Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Við vorum sammála um að Örfirisey hefði heitið Effersey í munni manna þegar við komum til Reykjavíkur. Örfirisey væri síðari tíma málfyrning. Ekki hef ég kannað hversu gamalt örnefnið Örfirisey er í heimildum, en ég sé við skjóta athugun að nafnið Effersey var þegar þekkt árið 1700 og jafnvel fyrr.
Mannsnafnið Effer er til og ættarnafnið Effersen einnig. Hvað segja sagnfræðingar? Hefur einhver kaupmaður verið í Hólminum sem heitið hefur Effer eða verið Effersen? Er þar komin skýring nafnsins Effersey? Sé svo, ber þá ekki að taka það upp á ný? Það væri verðugt verkefni handa núverandi borgarstjórnarmeirihluta að fá skorið úr um þetta alvarlega mál.
Stjórnmál og samfélag | 22.9.2010 | 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var í sjálfu sér stórmerkur áfangi að rannsóknarnefnd Alþingi skyldi ná einróma niðurstöðu um skýrsluna sjálfa og að 7 af 9 þingmönnum í nefndinni mynduðu meirihluta um að leggja fram ákæru á hendur fjórum ráðherrum. Meiri gat samstaðan vart orðið og því hæpin sú fullyrðing Skúla Helgasonar að skipun nefndarinnar væri eins og hver önnur mistök. Þetta segir Skúli eftir að forsætisráðherra hefur talað.
Lögin um Landsdóm voru síðast endurskoðuð fyrir fáeinum árum og þá þótti Alþingi ekkert að lögunum. Þegar fjármálakerfi Íslendinga brast árið 2008 kom undir eins upp umræðan um Landsdóm og þá þótti það engum óeðlilegt. Hið sama var upp á teningnum þegar tillagan um skipun nefndarinnar var samþykkt. Nú hleypur hins vegar hver um annan þveran fram og finnur dómnum allt til foráttu. Jafnvel skynsamasta fólk birtir yfirlýsingar um brot á mannréttindum, andmælarétt, gamaldags dómsstig o.s.frv og nú síðast forsætisráðherra sem virðist ekki hafa kynnt sér lögin til hlítar.
Það gerist reyndar of oft á Alþingi að þingmenn tjái sig um lög án þess aðhafa kynnt sér efni þeirra og væri auðvelt að telja upp dæmi þar um. En hvað sem öðru líður ríður nú á að Alþingi Íslendinga sýni þjóðinni þá virðingu að þingmenn hætti þessum hráskinnaleik og gleymi ræðu forsætisráðherrans. Þótt Árni Sigurðsson segi að hann hafi ekki litið svo á að málið sé stjórnarmál hlýtur þingflokkur VG að íhuga alvarlega stöðu sína fari svo að þingið felli tillögu meirihluta nefndarinnar.
Jóhanna Sigurðardóttir er margreyndur stjórnmálamaður og kann að leika sér með tilfinningar manna. Ýmsir héldu að hún yrði fær um að koma sér upp úr því fari sem íslenskir þingmenn hafa iðulega farið í og hjakkað í áratugum saman. Það virðist því miður hafa verið byggt á misskilningi. Ræðan í gær bar því vitni.
Alþingi hlýtur að taka nú til alvarlegrar athugunar að breyta þeim aðferðum sem notaðar eru við atkvæðagreiðslur á þinginu. Oft er þörf en nú er nauðsyn.
Stjórnmál og samfélag | 21.9.2010 | 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Urgur er nú orðinn talsverður á meðal ýmissa Samfylkingarmanna vegna samstarfsins við Besta flokkinn. Haldnir hafa verið fundir þar sem lagt hefur verið á ráðin um hvernig megi hnekkja þessu samstarfi og vitað er að Sjálfstæðismenn eru heldur ekki aðgerðalausir. Er jafnvel talið að þess sé skammt að bíða að Besti flokkurinn lendi í minnihluta í borgarstjórn. Leggur borgarstjórinn drjúgum lóð sín á vogarskálarnar með tiltækjum sínum.
Þeir borgarfulltrúar sem hvíslað hafa um málefni borgarinnar að undanförnu ræða opinskátt um kjánaskapp borgarstjórans sem ríði vart við einteyming. Enginn heldur því fram að maðurinn sé ekki hinn vænsti maður, en hann er talinn skorta flest til forystu. Haft er í flimtingum að borgarstjórinn hafi sagt fátt eða ekkert þegar rætt var um fjárhagsáætlun Reykjavíkur, en að loknum einum fundinum sagðist hann vera að velta fyrir sér breytingum á kaffistofu Ráðhússins. Er það vel að einhver taki eftir smáatriðunum enda er heildin afrakstur smæðarinnar.
Flestir heimildarmenn bloggsins eru á einu máli um að pólitískri framtíð Dags B Eggertssonar sé stefnt í voða með aðgerðarleysi hans og óbeinni þátttöku í margvíslegum uppátækjum borgarfulltrúa Besta flokksins sem mælast misjafnlega fyrir. Þá þykir það lýsandi fyrir raunverulegan áhuga borgarfulltrúanna (úr hvaða flokki sem þeir eru) að fáir eða engir þeirra létu sjá sig á fundi um fátækt sem haldinn var í Ráðhúsinu fyrir hálfum mánuði.
Launahækkun fjögurra varaborgarfulltrúa er lýsandi dæmi um þann pólitíska hráskinnaleik sem ástundaður er í skjóli meirihlutavaldsins. Ísland hefur ekkert breyst. Nýja Ísland hefur enn ekki litið dagsins ljós enda er Dagur í felum að sögn sumra samflokksmanna hans.
Stjórnmál og samfélag | 20.9.2010 | 21:52 (breytt kl. 22:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég hef aldrei skilið þá meinbægni hönnuða spjallsíðna að krefjast þess að menn staðfesti athugasemdir sínar eða hvað eina með því að skrá tiltekna stafi sem birtast á skjánum. Morgunblaðið biður menn að leggja saman tvær tölur. Þess vegna valdi ég Moggabloggið og vegna þess að ég treysti þá blaðinu eða réttar sagt mbl.is sem menningarstofnun sem það er að vísu enn þótt blaðið hafi villst nokkuð af pólitískri leið sinni. Þá ber þess að geta að Morgunblaðið hreppti aðgengisverðlaun Öryrkjabandalagsins fyrir nokkrum árum enda varð það fyrst allra íslenskra fjölmiðla til þess að veita blindu og sjónskertu fólki aðgang að efni sínu. Ekki veit ég til að aðrir fjölmiðlar hafi gengið jafnötullega fram í þeim efnum og Morgunblaðið.
Skjálesarar lesa ekki tölur sem birtast sem myndir á skjá. Engum hefur tekist að skýra fyrir mér hvaða öryggi þessi heimskulega ráðstöfun þjónar, en ýmsir íslenskir vefir hafa apað þetta eftir hönnuðum síðna eins og Google. Google gefur mönnum hins vegar kost á að hlusta á upplesnar tölur sem birtast á skjánum. Upplesturinn er hins vegar svo ógreinilegur að menn þurfa að hafa sig alla við til þess að skilja það sem lesið er enda er muldur og skvaldur á bak við tölurnar.
Stjórnmál og samfélag | 19.9.2010 | 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mikið var um dýrðir á upphafstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í gær, 10. september. Uppselt var á tónleikana, enda Víkingur Heiðar Ólafsson einleikari, en einn tónleikagesta orðaði það svo að hann væri svo sannarlega óskabarn þjóðarinnar. Stjórnandi var Ivan Volkov. Hann hlaut Gramophone-verðlaunin árin 2008 og 2009 og fékk frábærar viðtökur á Proms-tónlistarhátíðinni 2009, enda má með sanni segja að hann sé á
hátindi ferils síns um þessar mundir. Hlustendum BBC World Servic og Ríkisútvarpsins gafst tækifæri til að hlýða á útsendingar þar sem Volkov hélt á sprotanum og í gær var hann í Háskólabíói og Ríkisútvarpinu.
Víkingur Heiðar var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2009 fyrir listsköpun sína og hefur á undanförnum árum komið fram með nokkrum fremstu tónlistarmönnum heims, meðal annars Martin Fröst og flautuleikaranum Denis Bouriakov, en þeir munu halda tónleika í Carnegie Hall í desember næstkomandi, eins og lesa má um í efnisskrá tónleikanna.
Á dagskrá voru verk eftir ungverska tónskáldið György Ligeti, Franz Liszt, Sergei Rakmaninoff og Ígor Stravinskíj.
Fyrstu tvö verkin voru fremur hefðbundin, en þó verður að hafa orð á nútímalegri tónsköpun Lizts sem kemur ævinlega á óvart.
Samleikur hljómsveitarinnar og Víkings Heiðars var með fádæmum góður. Stjórn Volkovs var þannig að Víkingur virtist hafa í fullu tré við hljómsveitina og ég hef áður vart heyrt betri samhljóm milli flygils og hljómsveitar hér á landi. Jafnvel bryddaði á því að leikur hljómsveitarinnar væri of daufur. Það er hrífandi að fylgjast með því hvað Víkingur Heiðar leikur að því er virðist áreynslulaust og er stundum sem þrjár eða jafnvel fjórar hendur séu á lofti í senn, eins og ég orðaði umsögn mína um Ástríði Öldu sigurðardóttur.
Þegar píanóveislunni lauk lék Víkingur Heiðar útsetningu sína á lagi Páls Ísólfssonar Í dag skein sól. Þetta var eiginlega hálfgerður sorgarmars hjá Víkingi og ég get vel ímyndað mér að einhverjir vildu láta leika þessa útsetningu sem útgöngulag í jarðarförinni sinni. Það er þó vart á allra færi. Víkingur Heiðar útsetur íslensk sönglög þannig að miklu þarf að kosta til að leika þau. Það spillti dálítið fyrir að sá G-tónn á efra tónsviði flygilsins, sem mest er notaður í laginu, hljómaði örlítið falskur. Hugsanlega er eitthvað farið að gefa sig eða Víkingur er of mikil hamhleypa þessum flygli. Hætti ég mér ekki nánar út í þá sálma en vænti þess að einhver píanóleikari eða stillingarmeistari útskýri þetta.
Tónleikunum lauk svo með Eldfuglinum eftir Igor Stravinskíj. Verkið er afar áhrifamikið en sveiflukennt eins og margt sem Stravinskíj samdi. Flutningur hljómsveitarinnar var óaðfinnanlegur og kraftmikill.
Þetta voru einstæðir og spennandi tónleikar, svo æsandi á köflum að tónleikagestur nokkur hafði orð á að hann væri þvalur af svita eftir átökin við að hlusta. Urðum við sammála um að nautnin sem fylgdi slíkum tónleikum væri slík að talsverða orku þyrfti til að njóta þeirra. Væri sennilega hverjum manni hollt að sækja slíka tónleika engu síður en að stunda gönguferðir, leikfimi og hljólreiðar.
Stjórnmál og samfélag | 11.9.2010 | 10:06 (breytt kl. 11:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hegðan nokkurra stjórnmálamanna Færeyinga og fordómar, byggðir á vanþekkingu og trúarofstæki, minnir á feðga sem við mæðginin höfðum í fóstri um nokkurt árabil.
Við mamma erfðum tvo naggrísi, karldýr sem hét Snjólfur og sambýliskonu hans. Ég man ekki hvort hún átti sér eitthvert nafn. Kvendýrið fékk lungnabólgu eftir got og drapst. Okkur tókst að gefa alla ungana sem eftir lifðu nema einn, sem nefndur var Syrtlingur. Var hann Snjólfi, feður sínum til halds og trausts.
Þegar syrtlingur eltist kom í ljós að hann var samkynhneigður og var því augljóst samkvæmt tíðarandanum að í balanum þeirra var framið tvenns konar brot: sifjaspell og kynvilla. Við mæðginin höfðum í aðra röndina dálítið gaman af þessu en urðum stundum að skilja þá feðga að þegar atgangurinn varð sem mestur.
Nú er mér spurn. Hvort voru þeir feðgar kynvilltir eða samkynhneigðir?
Hví er samkynhneigð talin óeðli á meðal manna úr því að hún telst eðlileg á meðal annarra spendýra?
Trúarofstækið er alls staðar samt við sig. Kristur var umburðarlyndur og réttsýnn. Hvergi hef ég séð að hann hafi fordæmt samkynhneigða Gyðinga. Hann braut í bága við grimmilegar hefðir samfélagsins, líknaði þeim sem smáðir voru og upphóf þá sem minnimáttar töldust. Ofstæki í trúarefnum á ekkert skylt við kristilegt siðgæði og hið sama á við um fleiri trúfélög. Ofstæki leiðir hvarvetna til árekstra og böls. En ef til vill verður það gæfa Færeyinga að hugdjörf Jóhanna skirrist ekki við að ganga á hólm gegn fordómum, hvar sem þeir birtast.
Stjórnmál og samfélag | 7.9.2010 | 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ólafur Skúlason reyndist mörgum vel. Hann gekk í lið með geðfötluðu fólki í upphafi 10. áratugarins og helgaði málefnum þess jólaguðsþjónustu ríkissjónvarpsins. Það var á þeim tíma þegar Öryrkjabandalag Íslands voru baráttusamtök. Þá þegar lék það orð á að biskup væri kvensamur og hvíslað var um meinta kvensemi hans á meðan hann var prestur í Bústaðakirkju. Þótt einhverjir leiddu þetta hjá sér var hitt þó verra að þeim, sem urðu fyrir barðinu á þessari sjúklegu áráttu skyldi ekki vera trúað og framganga biskupsins sjálfs var með þeim hætti að hann gekk ótrauður fram í krafti embættis síns og skoraði skjólstæing sinn á hólm. En biskup hvarf úr embætti og kirkjan lét málið niður falla. Það voru mistök.
Íslendingar hafa lengi vitað að prestar eru hvorki né hafa verið betri en aðrar stéttir fólks í siðferðisefnum. Amma mín, Jóhanna Jónsdóttir, var t.d. dóttir séra Páls á Völlum í Svarvaðardal og var maður nokkur fenginn til þess að gangast við henni svo að prestur missti ekki hempuna. Þannig er nú sú saga og því er ættfærrsla mín ekki allskostar rétt í föðurætt. Jafnvel æskulýðsleiðtoginn mikli, séra Friðrik Friðriksson, var grunaður um að láta vel að ungum drengjum. Kristmann Guðmundsson sagði frá því í endurminningum að hann hefði hrakist úr K.F.U.M fyrr þessar sakir og haft var eftir þekktum einstaklingi, sem var víðkunnur útarpsmaður og hafði afskipti af barnaverndarmálum á 5. og 6. áratugnum að hann hefði aldrei getað á heilum sér tekið ef hann vissi unga drengi í einrúmi með prestinum. Þessi orðrómur fór svo hátt að í æsku minni var mér greint frá þessu. Enginn kærði klerkinn. Lögreglan mun hafa haft einhver afskipti af málum hans og tekið þátt í að þagga niður. Þó var séra Friðrik mikill æskulýðsleiðtogi en með þennan löst.
Þjóðkirkjan er viðkvæmari fyrir slíkum málum en flestar aðrar stofnanir og það eru þjónar hennar einnig. Æðstu þjónar kirkjunar eru þar ekki undanskildir og í raun riðar nú kirkjusamfélagið til falls vegna þess að almenningi er misboðið. Ekkert varð úr því að sér Geir Waage yrði áminntur vegna skrifa sinna í Morgunblaðið en þeir biskupinn urðu sammála um að orð hans hefðu verið slitin úr sahengi. Ég velti því fyrir mér, þegar ég las þessa niðurstöðu, að réttast hefði verið að birta greinar klerksins á bloggsíðu þessari og láta lesendum eftir hvort orð klerksins hefðu verið slitin úr samhengi. Í stað þess kaus ég að fjarlægja pistil minn um afdalaklerk nokkurn af síðunni enda væri málinu lokið.
Ég hef þá reynslu af herra Karli Sigurbjörnssyni að hann taki þá afstöðu sem heildinni verður fyrir bestu.
Stjórnmál og samfélag | 30.8.2010 | 19:52 (breytt kl. 22:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dregið hefur verið úr rekstri svæðisstöðvanna. Nú er enginn fastur starfsmaður á Ísafirði og einungis einn fréttamaður á Egilsstöðum.
Ríkisútvarpið átti 600 fermetra hús á Akureyri sem selt var árið 2002 þegar starfsemin var flutt í leiguhúsnæði. Flutningarnir kostuðu um 100 milljónir króna en aðeins fengust tæpar 30 milljónir fyrir húsið sem selt var. Nú hefur verið gerður samningur við Háskólann á Akureyri sem sagður er mjög hagstæður fyrir Ríkisútvarpið. Húsnæðið nær ekki 100 fermetrum. Þar á að vera eitt lítið og þröngt hljóðver og þröng aðstaða fyrir 8 skrifborð. Ekki er pláss fyrir fatahengi, nánast engin kaffistofa og ein lítil snyrting. Á móti fær Ríkisútvarpið aðgang að mötuneyti Háskólans, fundarherbergjum og hátíðarsal. Þykir samningur þessi tilmarks um metnaðarleysi og skort á áhuga yfirmanna stofnunarinnar á því að hún geti rækt hlutverk sitt á landsbyggðinni. Þá hefur verið á það bent að Ríkisútvarpið geti ekki lengur fjallað með hlutlægum hætti um málefni Háskólans á Akureyri þar sem hagsmunatengsl séu of náin.
Dagskrá Ríkisútvarpsins hefur verið mótuð til margra ára af lausráðnu dagskrárgerðarfólki sem hefur ekki fengið há laun fyrir vinnu sína. Fólkið hefur unnið sem verktakar og ekki öðlast nein réttindi þrátt fyrir áralangt starf fyrir stofnunina. Nú hefur flestum lausráðnum dagskrárgerðarmönnum verið vísað á dyr. Birtist það m.a. í því að fátt er um nýja og frumlega þætti en endurtekið efni er í staðinn mikill hluti dagskrárinnar.
Fjölmiðlar hér á landi hafa hvorki fjallað um málefni Ríkisútvarpsins á málefnalegan hátt né af neinni þekkingu. Leiðaraskrif Morgunblaðsins hafa mótast mjög af óvild í garð stofnunarinnar og litlum skilningi á því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur heldur ekki fjallað um þessi mál með hlutlægum hætti og jafnvel haldið upplýsingum frá hlustendum og áhorfendum sjónvarps. Því hefur verið haldið fram að fréttastjóri Ríkisútvarpsins hafi skipað fréttamönnum að matreiða fréttirnar af niðurskurðinum með tilteknum hætti og alls ekki hafi mátt spyrja um sparnað eða kostnað við ákveðnar aðgerðir. Sem dæmi hefur verið tekin frétt Ríkisútvarpsins sjónvarps um fyrirhugaða flutninga í húsnæði Háskólans á Akureyri. Fréttastjóri mun hafa bannað fréttamanni að spyrja um kostnaðinn og ekki mátti heldur upplýsa um þann kostnað sem hlaust af sölu húsnæðis Ríkisútvarpsins árið 2002 og vegna flutninganna.
Það vakti athygli fyrir skömmu að ekki var greint frá tapi Ríkisútvarpsins af því að missa útsendingarréttinn af tilteknum íþróttaviðburðum. Hvorki voru birtar tölur um kostnað vegna viðburðanna né þær tekjur sem auglýsingar skiluðu. Þá gengur fjöllunum hærra að fréttastjórinn hafi ráðið og rekið fólk að eigin geðþótta og sjaldan spurt um reynslu eða hæfni.
Vakið hefur athygli að ýmsir sumarstarfsmenn fréttastofunnar virðast hafa afar takmarkaða þekkingu og íslenskukunnátta þeirra sumra er í lágmarki. Viðmælandi bloggsíðunnar, sem var starfsmaður fréttastofu Rúv um árabil orðaði þetta svo: Fréttastjórinn heldur um sig hirð jábræðra- og systra og stór hópur fréttamanna er eins og hrædd dýr sem þora hvorki að æmta né skræmta. Á hinum endanum eru nokkrir óánægðir fréttamenn sem hugsa sinn gang.
Málsmetandi menn í hópi fjölmiðlafólks telja jafnvel að nú sé svo fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins komið að hún geti ekki fjallað um ýmis mál með hlutlægum hætti. Fátt sé orðið eftir af reyndum fréttamönnum og ekki vinnist lengur tími til að vinna fréttir og afla gagna með sama hætti og áður. Þá virðist sem fréttaskýringar heyri sögunni til og fréttastofunni hafi ekki tekist að framreiða jafnvandaðar fréttir og heitið var þegar síðustu breytingar voru kynntar. Því er hætt við a fari að molna undan fréttastjóranum ef heldur fram sem horfir.
Stjórnmál og samfélag | 26.8.2010 | 10:57 (breytt kl. 11:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við, sem höfum einungis hjólað á milli landshluta, fyllumst aðdáun og óskum henni hjartanlega til hamingju með árangurinn - hjólreiðina og söfnunina. Vonandi birtist senn við hana viðtal þar sem hún segir nánar frá ferðinni og einstökum hlutum hennar.
Enn er hægt að leggja söfnuninni lið með því að hringja í síma 9041339.
Stjórnmál og samfélag | 19.8.2010 | 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn á ný er fólk hvatt í fjölmiðlum til að kynna sér vefinn. Ég hugðist vera snemma á ferðinni og opnaði hann áðan. Viti menn! Ennþá sama óaðgengilega kerfið og í fyrra.
Því var viðburðastjóra Reykjavíkur, talsmanni Gagarins, Blindrafélaginu, Öryrkjabandalaginu o.fl. sent bréf þar sem vakin var athygli á því að vefurinn væri einungis aðgengilegur sumum en ekki öllum. Sérstök athygli var vakin á vanda þeirra sem nota skjálesara og ef til vill lenda fleiri í vandræðum með vefinn.
Stjórnmál og samfélag | 14.8.2010 | 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar