Færsluflokkur: Spaugilegt
Breska ríkisútvarpið hefur yfirleitt haft orð á sér fyrir hlutlægni. Öðru hverju bregður þó fyrir gamansömum athugasemdum sem varða við hlutdrægni.
Um þessar mundir greina sérfræðingar einkum gerðir Bandaríkjaforseta og í morgun var það Múrinn mikli - eitthvert mesta mannvirki sem ráðist verður í frá smíði Múrsins mikla í Kína sem stóð yfir í rúm 270 ár.
Það gerir sérfræðingum nokkuð erfitt fyrir að forsetinn núverandi lýsir múrnum á ýmsa vegu og enginn veit hvað upp snýr.
Nýjasta lýsingin er þessi:
Múrinn verður 3.200 km langur.
Hann verður 10 metra hár.
Ekki er vitað hvort hann verður hlaðinn úr tigulsteinum eða gerður úr sementi.
Mexíkóskt fyrirtæki, Semex, sem starfa báðum megin landamæra Mexíkós og Bandaríkjanna hefur veðjað á sement og hafa nú hlutabréf í fyrirtækinu hækkað um 200%.
En ýmis teikn eru á lofti um að múr þessi verði aldrei eða seint að veruleika.
1. Landslagið á landamærunum er margþætt, fjöll og firnindi, ár, mýrlendi og móar.
2. Þá er ekki allt landið í eigu hins opinbera. Ríki, sveitarfélög, frumbyggjaþjóðir, fyrirtæki og einstaklingar skipta með sér landinu. Því er talið að mörg dómsmál spretti vegna fyrirhugaðra framkvæmda við múrinn og geti málaferlin tafið byggingu hans um heilan mannsaldur.
3. Enginn veit með vissu hvað múrinn kostar. Heyrst hefur talan 14 milljarðar Bandaríkjadala og má margfalda þá upphæð með 120 til þess að reikna út krónufjöldann. Talið er að slík útgjöld kunni að standa í fjárveitingavaldinu bandaríska.
Spaugilegt | 26.1.2017 | 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er Fídel Kastró eður Tryggvi frá Borg, eins og sumir kölluðu hann, fallinn frá. Maður nokkur taldi vafa leika á ætterni hans. Sá hét Jón Grímsson og var ráðsmaður hjá Ásbirni Ólafssyni, stórkaupmanni, en ég var sölumaður hjá honum sumrin 1970-72 og 1974-75. Sagan er þessi:
Ég snæddi gjarnan hádegismat með Ásbirni og gekk Jón um beina. Hann var þá á 79. aldursári, fæddur 1893 og mikill vinur okkar bræðra allra.
Eitt sinn segir hann við mig: "Það eru ýmsir sem halda fram að Kastró sé sonur minn." Ég tók því fálega en hann hélt áfram að impra á þessu næstu daga og fóru leikar svo að ég innti hann eftir atvikum.
Sagðist hann þá árið 1925 hafa hitt unga konu í ónefndum stað í Mið-Ameríku og hefðu tekist með þeim góð kynni. Samfarar þeirra voru góðar en ég hirði ekki um að lýsa þeim fyrir öðrum en Ólafi Gunnarssyni rithöfundi, í tveggja manna spjalli. Jón tjáði mér að hann myndi gangast við Kastró þegar og ef þess yrði óskað.
Mér þóttu þetta allmikil tíðindi og hugðist fá botn í málið. Hringdi ég því til Valdimars Jóhannessonar, ritstjóra Vísis og greindi honum frá málinu.
Síðdegis daginn eftir kom Jón inn í söludeildina, steðjaði beint að borði mínu og segir formálalaust: "Mikinn andskotans grikk gerðirðu mér í dag."
Ég setti upp furðusvip og spurði hvað hann ætti við.
"Þú hringdir og þóttist vera blaðamaður frá Vísi og spurðir formálalaust hvort það væri rétt að ég væri faðir Kastrós."
Ég fór að skellihlæja og spurði í forundran hverju hann hefði eiginlega svarað.
"Ja, eitt er víst, að ekki hefur hann þetta helvítis kommúnistavesen í föðurættina", sagði hann.
Ég innti hann eftir því hver blaðamaðurinn hefði verið og mundi hann ekki nafnið. Ég spurði hvort það gæti verið Valdimar Jóhannesson og svaraði jón: "Hann þóttist heita það."
Ég sór og sárt við lagði að ég hefði ekki hringt, en Jón var sannfærður um að ég hefði átt hlut að máli og tjáði mér að hann hefði neitað að gangast við piltinum.
Jón Grímsson var einstakur öðlingur, barngóður með afbrigðum og traustur vinur þeim sem öðluðust vináttu hans. Hann var sagnamaður mikill og sagði að eigin áliti jafnan satt.
Spaugilegt | 26.11.2016 | 19:48 (breytt kl. 19:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Útvarpsleikhúsið flytur nú leikritið "Leifur óheppni" eftir þær Maríu Reindal og Ragnheiði Guðmundsdóttur með tónlist Einars Sigurðssonar, sem einnig annast hljóðvinnslu. María leikstýrir. Leikritið er á dagskrá Rásar eitt kl. 15:00 næstu daga.
Eftir jólakvöldið í gær var hlustað á 1. þáttinn og á annan þátt áðan. Óhætt er að mæla með þessu leikverki handa allri fjölskyldunni og ekki síst börnum.
Leikritið fjallar um styttuna af Leifi heppna skammt frá Hallgrímskirkju og ótrúlega hluti sem þar gerast.
Foreldrar eru eindregið hvattir til að benda börnum sínum á þessa frábæru skemmtan. Leikritið er að finna í Sarpi Ríkisútvarpsins en ætti einnig að vera á Krakkarúv.
Hér á eftir kemur örstuttur dómur um tæknihlið leiksins.
Margt er þar firnavel gert. Það kemur á óvart að fjarlæg bifreiðahljóð virðast koma fyrir aftan hlustandann ef notuð eru heyrnartól og er það skemmtileg tilviljun.
Hins vegar er útihljóðmyndin að sumu leyti misheppnuð. Þannig er sjávarhljóðið áberandi í nágrenni Hörpu, en þar heyrist sárasjaldan neitt öldugjálfur. Hið sama er að segja um hljóðið frá Skólavörðuholtinu og garðinum við Listasafn Einars Jónssonar. Þar er sjávarniður of áberandi. Ef til vill á þetta að vera vindurinn. Til þess benda örlitlar gælur golunnar við hljóðnemann og er þýðlegt á það að hlýða með vinstra eyranu.
Á móti kemur að hljóðmyndin, sem lýsir örtröð ferðamanna og setningu ráðstefnu um norðurljósin er stórskemmtileg. Þá er þess vandlega gætt að skilja á milli hljóðrýis skólaganga og kennslustofa. Þrátt fyrir það sem áður var sagt er ástæða til að óska Einari Sigurðssyni til hamingju mel hljóðmyndina.
Leikstjórnin er að flestu leyti til fyrirmyndar og ætlar undirritaður að halda áfram að ganga í barndóm, enda vill hann ekki missa af því sem eftir er.
Spaugilegt | 25.12.2015 | 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útvarpsleikritið Blinda konan og þjónninn eftir Sigurð Pálsson, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, er um margt snilldar vel gert verk. Tónlist Hildar Ingveldar Guðnadóttur og hljóðstjórn Einars Sigurðssonar spilltu ekki fyrir því.
Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi og leikur höfundarins, Ólafíu Hrannar Jónsdóttur og Vals Freys Einarssonnar nær lýtalaus. Sennilega hefði mátt beita ákveðinni hljóðnemabrellu til þess að láta það heppnast betur þegar drukkna blinda konan hrundi í gólfið. Ýmsir hlusta á útvarpsleikritin með heyrnartólum og þar hefði þetta notið sín einkar vel.
Sigurður Pálsson leikur sér einkar vel að þeirri hugmynd að skapa persónur í leikriti og gera hlustendur óþyrmilega vara við endurskoðun og breytingar á handritinu. Að lokum fer svo að hann gefst hreinlega upp og allt er þurrkað út.
Útvarpsleikhússtjórinn hefur iðulega kynnt leikrit og ferst það vel úr hendi. Til nokkurra lýta finnst mér þegar sagt er: "Útvarpsleikhúsið flytur Blinda konan og þjónninn". Hvers vegna er ekki sagt "Útvarpsleikhúsið flytur Blindu konuna og þjóninn?" Þeir sem kunna íslensku vita að hér er þolfall á ferðinni og hvert nefnifallið og þar með heiti verksins er. Útvarpsleikhúsið ætti að hafa þetta í huga við framleiðslu næstu verka.
Öllum aðstandendum leikverksins er óskað til hamingju með þessa skemmtilegu leikfléttu sem gladdi eyru hlustenda í dag. Árið 2015 byrjar svo sannarlega vel hjá Útvarpsleikhúsinu.
Spaugilegt | 4.1.2015 | 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslenski talgreinirinn frá Google hefur vakið athygli og hrifningu margra. Notendur snjallsíma hafa áttað sig á því hvað þetta er handhægt tæki þegar leitað er á vefnum.
Þegar talgreinirinn er fenginn til að lesa samfelldan texta vandast málið. Þá fer hann að semja sjálfur og útkoman er ekki mjög greindarleg.
Í kvöld las ég greinilega eftirfarandi texta:
Elsku Elín. Þetta er tilraun til að skrifa þér bréf með því að sjá hvort hægt sé að tala við símann.
Síminn og talgreinirinn ákváðu að hafa þetta þannig:
"Elsku elín þetta er tilraun til að skrifa þér bréf með því að sjónvarpi símans vona að ég veit þetta hjá mér finnið elskandi eiginmaður af sjúkdómur a"
Þetta lofar samt góðu. Greinilegt er þó að talsvert starf er eftir áður en áhaldið verður nothæft sem skriftartól. Vafalítið verður nú lögð vinna í að fullkomna þennan hugbúnað svo að hann nýtist sem flestum. Ýmsir í hópi fatlaðra bíða þess með eftirvæntingu að geta notað tölvur fyrir tilstilli talgreinis. Slíkur búnaður hefur verið til fyrir tungur fjölmennra þjóða í rúm 40 ár og þar hafa menn náð býsna langt.
Aðstandendum talgreinisins eru færðar einlægar hamingjuóskir með þann árangur sem náðst hefur á undraskömmum tíma.
Spaugilegt | 12.9.2013 | 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki vitum við hvað lokkaði hann hingað. Ef til vill hafa það verið smáfuglar eða hann hefur séð eitthvað innan við gluggann, sem vakti athygli hans. Ennþá er örlítill skötuilmur í íbúðinni eftir Þorláksmessuna. Skyldi skötulyktinn hafa lokkað hann að sér?
við
Spaugilegt | 25.12.2012 | 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér varð hugsað til þessara auglýsinga, þegar ég heyrði frétt í BBC í gærkvöld. Þar greindi frá því að Írum þættu þeir sjálfir fremur klaufskir elskhugar og írskir karlmenn ættu oft í erfiðleikum með að tjá ást sína. Metið sló þó ungur maður, sem gladdi unnustu sína um seinust jól með því að gefa henni legstað í jólagjöf. Konan taldi hann órómantískasta mann Írlands.
Spaugilegt | 6.3.2012 | 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Spaugilegt | 1.2.2012 | 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þessi átakanlegi harmleikur Guðmundar Kambans í frábærri leikstjórn Lárusar Pálssonar, snerti óneitanlega viðkvæma strengi í huga hlustandans. Túlkun þeirra fjögurra leikara, sem nafngreindir voru í upphafi þessa pistils, var með þeim ágætum að vart getur betri leik í útvarpi fyrr eða síðar.
Hljóðrit þetta, sem er farið að nálgast sextugt, er fyrir margra hluta sakir merkilegt. Það gefur góða mynd af þeirri aðstöðu sem fyrir hendi var til hljóðritana og jafnframt þeim tónlistarsmekk og því úrvali sem menn höfðu úr að moða.
Sem millistef var notuð orgelútsetning Páls Ísólfssonar á stefi úr Þorlákstíðum. Í lok leikritsins heyrðist brot úr sálmi Hallgríms Péturssonar, sem almennt gengur undir nafninu "Allt eins og blómstrið eina". Var það við orgelundirleik, en ekki er vitað til þess að Brynjólfur biskup hafi látið setja orgel í dómkirkju þá sem hann lét reisa og rifin var skömmu eftir að Skálholtsstaður laskaðist í jarðskjálftunum árið 1784, enda var þá kirkjan orðin fúin af viðhaldsleysi og gestum og gangandi lífshættuleg.
Þessi harmsaga Ragnheiðar og Daða hefur orðið ýmsum til íhugunar. Skrifaðar hafa verið skáldsögur, ort ljóð og jafnvel hafa miðlar orðið til þess að "sannleikur máls þeirra Daða og Ragnheiðar" hefur litið dagsins ljós svo að vart velkjast menn í vafa um það hvað gerðist. Miðað við hljóðrit, sem birt voru af miðilsfundum á 8. áratugnum, var túlkun Þorsteins Ö. Stephensen á Brynjólfi biskupi fremur sannferðug, en þó hafði hann ekki heyrt þessi hljóðrit. Guðmundur Kamban hefur væntanlega með leikriti sínu hagað orðum persónu biskups þannig að vart varð komist hjá því að beita öllum þeim hroka og yfirlæti sem leikarinn gat látið í té.
Við endurflutning þessa hljóðrit leitar ýmislegt á hugan og skal nú varpað fam þremur tillögum:
Handritshöfundar íslenskir ættu að íhuga hvort ekki væri rétt að endurgera Skálholt. Fara mætti þá leið að hljóðrita leikritið að nýju fyrir útvarp og haga þá tónlistarfvali með öðrum hætti en gert var árið 1955. Nú vita menn gerr um tónlist 17. aldar á Íslandi en menn vissu þá og þara að auki vita menn nú hvernig íslenska þjóðlagið við áður nefndan sálm Hallgríms var afskræmt með þvíað breyta einni nótu laglínunnar, þegar það var undirbúið til útgáfu sálmabókar á sinni tíð. Það hefur Smári Ólafsson sannað, svo að óyggjandi má telja.
Einnig mætti hugsa sér að gera um þessa atburði röð sjónvarpsþátta. Þá fengju handritshöfundar að spreyta sig á sígildu viðfangsefni, sem á rætur að rekja til fortíðar þjóðarinnar. Úr því gæti orðið sígilt meistaraverk, ef vel tækist til.
Þriðja tillagan er sú að saga þeirra Ragnheiðar og Daða yrði kveikjan að nýju leikverki sem samið yrði handa þeim Herdísi Þorvaldsdóttur og Róbert Arnfinnssyni. Söguþráðurinn gæti orðið einhvers onar ævisaga aldraðra einstaklinga sem fengu ekki að njótast fyrr en hausta tók. Þau Róbert og Herdís væru vís til að túlka vel samið handrit með þeim hætti að hverjum manni yrði ógleymanlegt, hvort sem um yrði að ræða flutning í sjónvarpi, útvarpi eða á leiksviði.
Íslendingar hafa um hríð verið of uppteknir af því að endurgera nýlega útgefnar skáldsögur sem sjónvarpsþættii. Mál er að linni.
Spaugilegt | 10.12.2011 | 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í erindi sínu fjallar Húni um þær réttarheimildir sem gilda um hvítabirni á Íslandi og hvernig þær hafa þróast, segir í frétt Morgunblaðsins í dag. Hann fjallar einnig um túlkun réttarheimilda um hvítabirni og þær móttökur sem þeir hafa fengið á Íslandi á síðustu árum.
Þá útskýrir Húni þær ráðstafanir sem stjórnvöld gripu til sumarið 2008 þegar tveir hvítabirnir gengu á land.
Í þessari frétt er fjallað um Húna Heiðar Hallsson, sem fjallar um hvítabirni. Afkvæmi hvítabjarnar er kallað húni. Það á því vel við að Húni Heiðar fjalli um réttarstöðu bjarndýranna hér á landi.
Á undanförnum árum hefur tilviljun ráðið því að nöfn manna hafa með ýmsum hætti tengst starfi þeirra. Nefnamá Sigurjón Bláfeld, loðdýraráðunaut, Eyjólf Ísfeld Eyjólfsson, fyrrum forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Ólaf Dýrmundsson, landbúnaðarráðunaut. Eitt sinn hélt hann fyrirlestur um sauðfjárrækt á Íslandi fyrir dansflokk frá Tíbet og þótti fara vel á því nafnsins vegna.
Í Evrópu eiga ættarnöfn iðulega rætur að rekja til iðngreinar sem ættfaðirinn stundaði. Má sem dæmi nefna orðið smith sem tekur á sig ýmsar myndir eftir því hvaða smíðar forfaðirinn stundaði. Hér á landi kenndu menn sig við ættaróðalið, sveitina eða forföður, þegar ættarnafnatískan náði fótfestu hér á landi. Einnig voru þess dæmi að menn kenndu sig við staði sem þeim þóttu öðrum fegri svo sem Kaldalón ber vitni um.
Spaugilegt | 25.1.2011 | 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar