Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Í morgun var vakin athygli mín á færslu Egils Helgasonar á Silfri Egils, þar sem hann fjallar um viðræður Íslendinga og Kínverja um gerð fríverslunarsamnings og sitthvað fleira. Þar sem nokkrar rangfærslur er um að ræða í pistli Egils var honum sendur pistillinn, sem hér fer á eftir.
--
Heill og sæll, Egill.
Eins og þú ert ágætur upplýsingamaður, þykir mér með eindæmum hvernig þú fjallar um samskipti Kínverja og Íslendinga, í þessu tilviki samning um fríverslun og viðskipti milli ríkjanna. Ég hafði hugsað mér að rita athugasemd við pistil þinn, en skjálesarinn hjá mér leyfir það ekki. Vona ég að þú birtir það sem hér fer á eftir:
Afstaða Kínverja til Íslendinga
Kínverjar hafa að mörgu leyti verið Íslendingum jákvæðir á erlendum vettvangi. Stafar það m.a. af því að Ísland hefur staðið utan Evrópusambandsins og hafa kínversk stjórnvöld því haft hug á að efla samskiptin. Minnt skal á að Kínverjar studdu útfærslu landhelginnar í 50 og 200 mílur og heimildir benda til að einn af samningamönnum Kínverja á hafréttarráðstefnunni í Genf árið 1958, Chen Tung, sem síðar varð sendiherra hér á landi, hafi átt nokkur samskipti og samstarf við sendinefnd Íslendinga.
Þegar Vestmannaeyjagosið varð árið 1973 urðu Kínverjar fyrsta þjóðin utan Norðurlanda til að rétta Íslendingum hjálparhönd. Þá má minna á afstöðu Kínverja innan alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þegar Hollendingar og Bretar hugðust kreista Íslendinga eins og mús lí lófa sér.
Fríverslunarsamningarnir og Huang Nubo
En komum nú að fríverslunarsamningunum:
Samningaumræðum varð sjálfhætt þegar ríkisstjórnin, sem Samfylkingin leiðir, hóf umsóknarferlið að Evrópusambandinu. Ástæðan er einföld: þegar ríki gengur í Evrópusambandið fer slíkt samningsferli úr höndum aðildarríkjanna. Samningar sem einstök ríki hafa náð í milliríkjaviðskiptum, verða sjálfkrrafa teknir upp af Evrópusambandinu. Á þetta töldu Kínverjar ekki hættandi enda hafa þeir haldið því fram að þeir séu tilbúnir að veita Íslendingum ýmsar ívilnanir í viðskiptum umfram Evrópusambandið.
Vegna þess, sem þú segir um viðskipti Huang Nubo, verður því hiklaust haldið fram á þessum vettvangi, að hann hafi verið hafður að ginningarfífli. Ég átti erindi til Beijing og fleiri borga í Kína í haust og þar bar þetta mál iðulega á góma. Þegar við Íslendingarnir greindum kínverskum viðmælendum frá því að 300 ferkílómetrar lands á Íslandi væri álíka mikið hlutfalll af Íslandi og 27.000 ferkílómetrar af kínversku landi, sem samsvarar hainan-eyju, fór um áheyrendur. Við vöktum athygli á að mun heilladrýgra hefði verið að sækjast eftir leigu á landi en kaupum á svo stórri landspildu. Hver einasti viðmælandi okkar tók undir þessa skoðun og sumir, sem hafa mikla reynslu í samskiptum við erlendar þjóðir, undruðust að ekki skyldi hafa verið lögð áhersla á slíkt.
Bág réttindi farandverkafólks
Það er rétt hjá þér að aðbúnaður verkafólks í kínverskum verksmiðjum er víða slæmur og þetta vita kínversk stjórnvöld. Ýmislegt hefur verið gert til þess að ráða bót á þessu ófremdarástandi, sem ríkir sums staðar, en ekki alls staðar. Líkja Kínverjar sjálfir þessu við það, sem tíðkaðist í upphafi iðnbyltingarinnar í Evrópu og reyndar fram undir aldamótin 1900. Þá er einnig vitnað til Bandaríkja Norður-Ameríku, en þar var aðbúnaður verkafólks víða ekki upp á marga fiska á fyrri hluta síðustu aldar. Þá virðist því miður sem mannlegt eðli sé svipað hvar sem borið er niður. Í skjóli einkaframtaks þrífst ýmislegt misjafnt, eins og hefur komið fram í kínverskum verksmiðjum. Jafnvel á Íslandi höfum við orðið vitni að andstyggilegu þrælahaldi erlends verkafólks. Kjarasamningar eru ekki virtir og fólkið býr jafnvel við svo frumstæðar aðstæður að enginn Íslendingur léti bjóða sér slíkt. En þær virtust nógu góðar handa Pólverjum, a.m.k. á meðan góðærið á Íslandi var sem mest. Slíkt dæmi höfðum við fyrir augunum veturinn 2007-2008.
Samsæriskenningar og svartagallsraus af því tagi, sem þú hefur stundum látið þig hafa, sæmir ekki jafnágætum fjölmiðlamanni og þér. Við þurfum ekki á hleypidómum að halda, heldur upplýstri umræðu og sannleikanum í hverju máli.
Vegni þér vel.
Arnþór Helgason
---
Arnþór Helgason, vináttusendiherra,
Tjarnarbóli 14,
170 Seltjarnarnesi.
Sími: 5611703
Farsími: 8973766
Netföng: arnthor.helgason@simnet.is
http://arnthorhelgason.blog.is/
Stjórnmál og samfélag | 18.4.2012 | 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þótt ekki sé um það deilt að læknim beri að halda trúnað við sjúklinga sína og viðskiptavini, er undarlegt að steinn sé lagður í götu landlæknisembættisins, sem hindrar jafnvel að upplýst verði hið sanna um gallaða brjostapúða hér á landi og hlut eða ábyrgð einstakra lækna. Viðmælandi minn velti því fyrir sér, hvenær iðnaðarmönnum verði bannað að gefa upp hvað gert hafi verið á heimilum landsmanna svo að ekki verði unnt að rekja hugsanleg mistök til þeirra.
Ástæða er til að kanna, hvaða hvatir liggja að baki hjá Persónuvernd. Hvort er hér á ferðinni umhyggja fyrir sjúklingum eða læknum? Eða er hér um tengsl að ræða, sem flokkast undir sérhagsmunagæslu, sem um þessar mundir ber mest á hjá Alþingi?
Stjórnmál og samfélag | 31.3.2012 | 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Atburðirnir kringum stjórnarskrárbreytingar eru stjórn og stjórnarandstöðu til háborinnar skammar. Þar er enginn öðrum skárri. Stjórnarandstaðan (aðallega Sjálfstæðisflokkurinn) hamast gegn breytingum og stjórnarmeirihlutinn leggur í dóm þjóðarinnar lítt grundaðar tillögur.
Klækjabrögðum hefur svo sem verið beitt fyrr á Alþingi vegna mála, sem skiptu hvorki íslenskt efnahagslíf, hagsmuni almennings né menningu og orðstír þjóðarinnar neinu máli.
Árið 1974 talaði Sverrir Hermannsson klukkutímum saman á Alþingi til þess að reyna að hindra að bókstafurinn z yrði felldur úr íslenskri stafsetningu.
Árið 2000 í upphafi árs neitaði stjórnarandstaðan að fallast á afbrigði til þess að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar gæti ekki þjösnað hefndarlögum gegn Öryrkjabandalagi Íslands gegnum þingið með forgangshraði.
Nokkrum árum síðar gekk stjórnarandstaðan af göflunum vegna fjölmiðlalaganna og forsetinn synjaði þeim staðfestingar.
Vorið 2007 þvældist Sjálfstæðisflokkurinn fyrir, þegar reynt var að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar og gera kvótann að viðurkenndri sameign þjóðarinnar. Var það að vonum, bæði vegna andstöðu við breytingar á sviði sjávarútvegs og hins, að tillögur formanns Framsóknarflokksins mátti auðveldlega hártoga og misskilja, eins og rakið var á þessum síðum.
Og enn beitir stjórnarandstaðan, aðallega Sjálfstæðisflokkurinn, bolabrögðum, málþófi og vífilengjum til þess að koma í veg fyrir að tillögur ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga.
Stjórnarmeirihlutinn ber því fyrir sig að ekki hafi tekist að fjalla nægilega vel um tillögur Stjórnlagaráðs, þar sem of mikill tími hafi farið í að fjalla um tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins um að aflýsa málinu gegn Geir Haarde. Málflutningur stjórnarliða var oft með eindæmum í rökfimleikum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og greinilegt að sumir, sem hæst töluðu og mest, höfðu aldrei kynnt sér, hvort hægt sé að afturkalla málshöfðun. Þótt málatilbúnaður Sjálfstæðisflokksins hefði ekki komið til, var umfjöllun Alþingis öll í skötulíki um stjórnarskrárdrög Stjórnlagaráðs. Án þess að farið verði nánar í saumana á skjalinu, verður því þó hiklaust haldið fram hér á þessum vettvangi, að það sé vart boðlegt sem stjórnarskrá landsins. Þótt ýmislegt sé þar til bóta er annað þannig orða að til vansa er og greinilegt að tíminn hefur verið of skammur. Þingið á því talsvert verk fyrir höndum, áður en hægt verði að leggja drögin fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.
Niðurstaða þessa pistils er sú, að Alþingi hafi í raun verið of upptekið af málþófi, fánýtu gaspri um einskis verða hluti og hjaðningarvígum, sem hafa leitt til þess að við erum enn í megnum ógöngum, sem sér vart fram úr. Ýmis þjóðþrifamál lenda í undandrætti vegna þess að sérhagsmunagæðinga hafa svo sterk ítök innan stjórnmálaflokkanna, að öllum brögðum er beitt til þess að koma í veg fyrir breytingar, sem hnekkja stöðu ´þeirra. Á Alþingi ríkir samræða hefnda en ekki lausnamiðuð nálgun verkefna.
Alþingismenn þurfa nú að taka höndum saman og fara rækilega yfir þá samræðuhefð, sem ríkir innan þingsins. Ef fyrirtækjum eða félagasamtökum væri stjórnað með málatilbúnaði eins og þeim, sem ríkir innan þingsins, þokaði litlu áfram.
Er nema von, að vegur þingsins sé lítill á meðal þjóðarinnar. Ætli sami söngurinn hefjist ekki eftir páska, þegar kvótafrumvarpið verður rætt, engar haldbærar tillögur, heldur upphrópanir og hagsmunagæsla? Er ekki mál að linni?
Stjórnmál og samfélag | 30.3.2012 | 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun féll einn vafasami dómurinn enn. Þrátt fyrir að sekt teldist sönnuð, skyldu menn ekki sæta ábyrgð og greiða sektir, þar sem málatilbúnaður hefði verið í ólestri.
Leikmaður lætur sér detta í hug, að stundum sé hugað fremur að því að sá seki sleppi undan ábyrgð en þvík, að þolendur njóti sannmælis.
![]() |
Á þetta er ekki unnt að fallast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 22.3.2012 | 15:40 | Slóð | Facebook
Nú á að greiða atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs um leið og kjörinn verður forseti. Þegar kjörið var til stjórnlagaþings haustið 2010 var þess ekki gætt að haga kosningunni þannig, að blint og sjonskert fólk gæti kosið í einrúmi. Hvernig verður staðið að næstu kosningum?
![]() |
Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 20.3.2012 | 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hitt olli vonbrigðum, að forsetinn lét í það skína, að leystust ýmis mál sem snerta forsetaembættið og fullveldi landsins, hefði hann leyfi til þess að hætta í starfi og gefa öðrum kost á að spreyta sig. Væntanlega hlyti það að gerast eftir að nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar hefðu verið samþykktar.
Nú er svo komið að Alþingi verður að taka af skarið og breyta 5. grein stjórnarskrárinnar, svo að ljóst megi verða hvernig staðið verði að kosningu til embættis forseta Íslands. Þá er miður að núverandi forseti telji sér frjálst að ákveða hvaða mál henti til þess að hlutverki hans sé lokið. Málin flækjast því en og óvissan eykst.
![]() |
Margvísleg óvissa er ástæðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 4.3.2012 | 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
![]() |
Ráðherra úrskurði um rétt hans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 28.2.2012 | 16:51 | Slóð | Facebook
Pétur blöndal birtir athyglisverðan pistil í Morgunblaðinu í dag. Mætti hann verða þeim til umhugsunar, sem tjá sig í opinberri umræðu, hvort sem um er að ræða athugasemdir við bloggskrif eða greinarhöfunda sjálfa.
Ofbeldi í rökræðu
Pistill
Með fésbók, bloggi og tísti hefur skapast vettvangur fyrir þjóðina að skiptast á skoðunum um menn og málefni. Sumum er meinilla við þessa þróun og finna henni allt til foráttu. En þrátt fyrir að úrtölur séu mjög í tísku um þessar mundir, þá er óhætt að segja að þetta sé af hinu góða - í raun hið besta mál.
Lýðræðið byggist á því að fólk takist á um hugmyndir með rökum og að á þeim grunni séu teknar upplýstar ákvarðanir. Og til þess að umræðan sé upplýst þarf almenningur að taka þátt og tefla fram ólíkum rökum og sjónarmiðum. Margt bendir til að samskiptavefir séu hvetjandi í þeim efnum. En ef umræðan á að vera skilvirk, fara vel fram og þjóna lýðræðislegum tilgangi, þá er nauðsynlegt að fólk virði ákveðnar leikreglur.
Það hefur löngum verið eitt af sviðum rökfræðinnar að skilgreina rökvillur og átta sig á birtingarmynd þeirra í þjóðfélagsumræðunni. Ég var svo lánsamur að fræðast um þau vísindi í heimspekitímum hjá Erlendi Jónssyni, prófessor við Háskóla Íslands, sem lagði meðal annars til grundvallar Spekirök Aristótelesar samhliða því að tína til dæmi úr íslenskum veruleika. Ein rökvillan sem gengur ljósum logum um netheima erpersónurök". Nú virðist alsiða í rökræðum að ráðast að persónu fólks í stað þess að hlusta á rökin sem það teflir fram. Ástæða er til að hafa áhyggjur af þessari tilhneigingu, því slíkt
ofbeldi verkar letjandi á þorra almennings og margir kjósa fyrir vikið að halda sig til hlés.
Vissulega getur verið ástæða til að vega og meta hvaða forsendur fólk hefur til að blanda sér í orðræðuna, hvort það hefur hagsmuna að gæta eða býr yfir nægilegri þekkingu. En, og það er mikilvægt en", röksemdirnar sem það færir fram geta verið fullgildar fyrir því og verðskuldað málefnalegt svar. Ef fólk er útilokað skapast hinsvegar hætta á að umræðan verði óþroskuð, takmörkuð og fordómafull.
Eitt einkenni á þessari brenglun rökræðunnar er hversu oft eru hengd á fólk viðurnefni í því skyni að draga úr trúverðugleikanum. Fólk er líka dregið í dilka eftir stjórnmálaskoðunum, uppruna, fjölskyldu eða kynferði.
Merkilegt nokk, þá er ekki útilokað að sægreifar, kommúnistar, kapítalistar, femínistar, miðaldra karlar, stjórnmálamenn, öfgatrúaðir, öfgavantrúaðir, karlrembur, lattelepjandi listamenn eða útrásarvíkingar geti haft nokkuð til síns máls.
Okkur miðar ekkert áfram með því að dæma fólk úr leik eða grípa til hatursfullrar orðræðu. Þar kastar margur steinum úr glerhúsi. Það hefur til að mynda löngum verið þjóðarsport að býsnast yfir því að umræðan sé óvægin og ómálefnaleg á Alþingi. Það skyldi þó ekki vera að umræðan sé síst skárri á samskiptavefjum? pebl@mbl.is
Pétur Blöndal
Stjórnmál og samfélag | 27.2.2012 | 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Algengt er að sálfræðingar og aðrir, sem fjalla um tiltekna þjóðfélagshópa, viðri skoðanir sínar opinberlega. Þá byggja þeir yfirleitt á skoðunum, sem þeir hafa myndað sér vegna athugana sinna og annarra á nokkrum fjölda fólks. Sumir binda sig við Kóraninn eða Biblíuna og telja þessar bækur boða óvéfengjanlegan sannleika. Þeim er það heimilt, því að hér á landi er trúfrelsi samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins.
Iðulega eru sálfræðingar ekki sammála um ýmis atriði, þegar þeir geysast fram á ritvöllinn, og stundum þykir ýmsum einstaklingum úr tilteknum hópum svo að sér vegið, þótt þeir séu ekki nefndir á nafn, að þeir búast til varnar sér og öðrum.
Snorri Óskarsson tók vissulega áhættu með skrifum sínum um samkynhneigð. Hefur hann uppskorið andúð margra, en ýmsir hafa orðið til þess að benda á að hann hafi ekki farið út fyrir mörk hins meinta tjáningarfrelsis. Þótt Morgunblaðið hafi ákveðið að meina honum að tengja skrif sín við fréttir blaðsins, meinar honum þó enginn að halda áfram að skrifa á blogg sitt.
Dómur í máli eins og því, sem sálfræðingurinn hyggst höfða, gæti orðið svipuð moðsuða og sumir dómar Hæstaréttar, sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins fjallar um í dag. Hugsi menn nú sinn gang, áður en anað er fram af kappi fremur en forsjá.
![]() |
Kærir Snorra til lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 23.2.2012 | 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þeir, sem hafa lesið Egils sögu Skalla-Grímssonar, muna eftir Þórólfi Kveld-Úlfssyni og vinfengi hans við Harald hárfagra. Bræður tveir, Hildiríðarsynir, öfunduðust mjög yfir velgengni Þórólfs í konungsranni og sáu ofsjónum yfir velsæld hans á jörð þeirri, sem hann hafði þegið af Haraldi. Þórólfur hafði gerst skattheimtumaður Haralds og fór flatt á því, þar sem Haraldur lagði huglægt mat á upplýsingar, sem hann fékk, án þess að kanna sannleiksgildi þeirra.
Þegar rógur Hildiríðarsona er borinn saman við forsendur þær, sem skýrsluhöfundar um hæfi Gunnars, nýta til þess að bera brigður á hæfi hans sem stjórnanda, Fjármálaeftirlitsins, er margt líkt. Þeir lofa manninn og lasta. Það er því vafasamt af stjórn Fjármálaeftirlitsins að bregðast svo hart við skýrslunni. Huglægt mat hlýtur að orka tvímælis, einkum þegar slegið er úr og í, eins og gert er í lokakafla hæfisskýrslunnar.
Huglægt mat höfundar þessa pistils er eftirfarandi:
Stjórn Fjármálaeftirlitsins hlýtur að segja af sér, haldi Gunnar áfram störfum, þar sem hún lét ginnast af huglægu mati, þótt meginniðurstaðan sé sú að um mikilhæfan forstjóra sé að ræða.
Stjórninni er heldur ekki sætt, verði Gunnari vikið frá, þar sem stjórnarmenn hafa þá orðið uppvísir að ráða óhæfan forstjóra og látið undir höfuð leggjast að kanna feril hans til þrautar.
Stjórn Fjármálaeftirlitsins harmar á heimasíðu þess að þurfa að birta skýrslu um hæfi Gunnars og segist ekki hafa óskað eftir því að málið kæmist í hámæli (fyrr en eftir að Gunnar hafi verið rekinn (ályktun höfundar)). Þetta eru gamalkunnar yfirlýsingar þeirra, sem hafa slæma samvisku og vilja ekki að menn geti varist.
Það er eins og flest verði Íslands óhamingju að vopni og fátt virðast menn hafa lært af undanförnum atburðum.
![]() |
Óska eftir lengri fresti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 20.2.2012 | 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar