Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Tímaskekkja í í samfélagi nútímans

Fram á miðja síðustu öld voru ítök þjóðkirkjunnar svo sterk að efnt var til messu hvenær sem eitthvað stóð til.
Ein af mínum fyrstu minningum er frá því er Ólafur Noregskonungur kom hingað til lands, að mig minnir 1957. Þá var hann drifinn í messu.

Á þjóðhátíðardegi vorum, 17. júní, hefjast hátíðarhöld dagsins með messu og í morgun var í dómkirkjunni í Reykjavík vitnað í Gamla testamentið þar sem Guð segist ætla að vera góður við þá sem hann úthlutaði landi (væntanlega Gyðingum) og ætli sér aldrei að yfirgefa þá.

Þótt margt viskulegt hafi verið ritað í Gamla testamentið er sumt sem ærin ástæða væri til að staldra við - eins og við suma spámennina sem stöppuðu stáli í þjóð sína m.a. vegna væntanlegrar heimarar frá Babílon. Þessi boðskapur er enn í gildi á meðal Gyðinga og er væntanlega afsökun fyrir hegðun ísraelskra stjórnvalda á vorum tímum.

Þeir prestar, sem þjóna fyrir altari og lesa texta dagsins, ættu að hugsa sig um tvisvar þegar þeir glugga í þessa texta og ausa úr meintum viskubrunni spámannanna yfir íslenska þjóð - viskubrunni sem sumir drukkna í vegna aðgerðarleysis hins alþjóðlega samfélags.

Gleðilega þjóðhátíð.


Lifun eftir Jón Atla Jónasson - meistaraverk

Útvarpsleikhúsið lauk í dag við að flytja hlustendum leikritið Lifun eftir Jón Atla Jónasson, en það er byggt á heimildum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Fléttað er saman leiknum atriðum og frásögnum ýmissa sem að málinu komu.
Sannast sagna er leikrit þetta hreint listaverk, afbragðs vel saman sett og leikurinn frábær. Óhugnaðurinn, skelfingin, óttinn, kvíðinn og undanlátssemin skila sér fyllilega auk örvæntingar vegna aðskilnaðar frá ástvinum og jafnvel misþyrminga.
Ástæða er til að óska aðstandendum verksins til hamingju með vel unnið meistaraverk.


Enn eitt snilldarverk Útvarpsleikhússins - Leifur óheppni

Útvarpsleikhúsið flytur nú leikritið "Leifur óheppni" eftir þær Maríu Reindal og Ragnheiði Guðmundsdóttur með tónlist Einars Sigurðssonar, sem einnig annast hljóðvinnslu. María leikstýrir. Leikritið er á dagskrá Rásar eitt kl. 15:00 næstu daga.
Eftir jólakvöldið í gær var hlustað á 1. þáttinn og á annan þátt áðan. Óhætt er að mæla með þessu leikverki handa allri fjölskyldunni og ekki síst börnum.
Leikritið fjallar um styttuna af Leifi heppna skammt frá Hallgrímskirkju og ótrúlega hluti sem þar gerast.
Foreldrar eru eindregið hvattir til að benda börnum sínum á þessa frábæru skemmtan. Leikritið er að finna í Sarpi Ríkisútvarpsins en ætti einnig að vera á Krakkarúv.

Hér á eftir kemur örstuttur dómur um tæknihlið leiksins.
Margt er þar firnavel gert. Það kemur á óvart að fjarlæg bifreiðahljóð virðast koma fyrir aftan hlustandann ef notuð eru heyrnartól og er það skemmtileg tilviljun.
Hins vegar er útihljóðmyndin að sumu leyti misheppnuð. Þannig er sjávarhljóðið áberandi í nágrenni Hörpu, en þar heyrist sárasjaldan neitt öldugjálfur. Hið sama er að segja um hljóðið frá Skólavörðuholtinu og garðinum við Listasafn Einars Jónssonar. Þar er sjávarniður of áberandi. Ef til vill á þetta að vera vindurinn. Til þess benda örlitlar gælur golunnar við hljóðnemann og er þýðlegt á það að hlýða með vinstra eyranu.
Á móti kemur að hljóðmyndin, sem lýsir örtröð ferðamanna og setningu ráðstefnu um norðurljósin er stórskemmtileg. Þá er þess vandlega gætt að skilja á milli hljóðrýis skólaganga og kennslustofa. Þrátt fyrir það sem áður var sagt er ástæða til að óska Einari Sigurðssyni til hamingju mel hljóðmyndina.
Leikstjórnin er að flestu leyti til fyrirmyndar og ætlar undirritaður að halda áfram að ganga í barndóm, enda vill hann ekki missa af því sem eftir er.


Síðustu dagar Kjarvals - listaverk í Útvarpsleikhúsinu

Síðustu dagar Kjarvals, sem Útvarpsleikhúsið flutti í dag, eftir Mikael Torfason er meistaraverk á allan hátt. Leikur, leik- og hljóðstjórn voru með miklum ágætum og nálgunin sannfærandi.
 Um leið og hlustað var rifjuðust ýmsar sögur upp af Kjarval, svo sem sú að Jónas frá Hriflu vildi sæma hann riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á afmæli hans 1935, en aðrir mótmæltu og sögðu að hann gæti átt það til að hengja hana aftan á sig og ganga með hana um Austurvöll - og svo vandræðagangurinn þegar hann var loksins sæmdur fálkaorðunni og neitaði að taka við henni. Tekinn var af öllum viðstöddum þagnareiður nema Hjálmtý Péturssyni sem sagði söguna. Jóhannes Kjarval var sjálfstætt ólíkindatól sem lét þjóðarandann aldrei segja sér fyrir verkum.
 Þau ár sem Kjarval dvaldi á Landakoti og síðar Borgarspítalanum fóru einnig af honum sögur. Og þegar hann lést var eins og hluti þjóðarsálarinnar hefði dáið með honum. Til hamingju með þetta góða höfundarverk, Mikael Torfason og aðrir aðstandendur.


Hatursáróður fríkirkjuprests í útvarpsmessu

Þessi pistill var skrifaður á meðan á útvarpsprédíkun stóð.

Um þessar mundir flytur séra Hjörtur Magni Jóhannsson útvarpsprédíkun úr Fríkirkjunni við Tjörnina. Hún er full af stóryrðum í garð Þjóðkirkjunnar og flokkast í raun undir hatursáróður eins og dunið hefur á eyrum hlustenda þegar presturinn tekur til máls í útvarpi.
Þótt Þjóðkirkjan sé ekki til fyrirmyndar að öllu leyti er þó engin ástæða til að ausa hana auri og svívirða starfsmenn hennar eins og séra Hjörtur Magni gerir í prédíkun sinni með því að líkja kirkjunni við levíta eða presta Gyðinga á dögum krists.
Vafalaust er það fjárskorturinn sem rekur hann til þessarar ókristilegu prédíkunar. Úr því að söfnuðurinn, sem klauf sig úr Þjóðkirkjunni, hefur ekki lengur áhuga á að leggja tíund a af eigum sínum til stofnunarinnar, er þá nokkuð annað en að leggja söfnuðinn niður? Þá gæti séra Hjörtur Magni stofnað sinn einkasöfnuð þar sem hann gæti prédíkað í friði um hatur sitt og andstyggð á Þjóðkirkjunni.
Í raun fer það að verða tímaskekkja að útvarpsmessur séu á dagskrá ríkisfjölmiðils. Í tæknivæddu samfélagi nútímans ætti hverri kirkju að vera í lófa lagið að senda út messur sínar á netinu. Þá gætu hlustendur valið messu til að hlusta á í stað þess að njóta eða þurfa að þola ræður eins og þá sem prestur Fríkirkjunnar við Tjörnina hefur flutt í dag.
Séra Hjörtur Magni ætti að breyta um stíl og hætta að ofsækja fjendur sína. Ræður hann skyldu vera lausnamiðaðar í stað þess að byggja á andstyggð og hatri eins og halda mætti að byggi innra með honum.


Sek - áhrifamikið útvarpsleikrit

Leikritið Sek eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur er áhrifamikið verk. Ástríðum er vel lýst án mikilla átaka. Verkið líður fram í sérstakri hrynjandi. Nokkuð er um klifanir sem eiga væntanlega að leggja áherslu á andrúmsloftið og þann viðbjóð sem viðgekkst.
Einangrunin og þögnin eru yfirþyrmandi og einsemdin þrungin örvæntingu.
Allir aðstandendur leiksins eiga lof skilið fyrir frammistöðu sína og túlkun: Höfundurinn, leikstjórinn, hljóðfæraleikarar, tónskáld og ekki síðst hljóðmaðurinn.
Tvisvar í verkinu þótti mér þó örla á smávægilegum mistökum. Barn biður föður sinn að kenna sér að rota og gera að sel. Undir eru hljóð úr fjörunni, kríugarg og brimalda. Í tali barns og föður er of mikill herbergishljómur.
Ég hlustaði á netinu til að forðast fm-bylgjusuðið og verður að hrósa Ríkisútvarpinu fyrir að hafa lagfært útsendinguna.
Sjálfsagt er að gefa þessu verki 5 stjörnur.


Magnaður flutningur á Orgelkonsert Jóns Leifs

Það var magnað að hlusta á flutninginn á Orgelkonserti Jóns Leifs á Proms áðan. Netútsending BBC var til svo mikillar fyrirmyndar að hljóðgæðin nutu sín til fulls í góðum heyrnartólum. Mikið væri þess óskandi að Ríkisútvarpið gæti verið með jafngóðar útsendingar á vefnum. Eins og reynslan hefur verið tel ég víst að alls konar yfirtónar rugluðu hljóminn í útsendingunni. Þetta sárnar sumum Seltirningum vegna þess að hlustunarskilyrðin eru hér ekki upp á hið allrabesta og því viljum við hlusta beint af netinu.
Flutningi konsertsins var gríðarlega vel tekið. Í útsendingunni - og e.t.v. hefur það verið svo í salnum - kaffærði orgelið stundum hljómsveitina. Það gerðist reyndar einnig í Hallgrímskirkju hér um árið, þegar Björn Steinar Sólbergsson flutti konsertinn. Undirritaður var svo heppinn að sitja á 3. bekk og naut flutningsins til fulls. En þeim, sem sátu fyrir aftan 5. bekk vað hann algert tónasull, eins og tónskáld nokkurt komst að orði. Í Albert Hall er tónninn fremur þurr af útsendingunni að dæma.


Miðsumarhátíð Víkings Heiðar - hvílík snilld!

Í gærkvöld lauk miðsumarshátíðinni sem Víkingur Heiðar Ólafsson, slaghörpuleikari, stóð fyrir í fjórða skipti. Hátíðin var fjölbreytt og með ólíkindum hvað fólki gafst kostur að velja um.
Ég átti þess kost að hlýða á upphafstónleikana í útvarpi austur á Stöðvarfirði og við Elín sóttum lokatónleikana í gær. Hvílík snilld sem borin var á borð!
Umbúnaður var allur hinn vandaðasti og kynningar Oddnýjar Höllu Magnúsdóttur til fyrirmyndar.
Ekki skulu lofaðir einstakir listamenn. En Víkingur Heiðar, sem ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska slaghörpuleikara að þeim ólöstuðum, sýndi á hátíðinni hversu fjölhæfur hann er.
Öllum aðstandendum, hljóðfæraleikörum sem hönnuðum og skipuleggjendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir með hátíðina með von um að þjóðin fái meira að heyra á næstu árum.


Snilldarverk í Útvarpsleikhúsinu um páskana

Útvarpsleikhúsið hóf í dag að flytja leikgerð bókarinnar Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns.
Það er skemmst frá því að segja að útvarpsgerðin er frábær. Einar Sigurðsson sá um tækni og Kolbrún Halldórsdóttir leikstýrði. Hljóðheimurinn var að mestu sannfærandi. Þó hefði mátt breyta öðru hverju hófataki hestsins sem Míó reið, t.d. þegar hann þaut yfir brúna. Rafhljóð, sem mynduðu dulúð verksins, voru hæfileg og náttúruhljóðin vel af hendi leyst.
Þá er ástæða til að hrósa börnunum sem taka þátt í flutningnum og Þórhalli Sigurðssyni sem lék brunninn af stakri snilld.
Í lokakynningunni varð leikstjóra á. "Útvarpsleikhúsið flutti Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren, fyrsti hluti". Þarna hefði betur farið á að nota þolfall, fyrsta hluta. Svona fer íslenska fallakerfið smám saman halloka fyrir enskum áhrifum og útvarpsfólk er ekki lengur fært um að veita mótspyrnu.
Þulir fyrri tíðar hefðu væntanlega orðað þetta þannig: "Útvarpsleikhúsið flutti fyrsta hluta .... o.s.frv.
Leikverkið og flutningur þess fær fullt hús stiga, en þulurinn féll á prófinu í lokin.


Illa undirbúnir þáttastjórnendur - varasöm dægurmálaumræða

Dægurmálaumræða útvarpsstöðvanna í beinni útsendingu tekur á sig ýmsar myndir og mótar skoðanir sumrahlustenda. Þar skiptir miklu að stjórnendur séu vel undirbúnir. Talsvert þótti skorta á að stjórnandi umræðunnar í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gær réði við hlutverk sitt. Hið sama má segja um talsmann múslíma í þættinum. af vörum beggja féllu ýmis ummæli sem betur hefðu verið ósögð.
Í gær átti ég tal við Íslending nokkurn. Skiptumst við á skoðunum um reynslu okkar af samstarfi við múslíma. Vorum við sammála um að þar leyndist margur gimsteinninn eins og meðal allra trúarhópa, þar sem margur gimsteinn glóir í mannsorpinu eins og Bólu-Hjálmar orðaði það.
Viðmælandi minn sagðist þó vera á sömu skoðun og hlustandi nokkur, sem fannst að Múslímar ættu ekki a fá að reisa hér mosku á meðan aðrir trúarhópar mættu ekki reisa kirkjur í múslímalöndum.
Hér er um mikla fáfræði og alhæfingu að ræða. Víða hafa múslímar og ýmsir trúarhópar búið í sátt og samlyndi og gera sem betur fer enn. Þar eru bæði moskur og kirkjur. Má þar nefna lönd eins og Palestínu, Egyptaland, Tyrkland og Sýrland, en þar eru Assiríngar kristnir. Nú er að vísu þrengt að þeim. Hið sama gildir um Írak.
Múslímar á Íslandi eru ekki íbúar landa eins og Saudi-Arabíu þar sem önnur lögmál kunna að gilda. Þess vegna hlýtur að fara um trúarbyggingar þeirra eins og kristinna söfnuða sem vilja koma sér upp kirkju.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband