Afleiðingar tilhæfulausrar uppsagnar

Þegar uppsögn farsæls stjórnanda ber að með þeim hætti að ekki er gefin skýring á henni, vakna grunsemdir um að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað. Í atvinnuviðtölum verða fórnarlömb slíkra aðgerða jafnan að útskýra eða rökstyðja hvað hafi getað valdið uppsögninni. Ástæðulaus uppsögn án nokkurra skýringa jaðrar við mannorðsmorð og fullyrt hefur verið að áfallið sem kemur iðulega í kjölfarið jafnist á við missi náins ættingja eða maka.
mbl.is Sigurði Einarssyni sagt upp störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni rekinn!

Formaður Ffélags eldri borgara í Reykjavík, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og gjaldkeri þess, Birna Bjarnadóttir afhentu Sigurði Einarssyni, framkvæmdastjóra félagsins, bréf fyrr í vikunni þar sem honum var sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis frá og með 1. mars nk. Engin skýring var gefin á uppsögninni önnur en sú að í uppsagnarbréfinu kom fram að formaður, varaformaður og gjaldkeri félagsins myndu taka við verkefnum hans. Sigurður segir að honum sé því jafn hulið og félagsmönnum hverjar séu ástæður uppsagnarinnar.

Sigurður hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins um árabil og þótt farsæll í starfi. Tveir fyrrverandi formenn félagsins hafa lýst undrun sinni á þessari uppsögn, sem kemur fólki í opna skjöldu.


Sannleikanum verður hver sárreiðastur

"Stundum má satt kyrrt liggja," er einatt sagt þegar sannleikurinn er óþægilegur. Í fyrri pistlum hefur á það verið bent a´ríkisstjórnin hefði getað farið hægar í sakirnar með þingsályktunartillöguna. En viðbrögð Steingríms Sigfússonar og Katrínar Júlíusdóttur sýna svo að vart verður um villst, að í greinargerð áður nefndrar tillögu er farið með rétt mál, þegar talað er um þær ástæðurr, sem ollu því að sumir þingmenn greiddu atkvæði með því að umsóknarferlið yrði hafið. Er sök Vinstri grænna þar mest.


mbl.is „Ég hef þó ekki logið að þinginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru annarlegar hvatir að baki mótmælanna við Austurvöll?

Í dag hafa verið fluttar fréttir af ýmsum þáttum þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar og má vart á milli sjá hvað satt reynist í málflutningi stuðningsmanna og andstæðinga. Ýmsir þingmenn, sem skortir hæfileika til þess að tala af hjartans lítillæti, hafa brigslað utanríkisráðherra um að hafa samið plaggið og eru "fingraför" hans sögð auðþekkt. Þegar þingsályktunartillagan er lesin kemur í ljós að orðfærið er sums staðar ekki mjög formlegt. Hið sama má segja um ýmsar tillögur sem ónefndir fulltrúar ónefndra flokka hafa lagt fram á Alþingi á undanförnum árum. En fátt virðist um eiginlegar rökvillur.

Það er einkennilegt að fólk safnist nú saman á Austurvelli til þess að mótmæla því að ekki séu greidd atkvæði um eitthvað sem er óframkvæmanlegt að ráða fram úr. Einnig er undarlegt að stjórnin skyldi ana svona áfram með þingsályktunartillöguna og hleypa stjórnarandstöðunni í uppnám. Það er eins og allt verði Alþingi til álitshnekkis og þingmenn virðast lítið læra. Í dag var hringt til mín frá einu ríki Evrópusambandsins og ég spurður hvort Íslendingar væru gengnir af göflunum. EES væri að þróast í áttina að lögregluríki og vildu menn vita hvernig færi fyrir smáþjóðum í vanda innan þess skyldu menn hafa örlög Grikkja til hliðsjónar.

Það er undarlegt til þess að hugsa að mótmælin vegna tillögunnar skuli nú standa um svipað leyti og mótmælin í Kænugarði hafa fjarað út. Sú hugsun læðist að mönnum hvort öfl, hliðholl Evrópusambandinu, séu hér að verki á báðum stöðum. Alþekkt er að erlend ríki, sem seilast vilja til áhrifa, beita ýmsum brögðum til þess og er þar Evrópusambandið vart undanskilið. Helstu sérfæðingar í slíkri aðferðafræði eru Ísraelsmenn og Bandaríkjamenn. Það skyldi þó ekki vera að leyniskytturnar í Kænugarði væru á vegum slíkra afla og tilgangurinn hafi verið að auka andstöðuna við Rússa?

Áður en menn halda áfram að mótmæla því sem í raun er þegar orðið, eru þeir hvattir til að kynna sér þingsályktunartillöguna. Hlekkur á hana er hér fyrir neðan. http://www.althingi.is/altext/143/s/0635.html


mbl.is Mótmælunum á Austurvelli lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir spyrlar falla í sama pyttinn

Mikið hefði spyrill sjónvarpsins í kvöld verið skynsamur hefði hann ekki sífellt klifað á sömu spurningunni, kosningasvikum, kosningasvikum og aftur kosningasvikum. Rifrildið sem hann reyndi að efna til við formann Sjálfstæðisflokksins skilaði þó því að formaðurinn gat útskýrt hvers vegna ekki var hægt að halda áfram með þjóðaratkvæðagreiðslumálið. Þá fyrst hefðu Íslendingar orðið að athlægi Evrópubúa.

Eitt sinn kom ónefndur aðdáandi Ólafs Thors til hans og tilkynnti að hann ætlaði að borða hjá honum hádegismat. Þegar borin var fram ýsa með kartöflum og smjöri sagði gesturinn: "Ég hélt að hér væri betri matur á borðum." Þvílíks sníkjuleiðangurs vildi Samfylkingin efna til ásamt Vinstri grænum - kanna hvað væri í boði og greiða síðan atkvæði gegn samningunum. En á meðan átti að venja Íslendinga af matvendni með aðlögun íslensks lagaumhverfis að lögum Evrópusambandsins.


mbl.is Ranglega stofnað til málsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æðibunugangur ríkisstjórnarinnar

Nú rífast menn sem aldrei fyrr um hvort sækja eigi um aðild að EES. Það er deginum ljósara að ekki er hægt að halda umsóknarferlinu áfram á meðan situr ríkisstjórn sem hefur þeim meirihluta á að skipa á Alþingi, sem vill ekki ganga í Evrópusambandið. Þetta er nú einu sinni þingræðið.

Ríkisstjórnin hefði samt sem áður ekki þurft að fara fram með slíkum æðibunuhætti sem raun ber vitni. Vitlegra hefði verið að fara sér hægar og leggja fram þingsályktunartillöguna með hefðbundnum hætti.

Þeir sem aðhyllast áframhaladandi umsóknarferli hafa valið andstæðingum sínum ýmis orð og telja að nú séu Íslendingar fyrst orðnir ómarktækir á alþjóða vettvangi. en Samfylkingin sá til þess í síðustu ríkisstjórn að Íslendingar urðu marklausir, þar sem fullvíst var að ríkisstjórnin var ekki samstíga í málinu og annar stjórnarflokkurinn lét til leiðast að halda í umsóknarleiðangur til þess að fá sæti í ríkisstjórninni.

Þá eru yfirlýsingar Evrópusinna um hagstjórnina og EES undarlegar. Ýmislegt þarf að gerast hér á landi áður en íslenskt efnahagskerfi getur lotið lögmálum EES og þetta vita þeir, sem vita vilja.


Tímakistan - góður efniviður til kvikmyndagerðar

Andri Snær Magnason hlaut fyrir skömmu íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabókmennta fyrir bók sína, Tímakistuna. Hún er afar áhugavert ævintýri sem höfðar engu síður til fullorðins fólks, jafnvel enn fremur, sé tekið mið af boðskap bókarinnar. Atburðarásin er spennandi og ýtir örugglega við ímyndunarafli lesandans. Þrátt fyrir fáeina hnökra í málfari, sem hæglega hefði mátt leiðrétta, er Tímakistan á meðal hins besta sem skrifað hefur verið handa börnum og fullorðnum. Eindregið er mælt með bókinni, sem fangaði hug höfundar þessa pistils. Bókin er merkilega vel fallin til þess að gerð verði eftir henni kvikmynd. Þá yrði heldur betur reynt á ímyndunarafl kvikmyndagerðarfólks og andleg þolrif áhorfenda.

Staðfesta í stað óheilinda og hringlandaháttar

Þingsályktunartillagan um umsóknarslit verður að teljast rökrétt framhald þeirrar staðreyndar að stjórnarflokkarinir eru báðir andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það var óráð af Samfylkingunni að neyða umsókninni upp á vinstri græna og enn verra að Vinstri grænir skyldu slá af kröfum og eitra um leið andrúmsloftið innan flokksins og samstarfið í ríkisstjórninni. Hjaðningarvíbin og illdeilurnar innan stjórnarinnar urðu til þess að vinstri stjórnin kom ekki ýmsum þjóðþrifamálum fram fyrir vikið.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, hafði orð á því í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld að sér fyndist þessi tillaga bera vott um ofbeldi því að þjóðin ætti að ráða. Meirihluti þjóðarinnar kaus þessa ríkisstjórn sem nú situr og þar við situr. Á meðan ekki fást reyndar aðrar aðferðir við að taka ákvarðanir, en tíðkast á Alþingi, er jafnan hætt við að meirihlutinn beiti minnihluta einhvers konar ofbeldi og það er þjóðarinnar að ákveða hverjir það verða hverju sinni.

Hvor um sig, Gunnar Bragi Sveinsson og Bjarni Benediktsson hafa verið sjálfum sér samkvæmir í Evrópusambandsmálinu og fátt getur komið í veg fyrir að þingsályktunartillagan verði samþykkt. Í áður nefndri útvarpsfrétt talaði Guðmundur Steingrímsson um að Íslendingar mættu ekki sýna hringlandahátt á alþjóðavettvangi með því að draga umsóknina til baka í stað þess að fresta henni. Því er spurt: Hvað telst hringlandaháttur?


mbl.is Á ekki að koma neinum á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistaraverk Áskels Mássonar

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn svissneska hljómsveitarstjórans Baldurs Brönnimanns í kvöld, 20. febrúar, voru ógleymanlegir, áhrifaríkir og skemmtilegir.

Þeir hófust með einu stórfenglegasta tónverki, sem íslenskt tónskáld hefur samið að undanförnu, Slagverkskonsert eftir Áskel Másson. Flutningurinn var fumlaus hjá hljómsveit og einleikaranum, Colin Currie. Konsertinn hófst með ástríðuþrunginni tónaflækju en síðan skiptust á skin og skúrir, gleði, íhugun, fyndni og tröllsháttur auk blíðlyndis og einurðar - allt þetta orkaði á hugann eins og fjölbreytt landslag. Fögnuður áheyrenda var enda mikill.

Eftir hlé var flutt tónverkið First Essay eftir Samuel Barber, samið árið 1938 og í beinu framhaldi án klapps Doctor Atomic Symphony eftir John Adams. Nokkuð fannst mér upphaf ritgerðar Samuels ástríðuþrungið en þessi stutta hugleiðing er áhrifamikil og leiðir hugann að ýmsu sem varð á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Verk Johns Adams er í raun svíta úr samnefndri óperu sem fjallar um sálarstríð þeirra sem stóðu að smíði fyrstu kjarnorkusprengjunnar. Dýpt þessa smáskammtaverks er svo mikil að það verður vart flutt við annað er bestu hljómburðaraðstæður. John Adams hefur samið nokkrar athyglisverðar óperur um atburði 20. aldar. Einna þekktust er óperan "Nixon í Kína", en Sinfóníuhljómsveitin hefur flutt stuttan þátt úr henni, "Formaðurinn dansar".

Hjalti Rögnvaldsson hafði eftir Halldóri Blöndal að hann hefði vart heyrt glæsilegra íslenskt verk að undanförnu. Þessi orð Halldórs og hrifning okkar hjónanna og Hjalta ásamt almennu lofi áheyrenda leiða hugann að þeirri staðreynd að fá íslensk tónskáld virðast eiga upp á pallborðið hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Í raun ætti hljómsveitin að flytja eitt verk eigi sjaldnar en á einna tónleika fresti. Nú má telja þau tónskáld á fingrum annarrar handar sem flutt eru eftir tónverk á vegum hljómsveitarinnar á hverjum vetri.

Undirritaður spurði Misti Þorkelsdóttur hvernig henni hefði þótt konsert Áskels Mássonar. Lauk hún miklu lofsorði á verkið og urðum við sammála um að konsertinn væri hinn áskelskasti og langt umfram það.

Öllum aðstandendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þá ekki síst Áskatli Mássyni sem hefur enn einu sinni sannað að hann er á meðal fremstu slagverkstónskálda heims.

Þeim sem hafa hug á að lesa nánar um tónleikana skal bent á síðu Sinfóníuhljómsveitarinnar

http://www.sinfonia.is/tonleikar/nr/2163


Er Morgunblaðið ómerkur fjölmiðill um aðra fjölmiðla?

Morgunblaðið er smátt og smátt að dæma sig úr leik sem marktækur fjölmiðill um aðra fjölmiðla. Hvert tækifæri er notað til þess að níða skóinn af fréttastofu Ríkisútvarpsins. Spyrji menn gagnrýnna spurninga, sem henta illa stjórnarflokkunum, er reiðilesturinn látinn dynja á Ríkisútvarpinnu. Um þetta er leiðari dagsins, Fréttastofustáss, glöggt dæmi. Þar ímyndar leiðarahöfundur sér að fréttastofa Ríkisútvarpsins telji sig hafa tapað síðustu kosningum og ætli ekki að tapa þeim næstu.

Það er vandlifað þegar ekki er hægt að berja á ríkisstjórninni eins og Morgunblaðið gerði undanfarin ár. Þá er borgarstjórnin í Reykjavík eftir, Ríkisútvarpið og einstaklingar í stjórnarandstöðu, einku þeir, sem sátu í síðustu ríkisstjórn. Skrif Morgunblaðsins ganga jafnvel svo langt að grunur leikur á að leiðarahöfundur sé annaðhvort haldinn "alvarlegum ranghugmyndum, geðklofa eða þráhyggju," eins og einn lesenda blaðsins komst að orði við höfund þessa pistils í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband