna þykir höfundi þessa pistils hafa borið of oft á þessu heilkenni. Vera má að þar sé um fordóma að ræða, en dæmin eru því miður of mörg.
Fyrr í þættinum var rætt við nokkra einstaklinga um hugmyndir umhverfisráðherra og einn viðmælenda Gísla Marteins, Róbert Marshall, benti m.a. á hvaða afleiðingar breytingar á friðlandi Þjórsárvera gætu haft - ósnortnar víðáttur hálendisins yrðu truflaðar af svokallaðri sjónmeingun.
Ég get rétt ímyndað mér hvernig sjónmeingun verki á þá sem vilja njóta ósnortins landslags með sama hætti og hljóðmeingun nútímans truflar einatt þá sem vilja hlusta á hjartslátt náttúrunnar. Annar viðmælandinn minntist á að nú þyrftu menn að huga fremur að því til hvers ætti að nota rafurmagnið, en ekki að breyta vegna breytinganna.
Flest á þetta rætur að rekja til þess agaleysis sem ríkir í umræðum og við ákvarðanir. Hér á landi er einum of algengt að rifið sé niður það sem aðrir telja sig hafa byggt upp og þegar völdum þeirra sleppit slæst kólfurinn í hina áttina. Ef ekki verður horfið af þessari braut og jafnan lamið í gagnstæðar áttir, fer fyrir Íslendingum eins og Líkaböng á Hólum sem sprakk þegar lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt að Hólum árið 1551. Hún sprakk og einnig önnur klukkan í Landakirkju fjórum og hálfri öld síðar, vegna þess að jafnan hefur verið lamið kólfinum á sömu svæði. Þannig monar samfélagið undan Íslendingum vegna sundurlyndis misviturra stjórnmálamanna.
Stjórnmál og samfélag | 12.1.2014 | 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er kostur góðra laga að nota má þau við ýmis tækifæri.
Austrið er rautt,
upp rennur sól.
Ennþá koma þessi blessuðu jól.
Svanni fátækur son Guðs ól -
Halelúja!
Hann vér tignum heims um ból.
Hringur Árnason söng þetta 12. desember 2007, þá á 14. ári. Nú syngur Hringur bassa í Hamrahlíðarkórunum.
Stjórnmál og samfélag | 9.12.2013 | 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þær sögur fóru fjöllunum hærra, þegar núverandi útvarpsstjóri var ráðinn, að hlutverk hans yrði að draga saman stofnunina og sjá til þess að hún yrði eyðilögð. Þetta er þungur áburður en ekki úr lausu lofti gripinn. Með aðgerðum sínum hefur útvarpsstjóri rofið ákveðið samhengi í sögu stofnunarinnar. Slíkt rof er eins og flóð sem enginn ræður við og sópar burtu með sér ómetanlegum verðmætum. Þótt hann haldi því fram að tillögurnar hafi komið frá millistjórnendum er deginum ljósara að hann hafði hvorki þekkingu né reynslu til þess að meta afleiðingarnar.
Þegar litið er yfir þann hóp sem hefur verið látinn hætta hjá Ríkisútvarpinu vekur athygli að engar faglegar ástæður virðast liggja að baki uppsögnunum. Engin stefnumarkandi umræða virðist hafa farið fram um afleiðingarnar. Það er eins og blindur þurs, skini skroppinn, hafi vaðið um, brotið og bramlað það sem fyrir varð.
Stjórnvöld bera einnig sína ábyrgð. Nú virðist Sjálfstæðisflokkurinn loksins hafa komist í þá aðstöðu að ná tangarhaldi á öllum stærstu fjölmiðlum landsins og Framsóknarflokkurinn fylgir með. Fjármagnið skal ráða en ekki þjóðarheill.
Margir Íslendingar hneykslast mjög á þeim ríkjum sem búa við stjórn eins flokks. Sumir þegnar eins flokks ríkja undrast hins vegar óstöðugleikann sem fylgir lýðræðinu. Hér á landi tekst sjaldan að móta framtíðarstefnu í nokkru máli. Ástæðan er sú að algjör kúvending verður með nýrri ríkisstjórn, hafi fyrri stjórn beðið ósigur. Þrátt fyrir kosti lýðræðisins eru annarkarnir þeir að agaleysi og skammsýni, sem byggja á þröngum hagsmunum, hamla nauðsynlegum breytingum til batnaðar.
Umræðuhefðin á Alþingi ber þessu glöggt vitni. Þar eru sjaldan stundaðar umræður heldur átök. Nú ræður fjármagnið mestu og tveir stærstu fjölmiðlar landsins, Morgunblaðið og 365 miðlar eru í eigu þess. Í þessu umhverfi er öflugt ríkisútvarp nauðsyn, öflugt útvarp sem getur veitt samfélaginu samtímis öflugt aðhald og góða þjónustu.
Stjórnmál og samfélag | 30.11.2013 | 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er ljóst hvert stefnir í starfsemi Ríkisútvarpsins. Stofnunin verður sjálfsagt rekin að nokkru með því að ráða verktaka til þess að sjá um einstaka þætti eða þáttaraðir. Margir þaulreyndir dagskrárgerðarmenn hafa aldrei komist svo hátt að verða starfsmenn Ríkisútvarpsins heldur hefur þeim verið ahaldið sem verktökum, jafnvel áratugum saman. Þannig sparar stofnunin stórfé. Hvorki greiðir hún í lífeyrissjóði verktakanna né kostnað, sem hlýst af starfi þeirra.
![]() |
Uppsagna farið að gæta í dagskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 29.11.2013 | 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sýningu Möguleikhússins á einleiknum Eldklerkinum hefur
nokkuð borið á góma að undanförnu á síðum dagblaðanna tveggja auk netheima.
Undrun margra vakti leikdómur Hlínar Agnarsdóttur sem fór ómildum orðum um
sitthvað í sýningunni.
Suðursalur Hallgrímskirkju var fullsetinn á sýningu
Möguleikhússins sunnudaginn 17. Þessa mánaðar. Pétur Eggerz var alla tíð einn á
sviðinu. Leikmyndin var einföld og menn urðu að láta ímyndunaraflið um að skoða
sitthvað sem gerðist á sviðinu. Dauf hljóðmynd studdi sum atriðin og leikræn
tjáning leikarans, sem ef til vill er ekki lengur á léttasta skeiði", skilaði
áhorfendum ýmsu sem sagan bjó yfir.
Undirrituðum þótti saga Jóns Steingrímssonar einkar vel
sögð. Jafnvægið var gott á milli tímabila frásagnarinnar, en einleiknum má
skipta í fjögur tímaskeið: Árin fram að 1755, búskaparár Jóns í Mýrdalnum,
búsetuna að Prestbakka og eldinn og að lokum afleiðingar eldsumbrotanna. Fáu
var ofaukið og enn færra skorti til þess að sýningin yrði heilsteypt, enda var
greinilegt að Pétur lagði alla sína orku og anda í leikinn, sem er heilsteypt
listaverk.
Framsögnin var yfirleitt prýðileg. Þó hefði mátt betur
hyggja að flutningi þeirra kvæðabrota, sem farið var með á sviðinu. Leikurum
hættir um of til að flytja kvæði eins og samtal og skortir þá talsvert á
hrynjandi kveðskaparins. En þetta eru smávægileg lýti sem auðvelt er að laga.
Pétri er óskað til hamingju með þennan leiksigur. Hann er nú
með þann þroska reynds leikara að honum lætur vel að túlka ýmis aldurskeið,
enda fór honum það vel úr hendi. Því verður hiklaust haldið fram að
eldklerkurin sé með bestu einleikjum, sem sést hafa á sviði hér á landi að
undanförnu.
Stjórnmál og samfélag | 18.11.2013 | 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um daginn var greint frá fyrstu háskólaritgerð á blindraletri, sem skilað hefði verið hér á landi. Leiðrétting var send til fréttastofunnar að fyrstu ritgerðinni á blindraletri hefði verið skilað við Háskóla Íslands árið 1978. Fréttastofan hefur ekki séð ástæðu til að leiðrétta þetta.
Laugardaginn 19. október var greint frá formannaskiptum á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands. Sagt var að atkvæðisrétt hefðu haft allir formenn bandalagsins, en samtals voru greidd tæplega 100 atkvæði á fundinum. Nú eru aðildarfélögin 37. Hvernig stenst þessi frétt? Hvert aðildarfélag sendir þrjá fulltrúa á aðalfund bandalagsins og er því nær að áætla að fundinn hafi ekki setið allir kjörnir fulltrúar, en kosningaréttur er ekki einskorðað eingöngu við formennina.
Þriðja dæmið er afleitt. Í fréttum dagsins í dag, 20. október, hefur Kári gylfason, fréttamaður, tönnlast á Djei Pí Morgan. Hvers vegna les hann ekki skammstöfunina J. P. á íslensku? Hvernig myndi hann lesa þýsku skammstöfunina BMV eða FW?
Það er ekki einungis hroðvirknin sem ræður ríkjum, heldur virðist hluti fréttamanna taka virkan þátt í þeirri aðför að íslenskri tungu sem nú á sér víða stað. Eitt dæmið í hádegisfréttum var eignarfall orðsins bygging. Í frétt var a.m.k. tvítekið eignarfallið byggingu.
Guð varðveiti íslenska tungu og Fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Stjórnmál og samfélag | 20.10.2013 | 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stjórnmál og samfélag | 27.9.2013 | 07:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á þessum síðum hefur komið fram að flest íslensk smáforrit fyrir Android-síma og spjaldtölvur séu óaðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Er því sjálfsagt um að kenna að ekki hefur verið vakin athygli á nauðsyn þess að gætt sé að þessum þætti við hönnun forrita.
Á bak við smíði flestra smáforrita, sem er að finna á íslensku, er fyrirtækið Stokkur í Hafnarfirði. Hér er enn eitt málið á ferðinni sem Blindrafélagið og fleir þurfa að sinna.
Í kvöld ritaði ég þeim Stokksmönnum eftirfarandi bréf:
Ágætu Stokkverjar.
Ég hef að undanförnu nýtt mér snjallsíma með Android-4.1.2 stýrikerfi. Nota ég einkum aðgengislausn sem nýtir Talkback-aðgengisviðmótið sem fylgir Android-símum.
Ég hef prófað nokkur íslensk smáforrit fyrir snjallsíma. Þau virðast flest þeim annmörkum háð að ekki hefur verið gert ráð fyrir að þeir, sem nýta talgervil og aðgengislausnir frá Android, geti nýtt þau.
Miklar framfari hafa orðið á vefaðgengi blindra og sjónskertra hér á landi og víða erlendis er nú unnið hörðum höndum við að gera Android-kerfið aðgengilegt, enda er gert ráð fyrir því við hönnun stýrikerfisins.
Sjá m.a.
http://developer.android.com/guide/topics/ui/accessibility/apps.html
Ýmislegt, sem ég hef heyrt um Stokk, bendir til að þið séuð afar hugmyndaríkir og snilldar forritarar. En getur verið að aðgengisþátturinn hafi farið framhjá ykkur? Í raun og veru ætti að hanna öll forrit þannig að aðgengi sé virt. Með því að sniðganga aðgengið eru lagðir ótrúlegir steinar í götu þeirra sem þurfa á því að halda að tæknin sé aðgengileg.
Mig langar að nefna þrjú dæmi um óaðgengileg forrit:
Strætóappið er algerlega óaðgengilegt þeim sem nota talgervil í símanum.
Forritið Leggja er einnig óaðgengilegt. Þar eru hnappar sem ekki eru með textalýsingu.
Þá er Veður að mestu aðgengilegt, en það hefur þann annmarka að forritið virðist ævinlega undirliggjandi þegar það er notað með Talkback og þvinga þarf fram stöðvun þess.
Ég bendi ykkur m.a. á hópinn Blindratækni á Facebook, en þar hefur farið fram nokkur umræða um notkun snjallsíma að undanförnu. Nú standa málin þannig að aðgengisforritið Mobile Accessibility hefur verið þýtt á íslensku og má búast við að blindum og sjónskertum snjallsímanotendum fjölgi að mun á næstunni. Þá er einnig í bígerð að þýða annað forrit svipaðs eðlis, Equaleyes, til þess að gefa fólki völ á fleiri lausnum.
Gangi ykkur vel í störfum ykkar.
Bestu kveðjur,
Arnþór Helgason
Stjórnmál og samfélag | 22.9.2013 | 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í fréttum sjónvarpsins í gærkvöld kom fram að lokaritgerð til háskólaprófs hefði í fyrsta sinn verið skilað hér á landi á blindraletri nú fyrir skömmu.
Fyrsti blindi Íslendingurinn útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BA-próf í íslenskum fræðum árið 1978. Námið var þá samsett úr sögu og íslensku. Ba-ritgerðin, sem skilað var, var svo sannarlega skrifuð á blindraletri og síðan vélrituð af höfundi. Ólafi Hanssyni var skilað báðum eintökum ritgerðarinnar, en hann taldi ekki ástæðu til að halda blindraleturseintakinu eftir, enda gat hann ekki lesið það.
Þá kom fram í skýringu fréttamanns að blindraletrið væri á undanhaldi og nú væru fáir blindraleturslesendur eftir. Þetta er ekki alls kosta rétt. Notendur Blindraleturs eru nú sennilega á þriðja tug hér á landi og hafa ALDREI verið fleiri. Ef Íslendingar ættu að bera sig saman við aðrar þjóðir ættu lesendur blindraleturs að vera a.m.k. 70. Ástæður þess, að þeir eru ekki fleiri, má rekja til fortíðarinnar, þegar útgáfa bóka var mjög takmörkuð.
Virðingarfyllst, Arnþór Helgason, BA í íslenskum fræðum og norsku
Stjórnmál og samfélag | 15.9.2013 | 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar