Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Æðibunugangur ríkisstjórnarinnar

Nú rífast menn sem aldrei fyrr um hvort sækja eigi um aðild að EES. Það er deginum ljósara að ekki er hægt að halda umsóknarferlinu áfram á meðan situr ríkisstjórn sem hefur þeim meirihluta á að skipa á Alþingi, sem vill ekki ganga í Evrópusambandið. Þetta er nú einu sinni þingræðið.

Ríkisstjórnin hefði samt sem áður ekki þurft að fara fram með slíkum æðibunuhætti sem raun ber vitni. Vitlegra hefði verið að fara sér hægar og leggja fram þingsályktunartillöguna með hefðbundnum hætti.

Þeir sem aðhyllast áframhaladandi umsóknarferli hafa valið andstæðingum sínum ýmis orð og telja að nú séu Íslendingar fyrst orðnir ómarktækir á alþjóða vettvangi. en Samfylkingin sá til þess í síðustu ríkisstjórn að Íslendingar urðu marklausir, þar sem fullvíst var að ríkisstjórnin var ekki samstíga í málinu og annar stjórnarflokkurinn lét til leiðast að halda í umsóknarleiðangur til þess að fá sæti í ríkisstjórninni.

Þá eru yfirlýsingar Evrópusinna um hagstjórnina og EES undarlegar. Ýmislegt þarf að gerast hér á landi áður en íslenskt efnahagskerfi getur lotið lögmálum EES og þetta vita þeir, sem vita vilja.


Tímakistan - góður efniviður til kvikmyndagerðar

Andri Snær Magnason hlaut fyrir skömmu íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabókmennta fyrir bók sína, Tímakistuna. Hún er afar áhugavert ævintýri sem höfðar engu síður til fullorðins fólks, jafnvel enn fremur, sé tekið mið af boðskap bókarinnar. Atburðarásin er spennandi og ýtir örugglega við ímyndunarafli lesandans. Þrátt fyrir fáeina hnökra í málfari, sem hæglega hefði mátt leiðrétta, er Tímakistan á meðal hins besta sem skrifað hefur verið handa börnum og fullorðnum. Eindregið er mælt með bókinni, sem fangaði hug höfundar þessa pistils. Bókin er merkilega vel fallin til þess að gerð verði eftir henni kvikmynd. Þá yrði heldur betur reynt á ímyndunarafl kvikmyndagerðarfólks og andleg þolrif áhorfenda.

Staðfesta í stað óheilinda og hringlandaháttar

Þingsályktunartillagan um umsóknarslit verður að teljast rökrétt framhald þeirrar staðreyndar að stjórnarflokkarinir eru báðir andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það var óráð af Samfylkingunni að neyða umsókninni upp á vinstri græna og enn verra að Vinstri grænir skyldu slá af kröfum og eitra um leið andrúmsloftið innan flokksins og samstarfið í ríkisstjórninni. Hjaðningarvíbin og illdeilurnar innan stjórnarinnar urðu til þess að vinstri stjórnin kom ekki ýmsum þjóðþrifamálum fram fyrir vikið.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, hafði orð á því í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld að sér fyndist þessi tillaga bera vott um ofbeldi því að þjóðin ætti að ráða. Meirihluti þjóðarinnar kaus þessa ríkisstjórn sem nú situr og þar við situr. Á meðan ekki fást reyndar aðrar aðferðir við að taka ákvarðanir, en tíðkast á Alþingi, er jafnan hætt við að meirihlutinn beiti minnihluta einhvers konar ofbeldi og það er þjóðarinnar að ákveða hverjir það verða hverju sinni.

Hvor um sig, Gunnar Bragi Sveinsson og Bjarni Benediktsson hafa verið sjálfum sér samkvæmir í Evrópusambandsmálinu og fátt getur komið í veg fyrir að þingsályktunartillagan verði samþykkt. Í áður nefndri útvarpsfrétt talaði Guðmundur Steingrímsson um að Íslendingar mættu ekki sýna hringlandahátt á alþjóðavettvangi með því að draga umsóknina til baka í stað þess að fresta henni. Því er spurt: Hvað telst hringlandaháttur?


mbl.is Á ekki að koma neinum á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistaraverk Áskels Mássonar

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn svissneska hljómsveitarstjórans Baldurs Brönnimanns í kvöld, 20. febrúar, voru ógleymanlegir, áhrifaríkir og skemmtilegir.

Þeir hófust með einu stórfenglegasta tónverki, sem íslenskt tónskáld hefur samið að undanförnu, Slagverkskonsert eftir Áskel Másson. Flutningurinn var fumlaus hjá hljómsveit og einleikaranum, Colin Currie. Konsertinn hófst með ástríðuþrunginni tónaflækju en síðan skiptust á skin og skúrir, gleði, íhugun, fyndni og tröllsháttur auk blíðlyndis og einurðar - allt þetta orkaði á hugann eins og fjölbreytt landslag. Fögnuður áheyrenda var enda mikill.

Eftir hlé var flutt tónverkið First Essay eftir Samuel Barber, samið árið 1938 og í beinu framhaldi án klapps Doctor Atomic Symphony eftir John Adams. Nokkuð fannst mér upphaf ritgerðar Samuels ástríðuþrungið en þessi stutta hugleiðing er áhrifamikil og leiðir hugann að ýmsu sem varð á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Verk Johns Adams er í raun svíta úr samnefndri óperu sem fjallar um sálarstríð þeirra sem stóðu að smíði fyrstu kjarnorkusprengjunnar. Dýpt þessa smáskammtaverks er svo mikil að það verður vart flutt við annað er bestu hljómburðaraðstæður. John Adams hefur samið nokkrar athyglisverðar óperur um atburði 20. aldar. Einna þekktust er óperan "Nixon í Kína", en Sinfóníuhljómsveitin hefur flutt stuttan þátt úr henni, "Formaðurinn dansar".

Hjalti Rögnvaldsson hafði eftir Halldóri Blöndal að hann hefði vart heyrt glæsilegra íslenskt verk að undanförnu. Þessi orð Halldórs og hrifning okkar hjónanna og Hjalta ásamt almennu lofi áheyrenda leiða hugann að þeirri staðreynd að fá íslensk tónskáld virðast eiga upp á pallborðið hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Í raun ætti hljómsveitin að flytja eitt verk eigi sjaldnar en á einna tónleika fresti. Nú má telja þau tónskáld á fingrum annarrar handar sem flutt eru eftir tónverk á vegum hljómsveitarinnar á hverjum vetri.

Undirritaður spurði Misti Þorkelsdóttur hvernig henni hefði þótt konsert Áskels Mássonar. Lauk hún miklu lofsorði á verkið og urðum við sammála um að konsertinn væri hinn áskelskasti og langt umfram það.

Öllum aðstandendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þá ekki síst Áskatli Mássyni sem hefur enn einu sinni sannað að hann er á meðal fremstu slagverkstónskálda heims.

Þeim sem hafa hug á að lesa nánar um tónleikana skal bent á síðu Sinfóníuhljómsveitarinnar

http://www.sinfonia.is/tonleikar/nr/2163


Er Morgunblaðið ómerkur fjölmiðill um aðra fjölmiðla?

Morgunblaðið er smátt og smátt að dæma sig úr leik sem marktækur fjölmiðill um aðra fjölmiðla. Hvert tækifæri er notað til þess að níða skóinn af fréttastofu Ríkisútvarpsins. Spyrji menn gagnrýnna spurninga, sem henta illa stjórnarflokkunum, er reiðilesturinn látinn dynja á Ríkisútvarpinnu. Um þetta er leiðari dagsins, Fréttastofustáss, glöggt dæmi. Þar ímyndar leiðarahöfundur sér að fréttastofa Ríkisútvarpsins telji sig hafa tapað síðustu kosningum og ætli ekki að tapa þeim næstu.

Það er vandlifað þegar ekki er hægt að berja á ríkisstjórninni eins og Morgunblaðið gerði undanfarin ár. Þá er borgarstjórnin í Reykjavík eftir, Ríkisútvarpið og einstaklingar í stjórnarandstöðu, einku þeir, sem sátu í síðustu ríkisstjórn. Skrif Morgunblaðsins ganga jafnvel svo langt að grunur leikur á að leiðarahöfundur sé annaðhvort haldinn "alvarlegum ranghugmyndum, geðklofa eða þráhyggju," eins og einn lesenda blaðsins komst að orði við höfund þessa pistils í dag.


Sæmd - heilsteypt listaverk

Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson hefur verið mér hugstæður síðan Lárus Pálsson las söguna af Heljarslóðarorrustu í útvarp árið 1965 eða 66 og af frásögnum föður míns úr Dægradvöl, sjálfsævisögu Benedikts. Um þessar mundir er Heljarslóðarorrusta í farsímanum og glugga ég ævinlega í hana þegar mig langar að skemmta mér.

Í haust las ég Dægradvöl, en Skólavefurinn hefur gefið hana út sem rafbók og síðan kom Sæmd Guðmundar Andra Thorssonar.

Í Dægradvöl gerir Benedikt upp líf sitt og horfist í augu við sjálfan sig, kosti sína og galla. Hann gerir m.a. stuttlega grein fyrir söguefni því sem Guðmundur Andri fjallar um í Sæmd. Benedikt virðist álíta sig hafa goldið föður síns, en Vilhjálmur Þ. Gíslason sagði okkur Þorvaldi Friðrikssyni eftir Steingrími Thorsteinssyni, að Sveinbjörn hefði ekki haft embættismannastéttina í Reykjavík með sér, þegar "pereatið" reið yfir. Því fór sem fór. Er það meðal annars rakið til samskipta tengdaföður hans við Jörund hundadagakonung. Um þetta fjallar Benedikt á sinn sérstæða hátt í Dægradvöl.

Guðmundur Andri hefur skapað ódauðlegt listaverk með Sæmd. Þótt ævinlega megi eitthvað að öllu finna er bókin í heild sinni forkunnar vel skrifuð, persónusköpunin heilsteypt og atburðarásin samfelld. Því er full ástæða til að óska Guðmundi Andra hjartanlega til hamingju með þær viðtökur sem bókin hefur fengið og þann heiður sem honum hefur verið sýndur.


Minnisstæðir tónleikar Philipps Glass og meðleikara

Það var allmerkileg reynsla að hlýða á Philipp Glasss ásamt meðleikurum sínum, þeim Maki Namekawa og Víkingi Heiðari Ólafssyni, flytja 20 etýður tónskáldsins.

 

Verkin eru dæmi um "smáskrefatónlist" sem átti blómaskeið sitt fram á 9. áratuginn. Þrátt fyrir hæga framvindu verkanna og hljómmálsins er eitthvað seiðandi við tónlistina og maður sogaðist einhvern veginn inn í hana. Í verkunum brá fyrir einföldum undirleik með svo flóknu ívafi að sumir hefðu getað haldið að stundum væri leikið þríhent eða fjórhent.

 

Það kom í ljós að aldurinn er farinn að segja til sín hjá tónskáldinu. Villur voru óvenju margar og einhvern veginn fannst mér honum mistakast á stundum að beisla hljómflæðið með notkun pedalanna. En meðleikarar hans bættu það svo sannarlega upp. Þau fóru bæði á kostum og túlkuðu bæði með sannfærandi hætti tilfinningar þær sem leyndust í verkunum.

 

Þegar upp er staðið verður ályktunin sú að etýðurnar séu alls ekki einhæf verk heldur listrænn tónvefur, þar sem efniviðurinn er margslunginn og vandlega spunninn. Úr þessum efnivið einfaldleikans verða til óbrotgjörn listaverk.

 

 


Hverjir lifa í myrkri?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.

Um daginn fylgdi ég einum af mínum bestu vinum til grafar, en órofavinátta okkar stóð rúma hálfa öld. Þessi góðvinur minn var blindur frá því að hann var 10 ára gamall, en um leið og hann missti sjónina missti hann einnig hægri höndina. Presturinn flutti notaleg minningarorð. Þó varð honum á í messunni.

Hann vitnaði í orð Krists um að menn skyldu njóta ljóssins á meðan það væri á meðal þeirra. Út frá þessum orðum Jóhannesar guðspjallamanns talaði hann um það myrkur sem hinn látni hefði orðið að sætta sig við og ljósið sem hann var sviptur, þótt hann hefði jafnan horft björtum augum til framtíðarinnar.

Þessi vinur minn lifði ekki í neinu myrkri fremur en flestir þeir sem hafa verið án sjónar árum saman. Þeir, sem eru fæddir blindir, vita þar að auki ekki hvað myrkur er. Prestum gengur yfirleitt gott eitt til þegar þeir flytja líkræður og þær eru einkum ætlaðar til að lina sársauka og sorg eftirlifenda. Þess vegna er það í hróplegu ósamræmi að gera líkingar Biblíunnar að beinhörðum staðreyndum sem ekki standast nánari skoðun.

Hugsið ykkur þann sem lifir í eilífu myrkri. Sá sem á enga von um að myrkrinu linni lítur vart glaðan dag og myrkrið leggst af ofurþunga á sálina. Sá sem sér ekki lifir í tómi. En þetta tóm fylla ýmis hughrif. Hinn blindi lærir að beita öðrum skilningarvitum svo sem heyrn og veit því einatt ýmislegt um sitt nánasta umhverfi, sem sjáandi fólk fer á mis við, því að það nýtir ekki heyrnina sem skyldi. Sá, sem eitt sinn hefur séð, man liti og lögun hluta, tunglskin, sólarupprás og sólsetur, já, litbrigði himinsins í öllu sínu veldi, flug fugla og lögun þeirra. Allt þetta mundi vinur minn og lýsti eitt sinn fyrir mér flugi hrossagauksins þegar hann lætur þjóta í fjöðrunum. Þess vegna minnast margir, sem hafa lengi verið blindir, daganna í samræmi við veðrið eins og það var hverju sinni. Ef til vill fundu menn ylinn frá sólargeisla gegnum stofuglugga snemma í febrúar og áttuðu sig á því í minningunni, að þá var úti fagurt vetrarveður og sól farin að hækka á lofti.

Höfundur þessa pistils væntir þess að hinn ágæti prestur, sem jarðsöng vin minn hugsi sig tvisvar um áður en hann umlykur blint fólk myrkri sem það brýst út úr með vongleði sinni. Blint fólk lifir ekki í myrkri og allt tal um sérstaka innri sjón blindra er hjóm eitt. Hver sá, sem er sjáandi eða blindur, fer mikils á mis, hafi hann ekki innri sjón, sem gefur honum sýn á umhverfi sitt og málefni líðandi stundar.

Höfundur fæddist sjóndapur og var létt, þegar honum hvarf sín stöðugt þverrandi sjón.


Aðgengileg blöð og tímarit í snjallsímum og spjaldtölvum

Morgunblaðið er aðgengilegt á vefvarpi Blindrafélagsins eitt íslenskra dagblaða, enda hefur Mogginn verði í forystu íslenskra fjölmiðla í aðgengismálum.
Einatt hefur komið til umræðu að önnur blöð væru aðgengileg. Fyrir nokkrum mánuðum var aðgengi smáforrita fyrir Fréttablaðið og Morgunblaðið athugað og reyndust blöðin ekki aðgengileg til lestrar með talgervli.
Í gær tók ég til í farsímanum og ákvað þá að skoða eintak Morgunblaðsins, sem var á símanum frá því í sumar. Þá kom í ljós að blaðið var vel læsileg í Adobe reader og það sem meira var, að fyrirsagnir voru ágætlega skilgreindar. Að óathuguðu máli ættu því Fréttablaðið, Morgunblaðið, Kjarninn, Fréttatímin og e.t.v. fleir blöð og tímarit að vera aðgengileg á Android-símum og spjaldtölvum. Gallinn er hins vegar sá að smáforritin, sem notuð eru til lestrar, gera ekki ráð fyrir slíku. Hugsanlega er hægt að fara í kringum þetta með því að nota forrit eins og Moonreader, en það ersérstaklega hannað forrit sem gerir blindu fólki kleift að lesa pdf-skjöl. Þetta verður eitt af næstu málum, sem aðkallandi er að kanna.


Staksteinar Moggans, Evrópusambandið og Kína

Ritstjórar Morgunblaðsins hafa verið haldnir eins konar ofsóknaræði á hendur Ríkisútvarpsins. Birtist það í ýmsum myndum, einkum þegar spurt er ákaft um málefni sem þeim eru ekki þóknanleg.

Þó hitta þeir stundum naglann á höfuðið eins og Staksteinapistillinn í dag vottar.

"Helgi Seljan fékk Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra til sín í Kastljós Ríkisútvarpsins og hóf viðtalið með þessum orðum: „Byrjum bara aðeins á Evrópusambandinu.“ Svo gekk auðvitað allt viðtalið út á Evrópusambandið enda eitt helsta áhugamál Samfylkingarinnar og Ríkisútvarpsins. Þar með gafst ekki færi á að ræða önnur utanríkismál þó að af mörgu sé að taka.

Gunnar Bragi var augljóslega fenginn í viðtalið til að reyna að sanna að núverandi stjórnarflokkar væru margsaga í aðildarumsóknarmálinu og sérstaklega að þeir væru að svíkja landsmenn um þjóðaratkvæðagreiðsluviðræðurnar.

Utanríkisráðherra svaraði þessu margoft og útskýrði að Helgi væri á villigötum en allt kom fyrir ekki, spyrillinn spurði sömu spurninganna aftur og aftur og aftur svo ekkert annað komst að.

Af mörgum vitlausum spurningum var þó sennilega slegið met í lok þáttarins þegar Gunnar Bragi var spurður að því hvort ekki væri „svolítið sérstakt“ að gera fríverslunarsamning við Kína þegar lýðræðishalli væri í ESB.

Fyrir utan að spurningin var sérkennilega borin fram væri ekki úr vegi að spyrlar Ríkisútvarpsins, þó að þeir séu ákafir stuðningsmenn aðildar að ESB, átti sig á því að með fríverslunarsamningi við Kína væri Ísland ekki að gerast aðili að Kína. Og til viðbótar að Ísland er nú þegar með samning við ESB."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband